Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 62/2011

Fimmtudaginn 17. október 2013

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 27. september 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 5. september 2011 þar sem umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 5. október 2011 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 28. október 2011.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 31. október 2011 og var kærendum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kærendum með bréfi 8. nóvember 2011. Voru athugasemdir kærenda sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 14. nóvember 2011 sem skilaði framhaldsgreinargerð með bréfi 24. nóvember 2011.

Framhaldsgreinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 28. nóvember 2011 og var kærendum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust frá kærendum með bréfi 8. desember 2011.

I. Málsatvik

Kærendur eru gift og búa í eigin húsnæði sem er 202 fermetra einbýlishús að C götu nr. 31 í sveitarfélaginu D. Hjá þeim búa dóttir þeirra, tengdasonur og tvö barnabörn. Kærendur eru bæði örorkulífeyrisþegar. Mánaðarlegar tekjur kæranda B eftir frádrátt skatts eru 139.906 krónur. Mánaðarlegar tekjur kæranda A eftir frádrátt skatts eru 155.713 krónur. Auk þess fá þau sérstaka vaxtaniðurgreiðslu sem nemur 10.777 krónum á mánuði. Samtals eru ráðstöfunartekjur kærenda því 306.396 krónur á mánuði.

Um tíma rak kærandi A fyrirtækið X ehf. en fyrirtækið starfaði á sviði húsbygginga. Að sögn kærenda má aðallega rekja fjárhagserfiðleika þeirra til aðgerða Landsbankans (NBI hf.) gegn X ehf. þegar félagið var með fjölbýlishús að E götu í sveitarfélaginu D í byggingu. Landsbankinn hafi séð um fjármögnun verksins samkvæmt samningi milli bankans og X ehf. frá október 2008. Um miðjan maí 2009 hafi bankinn ákveðið að lána ekki meira fé til verksins. Að sögn kærenda var skýring bankans sú að ekki væri unnt að lána meira fé til byggingaframkvæmda. Þetta hafi bankinn gert þrátt fyrir að kærendur hafi verið í skilum og staðið við sinn hluta samningsins, meðal annars veitt bankanum veð í eignum sínum og lagt fram aðrar tryggingar. X ehf. hafi í kjölfarið verið tekið til gjaldþrotaskipta 22. maí 2009. Kærandi B sé öryrki en hún hafi átt við erfið veikindi að stríða. Kærandi A hafi missti heilsuna og verið örorkulífeyrisþegi frá janúar 2011.

Heildarskuldir kærenda eru 44.615.410 krónur samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara. Þar af falla skuldir að fjárhæð 43.986.907 krónur innan samnings, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.). Í töflunni er sundurliðun skulda sem falla innan samnings:

Kröfuhafi Lántöku- Upphafleg Fjárhæð kr.
  ár fjárhæð kr. 2011
Íbúðalánasjóður 2003 9.000.000 17.076.258
Arion banki 2003 2.500.000 5.381.620
Landsbankinn 2005 5.600.000 8.454.421
Landsbankinn 2006 2.300.000 3.315.501
Landsbankinn     2.297.556
Fjárnám vegna X ehf.     5.322.942
Tollstjóri     692.145
Aðrar skuldir     1.446.464
  Samtals: 19.400.000 43.986.907

Samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara standi kærendur einnig í ábyrgðum að fjárhæð 73.438.470 krónur en þar af séu 66.918.896 krónur vegna X ehf.

Þann 23. ágúst 2011 lá umsókn kærenda fyrir fullbúin, sbr. 1. mgr. 7. gr. lge. Var umsókn þeirra synjað með ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 5. september 2011, með vísan til b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur krefjast þess að úrskurði umboðsmanns skuldara verði hnekkt og að þau fái að gangast undir greiðsluaðlögun samkvæmt lögum nr. 101/2010.

Kærendur telja umboðsmann skuldara ekki hafa sinnt rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 5. gr. lge. Einnig hafi umboðsmaður mistúlkað eða farið ranglega með 2. mgr. 6. gr. laganna.

Kærendur skilji ekki hvaða skuldir liggi til grundvallar synjun umboðsmanns skuldara. Kærandi A hafi gengist í ábyrgð fyrir félag sitt X ehf. en að mati kærenda sé ábyrgð ekki skuld. Í lge. komi hvergi fram að ekki megi gangast í ábyrgð, þar sé eingöngu minnst á skuldir. Greina kærendur frá því að sú ábyrgð sem umboðsmaður byggi ákvörðun sína á sé greidd. Kærandi A hafi átt byggingafyrirtækið X ehf. og umrædd ábyrgð hafi verið vegna byggingar á átta íbúða fjölbýlishúsi að E götu nr. 6 í sveitarfélaginu D. Hafi bæði X ehf. og kærandi A verið í skilum 15. maí 2009 þegar Landsbankinn hafi ákveðið að brjóta samkomulag sem gert hafi verið um fjármögnun framkvæmdanna. Þegar þetta hafi átt sér stað hafi fjölbýlishúsið að E götu nr. 6 verið komið lengra en fokheldi og markaðsvirði þess hafi verið meira en 90.000.000 króna.

Benda kærendur á að kærandi A hafi ekki stofnað til skuldanna heldur hafi einkahlutafélagið X gert það. Kærandi A hafi einungis verið ábyrgðarmaður. Ábyrgð sé samningur og skuld verði ekki virk á hendur ábyrgðarmanni nema þriðji aðili standi ekki í skilum. Kærandi A hafi aldrei skuldað umræddar 42.000.000 króna og þar að auki hafi fjárhæðin verið greidd 30. desember 2009. Vísa kærendur í afsal fyrir E götu nr. 6 þessu til stuðnings.

Telja kærendur að umboðsmaður skuldara hafi brotið rannsóknarskyldu 5. gr. lge. Í fyrsta lagi með því að kanna ekki stöðu X ehf. á viðkomandi tímabili. Í öðru lagi með því að nota orðalagið „telja verður“ en í því felist að umboðsmaður sé að geta sér til um eitthvað án þess að hafa rannsakað málið með viðhlítandi hætti.

Kærendur gera athugasemd við eftirfarandi orðalag í greinargerð umboðsmanns skuldara: „Telja verður að þegar kærandi A gekk í ábyrgðir fyrir tvær fyrrgreindar skuldbindingar X ehf. í febrúar 2008, samtals upprunalega að fjárhæð 42 milljónir kr., hafi kærendur stofnað til skulda á þeim tíma sem þeir voru greinilega ófærir um að standa við fjárskuldbindingar sínar.“ Gagnrýna kærendur að tilgreint sé í greinargerð umboðsmanns að „kærendur“ hafi stofnað til skulda. Hér sé umboðsmaður að færa athafnir kæranda A yfir á kæranda B. Þessar fullyrðingar eigi ekki við um kæranda B og því sé ekki hægt að hafna umsókn hennar um greiðsluaðlögun á þessum forsendum.

Mótmæla kærendur þeirri fullyrðingu umboðsmanns að þau hafi ekki verið fær um að standa við gerðar skuldbindingar á sínum tíma. Landsbankinn hafi metið það svo að kærandiA hafi verið ábyrgur og treystandi til að vera í tugmilljóna króna viðskiptum við bankann. Vísa kærendur til samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 2001 þessu til stuðnings.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til umsóknar kærenda um greiðsluaðlögun sem synjað var með ákvörðun umboðsmanns sem tilkynnt var bréflega 5. september 2011 með vísan til b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður bendir á að við mat á umsókn um greiðsluaðlögun beri einkum að líta til þeirra aðstæðna sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. lge. segir að synja beri um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Við mat á því skuli taka sérstakt tillit til þess hvort mál varði einhverjar þær aðstæður sem lýst er í stafliðum ákvæðisins, auðkenndum a til g. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lge. er tekið fram um 2. mgr. 6. gr. að þau atriði er umboðsmaður skuldara skuli sérstaklega líta til við mat á því hvort óhæfilegt þyki að veita heimild til greiðsluaðlögunar miði að hluta til við þágildandi 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009. Er þar og byggt á þeirri meginreglu að skuldari skuli ekki eiga kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verður að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni.

Í b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. segir að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárskuldbindingar sínar.

Á árinu 2003 hafi kærendur stofnað til skulda hjá Íbúðalánasjóði að fjárhæð 9.000.000 króna og hjá Arion banka að fjárhæð 2.500.000 króna í tengslum við byggingu á núverandi íbúðarhúsnæði. Á þeim tíma hafi A verið með eigin rekstur byggingafyrirtækisins X ehf. Í september 2006 hafi A keypt fasteign að F götu nr. 5 í sveitarfélaginu D af X ehf. Til að fjármagna kaupin hafi hann tekið lán hjá Landsbankanum (NBI hf.) en lánin hafi verið tryggð með veði í fasteigninni. Upphafleg fjárhæð þessara lána hafi verið 7.900.000 krónur.

Að mati umboðsmanns skuldara nemi ábyrgðarskuldbindingar kærenda 73.438.470 krónum, þar af 66.918.896 krónum vegna X ehf. Á fasteign kærenda hvíli skuldir vegna X ehf. að fjárhæð 5.322.942 krónur. Kröfur vegna atvinnurekstrar eru sagðar um 12% af heildarskuldum kærenda.

Samkvæmt skattframtölum kærenda fyrir tekjuárin 2007 til 2009 hafi eignir og skuldir kærenda verið eftirfarandi:

Eign 2007 2008 2009
C-gata nr 31* 27.955.000 kr. 27.955.000 kr. 33.550.000 kr.
F gata nr. 5** 13.810.000 kr. 13.810.000 kr. 12.250.000 kr.
G gata nr. 25*** 2.637.000 kr. 2.895.000 kr. 3.590.000 kr.
Bifreiðar/tjaldvagn 1.255.220 kr. 545.500 kr. 573.450 kr.
Innstæður   1.585.777 kr. 3.166.878 kr.
Verðbréf 501.001 kr. 1.298.386 kr. 1.453.364 kr.
Eignir alls: 46.158.221 kr. 48.089.663 kr. 54.583.692 kr.
Skuldir 23.714.147 kr. 16.472.355 kr. 32.893.264 kr.
Nettó eignastaða 22.444.074 kr. 31.617.308 kr. 21.690.428 kr.

*Áhvílandi um 22,5 m.kr. að höfuðstól.

** Veðsett Landsbanka fyrir 7,9 m.kr. veðskuldabréfum og 42 m.kr. tryggingabréfum, alls 49,9 m.kr.

*** Áhvílandi fjárnám frá 2008‒2009 að fjárhæð um 3 m.kr.

Á skattframtali vegna tekjuársins 2008 hafi ekki verið taldar fram skuldir við Landsbankann (NBI hf.) sem hafi verið taldar fram á skattframtali vegna tekjuársins 2007 samtals að fjárhæð 8.658.850 krónur og á skattframtali vegna tekjuársins 2009 samtals að fjárhæð 10.776.298 krónur.

Bendir umboðsmaður á að samkvæmt gögnum málsins hafi kærandinn A gengist í ábyrgðir fyrir X ehf. árið 2008 á þeim tíma sem greiðslugeta kærenda hafi verið neikvæð um 64.100 krónur á mánuði. Um hafi verið að ræða tvö tryggingabréf Landsbankans frá 21. febrúar 2008 og 25. febrúar 2008, samtals að fjárhæð 42.000.000 króna. Telur umboðsmaður að þegar litið sé til fjárhagslegrar stöðu kærenda á þeim tíma sem kærandinn A tók á sig þessar ábyrgðarskuldbindingar og miðað við framtaldar tekjur kærenda á skattframtali 2009, hafi þau verið ófær um að standa við fjárskuldbindingar sínar. Með vísan til ofangreinds hafi umboðsmanni þótt óhæfilegt að veita kærendum heimild til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Vegna hinnar neikvæðu greiðslugetu kærenda hafi ekki verið talin ástæða til að kanna stöðu X ehf. á umræddu tímabili.

Hvað varðar þá gagnrýni kærenda á hendur embættinu, að tilgreint sé í greinargerð umboðsmanns skuldara að kærendur hafi stofnað til skulda þegar aðeins kærandinn A hafði stofnað til skuldanna, tekur umboðsmaður fram að þegar tveir aðilar sæki saman um greiðsluaðlögun verði eðli máls samkvæmt að afgreiða mál þeirra með ákvörðun á umsókninni í heild. Skuldbinding annars aðilans geti leitt til þess að umsókn beggja verði synjað. Umboðsmaður hafi nú sérstaklega kannað hvort hagkvæmara hefði verið fyrir kærendur að sækja um sitt í hvoru lagi, en komist að þeirri niðurstöðu að svo hefði ekki verið.

Kærendur haldi því einnig fram að þær ábyrgðarskuldbindingar sem synjun umboðsmanns byggist á, hafi verið greiddar 30. desember 2009 og hvíli því ekki lengur á kærandanum A. Hafi þau lagt fram afsal fyrir E götu nr. 6 til stuðnings þeirri fullyrðingu. Samkvæmt greindu afsali séu nefndar kröfur Landsbankans, samtals að fjárhæð 42.000.000 króna, þar sem kærandinn A er ábyrgðarmaður, enn tryggðar með veði í E götu nr. 6. Bendir umboðsmaður á að þótt fasteignin að E götu nr. 6 hafi verið seld 30. desember 2009 og framangreindar kröfur hafi þá hvílt á eigninni, breyti það engu um stöðu kæranda A sem ábyrgðarmanns á þeim.

Fer umboðsmaður fram á að hin kærða ákvörðun, sem tekin var á grundvelli b-liðar 2. mgr. 6. gr. laga nr. 101/2010, verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Kærendur krefjast þess að úrskurði umboðsmanns skuldara verði hnekkt og að þau fái að gangast undir greiðsluaðlögun samkvæmt lögum nr. 101/2010.

Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Ef umboðsmaður skuldara synjar skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar, eins og gert var í máli kæranda, getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 4. mgr. 7. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga. Samkvæmt þeim lögum er gert ráð fyrir að samþykki umboðsmanns skuldara fylgi ákveðin réttaráhrif, sbr. 8. gr. laganna, þar sem segir að með samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun hefjist tímabil greiðsluaðlögunarumleitana, og 1. mgr. 11. gr., en þar segir að þegar umboðsmaður skuldara hafi samþykkt umsókn hefjist tímabundin frestun greiðslna. Samkvæmt því gegnir umboðsmaður skuldara því hlutverki að veita heimild til greiðsluaðlögunar. Við úrlausn málsins fyrir kærunefndinni getur þar af leiðandi aðeins komið til þess að kærunefndin felli synjun umboðsmanns skuldara á umsókn kærenda úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 2. mgr. 6. gr. lge., með sérstakri vísun til b-liðar, en þar er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi verið stofnað til skulda á þeim tíma er skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar.

Í máli þessu hafnar umboðsmaður skuldara kærendum um heimild til að leita greiðsluaðlögunar á þeim grundvelli að kærandi A hafi gengist í ábyrgðir fyrir X ehf. fyrir samtals 42.000.000 króna. Við skoðun kærunefndarinnar á fyrirliggjandi gögnum hefur komið í ljós að málsatvik voru ekki með þeim hætti er umboðsmaður skuldara lýsir varðandi hina meintu ábyrgð. Þannig háttaði til að í febrúar 2008 gaf X ehf. út tvö tryggingabréf til Landsbankans samtals að fjárhæð 42.000.000 króna. Voru bréfin tryggð með veði í átta eignarhlutum að E götu nr 6, sveitarfélaginu D, einbýlishúsinu að F götu nr. 5, sveitarfélaginu D, og einbýlishúsinu að F götu nr. 7, sveitarfélaginu D. Eigandi fasteignarinnar að F götu nr. 5 var kærandinn A og voru tryggingabréfin tryggð með 3. og 4. veðrétti í þeirri fasteign. Samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu gekkst kærandi A aldrei í sjálfskuldarábyrgð fyrir nefndri fjárhæð.

X ehf. var úrskurðaður gjaldþrota 22. maí 2009. Meðal eigna búsins voru ofangreindir eignarhlutar fasteignarinnar að E götu nr. 6 á sveitarfélaginu D. Með kaupsamningi og afsali sem dagsett var í nóvember 2009 seldi þrotabúið þessar fasteignir. Í kaupsamningnum kom fram að Landsbankinn (NBI hf.) myndi leysa eignirnar úr veðböndum að tilteknum skilyrðum fullnægðum. Ekki er að finna í gögnum málsins upplýsingar um hvort það gekk eftir né heldur liggur fyrir hvort fasteignin að F-gata 5 var samhliða leyst úr veðböndum.

Af gögnum málsins má einnig ráða að á árinu 2006 hafi fasteign kærenda að C götu nr. 31 verið veðsett með 10.000.000 króna tryggingabréfi vegna skulda X ehf. við Landsbankann (NBI hf.). Ekkert liggur fyrir um það hvort eða að hvaða marki sú trygging hafi verið eða verði nýtt.

Af því sem hér hefur verið rakið má sjá að ákvörðun umboðsmanns skuldara var ekki tekin á réttum forsendum. Að mati kærunefndarinnar skortir einnig nokkuð upp á að umboðsmaður skuldara hafi sinnt rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 5. gr. lge. að því er varðar eigna- og skuldastöðu kærenda.

Með vísan til alls þess sem að ofan greinir verður ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kærendum um heimild til að leita greiðsluaðlögunar á grundvelli b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. felld úr gildi.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er felld úr gildi.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta