Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 359/2022 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 359/2022

Mánudaginn 22. ágúst 2022

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Þann 15. júlí 2022 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra  A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 15. júní 2022, þar sem heimild kæranda til greiðsluaðlögunar var felld úr gildi.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Málsatvik eru þau að með ákvörðun umboðsmanns skuldara 17. mars 2022 var umsókn kæranda til að leita greiðsluaðlögunar samþykkt og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hennar. Þann 10. maí 2022 barst umboðsmanni skuldara tilkynning frá umsjónarmanni þar sem lagt var til að heimild kæranda til greiðsluaðlögunar yrði felld úr gildi  á grundvelli 15. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge.), sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. laganna.

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf, dags. 25. maí 2022, þar sem henni var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós varðandi tillögu umsjónarmanns og leggja fram gögn máli sínu til stuðnings áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 15. júní 2022, var heimild kæranda til greiðsluaðlögunar felld niður með vísan til 15. gr. lge., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 18. júlí 2022, var upplýst að kæra hefði borist að kærufresti liðnum og óskað skýringa. Svar kæranda barst úrskurðarnefndinni með bréfi, dags. 25. júlí 2022.


II.  Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. skal stjórnsýslukæra vegna ákvörðunar umboðsmanns skuldara um niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana berast úrskurðarnefnd velferðarmála innan tveggja vikna frá því að tilkynning um ákvörðun barst skuldara. Þegar kæra berst að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 (ssl.) nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul. lagaákvæðisins, eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 2. tölul. þess.

Samkvæmt gögnum málsins barst hin kærða ákvörðun kæranda með bréfi þann 20. júní 2022 og samkvæmt því byrjaði kærufrestur að líða þann dag en honum lauk 4. júlí 2022. Svo sem komið er fram barst úrskurðarnefndinni kæran 15. júlí 2022, eða 11 dögum umfram kærufrest.

Engar haldbærar skýringar hafa komið fram af hálfu kæranda á því hvers vegna kæran barst úrskurðarnefndinni að liðnum kærufresti. Þá liggur ekkert fyrir í gögnum málsins sem gefur til kynna að afsakanlegt verði talið að hún hafi ekki borist fyrr. Önnur atvik málsins þykja heldur ekki leiða til þess að veigamiklar ástæður mæli með því að málið verði tekið til meðferðar á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Af þessum sökum er máli þessu vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta