Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 69/2011

Fimmtudaginn 17. október 2013


A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 16. nóvember 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 31. október 2011 þar sem heimild þeirra til greiðsluaðlögunar var felld niður.

Með bréfi 24. nóvember 2011 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 8. desember 2011.

Þann 8. desember 2011 sendi kærandi umboðsmanni skuldara tölvupóst sem embættið sendi kærunefndinni samdægurs.

Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kærendum til kynningar með bréfi 13. desember 2011. Frekari athugasemdir bárust frá kærendum með fimm tölvubréfum 17. desember 2011.

I. Málsatvik

Kærendur eru gift og búa ásamt þremur börnum sínum í eigin fasteign að C götu nr. 12 í sveitarfélaginu D, sem er 253 fermetra einbýlishús. A er viðskiptafræðingur og framhaldsskólakennari, en hefur verið atvinnulaus frá upphafi árs 2010. B er guðfræðingur og starfar sem stuðningsfulltrúi í hlutastarfi. Hún hefur einnig lokið námi í náms- og starfsráðgjöf.

Í greinargerð með umsókn kærenda um greiðsluaðlögun kemur fram að greiðsluerfiðleika þeirra megi fyrst og fremst rekja til hækkunar lána og atvinnumissis í kjölfar bankahrunsins. Kærandi A hafi misst starf sitt sem stuðningsfulltrúi hjá E árið 2009 vegna niðurskurðar. Hafi hann þá fengið starf við kennslu í F framhaldsskólanum haustið 2009 en það starf hafi hann misst í janúar 2010. Kærandi B hafi einnig misst starf sitt sem prestur aldraðra. Kærendur rekja atvinnumissi sinn til pólitískra ofsókna sem komi einnig í veg fyrir að þau fái störf að nýju.

Heildarskuldir kærenda nema 88.310.074 krónum samkvæmt því sem fram kemur í ákvörðun umboðsmanns skuldara. Þar af falla 82.622.008 krónur innan greiðsluaðlögunarsamnings, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.). Stofnað var til helstu skuldbindinga árið 2006 í tengslum við fasteignakaup.

Þann 25. febrúar 2011 lá umsókn kærenda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar fyrir fullbúin og var umsóknin samþykkt 9. mars 2011. Umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitunum var skipaður 10. mars 2011. Þann 30. ágúst 2011 barst umboðsmanni skuldara bréf frá umsjónarmanni þar sem hann lagði til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður á grundvelli 15. gr., sbr. 12. gr. lge. Með bréfi 1. september 2011 gaf umboðsmaður skuldara kærendum færi á að koma að athugasemdum við bréf umsjónarmanns. Sendu kærendur umboðsmanni skuldara tölvubréf 4., 5., og 6. september 2011. Þann 9. september 2011 barst umboðsmanni skuldara aftur bréf frá umsjónarmanni þar sem meðal annars var greint frá því að kærendur hefðu selt bifreið sína Y án vitneskju umsjónarmanns. Þar með teldi umsjónarmaður að fram væru komnar frekari upplýsingar sem ætla mætti að myndu hindra að greiðsluaðlögun væri heimil. Með bréfi 5. október 2011 var kærendum gefið færi á að koma með athugasemdir við síðara bréf umsjónarmanns. Svar með tölvubréfi barst umboðsmanni skuldara 12. október 2011. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 31. október 2011 var svo heimild kærenda til að leita greiðsluaðlögunar felld niður á grundelli 15. gr. lge.

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur mótmæla ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu greiðsluaðlögunar. Í kæru kemur fram að kærendur hafi lagt til hliðar af launum sínum eins og þeim var unnt. Að því er varðar bifreiðina Y, sem seld var án samþykkis umsjónarmanns, greina kærendur frá því að hún hafi að þeirra mati verið ónýt. Kærandinn A eigi bifreiðina Z en virði hennar sé líklega um 500.000 til 600.000 krónur.

Kærendur reka gistiheimilið F í fasteign sinni. Tekjur af rekstrinum hafi nægt til viðgerða vegna leka á húsnæði þeirra, auk viðgerða í kjallara og bílskúr. Í kæru kemur fram að tekjur vegna gistiheimilisins séu um 1.254.000 krónur nettó, en sú fjárhæð hafi dugað til viðgerðanna.

Að sögn kærenda eru bréf sem umsjónarmaður sendi þeim 15., 19., og 25. ágúst ekki sjáanleg í tölvu þeirra.

Í tölvubréfum kærenda 8. og 17. desember 2012, kemur fram að kaupandi bifreiðarinnar Y sé tilbúin til að skila bifreiðinni gegn því að fá greiddan viðgerðarkostnað, sem sé umtalsverður. Kærendur hafi ekki verið í stöðu til að gera við bílinn og hafi talið hann ónýtan. Söluverð bifreiðarinnar hafi verið 10.000 krónur.

Kærendur reka gistiheimilið F í félaginu X ehf. Ljóst sé að heildartekjur af rekstrinum séu hærri en fram hafi komið, tekjurnar séu í raun 1.814.000 krónur. Viðgerðarkostnaður vegna húss kærenda hafi verið 1.131.000 krónur og 512.000 krónur hafi verið launakostnaður. Allt komi þetta fram í skattframtali X ehf. Eftir viðgerðir á húsi kærenda sé sennilegt að búið sé að auka virði þess um 5.000.000 til 10.000.000 króna.

Kærendur kveðast hafa sett hluta af launum sínum inn á ákveðinn bankareikning. Það hafi verið sú fjárhæð sem þau gátu lagt til hliðar á hverjum tíma. Þau hafi sýnt afrit af reikningnum.

Kærandinn A telur að bæði myntkörfulán og lán gömlu bankanna séu ólögleg eins og Hæstiréttur hafi dæmt. Samkvæmt neytendalögum séu öll lög sem rýri rétt neytenda ólögleg.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara greinir frá því að einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar ef hann sýnir fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Í 15. gr. lge. segir að ef fram koma upplýsingar sem ætla má að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laga skuli umsjónarmaður tilkynna um slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið tekur afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Þann 15. ágúst 2011 óskaði umsjónarmaður eftir því með tölvubréfi að kærendur gerðu grein fyrir því hvað þau hefðu lagt til hliðar af launum sínum á því tímabili sem frestun greiðslna stóð yfir og hvort skyldum samkvæmt 12. gr. lge. hefði verið fullnægt. Umsjónarmaður gaf kærendum tveggja daga frest til öflunar gagna. Umsjónarmaður ítrekaði beiðnina 19. ágúst 2011 með ábyrgðarbréfi. Engin svör hafi borist frá kærendum. Umsjónarmaður hafi fengið símtal frá kærandanum A 25. ágúst 2011 en hann hafi í engu svarað ítrekaðri beiðni umsjónarmanns um afhendingu gagna.

Umsjónarmaður sendi umboðsmanni skuldara bréf 30. ágúst 2011 þar sem lagt var til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður á grundvelli 15. gr., sbr. 12. gr. lge. Í kjölfarið sendi umboðsmaður kærendum bréf 1. september 2011 þar sem þeim var gefinn vikufrestur til að láta álit sitt í ljós og leggja fram frekari gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra yrðu felldar niður. Sendu kærendur umboðsmanni skuldara tölvubréf 4., 5., og 6. september 2011 án þess að fullnægjandi skýringar eða gögn væru lögð fram að mati umboðsmanns.

Umsjónarmaður kærenda sendi umboðsmanni því næst bréf 9. september 2011. Þar var verið greint frá því að kærendur hefðu selt bifreiðina Y þann 11. ágúst 2011. Kærendur hafi ekki tilkynnt umsjónarmanni um söluna eða gert grein fyrir ráðstöfun söluverðmætis. Slíkt sé óheimilt á meðan frestun greiðslna stendur yfir skv. 12. gr. lge. Einnig komi fram í bréfinu að á heimili kærenda að C götu nr. 12 í sveitarfélaginu D sé rekið gistihús. Getið hafi verið um reksturinn í greinargerð kærenda en að öðru leyti liggi ekki fyrir upplýsingar um þennan rekstur.

Í kjölfar seinna bréfs umsjónarmanns hafi umboðsmaður skuldara sent kærendum bréf 5. október 2011. Þar hafi þeim enn verið gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós og leggja fram frekari gögn innan tiltekins frests, áður en tekin yrði endanleg ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild til greiðsluaðlögunar. Umboðsmanni skuldara hafi borist svar frá kærendum með tölvubréfi 12. október 2011 án þess þó að fullnægjandi svör eða gögn hafi komið fram við fyrirspurnum umboðsmanns.

Í ákvörðun sinni bendir umboðsmaður á að leggja verði þær skyldur á kærendur að þau sýni samstarfsvilja og leggi fram þau gögn sem óskað er eftir og skipti máli við samningu frumvarps til greiðsluaðlögunar. Megi þar nefna gögn sem umsjónarmaður geti ekki aflað sjálfur, svo sem yfirlit yfir bankareikninga og tekjur vegna verktakavinnu. Telur umboðsmaður að ákveðin óvissa sé fyrir hendi í máli kærenda þannig að ekki sé mögulegt að fá heildarmynd af fjárhag þeirra, greiðslugetu eða væntalegri þróun á fjárhag þeirra á tímabili greiðsluaðlögunar.

Kærendur hafi ekki lagt fram fullnægjandi upplýsingar eða gögn um hversu háa fjárhæð þau hafi lagt til hliðar af launum sínum á meðan frestun greiðslna stóð yfir. Þau hafi því ekki með viðunandi hætti gert grein fyrir því hvort þau hefðu fullnægt skyldum 12. gr. lge. Samkvæmt gögnum málsins hafi kærendum mátt vera ljóst að þau ættu að leggja til hliðar þá fjármuni sem þau hefðu aflögu, til að nýta þegar kæmi að samningum við kröfuhafa. Kærendum hafi ítrekað verið gefið tækifæri til að leggja fram viðeigandi gögn, t.d. yfirlit yfir bankareikninga, en þau hafi ekki orðið við því.

Með því að selja bifreiðina Y hafi kærendur brotið gegn skyldum sínum, sbr. c-lið 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem bifreiðin var seld á meðan frestun greiðslna stóð yfir. Kærendur hafi ekki sýnt fram á hvert söluandvirði bifreiðarinnar var eða hvernig því var ráðstafað. Kærendur haldi því fram að bifreiðin hafi verið ónýt, en umboðsmaður telur að þá fullyrðingu verði þau að sýna fram á með gögnum.

Kærendur hafi heldur ekki gert grein fyrir tekjum af gistihúsrekstri á heimili þeirra að C götu, áður en ákvörðun var tekin í málinu. Í greinargerð kærenda með kæru komi fram að tekjur af rekstri gistihússins hafi verið 1.254.000 krónur en hvorki séu lögð fram gögn því til stuðnings né tekið fram á hvaða tímabili teknanna hafi verið aflað. Einnig komi fram að umræddar tekjur hafi nægt til þess að gera við hús kærenda. Engin gögn hafi verið lögð fram sem sýni fram á kostnað vegna þessara viðgerða. Þá liggi ekki fyrir að umræddar viðgerðir hafi verið nauðsynlegar en það sé skilyrði þess að fjárútlát hafi verið heimil vegna viðgerðanna á meðan frestun greiðslna stóð yfir.

Telur umboðsmaður að af þessu leiði að fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af væntanlegri þróun fjárhags kærenda á tímabili greiðsluaðlögunar og skilyrði b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. teljist því ekki uppfyllt. Umboðsmanni hafi ekki borist gögn sem upplýst geti það sem sé óljóst í málinu.

Umboðsmaður mótmælir þeirri fullyrðingu kærenda að þeim hafi ekki borist bréf frá umsjónarmanni þar sem beðið var um frekari gögn. Af gögnum málsins sé greinilegt að bréfin hafi verið send og móttekin.

Umboðsmaður krefst þess að ákvörðun um að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar frá 31. október 2011 verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar, og til 1. mgr. 6. gr. lge. um aðstæður sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. ber skuldara að leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Þá kemur fram í c-lið ákvæðisins að skuldari skuli ekki láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geti lánardrottnum sem greiðsla. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist í fyrsta lagi á því að kærendur hafi ráðstafað bifreið án heimildar umsjónarmanns, sem stríði gegn c-lið 1. mgr. 12. gr. lge., og í öðru lagi á því að kærendur hafi ekki upplýst umsjónarmann um þá fjármuni sem lagðir hafi verið til hliðar á því tímabili sem frestun greiðslna stóð yfir, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Ákvæði 15. gr. lge. nær samkvæmt orðanna hljóðan yfir skilyrði greiðsluaðlögunar samkvæmt lögunum í heild og takmarkast heimild til niðurfellingar greiðsluaðlögunarumleitana ekki við þau tilvik þegar skuldari bregst skyldum sínum samkvæmt 12. gr. laganna. Í skýringum við frumvarp til laga nr. 101/2010 segir um ákvæði 15. gr. þeirra að þar sé fyrst og fremst átt við þau tilvik þar sem nánari skoðun umsjónarmanns eða nýjar upplýsingar leiði til þess að skuldari uppfylli ekki skilyrði greiðsluaðlögunar og er þar sérstaklega vísað til I. og II. kafla laganna.

Í 1. mgr. 6. gr. lge. eru tilgreindar ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. skal synja um heimild til greiðsluaðlögunar gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Er hér gert ráð fyrir að skuldari taki virkan þátt og sýni viðeigandi viðleitni við að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður. Í skýringum við 6. gr. í athugasemdum við frumvarp til laga nr. 101/2010 er áréttað mikilvægi þess að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um allt sem lýtur að fjárhagslegum málefnum hans og að hann verði við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem skuldara einum er unnt að afla eða gefa.

Kærendur hafa í fyrsta lagi ekki orðið við ítrekaðri beiðni umboðsmanns um gögn varðandi það hversu háa fjárhæð þeim reyndist fært að leggja til hliðar af launum sínum á meðan frestun greiðslna stóð yfir, sbr. a-lið 12. gr. lge. Þá hafa kærendur ekki lagt fram fullnægjandi gögn í tengslum við sölu bifreiðarinnar Y, svo sem afsal eða kaupsamning. Einnig er ljóst að kærendur reka gistiheimili í húsi sínu, en engin gögn hafa verið lögð fram varðandi reksturinn og áhrif hans á persónulegan fjárhag kærenda, svo sem það hvaða tekjur kærendur hafi haft af rekstrinum og hvenær. Þá kemur fram í skýringum kærenda að viðgerðir hafi verið gerðar á húsi þeirra en engin gögn hafa verið lögð fram því til stuðnings eða skýringar. Verður að fallast á það með umboðsmanni skuldara að fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af væntanlegri þróun fjárhags kærenda á tímabili greiðsluaðlögunar, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Í ljósi alls þessa verður því að líta svo á að fram séu komnar upplýsingar sem ætla má að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge., og er ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild til greiðsluaðlögunar því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild A og B til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Lára Sverrisdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta