Mál nr. 174/2012
Fimmtudaginn 16. október 2014
A
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.
Þann 13. september 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 3. september 2012 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.
Með bréfi 17. september 2012 óskaði kærunefndin eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 29. október 2012.
Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kæranda til kynningar með bréfi 7. nóvember 2012 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 13. mars 2013. Engar athugasemdir bárust.
I. Málsatvik
Kærandi er fædd 1960. Hún býr í eigin fasteign að B götu nr. 10 í sveitarfélaginu C sem er 186,6 fermetra hæð og kjallari. Hjá henni búa tvö börn hennar á framhaldsskólaaldri. Kærandi á einnig 83,2 fermetra sumarbústað í sveitarfélaginu D en bústaðurinn stendur á landi sem er 3.350 fermetrar að stærð. Einnig á kærandi bifreið að gerðinni X árgerð 2006.
Ráðstöfunartekjur kæranda eftir skatta að meðtöldum bótum og sérstakri vaxtaniðurgreiðslu eru samtals 566.622 krónur á mánuði að meðaltali.
Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 89.465.116 krónur og þær falla allar innan samnings um greiðsluaðlögun samkvæmt 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).
Að sögn kæranda má rekja greiðsluerfiðleika hennar til þess að afborganir þeirra lána sem hvíli á íbúðarhúsnæði hennar hafi hækkað. Kveður hún afborganirnar mun meiri en lagt hafi verið upp með þegar hún keypti eignina og tók lánin en það hafi verið árin 2004 og 2005. Kærandi segist hafa staðist greiðslumat hjá lánveitendum en fljótlega eftir fall bankanna hafi hún hætt að ráða við afborganir lánanna.
Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 9. febrúar 2011 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar. Umsjónarmaður var skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hennar.
Með bréfi umsjónarmanns 7. mars 2012 lagði hann til við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður á grundvelli 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem kærandi hafi brugðist skyldum sínum með því að leggja ekki til hliðar fjármuni í samræmi við greiðslugetu frá því að frestun greiðslna, svonefnt greiðsluskjól, hófst.
Með bréfi umboðsmanns skuldara 7. maí 2012 var kærandi upplýst um afstöðu umsjónarmanns. Var henni gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir.
Umboðsmanni skuldara barst svar með tölvupósti 15. maí 2012. Þar greindi kærandi frá því að ástæða þess að hún hefði ekki lagt fyrir væru kostnaðarsöm útgjöld vegna tann- og bílaviðgerða auk þess sem hækkandi verðlag hafi orðið til að takmarka greiðslugetu hennar. Jafnframt lagði kærandi fram gögn vegna fyrrnefndra viðgerða.
Með bréfi til kæranda 3. september 2012 felldi umboðsmaður skuldara niður ákvörðun sína frá 9. febrúar 2011 um heimild kæranda til greiðsluaðlögunar með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi óskar þess að kærunefndin endurskoði ákvörðun umboðsmanns skuldara. Það verður að skilja svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir hennar verði felld úr gildi.
Langur tími sé liðinn frá því að kærandi lagði fram umsókn sína um greiðsluaðlögun og allan tímann hafi hún staðið í þeirri trú að mál hennar væri í traustum farvegi. Nú hafi heimild hennar til greiðsluaðlögunar verið felld niður vegna þess að henni hafi ekki auðnast að leggja tilskilda fjárhæð til hliðar á þessum tíma. Kærandi hafi sent embættinu skýringar 15. maí 2012.
Kærandi gagnrýni hve langan tíma meðferð málsins hafi tekið en í upphafi hafi hún ekki vitað hvert framfærsluviðmiðið hafi verið. Þegar hún hafi verið komin í greiðsluskjól eftir þungar afborganir lána misserin á undan, hafi hún séð að hún hafði vanrækt eðlilegt viðhald á húsnæði, bíl og heilsugæslu fjölskyldunnar, sérstaklega tannviðgerðum. Kærandi sé einstæð móðir tveggja unglinga sem búi hjá henni á meðan þau séu í framhaldsskóla.
Kæranda sé örðugt og ógeðfellt að fara í gjaldþrot vegna þess að það gæti haft neikvæð áhrif á starfsumsóknir hennar upp frá því. Þá þurfi kærandi starfs síns vegna að eiga bifreið þar sem hún þurfi oft að sinna starfinu fyrirvaralaust og jafnt að nóttu sem degi. Kærandi sé nú í öruggri stöðu og með stöðugar tekjur.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á greiðsluaðlögunarumleitunum kemur fram að einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar sem sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Í 1. mgr. 15. gr. lge. segi að ef fram komi upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.
Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 9. febrúar 2011 hafi kæranda verið veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Umsjónarmaður hafi í kjölfarið verið skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum. Með bréfi umsjónarmanns 7. maí 2012 hafi verið lagt til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður á grundvelli 15. gr. lge. þar sem kærandi hefði brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. frá því að frestun greiðslna hófst 19. október 2010.
Í 1. mgr. 12. gr. lge. séu taldar skyldur skuldara við greiðsluaðlögun þegar frestun greiðslna standi yfir. Í a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. segi að á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar skuli skuldari leggja til hliðar af launum sínum og öðrum tekjum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.
Umboðsmaður skuldara vísar til þess að öllum umsækjendum um greiðsluaðlögun sem notið hafi frestunar greiðslna hafi verið sent bréf 8. apríl 2011 þar sem brýndar hafi verið skyldur þeirra samkvæmt 12. gr. lge. Umræddar upplýsingar sé einnig að finna á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Að auki séu skyldur í greiðsluskjóli ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og umsækjenda. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar kæranda 9. febrúar 2011 sem borist hafi kæranda með ábyrgðarbréfi. Kæranda hafi því mátt vera vel ljóst að hún skyldi halda þeim fjármunum, sem hún átti aflögu í lok hvers mánaðar, til greiðslu af skuldum sínum, þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.
Frestun greiðslna í máli kæranda hafi staðið yfir frá því í október 2010 eða í um 21 mánuð. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi haft alls 4.983.044 krónur í launatekjur árið 2011 að frádregnum sköttum. Frá ársbyrjun 2012 hafi kærandi haft 2.935.097 krónur í ráðstöfunartekjur sé miðað við lok júlímánaðar 2012. Síðustu tvo mánuði ársins 2010 hafi ráðstöfunartekjur kæranda verið 897.855 krónur. Verði því lagt til grundvallar að kærandi hafi alls haft 8.770.996 krónur í tekjur hið minnsta frá því að greiðsluskjól hófst. Séu þá ótaldar aðrar tekjur kæranda árið 2011, þ.e. barna- og vaxtabætur auk sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu. Samkvæmt álagningarseðli ársins 2011 hafi kærandi fengið 494.808 krónur í vaxtabætur á árinu, 300.000 krónur í sérstaka vaxtaniðurgreiðslu og 118.269 krónur í barnabætur. Við álagningu opinberra gjalda árið 2012 hafi kæranda ekki verið ákvarðaðar bætur. Samkvæmt þessu hafi heildartekjur kæranda á árinu 2011 og fyrstu sjö mánuði ársins 2012 verið 9.684.073 krónur eða að meðaltali 461.146 krónur á mánuði í 21 mánuð.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kæranda hafi mest verið 270.352 krónur í greiðsluskjólinu. Miðað sé við heildarfjárhæð útgjalda samkvæmt framfærsluviðmiðum ágústmánaðar 2012 fyrir einhleypan einstakling með tvö börn. Tekið sé mið af nýjustu mögulegu framfærsluviðmiðum í því skyni að kæranda sé veitt svigrúm til að bregðast við óvæntum, minni háttar útgjöldum. Samkvæmt þessu sé gengið út frá því að kærandi hafi að öllu óbreyttu átt að hafa getað lagt fyrir 4.006.674 krónur miðað við meðalgreiðslugetu að fjárhæð 190.794 krónur á mánuði í 21 mánuð.
Með bréfi 7. mars 2012 hafi umboðsmaður skuldara veitt kæranda tækifæri til þess að láta álit sitt í ljós, koma gögnum á framfæri og veita upplýsingar vegna þeirra atvika sem uppi hafi verið í málinu áður en umboðsmaður tæki ákvörðun um hvort fella ætti niður heimild til greiðsluaðlögunar. Umboðsmanni hafi borist svar með tölvupósti 15. júlí s.á. Þar hafi komið fram að kærandi hafi gert sér grein fyrir því að hún hafi ekki lagt fé til hliðar í greiðsluskjólinu en það hafi ekki verið gert af ásetningi. Lagði kærandi fram gögn og skýringar vegna útgjalda sem hún hafi orðið fyrir á tímabilinu.
Gögn er varði bílaviðgerðir kæranda verði ekki talin sýna fram á aukin útgjöld hennar í greiðsluskjóli þar sem þegar sé gert ráð fyrir þessum kostnaði í framfærsluviðmiðum en kostnaður við rekstur bifreiðar sé talinn 48.687 krónur á mánuði. Umboðsmaður skuldara vísar til þess að umsjónarmaður eigi ávallt að notast við það framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji, sbr. 4. mgr. 16. gr. lge., þegar greiðslugeta sé reiknuð út. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara séu byggð á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og breytist með tilliti til vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar að umsækjendum sé jafnan veitt nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í hverjum mánuði. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir almennan heimilisrekstur, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Útreikningur á greiðslugetu kæranda byggist á meðaltali heildartekna hennar á því tímabili sem frestun greiðslna hefur staðið yfir.
Að sögn umsjónarmanns hafi verið farið fram á að kærandi gerði grein fyrir ástæðum þess að hún hafi ekki lagt til hliðar í greiðsluskjóli. Að sögn umsjónarmanns hafi kærandi að hluta til gert grein fyrir því hvers vegna henni hafi ekki verið unnt að leggja fyrir fjármuni í greiðsluskjóli. Kærandi hafi tilkynnt umsjónarmanni á meðan greiðsluskjól stóð yfir að ófyrirséður kostnaður væri að falla til og þyrfti hún að standa skil á honum. Kærandi hafi lagt fram gögn máli sínu til stuðnings en að mati umsjónarmanns hafi skýringar kæranda ekki verið fullnægjandi. Hafi umboðsmaður veitt kæranda tækifæri til að leggja fram gögn og skýringar fyrir því að hún hefði ekki lagt fyrir á tímabili greiðsluskjóls. Hafi kærandi lagt fram reikninga vegna þeirra bíla- og tannviðgerða sem hún hafi greitt alls að fjárhæð 835.895 krónur. Einn þeirra reikninga hafi verið að fjárhæð 317.258 krónur og með gjalddaga 1. september 2010, þ.e. áður en kærandi fór í greiðsluskjól. Kærandi greiddi reikninginn 1. nóvember s.á.
Sé miðað við greiðslugetu kæranda að fjárhæð 190.794 krónur á mánuði í 21 mánuð hefði kæranda verið mögulegt að leggja til hliðar 4.006.674 krónur í greiðsluskjóli. Sé tekið tillit til ófyrirséðra útgjalda kæranda að fjárhæð 835.895 krónur standi eftir ríflega 3.000.000 króna sem kærandi hefði átt að geta lagt til hliðar. Samkvæmt því sem fram hafi komið telji umboðsmaður skuldara að kærandi hafi ekki lagt fyrir nægilegt fé af tekjum sínum og öðrum launum í greiðsluskjóli. Sé það því heildstætt mat umboðsmanns skuldara á aðstæðum og með hliðsjón af gögnum málsins að ekki hafi verið hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr. lge., sbr. a-lið 1. mgr.12. gr. lge.
Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 12. gr. lge.
Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða á meðan leitað er greiðsluaðlögunar. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.
Eins og fyrr greinir lagði umsjónarmaður til með bréfi 7. mars 2012 til umboðsmanns skuldara að heimild kæranda til greiðsluaðlögunar yrði felld niður þar sem kærandi hefði að hans mati brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að leggja ekki til hliðar fjármuni í samræmi við greiðslugetu á því tímabili sem frestun greiðslna stóð yfir.
Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi ekkert lagt til hliðar frá því að frestun greiðslna hófst í október 2010. Er það viðurkennt af hálfu kæranda. Að mati umboðsmanns skuldara hefði kæranda átt að vera mögulegt að leggja til hliðar ríflega 3.000.000 króna á 21 mánaða tímabili greiðsluaðlögunarumleitana, í samræmi við skyldur hennar samkvæmt a-lið 12. gr. lge. Hefur þá verið tekið tillit til þeirra reikninga sem kærandi hefur framvísað vegna óvæntra útgjalda.
Með vísan til 4. mgr. 16. gr. lge. ber að notast við það framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Til þess að umboðsmaður skuldara geti lagt mat á hvort undantekningar frá meginreglu eigi við um skyldur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. verða að liggja fyrir viðeigandi gögn sem sýna fram á að fjármunum hafi í raun verið ráðstafað með þeim hætti sem haldið er fram. Kærandi hefur ekki lagt fram viðhlítandi gögn til stuðnings skýringum sínum um ráðstöfun þessara fjármuna nema að hluta, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Er það mat kærunefndarinnar að jafnvel þótt kæranda væri eftirlátið meira svigrúm til framfærslu en útreikningar umsjónarmanns miði við hafi hún ekki sýnt fram á að staða hennar hafi verið þannig að hún hafi ekkert getað lagt fyrir á 21 mánaða tímabili greiðsluaðlögunarumleitana.
Í ljósi alls þessa verður því að líta svo á að kærandi hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og að umboðsmanni skuldara hafi því verið rétt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar og 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður.
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar er samkvæmt því sem að ofan greinir staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.
Sigríður Ingvarsdóttir
Eggert Óskarsson
Lára Sverrisdóttir