Mál nr. 79/2012
Föstudagurinn 22. mars 2013
A
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Einar Páll Tamimi formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Þórhildur Líndal.
Þann 16. apríl 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 2. apríl 2012, þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.
Með bréfi, dags. 24. apríl 2012, óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 6. júní 2012.
Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi, dags. 13. júní 2012 og var kærendum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust frá kærendum.
I. Málsatvik
Kærandi er 47 ára. Hann er einstæður og er með lögheimili að B götu nr. 17 sveitarfélaginu C. Kærandi rak um árabil umfangsmikla verktakastarfsemi en aðstæður á fjármálamarkaði og aðför lánardrottna hafa að hans sögn, takmarkað tekjumöguleika hans. Hann hafi síðan notið aðstoðar vina og vandamanna en hefur fengið vinnu hjá X ehf. frá og með 1. mars 2012 og verða heildarlaun hans 372.000 krónur samkvæmt gögnum málsins.
Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 428.343.651 krónur og falla 2.257.007 krónur utan samnings sbr. 3. gr. laganna. Kærandi er einnig í ábyrgðum fyrir 770.851.247 krónum en af þeirri fjárhæð eru 410.560.859 krónur fallnar í vanskil. Til helstu skuldbindinganna var stofnað á árinu 2005-2008. Eignir kæranda samkvæmt umsókn eru 127.803.192 krónur.
Kærandi lagði inn umsókn sína um greiðsluaðlögun þann 30. júní 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 3. ágúst 2012, var umsókn kæranda hafnað með vísan til þess að fyrirliggjandi gögn gæfu ekki nægilega glögga mynd af fjárhag kæranda, sbr. b. lið 1. mgr. 6. gr. lge.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru kemur fram að kærð sé synjun umboðsmanns skuldara á grundvelli ónægra upplýsinga. Umbeðnar skýringar bárust með tölvupósti þann 2. apríl 2012 og því liggi nú fyrir nægjanleg gögn og skýringar.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Í ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 30. mars 2012, kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar ber umboðsmanns skuldara einkum að kanna hvort fyrir liggja þær ástæður sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. laganna.
Í b-lið 1. mgr. 6. gr. segir að umboðsmanni skuldara sé skylt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.
Í 1. mgr. 4. gr. lge. séu ítarleg ákvæði um hvað skuli koma fram í umsókn um greiðsluaðlögun og 3. mgr. sé gerður áskilnaður um að umsókn skuli fylgja síðustu fjögur skattframtöl skuldara. Í málinu liggi fyrir að kærandi hefur ekki skilað inn skattframtölum sínum til skattstjóra á framtalsfresti og sé sú álagning sem fram kemur á álagningarseðlum framtalsáranna 2007-2011, byggð á áætlun. Skattframtali ársins 2007 hafi verið skilað inn 10. október 2011, framtali ársins 2008 skilað inn 4. júlí 2011, framtali 2008 skilað inn 30. júní 2011, framtali 2010 skil inn 1. júlí 2011 og framtali 2011 skilað inn 30. júní 2011. Samkvæmt upplýsingum fram ríkisskattstjóra séu skattframtölin enn óunnin og því byggi sú álagning sem fram komi í gögnum málsins á áætlun.
Með hliðsjón af þeim réttaráhrifum sem hófust við móttöku umsóknar um greiðsluaðlögun, um tímabundna frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. lge., sbr. 1. mgr. II. bráðabirgðaákvæðis laganna og með hliðsjón af þeim tímafrestum sem ríkisskattstjóri gefur sér við úrvinnslu skattframtalanna, var kæranda sent bréf þann 8. mars 2012, þar sem óskað hafi verið eftir upplýsingum sem varpað gætu frekara ljósi á fjárhag kæranda, þar sem skattframtöl kæranda þóttu um margt ófullnægjandi. Óskað hafi verið skýringa og kæranda þannig gefin kostur á að skýra þau atriði sem voru óljós og styðja með gögnum.
Þær upplýsingar sem óskað hafi verið eftir bárust ekki og taldi umboðsmaður skuldara ekki annað fært en að taka málið til formlegrar ákvörðunar. Þau gögn sem óskað hafi verið eftir hafi verið nauðsynleg til að unnt væri að leggja mat á hvort kærandi uppfylli skilyrði laganna til að fá heimild til að leita greiðsluaðlögunar, sbr. meðal annars 4. gr. Fyrirliggjandi gögn gáfu því ekki nægilega glögga mynd af fjárhag kæranda og/eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Af þeim sökum bar umboðsmanni skuldara að synja umsókn um greiðsluaðlögun á grundvelli b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.
Í greinargerð umboðsmanns skuldara, dags. 6. júní 2012, kemur fram að rétt sé að árétta að með bréfi embættisins, dags. 8. mars 2012, hafi verið óskað eftir upplýsingum frá kæranda sem hafi verið nauðsynlegar til að leggja mat á það hvort kærandi uppfyllti skilyrði laganna til að fá heimild til að leita greiðsluaðlögunar og ennfremur við mat á því hvort tilefni hafi verið til að synja umsókn á grundvelli 2. mgr. 6. gr. lge. Kæranda hafi verið veittur fimmtán daga frestur til að koma umræddum gögnum til skila. Þann 21. mars 2012 óskaði kærandi eftir viðbótarfresti til að koma gögnunum til skila. Kæranda hafi verið veittur viðbótarfrestur til kl 15:00 þann 30. mars 2012 en jafnframt hafi verið tekið fram að ekki yrðu veittir frekari frestir eftir það tímamark. Engin gögn bárust umboðsmanni skuldara fyrir tilgreindan lokafrest og var kæranda því synjað um greiðsluaðlögun á grundvelli b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Á kæranda hvíldi við meðferð málsins skylda til að afla nauðsynlegra gagna, sérstaklega þeirra sem ekki er á færa annarra en hans sjálfa að afla. Telur umboðsmaður skuldara að gera hafi mátt þá kröfu til kæranda að hann brygðist við fyrirspurnum frá starfsmönnum embættisins eins fljótt og unnt hafi verið í ljósi þess að hann naut sérstakrar verndar gegn ráðstöfunum kröfuhafa á meðan umsókn hans um heimild til greiðsluaðlögunar var til meðferðar.
Umboðsmanni skuldara barst tölvupóstur kæranda þann 2. apríl 2012 þar sem finna má fullyrðingar um nokkur af þeim atriðum sem bréf embættisins frá 8. mars 2012 varðaði. Engin gögn fylgdu bréfinu. Þá hafi verið óskað aukins frestar til að svara fyrir önnur atriði. Sömu upplýsingar og komu fram í tölvupóstinum fylgdu síðan kæru en þar er einnig óskað eftir viðbótarfresti til framlagningu gagna. Umboðsmaður skuldara leggur áherslu á að umræddar upplýsingar eru of seint fram komnar. Þá þykir rétt að taka fram að þær veita ekki fullnægjandi svör við fyrirspurn umboðsmanns skuldara.
Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggir á því að kærandi hafi ekki lagt fram fullnægjandi upplýsingar um fjárhag sinn og væntanlega þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Kærandi telur hins vegar að nægjanleg gögn og skýringar liggi fyrir og vísar um það til tölvupósts sem sendur var umboðsmanni skuldara 2. apríl 2012.
Fyrir liggur að kæranda var veittur viðbótarfrestur til að skila inn frekari gögnum og upplýsingum til kl. 15 föstudaginn 30. mars 2012. Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er dagsett þann sama dag. Jafnframt liggur fyrir að kærandi skilaði ekki inn athugasemdum fyrir lok þess frests.
Hins vegar liggur ekkert fyrir um það hvenær dags ákvörðun umboðsmanns skuldara var tekin og þ.a.l. ekki hvort ákvörðunin var tekin áður en viðbótarfresturinn rann út eða eftir það tímamark. Kærunefndin telur að í þessu felist alvarlegur ágalli á málsmeðferð umboðsmanns skuldara, þar sem óljóst er hvort kærandi naut þess andmælaréttar sem honum er ætlaður að lögum og hvort umboðsmaður gætti að fullu rannsóknarskyldu sinnar. Þrátt fyrir þennan ágalla hefur hann ekki getað ráðið úrslitum um efni hinnar kærðu ákvörðunar, í ljósi þess að engar skýringar eða gögn bárust frá kæranda fyrir lok veitts viðbótarfrests.
Kærandi hefur nýtt sér rétt sinn til að leggja frekari upplýsingar og gögn fyrir kærunefndina, með því að senda henni afrit af þeim athugasemdum sem bárust umboðsmanni skuldara með tölvupósti 2. apríl 2012, eftir að hann hafði tekið hina kærðu ákvörðun.
Samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. skal umsókn um greiðsluaðlögun hafnað ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Er hér um að ræða skyldu til að synja um heimild til greiðsluaðlögunar undir þessum kringumstæðum enda mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um allt sem lýtur að fjárhagslegum málefnum hans. Framangreint ákvæði á við um þá aðstöðu að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða skýringa sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Skuldari skal m.ö.o. taka virkan þátt og sýna viðeigandi viðleitni við að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.
Í þeim skýringum sem kærandi sendi umboðsmanni skuldara 2. apríl 2012 og hefur lagt fyrir kærunefndina við meðferð málsins er að hluta til að finna almennar skýringar á afdrifum einstakra eigna og krafna. Þessar skýringar eru hins vegar ekki studdar neinum gögnum. Þá vantar töluvert upp á skýringar kæranda, til dæmis hvað varðar fjármögnun einstakra viðskipta, eðli þeirra og tilgang.
Við skoðun kærunefndar á skýringum kæranda er ljóst að upplýsingar sem þar er að finna gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag kæranda.
Með vísan til alls framangreinds og á grundvelli b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. staðfestir kærunefnd greiðsluaðlögunarmála ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja umsókn kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.
Einar Páll Tamimi
Arndís Anna K. Gunnarsdóttir
Þórhildur Líndal