Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 177/2012

Fimmtudaginn 23. október 2014

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Eggert Óskarsson.

Hinn 17. ágúst 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 7. ágúst 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 26. september 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 17. desember 2012. Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 21. desember 2012 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust 15. mars 2013. Voru þær sendar umboðsmanni skuldara til kynningar 20. mars 2013 og óskað eftir afstöðu embættisins. Engar athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1958. Hann býr í eigin íbúð að B götu nr. 13 í sveitarfélaginu C.

Kærandi starfar sem trygginga- og lífeyrisráðgjafi hjá eigin félagi; X ehf. Hann gefur ekki út mánaðarlega launaseðla en kveðst hafa 240.000 krónur í tekjur á mánuði eftir frádrátt skatta.

Að sögn kæranda má einkum rekja fjárhagserfiðleika hans til aukinnar greiðslubyrði lána og veikinda. Árið 2006 hafi hann keypt íbúð á efri hæð hússins sem hann býr í og tekið til þess lán. Í kjölfar efnahagshrunsins hafi afborganir lána hækkað verulega og hafi hann hætt að geta staðið í skilum. Samningar um tímabundna lækkun afborgana hafi síðan gert honum kleift að standa í skilum en þegar afborganir hafi hækkað aftur hafi hann ekki getað greitt af skuldum. Hluti skulda kæranda hafi farið í gegnum hina svokölluðu 110% leiðréttingu en sú leiðrétting hafi ekki dugað til. Þá hafi kærandi orðið veikur á árinu 2008 og hafi verið óvinnufær til ársins 2009.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 80.637.232 krónur. Þær falla allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) að undanskilinni meðlagsskuld að fjárhæð 72.284 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað vegna fasteignakaupa og framkvæmda á húsnæði árin 2005 til 2007.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 30. júní 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 7. ágúst 2012 var umsókn hans hafnað þar sem óhæfilegt þótti að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði dregin til baka og að mál hans verði sent til áframhaldandi vinnslu hjá umsjónarmanni. Til vara krefst hann þess að málið verði endursent umboðsmanni til úrvinnslu á ný.

Kærandi telur rangfærslur í ákvörðun umboðsmanns skuldara þannig að ekki sé mögulegt að láta hana standa. Við vinnslu málsins hafi kærandi svarað fyrirspurnum umboðsmanns og skilað umbeðnum gögnum en umboðsmaður taki ekki tillit til þess. Hann hafi til dæmis afhent umboðsmanni umbeðna launaseðla sína og konu sinnar innan frests, andstætt því sem umboðsmaður haldi fram. Kona hans sé erlend og hafi komið til Íslands í byrjun árs 2008. Það sé því rangt hjá umboðsmanni skuldara að þau hafi verið í sambúð og með tvö börn árið 2006. Á þeim tíma hafi hann verið einstæður en sonur hans hafi dvalið hjá honum sumar helgar.

Kærandi hafi fengið afrit af gögnum málsins hjá umboðsmanni skuldara. Meðal þeirra sé skjal sem beri heitið „umsókn vegna greiðsluaðlögunar“. Á skjalinu komi fram að eignir kæranda séu 21.181.470 krónur en skuldir rúmar 80.637.232 krónur, eða skuldir umfram eignir 59.455.762 krónur. Þetta sé ekki rétt því aðeins ein íbúð sé færð til eignar en skuldir séu vegna tveggja íbúða. Þarna þurfi annaðhvort að lækka skuldir eða bæta við eign svo rétt staða sé fyrir hendi en vegna þessa sé grunnur að úrvinnslu málsins rangur. Þegar kærandi hafi sótt um greiðsluaðlögun hafi honum verið sagt að hann mætti ekki eiga tvær fasteignir. Í fullkomnu sakleysi hafi hann þá afsalað annarri íbúðinni til X ehf., sem sé hans eigið félag. Hafi þetta verið gert til að kærandi væri betur til þess fallinn að fá heimild til greiðsluaðlögunar. Kærandi eigi þannig ennþá báðar íbúðirnar í raun en önnur íbúðin sé „geymd“ á kennitölu X ehf. til bráðabirgða. Sé „eignatilfærslan“ afturkræf með einu pennastriki. Vilji umboðsmaður skuldara samt sem áður halda framangreindu sjónarmiði til streitu verði að gera grein fyrir því að kærandi eigi félag sem eigi skuldlausa eign að verðmæti 40.000.000 króna.

Umboðsmaður byggi ákvörðun sína aðallega á því að samkvæmt skattframtali ársins 2006 hafi kærandi ekki haft tekjur eða fjárráð til að kaupa efri hæð fasteignarinnar að B götu nr. 13. Þó hafi kærandi staðist greiðslumat hjá tveimur lánastofnunum á sama tíma. Hann hafi staðið í skilum með öll sín lán næstu árin og fram yfir efnahagshrunið 2008. Kærandi kveðst meðal annars hafa getað ráðist í fasteignakaupin og staðið í skilum með skuldir sínar þar sem hann hafi fengið arf og peninga að gjöf frá fjölskyldu sinni í kjölfar andláts móður sinnar. Peningagjafirnar hafi ekki verið framtalsskyldar frekar en aðrar persónulegar gjafir. Á skattframtali megi sjá að hann hafi fengið smávægilegan arf; 2.000.000 til 3.000.000 króna.

Ef sanngirni hefði verið gætt hefði umboðsmaður skuldara vísað til skattframtals vegna tekjuársins 2005. Þar megi sjá að tekjur kæranda séu um 7.000.000 króna eftir greiðslu skatta. Þetta sé margfalt hærri fjárhæð en árin á eftir. Einnig megi sjá að hann hafi selt fasteign að B götu nr. 24 með töluverðum hagnaði. Þessar staðreyndir skýri að fullu hvernig fjárhag kæranda hafi verið háttað og gefi eðlilega mynd af honum. Á þessu grundvallist fjárhagslegar ráðstafanir kæranda árið 2006.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana.

Í b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. segi að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Á árinu 2004 hafi kærandi keypt fasteignina að B götu nr. 13, fastanúmer N, fyrir 25.100.000 krónur. Í byrjun árs 2005 hafi hann endurfjármagnað kaupin með láni að fjárhæð 25.100.000 krónur. Afborganir af því láni hafi samkvæmt skattframtali vegna tekjuársins 2005 verið um 1.116.313 krónur. Á skattframtali vegna tekjuársins 2006 megi sjá að kærandi hafi keypt fasteignina að B götu 13, fastanúmer M, og hafi skuldir vegna fasteignakaupa verið eftirfarandi í lok ársins í krónum:

  2006
Skuldir vegna fasteignakaupa 45.417.604
Afborganir alls af lánum 1.825.089
Afborganir af lánum að meðaltali á mánuði 152.090

 Með fasteignakaupunum árið 2006 hafi greiðslubyrði kæranda aukist verulega. Á það sé einnig að líta að fyrsti gjalddagi af seinni fasteigninni hafi ekki verið fyrr en í ágúst 2009 og því hafi mánaðarlegar afborganir frá og með ágúst 2006 verið nær 200.000 krónum.

Á árinu 2007 hafi kærandi tekið viðbótarlán til að ljúka útborgun vegna fasteignakaupanna, endurgreiða persónuleg lán og vegna framkvæmda við eignina. Samkvæmt skattframtali vegna tekjuársins 2007 hafi skuldir kæranda vegna fasteignakaupa verið eftirfarandi í krónum:

  2007
Skuldir vegna fasteignakaupa 50.843.452
Afborganir alls af lánum 2.896.022
Afborganir af lánum að meðaltali á mánuði 241.335

 Ráða megi af gögnum málsins að fjárhagur kæranda hafi verið eftirfarandi á árunum 2006 og 2007 í krónum:

Ár 2006 2007
Heildartekjur* 2.398.943 2.853.591
Meðaltekjur á mánuði* 199.911 237.799
Framfærslukostnaður** 186.601 197.536
Greiðslugeta 13.310 40.263

*Fyrir frádrátt skatta og gjalda samkvæmt skattframtali.

**Neysluviðmið umboðsmanns skuldara fyrir fjögurra manna fjölskyldu.

 Fyrirliggjandi gögn beri með sér að kærandi og eiginkona hans hafi verið í sambúð þegar á árinu 2006. Kærandi eigi einn son fæddan 1999 og stjúpdóttur fædda 1996. Þyki því rétt að í framfærslu kæranda á árunum 2006 til 2007 sé miðað við sambúðarfólk með tvö börn. Samkvæmt skattframtölum hafi eiginkona kæranda verið tekjulaus árin 2006 og 2007 en árið 2008 hafi meðaltekjur hennar á mánuði verið 22.156 krónur. Því þyki ekki ástæða til að gera ráð fyrir framlagi hennar til framfærslu fjölskyldunnar.

Sjá megi að þegar kærandi keypti fasteign á árinu 2006 hafi hann stofnað til skulda sem hann hafi greinilega verið ófær um að standa í skilum með frá upphafi, enda hafi greiðslugeta hans á þeim tíma dugað fyrir litlu umfram framfærslu. Á árinu 2007 hafi kærandi stofnað til frekari skulda. Hafi afborganir af tveimur lánum sem hann hafi tekið það ár numið að minnsta kosti 80.000 krónum á mánuði. Þetta ár hafi afborganir af lánum kæranda numið að minnsta kosti 250.000 krónum á meðan meðaltekjur kæranda á mánuði hafi verið 237.799 krónur. Hann hafi því einnig stofnað til skulda á árinu 2007 sem hann hafi verið með öllu ófær um að standa í skilum með.

Við vinnslu málsins hafi embættið sent kæranda bréf þar sem honum hafi verið gefinn kostur á að tjá sig um þær upplýsingar sem bentu til þess að háttsemi hans gæti leitt til synjunar á umsókn á grundvelli b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Kærandi hafi svarað með bréfi 20. júní 2012. Þar komi fram hann hafi talið íbúðarkaupin árið 2006 vænlega fjárfestingu. Hann hafi einnig greint frá deilum við KB banka vegna skuldauppgjörs í kjölfar fyrri atvinnurekstrar en mál vegna þessa hafi verið rekið fyrir dómstólum árin 2005 til 2006. Hafi kærandi unnið málið en það hafi haft mikil áhrif á heilsu hans og að lokum orðið til þess að kærandi hafi þurft að gangast undir stóra hjartaaðgerð á árinu 2008. Einnig greini kærandi frá því að honum hafi tæmst arfur og hann hafi fengið peningagjafir frá ættingjum sem hafi gert honum kleift að standa í skilum til skemmri tíma.

Hin kærða ákvörðun byggist á upplýsingum samkvæmt skattframtölum en í skattframtölum eigi meðal annars að koma fram upplýsingar um allar tekjur. Í svarbréfi kæranda frá 20. júní 2012 greini hann frá því að tekjur hans hafi verið hærri en fram komi í skattframtölum þar sem hann hafi þegið gjafir sem ekki hafi verið framtalsskyldar. Umboðsmaður skuldara geti ekki byggt á þess háttar frásögnum. Embættið verði að miða við tekjur samkvæmt skattframtölum enda sé þar um að ræða opinber gögn sem skattaðilar sjálfir láti yfirvöldum í té. Gæti það leitt til óásættanlegrar óvissu og mismununar við afgreiðslu greiðsluaðlögunarmála ef miðað yrði við aðrar upplýsingar um tekjur en þær sem menn hafi sjálfir talið fram til skatts.

Umboðsmaður telur að misskilnings kunni að hafa gætt um fjölskylduhagi kæranda þar sem orðalag kæranda í greinargerð með umsókn hafi gefið tilefni til að ganga út frá því að kærandi væri í sambúð. Við skoðun á því hvort kæranda hafi verið kleift að standa undir skuldum skipti ekki máli hvort miðað sé við framfærslu fjögurra manna fjölskyldu eða einhleypings enda hafi greiðslugeta kæranda í hvorugu tilvikinu getað staðið undir greiðslubyrði skulda. Mánaðarlegur framfærslukostnaður einhleypings á árinu 2006 hafi verið 85.182 krónur sé miðað við framfærslukostnað umboðsmanns skuldara. Samkvæmt því hafi mánaðarleg greiðslugeta kæranda verið 114.729 krónur en afborganir skulda 152.090 krónur.

Með stofnun nýrra skulda á árinu 2007 hafi mánaðarleg greiðslubyrði af afborgunum kæranda farið yfir 250.000 krónur á meðan tekjur kæranda hafi verið 237.799 krónur. Því sé ljóst að þegar kærandi stofnaði til skuldbindinga á árinu hafi hann verið ófær um að standa í skilum með þær.

Í bréfi til kæranda 22. mars 2012 hafi annars vegar verið óskað eftir launaseðlum til þess að fyrir lægju upplýsingar um þáverandi tekjur kæranda og eiginkonu hans. Hins vegar hafi verið óskað eftir upplýsingum til að varpa ljósi á fjárhagslega háttsemi kæranda aftur í tímann. Hin kærða ákvörðun hafi byggst á mati á síðarnefnda atriðinu og því hafi núverandi tekjur kæranda ekki komið til skoðunar. Geti það því ekki valdið ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar að í henni sé ekki vísað til þeirra launaseðla sem liggi fyrir í málinu.

Kærandi telji eigna- og skuldastöðu sína ranglega tilgreinda í fyrirliggjandi skjali sem merkt sé „umsókn vegna greiðsluaðlögunar“. Í skjalinu sé núverandi eigna- og skuldastaða tilgreind en við töku hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið litið til fyrri ráðstafana hans. Rétt sé að vekja athygli á því að kærandi hafi afsalað fasteigninni að B götu nr. 13, fastanúmer N, til X ehf. 27. júní 2011. Kærandi sé þó enn skuldari þeirra skulda sem á eigninni hvíli. Því geti umboðsmaður skuldara ekki litið svo á að skuldir sem séu á nafni kæranda teljist ekki til skulda hans. Samkvæmt þessu verði ekki séð að framsetning í gögnum umboðsmanns skuldara hafi verið villandi eða röng.

Um framkvæmd ákvæða b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. í greiðsluaðlögunarmálum hjá umboðsmanni skuldara og kærunefnd greiðsluaðlögunarmála megi vísa til úrskurða kærunefndarinnar í málum nr. 11/2011, 17/2011, 23/2011 og 31/2011. Af þeim verði ráðið að taka beri tillit til samspils tekna og skulda á þeim tíma sem umsækjendur um greiðsluaðlögun stofni til skuldbindinga. Ef ljóst þyki að þeir hafi ekki getað staðið við skuldbindingarnar þegar til þeirra var stofnað sé umboðsmanni skuldara heimilt að synja um greiðsluaðlögun.

Með tilliti til þess sem hér hafi verið rakið sé það heildstætt mat umboðsmanns skuldara miðað við fyrirliggjandi gögn að kærandi hafi á árunum 2006 og 2007 stofnað til skuldbindinga sem hann hafi ekki verið fær um að standa í skilum með. Einnig hafi hann tekið fjárhagslega áhættu sem hafi verið í ósamræmi við fjárhagsstöðu hans á tíma skuldbindinganna. Verði ekki séð að andsvör kæranda hafi áhrif á það mat. Telji umboðsmaður skuldara að óhæfilegt sé veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Aðalkröfu kæranda verður að skilja svo að hann fari fram á að umsókn hans um greiðsluaðlögun verði samþykkt. Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Ef umboðsmaður skuldara synjar skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 4. mgr. 7. gr. lge. Samkvæmt lögunum er gert ráð fyrir að samþykki umboðsmanns skuldara fylgi ákveðin réttaráhrif, sbr. 8. gr. laganna, þar sem segir að með samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun hefjist tímabil greiðsluaðlögunarumleitana, og 1. mgr. 11. gr., en þar segir að þegar umboðsmaður skuldara hafi samþykkt umsókn hefjist tímabundin frestun greiðslna. Samkvæmt því gegnir umboðsmaður skuldara því hlutverki að veita heimild til greiðsluaðlögunar. Getur þar af leiðandi ekki komið til þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála samþykki slíka umsókn. Við úrlausn málsins fyrir kærunefndinni getur því aðeins komið til þess að kærunefndin felli synjun umboðsmanns skuldara á umsókn kæranda úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju. Í ljósi þess verður að skilja kröfugerð kæranda svo að farið sé fram á að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um synjun byggist á b- og c-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt b-lið ákvæðisins er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið ákvæðisins er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Af skattframtölum og öðrum gögnum málsins má ráða að fjárhagsstaða kæranda hafi verið eftirfarandi árin 2005 til 2008 í krónum:

  2005 2006 2007 2008
Meðaltekjur * á mánuði (nettó) 135.053 199.868 233.721 516.159
Eignir alls 30.050.683 49.999.452 56.171.387 54.654.359
· B gata nr. 13/N 27.860.000 30.440.000 33.920.000 33.400.000
· B gata nr. 13/M   19.130.000 21.380.000 20.300.000
· Ökutæki 135.000      
· Hlutir í félögum 285 280.000 378.000 810.000
· Bankainnstæður 2.055.398 149.452 493.387 144.359
Skuldir 25.923.370 45.417.604 52.067.620 75.862.261
Nettóeignastaða 4.127.313 4.581.848 4.103.767 -21.207.902

* Heildartekjur að meðtöldum fjármagnstekjum.

 Samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru skuldir kæranda eftirtaldar í krónum:

Kröfuhafi Ár Tegund Upphafleg Staða Vanskil
      fjárhæð 2012 frá
Spron/Arion banki 2005 Veðskuldabréf 25.100.000 40.735.059 2011
Frjálsi fjárfestingarbankinn 2006 Lán í erlendri mynt 19.040.000 30.196.765 2011
Íslandsbanki 2007 Veðskuldabréf 4.500.000 5.761.987 2011
Íslandsbanki 2007 Veðskuldabréf 2.100.000 2.147.445 2011
Íslandsbanki 2011 Greiðslukort   240.588 2011
Íslandsbanki 2011 Yfirdráttur   980.350 2011
Tollstjóri 2011 Opinber gjöld 480.596 502.754 2011
Innheimtustofnun sveitarfélaga 2011 Meðlag 70.557 72.284 2011
    Alls 51.291.153 80.637.232  

 Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef augljóst má vera að óhæfilegt sé að veita hana. Í því lagaákvæði eru taldar upp mögulegar ástæður synjunar sem eiga það sameiginlegt að byggjast á því að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun verði vandi hans að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi til lge. Í framhaldinu eru í sjö stafliðum rakin atriði sem umboðsmaður skuldara skal sérstaklega líta til við mat á slíku. Á meðal þeirra atriða eru b- og c-liðir 2. mgr. 6. gr. lge. sem þegar hefur verið gerð grein fyrir en umboðsmaður skuldara synjaði kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til þessara ákvæða.

Umboðsmaður skuldara álítur það óhæfilegt að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar þar sem hann hafi ekki haft tekjur til að standa í skilum með lán sem hann tók á árunum 2006 og 2007 Kærandi kveðst á hinn bóginn hafa haft fjárhagslega burði til að standa í skilum með nefnd lán meðal annars vegna góðra tekna sinna á árinu 2005, söluhagnaðar sem hann fékk við sölu á fasteign árið 2005, peningagjafa og arfs sem honum hafi einnig hlotnast á árinu 2005.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtali fyrir 2006 vegna tekjuársins 2005 hafði kærandi eftirtalda fjármuni til ráðstöfunar árið 2005 í krónum:

Mánaðartekjur* 135.053
Tekjur ársins 1.620.636
Fenginn arfur 2.243.838
Söluhagnaður fasteignar 2.825.000
Alls til ráðstöfunar 6.689.474

*Ráðstöfunartekjur að meðaltali, þar með taldar leigutekjur.

 Kærandi hefur engum gögnum stutt þá staðhæfingu sína að hann hafi fengið peningagjafir. Slíkar gjafir eru bæði framtalsskyldar samkvæmt 90. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003 og skattskyldar samkvæmt 4. tölul. 7. gr. A sömu laga en kærandi taldi engar slíkar gjafir fram til skatts. Verður því ekki á þessum fullyrðingum kæranda byggt. Skuldir kæranda námu tæpum 26.000.000 króna í lok árs 2005 og var mánaðarleg greiðslubyrði vegna þeirra um 107.000 krónur. Má því ætla að þegar kærandi hafði greitt afborganir af skuldum hafi hann átt aflögu um 28.000 krónur af launum sínum á mánuði. Virðist kærandi þannig öðrum þræði hafa treyst á arf og söluhagnað fasteignar til að ná endum saman.

Á árinu 2006 keypti kærandi fasteignina að B götu nr. 13, sveitarfélaginu C, eignarhluta M. Fyrir átti hann eignarhluta N í sömu fasteign. Kaupverð fyrrnefndu eignarinnar var 23.800.000 krónur. Kærandi tók lán að fjárhæð 19.040.000 krónur vegna kaupanna. Var greiðslustaða kæranda neðangreind eftir þessa lántöku:

Árið 2006  
Tekjur 199.868
Framfærslukostnaður 85.182
Greiðslugeta 114.686
Greiðslubyrði eldra láns 107.000
Greiðslubyrði nýs láns 68.000
Greiðslustaða -60.314

 Samkvæmt þessu vantaði kæranda rúmar 60.000 krónur á mánuði þegar hann hafði framfleytt sér og greitt af veðlánum. Tókst hann þannig á hendur skuldbindingar sem hann hafði ekki getu til að greiða af.

Með vísan til alls þessa telur kærunefndin að á árinu 2006 hafi kærandi stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárskuldbindingar sínar í skilningi b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Að því er varðar c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. vísast til athugasemda við 6. gr. frumvarps til laga nr. 101/2010. Þar er tekið fram að með ákvæðinu sé að hluta til miðað við gildandi lagaákvæði um greiðsluaðlögun í 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 198/2010 skýrði Hæstiréttur ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga nr. 21/1991, sem er sambærilegt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Við mat á fjárhagslegri áhættu aðila í því máli var meðal annars litið til þess hvernig eignastöðu var háttað þegar til skuldbindinganna var stofnað. Eins og fram hefur komið virðist kærandi hafa treyst á aðra fjármuni en regluleg laun til að greiða af skuldum og framfleyta sér á árinu 2005, þ.e. eingreiðslur sem einungis komu til á árinu 2005. Jafnvel þótt eignir kæranda hafi verið um 4.000.000 króna hærri en skuldir á því ári telur kærunefndin að í ljósi lágra tekna hans hafi hann tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað í skilningi c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að A hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

        Lára Sverrisdóttir

   Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

        Eggert Óskarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta