Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 127/2012

Fimmtudaginn 18. september 2014

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

Ú r s k u r ð u r

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 10. júlí 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 22. júní 2012 þar sem umsókn kærenda um greiðsluaðlögun var synjað. Greinargerð kærenda barst 3. september 2012.

Með bréfi 3. september 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara, sem barst með bréfi 12. nóvember 2012.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 14. nóvember 2012 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kærenda bárust með bréfi 30. ágúst 2013.

Með bréfi 3. september 2013 óskaði kærunefndin eftir afstöðu umboðsmanns skuldara vegna athugasemda kærenda. Með tölvubréfi 4. september 2013 lýsti umboðsmaður skuldara því yfir að embættið myndi ekki aðhafast frekar í málinu.

 I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1972 og 1963 og eru í hjúskap. Þau búa í eigin húsnæði að C götu nr. 20 í sveitarfélaginu D og hjá þeim búa fjögur börn þeirra. Kærandi A starfar hjá X en kærandi B, sem er löggiltur fasteignasali, er atvinnulaus og þiggur atvinnuleysisbætur. Samanlagðar ráðstöfunartekjur þeirra eru 558.126 krónur á mánuði að meðtöldum vaxtabótum og barnabótum.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara og öðrum gögnum málsins eru 83.234.853 krónur og falla um 74.500.000 krónur innan samnings, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Meðal skulda kærenda eru vangoldin opinber gjöld samtals að fjárhæð 2.907.292 krónur, þau elstu frá árinu 2001, og meðlagsskuld að fjárhæð 3.456.239 krónur frá árinu 1997.

Kærendur kveða fjárhagserfiðleika sína eiga rætur að rekja til atvinnuleysis þeirra beggja, skuldasöfnunar vegna náms, tekjulækkunar og hækkunar erlendra lána í kjölfar efnahagshrunsins. Á tímabili hafi þau bæði verið atvinnulaus en kærandi A hefur nú fengið fasta atvinnu í kjölfar náms.

Umsókn kærenda um greiðsluaðlögun var móttekin 3. júní 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 22. júní 2012 var umsókn þeirra synjað á grundvelli b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

 II. Sjónarmið kærenda

Kærendur gera ekki eiginlega kröfu er fellur innan þeirra valdmarka sem kærunefndinni eru sett samkvæmt lögum en skilja verður málatilbúnað þeirra þannig að þau geri kröfu um að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærendur telja að synjun umboðsmanns skuldara á umsókn þeirra um greiðsluaðlögun byggist á hæpnum forsendum. Meginhluti skulda kærenda sé vegna gengisbundinna lána sem búið sé að dæma ólögleg og einnig hafi verið dæmt ólöglegt að reikna Seðlabankavexti aftur í tímann. Gera kærendur ráð fyrir að eiga fyrir öllum skuldum þegar endanleg niðurstaða liggi fyrir varðandi gengislánin. Að mati kærenda eigi skuldarar að njóta alls vafa þegar slík lán séu annars vegar ella verði fjölmargar fjölskyldur gjaldþrota á röngum forsendum vegna hinna ólögmætu lána.

Í athugasemdum kærenda frá 30. ágúst 2013 vegna greinargerðar umboðsmanns skuldara er sérstaklega vakin athygli á því að ekki hafi verið sett reglugerð um greiðsluaðlögun í samræmi við 34. gr. lge. Þar sem engin reglugerð eða aðrar löglegar verklagsreglur séu fyrir hendi þá sé huglægt mat lagt á hvert mál fyrir sig hjá umboðsmanni skuldara. Það sé óviðunandi.

Í kæru er þeim rökstuðningi í ákvörðun umboðsmanns skuldara sérstaklega mótmælt að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni skuldara einkum að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. lge. Ekki komi fram hvar það standi í lögum að umboðsmanni skuldara beri fyrst og fremst að kanna hvort ákvæði 6. gr. lge. geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Það sé enda andstætt því markmiði með stofnun embættis umboðsmanns skuldara að gæta hagsmuna og réttinda skuldara. Finnist kærendum ótækt að embætti umboðsmanns skuli líta þannig á að 6. gr. sé megingrein lge. þegar nánast allar aðrar greinar laganna fjalli um hvernig umboðsmaður skuli aðstoða skuldara.

Umboðsmaður hafi kveðið það óútskýrt hvers vegna lán hafi hækkað á milli ára. Ástæðan sé sú að um ólögleg gengisbundin lán hafi verið að ræða sem hafi hækkað sjálfkrafa um hver áramót og verið færð inn á skattframtöl kærenda án atbeina þeirra sjálfra.

Varðandi það sem umboðsmaður nefni bifreiðakaup að fjárhæð 3.078.318 krónur sé hið rétta að kærendur hafi átt skuldlausan bíl. Þau hafi tekið gengislán með veði í bílnum til að sjá fyrir sér og ætlað að selja bílinn með láninu áhvílandi þegar þess gerðist þörf. Gengislánið, sem hafi verið ólöglegt, hafi hækkað upp úr öllu valdi og gert það að verkum að ómögulegt hafi verið að selja bílinn.

Kærendur kveðast hafa haft óreglulegar tekjur og lifað að hluta til af því að kaupa bíla, gera þá upp og selja aftur og einnig að kaupa fasteignir og selja aftur með hagnaði. Staða ólöglegra gengislána hafi ranglega gefið þá mynd af fjárhag kærenda að þau væru gjaldþrota um mitt ár 2008. Kærendur telja sig eiga fyrir öllum skuldum verði lán þeirra rétt og löglega út reiknuð. Við þær aðstæður sé ótækt að þeim sé synjað um greiðsluaðlögun.

Kærendur eru ósátt við málsmeðferð embættis umboðsmanns skuldara og telja embættið ekki sinna hlutverki sínu.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni skuldara einkum að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna skuli synja um heimild til greiðsluaðlögunar séu tilteknar aðstæður fyrir hendi en þær eru tíundaðar í fimm liðum ákvæðisins. Í 2. mgr. sömu greinar sé til viðbótar við skilyrði 1. mgr. kveðið á um heimild til þess að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana. Við mat á því sé sérstaklega litið til þeirra atriða sem talin eru upp í a–g-liðum ákvæðisins sem öll eigi það sameiginlegt að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verði að einhverju eða öllu leyti rakin til atvika sem hann beri sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni.

Á grundvelli b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. sé heimilt að synja um greiðsluaðlögun hafi verið stofnað til skulda á þeim tíma sem skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar og ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað.

Af skattframtali 2007 vegna tekjuársins 2006 verði ráðið að eftirstöðvar skulda kærenda vegna íbúðarláns hafi numið 15.698.452 krónum. Lánið hafi verið tekið 30. september 2005 á þeim tíma sem kærandi A var í námi. Kærendur hafi alls greitt 811.096 krónur af láninu á árinu eða um það bil 67.591 krónu á mánuði. Samanlagðar mánaðarlegar meðaltekjur (nettótekjur) kærenda hafi verið 217.060 krónur samkvæmt skattframtalinu. Eftir að mánaðarlegar greiðslur kærenda af íbúðarláninu hafi verið dregnar frá mánaðarlegum meðaltekjum þeirra standi eftir um það bil 150.000 krónur sem kærendur hafi haft til ráðstöfunar á mánuði. Umrætt ár hafi tvö börn búið á heimili kærenda eftir því sem fram komi í skattframtali. Samkvæmt framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara hafi framfærslukostnaður kærenda numið að lágmarki 137.700 krónum á mánuði miðað við vísitölureiknuð neysluviðmið fyrir árið 2006. Sú fjárhæð sé vegna kostnaðar við mat, tómstundir, fatnað, lyf, læknisþjónustu, rekstur einnar bifreiðar, samskipti og fleira. Inni í framfærsluviðmiði sé ekki kostnaður við rafmagn, hita, dagvistun, fasteignagjöld, tryggingar o.fl. sem gera megi ráð fyrir að kærendur hafi þurft að greiða mánaðarlega. Megi því ætla að kostnaður vegna mánaðarlegrar framfærslu hafi verið nokkuð umfram nefnda fjárhæð. Samkvæmt þessu hafi laun kærenda varla dugað fyrir afborgunum af íbúðarláninu og brýnustu framfærslu en þrátt fyrir það hafi þau gert bílasamning við Lýsingu 5. maí 2006 að fjárhæð 2.859.751 króna. Bifreiðin sem kærendur keyptu hafi kostað 3.490.000 krónur en samkvæmt því sem fram komi í bílasamningnum hafi þau greitt 700.000 krónur í peningum en í samningnum hafi verið kveðið á um greiðslur þess hluta sem eftir stóð. Mánaðarlegar afborganir samningsins hafi numið 55.571 krónu og því ljóst að um mitt ár 2006 hafi greiðslubyrði vegna skuldbindinga kærenda verið umfram greiðslugetu þeirra.

Af skattframtali 2008 fyrir tekjuárið 2007 megi sjá að eftirstöðvar íbúðarláns kærenda hafi hækkað um 8.401.432 krónur milli ára eða úr 15.698.452 krónum í 24.099.884 krónur. Ekki hafi fengist skýringar á þessu frá kærendum þrátt fyrir óskir þar að lútandi. Á árinu 2007 hafi kærendur alls greitt 1.466.938 krónur af íbúðarláninu eða 122.245 krónur á mánuði. Samkvæmt skattframtali þeirra hafi mánaðarlegar meðaltekjur á árinu 2007 verið 222.771 króna. Ef frá séu dregnar greiðslur af íbúðarláni standi eftir 100.526 krónur sem kærendur hafi haft til ráðstöfunar á mánuði. Hafi þá ekki verið tekið tillit til afborgana af bílasamningum. Á árinu 2007 hafi þrjú börn búið á heimili kærenda. Miðað við framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara hafi framfærslukostnaður fjölskyldunnar að lágmarki numið 170.100 krónum á mánuði. Því virtust tekjur kærenda á árinu 2007 ekki hafa dugað fyrir afborgunum á húsnæðislánum og brýnustu framfærslu. Þrátt fyrir það hafi kærendur stofnað til frekari skulda með gerð bílasamnings að fjárhæð 3.078.318 krónur. Hafi þessi skuld verið afskrifuð 2010. Kærendur hafi greint frá því að tilgangur með bílasamningnum hafi verið að endurbæta skuldlausan bíl með það fyrir augum að selja ári síðar í hagnaðarskyni. Vegna hækkunar lánsins hafi ekkert orðið af því.

Samkvæmt skattframtali kærenda 2009 fyrir tekjuárið 2008 hafi eftirstöðvar íbúðarláns þeirra numið 54.107.305 krónum Hefðu skuldir vegna íbúðarlána þannig hækkað um 30.007.421 krónu milli ára. Ekki hafi fengist skýringar á þessu frá kærendum þrátt fyrir að gengið væri á eftir þeim. Heildargreiðslur þeirra af íbúðarláninu hafi numið 3.376.550 krónum á árinu 2008 eða 281.379 krónum á mánuði. Samanlagðar árstekjur kærenda samkvæmt skattframtali hafi verið 3.352.728 krónur fyrir frádrátt skatts. Sé það mat umboðsmanns skuldara að framtaldar fjármagnstekjur kærenda að fjárhæð 10.458.030 krónur vegna frestunar á söluhagnaði íbúðarhúsnæðis gefi ranga mynd af mánaðarlegum tekjum þeirra. Óskað hafi verið eftir upplýsingum um þetta frá kærendum en þær hafi ekki borist. Á árinu 2008 hafi fjögur börn verið skráð með lögheimili hjá kærendum. Samkvæmt framfærslu­viðmiði umboðsmanns hafi framfærslukostnaður fjölskyldunnar að lágmarki numið 210.200 krónum á mánuði. Sé því ljóst að samkvæmt skattframtali hefðu kærendur ekki getað staðið undir lágmarksframfærslu fjölskyldu sinnar. Við þær aðstæður hafi þau meira en tvöfaldað skuldir sínar vegna íbúðarlána.

Þrátt fyrir að uppgefnar tekjur kærenda hafi ekki dugað fyrir framfærslu fjölskyldunnar, svo sem að framan greini, hafi vanskil þeirra ekki orðið veruleg fyrr en í upphafi árs 2008.

Verði að telja að með því hátterni að stofna ítrekað til frekari skulda þegar kærendur hefðu ekki getað staðið undir lágmarksframfærslu fjölskyldu sinnar hafi ákvæði b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. verið uppfyllt, þar sem kærendur hafi stofnað til frekari skulda á þeim tíma er þau hafi greinilega verið ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar, auk þess sem kærendur verði að teljast hafa hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu þeirra á þeim tíma sem til verulegra fjárhagsskuldbindinga var stofnað.

Að auki megi benda á að kærandi B skuldi samtals 2.735.316 krónur í opinber gjöld en vanskil þeirra séu frá árinu 2001. Einnig skuldi hann meðlagsgreiðslur frá árinu 1997 sem nemi 3.456.237 krónum. Verði því að telja að greiðsluerfiðleika kærenda megi rekja töluvert langt aftur í tímann. Gæti það eitt og sér leitt til þess að umsókn hans um greiðsluaðlögun yrði synjað.

Á það er bent að ákvörðun í máli kærenda hafi verið tekin 22. júní 2012. Hún hafi þegar verið send kærendum sem hafi móttekið hana 25. júní s.á. Í málinu liggi fyrir tölvupóstur frá kærendum 10. júlí 2012, þ.e. tæpum þremur vikum eftir að ákvörðun var tekin, þar sem óskað hafi verið eftir auknum fresti til að skila greinargerð til kærunefndarinnar. Hafi kærunefndin væntanlega túlkað nefndan tölvupóst sem kæru. Í þessu sambandi vilji umboðsmaður benda á 4. mgr. 7. gr. lge. en samkvæmt því ákvæði sé unnt að kæra ákvörðun umboðsmanns skuldara innan tveggja vikna frá því að skuldara barst tilkynning um ákvörðun umboðsmanns skuldara. Megi því ætla að kæran hafi komið of seint fram.

Þá hafi umboðsmanni skuldara yfirsést það við meðferð málsins að bú kæranda A hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði uppkveðnum 21. janúar 2010, tæpu einu og hálfu ári áður en hún hafi sótt um greiðsluaðlögun. Skiptum á búinu hafi þá ekki verið lokið. Þegar bú einstaklings sé undir gjaldþrotaskiptum hafi hann ekki forræði á eignum sínum og geti því ekki sótt um greiðsluaðlögun. Hefði því strax átt að hafna umsókn kæranda A á þeim grundvelli. Verði þó ekki séð að þessi mistök hafi breytt neinu um niðurstöðu málsins. Ef kærandi B hefði sótt um greiðsluaðlögun einn telur umboðsmaður að ljóst sé að umsókn hans hefði fengið sömu afgreiðslu og umsókn þeirra beggja fékk, enda ljóst að ákvæði b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. eigi við um kærendur.

Af þessu virtu, með hliðsjón af öllum atvikum máls og fjárhæðum og eðli skulda, er það mat umboðsmanns skuldara að kærendur hafi hagað fjármálum sínum á ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu þeirra á þeim tíma er til fjárhagsskuldbindinga var stofnað. Því er það mat umboðsmanns að óhæfilegt sé að veita kærendum greiðsluaðlögun á grundvelli b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara kveðst hafa komist að niðurstöðu í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Ítrekað hafi verið óskað eftir frekari upplýsingum frá kærendum en án árangurs.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 IV. Niðurstaða

Í málinu hefur komið fram að bú kæranda A var undir gjaldþrotaskiptum á þeim tíma er hún sótti um greiðsluaðlögun. Nú liggur fyrir að skiptum í þrotabúinu lauk 21. nóvember 2013 samkvæmt 155. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur. Er staða kæranda A nú þannig að greiðsluaðlögun getur einnig átt við um hana.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um synjun byggist á b- og c-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Af skattframtölum og öðrum gögnum málsins má ráða að fjárhagsstaða kærenda hafi verið eftirfarandi árin 2006 til 2011 í krónum:

  2006 2007 2008 2009 2010 2011
Meðaltekjur á mánuði (nettó)* 217.060 227.927 1.128.663 244.040 469.119 631.769
Eignir alls 39.778.400 46.023.334 45.832.875 44.017.722 34.230.922 38.712.540
· C götu nr. 20 38.450.000 42.780.000 42.780.000 38.050.000 33.450.000 36.850.000
· Ökutæki 1.328.400 3.243.000 2.918.700 2.944.830 463.347 786.900
· Bankainnstæður   334 134.175 3.022.892 317.575 1.075.640
Skuldir 22.526.997 34.358.696 70.971.655 80.554.313 80.850.439 66.184.882
Nettóeignastaða 17.251.403 11.664.638 -25.138.780 -36.536.591 -46.619.517 -27.472.342

*Þar með taldar fjármagnstekjur.

