Mál nr. 53/2011
A
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Kristrún Heimisdóttir.
A sótti um heimild til að leita greiðsluaðlögunar 11. febrúar 2011. Umboðsmaður skuldara synjaði umsókninni með bréfi 29. ágúst 2011. Þann 12. september 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara þar sem umsókn kæranda um greiðsluaðlögun var synjað.
Með bréfi 20. september 2011 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 14. október 2011.
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 24. október 2011 og var kæranda gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi 7. nóvember 2011. Voru athugasemdir kæranda sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 9. nóvember 2011. Umboðsmaður skuldara skilaði framhaldsgreinargerð með bréfi 24. nóvember 2011.
I. Málsatvik
Kærandi er ógiftur og býr í eigin húsnæði að B götu nr. 85 í sveitarfélaginu C. Hann á tvö börn sem hann greiðir meðlag með. Kærandi hefur verið atvinnulaus að hluta undanfarin ár. Núverandi mánaðartekjur eftir frádrátt skatts eru 140.497 krónur. Aðrar tekjur eru vaxtabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla. Samtals eru því áætlaðar tekjur kæranda 190.497 krónur á mánuði.
Að sögn kæranda hóf hann innflutning á bifreiðum árið 2005 í gegnum félögin X hf., Y ehf. og Z ehf. Kærandi kveður starfsemina hafa gengið vel og að hún hafi gefið af sér ágætis tekjur. Kærandi segist hafa stundað fyrrgreindan innflutning til ársins 2008 en þá dróst bílasala verulega saman og því hafi ekki verið forsendur fyrir starfseminni lengur. Að mati kæranda má aðallega rekja fjárhagserfiðleika hans til hruns hins íslenska efnahagskerfis haustið 2008. Innflutningur á bifreiðum hafi stöðvast, illa hafi gengið að selja eignir, mörg lána kæranda voru gengistryggð og hækkuðu mikið við hrunið, auk þess sem kærandi missti atvinnu sína.
Samkvæmt gögnum málsins eru heildarskuldir kæranda 89.047.678 krónur. Kröfur sem falla utan samninga samkvæmt 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.), eru virðisaukaskattur, launatengd gjöld og sektir samtals að fjárhæð 1.928.557 krónur. Skuldir kæranda sundurliðast með eftirfarandi hætti:
Ár | Kröfuhafi | Upphafleg | Fjárhæð | Tilgangur |
fjárhæð kr. | 2011 kr. | lántöku | ||
2007 | Byr | 12.160.000 | 21.299.145 | Íbúðarkaup |
2007 | Byr | 3.415.000 | 5.635.271 | Íbúðarkaup |
2007 | Íslandsbanki | 20.000.000 | 19.832.041 | Kaup á sumarbústað |
2008 | SP-fjármögnun | 8.080.808 | 7.141.094 | Kaup á bifreið |
2008 | Frjálsi fjárf.bankinn | 23.075.000 | 28.794.367 | Íbúðarkaup |
Aðrar skuldir | 6.345.760 | |||
Samtals kr. | 89.047.678 |
Ábyrgðarskuldbindingar kæranda eru eftirfarandi samkvæmt gögnum málsins:
Ár | Kröfuhafi | Skuldari | Upphafleg | Fjárhæð |
fjárhæð kr. | 2011 kr. | |||
2007 | SP-fjármögnun | D ehf. | 790.046 | 837.372 |
2007 | Frjálsi fjárf.bankinn* | E ehf. | 19.600.000 | 48.109.728 |
2007 | Frjálsi fjárf.bankinn* | E ehf. | 15.000.000 | 34.085.086 |
2008 | SP-fjármögnun | D ehf. | 4.906.419 | 5.199.819 |
2008 | SP-fjármögnun | D ehf. | 3.241.285 | 4.653.447 |
2008 | Spron | D ehf. | 6.700.000 | 6.700.000 |
2008 | Arion banki | Kaupandi bíls | 585.000 | 804.306 |
2008 | Arion banki | Kaupandi bíls | 585.000 | 799.504 |
LÍN | F. | 8.887.136 | ||
Aðrar ábyrgðir | 1.170.000 | |||
Samtals kr. | 111.246.398 | |||
* Gengistryggt lán. |
Mánaðarlegar meðaltekjur kæranda eftir frádrátt skatts voru eftirfarandi árin 2007–2009 samkvæmt gögnum málsins:
Ár | Tekjur kr. |
2007 | 159.267 |
2008 | 248.284 |
2009 | 150.464 |
Þann 17. ágúst 2011 lá umsókn kæranda fyrir fullbúin, sbr. 1. mgr. 7. gr. lge. Umsókn hans var synjað með ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 29. ágúst 2011. Synjunin var byggð á b-lið 2. mgr. 6. gr. lge.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi gerir athugasemd við þá fullyrðingu umboðsmanns skuldara að í lok árs 2008 hafi skuldir hans verið 127.332.250 krónur. Bendir kærandi á að stærstur hluti skuldbindinga hans á þeim tíma hafi verið gengistryggð lán. Lán sem hann hafi tekið hjá Frjálsa fjárfestingarbankanum í janúar 2008 hafi til dæmis upphaflega verið að fjárhæð 23.075.000 krónur en í lok árs 2008 nam skuldin 43.989.797 krónum. Umboðsmaður skuldara hafi ekki heldur tekið tillit til þess að á skattskýrslum sé verðmæti fasteigna miðað við fasteignamat þegar staðreyndin var sú að árið 2007 og framan af árinu 2008 voru fasteignir mun verðmeiri en sem nam fasteignamati.
Tekur kærandi fram að hann hafi einungis tekið tvö ný lán fyrri hluta árs 2008, íbúðalán hjá Frjálsa fjárfestingarbankanum og lán hjá SP-fjármögnun. Taldi hann að hann væri ekki að taka áhættu með kaupum á fasteigninni að B götu nr. 85 þar sem hann keypti eignina á 35.500.000 krónur, greiddi 12.425.000 krónur með eigin fjármunum og tók síðan lán hjá Frjálsa fjárfestingarbankanum fyrir 23.075.000 krónur. Telji kærandi að í ljósi þess hversu mikið eigið fé hann lagði í fasteignina hafi lántakan ekki verið áhættusöm enda hafi veðhlutfall eignarinnar verið mjög hagstætt. Á sínum tíma taldi kærandi að í versta falli gæti hann leigt fasteignina út og hún myndi þannig standa undir kostnaði. Hann hafi ekki gert ráð fyrir að fasteignaverð myndi lækka jafn mikið og raunin varð og að lánin myndu hækka jafn mikið og þau síðan gerðu.
Árið 2008 keypti kærandi bifreið sem var fjármögnuð með láni frá SP-fjármögnun. Kaupverðið var 10.000.000 króna. Greiddi kærandi 2.000.000 króna með eigin fé en tók lán að fjárhæð 8.080.808 krónur. Ástæðan fyrir viðskiptunum var sú að kærandi seldi bifreið sem hann átti fyrir á 11.500.000 krónur og tók fyrrgreindu bifreiðina upp í. Tilgangurinn kæranda hafi verið sá að minnka skuldbindingar og þar með fjárhagslega áhættu, en við viðskiptin var áhvílandi lán á seldu bifreiðinni flutt yfir á keyptu bifreiðina og greitt niður að hluta.
Kærandi gerir athugasemd við þá fullyrðingu umboðsmanns skuldara að greiðslugeta hans hafi verið neikvæð árið 2007. Í lok árs 2007 hafi hann átt þrjár fasteignir. Umboðsmaður hafi miðað við að verðmæti þessara eigna væri 39.136.974 króna samkvæmt fasteignamati. Umboðsmaður hafi ekki tekið tillit til þess að vegna vinnuframlags kæranda hafi þessar eignir verið töluvert verðmeiri. Hafi kærandi talið að með þessu gæti hann aflað sér tekna enda hafi það verið tilgangurinn með fasteigna- og lóðakaupum hans. Telji kærandi því að eignastaða hans hafi verið jákvæð í lok árs 2007. Bendi kærandi á að í stað þess að reikna sér hærri laun hafi hann talið eðlilegra að leggja fjármunina beint í endurbætur á eignunum og auka þar með þann hagnað sem hann gæti greitt sér síðar. Þrátt fyrir að tekjur kæranda hafi ekki verið háar sé að mati kæranda ljóst að hann hafi getað staðið undir afborgunum af skuldbindingum sínum á þessum tíma.
Fram komi í ákvörðun umboðsmanns skuldara að eignir kæranda árið 2008 hafi verið 35.344.138 krónur og skuldir 127.332.250 krónur. Þetta verðmat eigna dragi kærandi í efa enda sé verðmatið eingöngu byggt á fasteignamati. Einnig telji kærandi hæpið hjá umboðsmanni að byggja skuldastöðu hans á upplýsingum sem fram komu í skattskýrslum enda var meirihluti skulda hans í gengistryggðum erlendum lánum og þær fjárhæðir sem fram komu í skattskýrslum því hreinlega rangar.
Kærandi vísar til þess að það sé meginregla í íslenskum stjórnsýslurétti að aðila máls skuli gefinn kostur á að tjá sig um efni málsins áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Umboðsmaður skuldara hafi hvorki sett sig í samband við kæranda né umboðsmanns hans en eingöngu byggt hina kærðu ákvörðun á huglægu mati án þess að veita kæranda andmælarétt.
Kærandi gerir þá kröfu að fallist verði á umsókn hans um heimild til að leita greiðsluaðlögunar.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Umboðsmaður vísar til umsóknar kæranda um greiðsluaðlögun sem synjað var með ákvörðun umboðsmanns sem tilkynnt var með bréfi 29. ágúst 2011 með vísan b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.
Umboðsmaður bendir á að við mat á umsókn um greiðsluaðlögun beri að líta til þeirra aðstæðna sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Við mat á því skuli meðal annars taka sérstakt tillit til þess hvort stofnað hafi verið til skulda á þeim tíma er skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar, sbr. b-lið 2. mgr. 6. gr. lge.
Umboðsmaður tekur fram að í skattframtali kæranda árið 2008, fyrir tekjuárið 2007, komi fram að mánaðarlegar tekjur kæranda hafi verið um 159.267 krónur, eignir 39.136.974 krónur og skuldir 53.695.853 krónur. Í skattframtali ársins 2009, fyrir tekjuárið 2008, komi fram að mánaðarlegar tekjur kæranda hafi verið um 248.284 krónur, eignir 35.344.138 krónur og skuldir 127.332.250 krónur.
Bendir umboðsmaður á að samkvæmt gögnum málsins hafi kærandi stofnað til umtalsverðra skuldbindinga árið 2008. Voru þetta skuldir við Frjálsa fjárfestingarbankann hf., lántökudagur 23. janúar 2008, upphafleg fjárhæð 23.075.000 krónur og skuld við SP-fjármögnun hf., lántökudagur 13. júní 2008, upphafleg fjárhæð 8.080.808 krónur. Auk þess hafi kærandi tekist á hendur umtalsverðar ábyrgðarskuldbindingar á þessu sama tímabili vegna lánasamninga milli SP-fjármögnunar hf. og Leirvogs ehf., samtals að upphaflegri fjárhæð 8.147.704 krónur.
Telur umboðsmaður að þegar litið sé til fjárhagslegrar stöðu kæranda á þeim tíma er til þessara skuldbindinga var stofnað, hafi kæranda hlotið að vera ljóst að hann hafði ekki nægar tekjur til að greiða af þeim, sbr. b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Á árunum 2007‒2008 hafi greiðslugeta kæranda verið neikvæð um 200.000 krónur á mánuði miðað við uppgefnar tekjur á skattframtölum og þáverandi fjárhagsskuldbindingar. Enn fremur hafi eignastaða verið neikvæð um 14.500.000 krónur í lok árs 2007 og 92.000.000 króna í lok árs 2008.
Hvað varðar þá gagnrýni kæranda að hæpið hafi verið að byggja hina kærðu ákvörðun á fjárhæð lána samkvæmt skattframtölum því meirihluti skulda kæranda hafi verið gengistryggð lán, bendir umboðsmaður á að hin kærða ákvörðun hafi grundvallast á fjárhæð lánanna við lántöku árið 2008, það er áður en lán hans hækkuðu.
Fer umboðsmaður fram á að hin kærða ákvörðun sem tekin var á grundvelli b-liðar 2. mgr. 6. gr. laga nr. 101/2010 verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggir á 2. mgr. 6. gr. lge., með sérstakri vísan til b-liðar. Í b-lið er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi verið stofnað til skulda á þeim tíma er skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar.
Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að skuldbindingar þær er kærandi stofnaði til árið 2008 hafi ekki verið samræmi við greiðslugetu hans og að hann hafi því verið ófær um að greiða af þeim. Með vísan til b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. var því umsókn kæranda um greiðsluaðlögum synjað.
Í greinargerð sinni með umsókn um greiðsluaðlögun tilgreindi kærandi verðmæti fasteigna sinna ýmist samkvæmt upplýsingum á skattframtali eða tiltók verðmæti þeirra án þess að leggja fram viðeigandi gögn til stuðnings ætluðu verðmati í öllum tilvikum nema einu. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. lge. skulu fylgja umsókn um greiðsluaðlögun gögn til staðfestingar á þeim upplýsingum sem hún hefur að geyma. Í 4. mgr. 4. gr. segir að skuldari skuli jafnan sjálfur útvega þau gögn og koma þeim til umboðsmanns skuldara. Að mati nefndarinnar skorti á að kærandi léti umboðsmanni í té nauðsynleg gögn varðandi ætlað verðmæti fasteigna sinna en þessi gögn skipta verulegu máli við mat á fjárhag kæranda er hann stofnaði til skuldbindinga á umræddu tímabili, þar með talið ábyrgðarskuldbindinga.
Þótt frumkvæðisskylda skuldara sé rík að þessu leyti verður ekki horft fram hjá því að stjórnvald skal á grundvelli rannsóknarreglunnar í 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að 10. gr. laganna segir að í rannsóknarreglunni felist meðal annars sú skylda stjórnvalds að sjá til þess að eigin frumkvæði að málsatvik stjórnsýslumáls séu nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Rannsóknarreglan er nánar útfærð í 5. gr. lge. en þar kemur fram í 1. mgr. að umboðsmaður skuli ganga úr skugga um að í umsókn skuldara komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og geti hann ef þörf krefur krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingarnar með skriflegum gögnum. Í 2. mgr. 5. gr. lge. segir að umboðsmaður skuldara skuli auk þess afla frekari upplýsinga sem hann telur að skipt geti máli varðandi eignir, skuldir, tekjur og framferði skuldara áður en hann tekur ákvörðun um hvort veita skuli heimild til að leita greiðsluaðlögunar.
Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið er það mat kærunefndarinnar að embætti umboðsmanns skuldara hefði átt að beina því til kæranda að afla þeirra gagna sem nauðsynleg voru til að upplýsa um verðmæti eigna hans áður en ákvörðun var tekin í málinu, en slík gögn hefðu varpað umtalsvert skýrara ljósi á fjárhag kæranda. Þá er ekki að sjá að kæranda hafi verið gefinn kostur á að andmæla fyrirhugaðri ákvörðun áður en hún var tekin.
Með vísan til þessa verður ákvörðun umboðsmanns skuldara um að óhæfilegt sé að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar, sbr. 2. mgr. 6. gr. lge., felld úr gildi og lagt fyrir umboðsmann að taka málið til meðferðar og afgreiðslu á ný.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er felld úr gildi og lagt fyrir umboðsmann skuldara að taka umsókn hans til meðferðar á ný.
Sigríður Ingvarsdóttir
Arndís Anna K. Gunnarsdóttir
Kristrún Heimisdóttir