Mál nr. 15/2013
Föstudagurinn 22. mars 2013
A og B
gegn
skipuðum umsjónarmanni C
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Einar Páll Tamimi formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Þórhildur Líndal.
Þann 24. janúar 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, C, sem tilkynnt var með bréfi, dags. 15. janúar 2013, þar sem umsjónarmaður mælir gegn nauðasamningi með vísan til 2. mgr. 18. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.).
I. Málsatvik
Þann 10. júní 2011 var umsjónarmaður fyrst skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum kærenda. Þann 25. apríl 2012 var aftur skipaður umsjónarmaður í málinu og að lokum var C skipuð umsjónarmaður málsins. Þann 12. mars 2012 var frumvarp sent í fyrra sinn til kröfuhafa, sbr. 1. mgr. 17. gr. lge. Þar sem mál skuldara var innkallað af embætti umboðsmanns skuldara frá fyrri umsjónarmanni var frumvarp sent úr að nýju þann 7. desember 2012 í samræmi við 1. mgr. 17. gr. lge.
Andmæli bárust frá embætti tollstjóra þann 10. desember 2012. Lutu andmælin að fjárhæð skulda sem stóðu utan samnings um greiðsluaðlögun sem námu 988.326 krónum. Af framangreindri fjárhæð nam ógreiddur virðisaukaskattur 475.265 krónum, og sem féll til áður en kærendur lögðu inn umsókn til greiðsluaðlögunar, þ.e. þann 5. júní 2010. Kröfu var lýst af sýslumanninum á Selfossi vegna umræddra gjalda að fjárhæð 456.139 krónur.
Umsjónarmaður upplýsti kærendur um framkomin mótmæli og að samningar myndu ekki takast í samræmi við IV. kafla lge. Lýstu kærendur því yfir við umsjónarmann að þau vildu leita nauðasamnings í því skyni.
Umsjónarmaður tilkynnti kærendum með bréfi, dags. 15. janúar 2013, ákvörðun sína að mæla gegn því að nauðasamningur kæmist á.
II. Sjónarmið skipaðs umsjónarmanns
Í ákvörðun skipaðs umsjónarmanns er vísað þess að í 2. mgr. 6. gr. lge. sé kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Við mat á slíku skuli taka tilliti til ýmissa atvika sem rakin séu í stafliðum a–g í ákvæðinu. Fram kemur í d-lið að líta skuli til þess hvort skuldari hafi bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu. Í athugasemdum við ákvæði 6. gr. laganna komi fram að þau atriði sem rakin eru í 2. mgr. 6. gr. lge. séu að hluta til miðuð við þágildandi 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991 (gþl.), enda hafi verið komin nokkur reynsla og dómvenja á beitingu þeirra. Fram kemur að d-liður 2. mgr. 6. gr. laganna sé samhljóða þágildandi 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d gþl. Í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 721/2009, frá 20. janúar 2009, hafi rétturinn komist að þeirri niðurstöðu að vangreiddur virðisaukaskattur hefði numið 8,3% af heildarskuldum skuldara og taldi að þar væri fyrir hendi allhá skuld miðað við heildarskuldir skuldara. Því hafi verið fallist á það með kröfuhafa þeirrar skuldbindingar að synja hefði átt um heimild til að leita greiðsluaðlögunar í öndverðu. Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. X-606/2012 frá 4. desember 2012 hafi skuldir sem féllu undir ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. numið 5,4% af heildarskuldum skuldara. Í úrskurðinum var vísað til dóms Hæstaréttar auk þess sem orðrétt sagði:
„Af forsendum hins tilvitnaða dóms Hæstaréttar er ljóst að leggja ber strangan mælikvarða á hvenær skuldbindingar sem stofnast vegna háttsemi er varðar refsingu eða skaðabótaskyldu nema einhverju miðað við fjárhag skuldara.“
Niðurstaða dómsins hafi verið að framangreint hlutfall færi í bága við d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. og að synja hefði átt skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar í öndverðu með vísan til 1. tölul. 1. mgr. 57. gr. gþl., 1. tölul. 1. mgr. 38. gr. gþl. og 6. gr. lge. Kröfu skuldara um staðfestingu nauðasamnings til greiðsluaðlögunar hafi því verið hafnað.
Heildarskuldir kærenda séu alls 46.505.874 krónur og nema samanlagðar útborgaðar mánaðarlegar tekjur þeirra 514.030 krónum. Þannig nemi skuld vegna virðisaukaskatts, að fjárhæð 475.265 krónur, um 1,02% af heildarskuldum þeirra. Eignir þeirra nemi samtals að fjárhæð 28.074.085 krónum. Þrátt fyrir að eignastaða þeirra sé neikvæð þá sé mánaðarleg greiðslugeta þeirra að teknu tilliti til kostnaðar vegna framfærslu jákvæð um 225.760 krónur.
Með vísan til framangreinds dóms Hæstaréttar og úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur, hafi það verið það mat umsjónarmanns að ekki sé tilefni til þess að mæla gegn því að nauðasamningur komist á með vísan til 2. mgr. 18.gr. lge. að því er framangreinda skuld varði.
Umsjónarmanni bárust gögn frá sýslumanni þann 10. desember 2012 og við nánari skoðun hafi komið í ljós að vangreidd voru opinber gjöld að fjárhæð 543.826 krónur sem stofnað hafi verið til eftir að frestun greiðslna hófst þann 2. desember 2010. Umrædd gjöld séu þing- og sveitarsjóðsgjöld 49.897 krónur, staðgreiðsla vegna reiknaðra launa 274.352 krónur, tryggingagjald 212.249 krónur og virðisaukaskattur 7.328 krónur.
Þá kemur fram í ákvörðun umsjónarmanns að í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun. Fram komi í d-lið 1. mgr. 12. gr. laganna að á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar skuli skuldari ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna nema skuldbinding sem stofnað sé til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Fram komi í athugasemdum við ákvæðið að skuldari skuli ekki grípa til umfangsmikilla ráðstafana og víkja þar með augljóslega frá skyldum sínum með vísvitandi hætti. Slíkt geti leitt til þess að umsjónarmaður fái greiðsluaðlögunarumleitanir felldar niður á grundvelli 15. gr. lge.
Þau ógreiddu þing- og sveitarsjóðsgjöld sem kærandi hafi stofnað til eftir að umsókn um greiðsluaðlögun hafi verið samþykkt séu lögboðin gjöld sem lögð séu á einstaklinga ár hvert á nánar tilteknum gjalddögum. Um sé að ræða gjöld sem falla utan greiðsluaðlögunar og ber að greiða að fullu, sbr. a-lið 1. mgr. 3. gr. og b-lið 1. mgr. 21. gr. lge. Þá sé jafnframt ljóst að einstaklingar sem sækja um greiðsluaðlögun geti engu ráðið um það hversu lengi umsókn þeirra sé til meðferðar hjá embætti umboðsmanns skuldara áður en hún sé samþykkt, en eins og áður hafi komið fram féllu framangreind gjöld til eftir að umsókn skuldara var samþykkt af umboðsmanni skuldara þann 8. júní 2012. Með vísan til framangreinds og þess að um óverulega fjárhæð hafi verið að ræða miðað við heildarskuldir kærenda telur umsjónarmaður ekki að kærendur hafi stofnað til nýrra skulda að því er þing- og sveitarsjóðsgjöld varðar.
Að því er ógreiddan virðisaukaskatt og tryggingagjald varðar, eftir að kærendur hafi fengið samþykki um að leita heimildar til greiðsluaðlögunar og frestun greiðslna hófst þann 8. júní 2012, lúta að mati umsjónarmanns önnur sjónarmið.
Framangreind gjöld séu alls 493.929 krónur, af þeirri fjárhæð nemi ógreidd staðgreiðsla reiknaðra launa 274.352 krónum sem falli utan greiðsluaðlögunar og beri að greiða að fullu, sbr. a-lið 1. mgr. 3. gr. og b-lið 1. mgr. 21. gr. lge. Um framangreind gjöld gildi lög um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987. Fram komi í 2. gr. laganna að staðgreiðsla taki til tekjuskatts manns sem skattskyldur sé samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Kveðið sé á um afleiðingar þess að greiða ekki hin lögbundnu gjöld í 2. mgr. 30. gr. laganna.
Af gögnum málsins megi ráða að þau gjöld sem um ræði í máli kærenda sem hafi fallið til frá 1. febrúar 2012 til og með 1. ágúst 2012 séu byggð á álagningu, þ.e. gögnum frá skuldarum. Um sé því að ræða gjöld sem kærandi Pétur hafi þegar innheimt í rekstri sínum og hafi því borið að greiða til ríkissjóðs, að viðlagðri refsingu. Tryggingagjald falli innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 1. mgr. 3. gr. lge. Um framangreind gjöld gildi lög um tryggingagjald, nr. 113/1990. Í 1. mgr. 1. gr. laganna er kveðið á um skyldu launagreiðanda til þess að greiða umrætt gjald. Um greiðslu gjaldsins í ríkissjóð gildi lög um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987. Kveðið sé á um afleiðingar þess að gjaldið sé ekki greitt í 30. gr. laganna.
Af gögnum málsins megi ráða að vangreidd gjöld vegna tryggingagjalds séu að fjárhæð 212.249 krónur og hafi fallið til frá 1. janúar 2011, 1. janúar 2012 til og með 1. ágúst 2012 og séu byggð á álagningu. Um sé að ræða gjöld sem kæranda hafi borið að greiða, sbr. 1. gr. laga um 113/1990, sbr. einnig lög nr. 45/1987, að viðlagðri refsingu.
Virðisaukaskattur falli utan greiðsluaðlögunar og beri að greiða að fullu. Um framangreind gjöld gildi lög um virðisaukaskatt, nr. 50/1988 (vskl). Fram komi í 1. gr. laganna að greiða skuli í ríkissjóð virðisaukaskatt af viðskiptum innanlands á öllum stigum, svo og af innflutningi vöru og þjónustu, eins og nánar sé ákveðið í lögunum. Í 1. mgr. 24. gr. vskl. komi fram að hvert uppgjörtímabil séu tveir mánuðir og að skráningarskyldir aðilar skuli eftir lok hvers uppgjörstímabils greiða ótilkvaddir virðisaukaskatt þann sem þeim beri að standa skil á samkvæmt lögum. Þá sé í 1. mgr. 40. gr. vskl. kveðið á um afleiðingar þess að skýrslum sé ekki skilað eða virðisaukaskattur ekki greiddur.
Af gögnum málsins megi ráða að vangreiddur virðisaukaskattur sé að fjárhæð 7.328 krónur og hafi fallið til 6. júní 2011 og 5. febrúar 2012. Framangreind gjöld séu bæði byggð á áætlunum þar sem gögnum hafi ekki verið skilað til ríkisskattstjóra, og álagningu, þ.e. gögnum frá kæranda. Um sé að ræða gjöld sem kærandi, A, hafi þegar innheimt í rekstri sínum og beri því að greiða til ríkissjóðs í formi virðisaukaskatts samkvæmt vskl., að viðlagðri refsingu.
Með vísan til framangreinds sé það mat umsjónarmanns að kærandi hafi stofnað til nýrra skulda með vísan til d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. með því að standa ekki skil á framangreindum gjöldum þegar þau féllu í gjalddaga. Þrátt fyrir að um óverulega fjárhæð sé að ræða verði ekki hjá því litið að um sé að ræða gjöld sem kveðið sé á um í lögum að standa skuli skil á.
Með vísan alls framangreinds hafi umsjónarmaður ekki séð annað fært en að mæla gegn því að nauðasamningur kæmist á með vísan til 2. mgr. 18. gr. lge.
III. Sjónarmið kærenda
Í kæru er þess krafist að ákvörðun um að mæla gegn nauðasamningi verði hnekkt. Sýslumaðurinn á Selfossi hafi andmælt frumvarpi til greiðsluaðlögunar og gert athugasemdir við skuldir sem hafi orðið til eftir að kærendur fóru í greiðsluskjól. Einnig hafi komið fram að sýslumaðurinn á Selfossi teldi að ekki mætti semja um virðisaukaskattsskuld sem varð til fyrir greiðsluskjól að fjárhæð 475.000 krónur eins og lagt hafi verið til í frumvarpinu.
Í samtali kærenda við lögfræðing tollstjórans í Reykjavík hafi komið fram að embættið myndi ekki setja sig upp á móti greiðslusamningi sem væri uppgerður á greiðsluaðlögunartímanum, en hann hafi tekið fram að hvert embætti gæti haft sínar eigin reglur hvað þetta varði. Þetta telja kærendur að sé brot á jafnræðisreglu þar sem reglur ætti að vera sameiginlegar hjá sýslumannsembættum um land allt.
Kærendur benda á að þau hafi þegar greitt þann virðisaukaskatt sem orðið hafi til eftir að greiðsluskjól komst á. Einnig hafi kærendur greitt þá staðgreiðslu sem var til eftir greiðsluskjólið og embættið hafi réttilega gert athugasemdir við, að fjárhæð 278.122 krónur. Þá standi eftir skuld við sýslumanninn á Selfossi á tryggingagjaldi, að fjárhæð 212.249 krónur, og þing- og sveitarsjóðsgjöld, að fjárhæð 49.897 krónur. Eftirstöðvar af skuld við sýslumannsembættið séu því 262.146 krónur, sem sé ekki hátt hlutfall af heildarskuldum kærenda með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 721/2009 frá 20. janúar 2009 og úrskurðar héraðsdóms Reykjavíkur frá 4. desember 2012, í máli nr. X-606/2012, og ekki sé því tilefni til að mæla gegn því að nauðasamningur komist á með vísan til 2. mgr. 18. gr. lge. að því er framangreinda skuld varði.
Þá benda kærendur á að mál þeirra hafi tekið óheyrilega langan tíma í meðförum umboðsmanns skuldara og þau fengið tilnefnda þrjá umsjónarmenn á tveimur árum með tilheyrandi fyrirhöfn og áhyggjum af þeirra hálfu. Fram komi í greinargerð núverandi umsjónarmanns að þann 12. mars 2012 hafi frumvarp að fyrra sinni verið sent til kröfuhafa af skipuðum þáverandi umsjónarmanni. Það frumvarp hafi síðan verið innkallað af embætti umboðsmanns skuldara. Um þetta hafi kærendur ekki haft neina vitneskju og hafi það frumvarp ekki verið borið undir kærendur til samþykktar áður en það var sent. Kærendur hafi fengið þá skýringu að málið hafi verið tekið af umræddum umsjónarmanni vegna óhóflegs dráttar sem á málinu var og hafi kærendum þá verið skipaður nýr umsjónarmaður. Nýtt frumvarp hafi síðan verið sent út þann 7. desember 2012 í samræmi við 1. mgr. 17. gr. lge.
Í kærunni kemur fram að athugasemdir hafi borist frá sýslumanninum á Selfossi. Benda kærendur á að skv. 17. gr. lge. skuli umsjónarmaður leitast við að fá lánardrottna til að endurskoða afstöðu sína, eftir atvikum með því að gera í samráði við skuldara breytingar á frumvarpinu sem skuli þá sent öðrum lánardrottnum á nýjan leik. Þetta hafi kærendum ekki verið boðið upp á og ekki hafi verið gert ráð fyrir fyrirspurnir af þeirra hálfu. Kærendur hafi boðist til að greiða stóran hluta skuldarinnar til sýslumannsins á Selfossi, sem nú þegar hafi verið gert, en svörin hjá umsjónarmanni hafi verið „að það væri of seint og ekki hægt á þessu stigi málsins“. Þá benda kærendur á að í 17. gr. lge. sé einnig kveðið á um að „stjórnvöld, innheimtumaður eða fyrirsvarsmaður stofnunar eða félags í opinberri eigu geti samþykkt frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun án tillits til ákvæða í öðrum lögum, reglugerðum eða samþykktum hvað varðar aðrar kröfur en sektir“. Á þetta hafi ekki reynt.
Kærendur benda á að í 18. gr. lge. komi fram að umsjónarmaður skuli innan tveggja vikna taka rökstudda afstöðu til þess hvort hann mæli með því að nauðasamningar komist á, en áður skal hann gefa skuldaranum kost á að endurskoða frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun í ljósi athugasemda sem lánardrottnar gerðu við það. Þetta hafi ekki verið gert þrátt fyrir fyrirspurnir af hálfu kærenda og svarið það sama og áður: „Það er of seint að greiða þetta á þessu stigi málsins.“ Umsjónarmaður hafi síðan komist að þeirri niðurstöðu að hann sjái ekki annað fært en að mæla gegn því að nauðasamningur komist á, einmitt vegna skuldarinnar við sýslumanninn á Selfossi. Telja kærendur að þeim hafi verið meinað að gera þær umbætur á frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun sem nauðsynlegar voru til að standast þær kröfur sem lögin um greiðsluaðlögun og nauðasamninga kveði á um.
Í öðrum athugasemdum kærenda kemur fram að með því að neita þeim um samninga við kröfuhafa sé fjármálum þeirra ekki borgið og fótum algjörlega kippt undan þeirri starfsemi sem annar kærandi hafi með höndum. Þá hafi fjölskyldan gengið í gegnum mikla erfiðleika undanfarið vegna veikinda náinna fjölskyldumeðlima. Eina von kærenda til lausnar á fjárhag þeirra sé nú í gegnum úrræði frumvarps til nauðasamninga.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns byggist á 18. gr. lge., sbr. d-lið 1. mgr. 12. gr. og 2. mgr. 6. gr. lge. Í 1. mgr. 18. gr. er kveðið á um að hafi samningur um greiðsluaðlögun samkvæmt ákvæðum IV. kafla lge. ekki tekist þá geti skuldari lýst yfir við umsjónarmann að hann vilji leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Við mat umsjónarmanns á því hvort mælt sé með að nauðasamningur komist á skal umsjónarmaður meðal annars líta til þess hvort nokkuð hafi komið fram í öndverðu sem hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar, hvort skuldari leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa, hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum skv. 12. gr. lge. og staðið að öðru leyti heiðarlega að verki við umleitanir til greiðsluaðlögunar, hvort raunhæft sé að hann muni geta staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun og hvert sé viðhorf þeirra lánardrottna sem látið hafa umleitanir til greiðsluaðlögunar til sín taka. Í athugasemdum við ákvæðið segir meðal annars að umsjónarmaður skuli horfa til þess hver rökstuðningur lánardrottna var fyrir því að leggjast gegn frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun en ljóst sé að hann getur ekki einvörðungu staðið í vegi fyrir því að umsjónarmaður mæli gegn nauðasamningi eða greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna og þurfi ríkar ástæður að vera fyrir afstöðu lánardrottna.
Í frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun kemur fram að greiðslugeta kærenda sé jákvæð sem nemur 225.760 krónum á mánuði. Umsjónarmaður leggur til í frumvarpinu 85% niðurfellingu samningskrafna og veðkrafna utan matsverðs fasteignar. Kröfur utan greiðsluaðlögunar eru að fjárhæð 3.696.468 krónur. Þar af eru kröfur embættis tollstjóra samtals að fjárhæð 456.139 krónur.
Umrætt frumvarp var sent kröfuhöfum þann 13. nóvember 2012 og lagðist sýslumannsembættið á Selfossi gegn frumvarpinu þar sem fjárhæð skulda kærenda sem stóðu utan samnings námu 988.326 krónum.
Ákvörðun umsjónarmanns um að mæla gegn því að nauðasamningur kæmist á byggist á því að kærendur hafi stofnað til nýrra skulda, þ.e. þing- og sveitarsjóðsgjalds 49.897 krónur, staðgreiðslu vegna reiknaðra launa 274.352 krónur, tryggingagjalds 212.249 krónur og virðisaukaskatts 7.328 krónur, samtals að fjárhæð 543.826 krónur. Samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. er það skylda skuldara að stofna ekki til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna nema skuldbinding sem stofnað var til hafi verið nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Umsjónarmaður taldi hins vegar að ógreidd þing- og sveitarsjóðsgjöld að fjárhæð 49.897 krónur sem lögð voru á kærendur í greiðsluskjóli teldust ekki vera nýjar skuldir með vísan til þess að um óverulega fjárhæð væri að ræða miðað við heildarskuldir og umrædd gjöld væru lögboðin gjöld sem lögð væru á einstaklinga ár hvert.
Að mati kærunefndar greiðsluaðlögunarmála verður að skoða hvort skattar sem lagðir eru á skuldara í greiðsluskjóli teljast til nýrra skulda í skilningi d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.
Tryggingagjald er gjald sem launagreiðendur, þ.m.t. sjálfstætt starfandi, greiða vegna launakostnaðar við atvinnurekstur. Þing- og sveitarsjóðsgjöld eru ýmist lögboðin sem launagreiðendur innheimta með launaafdrætti en aðrir greiða á tilteknum gjalddögum. Þá ber þeim sem starfa við eigin atvinnurekstur að reikna sér endurgjald fyrir þá vinnu, þ.e. reiknað endurgjald. Ólíkt framangreindum gjöldum er virðisaukaskattur fjárhæð sem sá sem stendur í atvinnurekstri hefur þegar fengið greitt og ber að greiða til ríkissjóðs með tilteknum hætti. Með því að ráðstafa virðisaukaskatti sem þegar er í hendi með öðrum hætti en framan greinir er skuldari að mati kærunefndarinnar að stofna til nýrrar skuldar í skilningi d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Er það mat kærunefndar greiðsluaðlögunarmála að aðrir skattar en virðisaukaskattur sem lagðir hafa verið á kærendur séu ekki nýjar skuldir í skilningi d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. og ber því að líta svo á að nýjar skuldir á tímabili greiðsluaðlögunar sem falla undir ákvæðið séu að fjárhæð 7.328 krónur.
Samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. er það skylda skuldara við greiðsluaðlögun að stofna ekki til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna nema skuldbinding sem stofnað er til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Í nefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar kemur fram að framangreind undanþága sé sett til að tryggt sé að námsmönnum sé heimilt að sækja um fyrirgreiðslu til banka vegna framfærslu. Ákvæðið sé ekki einskorðað við námsmenn en því sé þó ætlað að hafa þröngt gildissvið. Undir það falli til að mynda skuldbindingar vegna húsnæðis og öflunar aðfanga sem séu nauðsynleg heilsu og velferð fjölskyldunnar.
Samkvæmt framangreindu er skuldara heimilt að stofna til nýrra skulda eða gera ráðstafanir sem skaðað geta hagsmuni kröfuhafa hafi honum verið nauðsynlegt að stofna til þeirra til þess að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að umsjónarmaður hafi krafið kærendur upplýsinga og kannað hvort kærendur hafi stofnað til téðra skulda í því skyni sem d-liður 1. mgr. 12. gr. lge. heimilar. Þó þykir ljóst að mati kærunefndarinnar að umræddar skuldir séu vegna atvinnustarfsemi í eigin nafni enda starfar kærandi A við eigin atvinnurekstur. Að mati kærunefndarinnar þykir því ljóst að stofnað var til skuldanna í því skyni að sjá kærendum farborða.
Með vísan til framangreinds telur kærunefndin að kærendum hafi verið heimilt að stofna til umræddra skulda á með þau leituðu greiðsluaðlögunar.
Umsjónarmaður fjallaði nokkuð um 2. mgr. 6. lge. í ákvörðun sinni án þess að þýðing þeirrar umfjöllunar fyrir niðurstöðu umsjónarmanns sé að öllu leyti ljós. Kærunefnd greiðsluaðlögunarmála hafnar því að umsjónarmaður geti almennt byggt ákvörðun um að mæla gegn því að nauðasamningur komist á, á því að óhæfilegt hafi verið að veita greiðsluaðlögun í skilningi 2. mgr. 6. gr. lge. Umboðsmanni skuldara er heimilað en ekki gert skylt að synja skuldara um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli heildstæðs mats, með sérstöku tilliti til atriða sem tilgreind eru í stafliðum a–g. Niðurstaða þess mats umboðsmanns getur ekki sætt endurskoðun umsjónarmanns sem er ekki æðra stjórnvald. Orðalag 1. mgr. 18. gr. um að umsjónarmaður skuli líta til þess hvort nokkuð hafi komið fram sem í öndverðu hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar vísar til þess að nýjar upplýsingar liggi fyrir sem ekki voru ljósar þegar umboðsmaður skuldara tók ákvörðun sína.
Þá liggur fyrir í málinu að kærendur hafa þegar greitt hluta þeirra skulda sem um ræðir í málinu, þ.e. virðisaukaskatt 7.346 krónur og staðgreiðslu vegna reiknaðra launa 278.122 krónur.
Í ljósi framangreinds er ákvörðun umsjónarmanns felld úr gildi.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, C, um að mæla gegn nauðasamningi A og B er felld úr gildi.
Einar Páll Tamimi
Arndís Anna K. Gunnarsdóttir
Þórhildur Líndal