Nr. 183/2018 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 183/2018
Föstudaginn 13. júlí 2018
A
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.
Þann 23. maí 2018 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 2. maí 2018 þar sem umsókn kæranda um greiðsluaðlögun var synjað.
Með bréfi 25. maí 2018 óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 29. maí 2018.
Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kæranda til kynningar með bréfi 30. maí 2018 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi er X ára. Hún er skilin að borði og sæng og býr ásamt X börnum sínum á [...] í leiguhúsnæði í B.
Kærandi er óvinnufær vegna örorku og fær örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins, að jafnaði 253.231 krónu á mánuði. Að meðtöldum barnabótum, barnalífeyri, meðlagi, húsnæðisbótum og sérstökum húsnæðisstuðningi nema mánaðarlegar framfærslutekjur hennar 454.876 krónum.
Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara 2. maí 2018 eru 25.861.822 krónur. Skuldir hennar eru aðallega við Landsbankann.
Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hennar til tekjulækkunar fyrrverandi maka, skilnaðar og langvarandi veikinda kæranda og [barns] hennar.
Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 29. janúar 2018, en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 2. maí 2018 var umsókn hennar hafnað þar sem fyrirliggjandi gögn voru ekki talin gefa nægilega glögga mynd af fjárhag hennar, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Einnig var talið að aðstæður kæranda væru með þeim hætti að hún hefði á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem henni var framast unnt og því væri einnig heimilt að synja henni um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en skilja verður kæru hennar svo að hún krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja henni um heimild til að leita greiðsluaðlögunar verði felld úr gildi.
Kærandi kveðst nýlega skilin og geti varla lifað á þeim peningum sem hún eigi eftir þegar hún sé búin að borga það nauðsynlegasta. Hún sé öryrki og þurfi að nota mikið af lyfjum. Læknar hennar séu allir í C þannig að það sé mikill kostnaður sem felist í að fara til lækna. Kærandi eigi einnig langveikt barn.
[...] hafi lánað henni mikla peninga fyrir mat, lyfjum og fleiru. Kærandi þurfi að selja bílinn sinn til að geta endurgreitt þeim en geti það ekki á meðan hann sé veðsettur D. Félagið eigi reyndar ekki rétt á því vegna þess að kærandi sé hreyfihömluð og Tryggingastofnun hafi látið hana fá bílastyrk til að kaupa bílinn.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Í ákvörðun sinni vísar umboðsmaður skuldara til þess að í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. sé kveðið á um að synja skuli um heimild til að leita greiðsluaðlögunar, gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Í f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. segi að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum framast hafi verið unnt.
Fram hafi komið að velta á bankareikningi kæranda í Landsbankanum hf. hafi verið 3.894.359 krónur umfram tekjur hennar á árinu 2017, samkvæmt upplýsingum skattyfirvalda og annarra opinberra aðila. Kærandi hafi verið beðin um að skýra þennan mismun en hún hafi ekki orðið við því. Þyki því óljóst hverjar raunverulegar framfærslutekjur kæranda hafi verið.
Í umsókn komi fram að kærandi hafi skilið að borði og sæng í X 2017. Þar sé einnig tiltekið hver séu útgjöld hennar vegna húsaleigu, hita, rafmagns, trygginga og skóla/dagvistunar. Kærandi hafi verið beðin um að senda afrit af fjárskiptasamningi ásamt greiðsluseðlum til staðfestingar á framfærslukostnaði. Hún hafi ekki brugðist við því.
Um framkvæmd b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. í greiðsluaðlögunarmálum hjá umboðsmanni skuldara og kærunefnd greiðsluaðlögunarmála/úrskurðarnefnd velferðarmála megi vísa til úrskurðar kærunefndar í máli nr. 74/2014 og úrskurða úrskurðarnefndar í málum nr. 157/2016 og 197/2017. Af þeim verði ráðið að hver sá sem leiti greiðsluaðlögunar skuli leggja fram fullnægjandi gögn til að greina megi fjárhagsstöðu viðkomandi til fulls. Verði það ekki gert standi ákvæði b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. í vegi fyrir því að heimild til greiðsluaðlögunar verði veitt.
Að því er varði f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. verði ekki hjá því komist að líta til þess að kærandi hafi áður leitað greiðsluaðlögunar. Í það skipti hafi greiðsluaðlögunarumleitanir hennar verið felldar niður á grundvelli a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem hún hafði brotið í bága við skyldur sínar við greiðsluaðlögun með því að leggja ekki til hliðar fjármuni á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana. Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild til að leita greiðsluaðlögunar hafi verið kærð til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála (nú úrskurðarnefnd velferðarmála) og verið staðfest.
Samkvæmt útreikningum umboðsmanns skuldara hefði kærandi átt að geta lagt til hliðar allt að 3.785.470 krónur á tímabilinu 1. júní [2011] til 15. júní 2015 á meðan hún hafi notið frestunar greiðslna, eða svokallaðs greiðsluskjóls. Kærandi hafi ekki sýnt fram á neinn sparnað. Sú háttsemi að sinna ekki skyldum sínum við greiðsluaðlögun samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr., þegar fyrri umsókn hennar hafi verið til vinnslu, standi að mati embættisins í vegi fyrir samþykki núverandi umsóknar með vísan til f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Óhæfilegt væri að samþykkja nýja umsókn þar sem kærandi hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem henni hafi framast verið unnt á meðan fyrri umsókn hennar hafi verið til meðferðar. Kæranda hafi borið að leggja til hliðar þá fjármuni sem til hafi fallið umfram nauðsynlegan framfærslukostnað á meðan hún hafi notið greiðsluskjóls. Þeim fjármununum hefði svo verið ráðstafað til greiðslu skulda hennar samkvæmt greiðsluaðlögunarsamningi.
Um framkvæmd f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. í greiðsluaðlögunarmálum hjá umboðsmanni skuldara og úrskurðarnefnd velferðarmála megi vísa til úrskurðar nefndarinnar í máli nr. 320/2017. Af honum verði ráðið að við mat á umsókn beri að líta til framgöngu skuldara áður en greiðsluaðlögunarumleitanir hefjist. Hafi greiðsluaðlögunarheimild skuldara áður verið felld niður á þeim forsendum að skuldari hafi ekki lagt fyrir í samræmi við skyldur sínar á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana komi sú framganga skuldara inn í mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar síðar. Tilgangur f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. verði skýrður í samhengi við þann tilgang laganna að jafnvægi sé komið á milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Hafi skuldari ekki farið að þeim skilyrðum sem honum séu sett við greiðsluaðlögunarumleitanir hafi hann sjálfur komið í veg fyrir að tilgangi greiðsluaðlögunar verði náð.
Samkvæmt því sem hér hafi verið rakið þyki óhjákvæmilegt að líta svo á að fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag kæranda. Því verði ekki hjá því komist að synja kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar á grundvelli b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Auk þess þyki aðstæður vera með þeim hætti hér að kærandi hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem henni hafi framast verið unnt og því sé heimilt að synja henni um heimild til að leita greiðsluaðlögunar á grundvelli f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.
Kæranda hafi verið sent ábyrgðarbréf 6. apríl 2018 og þar hafi henni verið gerð grein fyrir mikilvægi þess að skýra tiltekin álitaefni og leggja fram gögn. Bréfið hafi jafnframt verið sent með tölvupósti á það netfang sem kærandi hafi gefið upp. Samkvæmt upplýsingum frá Íslandspósti hf. hafi ábyrgðarbréfið verið afhent viðtakanda 10. apríl 2018. Umboðsmaður skuldara telji sig þannig hafa veitt kæranda færi á að andmæla fyrirsjáanlegri synjun umsóknar um greiðsluaðlögun, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með fyrrgreindu ábyrgðarbréfi og tölvupósti.
Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á b-lið 1. mgr. 6. gr. og f-lið 2. mgr. 6. gr. lge.
Samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. skal synja um heimild til greiðsluaðlögunar gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Samkvæmt f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til að leita greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt.
Kærandi sótti fyrst um heimild til að leita greiðsluaðlögunar í maí 2011 og samþykkti umboðsmaður skuldara umsóknina í janúar 2012. Greiðsluaðlögunarheimild kæranda var síðan felld niður 29. maí 2013. Málið var kært til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála (nú úrskurðarnefnd velferðarmála) sem staðfesti ákvörðun umboðsmanns skuldara með úrskurði 28. maí 2015. Kærandi sótti aftur um greiðsluaðlögun tveimur og hálfu ári síðar eða 3. desember 2017. Umboðsmaður skuldara synjaði umsókn hennar með ákvörðun 2. maí 2018.
Umboðsmaður skuldara telur að fjárhagur kæranda sé óglöggur í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Við mat á því hvað teljist vera nægjanlega glögg mynd af fjárhag skuldara í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. telur úrskurðarnefndin meðal annars rétt að líta til 4. og 5. gr. lge.
Í 4. gr. lge. er gerð grein fyrir því hvernig umsókn um greiðsluaðlögun skuli vera úr garði gerð. Í 1. mgr. 4. gr. er upptalning í 11 töluliðum á því sem koma skal fram í umsókninni. Í 4. tölul. lagaákvæðisins segir að í umsókn um greiðsluaðlögun skuli koma fram hverjar tekjur skuldara séu, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðist, svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum. Í athugasemdum með 4. gr. í frumvarpi til lge. kemur fram að gert sé ráð fyrir að skuldari, eftir atvikum með aðstoð umboðsmanns skuldara, leggi mat á hversu háa fjárhæð hann geti greitt mánaðarlega til að standa skil á skuldbindingum sínum. Upptalning í 1. mgr. sé ekki tæmandi, enda gert ráð fyrir að umboðsmaður skuldara geti krafist þess að skuldari afli frekari upplýsinga en tilgreindar séu í ákvæðinu.
Í 5. gr. lge. er kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og getur embættið krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingarnar með gögnum. Rannsókn á fjárhagsstöðu skuldara hefur bæði þýðingu við mat á því hvort tilefni sé til að synja umsókn á grundvelli 2. mgr. 6. gr. lge. og varpar jafnframt ljósi á núverandi fjárhagsstöðu skuldara og væntanlega þróun hennar til framtíðar.
Í skýringum við frumvarp til lge. er fjallað um inntak b-liðar 1. mgr. 6. gr. Þar segir að umboðsmanni sé skylt að hafna umsókn gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar, enda mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um fjárhagsleg málefni sín. Hér sé einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Áréttað er að skuldari skuli taka virkan þátt í og sýna viðleitni til að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.
Það er markmið lge. að gera einstaklingum kleift að endurskipuleggja fjárhag sinn með samningum við kröfuhafa, eftir atvikum með niðurfellingu skulda að einhverju eða öllu leyti. Samkvæmt reglum lge. er skuldara gert að greiða eins hátt hlutfall af kröfum og sanngjarnt er þar sem í greiðsluaðlögun felst að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils. Hér verður að hafa í huga að skuldari hefur sjálfur óskað þess að fá heimild til greiðsluaðlögunarsamnings við kröfuhafa.
Hver sá sem leitar greiðsluaðlögunar skal þannig veita umboðsmanni skuldara ítarlegar upplýsingar og gögn. Í þessu felst skylda til að veita allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að greina fjárhagsstöðu viðkomandi til fulls. Með öðru móti verður ekki lagt efnislegt mat á hvort heimilt eða hæfilegt sé að veita skuldara greiðsluaðlögun. Rannsóknarskylda stjórnvalda leysir umsækjanda um greiðsluaðlögun ekki undan þeirri skyldu.
Í samþykki kæranda fyrir því að umboðsmaður skuldara aflaði gagna vegna málsins, sem er hluti af umsókn um greiðsluaðlögun, segir að með samþykkinu veiti kærandi embættinu heimild til að afla upplýsinga um veltu á bankareikningum umsækjanda til að sem skýrust mynd fáist um tekjur hans. Einnig segir að þörf geti verið á því að afla frekari upplýsinga.
Í bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 6. apríl 2018 segir: „Færsluyfirlit af bankareikningi mun væntanlega sýna fram á hvað valdi því að velta er umfram tekjur á árinu 2017. Embætið getur, með þínu samþykki, óskað eftir að fá sent færsluyfirlit reiknings þíns frá Landsbankanum hf. Ef þú samþykkir að embættið afli færsluyfirlits þá þarft þú að fylla út meðfylgjandi samþykki fyrir öflun og vinnslu færsluyfirlita og senda embættinu frumrit samþykkisins. Færsluyfirlitið þarf að ná aftur til 1. janúar 2017 svo fullnægjandi yfirsýn fáist. Þú getur líka nálgast færsluyfirlitið sjálf, t.d. í netbankanum þínum, og sent embættinu. Til að unnt sé að vinna að samningi við kröfuhafa fyrir þína hönd þá þarf að vera ljóst hverjar ráðstöfunartekjur þínar hafa verið og þar með geta til að greiða af skuldum. Gefi fyrirliggjandi gögn misvísandi upplýsingar um greiðslugetu getur það leitt til þess að greiðsluaðlögun verði ekki heimil.“ Þessu svaraði kærandi ekki. Fram kemur í hinni kærðu ákvörðun að velta á bankareikningi kæranda hafi verið tæpum 3.900.000 krónum hærri en uppgefnar tekjur á árinu 2017. Einnig kemur þar fram að kærandi hafi ekki útskýrt þetta misræmi og því þyki óljóst hverjar raunverulegar framfærslutekjur kæranda hafi verið.
Í málinu hefur komið fram að kærandi fékk hærri greiðslur inn á bankareikning sinn á árinu 2017 en tekjur sem hún taldi fram til skatts fyrir það ár. Samkvæmt yfirliti Ríkisskattstjóra vegna tekna ársins, skattframtali 2017 og öðrum fyrirliggjandi gögnum voru ráðstöfunartekjur kæranda eftirfarandi árið 2017 í krónum:
Nettó laun |
2.599.773 |
Barnabætur |
107.674 |
Skattfrjálsar greiðslur frá Tryggingastofnun |
1.520.592 |
Húsnæðis- og húsaleigubætur |
240.000 |
Sérstakur húsnæðisstuðningur |
116.868 |
Samtals: |
4.584.907 |
Mismunur framtaldra tekna og þess fjár sem lagt var inn á bankareikning kæranda hjá Landsbankanum er eftirfarandi:
Innlegg á bankareikning árið 2017 |
8.362.398 |
Tekjur, ýmsar bætur og meðlög |
4.584.907 |
Mismunur: |
3.777.491 |
Samkvæmt þessu voru greiðslur inn á bankareikning kæranda 3.777.491 krónu hærri en framtaldar tekjur. Kærandi hefur ekki lagt fram gögn er skýra þennan mismun. Að þessu leyti verður fjárhagur kæranda talinn óglöggur samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. þar sem hvorki liggja fyrir haldbærar upplýsingar né gögn um raunverulegar ráðstöfunartekjur hennar og því ekki mögulegt að reikna út hver geta hennar til að greiða af skuldum er.
Í hinni kærðu ákvörðun kemur einnig fram að kærandi hafi verið beðin um að senda embættinu afrit af fjárskiptasamningi vegna skilnaðar hennar til að unnt væri að fá skýrari mynd af fjárhagsstöðu hennar. Var þetta gert með bréfi umboðsmanns til kæranda 6. apríl 2018. Kærandi varð ekki við þessari beiðni.
Að mati úrskurðarnefndarinnar eru þær upplýsingar sem tilgreindar eru í ákvæði 1. mgr. 4. gr. lge. grundvallarupplýsingar til þess að unnt sé að meta fjárhag skuldara og væntanlega þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar, enda byggir greiðsluaðlögun öðrum þræði á því að eignir skuldara verði notaðar til þess að gera upp við kröfuhafa eftir því sem unnt er. Af þessum sökum er nauðsynlegt að eigna- og skuldastaða liggi ljós fyrir ella er ekki mögulegt að leggja mat á hvort skuldari eigi eignir umfram skuldir og þá með hvaða hætti skuli farið með eignir hans við gerð samnings um greiðsluaðlögun. Ætla verður að í umræddum fjárskiptasamningi komi fram skipting á eignum og skuldum kæranda og fyrrum eiginmanns hennar. Að mati úrskurðarnefndarinnar er samningurinn því nauðsynlegur til að unnt verði að leggja heildarmat á fjárhag kæranda.
Loks telur umboðsmaður skuldara að fjárhagur kæranda sé óglöggur þar sem upplýsingar skorti um fjárhæð húsaleigu, hita, rafmagns, trygginga og skóla/dagvistunar. Í fyrrnefndu bréfi umboðsmanns til kæranda 6. apríl 2018 segir að gerð sé krafa um að fyrir liggi staðfesting á þeim föstu útgjöldum sem kærandi þurfi að standa straum af til að sem raunhæfust mynd fáist af greiðslugetu hennar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skal notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur þegar gerður er samningur til greiðsluaðlögunar. Við mat á greiðslugetu kæranda telur úrskurðarnefndin því eins og hér stendur á að miða hefði átt við framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara þar sem kærandi sýndi ekki fram á að framfærslukostnaður hennar væri hærri. Ekki verður því talið að þetta atriði leiði til þess að fjárhagur kæranda teljist óglöggur í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.
Þar sem þýðingarmiklar upplýsingar skortir engu að síður um fjárhag kæranda samkvæmt framansögðu verður að telja að fjárhagsstaða hennar sé óljós í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Með vísan til þess er það mat úrskurðarnefndarinnar að rétt hafi verið að synja kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar af þeirri ástæðu.
Samkvæmt f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til að leita greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt.
Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kæranda um greiðsluaðlögun. Kærandi sótti fyrst um heimild til að leita greiðsluaðlögunar í maí 2011 og hófst þá greiðsluskjól hennar samkvæmt framangreindu. Henni var í framhaldinu veitt heimild til greiðsluaðlögunar 11. janúar 2012. Greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru síðan felldar niður 29. maí 2013 þar sem hún var talin hafa brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að leggja ekki til hliðar það fé sem hún hafði umfram framfærslukostnað á tímabili greiðsluskjóls. Ákvörðunin var kærð til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála (nú úrskurðarnefnd velferðarmála). Kærunefndin kvað upp úrskurð 28. maí 2015 og staðfesti ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda.
Á þeim tíma er mál kæranda var til meðferðar hjá umboðsmanni skuldara í fyrra skiptið, 1. júní 2011 til 30. apríl 2013, hefði hún átt að geta lagt fyrir neðangreinda fjármuni:
Tímabilið 1. júní 2011 til 30.apríl 2013: 23 mánuðir |
|
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli |
3.720.036 |
Barna- og vaxtabætur |
1.020.011 |
Meðlagsgreiðslur |
1.110.674 |
Umönnunargreiðslur |
168.987 |
Barnalífeyrir |
2.221.348 |
Sérstakt framlag 2012 |
67.425 |
Óskattskyldar tekjur frá tryggingafélagi 2011 og 2012 |
2.530.688 |
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli |
10.839.169 |
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli |
471.268 |
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns |
336.864 |
Greiðslugeta kæranda á mánuði |
134.404 |
Alls sparnaður í 23 mánuði í greiðsluskjóli x 128.064 |
3.091.297 |
Kærandi hafi ekki getað sýnt fram á neinn sparnað og því var greiðsluskjól hennar fellt niður 28. maí 2015 samkvæmt 6. mgr. bráðabirgðaákvæðis II lge. og lauk þá einnig heimild hennar til að ná samningi við kröfuhafa um greiðsluaðlögun samkvæmt lge.
Úrskurðarnefndin telur að auk þeirra 3.091.297 króna sem kærandi hefði átt að geta lagt til hliðar á tímabilinu 1. júní 2011 til 30. apríl 2013 hefði hún átt að geta lagt eftirfarandi til hliðar á meðan málið var til meðferðar hjá kærunefnd greiðsluaðlögunarmála:
Tímabilið 1. júní 2013 til 31. desember 2013: Sjö mánuðir |
|
Nettótekjur |
2.508.770 |
Mánaðartekjur alls að meðaltali |
358.396 |
Tímabilið 1. janúar 2014 til 31. desember 2014: Tólf mánuðir |
|
Nettótekjur |
4.148.305 |
Mánaðartekjur alls að meðaltali |
345.692 |
Tímabilið 1. janúar 2015 til 30. apríl 2015: Fjórir mánuðir |
|
Nettótekjur |
1.381.918 |
Mánaðartekjur alls að meðaltali |
345.480 |
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli |
8.038.993 |
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli |
349.521 |
Á neðangreindu tímabili greiðsluskjóls bar kæranda því að auki að leggja fyrir í samræmi við neðangreinda útreikninga:
Tímabilið 1. júní 2013 til 30. apríl 2015: 23 mánuðir |
|
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli |
8.038.993 |
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli |
349.521 |
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt framfærsluviðmiði umboðsmanns |
336.864 |
Greiðslugeta kæranda á mánuði |
12.657 |
Alls sparnaður í 23 mánuði í greiðsluskjóli x 12.657 |
291.121 |
Samkvæmt þessu hefði kærandi átt að geta lagt fyrir alls 3.382.418 krónur (3.091.297+ 291.121) á þeim tíma er hún naut greiðsluskjóls. Kærandi var í greiðsluskjóli í tæplega fjögur ár. Samkvæmt þeim ákvæðum lge., sem giltu í greiðsluskjólinu og rakin eru hér að framan, bar henni að leggja til hliðar þá fjármuni sem ekki fóru til framfærslu og nota þá til að greiða af skuldum að loknu greiðsluskjóli. Hefði hún því átt að geta greitt 3.382.418 krónur af skuldum sínum er greiðsluskjóli hennar lauk árið 2015. Samkvæmt gögnum málsins greiddi kærandi ekkert inn á skuldir sínar að greiðsluskjóli liðnu og því voru sömu skuldir hennar í vanskilum þegar hún sótti um greiðsluaðlögun í annað skiptið, allt frá árinu 2011. Úrskurðarnefndin tekur því undir það með umboðsmanni skuldara að ekki sé unnt að líta svo á að hún hafi reynt að standa við fjárhagslegar skuldbindingar sínar eins og henni hafi framast verið unnt í aðdraganda þess að hún sótti um greiðsluaðlögun að nýju 29. janúar 2018. Við mat á því lítur úrskurðarnefndin þá sérstaklega til hins langa greiðsluskjóls og þeirrar fjárhæðar sem kærandi hefði átt að geta lagt fyrir.
Í 2. mgr. 6. gr. lge. kemur fram að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar sé óhæfilegt að veita hana. Við mat á slíku skuli sérstaklega taka tillit til þess hvort atriði sem rakin eru í liðum a til g eigi við. Eins og þegar hefur verið rakið taldi umboðsmaður skuldara að f-liður 2. mgr. 6. gr. lge. ætti við um háttsemi kæranda. Ákvæðið varðar þá hegðun skuldara að standa ekki við skuldbindingar sínar með ámælisverðum hætti eftir því sem honum er unnt.
Skýra verður f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. í samhengi við önnur ákvæði 6. gr. lge. svo og þann tilgang laganna að jafnvægi sé komið á milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Lögin gera ráð fyrir því að framganga skuldara áður en greiðsluaðlögunar-umleitanir hófust verði sérstaklega metin.
Fari skuldari ekki að þeim skilyrðum, sem honum eru sett við greiðsluaðlögunarumleitanir, hefur hann sjálfur komið í veg fyrir að tilgangi greiðsluaðlögunar verði náð að því er hann varðar. Þannig verður að líta svo á að skuldara, sem er í mun að ná greiðsluaðlögunarsamningi við kröfuhafa sína, geri það sem hann geti til að standa við fjárhagslegar skuldbindingar sínar í skilningi f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.
Með vísan til alls þess sem hér hefur verið rakið bar jafnframt að synja umsókn kæranda um greiðsluaðlögun á grundvelli f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.
Með vísan til alls þess sem hér hefur verið rakið bar að synja umsókn kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar á grundvelli b-liðar 1. mgr. 6. gr. og f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er samkvæmt því staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja umsókn A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.
Lára Sverrisdóttir
Sigríður Ingvarsdóttir
Þórhildur Líndal