Samkvæmt því sem fram kemur annars vegar í gögnum málsins og hins vegar í skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru skuldir kærenda eftirtaldar í krónum:

Kröfuhafi Ár Tegund Upphafleg Staða Vanskil
      fjárhæð 2012 frá
LÍN   Námslán 5.446.687
Arion banki   Greiðslukort 2.306.757
Arion banki   Yfirdráttur 3.097.582
Arion banki   Veðkrafa 47.430.305 49.646.968
Innheimtustofnun sveitarfélaga 1997 Meðlög 1.948.266 3.456.239 1997
Tollstjóri 2001-2011 Opinber gjöld 2.907.292 2001
Frjálsi fjárfestingarbankinn 2005 Bílalán 712.045 761.129 2009
Lýsing 2006 Bílasamningur 2.859.750 1.493.019 2008
Frjálsi fjárfestingarbankinn 2007 Erlent bílalán 3.078.318 5.055.907 2010
Ýmsir 2007-2011 Reikningar 1.185.616 2.855.012 2007
Drómi   Veðskuldabréf 662.360 786.659 2010
Drómi   Bílalán 4.399.815 5.225.494 2010
Íslandsbanki 2010 Yfirdráttur 196.108 2010
Alls 62.276.475 83.234.853

Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Er því óhjákvæmilegt að til þeirra atriða sé litið við mat á því hvort heimila beri greiðsluaðlögun. Í 1. mgr. 6. gr. eru taldar upp þær ástæður sem leiða til þess að umboðsmaður skuldara skuli hafna umsókn skuldara. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef augljóst má vera að óhæfilegt sé að veita hana. Í því lagaákvæði eru taldar upp ástæður sem eiga það sameiginlegt að ekki getur verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verður að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi að lge. Í framhaldinu eru í sjö stafliðum rakin atriði sem umboðsmaður skuldara skal sérstaklega líta til við mat á slíku. Ekki skiptir máli varðandi mat umboðsmanns skuldara á þessum atriðum þótt ekki hafi verið sett reglugerð um greiðsluaðlögun einstaklinga samkvæmt 34. gr. lge., eins og kærendur halda fram. Meðal þessara atriða eru b- og c-liðir 2. mgr. 6. gr. lge. sem þegar hefur verið gerð grein fyrir en umboðsmaður skuldara synjaði kærendum um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli þessara ákvæða.

Kærendur sóttu um greiðsluaðlögun á þar til gerðu eyðublaði umboðsmanns skuldara. Umsóknin er að öllu leyti útfyllt á þann hátt er eyðublaðið gerir ráð fyrir. Meðal þeirra atriða sem þar skal gera grein fyrir eru skuldir viðkomandi umsækjenda. Það skal gert þannig að tilgreina skal fyrir hvert og eitt lán hvenær lán sé tekið, nafn lánastofnunar, númer láns, kennitölu lántaka, tegund láns og ástæður fyrir lántöku. Ekki er gert ráð fyrir að fjárhæð lána komi þar fram. Með umsókn eiga að fylgja skattframtöl síðustu fjögurra ára, síðasti álagningarseðill, upplýsingar um tekjur síðustu þriggja mánaða, greinargerð og undirritað samþykki til umboðsmanns skuldara fyrir gagnaöflun. Á umsókninni, sem var móttekin af umboðsmanni skuldara 30. júní 2011, er merkt við öll tilskilin fylgigögn nema greinargerð sem barst 3. september 2012. Því verður að ganga út frá því að kærendur hafi afhent gögnin með umsókn sinni.

Samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. skulu koma fram í umsókn um greiðsluaðlögun sundurliðaðar upplýsingar um fjárhæðir skulda sem þegar eru gjaldfallnar, svo og fjárhæðir ógjaldfallinna skulda og ábyrgða og eftir atvikum upplýsingar um afborgunarkjör, gjalddaga, vexti og verðtryggingu þeirra. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. lge. skal umboðsmaður skuldara ganga úr skugga um að í umsókn skuldara komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og getur hann ef þörf krefur krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingarnar með skriflegum gögnum. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. lge. skal umboðsmaður skuldara auk þess afla frekari upplýsinga sem hann telur geta skipt máli varðandi skuldir, eignir, tekjur og framferði skuldara, áður en hann tekur ákvörðun um hvort veita skuli heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Þótt umboðsmanni skuldara beri skylda til að afla frekari upplýsinga eftir að umsókn um greiðsluaðlögun er lögð fram samkvæmt 5. gr. lge. verður einnig að líta til þess að skuldara ber að taka virkan þátt og sýna viðeigandi viðleitni við vinnslu máls. Mikilvægt er talið að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um allt sem lýtur að fjárhagslegum málefnum hans enda ber umboðsmanni skuldara að synja um heimild til greiðsluaðlögunar í þeim tilvikum er skuldari lætur hjá líða að leggja fram viðhlítandi gögn. Samkvæmt frumvarpi til lge. er hér einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa.

Rannsóknarregla 5. gr. lge. styðst við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en samkvæmt henni ber stjórnvaldi að rannsaka mál og afla nauðsynlegra og réttra upplýsinga um málsatvik áður en ákvörðun er tekin í því. Stjórnvaldi er nauðsynlegt að þekkja staðreyndir málsins til að geta tekið efnislega rétta ákvörðun. Það fer svo eftir eðli máls og gildandi réttarheimildum hverju sinni hverra upplýsinga stjórnvaldi beri að afla um viðkomandi mál.

Tilgangur greiðsluaðlögunar samkvæmt 1. gr. lge. er að koma á jafnvægi á milli skulda og greiðslugetu í þeim tilvikum er skuldari uppfyllir skilyrði lge. Einn meginþáttur umboðsmanns skuldara í rannsókn greiðsluaðlögunarmáls er því eðli málsins samkvæmt að staðreyna fjárhæðir skulda viðkomandi umsækjanda. Annar þáttur er að leggja mat á hvort skuldari hafi tekist á hendur fjárskuldbindingar á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við þær.

Eins og sjá má af lýsingu umsóknareyðublaðs um heimild til greiðsluaðlögunar, er eyðublaðið ekki að öllu leyti í samræmi við 3. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. að því er varðar tilgreiningu á fjárhæð skulda. Það verður þó að mati kærunefndarinnar ekki talið koma að sök þar sem umboðsmaður fór þess í stað fram á undirritað samþykki fyrir gagnaöflun. Gerir verklag umboðsmanns þannig ráð fyrir að embættið afli þessara upplýsinga við meðferð máls.

Gögn málsins benda til þess að kærendur skuldi Arion banka vegna greiðslukorts og yfirdráttarláns. Tilgreindar fjárhæðir eru ekki studdar neinum gögnum. Ekki liggur fyrir hvenær til þeirra var stofnað. Við vinnslu málsins óskaði kærunefndin eftir því við umboðsmann skuldara að nefndinni yrðu látin í té þau gögn er umboðsmaður byggði á við töku ákvörðunar. Fram kom í svari umboðsmanns að upplýsingar um skuldirnar hefðu verið fengnar úr svonefndri rafrænni gagnaveitu árið 2012 en embættið hefði ekki aflað skjalfestra gagna. Einnig kom fram í svari umboðsmanns að Arion banki gæti ekki látið í té upplýsingar um stöðu skuldanna árið 2012.

Þá liggur fyrir að kærendur skulda Arion banka vegna veðláns. Í málsgögnum eru upplýsingar um lánið misvísandi. Á veðbandayfirliti kemur fram að um sé að ræða veðskuldabréf með vöxtum, gefið út 3. maí 2005 í erlendri myntkörfu að fjárhæð 26.000.000 króna. Í málsgögnum eru engin skuldaskjöl fyrirliggjandi og í svari við fyrirspurn kærunefndarinnar greinir umboðsmaður skuldara frá því að upplýsingar um skuldina hefðu verið fengnar úr fyrrnefndri gagnaveitu. Í tilefni af fyrirspurn kærunefndarinnar sendi embætti umboðsmanns skuldara fyrirspurn til Arion banka og óskaði eftir upplýsingum um stöðu skuldarinnar um mitt ár 2012. Bankinn sendi til baka tvö yfirlit vegna láns nr. 18635 sem sögð eru sýna stöðuna annars vegar eftir endurútreikning 1. júní 2012 og hins vegar í ágúst 2014. Á báðum yfirlitum kemur fram að veðskuldabréfið sé gefið út 15. ágúst 2011 og sé upphaflega að fjárhæð 47.430.305 krónur. Lánið er sagt nema 49.563.557 krónum 1. júní 2012 en 21.962.768 krónum í ágúst 2014. Séu skattframtöl kærenda skoðuð er ekki gerð grein fyrir síðastnefnda láninu fyrr en í skattframtali vegna ársins 2011. Í fyrirliggjandi skattframtölum vegna áranna 2007 til 2011 er gerð grein fyrir láni nr. 2283 frá Kaupþingi sem sagt er tekið 3. maí 2005. Lán nr. 18635 kemur á hinn bóginn fyrst fram á skattframtali vegna ársins 2011. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið er ómögulegt að ráða hver hefur verið fjárhæð húsnæðisláns kærenda á þeim tíma er hér skiptir máli. Ekki liggja heldur fyrir skilmálar lánsins, þar með talin greiðslubyrði, þegar það var tekið.

Það er mat umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ítrekað stofnað til nýrra skulda á árunum 2006, 2007 og 2008 þegar þau gátu ekki staðið undir lágmarksframfærslu fjölskyldu sinnar. Því hafi ákvæði b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. verið uppfyllt, þar sem kærendur hafi stofnað  til frekari skulda á þeim tíma er þau hafi greinilega verið ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Auk þess hafi kærendur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu þeirra á þeim tíma sem til verulegra fjárhagsskuldbindinga var stofnað.

Eins og rakið er hér að framan liggur ekki fyrir í gögnum málsins hverjir voru upphaflegir skilmálar íbúðarláns sem tekið var árið 2005, hvorki afrit af bréfinu sjálfu né yfirlitsgögn frá banka um greiðslubyrði af því. Er því ómögulegt fyrir kærunefndina að leggja mat á hvort kærendur hafi haft fjárhagslega burði til að greiða af láninu. Þá liggja engin gögn fyrir sem benda til annars en að hækkun íbúðarláns milli ára sé að rekja til gengistryggingar þess. Kærunefndin telur því ófullnægjandi að vísa með órökstuddum hætti til þess, eins og gert er í hinni kærðu ákvörðun, að kærendur hafi frá árinu 2007 til 2008 tvöfaldað skuldir sínar vegna íbúðarlána. Ekki liggur heldur fyrir hvenær kærendur stofnuðu til yfirdráttar- og greiðslukortaskulda. Í ljósi þessa verður því ekki slegið föstu að með bílasamningi vegna bifreiðarkaupa 5. maí 2006 og bílaláni 19. mars 2007 hafi kærendur stofnað til skulda á þeim tíma sem þau voru greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar eða hafi með því hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt. Út frá þessu er ekki hægt að fullyrða að kærendur hafi ítrekað stofnað til nýrra skulda á árunum 2006 til 2008 og á sama tíma ekki getað staðið undir lágmarksframfærslu fjölskyldunnar. Í því ljósi telur kærunefndin ekki unnt að slá því föstu að ákvæði b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. eigi við um kærendur. Þá getur kærunefndin ekki að svo stöddu tekið undir órökstudda ályktun umboðsmanns skuldara um að framtaldar fjármagnstekjur kærenda að fjárhæð 10.458.030 krónur árinu 2008 hafi gefið ranga mynd af mánaðarlegum tekjum þeirra. Með vísan til alls þessa verður að telja að gagnaöflun í málinu hafi verið áfátt af hálfu umboðsmanns skuldara.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að A og B hafi verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar án þess að umboðsmaður skuldara hafi sinnt rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 5. gr. lge. með fullnægjandi hætti. Ber því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

 ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um synjun á umsókn A og B um greiðsluaðlögun er felld úr gildi.

 Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta