Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 173/2012

Fimmtudaginn 11. september 2014

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 12. september 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 5. september 2012 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 17. september 2012 óskaði kærunefndin eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 29. október 2012.

Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kæranda til kynningar með bréfi 1. nóvember 2012 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi 11. nóvember 2012. Voru þær sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 14. nóvember 2012 og óskað eftir afstöðu embættisins. Engar frekari athugasemdir bárust frá umboðsmanni skuldara.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1969. Hann býr ásamt eiginkonu sinni og tveimur börnum í eigin fasteign að B götu nr. 16, í sveitarfélaginu C. Kærandi starfar hjá X en hann hefur meirapróf og stýrimannsréttindi.

Launatekjur kæranda eftir skatta að meðtöldum bótum og sérstakri vaxtaniðurgreiðslu eru samtals 255.475 krónur á mánuði. Þá fá kærandi og eiginkona hans mánaðarlega 29.000 krónur í umönnunarbætur.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 36.995.360 krónur og þær falla allar innan samnings um greiðsluaðlögun samkvæmt 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Eiginkona kæranda fékk samþykkta greiðsluaðlögun árið 2009. Kærandi hefur í tvígang sótt um greiðsluaðlögun en ekki fengið. Að sögn kæranda má rekja greiðsluerfiðleika þeirra hjóna til þess að þau hafi ítrekað orðið atvinnulaus þar sem fyrirtæki sem þau hafi unnið hjá hafi orðið gjaldþrota. Af þeim sökum hafi þau orðið að fjármagna rekstur heimilisins með óhagstæðum lánum.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 29. mars 2011 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar. Umsjónarmaður var skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hans.

Með bréfi umsjónarmanns 22. mars 2012 lagði hann til við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður á grundvelli 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem kærandi hafi brugðist skyldum sínum með því að leggja ekki til hliðar fjármuni í samræmi við greiðslugetu frá því að frestun greiðslna, svonefnt greiðsluskjól, hófst 11. febrúar 2011. Kærandi hafði upplýst umsjónarmann um að sér hafi verið nauðsynlegt að kaupa bifreið fyrir 700.000 krónur til heimilisnota. Á þetta féllst umsjónarmaður þar sem bifreiðin hafi verið nauðsynleg til að kærandi gæti séð sér og fjölskyldu sinni farborða. Þegar tekið hafi verið tillit til bifreiðakaupanna reiknist umsjónarmanni til að kærandi hefði átt að geta lagt til hliðar allt að 1.356.000 krónur af tekjum sínum og öðrum launum í greiðsluskjólinu.

Með bréfi umboðsmanns skuldara 13. júlí 2012 var kærandi upplýstur um afstöðu umsjónarmanns. Var honum gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir.

Umboðsmanni skuldara barst svar með bréfi 23. júlí 2012. Einnig bárust umboðsmanni kvittanir og reikningar frá kæranda með tölvupósti 25. júlí s.á. Þar greindi kærandi frá því að umsjónarmaður hefði ekki leiðbeint honum um hvernig leggja ætti fyrir né um aðra meðferð máls. Kærandi kvaðst ekki hafa haft þá greiðslugetu sem umsjónarmaður gerði ráð fyrir. Umsjónarmanni hafi verið fullkunnugt um tekjumynstur sitt en laun sín séu óregluleg, hæst yfir sumarmánuðina. Sé óskað eftir frekari gögnum muni kærandi láta þau í té.

Með bréfi til kæranda 5. september 2012 felldi umboðsmaður skuldara niður ákvörðun sína frá 29. mars 2011 um heimild kæranda til greiðsluaðlögunar með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

 II. Sjónarmið kæranda

Málatilbúnað kæranda verður að skilja svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir hans verði felld úr gildi.

Kærandi telur að tómlæti hafi verið sýnt við afgreiðslu máls hans. Á árinu 2009 hafi bæði hann og eiginkona hans farið með sameiginleg fjármál heimilisins í greiðsluaðlögun. Eiginkona kæranda hafi fengið heimild til að leita greiðsluaðlögunar en hann ekki. Því hafi hann þurft að sækja um að nýju og verið hafnað í september 2012. Af þeim sökum sé fjárhagsstaða heimilisins enn í óvissu.

Það er mat kæranda að ráðgjöf, stuðningur og upplýsingaskylda umsjónarmanns hafi verið ómarkviss og villandi. Samskipti hafi verið lítil og langt á milli þeirra en kærandi hafi oft haft samband við umsjónarmann að fyrra bragði.

Einnig telur kærandi að útreiknuð greiðslugeta sé röng. Öll gögn hafi verið aðgengileg umboðsmanni skuldara og umsjónarmanni. Ef rekstur heimilisins í heild sé skoðaður sjáist að greiðslugeta sé engin.

Kærandi kveðst hafa verið kunnugt um skyldu sína til að leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum í greiðsluskjóli. Hann gerir þó athugasemdir við leiðbeiningarskyldu umsjónarmanns og mat hans á greiðslugetu sinni. Á sama tíma og kærandi leggi fram gögn um ráðstöfunartekjur sínar og útgjöld hefði mátt ætla hversu háa fjárhæð hann hefði getað lagt til hliðar. Kærandi hafi reynt að sýna umsjónarmanni fram á þetta en umsjónarmaður hafi byggt á meðaltalsútreikningi. Slíkt eigi ekki við í tilviki kæranda þar sem töluverðar sveiflur séu á milli mánaða í launum. Í fyrirliggjandi gögnum sé vísað til útreiknings yfir meðaltekjur á 17 mánaða tímabili. Að áliti kæranda gefi þetta tímabil ekki rétta mynd af ráðstöfunartekjum hans þótt heildartekjur tímabilsins séu réttar. Hann hafi margsinnis lagt fram upplýsingar er sýni það. Sú uppsetning að gera ráð fyrir að hann hefði átt að getað lagt til hliðar um 2.000.000 króna sé einföldun.

Í lok mars 2012 hafi umsjónarmaður sagt sig frá málinu og kveðst kærandi ekki hafa fengið leiðbeiningar um framvindu málsins. Umboðsmaður skuldara hafi sent kæranda bréf um miðjan júlí 2012 þar sem honum hafi verið gefinn kostur á að leggja fram frekari gögn. Kærandi hafi ekki þekkingu til að átta sig á því hvaða gögn gætu haft áhrif á umfjöllun og afgreiðslu málsins og um það hafi hann ekki fengið leiðbeiningar.

 III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á greiðsluaðlögunarumleitunum kemur fram að einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar sem sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Í 1. mgr. 15. gr. lge. segi að ef fram komi upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 29. mars 2010 hafi kæranda verið veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Umsjónarmaður hafi í kjölfarið verið skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum. Þann 22. febrúar 2012 hafi embættinu borist bréf umsjónarmanns þar sem lagt hafi verið til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður á grundvelli 15. gr. lge. þar sem kærandi hefði ekki rækt skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Í 1. mgr. 12. gr. lge. séu tilteknar skyldur skuldara við greiðsluaðlögun þegar frestun greiðslna standi yfir. Í a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. segi að á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar skuli skuldari leggja til hliðar af launum sínum og öðrum tekjum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að öllum umsækjendum um greiðsluaðlögun sem notið hafi frestunar greiðslna hafi verið sent bréf 8. apríl 2011 þar sem brýndar hafi verið skyldur þeirra samkvæmt 12. gr. lge. Umræddar upplýsingar sé einnig að finna á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Að auki séu skyldur í greiðsluskjóli ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og umsækjenda. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar kæranda 29. mars 2011 sem borist hafi kæranda með ábyrgðarbréfi. Kæranda hafi því mátt vera vel ljóst að hann skyldi halda þeim fjármunum, sem hann átti aflögu í lok hvers mánaðar, til greiðslu af skuldum sínum, þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.

Frestun greiðslna í máli kæranda hafi staðið yfir frá því í febrúar 2011 eða í rúmlega 17 mánuði. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi haft alls 5.550.119 krónur í launatekjur árið 2011 að frádregnum sköttum að febrúarmánuði undanskildum og fram til loka júlí. Séu þá ótaldar aðrar tekjur kæranda á árunum 2011 og 2012 en það hafi verið sérstök vaxtaniðurgreiðsla, barna- og vaxtabætur alls að fjárhæð 177.669 krónur. Samkvæmt þessu hafi heildartekjur kæranda í greiðsluskjóli numið 5.727.788 krónum. Geri það mánaðarlegar meðaltekjur að fjárhæð 336.928 krónur.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kæranda hafi mest verið 178.040 krónur í greiðsluskjólinu. Miðað sé við helming heildarfjárhæðar útgjalda samkvæmt framfærsluviðmiðum ágústmánaðar 2012 fyrir tvo fullorðna og tvö börn. Tekið sé mið af nýjustu mögulegu framfærsluviðmiðum í því skyni að kæranda sé veitt svigrúm til að bregðast við óvæntum, minni háttar útgjöldum, enda liggi fyrir að heildarfjárhæð útgjalda hafi verið eitthvað lægri í upphafi greiðsluskjóls. Samkvæmt þessu sé gengið út frá því að kærandi hafi að öllu óbreyttu átt að hafa getað lagt fyrir 2.701.096 krónur miðað við meðalgreiðslugetu að fjárhæð 158.888 krónur á mánuði í 17 mánuði. Sé tekið tillit til bifreiðakaupa kæranda að fjárhæð 700.000 krónur megi gera ráð fyrir að kærandi hafi haft getu til að leggja til hliðar 2.001.096 krónur. Samkvæmt fyrirliggjandi eignayfirliti eigi kærandi 445.080 krónur inni á bankareikningi. Hafi hann því einungis lagt fyrir rúmlega fimmtung þeirrar fjárhæðar sem honum hefði átt að vera unnt að leggja til hliðar í greiðsluskjóli.

Með bréfi 13. júlí 2012 hafi umboðsmaður skuldara veitt kæranda tækifæri til þess að koma gögnum á framfæri og veita upplýsingar vegna þeirra atvika sem uppi hafi verið í málinu. Kærandi hafi borið því við að hann hafi ekki verið upplýstur um skyldur sínar samkvæmt a‒d-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. Einnig hafi kærandi talið að útreikningar umboðsmanns á heildartekjum hans væru rangir. Kærandi hafi ekki rökstutt þessar fullyrðingar með viðeigandi gögnum.

Kærandi hafi á hinn bóginn lagt fram gögn sem sýni fram á eftirfarandi kostnað í krónum:

Kostnaðarliður Fjárhæð
Lækniskostnaður 9.000
Tannlæknakostnaður 48.413
Húsgögn 110.000
Bílaviðgerðir 105.061
Lyf og snyrtivörur 91.891
Samtals 364.365

Þessi gögn verði ekki talin sýna fram á aukin útgjöld kæranda í greiðsluskjóli þar sem þegar sé gert ráð fyrir þessum kostnaði í framfærsluviðmiðum og greiðsluáætlun. Umboðsmaður skuldara vísar til þess að umsjónarmaður eigi ávallt að notast við það framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji, sbr. 4. mgr. 16. gr. lge. Umsjónarmanni sé almennt óheimilt að miða við aðra og hærri framfærslu en þá sem reiknuð hafi verið fyrir umsækjendur með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara séu byggð á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og breytist með tilliti til vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar að umsækjendum sé jafnan veitt nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í hverjum mánuði. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir almennan heimilisrekstur, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt því sem fram hafi komið og með hliðsjón af gögnum málsins hafi embættið talið liggja fyrir að kærandi hefði ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt 12. gr. lge. og því hafi heimild til greiðsluaðlögunar verið felld niður með vísan til 15. gr. lge.

Ljóst sé að ferli við greiðsluaðlögunarumleitanir og greiðsluaðlögun kæranda og eiginkonu hans hafi verið flókið. Þannig muni eiginkona kæranda hafa gengið í gegnum greiðsluaðlögun samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009. Kæranda hafi áður verið synjað um staðfestingu nauðasamnings um greiðsluaðlögun, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 645/2009. Kærandi hafi síðan sótt um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara í febrúar 2011. Þessi atvik leiði þó ekki til þess að dregið verði úr skyldum skuldara samkvæmt 12. gr. lge. enda ekki heimilt að víkja frá þeim. Við útreikninga hafi umboðsmaður tekið tillit til breytilegra tekna kæranda á því tímabili sem skipti máli og miðað sé við meðaltal heildartekna.

Skuldari skuli jafnan sjálfur útvega nauðsynleg gögn og koma þeim til umboðsmanns skuldara, sbr. 4. mgr. 4. gr. lge. Kærandi hafi vísað til þess í rökstuðningi með kæru að öll gögn, svo sem færslur á bankareikningum, hafi verið aðgengileg umsjónarmanni og umboðsmanni skuldara. Umboðsmaður skuldara afli þeirra gagna sem tilefni þyki til hverju sinni. Í tilviki kæranda hafi ekki verið tilefni til að afla reikningsyfirlita hjá fjármálafyrirtækjum enda hafi skýringar kæranda ekki gefið tilefni til þess. Ekki verði séð hvað þau gögn hefðu sýnt fram á. Hafi kærandi talið að gögnin hefðu getað leitt til annarrar niðurstöðu hefði hann sjálfur getað lagt þau fram, enda hafi verið skorað á hann í fyrrgreindu bréfi frá 13. júlí 2012 að gera það.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 12. gr. lge.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari við greiðsluaðlögun leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunar­umleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Eins og fyrr greinir lagði umsjónarmaður það til með bréfi 22. mars 2012 til umboðsmanns skuldara að heimild kæranda til greiðsluaðlögunar yrði felld niður þar sem kærandi hefði að hans mati brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að leggja ekki til hliðar fjármuni í samræmi við greiðslugetu á því tímabili sem frestun greiðslna stóð yfir.

Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi lagt til hliðar alls 445.080 krónur frá því að frestun greiðslna hófst í febrúar 2011. Samkvæmt útreikningum umsjónarmanns hefði kærandi átt að leggja til hliðar alls 1.356.000 krónur, að teknu tilliti til framfærslu og kaupa á bíl. Að mati umboðsmanns skuldara hefði kæranda átt að vera mögulegt að leggja til hliðar 2.001.096 krónur á 17 mánaða tímabili greiðsluaðlögunarumleitana, þegar tekið hefur verið tillit til kaupa á bíl, í samræmi við skyldur hans samkvæmt a-lið 12. gr. lge. þar til ákvörðun umboðsmanns skuldara lá fyrir.

Í kæru kveður kærandi útreikning á greiðslugetu rangan þar sem kærandi og eiginkona hans hafi ekki haft neina fjármuni umfram það sem þurft hafi til framfærslu fjölskyldunnar. Því til stuðnings vísar kærandi til gagna sem fyrirliggjandi séu hjá umboðsmanni skuldara. Í bréfi kæranda til kærunefndarinnar 11. nóvember 2012 segir að í fyrirliggjandi gögnum, þar sem vísað sé til útreiknings um meðaltekjur yfir 17 mánaða tímabil, komi ekki fram rétt mynd af mánaðarlegu sjóðstreymi þótt heildartekjur tímabilsins séu réttar.

Af málatilbúnaði kæranda verður í fyrsta lagi ráðið að hann telji að greiðslugeta hans sé minni en útreikningar sýni þar sem tekjur hans hafi verið óreglulegar á því tímabili sem hér skiptir máli. Í öðru lagi að framfærslukostnaður hafi verið svo hár að engir fjármunir hafi verið eftir til að leggja til hliðar.

Að því er varðar fyrra atriðið hefur kærandi hvorki rökstutt né sýnt fram á hvernig meintar óreglulegar tekjur hans hafi leitt til þess að greiðslugeta á umræddu tímabili hafi orðið minni en ef um reglulegar tekjur væri að ræða. Það gefur augaleið að þegar greiðslugeta yfir lengra tímabil er metin verður að miða bæði við tekjur og gjöld í heild yfir tímabilið. Öðruvísi fæst ekki raunveruleg greiðslugeta skuldara á tímabilinu.

Að því er varðar síðara atriðið hefur kærandi framvísað reikningum og kvittunum vegna útgjalda að fjárhæð 364.365 krónur. Útgjöld þessi eru vegna húsgagnakaupa, bílaviðgerða, tannlæknis- og lyfjakostnaðar á 17 mánaða tímabili greiðsluskjóls. Er ekki unnt að skilja framsetningu kæranda á annan hátt en að hann telji nefnd útgjöld hafa verið umfram framfærsluviðmið umboðsmannsins. Með vísan til 4. mgr. 16. gr. lge. ber að notast við það framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara gerir ráð fyrir þeim útgjöldum er kærandi tiltekur. Því er ekki unnt að fallast á að kærandi hafi haft útgjöld til framfærslu á tímabilinu umfram framfærsluviðmið.

Kærandi vísar einnig til reikningsyfirlita fyrir bankareikning sinn og kveður þau eiga að sýna fram á framfærslukostnað sinn. Reikningsyfirlitin eru ekki meðal gagna málsins en ekki verður talið að reikningsyfirlit ein og sér sýni fram á framfærslukostnað kæranda. Reikningsyfirlit sýna peningaúttektir og millifærslur af bankareikningi, fjárhæðir þeirra og dagsetningar. Þau sýna á hinn bóginn ekki sundurliðun á þeim fjárhæðum sem teknar eru út eða til hvers fjármunirnir eru nýttir. Því fellst kærunefndin ekki á þetta sjónarmið kæranda.

Til þess að umboðsmaður skuldara geti lagt mat á hvort undantekningar frá meginreglu eigi við um skyldur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. verða að liggja fyrir viðeigandi gögn sem sýna fram á að fjármunum hafi í raun verið ráðstafað með þeim hætti sem haldið er fram. Kærandi hefur ekki lagt fram viðhlítandi gögn til stuðnings skýringum sínum um ráðstöfun þessara fjármuna, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Er það mat kærunefndarinnar að jafnvel þótt kæranda væri eftirlátið meira svigrúm til framfærslu en útreikningar umsjónarmanns miða við hafi hann ekki sýnt fram á að staða hans hafi verið þannig að hann hafi aðeins getað lagt fyrir 445.080 krónur á 17 mánaða tímabili greiðsluaðlögunarumleitana. Í ljósi þess verður að fallast á það mat umboðsmanns skuldara að kærandi hafi brugðist skyldu sinni við greiðsluaðlögun samkvæmt greindu lagaákvæði.

Kærandi kvartar enn fremur yfir því að honum hafi ekki verið leiðbeint með fullnægjandi hætti. Almennt verður að telja að umboðsmanni skuldara beri að veita þær leiðbeiningar sem nauðsynlegar eru til að mál fái rétta meðferð. Með bréfi 13. júlí 2012 sendi umboðsmaður skuldara kæranda tilkynningu vegna afstöðu umsjónarmanns. Í bréfinu er tiltekið hvaða skyldum kærandi er talinn hafa brugðist og hvers vegna. Þar er honum sérstaklega gefið tækifæri til þess að koma sjónarmiðum sínum og leiðréttingum á framfæri og leiðbeint um að staða málsins væri sú að leitt gæti til synjunar á umsókn kæranda. Telur kærunefndin að um hafi verið að ræða gögn og upplýsingar sem ekki hafi verið á færi annarra en kæranda að leggja fram.

Í ljósi alls þessa verður því að líta svo á að kærandi hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. á meðan leitað var greiðsluaðlögunar í máli hans. Eru því fram komnar upplýsingar sem hindra að greiðsluaðlögun verði talin heimil á grundvelli laganna. Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar er með vísan til þess og til 1. mgr. 15. gr. lge. staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

 Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta