Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 40/2014

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

                                                           

Þriðjudaginn 16. september 2014 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 40/2014: 

Kæra A

á ákvörðun

Reykjavíkurborgar

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

A, hefur með kæru, dags. 4. júlí 2014, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála meðferð þjónustumiðstöðvar Reykjavíkurborgar vegna úthlutunar á félagslegu leiguhúsnæði.

I. Málavextir og málsmeðferð

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að kærandi sótti um félagslega leiguíbúð og sérstakar húsaleigubætur hjá Reykjavíkurborg með umsókn, dags. 25. maí 2010. Umsókn kæranda var samþykkt og hann skráður á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði. Kærandi hefur verið tilnefndur 11 sinnum í félagslegt leiguhúsnæði frá þeim tíma er umsókn var samþykkt og þann 18. október 2013 var kæranda úthlutað félagslegri leiguíbúð sem hann hafnaði. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála 4. júlí 2014. Með bréfi, dags. 8. júlí 2014, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Reykjavíkurborgar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun og frekari gögnum. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 21. júlí 2014. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 28. júlí 2014, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Málsástæður kæranda

Kærandi greinir frá því að úthlutunarnefnd velferðarráðs hafi veigrað sér við að veita honum húsnæði við hæfi án viðhlítandi skýringa. Hann hafi einungis fengið munnlegar upplýsingar um að aðrir væru í meiri þörf en hann. Kærandi verði brátt húsnæðislaus og því búi hann við algjört öryggisleysi.

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er greint frá því að kærandi hafi verið tilnefndur 11 sinnum í félagslegt leiguhúsnæði og einu sinni verið úthlutað félagslegri leiguíbúð. Kærandi hafi hafnað þeirri íbúð þar sem hún væri of langt frá miðbæ Reykjavíkur. Þar sem biðlistar væru langir og um takmörkuð gæði að ræða væru þeir einstaklingar sem séu metnir í brýnni þörf settir í forgang umfram aðra einstaklinga sem metnir séu í minni þörf. Því hafi aðrir verið metnir í meiri þörf fyrir félagslega leiguíbúð í þau skipti sem kærandi hafi verið tilnefndur. Ákvörðun um úthlutun félagslegs húsnæðis sé stjórnvaldsákvörðun en ákvörðun um tilnefningu einstaklings í félagslegt leiguhúsnæði geti ekki talist til stjórnvaldsákvörðunar. Tilnefning í húsnæði veiti engan efnislegan rétt heldur sé hún liður í framkvæmd á úthlutun félagslegrar íbúðar sem ljúki með formlegri úthlutun. Reykjavíkurborg telur að ekki liggi fyrir stjórnvaldsákvörðun í máli kæranda sem sé kæranleg til úrskurðarnefndarinnar og því beri að vísa málinu frá.

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík frá 1. mars 2004, með síðari breytingum.

Í 1. mgr. 63. gr. laga nr. 40/1991 kemur fram að málsaðili geti skotið ákvörðun félagsmálanefndar til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála og skal kæra til nefndarinnar lögð fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls barst vitneskja um ákvörðun. Til þess að úrskurðarnefndin geti tekið kæru til efnislegrar meðferðar þarf að liggja fyrir stjórnvaldsákvörðun. Um stjórnvaldsákvörðun er einungis að ræða hafi stjórnvald tekið ákvörðun um rétt eða skyldu tiltekins aðila í skjóli stjórnsýsluvalds, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Í 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga segir að ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, verði ekki kærð til æðra stjórnvalds fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Ákvarðanir sem teknar eru um meðferð stjórnsýslumáls og fela ekki í sér endalok málsins, svokallaðar formákvarðanir, verða því ekki kærðar til úrskurðarnefndarinnar.

Ákvörðun um úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis er stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 3. mgr. 15. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að í máli kæranda hafi verið tekin stjórnvaldsákvörðun, að undanskildu þegar kæranda var úthlutað félagslegri leiguíbúð þann 18. október 2013. Sú ákvörðun hefur ekki væri kærð til nefndarinnar. Kæru þessari verður því vísað frá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A er vísað frá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála.

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Arnar Kristinsson

Gunnar Eydal

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta