Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Nr. 116/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

 

 

Mál nr. 116/2018

Þriðjudaginn 24. apríl 2018

 

 

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Þann 21. mars 2018 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð er ákvörðun umboðsmanns skuldara frá 23. febrúar 2018 þar sem kæranda var synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

 

I. Málsatvik og málsmeðferð

Málsatvik eru þau að með ákvörðun 23. febrúar 2018 synjaði umboðsmaður skuldara umsókn kæranda um greiðsluaðlögun. Að mati embættisins var fjárhagur kæranda óglöggur í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. þar sem umtalsvert meiri fjármunir voru lagðir inn á bankareikning kæranda en hann gaf upp sem tekjur árin 2016 og 2017. Nam mismunurinn X krónum og taldi umboðsmaður að kærandi hefði ekki gefið viðhlítandi skýringar á þessu. Þá hefði hann ekki viljað gefa upp inn á hvaða bankareikning hann hefði fengið greiðslur frá Tryggingastofnun að fjárhæð X krónur á sama tímabili. Í hinum kærða úrskurði er vísað til þess að af þessum ástæðum hafi embættið talið óhæfilegt að veita kæranda heimild til að leita greiðsluaðlögunar.

Þann 21. mars 2018 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra vegna málsins. Kærandi gerði ekki kröfur í málinu en skilja varð kæru hans á þann hátt að hann krefðist þess að fyrrnefnd ákvörðun umboðsmanns skuldara yrði felld úr gildi. Einnig lagði kærandi fram yfirlit bankareikninga ásamt skýringum.Að sögn kæranda hafi tilteknar upplýsingar ekki legið fyrir þegar umboðsmaður skuldara synjaði umsókn hans um greiðsluaðlögun en þær séu nú lagðar fram. Þetta séu meðal annars upplýsingar um heimilishagi kæranda. Hann sé heimilislaus, gisti hjá vinum og vandamönnum en sé að bíða eftir félagslegu húsnæði. Kærandi greinir einnig frá því að greiðslur frá Tryggingastofnun séu og hafi alltaf verið lagðar inn á bankareikning nr. X en þetta sé eini bankareikningur kæranda. Loks kveðst kærandi hafa verið flæktur í [...] árið 2016 og fram á árið 2017. Fjármunir hafi verið lagðir inn á bankareikning hans sem hann hafi tekið út og afhent einstaklingum „[...]“. Kærandi leggi nú fram gögn sem skýri þetta.Samkvæmt gögnum málsins sendi umboðsmaður skuldara ákvörðun sína frá 23. febrúar 2018 með tölvupósti og ábyrgðarpósti á lögheimili kæranda þann sama dag. Í bréfi umboðsmanns skuldara, sem fylgdi ákvörðun embættisins, kom fram að kærufrestur væri tvær vikur frá móttöku ákvörðunar. Þetta var einnig sérstaklega tekið fram í tölvupóstinum. Með bréfi 26. mars 2018 óskaði úrskurðarnefndin skýringa á því hvers vegna kæra hefði ekki borist fyrr en að liðnum kærufresti. Engin svör bárust frá kæranda.

II. Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge., sbr. 7. gr. laga nr. 135/2010 og 13. gr. laga nr. 85/2015, skal stjórnsýslukæra vegna ákvörðunar umboðsmanns skuldara um synjun á umsókn um greiðsluaðlögun berast úrskurðarnefnd velferðarmála innan tveggja vikna frá því að tilkynning um ákvörðun barst skuldara. Þegar kæra berst að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 (ssl.) nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul. lagaákvæðisins, eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 2. tölul. þess.

Í 2. málsl. 1. mgr. 20. gr. ssl. kemur fram að ákvörðun sé bindandi eftir að hún er komin til aðila máls. Það er þó ekki gert að skilyrði í þessu sambandi að ákvörðun sé komin til vitundar hans en þetta kemur fram í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til ssl. Í samræmi við þetta verður að telja að ákvörðun umboðsmanns skuldara hafi borist kæranda í skilningi ssl. 23. febrúar 2018 er hann fékk tölvupóst frá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt því byrjaði kærufrestur að líða þann dag en honum lauk 9. mars 2018. Svo sem komið er fram barst úrskurðarnefndinni kæran 21. mars 2018 eða 12 dögum of seint.

Engar haldbærar skýringar hafa komið fram af hálfu kæranda á því hvers vegna kæran barst úrskurðarnefndinni að liðnum kærufresti og ekkert í gögnum málsins gefur til kynna að afsakanlegt verði talið að hún hafi ekki borist fyrr. Önnur atvik málsins þykja ekki leiða til þess að veigamiklar ástæður mæli með því að málið verði tekið til meðferðar á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Af þessum sökum er máli þessu vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Kæru A á ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja honum um heimild til að leita greiðsluaðlögunar, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta