Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 123/2012

Mánudaginn 18. ágúst 2014

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Með bréfi 4. júlí 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 20. júní 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 17. júlí 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 25. júlí 2012. Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 27. júlí 2012 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi 13. ágúst 2012. Voru þær sendar embætti umboðsmanns skuldara með bréfi 17. ágúst 2012 og óskað eftir afstöðu embættisins. Engar athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fædd 1965. Hún er einhleyp og býr ásamt syni sínum á heimili dóttur sinnar að B götu nr. 8 í sveitarfélaginu C.

Kærandi er atvinnulaus en leggur stund á nám. Hún fær atvinnuleysisbætur, barnabætur og meðlagsgreiðslur. Ráðstöfunartekjur hennar eru 195.835 krónur á mánuði.

Að sögn kæranda má einkum rekja fjárhagserfiðleika hennar til þess að árið 2008 hafi grundvöllur brostið fyrir atvinnurekstri sem hún og fyrrverandi maður hennar stóðu að. Eftir það hafi kærandi verið atvinnulaus og ófær um að standa í skilum með skuldir sínar. Eignir hennar hafi verið seldar nauðungarsölu, heilsu hennar hafi farið hrakandi og kærandi og maður hennar hafi skilið.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt gögnum málsins eru 48.142.744 krónur. Þær falla allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.), utan skuldar að fjárhæð 120.000 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2004 til 2005 og 2008.

Ábyrgðarskuldbindingar kæranda nema 2.850.000 krónum.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 30. júní 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 20. júní 2012 var umsókn hennar hafnað þar sem óhæfilegt þótti að veita henni heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir þá kröfu að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála snúi við ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja henni um heimild til að leita greiðsluaðlögunar.

Kæruefni sé í fyrsta lagi það huglæga mat umboðsmanns skuldara að kærandi hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu. Í öðru lagi sú fullyrðing umboðsmanns skuldara að kærandi og dóttir hennar hafi báðar verið ófærar um að standa við afborganir láns sem tekið hafi verið í október 2008 án þess að tillit sé tekið til þess forsendubrests sem varð nákvæmlega á þessum tíma. Í þriðja lagi sú fullyrðing að þar sem kærandi hafi haft óreglulegar tekjur verði að teljast ámælisvert að stofna til skuldar. Í fjórða lagi ofnotkun umboðsmanns skuldara á 6. gr. lge. en kærandi telji hann hafi beitt ákvæðinu í andstöðu við tilgang og hugsun lge. Í fimmta lagi að umboðsmaður hafi ekki leitað eftir frekari upplýsingum varðandi þær útskýringar sem kærandi hafi gefið varðandi þær fjárfestingar sem hún hafi átt aðild að. Fjárfestingarnar hafi breyst mjög vegna ólögmætra erlendra lána og sviksemi bankastofnunar þar sem bankinn hafi meðal annars tekið til sín handveð sem lagt hafi verið fram í reiðufé til tryggingar. Hafi þetta haft mikil áhrif á skulda- og eignastöðu kæranda. Í stað þess að leita frekari upplýsinga hafi umboðsmaður skuldara vænt kæranda um ósannindi og ekki tekið trúanleg orð hennar um að hafa lagt tilgreindu félagi til fjármuni. Þetta sé einfalt að sýna fram á þar sem bankanum hafi verið afhent veruleg fjárhæð í reiðufé til handveðsetningar. Auðvitað hafi kærandi reiknað með því að fá þessa fjármuni aftur ásamt eðlilegum arði af framkvæmdum félagsins sem hún hafi átt stóran hlut í.

Umboðsmaður hafi talið kæranda sjálfa bera ábyrgð á stöðu sinni en ekki Landsbankann sem hafi svikið eigin lánasamning; ólögmætt erlent lán sem hafi nær þrefaldast á augabragði. Bankinn hafi svo að auki tekið til sín þá peninga sem lagðir hafi verið að handveði. Telji embætti umboðsmanns skuldara að þetta sé kæranda að kenna eða í það minnsta eitthvað sem hún beri sjálf ábyrgð á.

Umboðsmaður skuldara virðist ekki hafa tekið tillit til breyttra aðstæðna þar sem kærandi sé einstæð eftir nýlegan skilnað. Erfitt sé að sjá skynsemi í að hrekja kæranda í gjaldþrot en þar sem engum eignum sé til að dreifa gagnist gjaldþrot kröfuhöfum ekki. Þannig hafi umboðsmaður skuldara hvorki gert skuldaranum lífið léttara né hafi embættið hagsmuni kröfuhafa í huga með því að hafna umsókn kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Kærandi sé afar ósátt við vinnubrögð embættis umboðsmanns skuldara og telji embættið ekki vinna með hag skuldara að leiðarljósi.

Loks tekur kærandi fram að ekki sé vandi að leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings en hún telji að það sé í verkahring umboðsmanns að kalla eftir þeim.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana.

Í b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. segi að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Samkvæmt skattframtali vegna ársins 2008 hafi mánaðarlegar ráðstöfunartekjur kæranda verið 24.459 krónur að meðaltali. Barna- og vaxtabótum hafi verið skuldajafnað á móti ógreiddum opinberum gjöldum. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi þó stofnað til nýrrar skuldar að fjárhæð 9.000.000 króna. Um hafi verið að ræða lán hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, tryggt með veði í B götu nr. 8 í sveitarfélaginu C. Eignin hafi áður verið í eigu kæranda en hafi verið í eigu dóttur hennar frá þeim tíma er til lánsins var stofnað. Árið 2008 hafi kærandi verið í hjónabandi og sé hér gert ráð fyrir að fjárhagsleg samstaða hafi verið með kæranda og þáverandi eiginmanni hennar og að þau hafi ætlað að standa undir skuldum í sameiningu. Sameiginlegar ráðstöfunartekjur kæranda og fyrrum eiginmanns hennar hafi verið 191.019 krónur á mánuði að meðaltali. Mánaðarlegur framfærslukostnaður fyrir hjón með tvö börn hafi samkvæmt neysluviðmiði umboðsmanns skuldara verið 239.088 krónur. Samkvæmt því hafi mánaðarlegar tekjur þeirra ekki hrokkið til að greiða kostnað við framfærslu fjölskyldunnar. Verði því ekki séð hvernig þau hafi getað staðið undir öðrum skuldbindingum og greitt af láninu hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.

Kærandi hafi verið beðin um skýringar á nefndri lántöku. Hafi kærandi greint frá því að lánið hafi verið tekið fyrir dóttur hennar til að fjármagna kaupin á B götu nr. 8. Þar sem hvorki kærandi né dóttir hennar hafi greitt af láninu sé ljóst að hvorug þeirra hafi verið fær um að standa undir afborgunum á þeim tíma er stofnað var til lánsins.

Þegar kærandi stofnaði til fyrrnefnds lífeyrissjóðsláns hafi hún þegar verið greiðandi láns hjá Landsbankanum sem verið hafi í vanskilum, tveggja bílalána hjá SP-fjármögnun sem bæði hafi verið í vanskilum auk bílaláns hjá Frjálsa fjárfestingarbankanum, en ekki hafi verið greitt af því síðastnefnda eftir að lífeyrissjóðslánið hafi verið tekið. Af lífeyrissjóðsláninu hafi aldrei verið greitt en kærandi hafi gefið þær skýringar að hún hafi haft óreglulegar tekjur og því hafi hún greitt óreglulega af lánum.

Það er mat umboðsmanns skuldara að með töku lífeyrissjóðslánsins hafi kærandi tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma sem hún stofnaði til lánsins þar sem fjöldi skuldbindinga hennar hafi þegar verið í vanskilum á þessum tíma. Þótt kærandi hafi greitt óreglulega af lánum sínum verði að teljast ámælisvert að stofna til nýrrar skuldar þegar vanskil hafi verið á öðrum skuldum. Einnig verði að telja ámælisvert hjá kæranda að stofna til skulda fyrir hönd annarra þegar fjárhagsstaða hennar hafi verið með framangreindum hætti. Breyti skýringar kæranda því ekki mati umboðsmanns skuldara.

Í fyrri úrskurðum kærunefndar greiðsluaðlögunarmála hafi niðurstaðan jafnan verið sú, að þegar kærendur takast á hendur fjárhagsskuldbindingar sem engar líkur séu á að þeir geti staðið við miðað við tekjur og að teknu tilliti til framfærslukostnaðar og annarra fjárskuldbindinga á þeim tíma sem lán eru tekin, sé umboðsmanni skuldara heimilt að synja um greiðsluaðlögun. Í þessu sambandi sé sérstaklega vísað til úrskurðar kærunefndarinnar í máli nr. 23/2011, sbr. úrskurði í málum nr. 11/2011 og 17/2011.

Umboðsmaður skuldara geti ekki tekið tillit til frásagnar um að kærandi hafi haft von um arð vegna aðkomu sinnar að félaginu X ehf. Ekkert í gögnum málsins bendi til beinnar fjárhagslegrar aðkomu hennar að félaginu þó hún hafi setið í stjórn þess. Kærandi kveðst hafa lagt fé inn í félagið en ekki verði séð að hún hafi nokkurn tímann átt hlut í félaginu. Ekki verði heldur séð að hún hafi lánað félaginu fé. Verði ekki byggt á því að ætluð arðsvon myndi leiða til annarrar niðurstöðu við það mat á áhættutöku kæranda sem fram hafi farið við töku hinnar kærðu ákvörðunar.

Hafi kærandi á hinn bóginn tengt fjárhagsstöðu sína með beinum hætti við fjárhagsstöðu félagsins, svo sem hún virðist gera í skýringum sínum, yrði slíkt að koma fram í gögnum málsins svo byggja mætti á því við töku ákvörðunar um greiðsluaðlögun. Fái slík fjárhagsleg tenging ekki stoð í skattframtölum kæranda.

Frásögn kæranda, um að eigna- og skuldastaða hennar hafi versnað þar sem fjárfestingarverkefni hafi brugðist vegna ólögmætra erlendra lána og svika bankastofnunar á árinu 2008, eigi sér heldur ekki stoð í skattframtölum kæranda. Hækkun skulda kæranda frá árslokum 2007 til ársloka 2008 stafi fyrst og fremst af fyrrnefndu lífeyrissjóðsláni. Ekki verði séð að ætluð arðsvon kæranda hafi getað réttlætt þá áhættu sem kærandi hafi tekist á hendur enda sé það mat umboðsmanns skuldara að kærandi hafi stofnað til skuldar á árinu 2008 sem hún hafi greinilega verið ófær um að standa undir með tekjum sínum eða eignum. Telur umboðsmaður skuldara að fjárhagserfiðleikar kæranda verði fyrst og fremst raktir til atvika er hún beri sjálf ábyrgð á.

Með vísan til alls þessa telur umboðsmaður skuldara óhæfilegt að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna.

 

IV. Niðurstaða

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 20. júní 2012 var umsókn kæranda um greiðsluaðlögun synjað. Skilja verður kröfugerð kæranda fyrir kærunefnd svo að umsókn hennar um greiðsluaðlögun verði samþykkt.

Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Ef umboðsmaður skuldara synjar skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 4. mgr. 7. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga. Samkvæmt lögunum er gert ráð fyrir að samþykki umboðsmanns skuldara fylgi ákveðin réttaráhrif, sbr. 8. gr. laganna, þar sem segir að með samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun hefjist tímabil greiðsluaðlögunarumleitana, og 1. mgr. 11. gr., en þar segir að þegar umboðsmaður skuldara hafi samþykkt umsókn hefjist tímabundin frestun greiðslna. Samkvæmt því gegnir umboðsmaður skuldara því hlutverki að veita heimild til greiðsluaðlögunar. Getur þar af leiðandi ekki komið til þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála samþykki slíka umsókn. Við úrlausn málsins fyrir kærunefndinni getur því aðeins komið til þess að kærunefndin felli synjun umboðsmanns skuldara á umsókn kæranda úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um synjun byggist á b- og c-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Af skattframtölum og öðrum gögnum málsins má ráða að fjárhagsstaða kæranda og eiginmanns hennar hafi verið eftirfarandi árin 2007 til 2010 í krónum:

  2006 2007 2008 2009 2010
Meðaltekjur á mán. (nettó) 84.644 168.714 250.097 178.577 241.961
Fjármagnstekjur á mán. (nettó) 553.478 10.139 1.495 159.213 383
Meðaltekjur á mán. alls 638.122 178.853 251.592 337.790 242.344
Eignir alls 25.772.104 40.361.910 18.047.337 5.655.447 5.027.530
· Fasteignir 11.884.000 31.390.000 8.741.000    
· Ökutæki 9.728.827 8.955.944 8.308.746 5.436.754 4.893.080
· Hrein eign skv. efnahagsreikningi 3.998.983        
· Bankainnstæður 160.294 15.966 997.591 218.693 134.450
Skuldir 33.581.611 37.655.795 37.824.143 34.103.879 45.586.620
Nettóeignastaða -7.809.507 2.706.115 -19.776.806 -28.448.432 -40.559.090

Samkvæmt gögnum málsins eru skuldir kæranda eftirtaldar í krónum:

Kröfuhafi Ár Tegund Upphafleg Staða Vanskil
      fjárhæð   frá
Landsbankinn 2004 Bílalán 3.106.534 5.318.609 2007
Frjálsi fjárfestingarbankinn 2005 Bílalán 3.554.675 4.895.389 2008
Landsbankinn 2005 Bílalán 2.902.954 3.256.446 2010
Landsbankinn 2005 Skuldabréf 3.650.000 8.298.131 2007
Landsbankinn 2005 Yfirdráttur 6.000.000 7.376.819 2009
Arion banki   Greiðslukort 274.848 390.101  
Tollstjóri 2007 Opinber gjöld 487.349 629.673 2007
Lífeyrissjóður starfsm. ríkisins 2008 Veðskuldabréf 9.000.000 13.277.998 2008
Ríkisútvarpið 2008 Útvarpsgjald 2.966 15.546 2008
Landsbankinn 2009 Greiðslukort 350.000 1.158.442 2009
Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja 2009 Reikningar 62.958 110.216 2009
HS Veitur hf. 2009 Reikningar 374.459 520.945 2009
Kreditkort hf. 2010 Greiðslukort 1.605.807 1.943.697 2010
Bláskógarveita 2010 Reikningar 398.224 655.088 2010
Ýmsir 2010 Reikningar 89.304 191.609 2010
Grímsnes- og Grafningshreppur 2011 Reikningur 4.636 104.035 2011
    Alls kr. 31.864.714 48.142.744  

Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef augljóst má vera að óhæfilegt sé að veita hana. Í því lagaákvæði eru taldar upp ástæður sem eiga það sameiginlegt að ekki getur verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verður að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi að lge. Í framhaldinu eru í sjö stafliðum rakin atriði sem umboðsmaður skuldara skal sérstaklega líta til við mat á slíku. Meðal þeirra atriða eru b- og c-liðir 2. mgr. 6. gr. lge. sem þegar hefur verið gerð grein fyrir en umboðsmaður skuldara synjaði kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli þessara ákvæða.

Í nóvember 2008 tók kærandi lán hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins að fjárhæð 9.000.000 króna. Greiðslubyrði lánsins var um 67.000 krónur á mánuði. Á þessum tíma var kærandi í vanskilum með skuldabréf og bílalán hjá Landsbankanum, bílalán hjá Frjálsa fjárfestingarbankanum og opinber gjöld. Greiðslugeta kæranda og fyrrum eiginmanns hennar var, miðað við fyrirliggjandi gögn, eftirfarandi sé miðað við afborganir bíla- og skuldabréfalána þeirra:

Alls nýjar skuldbindingar árið 2008 9.000.000
Mánaðarleg greiðslubyrði 67.000
nýrra skuldbindinga  
Samtals mánaðarleg 232.000
greiðslubyrði  
Mánaðarlegar 250.097
ráðstöfunartekjur  
Mánaðarlegur kostnaður 239.088
við framfærslu  
Mánaðarleg greiðslugeta -220.991

Af töflunni má sjá að árið 2008 vantaði kæranda og fyrrum eiginmann hennar alls 220.991 krónu á mánuði til að geta greitt af lánum kæranda. Má af þessu ráða að kærandi var greinilega ófær um að standa við fyrrgreint lífeyrissjóðslán þegar hún stofnaði til þess. Telur kærunefndin því að kærandi hafi stofnað til skuldarinnar á þeim tíma er hún var greinilega ófær um að standa við hana í skilningi b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Kærandi hefur greint frá því að lífeyrissjóðslánið hafi hún tekið fyrir dóttur sína. Er það mat kærunefndarinnar að með því að taka í eigin nafni lán fyrir annan aðila hafi kærandi enn fremur tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað í skilningi c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Kærandi hefur greint frá því að þar sem tekjur hennar hafi verið óreglulegar hafi hún greitt óreglulega af lánum sínum. Tekjur kæranda og þáverandi eiginmanns hennar á árunum 2006 til 2008 voru á bilinu 84.644 krónur til 250.097 krónur. Með vísan til þess sem þegar hefur komið fram telur kærunefndin augljóst að tekjur þeirra á þessum árum hafi ekki nægt til að greiða þau vanskil sem safnast hafi upp vegna óreglulegra afborgana kæranda af lánum sínum.

Fram kemur hjá kæranda að ekki sé vandi að leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings en hún telji að það sé í verkahring umboðsmanns skuldara að kalla eftir þeim. Þótt umboðsmanni skuldara beri skylda til að afla frekari upplýsinga eftir að umsókn um greiðsluaðlögun er lögð fram samkvæmt 5. gr. lge. verður einnig að líta til þess að skuldara ber að taka virkan þátt og sýna viðeigandi viðleitni við vinnslu máls, þar á meðal með því að leggja fram gögn, sbr. a- og b-liði 1. mgr. 6. gr. lge. Með bréfi umboðsmanns skuldara 10. maí 2012 var kærandi beðin um að sýna fram á það með skriflegum hætti og styðja gögnum að hún hefði hvorki tekið fjárhagslega áhættu né hagað fjármálum sínum á ámælisverðan hátt í skilningi c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Í ódagsettu svarbréfi kæranda kemur meðal annars fram að hún hafi átt von á arði vegna ótiltekinna verkefna sem félagið X ehf. hafi staðið að en talsvert fé hafi verið lagt í verkefnið. Kveðst hún hafa verið aðili að félaginu án þess að nánar komi fram hvað þar sé átt við. Kærandi færir hvorki fram frekari upplýsingar hvað þetta varðar né leggur fram gögn því til staðfestingar. Í fyrirliggjandi gögnum sér þess ekki stað að kærandi hafi lagt nefndu félagi til fé eða átt þátt í fjárfestingum þess að öðru leyti. Með vísan til alls þessa telur kærunefndin að kæranda hafi sjálfri borið að sýna fram á fjárhagsstöðu sína að þessu leyti.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að A hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta