Mál nr. 153/2012
Fimmtudaginn 30. október 2014
A
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Eggert Óskarsson.
Þann 30. júlí 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 20. júlí 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað. Í kæru var tekið fram að greinargerð með kæru yrði send síðar en greinargerðin barst kærunefndinni ekki þrátt fyrir ítrekaðar áminningar og fresti.
Með bréfi 16. apríl 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 30. apríl 2013. Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 8. maí 2013 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 20. ágúst 2013. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.
I. Málsatvik
Kærandi er fædd 1984. Hún er einstæð og býr í leiguhúsnæði að B götu nr. 6 í sveitarfélaginu C. Mánaðarlega greiðir kærandi 70.000 krónur í húsaleigu.
Kærandi stundar háskólanám en starfar einnig við fimleikaþjálfun. Mánaðarlegar tekjur hennar eru að meðaltali 160.304 krónur. Að auki fær kærandi 18.000 krónur í húsaleigubætur. Alls nema mánaðarlegar ráðstöfunartekjur kæranda því 178.304 krónum.
Að mati kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hennar til ábyrgðarskuldbindinga sem hún gekkst í á árunum 2005 og 2007 fyrir félag þar sem faðir hennar gegndi stöðu stjórnarformanns. Hafi verið reynt að ná samningum við kröfuhafa en án árangurs.
Heildarskuldir kæranda samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eru 13.043.247 krónur en þar af falla 12.428.398 innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2006 og 2007.
Ábyrgðarskuldbindingar kæranda eru samkvæmt gögnum málsins 97.845.694 krónur og stafa þær frá árunum 2005 og 2007.
Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 30. júní 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 20. júlí 2012 var umsókn hennar hafnað þar sem óhæfilegt þótti að veita henni heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi gerir engar kröfur í málinu og engin rökstuðningur fylgir kæru en skilja verður málatilbúnað hennar þannig, með vísan til 4. mgr. 7. gr. lge. og 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana. Við mat á því skuli taka sérstakt tillit til þeirra atriða sem tilgreind séu í stafliðum ákvæðisins.
Samkvæmt b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.
Kærandi gekkst í neðangreindar sjálfskuldarábyrgðir árunum 2005 og 2007:
Kröfuhafi | Útgefið | Skuldari | Tegund | Trygging | Upphafleg | Fjárhæð |
auk ábyrgða | fjárhæð | 2012 | ||||
Frjálsi fjárfestingarbankinn | 2005 | X ehf. | Skuldabréf | D gata nr. 16 | 30.000.000 | 49.198.870 |
Frjálsi fjárfestingarbankinn | 2007 | X ehf. | Skuldabréf | D gata nr. 16 | 25.000.000 | 40.322.671 |
Frjálsi fjárfestingarbankinn | 2007 | X ehf. | Skuldabréf | E | 5.500.000 | 8.324.153 |
Alls | 60.500.000 | 97.845.694 |
Fjárhagur kæranda var eftirfarandi árin 2005 og 2007:
Tekjuár | 2005 | 2007 |
Nettómeðaltekjur kæranda á mánuði | 91.024 | 14.128 |
Framfærslukostnaður kæranda* | 78.132 | 83.016 |
Greiðslugeta á mánuði | 12.892 | -68.888 |
Eignir kæranda | 14.931.921 | 5.531.673 |
Skuldir kæranda | 15.590.894 | 11.706.768 |
Nettóeignastaða kæranda | -658.973 | -6.175.095 |
*Áætlaður mánaðarlegur framfærslukostnaður miðað við neysluviðmið umboðsmanns skuldara.
Af ársreikningi X ehf. fyrir árið 2005 megi ráða að tap hafi verið á rekstrinum það ár en á árinu 2004 hafi hagnaðurinn numið 27.902.406 krónum. Þótt kærandi hafi haft réttmæta ástæðu til að ætla að fjárhagur félagsins væri góður á þeim tíma er hún gekkst í ábyrgð fyrir það verði ekki fram hjá því litið að þegar hún gekkst í ábyrgðina hafi hún aðeins verið 21 árs, með rúmar 90.000 krónur í mánaðartekjur og neikvæða eignastöðu. Því er það mat umboðsmanns skuldara að kærandi hafi ekki átt raunhæfa möguleika á því að greiða af láninu ef til þess kæmi að félagið gæti ekki greitt.
Á árinu 2007 tókst kærandi á hendur ábyrgðarskuldbindingar að fjárhæð 30.500.000 krónur. Á því ári tókst hún einnig á hendur lán hjá Íslandsbanka að fjárhæð 785.000 krónur og var veitt bankaábyrgð vegna námsláns. Af ársreikningi X ehf. fyrir árið 2006 megi sjá að félagið hafi verið rekið með tapi að fjárhæð 3.428.219 krónur. Af ársreikningi vegna ársins 2007 megi ráða að tap að fjárhæð 732.816 krónur hafi verið á rekstrinum. Verði því að telja að kærandi hafi tekið verulega fjárhagslega áhættu með því að gangast í fyrrgreindar ábyrgðir á árinu 2007 þar sem ekki hafi verið fyrirséð að hún hefði átt raunhæfa möguleika á að greiða af þeim ef á myndi reyna. Kæranda hefði því mátt vera ljóst að nokkrar líkur væru á að á ábyrgðirnar myndi reyna.
Af framangreindu megi sjá að kærandi hafi gengist í sjálfskuldarábyrgðir árin 2005 og 2007 þegar hún var greinilega ófær um að standa við fjárskuldbindingar sínar. Einnig hafi hún hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í neinu samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma er til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað. Hafi það einkum verið vegna lágra tekna og neikvæðrar eignastöðu.
Kæranda hafi verið tilkynnt um væntanlega synjun umsóknar með bréfi 10. maí 2012 og henni gefið færi á að tjá sig skriflega um efni málsins og styðja með gögnum. Svör við bréfinu hafi borist 25. maí sama ár ásamt ársreikningum X ehf. árin 2006 til 2007. Hafi gögnin engu breytt um niðurstöðu málsins.
Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. er það heildstætt mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt sé að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar.
Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um synjun byggist á b- og c-liðum 2. mgr. 6. gr. lge.
Samkvæmt b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.
Af gögnum málsins verður ráðið að skuldir kæranda séu eftirtaldar í krónum:
Kröfuhafi | Ár | Tegund | Upphafleg | Staða | Vanskil |
fjárhæð | frá | ||||
Íslandsbanki | 2006 | Skuldabréf | 4.415.000 | 9.030.527 | 2008 |
Íslandsbanki | 2007 | Yfirdráttur | 1.010.676 | 2.031.123 | 2009 |
Íslandsbanki | 2007 | Bankaábyrgð | 411.773 | 614.849 | 2009 |
Landsbankinn | 2007 | Skuldabréf | 785.000 | 1.218.024 | 2008 |
Íslandsbanki | 2008 | Greiðslukort | 45.720 | 133.667 | 2008 |
Aðrir | 2011 | Reikningur | 5.880 | 15.057 | 2011 |
Alls kr. | 6.674.049 | 13.043.247 |
Á því tímabili sem hér er til skoðunar voru ábyrgðarskuldbindingar kæranda og tekjur hennar, eignir og skuldir samkvæmt skattframtölum þessar í krónum:
2005 | 2006 | 2007 | 2008 | 2009 | 2010 | |
Meðaltekjur á mánuði (nettó) | 79.175 | 34.484 | 31.716 | 185.350 | 186 | 42.922 |
Eignir alls | 14.931.921 | 16.289.252 | 5.531.673 | 660.705 | 674.360 | 666.771 |
· Fasteignir | 14.912.876 | 16.289.252 | 712.638 | 641.034 | 606.204 | 604.098 |
· Bankainnstæður o.fl. | 19.045 | 4.819.035 | 19.671 | 68.156 | 62.673 | |
Skuldir | 15.590.894 | 11.427.303 | 11.706.768 | 379.101 | 6.786.626 | 5.337.526 |
Nettó eignastaða | -658.973 | 4.861.949 | -6.175.095 | 281.604 | -6.112.266 | -4.670.755 |
Höfuðstóll ábyrgðarskuldbindinga | 30.000.000 | 30.000.000 | 60.500.000 | 60.500.000 | 60.500.000 | 60.500.000 |
Ábyrgðarskuldbindingar kæranda eru þessar í krónum:
Kröfuhafi | Útgefið | Skuldari | Tegund | Trygging | Upphafleg | Fjárhæð |
auk ábyrgða | fjárhæð | 2012 | ||||
Frjálsi fjárfestingarbankinn | 2005 | X ehf. | Skuldabréf | D gata nr. 16 | 30.000.000 | 49.198.870 |
Frjálsi fjárfestingarbankinn | 2007 | X ehf. | Erlent lán | D gata nr. 16 | 25.000.000 | 40.322.671 |
Frjálsi fjárfestingarbankinn | 2007 | X ehf. | Erlent lán | E | 5.500.000 | 8.324.153 |
Alls: | 60.500.000 | 97.845.694 |
Samkvæmt fyrirliggjandi ársreikningum X ehf. voru lykiltölur í rekstri félagsins þessar árin 2005 til 2007, en kærandi var stjórnarmaður í félaginu 2005 til 2008:
X ehf. | Ársreikningur | Ársreikningur | Ársreikningur |
2005 | 2006 | 2007 | |
Tekjur | 840.000 | 3.107.750 | 6.373.823 |
Hagnaður/tap | -2.957.157 | -3.428.219 | -732.816 |
Eignir | 54.364.135 | 35.407.401 | 37.233.697 |
Skuldir | 31.193.493 | 36.215.708 | 38.774.820 |
Eigið fé | 23.170.642 | -808.307 | -1.541.123 |
Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef augljóst má vera að óhæfilegt sé að veita hana. Í lagaákvæðinu eru taldar upp ástæður sem eiga það sameiginlegt að ekki getur verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verður að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi til lge. Í framhaldinu eru í stafliðum a‒g rakin atriði sem umboðsmaður skuldara skal sérstaklega líta til við mat á slíku. Meðal þeirra atriða eru b- og c-liðir 2. mgr. 6. gr. lge. sem þegar hefur verið gerð grein fyrir en umboðsmaður skuldara hafnaði kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli þeirra ákvæða.
Í lok árs 2005 var nettóeignastaða kæranda neikvæð um tæplega 660.000 krónur. Tekjur hennar voru litlar. Þó tókst kærandi á hendur sjálfskuldarábyrgð að fjárhæð 30.000.000 króna fyrir X ehf. en á þeim tíma var eigið fé félagsins ríflega 23.000.000 króna. Lítil starfsemi var í félaginu, tekjur þess voru aðeins 840.000 krónur, en rekstrartap samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2005 var 2.957.157 krónur. Kæranda, sem stjórnarmanni í félaginu og eiganda alls hlutafjár þess, getur því ekki hafa dulist að félagið myndi eiga erfitt með að greiða af skuldum nema selja eignir. Kærandi tókst engu að síður á hendur ábyrgðarskuldbindingar sem námu hærri fjárhæð en sem nam eigin fé félagsins. Í ljósi fjárhagsstöðu félagsins hlaut henni þó að vera ljóst að líkur voru á að á ábyrgðina myndi reyna. Breytir þá engu þótt einnig hafi verið veðtrygging fyrir ábyrgðinni.
Á árinu 2007 tókst kærandi á hendur sjálfskuldarábyrgðir til viðbótar fyrir 30.500.000 krónur. Var þá heildarfjárhæð ábyrgðarskuldbindinga hennar 60.500.000 krónur. Á þessum tíma var eignastaða kæranda neikvæð um tæplega 6.200.000 krónur og tekjur hennar óverulegar. Fjárhagsstaða félagsins gaf ekki tilefni til að ætla að það gæti staðið undir þeim skuldum sem kærandi hafði ábyrgst, en rekstrartap þess var 3.428.219 krónur árið 2006 samkvæmt ársreikningi fyrir það ár.
Ábyrgðarskuldbindingar er ekki alltaf hægt að leggja að jöfnu við beinar fjárhagslegar skuldbindingar við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita heimild til greiðsluaðlögunar í skilningi 2. mgr. 6. gr. lge. Sá einstaklingur sem gengst undir ábyrgðarskuldbindingar þarf þó að gera ráð fyrir þeim möguleika að kröfum vegna þeirra verði beint að honum að hluta til eða í heild. Þótt ekki verði gengið fortakslaust út frá því að ábyrgðaraðili muni þurfa að greiða allar þær skuldbindingar sem hann hefur ábyrgst efndir á verður engu að síður að meta áhættuna í hverju tilviki fyrir sig.
Þær tölulegu upplýsingar sem gerð er grein fyrir hér að framan bera skýrt með sér að kærandi tókst á hendur ábyrgðarskuldbindingar langt umfram greiðslugetu á árunum 2005 og 2007. Eignastaða kæranda gaf henni heldur ekki tilefni til að takast á hendur þessar skuldbindingar eins og rakið hefur verið. Verður þannig vart séð að kærandi hafi bæði getað framfleytt sér og haldið eigin lánum í skilum, hvað þá tekið á sig greiðslu ábyrgðarskuldbindinganna ef á reyndi.
Með vísan til þessa telur kærunefndin því að kærandi hafi stofnað til ábyrgðarskuldbindinga á þeim tíma er hún var greinilega ófær um að standa við þær í skilningi b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.
Að því er varðar c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. má vísa til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 198/2010 en þar skýrði rétturinn ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 sem er sambærilegt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Í því máli voru 81% heildarskulda sem fallið höfðu á skuldara vegna ábyrgðarskuldbindinga. Á sama tíma og þegar til þeirra skuldbindinga var stofnað voru tekjur skuldara litlar sem engar. Hæstiréttur leit einnig til þess hvernig eignastöðu var háttað þegar til skuldbindinganna var stofnað og hafnaði heimild til greiðsluaðlögunar og taldi ljóst að skuldari hefði tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma þegar til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað.
Með hliðsjón af öllu framangreindu er það mat kærunefndarinnar að skuldbindingar þær sem kærandi gekkst í ábyrgð fyrir á árunum 2005 og 2007 hafi verið það miklar að líta verði svo á að þær hafi verið í ósamræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma er til þeirra var stofnað. Við mat á því hvort beita skuli c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. ber að líta til samspils tekna og skuldasöfnunar á því tímabili sem til skoðunar er, sbr. það sem greinir hér að ofan. Í máli þessu eru 88,2% skulda kæranda vegna sjálfskuldarábyrgða.
Þegar allt framaritað er virt telur kærunefndin að með skuldasöfnun sinni hafi kærandi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað í skilningi c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Þá verður einnig að líta til þess að allar ábyrgðarskuldbindingar kæranda eru skuldir vegna atvinnurekstrar. Samkvæmt núgildandi lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga girða skuldir vegna atvinnurekstrar ekki fyrir heimild til greiðsluaðlögunar en takmörkun af því tagi var í 2. mgr. 63. gr. a laga um gjaldþrotaskipti o.fl. sem felld var úr gildi með lögum nr. 101/2010. Þar kom fram að ákvæði laganna um nauðasamning til greiðsluaðlögunar næði ekki til einstaklinga sem undangengin þrjú ár hefðu borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, hvort sem þeir hefðu lagt stund á hana einir eða í félagi við aðra, nema því aðeins að atvinnurekstri hefði verið hætt og þær skuldir sem stöfuðu frá atvinnurekstrinum væru tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum þeirra. Þó bendir umfjöllun í greinargerð með frumvarpi til núgildandi laga til þess að tilgangur þess að fella slíkar takmarkanir úr gildi hafi fyrst og fremst verið sá að greiða fyrir greiðsluaðlögun þeirra einstaklinga sem eru með atvinnurekstur samofinn heimilisrekstri. Það sjónarmið á ekki við um kæranda í þessu máli. Segir jafnframt í greinargerð með lögunum að það sé ekki ætlun löggjafans að þeir sem eigi í greiðsluerfiðleikum fyrst og fremst vegna atvinnurekstrar nýti sér þetta úrræði og jafnframt bent á að líta megi til ákvæða í 2. mgr. 6. gr. lge. varðandi fjárhagslega áhættu í þessu sambandi.
Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að A hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.
Lára Sverrisdóttir
Arndís Anna K. Gunnarsdóttir
Eggert Óskarsson