Mál nr. 145/2012
Fimmtudaginn 3. október 2013
A og B
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Kristrún Heimisdóttir.
Þann 24. júlí 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 12. júlí 2012 þar sem umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var synjað.
Með bréfi 27. júlí 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 28. september 2012.
Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 2. október 2012 og var þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kærendum með bréfum 23. október 2012 og 9. janúar 2013.
I. Málsatvik
Kærendur eru 55 og 61 árs. Þau eru gift og búa ásamt 14 ára gamalli dóttur sinni í eigin húsnæði að C götu nr. 34a í sveitarfélaginu D. Kærandi B er kennari og starfar sem slíkur. Kærandi A er húsasmíðameistari og hefur rekið eigið verktakafyrirtæki, X ehf., frá árinu 1987.
Að sögn kærenda má rekja fjárhagserfiðleika þeirra til rekstrar fjölskyldufyrirtækis þeirra, X ehf., sem safnað hafi skuldum á undanförnum árum. Skuldir vegna fyrirtækisins séu óviðráðanlegar, en persónulegar skuldir þeirra séu enn viðráðanlegar. Kærandi A hafi tekið erlent lán árið 2007 til að kaupa fasteign að C götu nr. 40 í sveitarfélaginu D með það að markmiði að selja hana aftur. Hagnað af sölu eignarinnar hafi kærendur ætlað að nota til að greiða niður eldri lán X ehf. en vegna hruns á fasteignamarkaði sem varð í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 hafi ekki tekist að selja eignina.
Heildarskuldir kærenda eru 123.912.133 krónur samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara. Þær falla innan samnings, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.), að undanskildum námslánum samtals að fjárhæð 854.838 krónur. Skuldirnar sundurliðast svo:
Kröfuhafi | Tegund | Ár | Höfuðstóll | Staða 2012 |
Íslandsbanki | Skuldabréf | 2008 | 49.000.000 kr. | 85.764.446 kr. |
Tryggingamiðstöðin | Bílalán | 2007 | 3.186.702 kr. | 2.327.521 kr. |
Landsbankinn | Skuldabréf | 2006 | 4.673.000 kr. | 6.873.875 kr. |
Íslandsbanki | Veðkrafa | 2004 | 15.500.000 kr. | 25.825.328 kr. |
Íslandsbanki | Yfirdráttur | 631.437 kr. | ||
Landsbankinn | Yfirdráttur | 1.459.164 kr. | ||
Landsbankinn | Kreditkort | 175.524 kr. | ||
LÍN | Námslán | 854.838 kr. | ||
Samtals: | 123.912.133 kr. |
Samkvæmt umsókn kærenda eru ábyrgðarskuldbindingar þeirra eftirfarandi:
Kröfuhafi | Lántaki | Ár | Höfuðstóll. | Staða 2012 |
Landsbankinn | X ehf. | 2007 | 18.500.000 kr. | 26.497.324 kr. |
Landsbankinn | Y | 2005 | 276.364 kr. | |
LÍN | Z | 2006 | 2.754.681 kr. | |
LÍN | Y | 2002 | 859.232 kr. | |
Samtals: | 30.387.601 kr. |
Tekjur kærenda eru samanlagt 624.716 krónur á mánuði eftir skatta. Tekjur kærenda árin 2005‒2010 voru eftirfarandi:
Ár | Meðaltekjur á mánuði |
2010 | 342.884 kr. |
2009 | 375.692 kr. |
2008 | 429.171 kr. |
2007 | 367.119 kr. |
2006 | 329.366 kr. |
2005 | 417.497 kr. |
Eignir kærenda samkvæmt eignayfirliti umboðsmanns skuldara eru þessar:
Tegund | Eignarhlutur 2012 |
Fasteign, C gata nr. 34a | 69.700.000 kr. |
Hlutabréf, X ehf. | 95.000 kr. |
Hlutabréf, S hf. | 2.200 kr. |
Bifreið | 12.150 kr. |
Bankareikningar | 16.681 kr. |
Samtals: | 69.826.031 kr. |
Þann 5. júlí 2012 lá umsókn kæranda fyrir fullbúin, sbr. 1. mgr. 7. gr. lge. Umsókn var synjað með ákvörðun umboðsmanns skuldara 12. júlí 2012 með vísan til c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.
II. Sjónarmið kærenda
Kærendur gera þá kröfu að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi og embættinu gert að veita þeim heimild til að leita samnings um greiðsluaðlögun. Benda kærendur á að embætti umboðsmanns skuldara hafi hvorki upplýst þau með fullnægjandi hætti hver sé réttarstaða þeirra gagnvart kröfuhöfum né kannað lögmæti eða réttmæti krafna. Þá gefi umboðsmaður skuldara í skyn að kærendur séu fjárglæframenn. Þá mótmæla kærendur því að heildarskuldir þeirra séu sagðar vera 123.912.133 krónur eins og fram kemur í ákvörðun umboðsmanns enda sé fjárhæð skulda þeirra ósannreynd.
Kærendur benda á að endurfjármögnun á eldri húsnæðislánum með lánasamningi við Íslandsbanka hafi á þeim tíma verið álitin mjög skynsamleg og á engan hátt hafi kærendur verið að yfirveðsetja eða hætta húsnæðisöryggi sínu. Kærendur benda einnig á að skuldbindingar sem kærandi A stofnaði til á árunum 2006‒2007 að fjárhæð 7.825.702 krónur hafi verið veltuskuldbindingar sem tengdust rekstriX ehf.
Kærendur telja að fullyrðing þess efnis að þau hafi tekið lán í erlendum gjaldmiðlum að jafnvirði 49.000.000 króna sýni að viðhorf umboðsmanns skuldara sé að taka til greina ýtrustu kröfur kröfuhafa þrátt fyrir að lán hafi aldrei verið í erlendum gjaldmiðlum. Þá komi ekki fram í ákvörðun umboðsmanns að gengistrygging lánsins hafi verið ólögmæt.
Kærendur benda á að þeirra persónulegu fjárskuldbindingar séu vel viðráðanlegar, séu fjárskuldbindingar vegna X ehf. undanskildar.
Varðandi kaupin á C götu nr. 40 þá hafi umboðsmaður skuldara ekki tekið fram í ákvörðun sinni að um hafi verið að ræða fjármálagjörning að undirlagi Sparisjóðs Kópavogs. Starfsmenn Sparisjóðsins beittu kærendur miklum þrýstingi við að skuldbreyta umræddu láni og þvinguðu þau til að veita frekara veð í heimili þeirra. Eftir standi sú ákvörðun kærenda að láta undan þrýstingi og grípa til áhættusamra fjárfestinga til þess að freista þess að greiða niður skuldir hjá Sparisjóðnum sem hann hafi lánað að fullu fyrir. Umboðsmaður skuldara hafi túlkað þessa aðgerð á þá leið að hún verndi sparisjóðinn frá því að axla ábyrgð á gjörðum sínum, þ.e. útlánum, og taka þátt í samningum við kærendur. Umboðsmaður skuldara hafi valið þá leið að líta framhjá glæpsamlegu athæfi fjármálafyrirtækja eða þeirra einstaklinga sem þar starfa og leita réttlátra lausna til handa skjólstæðingum sínum.
Kærendur benda á að þau hafi lagt fram tillögu að lausn sem hafi falist í því að allar veðskuldir sem tilheyrðu C götu nr. 40 og X ehf. yrðu færðar af heimili þeirra yfir á C götu nr. 40 og sú eign seld samhliða því að X ehf. fengi að fara hina svokölluðu „Beinu braut“ sem fyrirtækið eigi rétt á og sótt hafi verið um en bankinn ekki brugðist við. Væri þessi leið farin væru kærendur að fullu fær um að standa við skuldbindingar vegna heimilis sem og persónulegar skuldbindingar.
Í greinargerð kærenda 9. janúar 2013 kemur fram að þær tafir sem orðið hafi á afgreiðslu málsins hafi verið þeim verulega íþyngjandi og hemill á því að þau gætu leitað réttar síns og nýtt úrræði sem boðuð hafi verið af stjórnvöldum til úrlausar fyrir einstaklinga og fyrirtæki í kjölfar bankahrunsins. Þá hafi margar af kröfum á hendur kærendum verið til meðferðar dómstóla.
Kærendur ítreka í greinargerð mögulega lausn á skuldavanda þeirra og benda á að til greina kæmi að gefa út skuldabréf með veði í heimili þeirra að C götu nr. 34a til afléttingar á tryggingarbréfi 1135-63-005332. Með þessari lausn fái kröfuhafar Xehf. að minnsta kosti 53% upp í kröfur sínar og kærendum gefist þá tækifæri til að selja fasteignina að C götu nr. 34a. Væri þessi leið farin gæti kærendur staðið undir skuldbindingum vegna heimilis þeirra og persónulegum skuldbindingum.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á umsókn um greiðsluaðlögun beri embættinu að líta til þeirra aðstæðna sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.
Samkvæmt skattframtali kærenda 2008 fyrir tekjuárið 2007 hafi ráðstöfunartekjur þeirra verið samanlagðar 367.119 krónur á mánuði. Framfærslukostnaður samkvæmt neysluviðmiði umboðsmanns skuldara og annars kostnaðar hafi verið 196.721 króna og áætluð greiðslubyrði lána um 180.000 krónur, samtals 376.721 króna. Kærendur hafi því vantað 9.703 krónur á mánuði til að geta staðið við skuldbindingar sýnar. Framtaldar eignir í árslok 2007 hafi verið 62.179.141 króna og skuldir 40.455.338 krónur.
Samkvæmt skattframtali kærenda 2009 fyrir tekjuárið 2008 hafi meðalráðstöfunartekjur þeirra samanlagðar verið 429.171 króna á mánuði. Áætlaður framfærslukostnaður ásamt öðrum kostnaði hafi verið 221.893 krónur á mánuði og áætluð greiðslubyrði lána um 132.500 krónur á mánuði, samtals 354.393 krónur. Framtaldar eignir í árslok 2008 voru 62.022.354 krónur og skuldir 26.552.995 krónur.
2007 | 2008 | |
Ráðstöfunartekjur | 367.119 kr. | 429.171 kr. |
Áætlaður framfærslukostnaður og afborganir lána | 376.721 kr. | 354.394 kr. |
Mismunur | -9.602 kr. | 74.777 kr. |
2007 | 2008 | |
Eignir | 62.179.141 kr. | 62.022.354 kr. |
Skuldir | 40.455.338 kr. | 26.552.995 kr. |
Mismunur | 21.723.803 kr. | 35.552.995 kr. |
Fram kemur í ákvörðun umboðsmanns að kærendur hafi ekki talið fram lán frá Sparisjóði Kópavogs hf., nú Íslandsbanka, upphaflega að fjárhæð 49.000.000 króna. Í ársreikningi X ehf. fyrir árið 2007 sé C götu nr. 40 talin fram sem eign félagsins að verðmæti 43.000.000 króna. Þá séu í efnahagsreikningi langtímaskuldir félagsins sagðar vera 49.000.000 króna, sem væntanlega sé framangreint lán Íslandsbanka. Samkvæmt efnahagsreikningnum hafi eignir X ehf. í árslok 2007 verið 58.648.463 krónur og skuldir 72.863.247 krónur. Eigið fé í ársbyrjun 2007 hafi verið neikvætt um 26.063.295 krónur, en í árslok neikvætt um 14.214.784 krónur.
Með hliðsjón af fjárhagsstöðu X ehf. og kærenda árið 2007 hafi það verið mat umboðsmanns skuldara að kærendur hafi greinilega verið ófær um að standa við skuldbindingar sínar með gerðum lánasamningi sem tók mið af gengi erlendra gjaldmiðla sem nam 49.000.000 króna. Þá hafi kærendur tekið fjárhagslega áhættu með lántökunni.
Þá sé það mat umboðsmanns skuldara að sé ekki hægt að líta framhjá áhvílandi veðskuldum á núverandi húsnæði kærenda, sem séu að stórum hluta vegna atvinnurekstrar. Á 1. veðrétti hvílir húsnæðislán Íslandsbanka hf. Á 2. veðrétti hvílir tryggingabréf Íslandsbanka til tryggingar á skuldum X ehf. Á 3. veðrétti hvílir tryggingabréf Landabanka til tryggingar greiðslu skulda kæranda A og X ehf. Á 4. veðrétti hvílir tryggingabréf Íslandsbanka til tryggingar á lánasamningi frá 10. júlí 2008 til kaupa á C götu nr. 40 í sveitarfélaginu D og á 5. veðrétti hvílir veðskuldabréf Landsbanka sem tekur mið af erlendum gjaldmiðlum. Veðskuldabréfið er tryggt með sjálfskuldarábyrgð kæranda A.
C gata nr. 34a | Tegund | Ár | Höfuðstóll | Staða 2012 |
1. veðréttur | Húsnæðislán | 2004 | 15.500.000 kr. | 25.825.328 kr. |
2. veðréttur | Tryggingarbréf Íslandsbanka | 2004 | 22.000.000 kr. | 37.174.024 kr. |
3. veðréttur | Tryggingarbréf Landsbanka | 2004 | 10.000.000 kr. | 17.170.795 kr. |
4. veðréttur | Tryggingarbréf Íslandsbanka | 2007 | 25.292.000 JPY | 40.720.120 kr. |
5. veðréttur | Veðskuldabréf Landabanka | 2007 | 18.500.000 kr. | 26.497.324 kr. |
Gögn málsins beri með sér að ábyrgðarskuldbindingar kærenda vegna X ehf. séu að núvirði yfir 100.000.000 króna. Þá beri gögn málsins með sér að árið 2007 að teknu tilliti til ráðstöfunartekna, framfærslukostnaðar, rekstrarkostnaðar heimilis og greiðslubyrði lána hafi kærendur vantað upp á 9.703 krónur á mánuði til að geta staðið við skuldbindingar sínar. Árið 2007 hafi kærendur tekið á sig verulega auknar skuldbindingar, þar sem kærandi Agekkst í ábyrgðir fyrir tryggingabréfi að fjárhæð 25.292.000 japanskt jen (JPY), þávirði 13.010.205 krónur með veði í fasteign sinni að C gata nr. 34a í sveitarfélaginu D. Tryggingabréfið var til tryggingar lánasamningi frá 10. júlí 2008 milli kæranda A og Sparisjóðs Kópavogs hf. að fjárhæð 49.000.000 króna. Enn fremur veittu kærendur leyfi fyrir veði í fasteign sinni að C götu nr. 34a fyrir veðskuldabréfi Sparisjóðs Vestfjarða, nú Landsbankans hf., lántaki X ehf., í erlendum gjaldmiðlum, upphaflega að fjárhæð 18.500.000 krónur. Veðskuldabréfið sé enn fremur tryggt með sjálfskuldaábyrgð kæranda A.
Að mati umboðsmanns skuldara verði að líta svo á að heilstætt metið hafi fjárhagsráðstafanir kærenda fram yfir mitt ár 2008 verið með þeim hætti að óhæfilegt sé að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar, svo sem segi í 2. mgr. 6. gr. lge. Sé þá sérstaklega litið til þess að 76% af heildarskuldum kærenda séu vegna fyrirtækjarekstrar. Enn fremur hafi kærendur tekið á sig ábyrgðarskuldbindingar og veitt veð fyrir skuldbindingum X ehf. í fasteign sinni að C götu nr. 34a sem hafi falið í sér verulega fjárhagslega áhættu, sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu þeirra á þeim tíma sem til þeirra var stofnað.
Í greinargerð umboðsmanns skuldara 28. september 2012 kemur fram að hin kærða ákvörðun sé byggð á heilstæðu mati á atvikum málsins. Þegar litið hafi verið til þeirrar áhættu sem kærendur hafi tekið með stofnun skuldbindinga árin 2007 og 2008 verði að telja að rétt hafi verið að synja um heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til 2. mgr. 6. gr. lge. Í ákvörðun embættisins hafi verið vísað sérstaklega til c-liðar ákvæðisins, enda hafi umfang skuldbindinga kærenda verið þess háttar og skuldirnar þess eðlis að ósanngjarnt sé að ætla að greiðsluaðlögunarúrræðið nái til þeirra. Um þátt ábyrgðarskuldbindinga vísar umboðsmaður skuldara til úrskurðar kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 19/2011 þar sem kærunefndin í niðurstöðu sinni lagði meðal annars áherslu á að annars vegar þyrfti að meta hvort ábyrgðarmaður hafi átt raunhæfa möguleika á að greiða af skuldbindingum ef á reyndi og hins vegar hver hafi verið fjárhagsstaða aðalskuldara, þ.e. þeirra aðila sem kærandi gekkst í ábyrgð fyrir, og hvort hún hafi verið þannig að ábyrgðarmanni hafði mátt vera ljóst að nokkrar líkur væru á því að á ábyrgðirnar myndi reyna. Að mati umboðsmanns skuldara var fjárhagsstaða X ehf. á þeim tíma þegar til skuldbindinganna var stofnað, með þeim hætti að ekki verði séð að félagið hefði haft augljósa burði til að standa undir þeim skuldbindingum sem kærendur gengust í ábyrgðir fyrir.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggir á 2. mgr. 6. gr. lge., með sérstakri tilvísun til c-liðar, en þar er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.
Fjárhagserfiðleika kærenda má rekja til rekstrar fyrirtækis þeirra, X ehf. Að sögn kærenda eru skuldir þeirra vegna fyrirtækisins óviðráðanlegar. Vísa kærendur til erlends láns sem kærandi A tók árið 2007 að fjárhæð 49.000.000 króna til kaupa á fasteign að C götu nr. 40 sem hann hafi ætlað til endursölu. Hagnað af þeirri ráðstöfun hafi kærendur ætlað til greiðslu eldri skulda X ehf. Kærunefndin telur að kaupin hafi frá öndverðu falið í sér verulega áhættu í skilningi c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.
Skuldbindingar þær sem kærandi A gekkst undir árið 2007, bæði persónulega og sem ábyrgðarmaður, eru af því umfangi að líta verður svo á að þær hafi ekki verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma er til þeirra var stofnað. Annars vegar verður ekki séð að kærandi hafi haft raunhæfa möguleika á að greiða af umræddum skuldbindingum ef á reyndi. Hins vegar verður að líta til þess, við mat á áhættu hvað þetta varðar, að fjárhagsstaða X ehf. var þannig að kæranda mátti vera ljóst að líkur væru á því að á skuldbindingarnar myndi reyna. Þannig má ráða af ársreikningi X ehf. fyrir árið 2007 að eigið fé þess í byrjun árs 2008 hafi verið neikvætt þrátt fyrir hagnað ársins 2007.
Þá verður einnig að líta til þess að meirihluti af skuldbindingum kærenda er vegna atvinnurekstrar. Samkvæmt núgildandi lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga girða skuldir vegna atvinnurekstrar ekki fyrir heimild til greiðsluaðlögunar en takmörkun af því tagi var í 2. mgr. 63. gr. a laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, sem felld var úr gildi með lögum nr. 101/2010. Þar kom fram að ákvæði laganna um nauðasamning til greiðsluaðlögunar næði ekki til einstaklinga sem undangengin þrjú ár hefðu borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, hvort sem þeir hefðu lagt stund á hana einir eða í félagi við aðra, nema því aðeins að atvinnurekstri hefði verið hætt og þær skuldir sem stöfuðu frá atvinnurekstrinum væru tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum þeirra. Þó bendir umfjöllun í greinargerð með frumvarpi til núgildandi laga til þess að tilgangur þess að fella slíkar takmarkanir úr gildi hafi fyrst og fremst verið sá að greiða fyrir greiðsluaðlögun þeirra einstaklinga sem eru með atvinnurekstur samofinn heimilisrekstri. Segir í greinargerð með lögunum að það sé ekki ætlun löggjafans að þeir sem eigi í greiðsluerfiðleikum fyrst og fremst vegna atvinnurekstrar nýti sér þetta úrræði og jafnframt bent á að líta megi til ákvæða í 2. mgr. 6. gr. lge. varðandi fjárhagslega áhættu í þessu sambandi.
Með vísan til framangreinds er ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kærendum um heimild til að leita greiðsluaðlögunar á grundvelli c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.
Sigríður Ingvarsdóttir
Arndís Anna K. Gunnarsdóttir
Kristrún Heimisdóttir