Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 128/2012

Fimmtudaginn 30. október 2014

 

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Eggert Óskarsson.

Þann 12. júlí 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunar­umleitanir kærenda, sem tilkynnt var með bréfi 16. júlí 2012.

Með bréfi 25. júlí 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 8. ágúst 2012. Greinargerð umboðsmanns var send kærendum með bréfi 9. ágúst 2012 þar sem þeim var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við greinargerðina. Athugasemdir kærenda bárust 23. ágúst 2012 og voru þær sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 24. ágúst 2012. Engar frekari athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 26. júlí 2011 var kærendum veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) og var umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum.

Umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitunum kærenda tilkynnti umboðsmanni skuldara með bréfi 20. janúar 2012 að kærendur hefðu að hans mati ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt a- og c-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. Hefðu kærendur ekki lagt fyrir af ráðstöfunarfé sínu svo sem kveðið væri á um í a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. auk þess sem þau hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt c-lið sömu greinar með því að láta undir höfuð leggjast að innheimta leigutekjur af fasteign í þeirra eigu sem leigð var út til foreldra kæranda A.

Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 5. mars 2012 þar sem þeim var með vísan til 15. gr. lge. gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós og leggja fram gögn máli sínu til stuðnings áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunar.

Kærendur svöruðu bréfi umboðsmanns skuldara 9. mars 2012 þar sem þau gerðu grein fyrir því hvers vegna þeim hefði ekki verið unnt að leggja fyrir fé sem skyldi og gáfu skýringar vegna búsetu foreldra kæranda A í fasteign kærenda að C götu nr. 11 í sveitarfélaginu D. Svari kærenda fylgdu ýmis gögn, svo sem reikningar og kvittanir vegna kaupa á þjónustu og munum vegna heimilisrekstrar. Kærendur voru innt eftir frekari gögnum 19. mars 2012 og brugðust kærendur við þeirri beiðni með framlagningu gagna 23. mars 2012.

Með ákvörðun 29. júní 2012 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunar­umleitanir kærenda niður með vísan til a- og c-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. og 15. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Málatilbúnað kærenda verður að skilja þannig að farið sé fram á að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju.

Segir í kæru að samkvæmt lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga séu hvergi nefndar fjárhæðir sem skuldara beri að leggja fyrir, heldur sé honum gert að leggja fyrir það fé sem umfram sé og það telji kærendur sig hafa gert. Telja kærendur það vera lögbrot að synja þeim vegna þessa. Kærandi B hafi á sínum tíma sýnt fram á að þau hafi gert það sem þau gátu.

Varðandi þá forsendu fyrir ákvörðun umboðsmanns að kærendur hafi ekki innheimt leigutekjur af fasteign sinni að C götu nr. 11 segja kærendur að foreldrar kæranda A hafi allt frá árinu 2004, þegar þau hafi „flutt“ fasteignina yfir á nafn kæranda A, séð um afborganir af fasteigninni. Einnig hafi foreldrar kæranda A séð um allt viðhald og annan tilfallandi kostnað af eigninni. Það sé rangt að foreldrar kæranda A hafi hætt að greiða af eigninni þegar kærendur komust í greiðsluskjól í desember árið 2010. Hið rétta sé að foreldrar kæranda A hafi fengið lánin fryst hinn 7. desember 2009 á grundvelli atvinnuleysis og örorku föður kæranda A. Sú greiðslufrysting hefði aldrei fengist fyrir kæranda A. Vonast kærendur til þess að tekið verði tillit til þessa.  

Kærendum hafi verið veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar hinn 26. júlí 2011. Í október/nóvember hafi fulltrúi umsjónarmanns með greiðsluaðlögunar­umleitunum þeirra haft samband við kærendur og kynnt ferlið fyrir þeim. Í kjölfarið hafi annar fulltrúi umsjónarmannsins hringt en hann hefði verið að taka saman gögn fyrir umsjónarmanninn. Hefðu þau þá rætt um fasteignina að C götu nr. 11 sem foreldrar kæranda A bjuggu í. Hafi kærendur bent fulltrúanum á að þau vildu að fasteignin „yrði flutt yfir á“ foreldra kæranda A og í raun gera allt sem í þeirra valdi stæði til þess að greiðsluaðlögun næði fram að ganga. Hefði fulltrúinn ætlað að vinna í málinu ásamt lögmanni móður kæranda A og hefðu samskipti hafist þeirra á milli. Fulltrúinn hefði ekki haft frekara samband við lögmanninn.

Kærendur hafi einungis einu sinni heyrt í umsjónarmanni sínum og hafi það verið þegar hann var skipaður. Umsjónarmaðurinn hefði þá í raun engar upplýsingar haft en sagst mundu hafa samband við kærendur þegar gögn frá lánardrottnum lægju fyrir.

Öll samskipti hefðu farið í gegnum fulltrúann og hefðu kærendur ekki heyrt frá umsjónarmanninum, en þau hefðu talið eðlilegt að haft yrði samband við þau frá lögmannsstofu umsjónarmannsins áður en ákvörðun yrði tekin um að senda mál þeirra aftur til umboðsmanns skuldara. Rangar atvikalýsingar í bréfi umsjónarmannsins sýni að ekki hefði verið tekið mark á þeim upplýsingum sem kærendur veittu og að ekki hefði verið reynt að afla upplýsinga um raunverulega stöðu þeirra.

Segjast kærendur eiga uppsafnaðar um 2.000.000 króna og telji þau ekki heimilt samkvæmt lögum að synja þeim vegna þess að þau hafi ekki safnað nægum peningum. Það sem kærendur hafi lesið í lögum um greiðsluaðlögun væri að þau ættu að leggja fyrir allt það fé sem þau gætu og væri umfram það sem þau þyrftu til framfærslu sinnar og fjölskyldu.  

Segja kærendur að á seinasta árinu hefði ýmislegt orðið til þess að þau hefðu ekki getað lagt meira fyrir. Beri þá helst að nefna að kærendur hafi eignast barn í byrjun árs 2012. Eins hafi kærendur greitt lögmanni 350.000 krónur fyrir að undirbúa mál þeirra til umboðsmanns skuldara. Kærendur hafi þurft að laga eldhús vegna rakaskemmda en ekkert af þeim kostnaði hafi fallið undir tryggingar. Framkvæmdirnar hefðu reynst nauðsynlegar þar eð kærandi B sé astma- og ofnæmissjúklingur og ekki hafi heldur verið boðlegt fyrir börnin að búa við slíkt ástand. Þau hafi fengið notaða innréttingu fyrir 200.000 krónur og hafi heildarkostnaðurinn ekki farið yfir 250.000 krónur þar sem vinnan hefði öll verið unnin af þeim sjálfum og ættingjum. Eins hafi bifreið kærenda bilað og hafi þau þurft að greiða sjálfsábyrgð að fjárhæð 93.600 krónur vegna þessa. Þá hafi framfærslukostnaður verið töluvert hærri almennt og vísa þau þar meðal annars í kostnað vegna nýfædds barnsins. Þá hafi skattar verið hækkaðir, meiri hluti launa kæranda A sé í hærra skattþrepi og eins hafi sjómannaafsláttur nánast verið afnuminn. Einnig hafi kærandi B haft lægra starfshlutfall en áður og sé það nú 60%. Undir venjulegum kringumstæðum hefði þetta ekki haft áhrif á greiðslur vegna húsnæðis þar sem kærendur hafi áður getað mætt slíkum kostnaðarauka með því að dreifa honum yfir lengri tíma, til dæmis með VISA raðgreiðslum en það geti þau ekki gert nú. Kærendur telja sig ekki hafa eytt óhóflega með neinum hætti.

Þá megi geta þess að kærendur hafi ekki stofnað til neinna samninga, þau séu ekki áskrifendur að neinum blöðum, tímaritum eða sjónvarpsstöðvum og drekki hvorki né reyki. Þau geri sér grein fyrir að þau hafi ekki safnað þeirri fjárhæð sem umsjónarmaður telji að þau hefðu átt að leggja fyrir en þau telji sig hafa uppfyllt þær skyldur sem þeim hafi borið samkvæmt lögum um greiðsluaðlögun. Kærendur telji það nokkuð vel af sér vikið að hafa safnað 2.000.000 króna við núverandi þjóðfélagsaðstæður þar sem verðhækkanir dynji yfir á mat, bensíni og þjónustu svo ekki sé talað um skattahækkanir.

Hefðu kærendur í allra mesta lagi getað safnað því sem nemur þeim háu útgjöldum sem nefnd hafi verið, auk hinna 2.000.000 króna sem þau hafi þó safnað, þ.e. samtals 2.693.600 krónum (=350.000+250.000+93.600+2.000.000).

Hvað umsjónarmanninn varði segja kærendur að síðast þegar þau hafi heyrt í fulltrúa hans hafi þau verið að reyna að finna á því flöt að „flytja“ fasteignina við C götu nr. 11 aftur yfir á foreldra kæranda A ásamt þeim skuldum og skyldum sem á fasteigninni hvíli. Það sem næst hafi gerst hafi verið að þau hafi fengið bréf um að umsjónarmaður hefði sent málið til baka til umboðsmanns skuldara sem hafi svo hafnað greiðsluaðlögun kærenda.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara segi að einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar sem sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Sé þá miðað við að hann geti ekki eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skulda, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna sinna að öðru leyti, sbr. 1. og 2. mgr. 2. gr. lge. Komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laga skuli umsjónarmaður tilkynna slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Í ákvörðuninni sé rakið ákvæði a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. um skyldu skuldara til að leggja til hliðar af launum sínum og öðrum tekjum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Umboðsmaður bendir á að öllum umsækjendum um greiðsluaðlögun sem nutu frestunar greiðslna hafi verið sent bréf 8. apríl 2011 þar sem brýndar hefðu verið skyldur þeirra samkvæmt 12. gr. lge. Umræddar upplýsingar sé enn fremur að finna á heimasíðu umboðsmanns skuldara og séu þær auk þess ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og umsækjenda. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. fylgt ákvörðun um samþykki umsóknar kærenda um greiðsluaðlögun dagsettri 26. júlí 2011 sem borist hafi kærendum með ábyrgðarpósti. Hafi kærendum því vel mátt vera ljóst að þau skyldu halda til haga þeim fjármunum sem þau áttu aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum hefðu kærendur haft alls 6.686.011 krónur í tekjur að frádregnum skatti árið 2011. Að auki hafi kærendur haft 369.930 krónur í tekjur í desember árið 2010. Þá hafi kærendur frá ársbyrjun 2012 haft sem nemi 4.669.155 krónum í heildartekjur að frádregnum skatti, miðað við lok maímánaðar 2012. Verði lagt til grundvallar að kærendur hafi alls haft 11.725.056 krónur í tekjur hið minnsta frá því frestun greiðslna hófst í lok árs 2010, eða um 651.392 krónur á mánuði að meðaltali. Skuli þess loks getið að tekjur kæranda A hafi verið breytilegar eftir mánuðum og sé tekið tillit til þess.

Samkvæmt 4. mgr. 16 gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Framfærsluviðmið þessi byggi á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og stýrist af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar að við mat á því hvort umsækjendur hafi sinnt téðum skyldum sínum sé umsækjendum jafnan játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir almennan heimilisrekstur, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Miða skuli því við að áætluð heildarútgjöld kærenda hafi verið um 385.458 krónur á mánuði á meðan frestun greiðslna hefur staðið yfir, og þá sé gert ráð fyrir óvæntum útgjöldum. Tekið sé mið af heildarfjárhæð útgjalda samkvæmt framfærsluviðmiðum júnímánaðar 2012 fyrir tvo fullorðna einstaklinga með tvö börn.

Samkvæmt framansögðu skuli gengið út frá því að kærendur hefðu að öllu óbreyttu átt að hafa haft getu til að leggja fyrir um 4.786.830 krónur frá því frestun greiðslna hófst í desember 2010, sé miðað við meðalgreiðslugetu að fjárhæð 265.935 krónur á mánuði í átján mánuði. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum um innstæður á bankareikningum kærenda hafi þau hinn 27. júní 2012 lagt fyrir 1.514.179 krónur, eða um 31,6% af þeirri fjárhæð sem fyrr greinir.

Kærendur hafi í bréfi 9. mars 2012 tilgreint ýmis óvænt útgjöld sem valdið hefðu því að þau hefðu ekki getað lagt fyrir sem skyldi. Þeim hafi fæðst barn í mars 2011 og telji þau sig hafa varið um 122.000 krónum hið minnsta til kaupa á ýmsum nauðsynlegum barnavörum. Þá hafi þau greitt lögmanni um 350.000 krónur auk þess sem heimilisbifreið hafi þarfnast viðgerðar fyrir um 93.600 krónur. Loks hafi kærendur að eigin sögn þurft að standa að umfangsmiklum lagfæringum á eldhúsi vegna rakaskemmda. Kærendur hafi lagt fram gögn vegna framangreindra fjárútláta að frátöldum útgjöldum vegna barnavara. Sá kostnaður verði þó ekki vefengdur af hálfu umboðsmanns skuldara. Kærendur hafi lagt fram ýmis gögn sem þau telji veita haldbærar skýringar á því hvers vegna þeim hafi ekki tekist að leggja fyrir sem skyldi. Meðal þeirra gagna séu reikningar vegna bílaviðgerða að fjárhæð 103.993 krónur og kvittun frá seljanda eldhúsinnréttingar að fjárhæð 200.000 krónur. Enn fremur hafi kærendur lagt fram reikninga frá lögmanni sínum að fjárhæð samtals 335.025 krónur. Ekki komi til álita að telja fjárútlát þessi til óvænts heimiliskostnaðar á meðan frestun greiðslna hefur staðið yfir enda hafi umræddir reikningar fallið í gjalddaga nokkru áður en frestun greiðslna hófst í nóvember 2010. Þá hafi kærendur lagt fram reikninga vegna almenns viðhalds bifreiðar kærenda að fjárhæð 18.775 krónur, frá VÍS vegna trygginga að fjárhæð 24.725 krónur, reikning frá sveitarfélaginu D vegna fasteignagjalda að fjárhæð 34.022 krónur, reikninga frá Símanum samtals að fjárhæð 18.522 krónur, reikninga vegna rafmagns og hita að fjárhæð 38.159 krónur auk reiknings vegna leikskólagjalda að fjárhæð 28.378 krónur. Þessi gögn verði ekki talin sýna fram á aukin útgjöld á meðan frestun greiðslna hefur staðið yfir þar sem þegar hafi verið gert ráð fyrir umræddum kostnaði í framfærsluviðmiðum og greiðsluáætlun.

Alls hafi kærendur lagt fram gögn um kostnað sem telja megi til óvænts kostnaðar í tengslum við almennan heimilisrekstur að fjárhæð 303.993 krónur. Að teknu tilliti til fullyrðinga kærenda um ýmis óvænt útgjöld verði þó ekki litið framhjá því að töluverður munur sé á þeirri fjárhæð sem kærendum hefði að öllu óbreyttu átt að hafa verið unnt að leggja til hliðar, þ.e. 4.786.830 krónur, og því fé sem umsækjendur eiga á bankareikningi að fjárhæð 1.514.179 krónur. Að teknu tilliti til kostnaðar vegna bifreiðaviðgerða, kaupa á barnavörum auk viðgerðarkostnaðar vegna rakaskemmda hafi umsækjendur ekki enn gert grein fyrir því hvers vegna þeim hafi ekki verið unnt að leggja fyrir um 2.807.051 krónu á meðan frestun greiðslna hefur staðið yfir.

Kærendur hafi borið því við að heimiliskostnaður þeirra hafi almennt verið hærri en neysluviðmið umboðsmanns skuldara segi til um, en slíkar fullyrðingar hafi þau ekki stutt með fullnægjandi gögnum. Þá skuli umsjónarmaður ávallt notast við þau framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur, sbr. 4. mgr. 16. gr lge. Sé umsjónarmanni almennt óheimilt að miða við aðra og hærri framfærslu.

Í c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. segi að á meðan frestun greiðslna standi yfir skuli skuldari ekki láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geti lánardrottnum sem greiðsla.

Fyrir liggi að kærandi A sé þinglýstur eigandi fasteignarinnar að C götu nr. 11 í sveitarfélaginu D. Í bréfi kærenda 9. mars 2012 hafi komið fram að þau hafi litið á fasteignina sem eign foreldra kæranda A og hefðu þau farið þess á leit við umsjónarmann að fasteigninni yrði ráðstafað til foreldranna að nýju.

Kærendur hafi greint frá því að foreldrar kæranda A hafi greitt allar skuldbindingar vegna fasteignarinnar. Þó hafi þau ekki greitt af fjárhagslegum skuldbindingum vegna fasteignarinnar frá því frestun greiðslna hófst í nóvember 2010 þar sem umrædd lán hefðu verið fryst frá 7. desember 2009. Umboðsmaður bendir á að liðir 2 til 7 á skuldayfirliti kærenda sýni að lánin séu á nafni kæranda A, tryggð með veði í fasteigninni að C götu nr. 11 líkt og um persónulega eign þeirra væri að ræða.

Kærendur hafi borið því við að tekjur foreldra kæranda A hafi verið takmarkaðar og hafi þau ekki haft getu til að greiða hæfilega leigu til kærenda vegna afnota af fasteigninni. Umboðsmaður leggur áherslu á að embættið hafi ekki lagaheimild til að taka sérstakt tillit til fjárhagserfiðleika skyldmenna kærenda í tengslum við skýr ákvæði a- og c-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Það leiði af skyldum þeim sem kveðið er á um í c-lið 1. mgr. 12. gr. að kærendum hafi borið að innheimta leigugreiðslur af fasteigninni þrátt fyrir meinta takmarkaða greiðslugetu þeirra skyldmenna sem um ræðir. Verði að telja að með því að láta undir höfuð leggjast að krefja þau um leigugreiðslur sem annaðhvort samsvari eðlilegu leiguverði fyrir sambærilega eign eða raunafborgunum fasteignaveðlána, hafi kærendur í raun orðið af fjármunum sem gagnast hefðu lánardrottnum sem greiðsla í skilningi c-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á heimild kærenda til greiðsluaðlögunar byggist á 15. gr. laga nr. 101/2010 með vísan til a- og c-liða 1. mgr. 12. gr. laganna.

Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna um slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Telji umsjónarmaður að skuldari hafa brugðist skyldum sínum samkvæmt 1. mgr. 12. lge. skal hann óska þess við umboðsmann skuldara samkvæmt 2. mgr. lagagreinarinnar að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. laganna. Með bréfi umsjónarmanns 20. janúar 2012 lagði hann til við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir yrðu felldar niður á grundvelli 15. gr. lge. þar sem kærendur hefðu ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt a- og c-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. Með bréfi umboðsmanns skuldara 5. mars 2012 voru kærendur upplýst um þessa afstöðu umsjónarmanns og þeim gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós og leggja fram frekari gögn. Umboðsmanni skuldara bárust athugasemdir kærenda með bréfi 9. mars 2012 og viðbótargögn með svari þeirra 23. mars 2012. Telur kærunefndin því ekki unnt að fallast á það með kærendum að þeim hafi ekki verið gefinn kostur til andmæla áður en ákvörðun var tekin um að fella greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra niður.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari við greiðsluaðlögun leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Skylda kærenda að þessu leyti var sérstaklega brýnd í skriflegum leiðbeiningum sem fylgdu með ákvörðun um samþykki umsóknar kærenda um greiðsluaðlögun 26. júlí 2011. Af gögnum málsins og málatilbúnaði kærenda verður ekki annað ráðið en að þau hafi verið meðvituð um þessa skyldu sína á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana.

Kærendur byggja á því að þeim hafi ekki verið gert að leggja ákveðna fjárhæð til hliðar mánaðarlega, heldur hafi þeim einungis verið sagt að spara það sem þau gætu. Sú fjárhæð sem umboðsmaður skuldara telji að þau hafi átt að spara á átján mánaða tímabili greiðsluaðlögunar sé óraunhæf með tilliti til aðstæðna kærenda og raunútgjalda þeirra.

Samkvæmt útreikningum umboðsmanns skuldara byggðum á skattframtölum voru meðaltekjur kærenda á tímabili greiðsluskjóls 651.393 krónur á mánuði og er það óumdeilt í málinu. Að frádregnum kostnaði vegna framfærslu, byggðum á framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara auk annarra gagna var greiðslugeta kærenda 265.935 krónur á mánuði á tímabili greiðsluskjóls. Í forsendum hinna kærðu ákvörðunar er gengið út frá því í samræmi við fyrirliggjandi gögn að kærendur hefðu að öllu óbreyttu átt að geta lagt fyrir sem nemur 4.786.830 krónum sé miðað við meðalgreiðslugetu að fjárhæð 265.935 krónur í átján mánuði. Fram kemur í forsendum ákvörðunarinnar að við útreikninga hafi verið tekið tillit til breytilegra tekna kærenda á tilgreindu tímabili og miðað sé við meðaltal heildartekna. Samkvæmt eignayfirliti 26. júní 2012 áttu kærendur þá innstæðu á bankareikningi að fjárhæð 1.514.179 krónur. Er því fjarri lagi að kærendur hafi lagt til hliðar af tekjum sínum í samræmi við ákvæði a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Með vísan til rökstuðnings í hinni kærðu ákvörðunar tekur kærunefndin undir það með umboðsmanni skuldara að ekki sé unnt að taka tillit til þeirra óvæntu útgjalda sem kærendur bera fyrir sig í málinu, að undanskildum kostnaði vegna bifreiðaviðgerða, kaupa á barnavörum auk viðgerðarkostnaðar vegna rakaskemmda á eldhúsi, samtals að fjárhæð 303.993 krónur. Vantar því enn talsvert upp á að kærendur hafi lagt fyrir svo sem þeim bar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Kærendur byggja jafnframt á því að framfærslukostnaður þeirra sé hærri en framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skal notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Kærendur hafa ekki lagt fram gögn sem réttlæta að miðað sé við hærri framfærslu í þeirra tilviki.

Í c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. segir að á meðan frestun greiðslna standi yfir skuli skuldari ekki láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geti lánardrottnum sem greiðsla.

Fyrir liggur að kærandi A er þinglýstur eigandi fasteignarinnar að C götu nr. 11 í sveitarfélaginu D og veðlán er hvíla á fasteigninni eru á hans nafni. Telur kærunefndin því ekki unnt að byggja á öðru en því að kærandi A sé bæði eigandi fasteignarinnar og skuldari að þeim lánum sem á henni hvíla.

Af c-lið 1. mgr. 12. gr. leiðir að kærendum bar að innheimta leigugreiðslur vegna afnota annarra af fasteign í þeirra eigu. Fellst kærunefndin því á það með umboðsmanni skuldara að með því að láta undir höfuð leggjast að innheimta leigugreiðslur af eigninni sem annaðhvort samsvari eðlilegu leiguverði fyrir sambærilega eign eða afborgunum fasteignaveðlána, hafi kærendur látið af hendi eignir og verðmæti sem gagnast gætu lánardrottnum sem greiðsla í skilningi c-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt framansögðu verður fallist á sjónarmið og röksemdir umboðsmanns skuldara í máli þessu og staðfest ákvörðun hans um niðurfellingu á greiðsluaðlögunarumleitunum kærenda með vísan til a- og c-liða 1. mgr. og 2. mgr. 12. gr., sbr. 15. gr. lge.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir B og A er staðfest.

 

Lára Sverrisdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Eggert Óskarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta