Mál nr. 49/2011
A
gegn
umboðsmanni skuldara
Ú r s k u r ð u r
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Kristrún Heimisdóttir.
Þann 29. ágúst 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 16. ágúst 2011 þar sem umsókn hennar um greiðsluaðlögun var synjað.
Með bréfi 8. september 2011 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 3. október 2011.
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 7. október 2011 og var kæranda gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 2. janúar 2012. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.
I. Málsatvik
Kærandi er einstæð móðir sem býr í eigin fasteign á efri hæð B götu nr. 47 í sveitarfélaginu C ásamt tveimur sonum sínum. Kærandi er einnig eigandi neðri hæðar sama húss. Þegar ákvörðun umboðsmanns skuldara var tekin var kærandi atvinnulaus og voru mánaðarlegar tekjur hennar 283.503 krónur að meðtöldum barnabótum, vaxtabótum, meðlagi, sérstakri vaxtaniðurgreiðslu og mæðralaunum.
Að sögn kæranda má aðallega rekja fjárhagserfiðleika hennar til þess að árið 2005 keypti hún efri hæðina að B götu nr. 47 en fyrir átti hún neðri hæð hússins. Neðri hæðin hafi verið orðin of lítil þar sem von var á öðru barni. Lán vegna kaupanna voru gengistryggð og greiðslubyrði vegna þeirra hafi þyngst verulega og valdið kæranda vanda.
Kærandi og eiginmaður hennar skildu í lok árs 2007 og missti hún vinnuna um svipað leyti. Kærandi er einnig í ábyrgðum fyrir fyrirtæki sem fyrrverandi eiginmaður hennar rak en hún var skráð fyrir. Allt þetta segir hún að hafi valdið henni miklu andlegu álagi sem leiddi til þess að geðheilsu hennar hrakaði mjög. Hún telur sig þó hafa náð heilsu á ný.
Heildarskuldir kæranda eru 151.603.303 krónur samkvæmt skuldayfirliti frá umboðsmanni skuldara. Þar af er krafa Innheimtumiðstöðvar sekta og sakarkostnaðar utan samninga samkvæmt 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.), samtals að fjárhæð 2.300.000 krónur.
Kröfuhafi | Tegund | Ár | Höfuðstóll | Staða 2011 | |
Íbúðalánasjóður | Veðkrafa | 2001 | 6.134.481 kr. | 11.210.305 kr. | |
Lífeyrissjóður verzlunarmanna | Veðkrafa | 2002 | 4.000.000 kr. | 4.922.504 kr. | |
Íbúðalánasjóður | Veðkrafa | 2002 | 1.579.519 kr. | 2.841.016 kr. | |
Íslandsbanki | Veðkrafa | 2004 | 10.000.000 kr. | 20.179.536 kr. | |
Íslandsbanki | Veðkrafa | 2004 | 18.000.000 kr. | 36.794.328 kr. | |
Íslandsbanki | Veðkrafa | 2004 | 13.400.000 kr. | 33.258.455 kr. | |
Íslandsbanki | Veðkrafa | 2007 | 9.400.000 kr. | 15.413.030 kr. | |
Íbúðalánasjóður | Veðkrafa | 2009 | 425.791 kr. | 572.838 kr. | |
Íslandsbanki | Veðkrafa | 2009 | 11.000.000 kr. | 17.946.195 kr. | |
Dómsekt | 2010 | 2.300.000 kr. | |||
Sakarkostnaður | 2010 | 251.000 kr. | |||
Íslandsbanki | Yfirdráttur | 5.717.587 kr. | |||
Aðrir | Aðrar skuldir | 196.239 kr. | |||
Samtals: | 151.603.303 kr. |
Samkvæmt yfirliti umboðsmanns skuldara eru ábyrgðarskuldbindingar kæranda samtals eftirfarandi:
Kröfuhafi | Lántaki | Ár | Höfuðstóll | Staða 2011 |
Íslandsbanki | X ehf. | 7.000.000 kr. | 9.121.354 kr. | |
Ergo | X ehf. | 15.450.192 kr. | 7.118.377 kr. | |
Samtals: | 22.450.192 kr. | 16.239.731 kr. |
Tekjur kæranda undanfarin ár hafa verið eftirfarandi:
Ár | Meðaltekjur á mánuði |
2010 | 280.927 kr. |
2009 | 306.064 kr. |
2008 | 104.684 kr. |
Eignir kæranda samkvæmt yfirliti umboðsmanns skuldara eru þessar:
Tegund | Eignarhlutur |
Fasteign | 18.900.000 kr. |
Fasteign | 34.950.000 kr. |
Bifreið | 198.000 kr. |
Samtals: | 54.048.000 kr. |
Þann 12. ágúst 2011 lá umsókn kæranda fyrir fullbúin, sbr. 1. mgr. 7. gr. lge. Umsókninni var synjað með ákvörðun umboðsmanns skuldara, sem tilkynnt var með bréfi 16. ágúst 2011, með vísan til c- og d-liða 2. mgr. 6. gr. lge.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi gerir þá kröfu að umboðsmaður skuldara hjálpi kæranda að fá úrlausn mála sinna.
Kærandi bendir á að hún eigi eignir í sveitarfélaginu C og ef rétt og „eðlilegt“ verð fengist fyrir þær og hægt yrði að semja eða gera eðlilega leiðréttingu á lánum þá væri staða hennar önnur. Kærandi geri þó þá kröfu að fá að búa eða halda í aðra hvora eignina. Kærandi vísar til þess að þegar lánin voru tekin hafi hún ekki verið ein og ekki hafi verið lánað út á hennar tekjur. Lánin hafi verið veitt út á tekjur fyrrverandi eiginmanns hennar. Hún hafi einungis lánað nafnið sitt og bankinn hafi samþykkt það.
Kærandi kveðst hafa skilið við eiginmann sinn árið 2007 og stuttu seinna hafi hún misst vinnuna. Tekjur hafi þar af leiðandi minnkað mikið. Þetta hafi haft veruleg áhrif á kæranda og börn hennar. Kærandi kveðst hafa farið í mikið þunglyndi og fengið taugaáfall en hún sé búin að ná sér í dag. Fyrrverandi maður hennar hafi ekki verið tilbúinn til að axla með henni ábyrgð á skuldunum og sitji hún því ein uppi með þær. Þar á meðal séu skuldir fyrirtækisins X ehf. sem fyrrverandi maður hennar hafi rekið, en kærandi hafi verið skráð fyrir og verið í ábyrgð fyrir öllum lánum og skuldbindingum. Fyrirtækið hafi verið stofnað í apríl 2004 og gengið vel framan af. Félagið hafi hins vegar orðið gjaldþrota árið 2009.
Kærandi kveðst vera búin að fá vinnu og telur að taka verði tillit til þess þegar ákvörðun sé tekin af umboðsmanni skuldara.
Kærandi gerir þá kröfu að málið verði tekið upp aftur.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Umboðsmaður skuldara krefst þess að ákvörðun um að synja kæranda um heimild til að leita eftir greiðsluaðlögun frá 16. ágúst 2011 verði staðfest.
Umboðsmaður vísar til umsóknar kæranda um greiðsluaðlögun sem hafi verið synjað með vísan til c- og d-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Ákvörðunin hafi verið tilkynnt kæranda með bréfi sama dag og hún var tekin.
Umboðsmaður vísar til þess að við mat á umsókn um greiðsluaðlögun beri að líta til þeirra aðstæðna sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. lagagreinarinnar komi fram að heimild sé til að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Í hinni kærðu ákvörðun komi fram skýringar á synjuninni á grundvelli þeirra ástæðna sem tilgreindar séu í c- og d-liðum 2. mgr. 6. gr. lge.
Við mat á því hvort heimild verði veitt til að leita greiðsluaðlögunar skuli meðal annars taka sérstakt tillit til þess hvort skuldari hafi tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað, sbr. c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Jafnframt skuli taka sérstakt tillit til þess hvort skuldari hafi bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu, sbr. d-lið 2. mgr. 6. gr. lge.
Umboðsmaður skuldara vísar til þess að í hinni kærðu ákvörðun komi fram að þegar kærandi hafi stofnað til persónulegra skuldbindinga um mitt ár 2007 hafi eignastaða hennar verið neikvæð og tekjur lágar. Með lántökunni hafi hún tekið fjárhagslega áhættu sem hafi ekki verið í samræmi við fjárhagsstöðu hennar. Sú háttsemi hafi í ákvörðuninni verið heimfærð undir c-lið 2. mgr. 6. gr. laganna. Kærandi hefði jafnframt bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hennar með háttsemi sem varði refsingu vegna virðisaukaskattskuldarinnar, sbr. d-lið 2. mgr. 6. gr. sömu laga. Sú ákvörðun hafi verið tekin að virtum málsatvikum að óhæfilegt væri að veita kæranda heimild til að leita greiðsluaðlögunar.
Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að kærandi hafi ein verið skráð fyrir eignunum að B götu nr. 47, þrátt fyrir að hafa verið í hjónabandi. Einnig sé hún ein skráð fyrir veðskuldum sem hvíli á eignunum. Ekki verði séð að kærandi hafi getað staðið undir þessum skuldbindingum með eigin tekjum.
Árið 2004 hafi kærandi skuldbundið sig persónulega, og með því að leggja eign sína að veði, vegna láns hjá Íslandsbanka upphaflega að fjárhæð 10.000.000 króna. Lánið hafi verið tekið vegna X ehf., félags sem eiginmaður kæranda hefði rekið. Hún hafi síðan skuldbundið sig enn frekar persónulega vegna rekstrar X ehf. árið 2007 með útgáfu tveggja skuldabréfa, samtals að fjárhæð 20.400.000 krónur. Einhver hluti þessarar fjárhæðar hafi að sögn kæranda verið tekinn vegna persónulegra greiðsluerfiðleika. Jafnframt hafi frá árinu 2006 hvílt á kæranda sjálfskuldarábyrgð vegna tékkareiknings X ehf. í Íslandsbanka að fjárhæð 7.000.000 króna auk sjálfskuldarábyrgðar vegna fjármögnunarleigusamnings að fjárhæð 15.450.192 krónur. Vegna allra þessara skulda hvíli nú greiðsluskylda á kæranda. Kröfurnar vegna sjálfskuldarábyrgðanna séu þó eitthvað lægri, meðal annars vegna þess að vinnutækið sem fjármögnunarleigusamningurinn varðaði hafi verið tekið upp í skuldina. Engu að síður nemi ábyrgðarskuldbindingar kæranda nú samtals 16.239.731 krónu.
Þá kemur einnig fram í hinni kærðu ákvörðun að ljóst þætti af gögnum málsins að kærandi hefði stofnað til persónulegra skuldbindinga sem hafi verið langt umfram persónulega greiðslugetu og ekki í samræmi við fjárhagsstöðu hennar þegar til þeirra var stofnað. Í júlí 2007 hafi eignastaða kæranda verið neikvæð, en engu að síður hafi hún stofnað til skuldar að fjárhæð 9.400.000 krónur. Tekjur kæranda árið 2007 hafi að meðaltali numið 92.565 krónum á mánuði samkvæmt skattframtali. Í þessu samhengi skipti ekki máli hvort ætlunin hafi verið að kærandi sjálf myndi standa undir skuldbindingunum eða ekki, hún hafi tekið þær á sig í eigin nafni eða með sjálfskuldarábyrgð og hafi þar með tekið á sig alla þá áhættu sem þessum skuldbindingum fylgdi.
Af greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 101/2010 megi ráða að vilji löggjafans hafi ekki staðið til þess að greiðsluaðlögunarúrræðið skyldi taka til einstaklinga sem væru fyrst og fremst í vanda vegna atvinnurekstrar. Umboðsmaður telur að greiðsluerfiðleikar kæranda séu að miklu leyti til komnir vegna atvinnurekstrar. Með því að skuldbinda sig persónulega vegna atvinnurekstrar fyrrverandi eiginmanns síns og einkahlutafélags sem hann rak, hafi kærandi tekið á sig verulega fjárhagslega áhættu. Þar að auki hafi hún lagt fram tryggingar í eignum sínum fyrir umræddum skuldbindingum. Að mati umboðsmanns hafi áhættan ekki verið í samræmi við fjárhagsstöðu kæranda á þeim tíma sem til þeirra var stofnað.
Tilvísun í d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. í ákvörðun umboðsmanns eigi við um vangoldinn virðisaukaskatt. Þegar leitað hafi verið upplýsinga um virðisaukaskattskuld X ehf. hafi komið í ljós að kærandi hafði verið ákærð ásamt fyrrverandi eiginmanni sínum fyrir meiri háttar brot gegn skatta- og bókhaldslögum, sbr. 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt með síðari breytingum. Fyrir brotin hafi kærandi verið dæmd í 30 daga fangelsi skilorðsbundið í tvö ár og til að greiða 2.300.000 krónur í fjársekt og 251.000 krónur í sakarkostnað. Þegar fjárhæð sektarinnar hafi verið borin saman við tekjur og eignastöðu með tilliti til skuldastöðu verði að telja að um sé að ræða skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag kæranda. Í ákvörðun umboðsmanns er vísað til dóms Hæstaréttar Íslands frá 20. janúar 2010 í máli nr. 721/2009 til stuðnings niðurstöðunni.
Það breyti ekki niðurstöðu umboðsmanns þótt kærandi hafi sótt um 110%-aðlögun íbúðalána hjá Íslandsbanka.
Að öllu þessu virtu fer umboðsmaður fram á að hin kærða ákvörðun, sem tekin hafi verið á grundvelli c- og d-liða 2. mgr. 6. gr. laga nr. 101/2010, verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 2. mgr. 6. gr. lge., með sérstakri vísan til c- og d-liða. Í c-lið er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Í d-lið er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu.
Fyrir liggur að kærandi hefur verið dæmd til refsingar fyrir meiriháttar brot á skatta- og bókhaldslögum sem framkvæmdastjóri félagsins X ehf. Með vísan til þess þykir ótvírætt komið fram að kærandi hafi bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hennar með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu, sbr. d-lið 2. mgr. 6. gr. lge.
Þá er ljóst að kærandi tók áhættu, einkum á árunum 2004‒2007, sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma sem til skuldbindinganna var stofnað. Er þar fyrst og fremst um að ræða lán sem tekin voru vegna X ehf., upphaflega samtals að fjárhæð 30.400.000 krónur. Þá hvíla á kæranda skuldbindingar vegna sjálfskuldarábyrgða sem hún tókst á hendur vegna yfirdráttar á tékkareikningi og fjármögnunarleigusamningi X ehf. Kærunefndin telur að fallast verði á það mat umboðsmanns skuldara að með því að gangast undir svo miklar persónulegar skuldbindingar vegna atvinnurekstrar sem raun ber vitni hafi kærandi tekið áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma er hún gekkst undir þær, sbr. c-lið 2. mgr. 6. gr. lge.
Samkvæmt framangreindu er ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.
Sigríður Ingvarsdóttir
Arndís Anna K. Gunnarsdóttir
Kristrún Heimisdóttir