Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 200/2012

Fimmtudaginn 13. nóvember 2014

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 23. október 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 30. ágúst 2012 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 24. október 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 4. desember 2012.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 7. desember 2012 og var henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

I. Málsatvik

Kærandi er fædd 1981, hún er einstæð móðir með tvö börn og býr í leiguhúsnæði í sveitarfélaginu D. Hún greiðir mánaðarlega 150.000 krónur í húsaleigu og er skráður eigandi fasteignar að B götu nr. 29, sveitarfélaginu C.

Kærandi er með BS-gráðu í sálfræði. Samkvæmt gögnum málsins eru samanlagðar nettótekjur hennar 366.540 krónur á mánuði. Þar af eru barnabætur 47.931 króna, meðlag 46.822 krónur, húsaleigubætur 70.000 krónur og mæðralaun 3.949 krónur.

Heildarskuldir kæranda eru samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara 15.491.077 krónur. Allar kröfur falla innan samnings samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) að undanskildum námslánum að fjárhæð 5.089.644 krónur. Kærandi stofnaði til helstu skuldbindinga á árunum 2007 til 2009.

Kærandi telur að skuldasöfnun sína megi rekja til fasteignakaupa, sambúðarslita og takmarkaðrar stjórnar hennar á fjármálum sínum. Að sögn kæranda var hún í sambúð með barnsföður sínum en þau slitu samvistir á árinu 2009. Hann hafi ekki getað tekið lán vegna þess að hann hafi verið á svörtum lista í bankanum og því hafi allar sameiginlegar skuldbindingar þeirra verið teknar í hennar nafni. Við sambúðarslitin hafi hann skilið allar skuldirnar eftir. Hann hafi greitt af lánunum í eitt ár og talið sig búinn að gera skyldu sína eftir þann tíma. Að sögn kæranda hafi barnsfaðir hennar verið í góðri vinnu og með góðar tekjur. Faðir hennar hafi búið í eign hennar í sveitarfélaginu C og greitt fasteignagjöld og tryggingar af eigninni.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 10. október 2011 var kæranda veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt lge. og henni skipaður umsjónarmaður í kjölfarið. Samkvæmt útreikningum umsjónarmanns hafði kærandi ekki nægilega greiðslugetu til að standa undir mánaðarlegum afborgunum fasteignaveðlána enda hafi greiðslugetan á tímabili verið neikvæð um 121.000 krónur á mánuði. Því lagði umsjónarmaður til að fasteign kæranda að B götu nr. 29, sveitarfélaginu C, yrði seld samkvæmt ákvæði 1. mgr. 13. gr. lge. Lagðist kærandi eindregið gegn því. Umsjónarmaður lagði því til við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir yrðu felldar niður.

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að hann hafi sent kæranda bréf 11. maí 2012 þar sem henni hafi verið gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge., áður en tekin yrði endanleg ákvörðun um hvort greiðsluaðlögunarumleitanir yrðu felldar niður. Embættinu hafi borist svar kæranda 20. júní 2012. Þar hafi kærandi lýst þeirri afstöðu sinni að mál hennar skyldi tekið til nýrrar meðferðar hjá umboðsmanni skuldara þar sem aðstæður hennar hefðu breyst verulega. Var kærandi í tölvupóstssamskiptum við starfsmann umboðsmanns skuldara næstu daga allt til 28. júní 2012. Samkvæmt þessum samskiptum hafi eftir fremsta megni verið reynt að endurmeta greiðslugetu kæranda, með tilliti til meintra breyttra aðstæðna á fjárhag hennar. Þær tilraunir hafi þó leitt í ljós að greiðslugeta hennar væri enn neikvæð. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 30. ágúst 2012 var heimild kæranda til greiðsluaðlögunar felld niður.

 II. Sjónarmið kæranda

Í kæru segir kærandi að greiðsluaðlögunarumleitunum hennar hafi verið hafnað vegna þess að hún hafi reynt að fá lausn á skuldavanda sínum, þó þannig að fasteign hennar að B götu nr. 29 sveitarfélaginu C væri undanskilin greiðsluaðlögun. Þar sem ekki virtist mögulegt að fá úrlausn í málinu án sölu fasteignarinnar sjái kærandi ekki aðra kosti í stöðunni en að heimila þá sölu. Óskar kærandi eftir endurupptöku greiðsluaðlögunarumleitana sinna með það fyrir augum að fasteignin verði seld. Skilja verður málatilbúnað kæranda á þann veg að hún krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

 III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í greinargerð umboðsmanns skuldara kemur fram að sá einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar sem sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Sé þá miðað við að hann geti ekki staðið við eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skulda, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna sinna að öðru leyti, sbr. 1. og 2. mgr. 2. gr. lge. Ef fram komi upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge.

Í athugasemdum með 13. gr. frumvarps til lge. segi að við mat á því hvort mælt skuli með sölu fasteignar umsækjanda samkvæmt 1. mgr. 13. gr., skuli meðal annars horft til þess hvort íbúðarhúsnæði skuldara sé bersýnilega verulega umfram þá stærð sem skuldara og fjölskyldu hans hæfir, auk þess sem miklar líkur þurfi að vera á því að hann geti greitt afborganir af áhvílandi veðlánum eftir að greiðsluaðlögun ljúki. Þá segi í niðurlagi 1. mgr. 13. gr. lge. að umsjónarmanni sé heimilt að leita afstöðu lánardrottna áður en mælt sé með sölu fasteignar, þyki honum ástæða til.

Þá segi í a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. að ef skuldari haldi eftir eignum sem veðkröfur á hendur honum hvíli á skuli hann greiða fastar mánaðargreiðslur af þeim veðkröfum, sem séu innan matsverðs eignar, á tímabili greiðsluaðlögunar eftir ákvæðum 2. mgr. 7. gr. laga um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði nr. 50/2009. Þar segi enn fremur að fastar mánaðargreiðslur megi ekki nema lægri fjárhæð en þeirri sem ætla megi samkvæmt mati umsjónarmanns að svari til hæfilegrar leigu á almennum markaði fyrir eignina sem greiðsluaðlögun varði nema sérstakar og tímabundnar ástæður séu fyrir hendi.

Jafnframt segi í greinargerð umboðsmanns skuldara að kærandi hafi verið búsett í sveitarfélaginu D og lagt stund á nám í sálfræði. Haustið 2011 hafi hún þó gert hlé á námi sínu og flust austur á land þar sem hún hafi búið um tíma. Kærandi hafi borið því við að hún hafi lent í verulegum greiðsluerfiðleikum á meðan hún bjó í sveitarfélaginu D vegna lágra tekna og hærri húsaleigukostnaðar.

Töluverð óvissa ríki enn um fjárhag kæranda. Tekjur hennar séu atvinnuleysis- og barnabætur, að jafnaði að fjárhæð 218.915 krónur á mánuði. Hún haldi heimili í fasteign sinni í sveitarfélaginu C en hún hafi fest kaup á eigninni árið 2005. Kærandi segi lántöku vegna fasteignakaupanna einungis hafa verið gerð í hennar nafni þar sem faðir hennar hafi haldið þar heimili og hann hafi greitt gjöld og afborganir af eigninni. Hann sé nú fluttur úr eigninni en eignin hafi lengi verið í útleigu. Að sögn kæranda séu leigugreiðslur fyrri leigjenda í miklum vanskilum.

Fram hafi komið að aðeins eldra barn kæranda búi á heimili hennar. Kveðst kærandi ekki greiða meðlag með yngra barninu og sé óljóst af gögnum máls hvort kærandi stefni að því að hafa bæði börn sín í sinni umsjá um fyrirsjáanlega framtíð. Að teknu tilliti til núverandi aðstæðna sé greiðslugeta kæranda nú lítil, eða einungis um 13.333 krónur á mánuði, sé miðað við almenna framfærsluþörf einstaklings með eitt barn á framfæri. Hafi þá ekki verið gert ráð fyrir húsnæðiskostnaði. Ljóst sé þó að áætlaðar mánaðarlegar raunafborganir af fasteign kæranda innan matsverðs nemi 49.441 krónu hið minnsta.

Kærandi hafi hvorki sýnt fram á tímabundnar né varanlegar breytingar á reglulegum tekjum sínum, eða fært rök fyrir því að hún geti staðið undir mánaðarlegum afborgunum fasteignalána um fyrirsjáanlega framtíð, sbr. a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. Þrátt fyrir það hafi hún eindregið lagst gegn ákvörðun umsjónarmanns um að fasteign hennar verði seld samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge.

Ef fram komi upplýsingar sem ætla má að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna um slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 15. gr. lge. Í hinni kærðu ákvörðun sé niðurfelling greiðsluaðlögunarumleitana byggð á þeirri lagagrein.

Í kæru hafi kærandi óskað eftir endurupptöku greiðsluaðlögunarumleitana þar sem hún kveðst nú tilbúin til að selja fasteign sína að B götu nr. 29, sveitarfélaginu C. Meðan á greiðsluaðlögunarumleitunum hafi staðið hafi kæranda gefist nægur tími til að samþykkja sölu á eigninni. Hún hafi fengið ítarlegar útskýringar, bæði frá starfsmönnum umboðsmanns skuldara og umsjónarmanni sínum, um að heimild til greiðsluaðlögunarumleitana yrði felld niður ef hún samþykkti ekki sölu eignarinnar. Mál kæranda hafi verið í rúma fjóra mánuði hjá umsjónarmanni og til viðbótar hafi tæplega hálft ár liðið frá því að umsjónarmaður skilaði málinu til embættisins á grundvelli 15. gr. lge. þar til ákvörðun um niðurfellingu var tekin. Kærandi hafi verið í reglulegum samskiptum við embættið á þessum tíma.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar byggist á 15. gr. lge.

Ákvæði 15. gr. lge. nær samkvæmt orðanna hljóðan yfir skilyrði greiðsluaðlögunar samkvæmt lögunum og á við þegar fram koma upplýsingar við greiðsluaðlögunarumleitanir sem ætla má að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna. Í skýringum við frumvarp til lge. segir um ákvæði 15. gr. að þar sé fyrst og fremst átt við þau tilvik þar sem nánari skoðun umsjónarmanns eða nýjar upplýsingar leiði til þess að skuldari uppfylli ekki skilyrði greiðsluaðlögunar.

Í a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. kemur fram að ef skuldari heldur eftir eignum sem veðkröfur á hendur honum hvíla á skuli hann greiða fastar mánaðargreiðslur af þeim veðkröfum, sem eru innan matsverðs eignar, á tímabili greiðsluaðlögunar og skuli þeim varið til greiðslu krafna eftir ákvæðum 2. mgr. 7. gr. laga um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði nr. 50/2009. Þessar föstu mánaðargreiðslur mega ekki nema lægri fjárhæð en þeirri sem ætla má samkvæmt mati umsjónarmanns að svari til hæfilegrar leigu á almennum markaði fyrir eignina sem greiðsluaðlögun varðar nema sérstakar og tímabundnar ástæður séu fyrir hendi.

Í 1. mgr. 13. gr. lge. kemur fram að umsjónarmaður geti ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þá kemur fram í 5. mgr. sömu greinar að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi hann með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður samkvæmt 15. gr.

Eins og áður hefur komið fram gerði umsjónarmaður kæranda ráð fyrir sölu á fasteign kæranda að B götu nr. 29 sveitarfélaginu C. Var það mat umsjónarmanns að ekki væri svigrúm til að greiða fastar mánaðargreiðslur af veðkröfum innan matsverðs eignarinnar.

Í málinu liggur fyrir að mánaðarleg greiðslugeta kæranda var neikvæð um 121.000 krónur og því ljóst að hún hafði ekki möguleika til að greiða mánaðarlega af veðkröfum. Þrátt fyrir það andmælti kærandi því að eignin yrði seld. Eftir að umsjónarmaður sendi málið  til umboðsmanns skuldara var greiðslugeta kæranda endurmetin með tilliti til breyttra fjárhagaðstæðna. Niðurstaðan var sú að greiðslugeta kæranda var enn neikvæð.

Nú liggur fyrir að kærandi er reiðubúin til þess að selja fasteign sína. Eru því ekki lengur fyrir hendi þær ástæður sem leiddu til þess að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður en forsendur málsins eru breyttar á þann hátt að nauðsynlegt er að láta á það reyna hvort nú verði talin skilyrði til að leita áfram greiðsluaðlögunar. Endurskoðun æðra stjórnvalds á ákvörðunum lægra setts stjórnvalds á grundvelli stjórnsýslukæru tekur til allra þátta ákvörðunarinnar. Breyttar aðstæður eftir að umboðsmaður skuldara hefur tekið ákvörðun kunna því eftir atvikum að vera tilefni til þess að kærunefnd komist að annarri niðurstöðu en umboðsmaður skuldara. Kærandi samþykkti ekki sölu fasteignar sinnar á því tíu mánaða tímabili sem mál hennar var til meðferðar hjá umsjónarmanni og umboðsmanni skuldara. Þrátt fyrir það telur kærunefndin að um svo mikilsvert málefni sé að ræða fyrir kæranda að rétt þyki að umboðsmaður skuldara meti að nýju hvort fyrir hendi séu skilyrði til áframhaldandi greiðsluaðlögunarumleitana. Í ljósi framangreinds er það mat kærunefndarinnar að óhjákvæmilegt sé að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana kæranda samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. er samkvæmt framansögðu felld úr gildi.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er felld úr gildi.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta