Nr. 177/2018 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 177/2018
Föstudaginn 6. júlí 2018
A
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.
Þann 16. maí 2018 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 30. apríl 2018 þar sem umsókn kæranda um greiðsluaðlögun var synjað.
Með bréfi 17. maí 2018 óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 18. maí 2018.
Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kæranda til kynningar með bréfi 29. maí 2018 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi er X ára. Hún er einstæð og býr í 80 fermetra leiguhúsnæði í Reykjavík.
Kærandi hefur verið metin til tímabundinnar örorku og fær greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins.
Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara 30. apríl 2018 eru 1.078.438 krónur. Skuldir hennar eru vegna opinberra gjalda, símakostnaðar, áskrifta, smálána o.fl.
Að sögn kæranda má rekja fjárhagsvanda hennar til veikinda.
Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 3. desember 2017, en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 30. apríl 2018 var umsókn hennar hafnað þar sem fyrirliggjandi gögn voru ekki talin gefa nægilega glögga mynd af fjárhag hennar, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en skilja verður kæru hennar svo að hún krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja henni um heimild til að leita greiðsluaðlögunar verði felld úr gildi.
Kærandi kveðst biðja um aðstoð vegna þess að henni og öllum sem þekki hana finnist hún eiga skilið annað tækifæri. Það sé ekkert sem segi að hún eigi ekki aðstoð skilið. Þó að hún [...] hjá [...], sé hún ekki rík. Kærandi geti engan veginn hafið framtíð eða reynt að greiða skuldir sínar niður með allt þetta á bakinu. Eins og kærandi hafi þegar greint frá sé hún búin að greiða öll smálánin. Hún hafi plan úr örorkukerfinu og hún klári nám [...].
Kærandi hafi alltaf staðið ein í öllu og sínum veikindum en hún sjái litla sem enga framtíð með kennitölu eins og hún hafi. Hún verði að fá að byrja upp á nýtt til að geta loks orðið hluti af þjóðfélaginu.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Í ákvörðun sinni vísar umboðsmaður skuldara til þess að í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. sé kveðið á um að synja skuli um heimild til að leita greiðsluaðlögunar, gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.
Í 4. gr. lge. séu raktar þær upplýsingar og þau gögn sem skuldara beri að leggja fram þegar sótt sé um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Þá segi í 4. tl. 1. mgr. 4. gr. lge. að umsókn skuli fylgja upplýsingar um hverjar tekjur skuldara séu, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðist, svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum. Jafnframt skuli greina hvort skuldari muni hafa aðra fjármuni en vinnutekjur sínar til að greiða af skuldum, svo sem vegna sölu eigna eða fjárframlaga annarra. Fram komi í 6. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. að umsókn skuli fylgja mat skuldara á meðaltali mánaðarlegra útgjalda sinna, þar á meðal vegna framfærslu, opinberra gjalda, húsnæðis og afborgana af skuldum. Fram komi í 3. mgr. 4. gr. lge. að umsókn skuli meðal annars fylgja gögn til staðfestingar þeim upplýsingum sem hún hafi að geyma.
Í 5. gr. lge. sé kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn skuldara komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og geti hann ef þörf krefur, krafist þess að skuldari staðfesti gefnar upplýsingar með skriflegum gögnum.
Í greinargerð með frumvarpi til lge. komi fram í athugasemdum við 4. gr. laganna að upptalning 4. gr. sé ekki tæmandi, enda sé gert ráð fyrir að umboðsmaður skuldara geti krafist þess að skuldari afli frekari upplýsinga en tilgreindar séu í ákvæðinu. Einnig komi fram að gert sé ráð fyrir því að skuldari útvegi að jafnaði sjálfur nauðsynleg gögn, enda mikilvægt að hann taki virkan þátt í að kortleggja fjárhag sinn til að fá yfir hann heildarmynd. Hins vegar sé ljóst að margir þurfi aðstoð við gagnaöflun og skuli umboðsmaður aðstoða skuldara við hana, auk þess sem embættið geti aflað upplýsinga sjálft með heimild frá skuldara. Þá segi að eflaust verði þó ómögulegt eða erfitt um vik fyrir umboðsmann að nálgast einhver gögn og sé það því á ábyrgð skuldara að afla þeirra.
Við skoðun embættisins á innborgunum á bankareikning kæranda hafi komið í ljós að ýmsir aðilar hafi lagt misháar fjárhæðir inn á reikning hennar á árunum 2017 og 2018. Með tölvupósti 10. apríl 2018 hafi embættið óskað eftir skýringum á tilgreindum greiðslum.
Með tölvupósti 10. apríl 2018 hafi kærandi veitt skýringar á greiðslunum og tengslum sínum við þá sem lagt hafi fjármuni inn á bankareikning hennar. Þar komi fram að meðal annars væri um að ræða greiðslur fyrir [...]. Þá kvaðst kærandi einnig hafa fengið greitt fyrir [...]. Þær greiðslur sem kærandi hafi fengið frá ofangreindum aðilum séu samtals að fjárhæð X krónur.
Með tölvupósti 11. apríl 2018 hafi kærandi verið spurð að því hvort hún hefði gefið þær greiðslur sem hún hafi fengið vegna atvinnu upp til skatts. Í tölvupóstinum hafi kæranda jafnframt verið greint frá því að fjárhagur hennar teldist óglöggur hefði hún ekki gefið allar tekjur sínar upp til skatts. Í því tilliti skipti ekki máli þótt ef til vill væri um lágar fjárhæðir að ræða. Kærandi hafi svarað þessu með tölvupósti samdægurs og kvaðst telja að þessar tekjur hefðu verið gefnar upp til skatts. Var hún í framhaldi þess beðin um staðfestingu þess að svo hefði verið gert í reynd. Kærandi hafi ekki svarað því erindi innan þess frests sem veittur hafi verið.
Samkvæmt skattframtali kæranda 2018 vegna tekna ársins 2017 megi ráða að hún hafi fengið tekjur frá ríkissjóði, greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins, Velferðarsviði Reykjavíkurborgar og húsnæðisbætur frá Greiðslustofu húsnæðisbóta. Ekki sé getið um aðrar launatekjur eða verktakagreiðslur vegna starfa kæranda við [...] á árinu 2017. Af staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra verði heldur ekki ráðið að umræddar tekjur hafi verið gefnar upp til skatts.
Með vísan til alls framangreinds sé það mat umboðsmanns skuldara að fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag kæranda eða væntanlegri þróun fjárhags hennar á tímabili greiðsluaðlögunar, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge., þar sem ekki liggi fyrir staðfestar upplýsingar hjá Ríkisskattstjóra um allar tekjur kæranda á árunum 2017 og 2018. Að þessu virtu hafi umsókn kæranda um greiðsluaðlögun verið synjað.
Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á b-lið 1. mgr. 6. gr. lge.
Samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. skal synja um heimild til greiðsluaðlögunar gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.
Við mat á því hvað teljist vera nægjanlega glögg mynd af fjárhag skuldara í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. telur úrskurðarnefndin meðal annars rétt að líta til 4. og 5. gr. lge.
Í 4. gr. lge. er gerð grein fyrir því hvernig umsókn um greiðsluaðlögun skuli vera úr garði gerð. Í 1. mgr. 4. gr. er upptalning í 11 töluliðum á því sem koma skal fram í umsókninni. Í 4. tölul. lagaákvæðisins segir að í umsókn um greiðsluaðlögun skuli koma fram hverjar tekjur skuldara séu, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðist, svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum.
Í athugasemdum með 4. gr. í frumvarpi til lge. kemur fram að gert sé ráð fyrir að skuldari, eftir atvikum með aðstoð umboðsmanns skuldara, leggi mat á hversu háa fjárhæð hann geti greitt mánaðarlega til að standa skil á skuldbindingum sínum. Upptalning í 1. mgr. sé ekki tæmandi, enda gert ráð fyrir að umboðsmaður skuldara geti krafist þess að skuldari afli frekari upplýsinga en tilgreindar séu í ákvæðinu.
Í 5. gr. lge. er kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og getur embættið krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingarnar með gögnum. Rannsókn á fjárhagsstöðu skuldara hefur bæði þýðingu við mat á því hvort tilefni sé til að synja umsókn á grundvelli 2. mgr. 6. gr. lge. og varpar jafnframt ljósi á núverandi fjárhagsstöðu skuldara og væntanlega þróun hennar til framtíðar.
Í skýringum við frumvarp til lge. er fjallað um inntak b-liðar 1. mgr. 6. gr. Þar segir að umboðsmanni sé skylt að hafna umsókn gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar, enda mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um fjárhagsleg málefni sín. Hér sé einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Áréttað er að skuldari skuli taka virkan þátt í og sýna viðleitni til að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.
Hver sá sem leitar greiðsluaðlögunar skal þannig veita umboðsmanni skuldara ítarlegar upplýsingar og gögn. Í þessu felst skylda til að veita allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að greina fjárhagsstöðu viðkomandi til fulls. Með öðru móti verður ekki lagt efnislegt mat á hvort heimilt eða hæfilegt sé að veita skuldara greiðsluaðlögun. Rannsóknarskylda stjórnvalda leysir umsækjanda um greiðsluaðlögun ekki undan þeirri skyldu.
Í málinu hefur komið fram að kærandi fékk hærri greiðslur inn á bankareikning sinn á árinu 2017 en hún gaf upp til skatts sem tekjur. Samkvæmt yfirliti Ríkisskattstjóra vegna tekna ársins 2017 voru uppgefnar nettótekjur hennar, sem taldar voru fram til skatts árið 2017, alls 3.435.005 krónur. Innlegg á bankareikning kæranda voru samkvæmt upplýsingum frá banka 5.757.000 krónur. Mismunurinn er 2.321.995 krónur. Við skoðun á bankareikningi kæranda má sjá að 28 einstaklingar og eitt fyrirtæki greiddu alls 1.965.077 krónur inn á bankareikning hennar árið 2017. Að sögn kæranda er meðal annars um að ræða greiðslur fyrir [...] sem hún tók að sér, greiðslur frá [...] og lán. Aðrar greiðslur eru óútskýrðar. Kærandi hefur hvorki lagt fram viðhlítandi gögn um þessar greiðslur né veitt fullnægjandi skýringar um þær og ekki talið þær fram til skatts, hvorki sem lán né tekjur. Þannig liggur ekki fyrir hverjar tekjur kæranda eru og af því leiðir að óvíst er hvaða fjármuni hún hefur sér til framfærslu og til greiðslu skulda. Verður fjárhagur hennar því að teljast óljós að þessu leyti.
Það er markmið lge. að gera einstaklingum kleift að endurskipuleggja fjárhag sinn með samningum við kröfuhafa, eftir atvikum með niðurfellingu skulda að einhverju eða öllu leyti. Samkvæmt reglum lge. er skuldara gert að greiða eins hátt hlutfall af kröfum og sanngjarnt er þar sem í greiðsluaðlögun felst að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils. Hér verður að hafa í huga að skuldari hefur sjálfur óskað þess að fá heimild til greiðsluaðlögunarsamnings við kröfuhafa.
Að mati úrskurðarnefndarinnar eru þær upplýsingar sem tilgreindar eru í ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. grundvallarupplýsingar til þess að unnt sé að taka umsókn um greiðsluaðlögun til afgreiðslu, enda er ómögulegt án þeirra upplýsinga að átta sig á greiðslugetu skuldara þegar gerður er samningur um greiðsluaðlögun.
Eins og rakið er hér að framan liggur ekki fyrir með fullnægjandi hætti hverjar ráðstöfunartekjur kæranda voru árið 2017. Þá er enn fremur óljóst hvaða tekjur kærandi kemur til með að hafa á tímabili greiðsluaðlögunar. Af þeim sökum er ekki unnt að leggja mat á fjárhag hennar að því marki sem nauðsynlegt er samkvæmt ákvæðum lge. Með vísan til þess er það mat úrskurðarnefndarinnar að fjárhagur kæranda sé óljós í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. og því hafi verið rétt að synja henni um heimild til að leita greiðsluaðlögunar af þeirri ástæðu.
Með vísan til alls þess sem hér hefur verið rakið bar að synja umsókn kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar á grundvelli b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er samkvæmt því staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja umsókn A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.
Lára Sverrisdóttir
Sigríður Ingvarsdóttir
Þórhildur Líndal