Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 58/2011

Fimmtudaginn 3. október 2013

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Kristrún Heimisdóttir.

Þann 22. september 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 15. september 2011 þar sem umsókn hans um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 26. september 2011 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 14. október 2011.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 24. október 2011 og var kæranda gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi 3. nóvember 2011.

 I. Málsatvik

Kærandi er giftur og býr ásamt eiginkonu sinni og þremur börnum þeirra í eigin íbúð við B götu nr. 113 í sveitarfélaginu C. Kærandi hefur um árabil starfað sem vörubílsstjóri og rak um tíma X ehf. Mánaðarlegar tekjur hans eftir greiðslu skatta eru 275.944 krónur. Að auki fær hann 21.565 krónur á mánuði í barnabætur, 25.000 krónur í vaxtabætur og 12.272 krónur í sérstaka vaxtaniðurgreiðslu. Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur hans eru því 334.781 króna.

Kærandi hefur um árabil starfað sem vörubílstjóri og rak um tíma X ehf. í kringum þá starfsemi en félagið rak allt að fimm flutningabíla. Eiginkona kæranda starfaði einnig hjá félaginu. Að sögn kæranda megi annars vegar rekja fjárhagserfiðleika hans til samdráttar í atvinnulífinu sem hafi leitt til þess að Z hf. sagði upp samningi við fyrirtækið í byrjun árs 2008. Afleiðingin var að félagið hafi orðið verkefnalaust, hafi  ekki getað greitt af lánum og var úrskurðað gjaldþrota í apríl 2009. Við það hafi kærandi og eiginkona hans misst vinnu sína og tekjugrundvöll. Hafi þau hjón þá stofnað félagið Y ehf. en það félag reki einn flutningabíl sem kærandi hefur atvinnu sína af. Eiginkonu kæranda hefur ekki tekist að fá aðra atvinnu.

Hins vegar stafi greiðsluerfiðleikarnir af því að höfuðstóll og afborganir af húsnæðisláni þeirra hjóna hafi hækkað gríðarlega, en þau keyptu raðhús árið 2007 þegar fasteignaverð var í hámarki. Nú sé svo komið að þau ráði ekki við greiðslu afborgana.

Heildarskuldir kæranda eru 91.393.636 krónur samkvæmt gögnum frá umboðsmanni skuldara. Þar af falla 6.824.700 krónur  utan samnings, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skuldbindinga var stofnað 2007.

Þann 13. september 2011 lá umsókn kæranda fyrir fullbúin, sbr. 1. mgr. 7. gr. lge. Var umsókn hans synjað með ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 15. september 2011, með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Í greinargerð með umsókn kæranda kemur fram að allar bifreiðar X ehf. hafi verið á erlendum lánum. Eftir að Z hf. sagði upp samningi við félagið hafi það ekki getað greitt af lánunum. Til þess að reyna að halda rekstrinum gangandi hafi eiginkona kæranda gengist í persónulegar ábyrgðir fyrir félagið en það hafi á endanum ekki dugað og var fyrirtækið úrskurðað gjaldþrota á árinu 2009.

Kærandi og eiginkona hans keyptu raðhús árið 2007 og stóðust greiðslumat í tengslum við lántöku vegna kaupanna. Þau lán sem hvíldu á eigninni hafi síðan rokið upp úr öllu valdi með þeim afleiðingum að kærandi og kona hans ráða ekki við afborganir.

Kærandi telur rangt að hafna umsókn hans um greiðsluaðlögun á grundvelli skattaskulda sem að hans mati eru lítið hlutfall af heildarskuldum hans.

Kærandi mótmælir því einnig að honum sé synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar  á grundvelli skattaskulda sem varða annan aðila en hann sjálfan. Tekur kærandi fram að umræddar skuldir hafi ekki verið til meðferðar hjá efnahagsbrotadeild RLS. Málið hafi því ekki farið fyrir dóm. Kærandi eigi að njóta vafans í því máli enda ljóst að stór hluti af  fjárskuldbindingum hans sé vegna annarra skulda en skattaskulda.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til umsóknar kæranda um greiðsluaðlögun er synjað var með ákvörðun umboðsmanns sem tilkynnt var með bréfi 15. september 2011 með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður bendir á að við mat á umsókn um greiðsluaðlögun beri að líta til þeirra aðstæðna sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að heimild sé til að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Við matið skuli meðal annars taka sérstakt tillit til þess hvort skuldari hafi bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu, sbr. d-liður 2. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara bendir á að samkvæmt gögnum málsins liggi fyrir að kærandi hafi bakað sér skuldbindingar sem varða refsingu eða skaðabótaskyldu. Í úrskurði yfirskattanefndar nr. 209/2009 var kæranda, sem fyrrum stjórnarmanni og prókúruhafa X ehf., gefið að sök að hafa vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri X ehf. vegna uppgjörstímabilanna september-október rekstrarárið 2004, janúar-febrúar til og með nóvember-desember rekstrarárið 2005 og janúar-febrúar, mars-apríl og júlí-ágúst rekstrarárið 2006. Auk þess var honum gefið að sök að hafa vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs, á lögmæltum tíma, skil á virðisaukaskattsskýrslum X ehf. vegna framangreindra uppgjörstímabila auk uppgjörstímabilsins nóvember-desember rekstrarárið 2004. Með úrskurði yfirskattanefndar var kæranda gert að greiða sekt að fjárhæð 6.800.000 krónur.

Sú sekt sem kæranda var gert að greiða nemi nú 6.824.700 krónum og það sé um 7,5% af heildarskuldum kæranda. Telur umboðsmaður að það sé verulega há fjárhæð og vísar í því sambandi til dóms Hæstaréttar frá 20. janúar 2010 í máli nr. 721/2009. Þar var heildarfjárhæð skuldar vegna háttsemi sem varðar refsingu samtals 1.780.437 krónur eða ríflega 8,3% af heildarskuldbindingum skuldarans í því máli og það leiddi til þess að umsókn um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar var synjað.

Telur umboðsmaður að þessi fjárhæð leiði ein og sér til þess að óhæfilegt þyki að veita kæranda heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Þó að heildarskuldir kæranda séu 91.393.636 krónur sé ekki hægt að líta framhjá sekt kæranda.

Bendir umboðsmaður á að þrátt fyrir að umrædd krafa ríkisskattstjóra sé til komin vegna reksturs félagsins X ehf., verði ekki hjá því litið að kærandi var skráður stjórnarmaður og prókúruhafi félagsins og hvíldi því sú ábyrgð á honum að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum og virðisaukaskatti vegna félagsins, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995. Vísar umboðsmaður til dóms Hæstaréttar frá 14. október 2010 í máli nr. 659/2009 þessu til stuðnings.

Að öllu þessu virtu fer umboðsmaður fram á að hin kærða ákvörðun, sem tekin var á grundvelli d-liðar 2. mgr. 6. gr. laga nr. 101/2010, verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggir á d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Í d-lið er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu.

Samkvæmt gögnum frá Hlutafélagaskrá var kærandi skráður prókúruhafi og stjórnarmaður X ehf., en enginn framkvæmdastjóri var skráður að félaginu. Því hvíldi á kæranda sú skylda sem tilgreind er í 3. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Þá skal fyrirsvarsmaður félags hlutast til um skil á vörslusköttum lögum samkvæmt að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu, sbr. 1. og 8. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 og 1. og 9. mgr. 30. gr. laga nr. 40/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda. Samkvæmt fyrirliggjandi úrskurði yfirskattanefndar var kæranda gert að greiða sekt að fjárhæð 6.800.000 vegna vanskila á virðisaukaskatti áranna 2004 - 2006. Samkvæmt gögnum málsins er sektin ógreidd.

Að mati kærunefndarinnar verður í málum sem þessum að líta heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu. Er það mat kærunefndarinnar, eins og á stendur í máli þessu meðal annars með hliðsjón af þeirri fjársekt sem kærandi hefur hlotið og dómi Hæstaréttar í málinu 721/2009, að skuldir kæranda sem falla undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. séu svo verulegar miðað við fjárhag hans að óhæfilegt sé að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt framangreindu er ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Kristrún Heimisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta