Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 51/2012

Fimmtudaginn 27. febrúar 2014

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 27. febrúar 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 14. febrúar 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað. Engin greinargerð fylgdi kæru en boðað var að frekari rökstuðningur og málsástæður myndu berast nefndinni innan fárra daga. Greinargerð kærenda barst 3. maí 2012.

Með bréfi 9. maí 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 21. maí 2012.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 24. maí 2012 og var þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 23. október 2012. Athugasemdir bárust frá kærendum með tölvupósti 2. nóvember 2012.

Með bréfi 8. nóvember 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir afstöðu umboðsmanns skuldara til athugasemda kærenda. Athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru hjón, fædd 1968 og 1969. Þau búa ásamt tveimur börnum sínum í 197,7 fermetra eigin fasteign við C götu nr 15 í sveitarfélaginu D. Kærandi A starfar sem sjúkraliði við heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu og á hjúkrunarheimili. Kærandi B starfar sem sölufulltrúi fasteigna. Hann er nýlega byrjaður að vinna eftir að hafa verið atvinnulaus um langa hríð. Samanlagðar ráðstöfunartekjur kærenda eru 476.053 krónur á mánuði.

Kærendur rekja fjárhagserfiðleika sína til hruns á fasteignamarkaði. Kærendur hafi átt nokkrar eignir og hafi kærandi B stundað umtalsverð fasteignaviðskipti sem hafi gengið vel. Í kjölfar efnahagshrunsins hafi fasteignasala nánast stöðvast. Kærandi B hafi tapað öllu og sitji nú eftir með verulegar skuldir, aðallega vegna ábyrgða. Ríkisskattstjóri hafi síðan kveðið upp úrskurð þar sem skattar kærenda voru hækkaðir með endurákvörðun, en kærendur telja úrskurðinn rangan. Í apríl 2012 óskuðu þau eftir endurupptöku málsins en niðurstaða hefur ekki borist.

Samkvæmt gögnum málsins eru skuldir kærenda alls 206.978.919 krónur. Einnig hefur kærandi B gengist í sjálfskuldarábyrgðir fyrir tæpum 122.000.000 króna en ábyrgðirnar eru að mestu leyti vegna félaga sem tengdust honum. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2005 til 2009. Þá hefur ríkisskattstjóri kveðið upp úrskurð um endurákvörðun opinberra gjalda kærenda vegna gjaldaáranna 2005 til og með 2009.

Umsókn kærenda um greiðsluaðlögun barst umboðsmanni skuldara 15. nóvember 2010. Umsókn þeirra var synjað með ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 14. febrúar 2012 með vísan til c-, f- og g-liða 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

 

II. Sjónarmið kærenda

Þess er krafist að fallist verði á umsókn kærenda um greiðsluaðlögun. Til vara er þess krafist að fallist verði á umsókn kæranda A um greiðsluaðlögun. Einnig er þess krafist að kærendur fái greiddan málskostnað samkvæmt mati kærunefndarinnar.

Kærendur mótmæla því mati umboðsmanns skuldara að annað þeirra hafi farið offari í skuldsetningu. Telji þau að það álit umboðsmanns byggist á huglægri afstöðu embættisins til þess hvað sé að fara offari í skuldsetningu. Einnig mótmæla kærendur því að það hafi verið ámælisvert af þeirra hálfu að greiða ekki tekjuskatt af launum sínum líkt og skylda sé samkvæmt lögum um tekjuskatt nr. 90/2003, en þar byggi umboðsmaður á hugsanlegum skattalagabrotum kærenda.

Lög nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga hafi verið sett til að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð. Leggi kærendur áherslu á að þau eigi við verulega greiðsluerfiðleika að etja.

Líta verði til þeirra ástæðna sem liggi að baki skuldsetningu kæranda B. Hann hafi verið nokkuð umsvifamikill í fasteignasölu á árunum fyrir efnahagshrunið 2008. Um tíma hafi þau fyrirtæki, sem hann hafi átt þátt í að reka, haft um þrjátíu starfsmenn í vinnu. Til að umboðsmaður skuldara hefði íhugað að veita honum greiðsluaðlögun, hefði kærandi B þurft að hætta rekstri og segja upp öllum starfsmönnunum þrjátíu um leið og farið hafi að halla undan fæti. En á þessum tíma hafi hvorki umboðsmaður skuldara né lög um greiðsluaðlögun einstaklinga verið til.

Eftir á sé auðvelt að sjá að ekki yrði hægt að stunda fasteignaviðskipti eins og áttu sér stað fyrir hrunið út í hið óendanlega. Á þeim tíma sem kærandi B hafi staðið frammi fyrir ákvörðun um hvað gera skyldi hafi það verið hans mat, svo og þeirra fjármálastofnana sem hann og fyrirtæki hans hafi verið í viðskiptum við, að best væri að berjast til þrautar en það hafi kærandi B einmitt gert. Huglægt mat umboðsmanns skuldara snúist fyrst og fremst um að annar kærenda hafi tekið ranga ákvörðun. Umboðsmaður hljóti því að hafa talið augljóst að efnahagslíf á Íslandi myndi ekki jafna sig fyrr en eftir fjölmörg ár. Þessu hafi enginn annar opinber aðili haldið fram.

Í meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga felist að þegar stjórnvald taki matskennda ákvörðun sé í fyrsta lagi gerð krafa um að efni ákvörðunar sé til þess fallið að ná því markmiði sem stefnt sé að en í þessu tilviki sé markmiðið að laga greiðslubyrði kæranda B að greiðslugetu hans. Í öðru lagi skuli velja vægasta úrræðið sem völ sé á og í þriðja lagi sé gerð krafa um hóf í beitingu þess úrræðis sem fyrir valinu verði.

Vandséð sé hvernig embætti umboðsmanns skuldara teljist hafa gætt hófs við beitingu lge. í máli þessu enda byggi ákvörðun embættisins algerlega á huglægu mati sem fram fari nokkrum árum eftir á og í ljósi nýrra upplýsinga um stöðu málsins. Kærandi B hefði eflaust ekki tekið sömu ákvarðanir hefði hann vitað það sem nú liggi fyrir í málinu. Hann hafi þó ekki vitað betur en aðrir í hvað stefndi.

Því sé fjarri að þær skuldbindingar sem kærendur hafi tekist á hendur á árunum 2008 og 2009 hafi allar verið nýjar skuldbindingar eins og umboðsmaður láti í veðri vaka í ákvörðun sinni. Í nokkrum tilvikum hafi kærendur verið að skuldbreyta lánum.

Til þess sé einnig að líta að fjöldinn allur af stórum fyrirtækjum hafi fengið verulegar afskriftir hjá fjármálafyrirtækjum án þess að nokkur einstaklingur sem komið hafi að rekstri þeirra hafi verið gerður gjaldþrota eins og umboðsmaður skuldara sé raunverulega að fara fram á gagnvart kæranda B. Kærandi B telji að það þarfnist mun betri rökstuðnings en umboðsmaður hafi fært fram að velja hann einan úr þeim hópi og halda því fram að hann hafi tekið óábyrgar og ámælisverðar fjármálalegar ákvarðanir.

Kærandi B kveður það rétt að fyrirtæki sín hafi orðið gjaldþrota og látið hjá líða að skila skattframtölum og ársreikningum undir lokin. En það sé einmitt ástæða þess að kærandi B sé í núverandi vanda. Það sé nánast regla en ekki undantekning að þau félög sem verði gjaldþrota hafi ekki staðið skil á nýjustu skattframtölum og ársreikningum. Kærandi B fullyrði að ekki sé um að ræða neinar ógreiddar opinberar skuldir sem hann beri ábyrgð á.

Umboðsmaður skuldara hafi horft á kærendur sem einn einstakling með því að synja þeim báðum um heimild til greiðsluaðlögunar. Sú framganga kæranda B sem umboðsmaður meti ámælisverða sé yfirfærð á kæranda A. Hún sé í reynd dæmd fyrir aðgerðir hans. Með þessu móti sé kærandi A svipt vernd jafnræðisreglna 65. gr. stjórnarskrárinnar og stjórnsýslulaga.

Umboðsmaður skuldara fullyrði að kærandi B hafi ekki greitt tekjuskatt líkt og skylt sé samkvæmt lögum um tekjuskatt nr. 90/2003 og vísi í því efni til úrskurðar ríkisskattstjóra. Úrskurðurinn hafi fallið á þeim tíma er fjárhagur kæranda B hafi hrunið og hafi hann því ekki getað keypt sér aðstoð sérfræðinga. Hann hafi bugast vegna ástandsins og álags. Úrskurðurinn sé rangur og nú hafi endurupptöku verið óskað.

Loks sé það mat kærenda að umboðsmaður skuldara hafi lagt sig fram um að véfengja allt sem kærendur hafi sagt og hafi með afturvirkum reiknikúnstum úr þægilegu skrifstofusæti reynt að sýna fram á að kærendur hafi skuldsett sig of mikið eða eytt of miklu fyrir nokkrum árum. Umboðsmaður virðist aldrei hafa velt því fyrir sér að eignastaða kærenda hafi verið með ágætum á tímabili en verðmæti eignanna hafi þurrkast út við hrunið.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Við mat á umsókn um greiðsluaðlögun beri að líta til þeirra aðstæðna sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram heimild til að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana. Við matið skuli taka sérstakt tillit til þeirra aðstæðna sem lýst sé í stafliðum ákvæðisins. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lge. sé tekið fram að þær ástæður sem taldar séu upp í 2. mgr. 6. gr. lge. eigi það sameiginlegt að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verði að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann beri sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni.

Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Á árunum 2006 til 2009 hafi kærendur stofnað til umtalsverðra skuldbindinga en á þeim tíma hafi launatekjur þeirra og starfstengdar greiðslur verið lágar.

Þau hafi stofnað til eftirfarandi skulda á árinu 2007:

1.      Bílalán til kaupa á tveimur bílum. Hafi kaupverð bílanna verið alls 9.500.000 krónur. Samkvæmt skattframtali ársins 2007 hafi eftirstöðvar lánanna verið 9.500.000 krónur í árslok 2007.

2.      Yfirdráttarskuld að fjárhæð 3.775.610 krónur.

Á árinu 2008 hafi kærendur stofnað til þessara skulda:

1.      Veðskuld að fjárhæð 8.000.000 króna.

2.      Yfirdráttarskuld að fjárhæð 803.159 krónur.

3.      Greiðslukortaskuldir að fjárhæð 414.174 krónur.

4.      Kærendur keyptu fasteign að E götu nr. 10 og sé skráð kaupverð samkvæmt skattframtali 24.000.000 króna. Hafi eftirstöðvar áhvílandi skulda í árslok 2008 numið 20.239.622 krónum.

Á árinu 2009 hafi kærendur stofnað til þessara skulda:

1.      Yfirdráttarskuld að fjárhæð 1.303.861 króna.

2.      Greiðslukortaskuld að fjárhæð 146.052 krónur.

Til viðbótar hafi kærandi B gengist í sjálfskuldarábyrgðir fyrir einn einstakling og fjögur félög sem hafi verið honum tengd. Heildarfjárhæð þeirra sjálfskuldarábyrgða sem hann hafi tekist á hendur á þessu tímabili hafi verið 90.564.271 króna. Af gögnum málsins megi ráða að hluti ábyrgðarskuldbindinganna hafi verið felldur niður en þekkt staða virkra ábyrgðarskuldbindinga sé 75.462.595 krónur.

Gögn málsins beri með sér að ríkisskattstjóri hafi kveðið upp úrskurð 12. maí 2010 um endurákvörðun opinberra gjalda kærenda fyrir árin 2005 til og með 2009. Eftir endurákvörðunina nemi gjaldfallin skattskuld kærenda alls 62.957.355 krónum.

Samkvæmt skattframtölum hafi uppgefnar mánaðarlegar meðaltekjur kærenda fyrir endurákvörðun ríkisskattstjóra verið eftirfarandi:

  2006 2007 2008 2009
Meðaltekjur á mánuði kr. 0 1.410.263 24.770 190.223

Af mánaðarlegum meðaltekjum ársins 2007 voru alls 1.407.926 krónur vegna hagnaðar af sölu hlutabréfa.

Framfærslukostnaður hjóna með tvö börn hafi verið 151.997 krónur í lok árs 2007 og 179.558 krónur í lok árs 2008. Þessi kostnaður sé eingöngu vegna kaupa á mat, fötum, tómstundum, læknisþjónustu og rekstri bifreiðar.

Með tölvupósti 9. ágúst 2011 voru kærendur beðin um að svara því hvort fyrirliggjandi skattframtöl gæfu rétta mynd af launatekjum þeirra á þessu tímabili. Ef svo væri ekki hafi þeim verið gefinn kostur á að sýna fram á raunverulegar launatekjur með viðhlítandi gögnum. Með tölvupósti frá umboðsmanni kærenda 10. ágúst 2011 hafi þær skýringar borist að kærandi B hafi tekið út laun hjá X ehf. en einnig hafi hann tekið út arð að fjárhæð 16.438.875 krónur á árinu 2007.

Samkvæmt skattframtölum voru eignir kærenda þessar á árunum 2007 til 2009:

  2007 2008 2009
· C gata nr. 15 41.940.000 40.000.000 32.450.000
· E gata nr. 10   21.910.000 18.550.000
· Bifreiðin R 6.000.000 5.400.000  
· Bifreiðin S 3.500.000 3.150.000  
· Torfæruhjól T     50.000
· Bankainnstæður   190.918 297.610
Samtals kr. 51.440.000 70.650.918 51.347.610

Af framangreindri umfjöllun um fjárhag kærenda liggi fyrir að uppgefnar launatekjur þeirra hafi verið einkar lágar. Á sama tíma hafi kærendur stofnað til umtalsverðra skuldbindinga og einnig hafi eignir þeirra verið mjög skuldsettar. Af gögnum málsins verði ekki ráðið að fjárhagur kærenda hafi verið slíkur á árunum 2007 til 2009 að hann hafi réttlætt þær miklu skuldbindingar sem kærendur hafi tekist á hendur á þessum tíma. Samkvæmt upplýsingum frá kærendum hafi farið að halla verulega undan fæti í fasteignasölu á árinu 2008. Þrátt fyrir þetta hafi kærandi B, ásamt öðrum, tekist á hendur átta sjálfskuldarábyrgðir á árunum 2008 og 2009 fyrir félög honum tengd. Hafi upphafleg fjárhæð ábyrgðanna numið alls 57.184.754 krónum. Af þessum átta ábyrgðum hafi verið stofnað til fimm þeirra um og eftir efnahagshrunið 15. október 2008.

Þau félög sem kærandi B hafi gengist í sjálfskuldarábyrgðir fyrir hafi að jafnaði ekki skilað ársreikningum undanfarin ár og hafi fjögur þeirra verið tekin til gjaldþrotaskipta. Þyki það benda til þess að staða félaganna hafi verið ótrygg þegar kærandi B tókst á hendur sjálfskuldarábyrgðir vegna þeirra á árunum 2008 og 2009.

Auk þeirra sjálfskuldarábyrgða sem kærandi B hafi stofnað til á árunum 2008 og 2009 hafi kærendur að auki stofnað til yfirdráttarskulda, greiðslukortaskulda og skulda vegna fasteignaveðlána. Verði ekki séð að þetta hafi samræmst fjárhag kærenda samkvæmt fyrirliggjandi gögnum. Það sé því mat umboðsmanns skuldara að kærendur hafi hagað fjármálum sínum með ámælisverðum hætti og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu þeirra þegar til skuldbindinganna var stofnað. Af gögnum málsins, þar á meðal tekjuupplýsingum, verði ekki séð að kærendur hefðu getað staðið skil á skuldbindingum þessum ef á reyndi. Þyki aðstæður c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. vera til staðar í málinu.

Í f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að umboðsmanni sé heimilt að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef óhæfilegt þyki að heimila hana vegna þess að skuldari hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt. Samkvæmt g-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé umboðsmanni skuldara heimilt að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef óhæfilegt þyki að heimila hana vegna þess að skuldari hafi á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans séu þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra.

Telja verði þá háttsemi ámælisverða að láta undir höfuð leggjast að greiða tekjuskatt líkt og skylda sé samkvæmt lögum um tekjuskatt nr. 90/2003. Í málinu liggi fyrir úrskurður ríkisskattstjóra um endurákvörðun opinberra gjalda kærenda. Hafi úrskurðinum ekki verið áfrýjað og teljist hann því fullnaðarúrskurður sem leggja beri til grundvallar við mat á því hvort veita skuli kærendum heimild til greiðsluaðlögunar. Í athugasemdum með frumvarpi því er hafi orðið að lge. sé fjallað um heimild til synjunar hafi skuldari farið offari í skuldsetningu og þegar rót skulda sé af þeim toga að samfélagslega óásættanlegt sé að greiðsluaðlögun nái til skuldara. Í dæmaskyni sé svo fjallað um skuldir vegna viðskipta í aðdraganda falls bankanna haustið 2008 og þá sérstaklega skattskuldir tengdar slíkum viðskiptum. Í máli kærenda liggi fyrir að ríkisskattstjóri hafi endurákvarðað þeim opinber gjöld að höfuðstólsfjárhæð 55.849.126 krónur ásamt vöxtum og í því ljósi verði að líta til sjónarmiða að baki f- og g-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Jafnframt beri að líta til úrskurðar kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 13/2011 þar sem fallist hafi verið á að óhæfilegt væri að veita kærendum heimild til greiðsluaðlögunar. Í úrskurðinum hafi meðal annars verið skírskotað til sjónarmiða að baki f- og g-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. og til eðlis krafna, sem hafi verið ýmis opinber gjöld. Telja verði skuldir kærenda þess eðlis og tilurð þeirra með þeim hætti að bersýnilega ósanngjarnt sé að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra. Þyki því f- og g-liðir 2. mgr. 6. gr. lge. eiga við í málinu.

Stærsta skuld kærenda sé vegna vangreiddra þing- og sveitarsjóðsgjalda en þar beri kærendur svokallaða makaábyrgð á skuldum hvors annars samkvæmt 116. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003. Einnig séu kærendur samskuldarar að húsnæðisláni sem hvíli á íbúðarhúsnæði þeirra. Því verði að telja að kærendur séu í miklum mæli ábyrg fyrir skuldum hvors annars. Þegar þannig hátti til að hjón eða sambúðarfólk ákveði að sækja um greiðsluaðlögun í sameiningu verði að líta á sameiginlegan fjárhag þeirra þegar metið sé hvort skilyrði fyrir heimild til greiðsluaðlögunar séu uppfyllt, sbr. meðal annars úrskurð kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 25/2011.

Samkvæmt fullyrðingum í kæru hafi kærendur lagt fram beiðni til ríkisskattstjóra um endurákvörðun opinberra gjalda án þess að kæru fylgi staðfesting ríkisskattstjóra á móttöku þeirrar beiðni. Ekki verði séð að slík beiðni ein og sér geti haft áhrif á niðurstöðu málsins enda liggi hvorki fyrir hvort ríkisskattstjóri muni fallast á beiðnina né hver niðurstaða endurákvörðunar yrði ef svo færi.

Með vísan til þess sem rakið hafi verið sé það mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt sé að veita kærendum heimild til greiðsluaðlögunar.

Að öllu þessu virtu og með vísan til forsendna fer umboðsmaður fram á að hin kærða ákvörðun, sem tekin var á grundvelli c-, f- og g-liða 2. mgr. 6. gr. laga nr. 101/2010, verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Kærendur krefjast þess að fallist verði á umsókn þeirra um greiðsluaðlögun. Til vara er þess krafist að fallist verði á umsókn kæranda A um greiðsluaðlögun.

Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Ef umboðsmaður skuldara synjar skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 4. mgr. 7 gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga. Samkvæmt lögunum er gert ráð fyrir að samþykki umboðsmanns skuldara fylgi ákveðin réttaráhrif, sbr. 8. gr. laganna, þar sem segir að með samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun hefjist tímabil greiðsluaðlögunarumleitana, og 1. mgr. 11. gr., en þar segir að þegar umboðsmaður skuldara hafi samþykkt umsókn hefjist tímabundin frestun greiðslna. Samkvæmt því gegnir umboðsmaður skuldara því hlutverki að veita heimild til greiðsluaðlögunar. Getur þar af leiðandi ekki komið til þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála samþykki slíka umsókn. Við úrlausn málsins fyrir kærunefndinni getur því aðeins komið til þess að kærunefndin felli synjun umboðsmanns skuldara á sameiginlegri umsókn kærenda úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju. Með tilliti til þessa verður að skilja kröfugerð kærenda þannig að farið sé fram á að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju. Varakröfuna verður enn fremur í samræmi við það að skilja þannig að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi hvað varðar kæranda A og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju hvað hana varðar.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á c-, f- og g-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt c-lið er umboðsmanni skuldara heimilt að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef óhæfilegt þyki að heimila hana vegna þess að skuldari hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Í f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. kemur fram að umboðsmanni sé heimilt að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef óhæfilegt þyki að heimila hana vegna þess að skuldari hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt. Samkvæmt g-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er umboðsmanni skuldara heimilt að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef óhæfilegt þyki að heimila hana vegna þess að skuldari hafi á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans séu þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra.

Af skattframtölum kærenda og öðrum gögnum málsins má ráða að á árunum 2006 til 2010 hafi eigið fé kærenda verið neikvætt. Í neðangreindri töflu má sjá yfirlit yfir eignir, skuldir og tekjur kærenda á þessu árabili samkvæmt því sem fram kemur í skattskýrslum:

  2006 2007** 2008 2009 2010
Meðaltekjur* á mánuði 83.167 1.410.263 24.770 190.223 200.973
Eignir alls: 45.240.000 51.440.000 70.650.918 51.347.610 31.243.832
· C gata nr. 15 37.590.000 41.940.000 40.000.000 32.450.000 30.650.000
· E gata nr. 10     21.910.000 18.550.000  
· Bifreiðin P 4.500.000        
· Bifreiðin O 3.150.000        
· Bifreiðin R   6.000.000 5.400.000    
· Bifreiðin S   3.500.000 3.150.000    
· Torfæruhjól T       50.000 50.000
· Bankainnstæður     190.918 297.610 543.832
Skuldir kr. 53.912.390 55.431.291 79.974.825 120.310.375 143.669.607
Nettóeignastaða kr. -8.672.390 -3.991.291 -9.323.907 -68.962.765 -112.425.775

* Uppgefnar tekjur samkvæmt skattframtölum.
** Af mánaðarlegum meðaltekjum ársins 2007 voru 1.407.926 krónur vegna hagnaðar af sölu hlutabréfa.

Helstu skuldir kærenda stafa frá árunum 2005 til 2009 en í neðangreindri töflu má sjá skuldir kærenda samkvæmt skattskýrslum og öðrum gögnum málsins:

Kröfuhafi Lántökuár Upphafleg Fjárhæð Tegund
    fjárhæð kr. 2011 kr. láns
LÍN   10.405.569 21.881.503  
Íslandsbanki 2003 1.530.000 1.356.574 Skuldabréf
Byr 1745 2005 25.600.000 42.946.669 Veðskuldabréf
Landsbankinn 2005 1.137.000 999.322 Skuldabréf
SP fjármögnun 2006 1.512.733 1.627.277 Bílasamningur
Tryggingamiðstöðin 2007 5.191.757 7.694.408 Veðskuldabréf
Landsbankinn 2007 3.775.610 5.140.369 Yfirdráttur
Byr 2008 8.000.000 12.325.953 Lánasamningur
Byr 2008 3.997.996 6.237.032 Yfirdrættir
Byr 2008 3.131.482 20.161.222 Greiðslukort
Lýsing 2008 4.712.561 4.929.117 Bílasamningur
S24 2009 1.303.861 1.970.826 Yfirdráttur
Byr 2009 146.052 244.172 Greiðslukort
Landsbankinn 2009 7.747.830 7.747.830 Yfirdrættir
Garðabær 2009   410.312 Fasteignagj. o.fl.
Íbúðalánasjóður 2010 5.939.154 5.939.154 Skuldabréf
Tollstjóri 2005‒10 55.895.089 63.023.425 Opinber gjöld
Ýmsir 2009   485.643 Tryggingar
Ýmsir 2009   240.896 Samskiptakostn.
Húsfélag 2010   1.198.545 Húsgjöld
Arion banki 2010 352.282 352.282 Rafmagn/hiti
Orkuveitan 2010   66.388  
  Samtals: 140.378.976 206.978.919  

Til viðbótar við persónulegar skuldir tókst kærandi B á hendur ábyrgðarskuldbindingar að fjárhæð tæplega 122.000.000 króna á árunum 2006 til 2009 en yfirlit yfir ábyrgðirnar má sjá í neðangreindri töflu:


Kröfuhafi

Skuldari Útgáfu- Upphafleg Fjárhæð Tegund Tryggingar
    dagur fjárhæð kr. 2010 láns  
Arion banki F ehf. 2006 2.000.000 3.176.764 Yfirdráttur Fjórir ábm.
Byr X ehf. 2006 3.726.623 5.445.066 Skuldabréf Tveir ábm.
Byr X ehf. 2006 6.000.000 0 Ýmsar Einn ábm.
Landsbankinn G 2006 3.500.000 0 Yfirdráttur Einn ábm.
Byr X ehf. 2007 3.000.000 3.000.000 Ýmsar Einn ábm.
Byr K 2007 2.152.894 2.914.164 Veðskuldabréf Fjórir ábm./veð
Landsbankinn F ehf. 2007 1.000.000 0 Yfirdráttur Tveir ábm.
Landsbankinn H ehf. 2007 10.000.000 1.316.800 Yfirdráttur Tveir ábm.
Landsbankinn Fjárfestingafélagið I ehf. 2007 4.000.000 5.577.092 Yfirdráttur Þrír ábm.
Landsbankinn X ehf. 2007 10.000.000 0 Yfirdráttur Tveir ábm.
Byr J ehf. 2007 6.500.000 15.104.969 Erl. lánasamn. Þrír ábm.
Arion banki X ehf. 2007 4.000.000 4.000.000 Lánasamn. Tveir ábm.
Landsbankinn X ehf. 2008 7.600.000 11.157.878 Skuldabréf Tveir ábm.
Landsbankinn X ehf. 2008 8.500.000 13.279.736 Skuldabréf Tveir ábm.
Landsbankinn X ehf. 2008 5.000.000 7.018.346 Skuldabréf Þrír ábm.
Landsbankinn X ehf. 2008 10.000.000 14.434.439 Skuldabréf Tveir ábm.
Landsbankinn Fasteignasalan L ehf. 2008 8.000.000 12.036.265 Skuldabréf Tveir ábm.
Húsasmiðjan Fjárfestingafélagið M ehf. 2008 20.000.000 15.216.807 Reikningur Þrír ábm. og veð
Byr X ehf. 2008 6.136.165 9.528.720 Skuldabréf Tveir ábm.
Húsasmiðjan Fjárfestingafélagið M ehf. 2009 510.032 696.180 Reikningur Þrír ábm.
Byr X ehf. 2009 264.332 420.859 Yfirdráttur Tveir ábm.
    Samtals: 121.890.046 124.324.085    

Fjárfestingafélagið M ehf. var úrskurðað gjaldþrota í október 2011, J ehf. var úrskurðað gjaldþrota 4. október 2010, X ehf. var úrskurðað gjaldþrota í júní 2011 og F ehf. var úrskurðað gjaldþrota í júní 2009.

Af því sem rakið hefur verið hér að framan má sjá að á árunum 2006 til 2010 var eignastaða kærenda neikvæð. Á sama tíma voru uppgefnar launatekjur lágar. Á árinu 2007 voru mánaðarlegar meðaltekjur 1.410.263 krónur en 99,8% af þeirri fjárhæð var vegna hagnaðar af sölu hlutabréfa. Á þessum árum stofnuðu kærendur til skulda að fjárhæð tæplega 46.000.000 króna til viðbótar við ríflega 38.000.000 króna eldri skuldir. Eru þá ekki meðtaldar skattskuldir kærenda samkvæmt endurálagningu. Þessu til viðbótar tókst kærandi B á hendur sjálfskuldarábyrgðir að fjárhæð tæplega 112.000.000 króna á þessu tímabili.

Við vinnslu málsins hjá umboðsmanni skuldara var kærendum send fyrirspurn 9. ágúst 2011 þar sem þeim var sérstaklega gefinn kostur á að upplýsa um tekjur sínar á nefndu tímabili ef þau teldu uppgefnar tekjur samkvæmt skattskýrslum ekki réttar. Við þessu brugðust kærendur ekki á meðan málið var til meðferðar hjá umboðsmanni. Í málinu liggur einnig fyrir að ríkisskattstjóri hefur með úrskurði endurákvarðað opinber gjöld kærenda vegna tekjuáranna 2006 til og með 2009. Samkvæmt úrskurðinum eru tekjur kærenda hækkaðar um neðangreindar fjárhæðir frá því sem gefið var upp, eins og sjá má í töflunni:

Ár B kr. A kr.
2006 27.002.009  
2007 17.595.089  
2008 34.841.662  
2009 21.404.372 26.460
Alls: 100.843.132 26.460

Lögð hefur verið fram beiðni kærenda til ríkisskattstjóra 30. apríl 2012 um endurupptöku á álagningu samkvæmt úrskurðinum. Samkvæmt beiðninni viðurkenna kærendur að hafa vantalið tekjur sínar um alls 7.700.000 krónur á árunum 2005 til og með 2009, þ.e. á fimm ára tímabili. Sé þessari fjárhæð skipt niður á ár nemur brúttótekjuaukning að meðaltali 1.540.000 krónum á ári eða 128.333 krónum á mánuði. Ekki hefur verið upplýst um niðurstöðu í málinu.

Af því sem rakið hefur verið má sjá að eignir kærenda á tímabilinu 2006 til og með 2009 hefðu ekki dugað til greiðslu skulda þeirra á sama tímabili. Þá hefði greiðslubyrði skulda umfram eignir verið mun meiri en launatekjur kærenda hefðu getað staðið undir.

Kærandi B tókst á hendur umtalsverðar sjálfskuldarábyrgðir á tímabilinu. Ábyrgðarskuldbindingar er ekki alltaf hægt að leggja að jöfnu við beinar fjárhagslegar skuldbindingar við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita heimild til greiðsluaðlögunar í skilningi 2. mgr. 6. gr. lge. Sá einstaklingur sem gengst undir ábyrgðarskuldbindingar þarf þó að gera ráð fyrir þeim möguleika að kröfum vegna þeirra verði beint að honum að hluta til eða í heild. Þótt ekki verði gengið fortakslaust út frá því að ábyrgðaraðili muni þurfa að greiða allar þær skuldbindingar sem hann hefur ábyrgst efndir á verður engu að síður að meta áhættuna í hverju tilviki fyrir sig. Kærunefndin telur að kærandi B hafi treyst því að þeir aðilar sem hann gekkst í sjálfskuldarábyrgðir fyrir myndu ekki lenda í greiðsluvanda enda ómögulegt að eignir hans eða tekjur gætu staðið straum af greiðslu ábyrgðanna ef á reyndi.

Í töflunni má sjá hvernig þær sjálfskuldarábyrgðir sem kærandi B tókst á hendur skiptast á einstaka skuldara:

X ehf. 64.227.120
Fjárfestingafélagið M ehf. 20.510.032
H ehf. 10.000.000
Fasteignasalan L ehf. 8.000.000
J ehf. 6.500.000
Fjárfestingafélagið I ehf. 4.000.000
G 3.500.000
F ehf. 3.000.000
K 2.152.894
Samtals: 121.890.046

Tæp 70% ábyrgðanna, eða tæpar 85.000.000 króna, voru vegna tveggja félaga; X ehf. og Fjárfestingafélagsins M ehf. en bæði hafa félögin verið úrskurðuð gjaldþrota. Hvorugt félagið skilaði ársreikningum á því tímabili sem hér er til skoðunar. Gefur það, ásamt þeim miklu sjálfskuldarábyrgðum sem kröfuhafar tóku vegna skulda félaganna, ekki tilefni til annars en að álykta að fjárhagur þeirra hafi verið bágborinn. Kærunefndin telur því að skuldbindingar þær sem kærandi B ábyrgðist á árunum 2006 til og með 2009 væru svo miklar að þær hafi ekki verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma er til þeirra var stofnað

Við mat á því hvort beita skuli c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. ber að líta til samspils tekna og skuldasöfnunar á því tímabili sem til skoðunar er. Í fyrri úrskurðum kærunefndar hefur niðurstaðan jafnan verið sú að þegar kærendur takast á hendur fjárhagsskuldbindingar sem engar líkur eru á að þeir geti greitt af miðað við tekjur, að teknu tilliti til framfærslukostnaðar og annarra fjárskuldbindinga á þeim tíma sem til skuldbindingar var stofnað, leiði það til þess að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um greiðsluaðlögun. Þegar litið er til þess sem gert er grein fyrir hér að framan telur kærunefndin að kærendur hafi verið ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar, þar með talið ábyrgðarskuldbindingar kæranda B, í skilningi c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., þegar til þeirra var stofnað.

Í f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. kemur fram að umboðsmanni sé heimilt að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef óhæfilegt þykir að heimila hana vegna þess að skuldari hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt. Eins og áður hefur verið gerð grein fyrir hafa kærendur viðurkennt að hafa ekki gefið allar tekjur sínar upp til skatts á því tímabili sem hér er til skoðunar. Kærunefndin álítur að með því hafi kærendur bæði stofnað til skattskulda með ámælisverðum hætti. Breytir þá að mati kærunefndarinnar engu hvort fjárhæð þeirra tekna sem ekki voru gefnar upp til skatts er í samræmi við það sem kærendur viðurkenna eða hærri fjárhæð eins og úrskurður ríkisskattstjóra ber með sér. Telur kærunefndin að skattskuldir af þeim toga sem hér um ræðir séu þess eðlis að samfélagslega óásættanlegt sé að greiðsluaðlögun nái til kærenda. Af framangreindu virtu er það álit kærunefndarinnar að ákvæði f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. eigi við í tilviki kærenda.

Samkvæmt g-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er umboðsmanni skuldara heimilt að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef óhæfilegt þykir að heimila hana vegna þess að skuldari hafi á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans eru þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra. Við mat á því hvort beita skuli g-lið 2. mgr. 6. gr. lge. telur kærunefndin að líta beri meðal annars til atvika sem skuldari ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með 6. gr. lge. Einnig sé rétt að líta til fjárhæða skuldbindinganna enda er í lagaákvæðinu vísað til „óhóflegra“ skuldbindinga. Telur kærunefndin að það eigi við um báða kærendur. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að þau atvik sem lýst er í g-lið 2. mgr. 6. gr. lge. eigi við í málinu. Er þar einkum átt við mikla skuldasöfnun og litla greiðslugetu en á árunum 2006 til 2008 tókust kærendur á hendur skuldir að fjárhæð ríflega 30.000.000 króna en þar af voru skammtímaskuldir, svo sem bílasamningar og neysluskuldir, ríflega 17.000.000 króna.

Kröfu um greiðslu málskostnaðar verður að mati kærunefndarinnar að skilja svo að verið sé að fara fram á greiðslu þóknunar til lögfræðings kærenda sem hefur komið fram fyrir þau gagnvart kærunefndinni.

Í 30. gr. lge. kemur fram hvernig háttað skuli greiðslu kostnaðar við málsmeðferð samkvæmt lögunum. Segir þar að umboðsmaður skuldara beri kostnað við meðferð umsóknar um greiðsluaðlögun og störf umsjónarmanna. Lánardrottnar beri þann kostnað sem á þá falli af meðferð umsóknar um greiðsluaðlögun og framkvæmd hennar. Kostnaður af sölu eignar greiðist af söluandvirði hennar. Í lge. er ekki að finna ákvæði er lúta að kostnaði við málsmeðferð fyrir kærunefnd greiðsluaðlögunarmála. Þannig greina lge. ekki frá því hver beri sérfræðikostnað kæranda, kjósi hann að leita sér aðstoðar utanaðkomandi aðila við málarekstur sinn fyrir kærunefndinni. Þá eru engin ákvæði í lge. er heimila kærunefndinni að ákvarða kæranda kostnað úr hendi þriðja aðila vegna málsmeðferðar fyrir nefndinni. Samkvæmt þessu standa lög ekki til annars en að kærendur verði sjálf að bera þann kostnað sem þau kunna að hafa stofnað til við málsmeðferð fyrir kærunefndinni. Beiðni kærenda um greiðslu málskostnaðar er því hafnað.

Í ljósi alls þessa sem hér greinir telur kærunefnd greiðsluaðlögunarmála að umboðsmanni skuldara hafi verið rétt að synja A og B um greiðsluaðlögun á grundvelli c-, f- og g-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta