Mál nr. 164/2012
Fimmtudaginn 9. október 2014
A
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.
Þann 27. ágúst 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 13. júlí 2012 þar sem umsókn hans um heimild til að leita greiðsluaðlögunar var hafnað.
Með bréfi 27. ágúst 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 13. september 2012.
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 14. september 2012 og var honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 25. október 2012. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.
I. Málsatvik
Kærandi er fæddur 1978. Hann býr ásamt sambýliskonu og tveimur börnum í leiguhúsnæði að B götu nr. 36 í sveitarfélaginu C. Kærandi er atvinnulaus og fær greiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 174.311 krónur á mánuði eftir frádrátt skatts.
Kærandi er stjórnarmaður og prókúruhafi í níu einkahlutafélögum og framkvæmdastjóri í fimm þessara félaga. Samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra þáði hann síðast laun hjá X ehf. í janúar 2008. Eftir það var hann tekjulaus fram í mars 2009 að hann fékk greiddar atvinnuleysisbætur í sex mánuði. Þá var hann tekjulaus frá ágúst 2009 og þangað til í byrjun árs 2012 er hann fékk aftur greiddar atvinnuleysisbætur.
Heildarskuldir kæranda nema 6.516.519 krónum samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara og falla allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Eru þetta yfirdráttarskuldir, skuldir vegna greiðslukorta og ýmsir ógreiddir reikningar.
Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til haustsins 2008 þegar hrun varð í íslensku efnahagslífi. Kærandi kveðst hafa verið með eigin rekstur. Fyrst hafi hann rekið verslun en hún hafi brunnið til kaldra kola. Eftir það hafi hann komist í vanda með skuldbindingar vegna verslunarinnar. Samhliða verslunarrekstrinum hafi kærandi keypt fasteign til útleigu í félagi við annan mann. Að sögn kæranda gekk leigustarfsemin vel og hafi hann því getað greitt niður hluta þeirra skulda sem urðu vegna brunans í versluninni. Leiguhúsnæðið hafi verið selt með hagnaði og hafi kærandi leitað til Landsbankans til að ávaxta féð. Þar hafi honum verið ráðlagt að leggja féð í sjóð hjá Landsbankanum í Lúxemborg sem hann hafi gert. Eftir þetta hafi kærandi farið að stunda afleiðuviðskipti sem hafi gengið nokkuð vel fram að bankahruni. Þá hafi allt farið á versta veg. Lán hafi hækkað og tap hafi orðið á öllum hans viðskiptum. Þá hafi kærandi ákveðið að nálgast þá peninga sem hann hafi lagt inn í Landsbankann í Lúxemborg en í ljós hafi komið að allt sem honum hafði verið sagt hafi verið „rugl“. Inneign hans hjá Landsbankanum hafi aðeins verið í krónum en ekki evrum og lán á móti sjóðseigninni hafi verið í evrum. Bankinn hafi hætt starfsemi og kærandi hafi ekki fengið peningana. Á þeim tíma sem kærandi beið eftir peningunum sem hann taldi sig eiga í Lúxemborg hafi safnast upp skuldir hjá honum og fyrirtækjum hans. Nú sé kærandi skuldugur og eignalaus. Í greinargerð með umsókn kæranda kemur fram að stór hluti skulda hans sé beint og óbeint vegna fyrirtækjarekstrar.
Umsókn kæranda um greiðsluaðlögun var lögð fram 30. júní 2011. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 13. júlí 2012 var umsókninni hafnað með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. þar sem umboðsmanni þóttu fyrirliggjandi gögn ekki gefa nægilega glögga mynd af fjárhag kæranda og væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar.
II. Sjónarmið kæranda
Málatilbúnaður kæranda er um margt óljós en þó verður að skilja hann þannig að kærandi krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.
Kærandi krefst þess að fá frekari tíma til að ljúka þeim málum sem hann vinni að í tengslum við fyrirtæki sín. Flest séu þessi fyrirtæki aðeins kennitalan. Þó ætti að vera hægt að koma X ehf. á réttan kjöl ef erlend lán og eignir félagsins í Lúxemborg verði leiðrétt. Kærandi kveðst ekki hafa fengið tíma til að ljúka við upplýsingaöflun við málsmeðferðina hjá umboðsmanni skuldara.
Þar sem ekki sé búið að ljúka við að „koma erlendum lánum á rétta braut og búið að dæma í þeim“ telji kærandi ekki mögulegt að „gera upp“ sín mál. Óljóst sé með eignir og skuldir.
Kærandi segist vilja greiða upp eins mikið af skuldum og hann mögulega geti, helst allar skuldirnar. Hann hafi þó ekki atvinnu og hafi því ekki haft greiðslugetu undanfarin ár. Hann hafi sjálfur komið sér í vandræði með því að nota greiðslukort og yfirdráttarlán til að ekki kæmi til vanskila.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni skuldara að kanna hvort fyrir liggi aðstæður sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. sé kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.
Í greinargerð með frumvarpi til lge. segi um þetta ákvæði að samkvæmt b-lið skuli umsókn hafnað ef fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Ákvæðið sé samhljóða þágildandi 1. tölul. 1. mgr. 63. gr. d X. kafla a laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 en þar var þó gert ráð fyrir að ástæðan geti orðið til þess að héraðsdómari hafni beiðni um nauðasamning en í frumvarpinu sé kveðið á um skyldu til að synja um heimild til greiðsluaðlögunar undir þessum kringumstæðum enda mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um allt sem lýtur að fjárhagslegum málefnum hans. Hér sé því einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsinga sem honum einum sé unnt að útvega. Hér sé áréttað eins og víða annars staðar í frumvarpinu að skuldari skuli taka virkan þátt og sýna viðeigandi viðleitni við að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.
Umboðsmaður hafi sent kæranda bréf 1. júní 2012. Bréfið hafi verið sent í ábyrgðarpósti en kærandi hafi ekki sótt það þrátt fyrir ítrekanir. Í bréfinu hafi verið bent á skattskuldir, meðal annars vörsluskatta, sem hvíli á einkahlutafélögum þar sem kærandi sé stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi, og því beri hann ábyrgð stöðu sinnar vegna á greiðslu þeirra skatta, sbr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Honum hafi verið bent á að leita til ríkisskattstjóra telji hann álagningu þessara skatta ekki endurspegla rétta skattskyldu félaganna en skuldirnar séu byggðar á áætlun. Símasamband hafi verið haft við kæranda 2. júlí 2012 þar sem uppgefið netfang hafi ekki verið virkt. Kærandi hafi þá gefið upp nýtt netfang og hafi honum verið sent bréfið í tölvupósti sama dag ásamt beiðni um nýjustu ársreikninga fyrir X ehf. og Y. ehf. Einnig hafi verið óskað eftir upplýsingum um fiskiskipið D sem sé í eigu kæranda samkvæmt upplýsingum frá sýslumanninum í Kópavogi.
Kæranda hafi verið veittur þriggja daga frestur til að gefa upplýsingarnar. Svar kæranda hafi borist 3. júlí 2012. Þar komi fram að ársreikningum fyrir tilgreind félög hafi ekki verið skilað í mörg ár en hann telji þau eignalaus. Hann hafi selt fiskiskipið D árið 2009 en nýir eigendur hafi ekki gengið frá eigendaskiptum. Þá þurfi hann að kanna virðisaukaskattskuld á Z ehf. en umbeðin afrit af leiðréttingarskýrslum hafi ekki borist.
Þar sem enn hafi margt verið óljóst varðandi fjárhag kæranda hafi honum verið sendur tölvupóstur 11. júlí 2012 þar sem óskað hafi verið upplýsinga um tekjur hans en samkvæmt skattframtölum síðustu fjögurra ára hafi tekjur hans verið mjög lágar. Kærandi hafi verið beðinn um að svara hvers vegna hann hafi ekki fengið laun frá þeim félögum sem hann sé skráður framkvæmdastjóri fyrir og þá hvers vegna hann hafi starfað launalaust fyrir félögin. Hefði hann ekki haft nein laun var hann beðinn um að skýra hvers vegna hann hefði ekki sótt um atvinnuleysisbætur. Spurt var um eignarhluta kæranda í þeim félögum sem hann væri stjórnarmaður, prókúruhafi eða framkvæmdastjóri fyrir. Ætti kærandi eignarhluta í félögunum var óskað upplýsinga um hverjar eignir félaganna væru og óskað eftir ársreikningum því til staðfestingar. Á skattframtali 2011 komi fram að kærandi hafi selt sambýliskonu sinni fasteign að Austurvegi 1 á Ísafirði fyrir 8.500.000 krónur. Óskað var upplýsinga um hvernig kærandi hefði ráðstafað fénu. Í tölvupóstinum hafi komið fram að bærust umbeðin gögn ekki innan þriggja daga gæti það leitt til þess að umsókn yrði synjað. Ekkert svar hafi borist frá kæranda.
Að mati umboðsmanns skuldara séu þær upplýsingar sem embættið hafi óskað eftir nauðsynlegar til þess að leggja mat á það hvort kærandi uppfylli skilyrði laganna til að fá heimild til að leita greiðsluaðlögunar, sbr. 4. gr. lge. Þyki fyrirliggjandi gögn ekki gefa nægilega glögga mynd af fjárhag kæranda og/eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.
Kærandi hafi gert þá kröfu í kæru að hann fái aukinn tíma til að vinna í þeim málum er vörðuðu fyrirtæki hans. Einnig telji kærandi að hann geti komið einu af félögum sínum á réttan kjöl þegar erlend lán og erlendar fjárfestingar hafi verið leiðréttar. Umboðsmaður bendir á að í frumvarpi til lge. komi fram að það sé ekki vilji löggjafans að einstaklingar sem fyrst og fremst eigi í vanda vegna atvinnurekstrar nýti sér greiðsluaðlögunarúrræðið.
Umboðsmaður árétti að það sé aðeins á færi kæranda sjálfs að veita þær skýringar og afhenda þau gögn sem óskað hafi verið eftir við vinnslu málsins en samkvæmt 4. mgr. 4. gr. lge. beri skuldara að útvega nauðsynleg gögn og koma þeim til umboðsmanns. Hafi þetta meðal annars verið staðfest í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 5/2011.
Það er mat umboðsmanns skuldara að synja beri kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.
Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Kærandi krefst þess að fá rýmri tíma til að ljúka þeim málum sem hann vinni að í tengslum við fyrirtæki sín. Að mati kærunefndarinnar hefur vinna kæranda í sambandi við málefni fyrirtækja hans ekki þýðingu í málinu nema hún skipti máli varðandi fjárhagslega afkomu kæranda.
Við meðferð málsins hjá umboðsmanni skuldara kom fram að fjárhagur kæranda væri að ýmsu leyti óljós. Umboðsmaður sendi kæranda bréf með ábyrgðarpósti 1. júní 2012 og óskaði tiltekinna upplýsinga frá kæranda. Kærandi sótti bréfið ekki og brá umboðsmaður skuldara því á það ráð að senda kæranda bréfið með tölvupósti 2. júlí s.á. Svar barst frá kæranda 3. júlí en þar var fyrirspurnum umboðsmanns aðeins svarað að mjög litlu leyti og engin gögn lögð fram. Umboðsmaður sendi því kæranda frekari fyrirspurnir með tölvupósti 11. júlí 2012. Þar var tekið fram að bærust umbeðin gögn ekki innan þriggja daga gæti það leitt til þess að umsókn yrði synjað. Umboðsmaður tók síðan ákvörðun um að synja kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar 13. júlí sama ár. Samkvæmt þessu leið tæpur einn og hálfur mánuður frá því að umboðsmaður óskaði upplýsinga frá kæranda og þar til ákvörðun var tekin í máli hans. Þær upplýsingar sem kærandi lét í té á þeim tíma voru ófullnægjandi og óskýrar. Þá liggur fyrir að með bréfum 14. september og 25. október 2012 var kæranda boðið að koma athugasemdum sínum á framfæri við kærunefndina. Það tækifæri nýtti kærandi ekki og lagði engin gögn fram. Eins og mál þetta liggur fyrir er það mat kærunefndarinnar að kærandi hafi fengið nægilegan tíma til að afla þeirra upplýsinga sem óskað var eftir í sambandi við fjárhagsstöðu hans og tækifæri til að leggja fram gögn.
Ákvörðun umboðsmanns skuldara var tekin með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Þar var kveðið á um að synja skyldi um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gæfu ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.
Við mat á því hvað teljist vera nægilega glögg mynd af fjárhag skuldara telur kærunefndin meðal annars rétt að líta til 4. og 5. gr. lge. Í 4. gr. lge. er gerð grein fyrir umsókn um greiðsluaðlögun. Þar er talið upp í ellefu liðum hvaða upplýsingar skuli koma fram í umsókn skuldara um greiðsluaðlögun. Í 2. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. segir að í umsókn um greiðsluaðlögun skuli koma fram sundurliðaðar eignir skuldara. Í athugasemdum með 4. gr. í frumvarpi til lge. kemur fram að upptalning 1. mgr. sé ekki tæmandi, enda sé gert ráð fyrir að umboðsmaður skuldara geti krafist þess að skuldari afli frekari upplýsinga en tilgreindar eru í ákvæðinu. Í 2. mgr. 4. gr. segir að upplýsingar samkvæmt 1. mgr. skuli einnig gefa um maka skuldara og þá sem teljast til heimilis með honum. Í 3. mgr. 4. gr. kemur meðal annars fram að umsókn um greiðsluaðlögun skuli fylgja gögn til staðfestingar á þeim upplýsingum sem hún hefur að geyma.
Í 5. gr. er kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og getur embættið krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingarnar með gögnum. Rannsókn á fjárhagsstöðu skuldara hefur bæði þýðingu við mat á því hvort tilefni sé að synja umsókn á grundvelli 2. mgr. 6. gr. lge. og varpar jafnframt ljósi á núverandi fjárhagsstöðu skuldara og væntanlega þróun hennar til framtíðar.
Umboðsmaður telur fjárhag kæranda óljósan að ýmsu leyti. Þannig hafi tekjur hans til dæmis verið mjög lágar á skattframtölum frá 2009, hann virðist ekki hafa fengið tekjur frá þeim félögum sem hann hafi starfað fyrir, eignarhlutar kæranda í einkahlutafélögum liggi ekki fyrir, fjárhagur félaga kæranda sé óviss, ekki liggi fyrir hvernig kærandi hafi ráðstafað söluverði fasteignar er hann seldi sambýliskonu sinni 2010 og upplýsingar varðandi eignarhald á fiskiskipinu D séu misvísandi. Óskaði umboðsmaður skýringa kæranda á þessum atriðum og fleirum, en kærandi lét þær ekki í té nema að mjög óverulegu leyti.
Í skýringum við frumvarp til lge. er fjallað um inntak b-liðar 1. mgr. 6. gr. Þar segir að umboðsmanni sé skylt að hafna umsókn þegar fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar enda mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um fjárhagsleg málefni sín. Hér sé einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Áréttað er að skuldari skuli taka virkan þátt í og sýna viðleitni til að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.
Kærandi kveður stóran hluta skulda sinna beint og óbeint vegna fyrirtækja sem hann hafi átt með öðrum. Hann hafi notað kort og yfirdrætti til að halda „öllu“ í skilum. Kærandi hefur hvorki lagt fram gögn um fyrirtækjaeign sína né fjárhag þessara fyrirtækja þrátt fyrir beiðnir þar um. Ekki liggur heldur fyrir hvaða skuldum fyrirtækjanna kærandi hélt í skilum með því að stofna persónulega til yfirdráttar- og greiðslukortaskulda. Raunar stangast fyrrgreind yfirlýsing kæranda á við það sem hann segir í kæru að flest þessara fyrirtækja séu aðeins „kennitalan“. Til viðbótar er rétt að líta jafnframt til þess að í frumvarpi til lge. kemur fram að það sé ekki vilji löggjafans að einstaklingar sem fyrst og fremst eigi í vanda vegna atvinnurekstrar nýti sér greiðsluaðlögunarúrræðið.
Þær takmörkuðu upplýsingar sem kærandi hefur veitt umboðsmanni skuldara til skýringar á fjárhag sínum eru ekki studdar gögnum. Eins og rakið er hér að framan er fjárhagur kæranda um margt óljós en kærandi hefur ekki orðið við óskum um skýringar með viðhlítandi hætti. Að mati kærunefndarinnar eru þær upplýsingar sem þurfa að koma fram með umsókn um greiðsluaðlögun og tilgreindar eru í ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. grundvallarupplýsingar til þess að unnt sé að taka umsókn um greiðsluaðlögun til afgreiðslu, enda byggist greiðsluaðlögun sem slík öðrum þræði á því að skuldari selji eignir til að greiða skuldir og minnka greiðslubyrði. Meðal annars af þessum sökum er nauðsynlegt að fyrir liggi hverjar eru eignir skuldara, ella er ekki mögulegt að leggja mat á raunverulega fjárhagsstöðu hans og þar með hvort kærandi á í raun og veru við fjárhagserfiðleika að etja. Kærandi á bankainnstæðu að fjárhæð 2.073.489 krónur og bátur, sem kærandi keypti 19. nóvember 2008 og kveðst hafa selt árið 2009 þrátt fyrir að báturinn sé enn skráður á hann, er veðbandalaus. Þykir kærunefndinni þetta ekki benda til þess að kærandi glími í raun við fjárhagserfiðleika.
Að mati kærunefndarinnar skortir því á að kærandi hafi lagt fram nauðsynlegar upplýsingar og gögn sem gefi nægilega glögga mynd af fjárhag hans eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar, svo sem ákvæði b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. áskilur. Var því umboðsmanni skuldara rétt samkvæmt lagaákvæðinu að synja kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar.
Með vísan til alls þess sem hér hefur verið rakið verður ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.
Sigríður Ingvarsdóttir
Eggert Óskarsson
Lára Sverrisdóttir