Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 182/2012

Fimmtudaginn 4. september 2014

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 26. september 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 10. september 2012 þar sem umsókn hans um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 1. október 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 12. nóvember 2012.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 14. nóvember 2012 og var kæranda gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1968, einhleypur og búsettur í leiguhúsnæði. Hann lagði inn umsókn um greiðsluaðlögun 30. júní 2011. Í umsókninni er greint frá því að kærandi eigi þrjú börn sem hann greiði meðlag með. Þá eigi kærandi 50% eignarhluta í fasteign, sem nemi 24.075.000 krónum samkvæmt verðmati. Kærandi sé í fullu starfi sem málari og séu tekjur hans 132.696 krónur að meðaltali á mánuði eftir greiðslu skatta. Að auki fái kærandi mánaðarlega 33.333 krónur í vaxtabætur, 8.358 krónur í sérstaka vaxtaniðurgreiðslu og 115.000 krónur í leigutekjur. Ráðstöfunartekjur kæranda séu því að meðaltali 289.387 krónur á mánuði.

Samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara nema heildarskuldir kæranda 57.806.270 krónum en af þeim falla 3.305.889 krónur utan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skuldbindinga kæranda var stofnað á árinu 2005.

Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til atvinnuleysis, tekjulækkunar, vankunnáttu í fjármálum og veikinda. Kærandi hafi unnið sjálfstætt en hafi glímt við verkefnaskort frá árinu 2008. Kærandi hafi skilið við maka sinn árið 2009. Sama ár hafi hann greinst með alvarleg veikindi sem hafi haft mikil áhrif á starfsþrek hans.

Umsókn kæranda var metin fullbúin 10. september 2012 og var hún í kjölfarið tekin til formlegrar afgreiðslu hjá umboðsmanni skuldara. Kæranda var, í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga, tilkynnt með tölvupósti 11. júlí 2012 að á grundvelli b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. væri umboðsmanni skylt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýndu ekki fram á að skuldari uppfyllti skilyrði laganna til þess að leita greiðsluaðlögunar. Óskað var eftir frekari gögnum og upplýsingum frá kæranda, en þau gögn sem óskað var eftir voru skattframtal 2012, vegna tekna ársins 2011, og upplýsingar um tekjur síðustu þriggja mánaða. Kærandi afhenti embættinu ekki umbeðin gögn.

Skattframtal frá 2012 vegna tekna á árinu 2011 barst ekki embættinu, né upplýsingar um tekjur síðustu þriggja mánaða. Að mati umboðsmanns skuldara gáfu fyrirliggjandi gögn því ekki nægilega glögga mynd af fjárhag kæranda og/eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Að mati umboðsmanns skuldara uppfyllti kærandi ekki skilyrði lge. til að leita greiðsluaðlögunar og var honum því synjað um heimild til þess með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru eru ekki settar fram sérstakar kröfur, en skilja verður málatilbúnað kæranda þannig að hann krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Í kæru kemur fram að vegna „klaufaskapar og misskilnings“ hafi farist fyrir að skila umbeðnum gögnum til umboðsmanns skuldara. Hafi kærandi haldið að skattskýrslu hafi verið skilað, en hún hafi enn verið hjá endurskoðanda. Óskaði kærandi eftir við kærunefnd greiðsluaðlögunarmála að fá frest til að skila inn gögnum þessum. Kærandi tekur fram að tölvukunnátta hans sé ekki góð og bendir á að ekki hafi verið haft samband við hann símleiðis við meðferð málsins sem geti verið ástæða þess að svona hafi farið.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að sá einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar sem sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Sé þá miðað við að hann geti ekki eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skuldanna, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hans að öðru leyti.

Við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni skuldara einkum að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að farið hafi verið yfir umsókn kæranda og meðfylgjandi gögn. Í kjölfarið hafi starfsmenn embættisins ítrekað óskað eftir frekari gögnum og upplýsingum frá kæranda. Óskað hafi verið eftir skattframtali 2012 vegna tekna 2011 og upplýsingum um tekjur síðustu þriggja mánaða frá því að umsókn lá fyrir fullbúin. Beiðni um gögnin hafi verið send með tölvupósti 27. júní 2012 og 2. júlí hafi verið send ítrekuð beiðni um upplýsingar með ábyrgðarpósti þar sem frestur hafi verið veittur til 11. júlí 2012. Hafi óstaðfestu afriti af skattframtali verið skilað með tölvupósti 10. júlí af B hjá X ehf. Kærandi hafi þá verið upplýstur um það með tölvupósti 11. júlí að skila þyrfti framtali staðfestu af ríkisskattstjóra og honum veittur frestur til 13. júlí til að skila því. Hafi staðfestu afriti af skattframtali 2011 vegna tekna ársins 2010 verið skilað til embættisins 13. júlí 2012.

Skattframtali frá 2012 vegna tekna ársins 2011 hafi ekki borist embættinu, né upplýsingar um tekjur síðustu þriggja mánaða frá því að umsóknin lá fyrir fullbúin. Því gæfu fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag kæranda og/eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Af þeim sökum bæri umboðsmanni skuldara að synja umsókn kæranda um greiðsluaðlögun á grundvelli b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.

Í greinargerð umboðsmanns skuldara kemur fram að leggja verði þær skyldur á kæranda að hann afhendi þau gögn sem skulu fylgja með umsókn um greiðsluaðlögun, sbr. 3. mgr. 4. gr. lge. Gögnin hafi ekki fylgt með umsókn hans og ekki fengist afhent þrátt fyrir að óskað hafi verið eftir þeim eins og að framan greini. Ákvörðun í máli kæranda hafi verið tekin rúmum tveimur mánuðum eftir að hann hafi upphaflega verið hvattur til að afhenda gögnin og hafi kærandi því haft nægan tíma til að skila gögnunum. Þá vísar umboðsmaður til þess að í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 6/2011 frá 4. júlí 2011 hafi nefndin talið að kæranda hefði verið gefinn nægur tími til að skila gögnum. Í því máli hefði kærandi haft tæpa fjóra mánuði til að skila inn umbeðnum gögnum þegar umsókn hans var tekin til afgreiðslu og rúma tvo mánuði til að skila gögnum eftir að óskað var sérstaklega eftir þeim gögnum sem um ræddi. Um sé að ræða sams konar mál og hér sé til umfjöllunar.

Þá áréttar umboðsmaður að það sé aðeins á færi kæranda að leggja fram þau gögn sem óskað hafi verið eftir við vinnslu málsins, en samkvæmt 4. mgr. 4. gr. lge. beri skuldara að útvega nauðsynleg gögn og koma þeim til umboðsmanns skuldara. Hafi þetta meðal annars verið staðfest í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 5/2011 frá 21. júní 2011.

Gerir umboðsmaður skuldara þá kröfu að ákvörðun um að synja kæranda um heimild til að leita eftir greiðsluaðlögun frá 10. september 2012 verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. þar sem kveðið er á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Við mat á því hvað teljist vera nægilega glögg mynd af fjárhag skuldara telur kærunefndin meðal annars rétt að líta til 4. og 5. gr. lge.

Í 4. gr. lge. er gerð grein fyrir umsókn um greiðsluaðlögun. Í 1. mgr. 4. gr. er upptalning í 11 töluliðum á því sem koma skal fram í umsókninni. Í 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. segir að í umsókn um greiðsluaðlögun skuli koma fram hverjar tekjur skuldara séu, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðist, svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum. Í athugasemdum með 4. gr. lge. kemur fram að gert sé ráð fyrir að skuldari, eftir atvikum með aðstoð umboðsmanns skuldara, leggi mat á hversu háa fjárhæð hann geti greitt mánaðarlega til að standa skil á skuldbindingum sínum. Upptalning 1. mgr. sé ekki tæmandi, enda sé gert ráð fyrir að umboðsmaður skuldara geti krafist þess að skuldari afli frekari upplýsinga en tilgreindar eru í ákvæðinu.

Í 5. gr. er kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og getur embættið krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingarnar með gögnum. Rannsókn á fjárhagsstöðu skuldara hefur bæði þýðingu við mat á því hvort tilefni sé að synja umsókn á grundvelli 2. mgr. 6. gr. lge. og varpar jafnframt ljósi á núverandi fjárhagsstöðu skuldara og væntanlega þróun hennar til framtíðar.

Í skýringum við frumvarp til lge. er fjallað um inntak b-liðar 1. mgr. 6. gr. Þar segir að umboðsmanni sé skylt að hafna umsókn þegar fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar enda mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um fjárhagsleg málefni sín. Hér sé einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Áréttað er að skuldari skuli taka virkan þátt í og sýna viðleitni til að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.

Hver sá sem leitar greiðsluaðlögunar skal veita umboðsmanni skuldara ítarlegar upplýsingar og gögn. Í þessu felst skylda til að veita allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að greina fjárhagsstöðu viðkomandi til fulls. Með öðru móti verður ekki lagt efnislegt mat á hvort heimilt eða hæfilegt sé að veita skuldara greiðsluaðlögun. Rannsóknarskylda stjórnvalda leysir umsækjendur um greiðsluaðlögun ekki undan þeirri skyldu.

Í 3. mgr. 4. gr. lge. segir að með umsókn um greiðsluaðlögun skuli fylgja gögn til staðfestingar þeim upplýsingum sem hún hefur að geyma, vottorð um hjúskaparstöðu og fjölskyldu og síðustu fjögur skattframtöl skuldara. Þá kemur fram í niðurlagi 4. mgr. sömu lagagreinar að skuldari skuli að jafnaði útvega nauðsynleg gögn og koma þeim til umboðsmanns skuldara.

Af þessu er ljóst að skattframtöl skuldara eru mikilvæg til að varpa ljósi á og skýra fjárhag skuldara. Þetta eru gögn sem almennt er aðeins á færi skuldara sjálfs að útvega. Upplýsingar um tekjur síðustu þriggja mánaða fyrir þann tíma er umsókn lá fyrir fullbúin eru þess eðlis að skuldari einn getur látið þær í té.

Eins og rakið er hér að framan óskaði umboðsmaður skuldara ítrekað eftir frekari gögnum og upplýsingum frá kæranda í því skyni að fá gleggri mynd af fjárhag hans. Þau gögn sem óskað var eftir var skattframtal 2012, vegna tekna ársins 2011, og upplýsingar um tekjur síðustu þriggja mánaða áður en umsókn lá fyrir fullbúin. Kæranda var sendur tölvupóstur með þessari beiðni 27. júní 2012 og var ítrekun send með ábyrgðarpósti 2. júlí og frestur veittur til 11. júlí til að skila umbeðnum gögnum. Þann 10. júlí var óstaðfestu afriti af skattframtali 2012 skilað, og var kærandi upplýstur um það 11. júlí að skila þyrfti framtali staðfestu af ríkisskattstjóra og jafnframt veittur frestur til 13. júlí til þessa. Þann 13. júlí barst umboðsmanni skuldara staðfest afriti af skattframtali 2011 vegna tekna ársins 2010. Staðfest afriti af skattframtali vegna tekna ársins 2011 barst embættinu ekki. Kærandi upplýsti heldur ekki um tekjur síðustu þriggja mánaða fyrir þann tíma er umsókn hans lá fyrir fullbúin. Í kæru óskaði kærandi eftir fresti til að koma umræddum gögnum til skila. Kærunefndinni hafa engin gögn borist frá kæranda við meðferð málsins.

Að mati kærunefndarinnar skortir því á að kærandi hafi lagt fram nauðsynlegar upplýsingar til að fyrir liggi nægilega glögg mynd af fjárhag hans eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar, svo sem ákvæði b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. áskilur.

Með vísan til alls framangreinds er ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta