Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 6/2015

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík


Miðvikudaginn 6. maí 2015 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 6/2015:

 

Kæra A

á ákvörðun

Íbúðalánasjóðs

 

 og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A, hefur með kæru, dags. 26. janúar 2015, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 28. október 2014, um synjun á umsókn kæranda um greiðsluerfiðleikaaðstoð.

 

I. Málavextir og málsmeðferð

Málavextir eru þeir samkvæmt gögnum málsins að kærandi sótti um greiðsluerfiðleikaaðstoð hjá Íbúðalánasjóði og óskaði eftir frystingu láns. Umsókn kæranda var synjað á þeim grundvelli að miðað við forsendur greiðsluerfiðleikamats, sem unnið var hjá Íslandsbanka, var greiðslugeta ekki nægjanleg hvorki meðan úrræðum væri beitt né að úrræðum loknum. Kærandi kærði þá ákvörðun til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála og var úrskurður í málinu kveðinn upp á fundi nefndarinnar þann 3. september 2014 þar sem hin kærða ákvörðun var felld úr gildi á þeirri forsendu að greiðsluerfiðleikamatið hafi ekki verið framkvæmt með réttum hætti.

Með bréfi Íbúðalánasjóðs, dags. 28. október 2014, var umsókn kæranda synjað á ný á þeirri forsendu að greiðslugeta væri ekki nægjanleg að úrræðum loknum. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála 26. janúar 2015. Með bréfi, dags. 27. janúar 2015, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir afstöðu Íbúðalánasjóðs til málsins, upplýsingum um meðferð þess hjá sjóðnum og öllum gögnum. Afstaða Íbúðalánasjóðs barst með bréfi, dags. 3. febrúar 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 9. febrúar 2015, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 23. febrúar 2015, og voru þær sendar Íbúðalánasjóði til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 24. febrúar 2015. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að þau gögn sem Íbúðalánasjóður hafi til grundvallar greiðsluerfiðleikamati sé greiðslumat frá Íslandsbanka sem hafi verið framkvæmt á árinu 2013. Kærandi gerir athugasemdir við að Íbúðalánasjóður hafi ekki óskað eftir nýju greiðsluerfiðleikamati áður en málið hafi verið tekið til skoðunar á ný. Íbúðalánasjóði hafi verið í lófa lagið að óska eftir nýju greiðsluerfiðleikamati og þannig tryggja að málið væri nægjanlega upplýst áður en ákvörðun væri tekin í málinu, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kærandi bendir á að fjárhagsleg staða hans og eiginkonu hans hafi nú batnað vegna launahækkana og lán hafi verið greidd upp. Kærandi telur því að Íbúðalánasjóður hafi ekki getað tekið ákvörðun á grundvelli gamalla fjárhagsupplýsinga og að sjóðnum hafi verið skylt að kalla eftir nýju greiðsluerfiðleikamati. Kærandi krefst þess að framkvæmt verði nýtt greiðsluerfiðleikamat og að Íbúðalánasjóði verði gert að taka beiðni um greiðsluerfiðleikaaðstoð til skoðunar að nýju á grundvelli nýrra upplýsinga.

 

III. Sjónarmið Íbúðalánasjóðs

Í greinargerð Íbúðalánasjóðs vegna málsins er vísað til þess að mál kæranda hafi verið tekið fyrir á ný hjá greiðsluerfiðleikanefnd í kjölfar úrskurðar nefndarinnar í september 2014. Beiðni kæranda hafi verið synjað á ný þar sem greiðslugeta kæranda hefði ekki verið talin nægjanleg að úrræðum loknum en tekið hafi verið tillit til breytinga varðandi lán frá Arion banka, lækkunar á tryggingaiðgjöldum og lækkunar á framfærslu.

Íbúðalánasjóður bendir á að sjóðnum hafi borið að afgreiða mál kæranda með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum enda hefði kærandi þurft að hafa frumkvæði að því að fá nýtt mat. Við gerð þess hefði þurft að afla persónulegra upplýsinga um kæranda sem ekki hefði verið hægt nema með atbeina hans. Annars vegar væri um að ræða gögn sem kærandi veitti bankanum heimild til að afla og hins vegar gögn sem kærandi sjálfur ætti að útvega. Það hafi einnig staðið honum næst að upplýsa um bætta stöðu hans að þessu leyti en hann geti hvenær sem er sótt að nýju um greiðsluerfiðleikaaðstoð telji hann að breytingar hafi orðið á hans högum.


IV. Niðurstaða

Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda. Í málinu er ágreiningur um hvort Íbúðalánasjóði hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um greiðsluerfiðleikaaðstoð.

Samkvæmt 2. mgr. 48. gr. laga um húsnæðismál er stjórn Íbúðalánasjóðs heimilt að fresta greiðslum hjá einstökum lánþegum vegna almennra lána, viðbótarlána og lána sem sjóðurinn hefur yfirtekið í allt að þrjú ár og leggja þær greiðslur við höfuðstól skuldarinnar, þyki slík aðstoð líkleg til að koma í veg fyrir greiðsluvanda. Er þar gert að skilyrði að greiðsluvandi stafi af óvæntum tímabundnum erfiðleikum vegna veikinda, slysa, minni atvinnu eða atvinnuleysis eða af öðrum ófyrirséðum atvikum. Samkvæmt 8. mgr. 48. gr. laganna setur ráðherra nánari reglur um framkvæmd ákvæðisins að fengnum tillögum stjórnar Íbúðalánasjóðs.

Í 4. gr. reglugerðar nr. 584/2001 er að finna skilyrði fyrir greiðsluerfiðleikaaðstoð. Þar segir í 1. tölul. 4. gr. að heimilt sé að veita greiðsluerfiðleikaaðstoð stafi greiðsluerfiðleikar af óvæntum tímabundnum erfiðleikum vegna veikinda, slysa, minni atvinnu, atvinnuleysi eða af öðrum ófyrirséðum atvikum. Þá segir í 4. tölul. 1. mgr. að skilyrði greiðsluerfiðleikaaðstoðar sé að greiðslubyrði umsækjanda eftir skuldbreytingu og/eða frestun á greiðslum og/eða lengingu lánstíma rúmist innan greiðslugetu. Um er að ræða ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir úrræðinu sem sótt er um.

Samkvæmt gögnum málsins tók greiðsluerfiðleikanefnd Íbúðalánasjóðs mál kæranda til skoðunar á ný eftir úrskurð nefndarinnar frá 3. september 2014 og reiknaði greiðslubyrði og greiðslugetu hans. Samkvæmt útreikningi greiðsluerfiðleikanefndarinnar námu mánaðarlegar tekjur kæranda og maka hans 367.951 krónu, mánaðarleg útgjöld 290.788 krónum og mánaðarleg greiðslubyrði næmi 206.751 krónu. Fjárþörf kæranda var því 129.588 krónur umfram raunverulega greiðslugetu. Við lok úrræða var gert ráð fyrir að mánaðarlegar tekjur þeirra yrðu 367.951 króna, mánaðarleg útgjöld 290.788 krónur og mánaðarleg greiðslubyrði kæranda eftir lok úrræða næmi 223.526 krónum. Fjárþörf kæranda væri því 146.363 krónum umfram raunverulega greiðslugetu. Því myndi greiðslubyrði kæranda eftir frestun á greiðslum ekki rúmast innan greiðslugetu.

Að mati úrskurðarnefndarinnar hefur Íbúðalánasjóður fært fullnægjandi rök fyrir útreikningi greiðsluerfiðleikanefndarinnar. Ber því að leggja útreikning greiðsluerfiðleikanefndarinnar til grundvallar við úrlausn máls þessa. Þar sem greiðslubyrði kæranda eftir lok úrræða hefði ekki rúmast innan greiðslugetu hans, sbr. 4. tölul. 4. gr. reglugerðar nr. 584/2001, átti kærandi því ekki rétt á greiðsluerfiðleikaaðstoð en um er að ræða ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir úrræðinu sem sótt er um. Hin kærða ákvörðun verður því staðfest.

Kærandi hefur vísað til þess að fjárhagsstaða hans og maka hafi batnað frá gerð greiðsluerfiðleikamats Íslandsbanka sem lá til grundvallar fyrri ákvörðun sjóðsins. Úrskurðarnefndin bendir á að greiðsluerfiðleikamat Íslandsbanka og mat greiðsluerfiðleikanefndar Íbúðalánasjóðs tekur mið af stöðu kæranda og maka hans á þeim tíma sem matið fór fram. Kærandi getur hins vegar látið framkvæma nýtt greiðsluerfiðleikamat og lagt inn nýja umsókn hjá Íbúðalánasjóði með vísan til breyttra forsendna.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 28. október 2014, um synjun á umsókn A um greiðsluerfiðleikaaðstoð er staðfest.

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Arnar Kristinsson 

Gunnar Eydal

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta