Mál nr. 202/2012
Fimmtudaginn 13. nóvember 2014
A
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.
Þann 24. október 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 10. október 2012 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður á grundvelli 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).
Með bréfi 25. október 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 21. desember 2012.
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 21. desember 2012 og var honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust kærunefndinni 26. mars 2013.
I. Málsatvik
Kærandi er fæddur 1968 og býr ásamt eiginkonu sinni og tveimur börnum í eigin húsnæði að B götu nr. 6 í sveitarfélaginu C.
Kærandi og eiginkona hans bjuggu í Bandaríkjunum frá árinu 1990 til 2005 og starfaði kærandi þar sem D-iðnaðarmaður. Árið 2005 ákváðu þau að flytja til Íslands vegna veikinda í fjölskyldunni. Flutningarnir reyndust mjög kostnaðarsamir. Við heimkomuna keyptu þau fasteignina að B götu en talsverður kostnaður varð af því að gera eignina upp. Í málinu kemur fram að gengistryggt lán, sem kærandi tók í tengslum við innflutning á bifreið sinni frá Bandaríkjunum, hafi hækkað mjög í kjölfar bankahrunsins. Enn fremur hafi skuldsett kaup kæranda á eignarhlut í einkahlutafélagi um rekstur veitingahúss reynst dýr. Kærandi keypti eignarhlutinn síðla árs 2007. Hann lýsir því að reksturinn hafi gengið vel í um hálft ár en síðan hafi farið að halla undan fæti. Kærandi kveðst síðan hafa selt eignarhlutinn á talsvert lægra verði en hann keypti hann og sitji því eftir með talsverða skuld vegna þessa.
Kærandi lagði inn umsókn um greiðsluaðlögun 18. október 2010 og var honum veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar með ákvörðun umboðsmanns skuldara 8. desember 2011. Umsjónarmaður var skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum kæranda 13. desember 2011.
Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 64.633.619 krónur. Þar af falla 59.183.335 krónur innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. lge. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2005 og 2007.
Með bréfi til umboðsmanns skuldara 13. mars 2012 lagði umsjónarmaður til, með vísan til 15. gr. lge., að greiðsluaðlögunarumleitunum kæranda yrði hætt. Í bréfinu greinir umsjónarmaður frá því að kærandi hafi ekki lagt til hliðar fjármuni í samræmi við áskilnað a-liðar 12. gr. lge. þrátt fyrir jákvæða greiðslugetu um 180.000 krónur á mánuði í rúmlega ár. Kærandi hafi hvorki veitt umsjónarmanni fullnægjandi skýringar né gögn sem útskýrt gætu hvers vegna ekki hafi verið lagðir til hliðar fjármunir.
Með bréfi umboðsmanns skuldara 21. mars 2012 var óskað eftir skýringum kæranda áður en ákvörðun yrði tekin í máli hans, sbr. 15. gr. lge. Í bréfinu kemur fram að kærandi hafi ekki lagt fyrir á tímabili greiðsluaðlögunar þrátt fyrir að hann hafi haft um 180.000 krónur í greiðslugetu á mánuði. Í svari kæranda sem barst umboðsmanni skuldara 1. apríl 2012 kveðst kærandi ekki hafa getað lagt fyrir fjármuni vegna þess að verkefni við D-iðn hefðu verið af skornum skammti. Verkefnastaða fyrir síðari hluta ársins væri góð og gæti kærandi því byrjað að spara. Þá hafi kærandi þurft að leggja út fyrir viðgerðarkostnaði á bifreið. Umboðsmaður skuldara óskaði eftir gögnum frá kæranda 4. apríl 2012 er sýndu fram á tilgreind útgjöld og óreglulegar tekjur. Kærandi svaraði 9. maí 2012 en kvaðst ekki geta sýnt fram á viðgerðarkostnað þar sem um nótulaus viðskipti hafi verið að ræða.
Umboðsmaður skuldara óskaði eftir frekari upplýsingum frá kæranda 6. júlí 2012. Í fyrsta lagi var óskað eftir upplýsingum um greiðslu skatta af tekjum árið 2011 samkvæmt reikningum sem kærandi hafi sent embættinu og hvort kærandi muni greiða staðgreiðslu af umræddum tekjum. Í öðru lagi óskaði umboðsmaður skuldara eftir upplýsingum um ráðstöfun arfs sem kærandi fékk greiddan árið 2011 samkvæmt skattframtali 2012 og nam 3.370.065 krónum. Í svari kæranda 15. ágúst 2012 kemur fram að hann muni greiða staðgreiðslu af tekjunum samkvæmt álagningu. Varðandi arfinn kom fram að kærandi hefði ekki fengið umrædda fjárhæð í hendur.
Þann 30. ágúst 2012 óskaði umboðsmaður skuldara eftir staðfestingu á því að kærandi hefði ekki fengið umræddan arf greiddan. Einnig var óskað eftir upplýsingum um tekjur kæranda á árinu 2012. Umboðsmanni skuldara hafi borist reikningar vegna starfa kæranda á árinu 2011 en nauðsynlegt sé að upplýsingar um tekjur kæranda vegna ársins 2012 berist einnig. Umboðsmaður skuldara ítrekaði beiðni um upplýsingar 11. september 2012. Kærandi svaraði 24. september 2012 og kvaðst ætla að útvega umbeðin gögn.
Með ákvörðun 10. október 2012 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður á grundvelli 15. gr. lge. með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.
Þann 11. nóvember 2012 barst umboðsmanni skuldara tölvupóstur frá kæranda þar sem fram kemur að kærandi muni útvega gögn sem sýni fram á að hann hafi ekki fengið umræddan arf í hendur.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru eru ekki settar fram sérstakar kröfur, en skilja verður málatilbúnað kæranda þannig að hann krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Í kæru kemur fram að kærandi hafi talið að málið hafi snúist um arf sem hann hafi fengið greiddan. Endurskoðandi föður kæranda hafi verið veikur og því hafi kærandi þurft að útvega gögn vegna arfsins með öðrum hætti. Kærandi geti því gert grein fyrir arfinum nú. Að mati kæranda hafi hann þegar upplýst um þetta. Kærandi hafi einnig undir höndum gögn varðandi laun sín árið 2012.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Í ákvörðun umboðsmanns skuldara 10. október 2012 kemur fram að við meðferð máls kæranda hjá umsjónarmanni hafi komið í ljós að kærandi hefði ekki lagt til hliðar fjármuni á tímabili frestunar greiðslna. Í ljósi þess hafi umsjónarmaður tilkynnt umboðsmanni skuldara með bréfi 13. mars 2012 að rétt væri að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður með vísan til 15. gr. lge., sbr. a-lið 12. gr. lge.
Umboðsmaður skuldara kveðst hafa óskað eftir skýringum og gögnum frá kæranda. Samkvæmt skýringum kæranda hefðu ástæður þess að hann hafði ekki lagt fyrir verið þær að hann hefði haft lægri tekjur og fallið hefði á hann kostnaður vegna viðgerðar á bifreið hans. Umboðsmaður skuldara hafi óskað eftir haldbærum gögnum sem rennt gætu stoðum undir frásögn kæranda um aukin útgjöld og lægri tekjur. Þá hafi umboðsmaður skuldara óskað eftir því að kærandi gerði grein fyrir greiðslu skatta af tekjum sínum fyrir tekjuárið 2011 og hvort hann hefði haldið til haga arfi, að fjárhæð 3.370.065 krónur að frádregnum erfðafjárskatti, en samkvæmt skattframtali 2012 hefði kærandi fengið arfinn greiddan árið 2011. Kærandi hafi upplýst umboðsmann skuldara um að staðgreiðsla álagningar fyrir árið 2011 hefði farið fram en að arfinn hefði kærandi ekki fengið í hendur þar sem hann hefði þurft að láta hann frá sér vegna fjölskylduerfiðleika. Umboðsmaður skuldara hafi óskað eftir gögnum til staðfestingar á því að kærandi hefði afsalað sér arfinum sem og gögnum vegna tekna kæranda fyrir árið 2012. Umboðsmaður skuldara hafi ítrekað veitt kæranda fresti til að skila upplýsingum um tekjur fyrir árið 2012 og staðfestingu á að umræddur arfur hefði ekki komist í hendur kæranda. Kærandi hafi ekki veitt umbeðnar upplýsingar.
Í 1. mgr. 12. gr. lge. séu tilteknar skyldur skuldara við greiðsluaðlögun þegar frestun greiðslna standi yfir. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. skuli skuldari leggja til hliðar af launum sínum og öðrum tekjum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Kærandi hafi notið frestunar greiðslna allt frá október 2010 og greiðslugeta hans hafi samkvæmt útreikningum umsjónarmanns verið um 180.000 krónur á mánuði.
Að mati umboðsmanns skuldara séu ákveðnir óvissuþættir fyrir hendi í máli kæranda en þeir leiði til þess að ekki sé mögulegt að fá heildarmynd af fjárhag og greiðslugetu hans. Þá gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag kæranda eða væntanlegri þróun á fjárhag hans á tímabili greiðsluaðlögunar samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr., sbr. einnig 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. sömu laga um skyldu skuldara til að veita upplýsingar um tekjur sínar á meðan greiðsluaðlögunarumleitanir standi yfir. Fram hafi komið að kærandi sé sjálfstætt starfandi D-iðnaðarmaður og séu tekjur hans óreglulegar verktakagreiðslur. Upplýsingar um tekjur kæranda séu nauðsynleg gögn við vinnslu málsins og um sé að ræða gögn sem ekki sé á færi annarra en kæranda sjálfs að afla. Í ljósi þeirrar óvissu sem liggi fyrir um tekjur kæranda þyki ótímabært að framkvæma heildstætt mat á því hvort kærandi hafi sinnt skyldum sínum samkvæmt ákvæði a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. og lagt til hliðar fé af tekjum sínum og öðrum launum á meðan frestun greiðslna stóð yfir.
Ákvörðun í máli kæranda hafi verið tekin rúmum tveimur árum eftir að hann lagði fram umsókn sína um greiðsluaðlögun. Málið hafi verið í þrjá mánuði hjá umsjónarmanni og liðið hafi tæpir sjö mánuðir frá því að andmælabréf var sent til kæranda þar til ákvörðun um niðurfellingu var tekin. Kærandi hafi verið í reglulegum samskiptum við embættið á þessum tíma. Frestur kæranda til að skila gögnum máli sínu til stuðnings hafi því verið mjög langur. Umboðsmaður bendir á að í máli kærunefndar greiðsluaðlögunarmála nr. 6/2011 hafi nefndin talið að kæranda hafi verið veittur nægur tími til að skila gögnum í máli sínu. Í því máli hefði kærandi haft tæpa fjóra mánuði til að skila umbeðnum gögnum þegar umsókn hans var tekin til afgreiðslu og rúma tvo mánuði til að skila gögnum eftir að óskað var sérstaklega eftir þeim gögnum sem um ræddi. Um sé að ræða sams konar mál og hér sé til umfjöllunar.
Umboðsmaður skuldara árétti að það sé aðeins á færi kæranda að leggja fram þau gögn sem óskað hafi verið eftir við vinnslu málsins, en samkvæmt 4. mgr. 4. gr. lge. beri skuldara að útvega nauðsynleg gögn og koma þeim til umboðsmanns skuldara. Hafi þetta meðal annars verið staðfest í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 5/2011.
Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Í lagaákvæðinu er kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Við mat á því hvað teljist nægilega glögg mynd af fjárhag skuldara telur kærunefndin meðal annars rétt að líta til 4. og 5. gr. lge.
Í 4. gr. lge. er gerð grein fyrir umsókn um greiðsluaðlögun. Í 1. mgr. 4. gr. er upptalning í 11 töluliðum á því sem koma skal fram í umsókninni. Í 4. tölul. lagaákvæðisins segir að í umsókn um greiðsluaðlögun skuli koma fram hverjar tekjur skuldara séu, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðist, svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum.
Í athugasemdum með 4. gr. í frumvarpi til lge. kemur fram að gert sé ráð fyrir að skuldari, eftir atvikum með aðstoð umboðsmanns skuldara, leggi mat á hversu háa fjárhæð hann geti greitt mánaðarlega til að standa skil á skuldbindingum sínum. Upptalning í 1. mgr. sé ekki tæmandi, enda sé gert ráð fyrir að umboðsmaður skuldara geti krafist þess að skuldari afli frekari upplýsinga en tilgreindar eru í ákvæðinu.
Í 5. gr. er kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og getur embættið krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingarnar með gögnum. Rannsókn á fjárhagsstöðu skuldara hefur bæði þýðingu við mat á því hvort tilefni sé til að synja umsókn á grundvelli 2. mgr. 6. gr. lge. og varpar jafnframt ljósi á núverandi fjárhagsstöðu skuldara og væntanlega þróun hennar til framtíðar.
Byggist ákvörðun umboðsmanns skuldara á því að fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag kæranda eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Kærandi sinnti ekki ítrekuðum óskum umboðsmanns skuldara um að leggja fram gögn þrátt fyrir ítrekaða fresti sem honum voru gefnir til þess.
Í skýringum við frumvarp til lge. er fjallað um inntak b-liðar 1. mgr. 6. gr. Þar segir að umboðsmanni sé skylt að hafna umsókn þegar fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar enda mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um fjárhagsleg málefni sín. Hér sé einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Áréttað er að skuldari skuli taka virkan þátt í og sýna viðleitni til að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.
Hver sá sem leitar greiðsluaðlögunar skal veita umboðsmanni skuldara ítarlegar upplýsingar og gögn. Í þessu felst skylda til að veita allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að greina fjárhagsstöðu viðkomandi til fulls. Með öðru móti verður ekki lagt efnislegt mat á hvort heimilt eða hæfilegt sé að veita skuldara greiðsluaðlögun. Rannsóknarskylda stjórnvalda leysir umsækjendur um greiðsluaðlögun ekki undan þeirri skyldu.
Umboðsmaður skuldara óskaði eftir gögnum og upplýsingum um tekjur kæranda fyrir tekjuárið 2012. Einnig fór embættið fram á upplýsingar er vörðuðu arf kæranda sem hann kvaðst hafa látið af hendi.
Kærandi greinir frá því að upplýsingar um tekjur ársins 2012 hafi hann nú í höndum. Þá hafi hann gert grein fyrir arfshlut. Kærandi hefur hins vegar ekki lagt umrædd gögn fram máli sínu til stuðnings, hvorki hjá umboðsmanni skuldara né undir rekstri málsins hjá kærunefnd greiðsluaðlögunarmála.
Að öllu ofangreindu virtu er það mat kærunefndarinnar að á skorti að kærandi hafi framvísað nauðsynlegum upplýsingum og gögnum til að fyrir lægi nægilega glögg mynd af fjárhag hans eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar, svo sem ákvæði b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. áskilur. Kærandi uppfyllti því ekki skilyrði laganna til að geta leitað greiðsluaðlögunar og var umboðsmanni skuldara því rétt með vísan til 15. gr. lge. að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður.
Að þessu virtu verður ákvörðun umboðsmanns skuldara um fella niður heimild A til greiðsluaðlögunar staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.
Sigríður Ingvarsdóttir
Eggert Óskarsson
Lára Sverrisdóttir