Mál nr. 83/2014
Fimmtudaginn 18. september 2014
A og B
gegn
skipuðum umsjónarmanni D hdl.
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.
Þann 7. ágúst 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, D hdl., sem tilkynnt var með bréfi 7. júlí 2014, þar sem umsjónarmaður mælti gegn því að nauðasamningur kæmist á með vísan til 18. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Ákvörðun umsjónarmanns barst kærendum 31. júlí 2014.
I. Málsatvik
Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 3. apríl 2012 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar. Þann 4. maí 2012 var umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum í máli kærenda.
Í ákvörðun umsjónarmanns kemur fram að tvö frumvörp hafi verið lögð fyrir kröfuhafa. Hið fyrra 16. janúar 2013 og hið síðara 22. janúar 2014, á grundvelli breyttra forsendna og eftir sölu fasteignar. Að teknu tilliti til aðstæðna kærenda og upplýsinga frá þeim um tekjur lá fyrir að mánaðarleg greiðslugeta þeirra væri neikvæð um 29.446 krónur. Vegna þessa var ekki gert ráð fyrir greiðslum til kröfuhafa og lagði umsjónarmaður til að full eftirgjöf skulda færi fram við gildistöku samnings. Mótmæli bárust frá Landsbankanum sem hafnaði fullri eftirgjöf krafna. Í mótmælum bankans kom fram að lánanefnd bankans teldi að kærendur gætu staðið við hluta af þeim samningskröfum sem kæmu til með að standa eftir. Bankinn myndi fallast á að veita kærendum greiðslufrest í tvö ár og 90% niðurfellingu á samningskröfum að þeim tíma liðnum. Umsjónarmaður hafði samband við kærendur, gerði þeim grein fyrir mótmælum Landsbankans og óskaði eftir afstöðu þeirra til þess að lækka eftirgjöf í 90%. Kærendur voru ekki tilbúin til að fallast á lækkun eftirgjafar og ekki reiðubúin að samþykkja annað en fulla eftirgjöf.
Í kjölfar öflunar upplýsinga um stöðu kærenda taldi umsjónarmaður sig ekki geta mælt með því að nauðasamningur til greiðsluaðlögunar kæmist á. Umsjónarmaður tilkynnti kærendum með bréfi 7. júlí 2014 ákvörðun sína um að mæla gegn nauðasamningi til greiðsluaðlögunar og greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á grundvelli 18. gr. lge.
II. Sjónarmið skipaðs umsjónarmanns
Í ákvörðun umsjónarmanns kemur fram að til að geta lagt mat á hvort mæla skyldi með nauðasamningi hafi hann óskað eftir upplýsingum um tekjur og útgjöld kærenda. Einnig hafi umsjónarmaður uppfært útgjaldaliði sem höfðu tekið breytingum undir meðferð málsins, svo sem rekstrarkostnað bifreiðar, læknis- og lyfjakostnað og kostnað af dagvistun. Nýjar upplýsingar hafi leitt í ljós að tekjur kæranda A hefðu hækkað um 16.000 krónur á mánuði og kærendur hafi fengið barnalífeyri að fjárhæð 26.081 króna á mánuði sem ekki hafi verið getið í hinu útsenda frumvarpi til greiðsluaðlögunarsamnings. Þá hafi kærendur einungis getað sýnt fram læknis- og lyfjakostnað að fjárhæð 7.000–8.000 krónur en ekki 30.000 krónur eins og lagt hafi verið til grundvallar í frumvarpi. Loks hafi kærendur látið hjá líða að senda umsjónarmanni staðfestingu á kostnaði að fjárhæð 27.000 krónur á mánuði vegna dagsvistunar barns þeirra. Að teknu tilliti til uppfærðra upplýsinga um stöðu kærenda sé greiðslugeta þeirra nú jákvæð sem nemi að minnsta kosti 20.000 krónum.
Umsjónarmaður hafi í samræmi við áskilnað 18. gr. lge. lagt mat á það hvort hann telji rétt að mæla með því að nauðasamningur komist á. Niðurstaða hans hafi verið að framkomin mótmæli kröfuhafa hafi verið málefnaleg í því ljósi að nýjar upplýsingar um stöðu kærenda gefi til kynna að greiðslugeta þeirra sé nú jákvæð og muni að öllum líkindum hækka, sér í lagi ef kærandi Heiða fari aftur á vinnumarkað. Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar um stöðu kærenda og framtíðarhorfur sé það mat umsjónarmanns að 90% eftirgjöf samningskrafna verði að teljast eðlileg og til þess fallin að gefa kærendum raunhæfan möguleika á að standa við skuldbindingar sínar að greiðsluaðlögunartímabili loknu. Krafa kærenda um nauðasamning til að knýja fram fulla eftirgjöf í stað 90% sé því umfram það sem eðlilegt megi telja að mati umsjónarmanns.
Þrátt fyrir að umsjónarmaður hafi lagt til fulla eftirgjöf samningskrafna að greiðsluaðlögunartímabilinu loknu megi vel færa rök fyrir því að kærendur geti staðið undir eftirstöðvum þótt eftirgjöf sé 10% minni en upphaflega hafi verið lagt til. Afstaða umsjónarmanns taki mið af stöðu og högum kærenda almennt, meðal annars aldri þeirra, tekjuöflunarmöguleikum, greiðslugetu á greiðsluaðlögunartímabili, menntun og framtíðarhorfum. Auk þess sem jákvæðar breytingar hafi þegar orðið þess valdandi að greiðslugeta kærenda hafi aukist og orðið jákvæð á síðastliðnum mánuðum. Telur umsjónarmaður raunhæft að greiðslugeta þeirra komi til með að aukast frekar.
Með hliðsjón af framangreindu og atvikum að öðru leyti hafi umsjónarmaður ekki getað mælt með því að nauðasamningur kæmist á og því ekki séð annað fært en að mæla gegn því, sbr. 2. mgr. 18. gr. lge.
III. Sjónarmið kærenda
Kærendur krefjast þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála felli úr gildi ákvörðun umsjónarmanns.
Fram kemur í kæru að kærendur séu hvorki sátt við hvernig tekið hafi verið á máli þeirra vegna umsóknar um greiðsluaðlögun né niðurstöðu umsjónarmanns. Kærendur kveða að mikil veikindi hafi hrjáð þau og vísa til fyrirliggjandi læknisvottorða. Þá sé greiðslugeta þeirra neikvæð og því sé ekki hægt að greiða af neinum kröfum.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns byggist á 18. gr. lge. Í 1. mgr. lagagreinarinnar er kveðið á um að hafi samningur um greiðsluaðlögun samkvæmt ákvæðum IV. kafla laganna ekki tekist þá geti skuldari lýst yfir við umsjónarmann að hann vilji leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar eða greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Við mat umsjónarmanns á því hvort mælt sé með að samningur komist á skal umsjónarmaður meðal annars líta til þess hvort nokkuð hafi komið fram sem í öndverðu hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar, hvort skuldari leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa, hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum samkvæmt 12. gr. laganna og staðið að öðru leyti heiðarlega að verki við umleitanir til greiðsluaðlögunar, hvort raunhæft sé að hann muni geta staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun og hvert sé viðhorf þeirra lánardrottna sem látið hafa umleitanir til greiðsluaðlögunar til sín taka.
Í ákvörðun umsjónarmanns kemur fram að mæla verði gegn því að nauðasamningur komist á þar sem kærendur leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags þeirra og framtíðarhorfa enda sé greiðslugeta þeirra jákvæð að svo stöddu.
Kærendur kveða greiðslugetu neikvæða og því geti þau ekki greitt af kröfum.
Samkvæmt gögnum málsins og útreikningum umsjónarmanns er greiðslugeta kærenda 21.548 krónur á mánuði. Miðast útreikningur umsjónarmanns við framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara og upplýsingar frá kærendum sjálfum. Samkvæmt útreikningum umsjónarmanns er gert ráð fyrir hærri læknis- og lyfjakostnaði og kostnaði vegna reksturs bifreiðar/almenningssamgangna en framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara gera ráð fyrir. Þá er miðað við upplýsingar frá kærendum sjálfum vegna annarra útgjalda eins og vegna dagvistunar barns.
Fram kemur í 1. mgr. 18. gr. að umsjónarmaður skuli við mat á því hvort hann leggst gegn nauðasamningi líta til þess hvort skuldari leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa. Fyrir liggur að kærendur eru með jákvæða greiðslugetu og geta því staðið við hluta skuldbindinga sinna að loku tímabili greiðsluaðlögunarumleitana. Þrátt fyrir það hafa kærendur hafnað því að gera samning um greiðsluaðlögun sem fæli í sér 90% eftirgjöf samningskrafna. Verður því að fallast á mat umsjónarmanns um að mæla ekki með því að nauðasamningur til greiðsluaðlögunar komist á. Ber með vísan til þess að staðfesta hina kærðu ákvörðun.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, D hdl., um að mæla gegn því að nauðasamningur komist á í máli A og B er staðfest.
Sigríður Ingvarsdóttir
Eggert Óskarsson
Lára Sverrisdóttir