Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 230/2012

Mánudaginn 14. október 2013


A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 7. desember 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 29. nóvember 2012 þar sem umsókn kæranda um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 5. febrúar 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 6. maí 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 8. maí 2013 og var kæranda gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi 6. júlí 2013.

Með bréfi 23. júlí 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir afstöðu umboðsmanns skuldara til athugasemda kæranda. Framhaldsgreinargerð umboðsmanns af þessu tilefni barst með bréfi 7. ágúst 2013.

Kæranda var gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum með bréfi 19. ágúst 2013. Þær bárust með bréfi 24. september 2013 og 7. október 2013.

I. Málsatvik

Kærandi býr ásamt barnsmóður sinni og þremur börnum í leiguhúsnæði við B götu nr. 25 í sveitarfélaginu C. Eignin, sem er 318,5 m², var áður í eigu kæranda en hann ráðstafaði henni til X ehf. árið 2008. Kærandi og barnsmóðir hans eru hvorki gift né í skráðri sambúð.

Kærandi er löggiltur fasteignasali og starfar sem slíkur hjá Y ehf. Samkvæmt ársreikningum fyrir árið 2011 er það félag í eigu Z ehf. sem aftur er í eigu X ehf. Mánaðarleg útborguð laun kæranda eru 63.993 krónur samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra í maí til ágúst 2012. Kærandi kveður útborguð laun sín um 250.000 krónur miðað við febrúar 2013.

Kærandi var með allháar tekjur og mikil umsvif á árunum 2004–2007 en starfsemi hans fólst einkum í kaupum og sölu fasteigna. Kærandi kveður fjárhagserfiðleika sína megi rekja til tekjulækkunar, gengislækkunar krónunnar, hækkunar lána, hruns á fasteignamarkaði og ábyrgðarskuldbindinga sem hann hefur gengist undir. Kærandi hafi jafnan átt stóra eignarhluta í því húsnæði sem hann átti viðskipti með og einnig hafi hann verið vel settur með lausafé. Við hrunið hafi allt hans eigið fé farið í tilraunir til að greiða af skuldum.

Skuldir kæranda eru alls 328.395.127 krónur en einnig hefur hann gengist í sjálfskuldarábyrgðir fyrir 902.666.108 krónum, hvoru tveggja samkvæmt gögnum frá umboðsmanni skuldara miðað við árið 2011. Allar falla þessar skuldbindingar innan samnings, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.). Meginþorri skulda kæranda tengist atvinnurekstri hans. Reksturinn stundaði kærandi bæði persónulega og í gegn um einkahlutafélög. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2003–2009 en meginhluti skuldbindinganna er gengistryggður.

Umsókn kæranda um greiðsluaðlögun barst umboðsmanni skuldara 10. maí 2011. Þann 15. nóvember 2012 lá umsókn kæranda fyrir fullbúin, sbr. 1. mgr. 7. gr. lge. Var umsókn hans synjað með ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 29. nóvember 2012, með vísan til c-, e-, f- og g-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi dragi þá ályktun af hinni kærðu ákvörðun að umboðsmaður skuldara hafi með ákvörðun sinni fallist á þau sjónarmið kæranda að hann uppfylli það eða þau skilyrði lge. að vera ófær um að standa í skilum við lánardrottna sína og að með heimild til greiðsluaðlögunar eigi hann raunhæfa möguleika á að ráða bót á fjárhagsvanda sínum.

Að sögn kæranda hafi það verið ríkjandi viðhorf innan viðskiptabanka hans, Spron og Frjálsa fjárfestingarbankans, að láta forsvarsmenn fyrirtækja gangast í ábyrgðir fyrir skuldbindingum fyrirtækjanna. Hafi það verið óháð því hver raunveruleg staða fyrirtækjanna hafi verið þegar lán voru tekin. Ástæða þessa hafi verið að tryggja að forsvarsmennirnir stæðu vörð um hagsmuni fyrirtækjanna og veðhafa þeirra. Af þessum ástæðum gekkst hann í miklar sjálfskuldarábyrgðir fyrir fyrirtæki sem hann tengdist. Kærandi hafi engar áhyggjur haft af ábyrgðunum þegar þær voru veittar þar sem eigið fé fyrirtækjanna hafi verið gott og veðin traust. Jafnframt hafi greiðslugeta verið fyrir hendi bæði hjá kæranda sjálfum og fyrirtækjunum, sem nú hafi flestöll verið tekin til gjaldþrotaskipta.

Kærandi kveðst ekki hafa fengið lán sín endurreiknuð þrátt fyrir að viðurkennt hafi verið fyrir dómi að um sé að ræða gengistryggð lán sem beri að endurreikna. Mat kæranda sé að ef hann fengi aðstoð embættis umboðsmanns skuldara við að fara í gegnum hvern lánasamning fyrir sig, meta undirliggjandi tryggingar og fara yfir afborganir á lánstímanum yrði ljóst hver raunstaða kæranda og tengdra aðila var. Að áliti kæranda hafi umboðsmaður skuldara ekki áttað sig á því hve mikið hafi verið greitt til Spron og síðar Dróma jafnvel þó fyrir lægju gögn þar að lútandi.

Kærandi tekur fram að hann hafi væntingar um að laun hans hækki verulega þegar greiðsluaðlögun er lokið. Hann geti ekki ráðið sig í vinnu þar sem launagreiðendur geri kröfu um að hann geti sýnt fram á að hann haldi réttindum sem löggiltur fasteignasali. Verði kæranda synjað um greiðsluaðlögun sé ljóst að hann verði gjaldþrota og muni þar með missa starfsréttindi sín.

Kærandi telur að persónulegar skuldir sínar verði um 65.000.000 króna að loknum endurútreikningi lána og uppgjöri við kröfuhafa. Ábyrgðarskuldbindingar verði á bilinu 40.000.000 til 120.000.000 króna. Eignir hans nú gætu verið 226.000.000 króna. Ef skuldajöfnun vegna ofgreiddra skuldbindinga, eignasala og innheimta á viðskiptakröfum næði fram að ganga gæti það að mati kæranda hugsanlega þýtt að hann gæti greitt að fullu allar sínar skuldbindingar.

Í kæru sinni gerir kærandi ítarlega grein fyrir fjárhagslegri stöðu félaga sem hann gekkst í ábyrgðarskuldbindingar fyrir, einkum fasteignafélaga. Hann kveður félögin án undantekninga hafa verið vel rekin og að skuldsetning þeirra stóru fasteignafélaga sem hann átti hlut í, hafi verið undir 50%. Kærandi hafnar því að hann hafi tekið óeðlilega áhættu en hann hafi nú þegar greitt til kröfuhafa hærri fjárhæð en hann tók að láni í upphafi. Hann telur að umrædd félög hefðu getað staðið við skuldbindingar sínar þegar hann gekkst í sjálfskuldarábyrgðir og eignastaða þeirra hafi verið sterk. Kærandi metur það svo að skuldsetning félaganna hafi verið mjög lág á hefðbundinn mælikvarða. Hann færir fram skýringar á lántökum, og rekur erfiðleika í samskiptum við lánastofnanir sem hann telur að einhverju leyti orsök þess vanda sem hann glímir við í dag. Einnig setur hann fram upplýsingar um ætlað verðmæti þeirra hluta sem hann átti í nefndum félögum og gögn varðandi greiðslur af lánum. Kærandi álítur ljóst að ef hann og tengdir aðilar hefðu verið í viðskiptum við aðra fjármálastofnun en Spron/Dróma hefðu mál hans æxlast með öðrum hætti og að félögin væru þá starfandi í dag.

Að mati kæranda hefur umboðsmaður skuldara tekið ákvörðun án þess að hafa metið raunverulega áhættu og stöðu kæranda á þeim tíma sem hann gekkst í ábyrgðir. Kærandi telur að fjárhæð skulda skipti litlu máli þegar áhætta er metin, miða eigi við aðra þætti, svo sem virði undirliggjandi eigna og greiðslugetu skuldara og ábyrgðarmanna. Þá bendir kærandi á að fjármálastofnanir hafi metið stöðu kæranda og tengdra aðila þegar hann gekkst í ábyrgðir fyrir skuldum en umboðsmaður virtist horfa fram hjá því. Að mati kæranda byggist málflutningur embættis umboðsmanns skuldara á því að kærandi eigi ekki rétt á greiðsluaðlögun því skuldir hans séu háar.

Þá heldur kærandi því fram að umboðsmaður horfi fram hjá því að hann hafi framvísað kvittunum fyrir greiðslu lána og að hann eigi kröfu á Dróma vegna ofgreiðslu. Kærandi kveður umboðsmann hvorki hafa gert tilraun til að skoða hverjar raunverulegar skuldir og ábyrgðir kæranda voru í upphafi eða séu nú, né hvaða eignir kærandi og tengdir aðilar áttu á sínum tíma og voru settar að veði fyrir skuldbindingum.

Kærandi mótmælir því mati umboðsmanns skuldara að hann hafi farið offari í fjárfestingum. Þá mótmælir kærandi því að hann hafi gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti, en því til stuðnings nefnir kærandi að ráðstöfun þeirra eigna sem um ræði hafi ekki á nokkurn hátt skert veðréttindi kröfuhafa í eignunum. Einnig fullyrðir kærandi að umboðsmaður skuldara hafi ekki látið fara fram heildarmat á skuldbindingum kæranda.

Kærandi telur að umboðsmaður skuldara hafi ekki tekið tillit til fjárhagsstöðu hans á árinu 2007 og í byrjun árs 2008, en þá hafi hann eins og svo margir aðrir gert lánasamninga er innihéldu ólögmæt lánskjör. Kærandi álítur að það sé mat umboðsmanns skuldara að kærandi hefði átt að sjá fyrir hvert stefndi.

Kærandi telur sig fyrst og fremst vera í núverandi vanda vegna atriða er tengjast hinum ólögmætu samningum og hruni á gengi krónunnar. Í því ljósi og með vísan til 2. mgr. 6. gr. lge. og athugasemda með því frumvarpi er varð að lögunum krefst kærandi þess að kærunefndin samþykki beiðni hans um heimild til greiðsluaðlögunar. Til vara krefst hann þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og lagt fyrir umboðsmann skuldara að taka málið upp að nýju. Þá óskar kærandi þess að kærunefndin taki ekki afstöðu til málsins fyrr en viðkomandi fjármálastofnanir hafa lokið endurútreikningi á skuldum kæranda og að ekki verði tekin endanleg afstaða til kærunnar fyrr en reglugerð um greiðsluaðlögun einstaklinga hafi verið lögð fram, sbr. 34. gr. lge. Kærandi óskar þess að farið verði yfir málsmeðferð umboðsmanns skuldara gagnvart honum, athugað hvort málsmeðferð umboðsmanns hafi verið með eðlilegum hætti og hvort kærandi hafi fengið sambærilega málsmeðferð og aðrir sem til embættisins leita. Loks telur kærandi að umboðsmaður skuldara hafi hvorki viðhaft lögbundna leiðbeiningarskyldu stjórnsýslulaga gagnvart sér né veitt sér andmælarétt.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til umsóknar kæranda um greiðsluaðlögun er synjað var með ákvörðun umboðsmanns sem tilkynnt var með bréfi 29. nóvember 2012 með vísan til c-, e-, f- og g-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara bendir á að sá einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar sem sýnir fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Sé þá miðað við að hann geti ekki eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skuldanna, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hans að öðru leyti.

Umboðsmaður tiltekur að við mat á umsókn um greiðsluaðlögun beri að líta til þeirra aðstæðna sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram heimild til að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Við matið skuli taka sérstakt tillit til þeirra aðstæðna sem lýst er í stafliðum ákvæðisins.

Á kæranda hvíli skuldir bæði vegna lántöku hans og ábyrgða sem hann hafi gengist í fyrir ýmis félög sér tengd.

Beinar skuldir kæranda.

Kærandi hafi stundað talsverð viðskipti í eigin nafni á árunum 2003–2009, meðal annars viðskipti með fasteignir. Einnig hafi kærandi stofnað til annarra skulda á þessum tíma. Í töflunni sjáist yfirlit yfir þessar skuldir:

Kröfuhafi Lántökuár Upphafleg Fjárhæð kr. Trygging Lánstími
    fjárhæð kr. 2011    
Drómi (Spron) umsjón Arion*ⁱ 2006 80.000.000 145.832.224 B GATA 2 ár
Drómi (Spron) umsjón Arion*ⁱ 2007 20.000.000 8.278.302 B GATA 2 ár
Arion banki kreditkort 2010-2011   647.678    
Íslandsbanki 2009 4.600.000 5.876.194   4 ár
Landsbankinn   7.669.473 8.290.835 Sjálfsk.áb.  
Landsbankinn 2008 13.000.000 21.071.358 B GATA  
SP-fjármögnun v/bifreiðar 2006 8.205.128 6.941.849    
Tollstjóri 2004-2011   7.796.463    
Frjálsi fjárfestingarbankinn 2005 16.200.000 30.962.604 D GATA 39 ár
Frjálsi fjárfestingarbankinn* 2011 14.010.420 23.197.620 E GATA 2 ár
Kaupsamn. v/F GÖTU nr. 14**  2007 99.500.000 69.500.000    
  Samtals: 263.185.021 328.395.127    

* Gengistryggt lán.

** Samið um að kaupin gangi tilbaka en eftir standa veðskuldir.

ⁱ Tveggja ára kúlulán með framlengingarheimild til tveggja ára.

Að sögn umboðsmanns nam upphafleg fjárhæð lántöku vegna fasteignakaupa á árunum 2005–2007 alls 120.710.420 krónum.

Ábyrgðarskuldbindingar kæranda.

Kærandi hafi gengist í sjálfskuldarábyrgðir fyrir eftirtalin einkahlutafélög þar sem hann hafi verið eigandi að hluta:

a)      Þ ehf. á árunum 2005–2007, en kærandi átti helmingshlut í félaginu. Aðrar tryggingar fyrir skuldum félagsins voru veð í óútvísuðu landi í J í Sveitarfélaginu K, iðnaðarhúsnæði að G götu nr. 18 í sveitarfélaginu C og sjálfskuldarábyrgð meðeiganda. Helsta verkefni félagsins var fjárfesting í ofangreindu landi í J en þar voru framkvæmdir ekki hafnar þegar félagið var úrskurðað gjaldþrota og því höfðu engar tekjur borist vegna verkefnisins. Upphafleg fjárhæð sjálfskuldarábyrgða var 306.150.000 krónur. Félagið hefur verið úrskurðað gjaldþrota en skiptum er ólokið. Munu eignir þess að einhverju leyti duga til greiðslu á skuldum sem kærandi hefur ábyrgst.

b)      V ehf. á árinu 2007 en kærandi átti helmingshlut í félaginu. Aðrar tryggingar voru veð í söluskála að H götu nr. 32 í sveitarfélaginu I og sjálfskuldarábyrgð meðeiganda. Upphafleg fjárhæð sjálfskuldarábyrgða var 30.000.000 króna. Félagið hefur verið úrskurðað gjaldþrota.

c)      M ehf. á árunum 2006–2008 en kærandi átti fjórðungshlut í félaginu. Upphafleg fjárhæð sjálfskuldarábyrgða var 22.500.000 krónur.

Alls nema ofangreindar ábyrgðarskuldbindingar 358.650.000 krónum.

Að mati umboðsmanns skuldara fellur háttsemi kæranda undir c-, e-, f- og g-liði 2. mgr. 6. gr. lge. Af þeim sökum er það afstaða umboðsmanns að óhæfilegt sé að veita kæranda heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Máli sínu til stuðnings rekur umboðsmaður sjónarmið sín varðandi hvern staflið fyrir sig.

Umfjöllun um g-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt g-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er umboðsmanni skuldara heimilt að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef óhæfilegt þykir að heimila hana vegna þess að skuldari hafi á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans eru þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra.

Umboðsmaður bendir á að í almennum athugasemdum er fylgdu frumvarpi til lge. komi fram að lögunum sé fyrst og fremst ætlað að taka til heimilisrekstrar. Það sé ekki vilji löggjafans að einstaklingar sem eiga fyrst og fremst í greiðsluvanda vegna atvinnurekstrar nýti sér úrræðið. Að mati umboðsmanns er rétt að hafa hliðsjón af þessu við skýringu á g-lið 2. mgr. 6. gr. lge., til dæmis því hvað felist í „óhóflegum skuldbindingum“, enda feli tilgreindar athugasemdir í sér afgerandi leiðbeiningar um tilgang laganna.

Umboðsmaður telur að þegar umfang og tilgangur skuldasöfnunar kæranda sé virtur sé ljóst að skuldsetning hans og greiðsluerfiðleikar stafi fyrst og fremst frá atvinnurekstri hans. Að mati umboðsmanns er skuldsetning kæranda langt umfram það sem leitt getur af eðlilegum eða jafnvel íburðarmiklum heimilisrekstri, eða þess konar atvinnurekstri sem er samofinn heimilisrekstri. Því er það mat umboðsmanns að kærandi hafi farið offari í skuldsetningu á árunum 2003–2009 og því sé óhæfilegt að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar samkvæmt g-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Umfjöllun um c-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt c-lið er umboðsmanni skuldara heimilt að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef óhæfilegt þykir að heimila hana vegna þess að skuldari hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Fram kemur hjá umboðsmanni að telja verði að atvinnurekstri, lántökum og ábyrgðarskuldbindingum sem honum tengjast fylgi ávallt fjárhagsleg áhætta. Umboðsmaður telur atvinnurekstur kæranda hafa verið afar umfangsmikinn. Telja verði að áhættan sé þeim mun meiri þegar skuldsetning tengd henni er jafn mikil og í tilviki kæranda. Þá sé til þess að líta að umtalsverð útgjöld fylgi mikilli fasteignaeign auk fjármagnskostnaðar.

Umboðsmaður nefnir að undir rekstri málsins hafi kærandi lagt áherslu á að fjárhagsstaða hans hafi verið sterk, hann hafi verið tekjuhár og eignir hans hafi verið afar verðmætar fyrir bankahrun. Hann hafi einnig lagt fram gögn og vísað til skattframtala máli sínu til stuðnings. Samkvæmt gögnum málsins hafi mánaðarlegar meðaltekjur kæranda, þar með taldar fjármagnstekjur, fyrir greiðslu skatta, verið eftirfarandi á tímabilinu:

Ár Launa- Hagn. af sölu Aðrar Tekjur
  tekjur hlutabréfa fjárm.tekjur alls kr.
2005 576.632 364.583 kr. 1.686.251 kr. 2.627.466 kr.
2006 524.326 2.547.056 kr. 531.493 kr. 3.602.876 kr.
2007 522.028 1.439.407 kr. 441.544 kr. 2.402.979 kr.

Að mati umboðsmanns verði ekki séð að kærandi hafi getað treyst á að tekjur hans yrðu svo miklar til frambúðar, enda verði að telja þær að miklu leyti afleiðingu óvenju mikillar þenslu á fasteignamarkaði. Einnig hafi eiginfjárhlutfall einkahlutafélaga umsækjanda að miklu leyti ráðist af þenslunni og sterkri stöðu krónunnar, en mikill hluti skulda kæranda og einkahlutafélaga hans hafi verið í erlendum myntum. Kærandi hafi treyst mjög á áframhaldandi þenslu á fasteignamarkaði og hagstæða þróun þeirra skulda sem um ræddi og tekið þannig verulega fjárhagslega áhættu. Einnig lítur umboðsmaður til þess að fjárfestingar kæranda hafi allar að miklu leyti verið háðar sömu áhættuþáttum og áhættudreifing því lítil. Af ofangreindu virtu telur umboðsmaður skuldara að greiðsluerfiðleikar kæranda verði fyrst og fremst raktir til skuldsetningar hans í tengslum við fjárhagslega áhættusaman atvinnurekstur. Því telur umboðsmaður að kærandi hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárskuldbindinganna var stofnað.

Umfjöllun um e- og f-liði 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt e-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er umboðsmanni heimilt að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef óhæfilegt þykir að heimila hana vegna þess að skuldari hafi efnt til fjárfestinga sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti eða gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar. Í f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. kemur fram að umboðsmanni sé heimilt að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef óhæfilegt þykir að heimila hana vegna þess að skuldari hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt.

Hér gerir umboðsmaður grein fyrir því að í aðdraganda bankahrunsins hafi kærandi ráðstafað eignarrétti sínum að fimm nánar tilgreindum fasteignum án þess að áhvílandi lán væru samhliða yfirtekin. Fjórar fasteignanna hafi gengið til einkahlutafélaga sem tengdust umsækjanda. Þá hafi kærandi ráðstafað fasteigninni að B götu nr. 25 í sveitarfélaginu C, sem hann býr enn á, til X ehf. í nóvember 2008. Samkvæmt afsalsskjölum eru kærandi og barnsmóðir hans eigendur félagsins en fram komi í hlutafélagaskrá að það hafi þau verið frá því í september 2004. Í afsali um eignina kemur fram að kaupverð sé greitt, en ekki er samræmi í gögnum málsins varðandi kaupverð eignarinnar. Í skattframtali vegna ársins 2008 komi fram að söluverðið hafi verið 60.000.000 króna en samkvæmt óþinglýstum kaupsamningi og fullyrðingum kæranda hafi kaupverðið verið 90.000.000 króna, þar af hafi 30.000.000 króna verið greiddar við undirritun kaupsamnings. Engin fyrirliggjandi gögn sýni fram á greiðsluna eða hvernig henni hafi verið varið og ljóst sé að áhvílandi veðskuldir hafi ekki verið yfirteknar. Umboðsmaður skuldara telur að kærandi hafi verið nákominn X ehf. þegar ráðstöfunin átti sér stað. Einnig álítur umboðsmaður að um örlætisgerning hafi verið að ræða enda kaupverð mjög lágt miðað við verðmæti eignarinnar. Þannig liggi fyrir að ráðstöfunin hafi rýrt mjög eignir umsækjanda en auk þess hafi tekjur hans á þessum tíma verið mjög lágar, skuldir hans miklar og ljóst að hann hafi verið ógjaldfær. Kærandi hefur lýst því yfir bréflega við umboðsmann að hann hafi greitt X ehf. húsaleigu af B götu nr. 25 allt frá útgáfu afsals, fyrst í stað 350.000 krónur á mánuði en síðan 180.000 krónur á mánuði, auk 40.000 króna rekstrarkostnaðar á mánuði.

Loks hafi kærandi ráðstafað fasteigninni D götu nr. 28 í sveitarfélaginu C til U ehf. með afsali sem gefið var út 2007 en þinglýst í október 2010. Eignina átti að greiða með yfirtöku áhvílandi veðskuldar en yfirtaka var ekki heimiluð. Umboðsmaður telur því að fullnaðargreiðsla hafi aldrei borist og að kærandi hafi gefið út afsal fyrir eigninni án þess að kaupverð væri greitt.

Að mati umboðsmanns skuldara eru ofangreindar ráðstafanir kæranda riftanlegar á grundvelli 131. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991 (gjþl.). Þá telur umboðsmaður að ráðstafanir þessar og leigugreiðslur til X ehf. hafi sýnt að kærandi hafi látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar svo sem honum frekast var unnt, enda hafi hann með þessum hætti látið umtalsverða fjármuni ganga til einkahlutafélags sem var honum nátengt í stað þess að ráðstafa þeim til greiðslu skulda.

Að mati umboðsmanns skuldara eru miklar skuldir kæranda augljóslega tilkomnar vegna áhættusamra ráðstafana. Ekki verði séð að þau gögn sem kærandi hafi lagt fram sýni annað. Þá verði ekki séð að áhætta kæranda af ábyrgðarskuldbindingum hafi verið minni eða minna fyrirsjáanleg vegna stöðu þeirra félaga sem hann gekkst í ábyrgðir fyrir og þáverandi greiðslugetu kæranda og félaganna. Álítur umboðsmaður að það auki áhættu þegar gengist er í ábyrgðir fyrir fjárfestingar félaga sem ábyrgðarmaður byggi afkomu sína á. Þannig sé ljóst að samhliða því að veðsettar fasteignir falli í verði og umsvif félaganna minnki, dragi jafnframt úr getu ábyrgðarmanns til að standa við skuldbindingar vegna þess að afkoma hans sé tengd sömu fjárfestingum eða sömu tegund fjárfestinga. Þetta verði að teljast fyrirsjáanleg áhætta og haggi því ekki niðurstöðu hinnar kærðu ákvörðunar.

Umboðsmaður skuldara fellst á það með kæranda að einhver óvissa ríki um fjárhagsstöðu hans og hugsanlega muni neikvæð eignastaða hans eitthvað batna. Þeir þættir ráði þó ekki úrslitum við mat umboðsmanns.

Einnig árétti umboðsmaður að mat hans í málinu sé í samræmi við fyrri framkvæmd umboðsmanns skuldara og kærunefndar greiðsluaðlögunarmála. Umboðsmaður skuldara bendir á að við meðferð málsins hjá embættinu hafi komið í ljós atvik sem þóttu geta leitt til synjunar um heimild til greiðsluaðlögunar. Því hafi kæranda verið send andmælabréf 23. janúar og 13. september 2012 þar sem honum var boðið að leggja fram frekari gögn og tjá sig. Allnokkur samskipti hafi farið fram á milli kæranda og embættisins á meðan að mál hans var þar til meðferðar, meðal annars hafi starfsmenn embættisins átt með honum fundi vegna málsins. Í því ljósi telur umboðsmaður að leiðbeiningarskyldu stjórnsýslulaga hafi verið gætt gagnvart kæranda.

Að öllu þessu virtu fer umboðsmaður fram á að hin kærða ákvörðun, sem tekin var á grundvelli c-, e-, f- og g-liða 2. mgr. 6. gr. laga nr. 101/2010, verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Kærandi krefst þess að hinni kærðu ákvörðun verði breytt á þann veg að samþykkt verði umsókn kæranda um greiðsluaðlögun í samræmi við umsókn hans þar að lútandi og önnur gögn málsins. Til vara krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og lagt fyrir umboðsmann að taka ákvörðun að nýju. Samkvæmt 26. gr. stjórn­sýslulaga, nr. 37/1993, er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Ef umboðsmaður skuldara synjar skuldara um heimild til að leita greiðslu­aðlögunar, eins og gert var í máli kæranda, getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 4. mgr. 7 gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga. Samkvæmt þeim lögum er gert ráð fyrir að samþykki umboðsmanns skuldara fylgi ákveðin réttaráhrif, sbr. 8. gr. laganna, þar sem segir að með samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun hefjist tímabil greiðsluaðlögunar­umleitana, og 1. mgr. 11. gr., en þar segir að þegar umboðsmaður skuldara hafi samþykkt umsókn hefjist tímabundin frestun greiðslna. Samkvæmt því gegnir umboðsmaður skuldara því hlutverki að veita heimild til greiðsluaðlögunar og getur því ekki komið til þess samkvæmt framangreindum lagaákvæðum að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála samþykki slíka umsókn eins og kærandi krefst. Synjun umboðsmanns skuldara á umsókn kæranda er því aðeins kæranleg í þeim tilgangi að fá hana fellda úr gildi. Með vísan til þess takmarkast úrlausn kærumálsins við þá kröfu kæranda að synjunin verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju.

Við úrlausn málsins verður fyrst vikið að beiðni kæranda að því er varðar frestun nefndarinnar á afgreiðslu málsins. Því næst að ósk kæranda um að nefndin fari yfir málsmeðferð umboðsmanns skuldara gagnvart honum. Loks verður gerð grein fyrir niðurstöðu kærunefndarinnar að því er varðar synjun umboðsmanns skuldara á heimild kæranda til að leita greiðsluaðlögunar.

Beiðni um að kærunefndin ljúki ekki málinu fyrr en erlend lán kæranda hafa verið endurútreiknuð.

Kærandi óskar þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála taki ekki afstöðu til erindis hans fyrr en viðkomandi fjármálastofnanir hafa lokið endurútreikningi á þeim erlendum skuldum sem um ræðir.

Aðili getur borið tiltekið álitaefni undir stjórnvald í því skyni að fá úrlausn málsins í samræmi við gildandi lög. Stjórnvöldum eru settar ákveðnar skorður við meðferð slíkra mála, til dæmis með stjórnsýslulögum, sérlögum og því sem nefnt hefur verið góðir stjórnsýsluhættir. Samkvæmt málshraðareglu 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga skulu ákvarðanir í málum teknar svo fljótt sem unnt er. Af því leiðir að þegar stjórnvaldi berst erindi er mikilvægt að leggja strax mat á erindið, leita umsagna við fyrstu hentugleika og vinna stjórnsýslumál að öðru leyti eftir málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaganna. Þegar mál er orðið tækt til ákvörðunar ber stjórnvaldi að taka ákvörðun í því. Þýðingarlaust er að bera erindi undir stjórnvald ef ekki er ætlast til að það sé afgreitt í samræmi við aðstæður, eins og þær liggja fyrir í málinu, og þau lög og reglur sem stjórnvaldi ber að starfa eftir.

Í tilviki kæranda er staðan þannig að ekki liggur fyrir hvort og þá hvaða erlendu lán verði endurreiknuð. Þá liggur heldur ekki fyrir hvort eða að hvaða leyti veðtryggingar duga til greiðslu viðkomandi lána. Engu að síður lagði kærandi erindi sitt fyrir kærunefndina og á nefndin ekki annars kost en að taka málið til meðferðar eins og það er úr garði gert. Með vísan til þess sem segir hér að ofan hafnar kærunefnd greiðsluaðlögunarmála beiðni kæranda um að fresta afgreiðslu málsins þar til erlend lán hafa verið endurútreiknuð.

Beiðni um að kærunefndin skoði málsmeðferð embættis umboðsmanns skuldara gagnvart kæranda.

Kærandi óskar þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála fari yfir málsmeðferð umboðsmanns skuldara gagnvart sér, athugað verði hvort málsmeðferð umboðsmanns hafi verið með eðlilegum hætti og hvort kærandi hafi fengið sambærilega málsmeðferð og aðrir sem til embættisins leita.

Í málinu liggur fyrir að kærandi hefur afhent embætti umboðsmanns skuldara gögn svo sem honum er skylt að gera samkvæmt lge. Einnig liggur fyrir að embætti umboðsmanns skuldara hefur aflað gagna og leitað upplýsinga um ýmis þau atriði sem eru til þess fallin að skýra stöðu kæranda gagnvart lánardrottnum sínum. Embættið sendi kæranda svokallað andmælabréf 13. september 2013 þar sem kærandi var upplýstur um að fyrir lægju upplýsingar sem leitt gætu til synjunar á beiðni hans um greiðsluaðlögun. Voru þær upplýsingar skilmerkilega tíundaðar í bréfinu og kæranda boðið að tjá sig um þær innan frests. Í sama bréfi var hann upplýstur um þá ráðgjöf og aðstoð sem í boði væri hjá embætti umboðsmanns skuldara. Í ljósi ofangreinds er það mat kærunefndar greiðsluaðlögunarmála að embætti umboðsmanns hafi meðhöndlað erindi kæranda á þann hátt sem lög mæla fyrir um og að málsmeðferðarreglna hafi þar með verið gætt.

Niðurstaða kærunefndarinnar að því er varðar synjun umboðsmanns skuldara á heimild kæranda til að leita greiðsluaðlögunar.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á c-, e-, f- og g- liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt c-lið er umboðsmanni skuldara heimilt að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef óhæfilegt þykir að heimila hana vegna þess að skuldari hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Samkvæmt e-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er umboðsmanni heimilt að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef óhæfilegt þykir að heimila hana vegna þess að skuldari hafi efnt til fjárfestinga sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti eða gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar. Í f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. kemur fram að umboðsmanni sé heimilt að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef óhæfilegt þykir að heimila hana vegna þess að skuldari hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt. Samkvæmt g-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er umboðsmanni skuldara heimilt að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef óhæfilegt þykir að heimila hana vegna þess að skuldari hafi á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans eru þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra.

Af skattframtölum kæranda má ráða að bókfært virði eigna hans hafi verið umtalsvert á þeim árum sem hér eru til skoðunar. Stór hluti eigna kæranda voru hlutir í einkahlutafélögum sem hann stundaði starfsemi sína að einhverju leyti í gegnum. Þannig voru hlutir í þessum félögum um 40% nettóeigna kæranda á árinu 2005, um 60% á árinu 2006 en eignastaða hans var neikvæð á árinu 2007. Að mati kærunefndarinnar verður að setja fyrirvara við bókfært virði þessarar hlutafjáreignar þegar eignastaða kæranda er metin. Markaður með hluti í þessum félögum var ekki virkur, eigendur voru fáir og félögin voru flest háð sömu áhættuþáttum, þ.e. áhætta eða óvissa var um verðmæti þeirra fasteignaverkefna sem félögin stóðu að. Eignastöðu kæranda verður að meta út frá þessu.

Í neðangreindri töflu má sjá samantekt eigna og skulda kæranda á árunum 2005 til 2007 samkvæmt skattframtölum:

Eign/skuld 2005 2006 2007
D gata nr. 28 10.685.000 kr. 11.900.000 kr. 13.730.000 kr.
B gata nr. 25 23.145.000 kr. 31.515.000 kr. 35.735.000 kr.
L gata nr. 17     19.670.000 kr.
F gata nr. 14     1.880.000 kr.
E gata nr. 74     8.280.000 kr.
Ökutæki 15.221.852 kr. 11.500.000 kr. 10.350.000 kr.
Flugvél   200.000 kr. 100.000 kr.
Eignarhlutir í félögum 64.017.578 kr. 86.488.207 kr. 91.031.957 kr.
Innstæður 63.868.803 kr. 16.289.366 kr. 25.751.146 kr.
Kröfur 2.224.437 kr. 27.551.235 kr. 25.908.127 kr.
Eignir alls: 179.162.670 kr. 185.443.808 kr. 232.436.230 kr.
Skuldir 19.819.775 kr. 42.277.878 kr. 280.901.616 kr.
Nettóeignastaða 159.342.895 kr. 143.165.930 kr. -48.465.386 kr.

Helstu skuldir kæranda stafa frá árunum 2005 til 2007 en á þeim árum tókst hann á hendur skuldir að fjárhæð tæpar 224.000.000 króna, auk ábyrgðarskuldbindinga að fjárhæð um 358.000.000 króna. Á þessum tíma voru fjármagnstekjur, aðallega söluhagnaður af hlutabréfum, stærsti hluti tekna kæranda. Þannig voru fjármagnstekjur um 78% af tekjum kæranda árið 2005, um 85% á árinu 2006 og um 78% á árinu 2007.

Af þessu þykir kærunefndinni ljóst að kærandi hugðist fyrst og fremst greiða skuldir sínar og ábyrðarskuldbindingar með sölu á þeim eignum sem hann átti og eftir atvikum arði af þeim. Launatekjur kæranda hefðu engan veginn staðið undir greiðslu þessara skulda, en launatekjurnar fóru lækkandi á umræddu tímabili, voru 576.632 krónur að meðaltali á mánuði árið 2005, 524.326 krónur árið 2006 og 522.028 krónur árið 2007.

Við mat á því hvort beita skuli 2. mgr. 6. gr. lge. ber að líta til samspils tekna, eigna og skulda á því tímabili sem til skoðunar er.

Af því sem rakið hefur verið hér að framan má sjá að eignir kæranda á ofangreindu tímabili hefðu ekki dugað til greiðslu skuldbindinga hans á sama tímabili. Þá hefði greiðslubyrði skulda umfram eignir verið mun meiri en launatekjur kæranda hefðu getað staðið undir. Þótt fjármagnstekjur kæranda væru miklar á þessum tíma var mjög óvarlegt af kæranda að gera ráð fyrir þeim viðvarandi. Að mati kærunefndarinnar tókst kærandi á hendur miklar skuldbindingar í trausti þess að hagnaður af viðskiptum hans yrði nægilegur til að greiða allan fjármagnskostnað og að þau félög sem hann gekkst í sjálfskuldarábyrgðir fyrir myndu ekki lenda í greiðsluvanda. Kærunefndin telur að hér hafi kærandi tekið sérstaklega mikla áhættu þar sem kærandi annars vegar og þau félög sem hann gekkst í ábyrgðir fyrir hins vegar, stunduðu að mestu leyti sams konar viðskipti sem að miklu leyti voru fjármögnuð með erlendum lánum. Þannig var áhættan sem kærandi tók vegna þeirra viðskipta sem hann stundaði í eigin nafni og sú áhætta sem fólst í ábyrgðarskuldbindingum er hann gekkst í, nánast sú sama. Mat á áhættu verður að fara fram á þeim tíma sem til skuldbindinga var stofnað, sbr. c-lið 2. mgr. 6. gr. lge., eins og kærandi bendir á samkvæmt því sem fram kemur í gögnum málsins.

Við mat á því hvort beita skuli c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. ber að líta til samspils tekna og skuldasöfnunar á því tímabili sem til skoðunar er, sbr. það sem greinir hér að ofan. Í fyrri úrskurðum kærunefndar hefur niðurstaðan jafnan verið sú að þegar kærendur takast á hendur fjárhagsskuldbindingar sem engar líkur eru á að þeir geti greitt af miðað við tekjur, að teknu tilliti til framfærslukostnaðar og annarra fjárskuldbindinga á þeim tíma sem til skuldbindingar er stofnað, leiði það til þess að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um greiðsluaðlögun. Þegar litið er til þess sem gert er grein fyrir hér að framan telur kærunefndin að skuldari hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað í skilningi c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Ábyrgðarskuldbindingar er ekki alltaf hægt að leggja að jöfnu við beinar fjárhagslegar skuldbindingar við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita heimild til greiðsluaðlögunar í skilningi 2. mgr. 6. gr. lge. Sá einstaklingur sem gengst undir ábyrgðarskuldbindingar þarf þó að gera ráð fyrir þeim möguleika að kröfum vegna þeirra verði beint að honum að hluta til eða í heild. Þótt ekki verði gengið fortakslaust út frá því að ábyrgðaraðili muni þurfa að greiða allar þær skuldbindingar sem hann hefur ábyrgst efndir á verður engu að síður að meta áhættuna í hverju tilviki fyrir sig.

Skuldbindingar þær sem kærandi ábyrgðist eru af því umfangi að líta verður svo á að þær hafi ekki verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma er til þeirra var stofnað. Annars vegar verður ekki séð að kærandi hafi haft raunhæfa möguleika á að greiða af umræddum skuldbindingum ef á reyndi. Hins vegar verður að líta til þess hve áhætta kæranda var samtvinnuð áhættu þeirra aðila sem hann gekkst í sjálfskuldar­ábyrgðir fyrir.

Þá verður einnig að líta til þess að stór hluti af skuldbindingum kæranda eru skuldir vegna atvinnurekstrar. Samkvæmt núgildandi lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga girða skuldir vegna atvinnurekstrar ekki fyrir heimild til greiðsluaðlögunar en takmörkun af því tagi var í 2. mgr. 63. gr. a gjþl. sem felld var úr gildi með lögum nr. 101/2010. Þar kom fram að ákvæði laganna um nauðasamning til greiðsluaðlögunar næði ekki til einstaklinga sem undangengin þrjú ár hefðu borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, hvort sem þeir hefðu lagt stund á hana einir eða í félagi við aðra, nema því aðeins að atvinnurekstri hefði verið hætt og þær skuldir sem stöfuðu frá atvinnu­rekstrinum væru tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum þeirra. Þó bendir umfjöllun í greinargerð með frumvarpi til núgildandi laga til þess að tilgangur þess að fella slíkar takmarkanir úr gildi hafi fyrst og fremst verið sá að greiða fyrir greiðsluaðlögun þeirra einstaklinga sem eru með atvinnurekstur samofinn heimilisrekstri. Segir í greinargerð með lögunum að það sé ekki ætlun löggjafans að þeir sem eigi í greiðsluerfiðleikum fyrst og fremst vegna atvinnurekstrar nýti sér þetta úrræði og jafnframt bent á að líta megi til ákvæða í 2. mgr. 6. gr. lge. varðandi fjárhagslega áhættu í þessu sambandi.

Samkvæmt g-lið 2. mgr. 6. gr. lge er umboðsmanni skuldara heimilt að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef óhæfilegt þykir að heimila hana vegna þess að skuldari hafi á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans eru þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra. Við mat á því hvort beita skuli g-lið 2. mgr. 6. gr. lge. telur kærunefndin að líta beri meðal annars til þess að kærandi ber sjálfur ábyrgð á því að hafi tekist á hendur hinar umfangsmiklu ábyrgðarskuldbindingar, sbr. athugasemdir með 6. gr. lge. Þá verður við matið jafnframt að líta til fjárhæða skuldbindinganna enda er í g-lið 2. mgr. 6. gr. lge. vísað til „óhóflegra skuldbindinga“. Að mati nefndarinnar er greiðsluaðlögun samkvæmt tilgangi lge. úrræði sem fyrst og fremst er ætlað að taka til heimilisrekstrar. Eins og hér hefur verið rakið stafa skuldbindingar kæranda fyrst og fremst af fasteignaviðskiptum hans. Um er að ræða skuldbindingar sem nema fjárhæðum lagt umfram það sem ætla má að stafi frá heimilisrekstri. Því telur kærunefndin að þau atvik sem lýst er í g-lið 2. mgr. 6. gr. lge. eigi við í málinu.

Í ljósi alls þessa sem hér greinir telur kærunefnd greiðsluaðlögunarmála að óhæfilegt sé að veita kæranda greiðsluaðlögun á grundvelli c- og g-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt framangreindu er ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta