Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 166/2012

Fimmtudaginn 9. október 2014

 A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 28. ágúst 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 13. ágúst 2012 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 29. ágúst 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 8. október 2012.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 10. október 2012 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kærenda bárust með bréfi 23. október 2012.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1968 og 1969. Þau búa ásamt tveimur börnum sínum, öðru uppkomnu en hinu á unglingsaldri, í eigin 139 fermetra íbúð að C götu nr. 9a í sveitarfélaginu D.

Kærandi B er kerfisfræðingur en hann hefur verið atvinnulaus frá 2009 og er óvinnufær vegna veikinda. Hann hefur meðal annars þegið endurhæfingarlífeyri. Kærandi A starfar sem leikskólakennari og eru útborguð laun hennar 262.839 krónur á mánuði. Kærendur þiggja barnabætur sem nema að meðaltali 6.185 krónum á mánuði, vaxtabætur að meðaltali 50.000 krónur á mánuði og sérstaka vaxtaniðurgreiðslu að fjárhæð 16.819 krónur að meðaltali á mánuði.

Kærendur keyptu íbúð sína á árinu 2006 en um nýbyggingu var að ræða. Þau lýsa því að í ljós hafi komið galli á eigninni en byggingarverktakinn hafi ekki verið tilbúinn til þess að bæta úr því. Kærendur hafi því þurft að fá aðstoð lögmanns og afla matsgerðar vegna gallans með tilheyrandi kostnaði en þau sitji uppi með skuldir vegna þessa. Vegna gallans hafi þau haldið eftir lokagreiðslu af íbúðinni og því hafi þau ekki fengið afsal fyrir henni enda hafi ekki verið bætt úr gallanum. Af þessum ástæðum hafi kærendur hvorki fengið þinglýst skuldbreytingu á láni né hafi þau getað nýtt 110% leiðina. Árið 2008 hafi kærandi B farið í aðgerð vegna beinhimnubólgu en á þessum tíma hafi hann starfað sem tæknimaður hjá X. Gert hafi verið ráð fyrir því að hann yrði frá vinnu í fjórar til sex vikur vegna aðgerðarinnar en það hafi ekki gengið eftir. Í apríl 2009 hafi honum verið sagt upp. Hann hafi fengið greiðslur úr sjúkrasjóði rafiðnaðarmanna til ársloka 2009 og endurhæfingarörorku í 18 mánuði eftir það. Frá júnílokum 2011 hafi hann verið tekjulaus en hann sé að reyna að afla sér örorkubóta.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 66.623.302 krónur. Kærendur stofnuðu til helstu skuldbindinga á árinu 2006 í tengslum við íbúðarkaup.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 8. desember 2011 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 2. febrúar 2012 tilkynnti umsjónarmaður að hann teldi að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil þar sem kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a- og d-liðum 1. mgr. 12. gr. lge.

Í bréfi umsjónarmanns kom í fyrsta lagi fram að kærendur hefðu ekki lagt til hliðar fjármuni samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. á því tímabili sem frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hafi staðið yfir eða frá miðjum desember 2010. Á þessum tíma hefðu þau átt að geta lagt fyrir 1.402.755 krónur. Í bréfi umsjónarmanns kom í öðru lagi fram að kærendur hefðu vanrækt greiðslu hússjóðs og fasteignagjalda sem til hafi fallið eftir að greiðsluskjól komst á. Hafi umsjónarmaður gefið kærendum færi á að gefa skýringar á þessu. Jafnframt hafi kærendur verið upplýst um að fyrirhugað væri að senda umboðsmanni skuldara tilkynningu um niðurfellingu á greiðsluaðlögun. Hafi kærendur gefið þær skýringar að þau hafi ekki vitað um þessar skyldur. Umsjónarmaður hafi kannað málið hjá umboðsmanni skuldara og í ljós hafi komið að fyrir hendi væru skjalfestar upplýsingar um að kærendur hefðu fengið bréf frá embættinu á tímabilinu 6. til 9. apríl 2011 þar sem skyldur þeirra sem sækja um greiðsluaðlögun séu tíundaðar.

Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 6. mars 2012 þar sem þeim var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Umboðsmanni skuldara hafi borist skýringar kærenda með tölvupóstum 7. og 14. mars s.á. Þau hafi hafnað því að hafa brotið gegn ákvæðum a-og d-liða 1. mgr. 12. gr. lge. Hafi þau borið því við að kærandi B hafi verið tekjulaus að hluta til árið 2011 og þau hefðu ekki gert sér grein fyrir því hversu háa fjárhæð þau ættu að leggja til hliðar. Að því er varði skuldasöfnun í greiðsluskjóli hefðu þau aldrei verið upplýst um að greiða þyrfti fasteignagjöld og hússjóð á þeim tíma.

Með bréfi til kærenda 13. ágúst 2012 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr., sbr. a- og d-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

 II. Sjónarmið kærenda

Kærendur gera ekki eiginlegar kröfur en skilja verður málatilbúnað þeirra þannig að þau krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærendur greina frá því að þeim hafi verið sagt að þau mættu ekki greiða af neinu nema tryggingum, síma og rafmagni og að þau mættu ekki stofna til nýrra skulda. Ástæða þess að kærendur hafi ekki greitt gjöld í hússjóð og fasteignagjöld hafi verið sú að þau hafi talið að þau ættu ekki að greiða þessi gjöld. Þar sem þau hafi greitt fasteignagjöld og gjöld í hússjóð í nokkur ár hafi þau ekki talið þetta nýjar skuldir.

Kærendur hafi ekki áttað sig á því að þau hafi átt að greiða hússjóð og fasteignagjöld fyrr en þau hafi hitt umsjónarmann í janúar en umsjónarmaðurinn hafi bent þeim á það. Kærendur kveða stöðu sína nú hafa breyst umtalsvert. Búið sé að greiða rúmlega 700.000 króna yfirdráttarskuld og tæplega 500.000 króna skuldabréf hjá Sparisjóði Ólafsfjarðar. Nú hafi þau einnig greitt af skuld vegna fasteignagjalda og vanskil við hússjóð. Alls hafi þau nú greitt vanskil að fjárhæð rúmar 1.500.000 krónur.

Kærendur segjast aldrei hafa vitað hvað þau ættu að leggja mikið fyrir. Þau kveðast ekki hafa getað lagt fyrir þar sem þau hafi ekki haft afgangsfjármuni. Kærandi B hafi verið launalaus seinni hluta árs 2011. Þá hafi þau fermt annað barn sitt og útskrifað hitt sem stúdent. Þetta hafi kostað peninga. Kærendur skilji ekki hvernig umboðsmanni takist að komast að þeirri niðurstöðu að þau hefðu getað lagt fyrir rúmar 1.400.000 krónur. Kærandi A hafi haft um 280.000 krónur útborgaðar á mánuði. Það sem þau hafi greitt mánaðarlega hafi verið eftirtalið í krónum:

 

Samskiptakostnaður 13.000
Rafmagn 8.500
Öryggisþjónusta 7.000
Bifreið 34.000
Stöð 2 10.000
Bensín 70.000
Sjúkraþjálfari 10.000
Lyf 10.000
Tryggingar 16.000
Samtals 178.500

Að auki hafi þau þurft að kaupa ný gleraugu fyrir dóttur sína sem hafi kostað 28.000 krónur, kostnaður vegna lækna hafi fallið til og að auki hafi þau þurft að kaupa mat. Þessu til viðbótar hafi þau þurft að greiða kostnað við fermingu og útskrift, en þegar þeim kostnaði sé deilt niður á mánuði þá sé ekkert eftir. Það sjái hver heilvita maður að ekkert hafi verið eftir til að leggja til hliðar.

Lögmaður hafi tjáð kærendum að umboðsmaður skuldara hefði ekkert með greiðslur að gera sem kærandi B hefði fengið frá lífeyrissjóði sínum. Þetta séu bætur sem hann fái fram í tímann fram að 67 ára aldri og þurfi að nota þá fjármuni í framtíðinni.

Umboðsmaður skuldara hafi sagt að þeim hafi verið kynnt allt ferlið og að mikil umræða hafi verið í þjóðfélaginu um úrræði fyrir skuldara. Kærendur telja að fólk fylgist misvel með fréttum. Á þessum tíma hafi fréttaflutningur verið mjög neikvæður og þegar menn hafi áhyggjur telji þeir stundum best fyrir andlega heilsu að fylgjast ekki með fréttum. Þegar þau hafi leitað til umboðsmanns skuldara hafi þau verið viss um að þar myndu þau fá allar nauðsynlegar upplýsingar. Hafni kærendur því að ráðgjafi hafi upplýst þau um skyldur sínar eftir að þau hafi komist í greiðsluskjól. Umboðsmaður virðist bera endalaust fyrir sig að fólk hefði átt að kynna sér þetta og bendi á heimasíðu embættisins. Kærendur hafi talið að fólk þyrfti ekki að leita sér upplýsinga út um allt, á Netinu og í sjónvarpi. Kærendur taki þó fram að þau hafi borið sig eftir þeim upplýsingum sem þeim finnist vanta, til dæmis með símtölum, tölvupóstum og heimsóknum til embættisins.

Umboðsmaður hafi vitnað til þess að öllum sem nutu greiðsluskjóls hafi verið sent bréf 8. apríl 2011 þar sem skyldur skuldara hafi verið skýrðar. Kærendur kveðast eiga tölvupóst sem sýni og sanni að þau hafi aldrei fengið þetta bréf. Þau hafi sent marga pósta til starfsmanns embættisins og einnig farið til hans í þrígang. Starfsmaðurinn hafi leitað að bréfinu í tölvukerfi embættisins en hafi ekki fundið það. Kærendur álíta að umboðsmaður eigi að senda svo viðkvæmar upplýsingar í ábyrgðarpósti sem fólk taki á móti með undirritun. Þegar menn búi til dæmis í fjölbýlishúsi geti póstur auðveldlega farið til annarra.

Frá því að kærendur hafi fyrst leitað til umboðsmanns skuldara árið 2009 hafi margir starfsmenn embættisins komið að máli þeirra. Þau telji að upplýsingaflæði hafi ekki verið nægilegt og því hafi þessi misskilningur átt sér stað. Þau hefðu vitaskuld greitt það sem þeim bar ef þau hefðu vitað hvað það var.

Kærendur telja að þar sem þau hafi greitt upp lán og inn á vanskil eigi þau að fá að halda áfram í greiðsluaðlögunarferli.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að ef fram komi upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem er umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Þá sé í d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. kveðið á um að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna.

Umboðsmaður hafi sent öllum þeim sem nutu greiðsluskjóls bréf 8. apríl 2011 þar sem brýndar hafi verið fyrir þeim skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. lge. Bréfið hafi ekki verið sent í ábyrgðarpósti en nöfn kærenda sé að finna á skrá yfir send bréf. Enn fremur hafi upplýsingarnar verið að finna á heimasíðu embættisins. Að auki séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli samkvæmt 12. gr. lge. ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og umsækjenda. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. fylgt með ákvörðun umboðsmanns skuldara um samþykki greiðsluaðlögunar 8. desember 2011 sem borist hafi kærendum með ábyrgðarbréfi. Einnig hafi fylgt greiðsluáætlun vegna greiðsluaðlögunar en þar sé ítarleg sundurliðun á tekjum kærenda og kostnaði við framfærslu þeirra auk þess sem greiðslugeta þeirra hafi verið sérstaklega tiltekin. Þannig telji embættið að það hafi gert allt sem í þess valdi hafi staðið til þess að upplýsa kærendur um skyldur sínar í greiðsluskjóli. Hafi kærendum því mátt vera ljóst frá upphafi að þeim bæri skylda til að leggja til hliðar þá fjármuni sem þau hefðu aflögu í lok hvers mánaðar. Einnig telji embættið að leggja verði þær skyldur á umsækjendur í greiðsluaðlögun að þeir beri sig eftir þeim upplýsingum sem þeim finnist vanta um þau úrræði sem þeir hafi sótt um. Þannig hefði kærendum að minnsta kosti átt að vera ljósar skyldur sínar við afhendingu ákvörðunar um afgreiðslu á umsókn um greiðsluaðlögun 9. desember 2011.

Greiðsluskjól kærenda hafi staðið yfir frá því um miðjan desember 2010 eða í rúma 19 mánuði. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærendur haft neðangreindar tekjur árið 2011 og út júlímánuð 2012 í krónum:

Launatekjur 2011 að frádregnum skatti 4.437.182
Launatekjur jan.–júlí 2012 að frádregnum skatti 4.464.624
Vaxtabætur 2011 600.000
Sérstök vaxtaniðurgreiðsla 2011 201.830
Barnabætur 2011 74.216
Barnabætur jan.–júlí 2012 48.483
Samtals 9.826.335

Samkvæmt gögnum málsins megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi verið um 281.183 krónur á mánuði á meðan þau nutu greiðsluskjóls. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið í því skyni að kærendum sé veitt svigrúm til að bregðast við óvæntum, minni háttar útgjöldum. Miðað sé við framfærslukostnað ágústmánaðar 2012 fyrir tvo fullorðna og eitt barn. Samkvæmt þessu sé gengið út frá því að kærendur hafi haft getu til að leggja fyrir um 4.435.360 krónur á fyrrnefndu tímabili sé miðað við meðalgreiðslugetu 233.440 krónur á mánuði í 19 mánuði.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður einungis notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara séu tengd vísitölu og byggjast á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar. Þegar metið sé hvort umsækjandi hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna standi sé jafnan gert ráð fyrir nokkru svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum í hverjum mánuði. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að sögn umsjónarmanns hafi verið farið fram á það við kærendur að þau gerðu grein fyrir ástæðum þess að þau hafi ekki lagt fyrir fé í greiðsluskjóli. Kærendur hafi gefið þær skýringar að þau hafi verið með öllu grunlaus um þær skyldur sem á þeim hvíldu samkvæmt lge. Umboðsmaður skuldara hafi þó veitt kærendum færi á að gefa skýringar og leggja fram gögn sem varpað geti ljósi á hvers vegna þau hafi ekki lagt til hliðar á tímabilinu og hvorki staðið skil á greiðslum í hússjóð né fasteignagjöldum. Hafi kærendur greint frá því að þeim hafi ekki verið leiðbeint um skyldur sínar í greiðsluskjóli. Einnig hafi þau tiltekið að kærandi B hafi verið tekjulaus hluta ársins 2011.

Að mati umsjónarmanns hafi kærendur brotið gegn skyldum sínum samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að vanrækja greiðslu lögveðskrafna. Ekki verði hjá því komist að líta til þess að kærendum hafi ítrekað verið kynntar skyldur sínar. Hafi þau sjálf greint frá því í tölvupósti til embættisins 14. mars 2012 að þegar skyldur þeirra voru kynntar fyrir þeim í upphafi hafi þeim verið leiðbeint um að hætta að greiða fastar greiðslur og af lánum. Kærendur taki sjálf fram að þeim hafi þó verið sagt að greiða áfram af síma, rafmagni, tryggingum og slíku. Ljóst sé að þau gjöld sem kærendur hafi ekki greitt, þ.e. húsgjöld og fasteignagjöld, séu meðal þeirra greiðslna sem tengist daglegum rekstri húsnæðis. Komi þessi skilningur umboðsmanns skuldara á föstum mánaðarlegum útgjöldum meðal annars fram á heimasíðu embættisins þar sem greint sé frá hvað felist í frestun greiðslna. Hafi nefndar upplýsingar því verið aðgengilegar kærendum á tímabilinu. Leggja verði þá skyldu á kærendur að leita eftir upplýsingum hjá embættinu um skyldur sínar, hafi eitthvað verið óljóst.

Samkvæmt því sem að ofan greini þyki ljóst að kærendur hafi ekki lagt fyrir nægilegt fé af tekjum sínum og öðrum launum í greiðsluskjóli. Þá verði ekki hjá því komist að líta til þess að kærendur hafi ekki staðið skil á föstum mánaðarlegum útgjöldum á tímabilinu. Með því hafi kærendur stofnað til nýrra skuldbindinga sem skaðað gætu hagsmuni lánardrottna.

Í málatilbúnaði kærenda hafi komið fram að þeim hafi verið sagt að þau mættu ekki greiða af neinu nema tryggingum, síma og rafmagni og að þau mættu ekki stofna til nýrra skulda. Þá segi þau ástæðuna fyrir því að þau hafi ekki greitt af fasteignagjöldum og hússjóði þá að þau hafi talið sér það óheimilt. Jafnframt telji þau að þar sem þau hafi greitt fasteignagjöld og hússjóð í mörg ár hafi þau ekki verið að stofna til nýrra skulda. Kærendur segi að frá því að þau hafi fyrst leitað til umboðsmanns skuldara á árinu 2009 hafi margir starfsmenn komið að máli þeirra. Þau telji ástæðu þess að misskilningur hafi orðið að upplýsingaflæði hefði ekki verið sem skyldi. Það sé rétt hjá kærendum að margir starfsmenn embættisins hafi komið að máli þeirra. Embættið sé deildarskipt og hver deild hafi sitt verkefni í greiðsluaðlögunarferlinu. Rétt sé að taka fram að þegar kærendur hafi sótt um greiðsluaðlögun 2. desember 2010 hafi legið frammi í afgreiðslu embættisins upplýsingar um skyldur þeirra sem sækja um greiðsluaðlögun. Að auki hafi sá ráðgjafi sem tekið hafi á móti kærendum upplýst þau um skyldur þeirra eftir að þau hafi komist í greiðsluskjól. Þá sé rétt að nefna að mikil umræða hafi verið í þjóðfélaginu um greiðsluaðlögun á þessum tíma og hafi bæklingur umboðsmanns skuldara verið sendur á öll heimili í landinu upp úr miðjum nóvember 2010.

Í 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé fjallað um leiðbeiningarskyldu stjórnvalda. Þar segi að stjórnvald skuli veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál er snerta starfsemi þeirra. Í frumvarpi sem varð að stjórnsýslulögum segi um 7. gr. að hægt sé að veita upplýsingar bæði munnlega og skriflega og geti verið um almennar upplýsingar að ræða svo sem auglýsingar eða sérstaka bæklinga. Á heimasíðu embættisins hafi frá upphafi verið að finna ítarlegar upplýsingar um hvað felist í greiðsluskjóli og hvaða skyldur skuldari beri á meðan hann njóti þess.

Kærendur hafi sagt að ástæða þess að þau hafi ekki lagt fyrir á tímabili greiðsluskjóls hafi verið sú að kærandi B hafi verið launalaus hálft árið 2011 en einnig hafi þau fermt annað barn sitt og útskrifað hitt sem stúdent og það hafi haft kostnað í för með sér. Að mati umboðsmanns geti ferming og útskrift ekki eitt og sér afsakað það að kærendur hafi ekki lagt fyrir það fé sem þau eigi að vera aflögufær um mánaðarlega. Þrátt fyrir að kærandi B hafi verið tekjulaus síðari hluta árs 2011 hafi hann fengið útgreiddar bætur að fjárhæð 2.063.210 krónur úr lífeyrissjóði í janúar og febrúar 2012. Bótafjárhæð þessi skýri muninn á þeirri fjárhæð sem kærendur hefðu átt að leggja fyrir að mati umsjónarmanns, 1.402.755 krónur, og þeirri fjárhæð sem umboðsmaður skuldara tiltaki, 4.435.360 krónur.

Í samskiptum kærenda og umboðsmanns skuldara hafi komið fram að kærendur hafi ekki vitað hvað þau hafi átt að leggja mikið til hliðar mánaðarlega. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem er umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Þetta ákvæði skýri sig sjálft.

Að framangreindu virtu, að undangengnu heildstæðu mati á aðstæðum og með hliðsjón af gögnum málsins verði ekki hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a- og d-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a- og d-liða 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Samkvæmt d-lið sama ákvæðis er kveðið á um að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna. Sú undantekning er gerð að heimilt er að stofna til nýrra skuldbindinga þegar skuldbinding er nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með bréfi til umboðsmanns skuldara 2. febrúar 2012 að hann teldi að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil þar sem kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a- og d-liðum 1. mgr. 12. gr. lge.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist í fyrsta lagi á því að kærendur hafi ekki lagt til hliðar þá fjármuni sem þeim hafi verið unnt að leggja til hliðar á því tímabili sem þau nutu greiðsluskjóls eða í 19 mánuði alls. Í öðru lagi er hún byggð á því að kærendur hafi látið hjá líða að greiða fasteignagjöld og gjöld í hússjóð og þannig stofnað til skulda í greiðsluskjóli.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kærenda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kærendum því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn þeirra var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur verið upplýst um skyldu sína til að leggja fjármuni til hliðar í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og geta því ekki borið fyrir sig að þeim hafi ekki verið kunnugt um þá skyldu.

Að mati umboðsmanns skuldara hafa kærendur átt að leggja til hliðar 4.435.360 krónur en samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. hafi þau átt að leggja til hliðar fjármuni frá því að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var lögð fram, eða allt frá miðjum desember 2010. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á greiðsluaðlögunarumleitunum kemur fram að greiðslugeta kærenda hafi að meðaltali verið 233.440 krónur á mánuði í greiðsluskjóli en í þeirri fjárhæð er tekið tillit til greiðslna að fjárhæð 2.063.210 krónur sem kærandi B fékk frá lífeyrissjóði í janúar og febrúar 2012. Í bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 2. febrúar 2012, þar sem lagt er til að heimild til greiðsluaðlögunar verði felld niður, kemur fram að umsjónarmaður telji að kærendur hefðu átt að getað lagt til hliðar 1.402.755 krónur miðað við uppgefin laun. Af bréfi umsjónarmanns má sjá að hann hafði ekki upplýsingar um nefndar lífeyrissjóðsgreiðslur enda hafði aðeins hluti þeirra borist er hann ritaði bréf sitt.

Kærendur kveðast hafa haft til ráðstöfunar 280.000 krónur á mánuði. Þegar framfærslukostnaður og annar kostnaður hafi verið greiddur hafi þau ekki haft neitt aflögu til að leggja fyrir. Samkvæmt launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa tekjur kærenda verið eftirfarandi á tímabili greiðsluskjóls í krónum:

Nettótekjur A 2011 3.498.457
Nettómánaðartekjur Aað meðaltali 2011 291.538
Nettótekjur B 2011 938.725
Nettómánaðartekjur B að meðaltali 2011 78.227
Nettótekjur alls 2011 4.437.182
Mánaðartekjur alls að meðaltali 2011 369.765
Nettótekjur A jan.–júlí 2012 1.823.236
Nettómánaðartekjur A að meðaltali jan.–júlí 2012 260.462
Nettótekjur B jan.–júlí 2012 2.641.388
Nettómánaðartekjur B að meðaltali jan.–júlí 2012 377.341
Nettótekjur alls jan.–júlí 2012 4.464.624
Mánaðartekjur alls að meðaltali jan.–júlí 2012 637.803
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 8.901.806
Nettómánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 468.516

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara og tekjur kærenda að meðtöldum bótum úr lífeyrissjóði var greiðslugeta kærenda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 281.183
Alls sparnaður á mánuði 187.333
Alls sparnaður í 19 mánaða greiðsluskjóli 3.559.329

Sé miðað við það álit kærenda að lífeyrissjóðsgreiðslur kæranda B eigi að undanskilja þegar reiknað er út hve háa fjárhæð kærendur hafi getað lagt fyrir er niðurstaðan eftirfarandi í krónum:

Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 6.773.075
Nettómánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 356.478
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 281.183
Lagt til hliðar á mánuði 75.295
Alls sparnaður í 19 mánaða greiðsluskjóli 1.430.598

Kærendur kveða mánaðarleg útgjöld sín hafa verið 178.500 krónur auk óvæntra útgjalda og kostnaðar við fermingu og útskrift. Það er ríflega 102.000 krónum lægri fjárhæð í hverjum mánuði en umboðsmaður skuldara gerir ráð fyrir. Verður því að telja að umboðsmaður geri ráð fyrir ríflegum óvæntum útgjöldum og innan þess rúmist meðal annars kostnaður við fermingu og útskrift barna kærenda.

Samkvæmt þessu og miðað við gögn málsins telur kærunefndin ekki hjá því komist að miða við að kærendur hefðu átt að geta lagt til hliðar að minnsta kosti 1.430.000 krónur í greiðsluskjóli. Fellst kærunefndin því á niðurstöðu umboðsmanns skuldara um að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Í öðru lagi byggist ákvörðun umboðsmanns skuldara á því að kærendur hafi stofnað til nýrra skulda vegna vanskila á fasteigna- og hússjóðsgjöldum í greiðsluskjóli en það sé í andstöðu við d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Kærendur segjast ekki hafa greitt þessi gjöld í greiðsluskjólinu vegna vanþekkingar en nú hafi þau greitt af skuld vegna fasteignagjalda, vanskil hússjóðs, rúmlega 700.000 króna yfirdráttarskuld og tæplega 500.000 króna skuldabréf hjá Sparisjóði Ólafsfjarðar. Alls hafi þau nú greitt vanskil að fjárhæð rúmlega 1.500.000 krónur. Kærendur leggja ekki fram gögn þessu til staðfestingar.

Varðandi gjöld í hússjóð og fasteignagjöld var gert ráð fyrir því í framfærsluútreikningum umboðsmanns skuldara að þessi gjöld væru á meðal útgjalda kærenda á meðan frestun greiðslna stóð yfir, enda nær slík frestun ekki til krafna sem verða til eftir að heimild til að leita greiðsluaðlögunar hefur verið veitt, sbr. 3. mgr. 11. gr. lge. Hafa kærendur því að mati kærunefndarinnar stofnað til nýrra skulda í skilningi d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Fellst kærunefndin því einnig á niðurstöðu umboðs­manns skuldara þess efnis að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt því lagaákvæði.

Það er mat kærunefndarinnar að kærendum hafi mátt vera það ljóst, með vísan til skriflegra leiðbeininga umboðsmanns skuldara og þeirrar greiðsluáætlunar sem kærendur fengu í hendur, að þeim hafi borið skylda til að leggja til hliðar af tekjum sínum á tímabilinu og að þau hafi átt að greiða títtnefnd fasteigna- og hússjóðsgjöld.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að kærendur hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt a- og d-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. og að umboðsmanni skuldara hafi því borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda er því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta