Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 190/2012

Fimmtudaginn 20. nóvember 2014

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 11. október 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 20. september 2012 þar sem umsókn kærenda um greiðsluaðlögun var hafnað.

Með bréfi 11. október 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 27. nóvember 2012. Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 27. nóvember 2012 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust frá kærendum með tölvupósti 18. desember 2012. Voru þær sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 7. janúar 2013 og óskað eftir afstöðu embættisins. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1976 og 1983. Þau eru í sambúð og búa ásamt þremur börnum sínum í húsnæði kæranda A að C götu nr. 11e í sveitarfélaginu K. Húsnæðið er 134,3 fermetra íbúð ásamt 26,9 fermetra bílskúr. Tvö börn kæranda A af fyrra sambandi dvelja reglulega á heimilinu.

Kærandi A á einnig 129 fermetra fasteign að D götu nr. 15 í sveitarfélaginu K, sem hann leigir út, eitt hesthús og helmingshluta í tveimur hesthúsum að E, sveitarf.

Kærandi B er tækniteiknari. Hún missti starf sitt í árslok 2010 en er í námi og starfar í hlutastarfi hjá X ehf. Útborguð laun hennar eru að jafnaði 80.640 krónur á mánuði. Kærandi A er framkvæmdastjóri hjá Y ehf. og einnig varamaður í stjórn félagsins. Launatekjur hans eru að meðaltali 314.413 krónur á mánuði. Einnig hefur hann leigutekjur af fasteign sinni við D götu nr. 15 og nema þær 108.933 krónum á mánuði eftir frádrátt skatts. Samkvæmt greinargerð kærenda hefur kærandi A einnig leigutekjur af hesthúsum sínum. Þær nema 25.000 krónum á mánuði en þar sem ekki er gerð grein fyrir þeim á skattframtali eru þær ekki teknar með í greiðsluáætlun. Að teknu tilliti til sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu, barna- og vaxtabóta nema tekjur kærenda til framfærslu 557.050 krónum á mánuði.

Að mati kærenda stafa fjárhagserfiðleikar þeirra af hækkun gengistryggðra lána og sölutregðu eigna. Rekja þau erfiðleikana til áranna 2008 og 2009 en þau hafi stofnað til yfirdráttarskulda til að standa í skilum með veðlán. Þau hafi nýtt sér þau greiðsluerfiðleikaúrræði sem í boði voru í von um að vandinn væri tímabundinn. Þegar úrræðin hafi verið fullnýtt og frekari samningar um lánin hafi reynst árangurslausir hafi þau séð að þau gætu ekki staðið lengur í skilum.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt gögnum málsins eru 140.801.864 krónur. Þar af falla 135.761.572 krónur innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2006 til 2008.

Kærandi A er ábyrgðarmaður á þremur lánum I alls að fjárhæð 12.562.459 krónur.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 28. júní 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 20. september 2012 var umsókn þeirra hafnað þar sem óhæfilegt þótti að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur krefjast þess að mál þeirra verði betur yfirfarið og leiðrétt að því leyti sem þau geri athugasemdir. Skilja verður kröfuna svo að kærendur fari fram á að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja þeim um heimild til greiðsluaðlögunar verði felld úr gildi.

Kærendur telja að í ákvörðun umboðsmanns skuldara séu skekkjur sem gefi ranga mynd af stöðu þeirra og umsvifum. Vandi þeirra stafi af hækkunum erlendra lána sem tekin hafi verið vegna fasteignanna C götu nr. 11e og D götu nr. 15, hesthúss og helmingshluta í tveimur hesthúsum að E. Bankar hafi ráðlagt þeim að taka þessi lán.

Kærendur segja að vanskil hafi fyrst orðið á meðlagsgreiðslum kæranda A í byrjun árs 2009 og vanskil hafi staðið fram á mitt ár 2010. Þessar skuldir séu nú greiddar. Þá telja kærendur að engar ábyrgðarskuldbindingar séu á hendur þeim gagnstætt því sem umboðsmaður skuldara haldi fram.

Kærendur gera margvíslegar athugasemdir við framsetningu umboðsmanns skuldara á fjárhag þeirra, svo sem á framfærslukostnaði, bifreiðaeign og fjárhæð skulda. Þau greini frá því að kærandi A greiði nú einfalt meðlag en umboðsmaður skuldara hafi gert ráð fyrir tvöföldu meðlagi í útreikningum sínum á greiðslugetu þeirra. Einnig telji þau skuldir sínar lægri en umboðsmaður geri ráð fyrir. Meðal annars eigi þau aðeins 50% tveggja hesthúsa að E nr. 4 og 16 og því skuldi meðeigandi 50% áhvílandi veðskulda og kærendur aðeins 50%.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana.

Í b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. segi að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Í skattframtali ársins 2007 vegna tekna ársins 2006 og öðrum gögnum málsins kemur eftirfarandi fram um fjárhag kærenda í krónum:

Tekjuár 2006
Framfærslutekjur* alls á mánuði 482.530
Framfærslukostnaður á mánuði** 191.185
Greiðslugeta á mánuði 291.345
Áætlaðar afborganir veðlána 268.737
Til ráðstöfunar eftir afborganir veðlána 22.608

*Meðaltekjur á mánuði, þar með talin námslán, fjármagnstekjur, vaxta- og barnabætur.

**Framfærslukostnaður hjóna með tvö börn samkvæmt neysluviðmiðum umboðsmanns skuldara. Ekki meðtalinn kostnaður vegna hita, rafmagns, fasteignagjalda, dagvistunar o.fl.

Þegar kærendur höfðu framfleytt sér og greitt af veðlánum hafi þau haft 22.608 krónur til að greiða af öðrum skuldbindingum. Á árinu 2006 hafi kærandi A keypt fasteignina að C götu nr. 11e, lóðir að F götu nr. 2, J götu nr. 17 og J götu nr. 19 og hesthús að E nr. 4. Þá hafi hann selt fasteign að G götu nr. 33. Einnig hafi kærandi B selt 13,3% eignarhlut sinn í fasteigninni að H götu nr. 9a. Samtals hafi kærendur selt þessar eignir fyrir 57.353.000 króna en keypt eignir fyrir 51.881.720 krónur. Hafi eignastaða þeirra í lok árs 2006 verið jákvæð um 11.450.428 krónur.

Af skattframtali ársins 2008 vegna tekna ársins 2007 og öðrum gögnum málsins verður eftirfarandi ráðið um fjárhag kærenda í krónum:

  2007
Framfærslutekjur* alls á mánuði 540.620
Framfærslukostnaður á mánuði** 202.389
Greiðslugeta á mánuði 338.231
Áætlaðar afborganir lána 435.000
Til ráðstöfunar eftir afborganir veðlána -96.769

*Meðaltekjur á mánuði, þar með talin námslán, fjármagnstekjur, vaxta- og barnabætur.

**Framfærslukostnaður hjóna með tvö börn samkvæmt neysluviðmiðum umboðsmanns skuldara. Ekki meðtalinn kostnaður vegna hita, rafmagns, fasteignagjalda, dagvistunar o.fl.

Í árslok 2007 hafi kærendur verið skráð fyrir þrettán fasteignum og níu bifreiðum og bifhjólum. Þar af hafi kærandi A keypt átta eignir árið 2007. Samanlagt kaupverð eignanna hafi verið 56.693.556 krónur og hafi þær allar verið í eigu kærenda í árslok 2007. Þá hafi kærendur skuldsett sig umfram greiðslugetu á árinu 2007 en þau hafi vantað 96.769 krónur til að geta framfleytt fjölskyldunni og staðið undir skuldbindingum sínum. Eignastaða kærenda hafi verið neikvæð um 6.640.814 krónur í árslok 2007.

Að því er varði ákvæði c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. hafi kærendur stofnað til umtalsverðra skuldbindinga á liðnum árum í tengslum við kaup á íbúðarhúsum, lóðum og hesthúsum. Fasteignakaup geti í sjálfu sér alltaf falið í sér áhættu en áhættan aukist til muna þegar um skuldsett kaup sé að ræða. Hér sé einnig litið til þess að tilgangurinn með fasteignakaupum kærenda hafi ekki einvörðungu verið að tryggja þeim heimili heldur hafi þau keypt og selt lóðir og hesthús sem ekki hafi verið ætlaðar til eigin nota. Að mati umboðsmanns hafi kærendur tekið fjárhagslega áhættu með því að skuldsetja sig fyrir eignakaupum sem ekki hafi verið fyrirséð að þau gætu staðið undir. Þó að kærendur hafi ekki haft í hyggju að eiga eignirnar til frambúðar hafi þau þurft að geta staðið undir þeim þar til þær voru seldar.

Kærendum hafi verið sent bréf 19. júlí 2012 þar sem óskað hafi verið eftir skýringum þeirra varðandi það hvernig þau haft haft í hyggju að standa undir afborgunum veðlána og þeim gefið tækifæri til að sýna fram á að ekki hafi verið um fjárhagslega áhættu að ræða. Einnig hafi kærendum verið boðið að leggja fram gögn máli sínu til stuðnings. Í svari kærenda komi fram að þau hafi staðið í skilum með skuldbindingar sínar allt fram í ársbyrjun 2010. Þau bendi á að það hafi þeim meðal annars tekist með því að stofna til skammtímaskulda til að greiða af lánum. Kærandi B hafi fengið greiddan arf árið 2006, þau hafi selt eign að G götu nr. 33 og þannig losað um peninga, kærandi B hafi fengið námslán og þau hafi fengið leigutekjur. Tillit þurfi að taka til þessara þátta. Einnig bendi kærendur á að þrjár lóðanna hafi verið keyptar gegn yfirtöku áhvílandi lána og fjármögnunarbankinn hafi leyst þær til sín án eftirmála. Ein lóða þeirra hafi síðan gengið upp í kaupin á D götu nr. 15. Varðandi hesthúsin hafi þau metið stöðuna svo að markaður væri fyrir þau og því hafi þau ekki talið kaup þeirra áhættusöm.

Í mati sínu hafi umboðsmaður tekið tillit til námslána og fjármagnstekna. Ekki verði séð hvernig taka beri tillit til greiðslu arfs eða söluhagnaðar þar sem engin gögn séu fyrirliggjandi sem sýni að þeim fjármunum hafi verið varið til framfærslu eða afborgana lána. Af framtölum verði ekki séð að kærendur hafi átt innstæður í banka í lok árs 2006 eða 2007 og hvergi komi fram hversu mikill söluhagnaður hafi verið af G götu eða hvernig honum hafi verið varið. Á hinn bóginn sýni gögn málsins að kærandi A hafi stundað mikil eignakaup á þessum tíma og því megi allt eins gera ráð fyrir að umræddir peningar hafi staðið undir þeim að einhverju leyti. Þá gefi staða yfirdráttarreikninga kærenda samkvæmt skattframtölum ekki til kynna að um stigvaxandi skuld hafi verið að ræða. Kærendur hafi ekki stutt andmæli sín gögnum.

Ekki verði dregið í efa að efnahagsástand síðustu ára, einkum gengisáhrif, hafi haft mjög slæm áhrif á fjárhag kærenda. Verði þó ekki hjá því komist að líta til þess að vanda kærenda megi að mati umboðsmanns skuldara einnig rekja til þess að þau hafi skuldsett sig umfram greiðslugetu og tekið áhættu með kaupum á fjölda eigna sem ekki hafi verið ætlaðar til eigin nota. Skuldir kærenda af þessum sökum séu umtalsverðar og því verði ekki talið viðeigandi að kærendur eigi kost á greiðsluaðlögun.

Kærendur bendi á að meðlagsskuld kæranda A sé greidd. Breyti þetta ekki niðurstöðu umboðsmanns en samkvæmt yfirliti kærenda hafi skuldin verið greidd í ágúst 2012. Þá hafi kærendur verið í svokölluðu greiðsluskjóli og hafi verið óheimilt að mismuna kröfuhöfum með því að greiða þessa skuld, sbr. 2. mgr. 12. gr. lge.

Kærendur geri athugasemdir við þann framfærslukostnað sem miðað hafi verið við í máli þeirra. Jafnvel þótt núverandi framfærslukostnaður fjölskyldunnar sé lægri en framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara geri ráð fyrir að því leyti að kærandi A greiði einugis einfalt meðlag og kærendur reki ekki bíl, þá hafi þessi kostnaður ekki haft vægi við ákvarðanatöku. Tilgangur greiðsluáætlunar með upplýsingum um tekjur kærenda, almenn útgjöld og kostnaðarliði sé að varpa ljósi á núverandi fjárhagsstöðu fjölskyldunnar í samræmi við 6. tölul. 4. gr. lge. sem síðan hafi þann tilgang að sýna fram á mánaðarlega greiðslugetu komi til samningsumleitana um greiðsluaðlögun. Kærandi A hafi hætt að greiða meðlag með öðru barni sínu þremur mánuðum fyrir ákvarðanatöku í málinu og því hafi þetta atriði ekki haft áhrif við töku ákvörðunar í máli kærenda.

Í greiðsluáætlun hafi verið gert ráð fyrir rekstri bifreiðar eða kostnaði við almenningssamgöngur. Einu gildi með hvoru móti kærendur hafi komist á milli staða enda sé miðað við lágmarkskostnað.

Kærendur nefni bifreiðar sínar í kæru. Umboðsmaður meti bifreiðar eins og aðrar eignir. Miðað sé við upplýsingar í skattframtölum, upplýsingar frá Creditinfo og Bílgreinasambandinu. Í hinni kærðu ákvörðun komi fram að kærendur hafi verið skráð fyrir níu bifreiðum í lok árs 2007. Fjöldi bifreiðanna einn og sér hafi ekki haft úrslitaáhrif við töku ákvörðunar heldur fyrst og fremst verðmat bifreiðanna á móti heildarskuldum vegna þeirra. Kærendur verði sjálfir að bera ábyrgð á því ef eignaskráning í skattframtölum sé ekki rétt.

Upplýsingar um ábyrgðarskuldbindingar kærenda séu byggðar á staðfestingum frá viðkomandi fjármálastofnunum. Íslandsbanki hf. telji ábyrgðir kæranda A enn í gildi. Einnig hafi kærendur tilgreint ábyrgðirnar í umsókn og greinargerð.

Með hliðsjón af þessu og með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. er það mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt sé að veita kærendum heimild til greiðsluaðlögunar.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um synjun byggist á b- og c-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt b-lið er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Málatilbúnað kærenda verður að skilja svo að þau mótmæli því að hafa tekið fjárhagslega áhættu þar sem þau hafi ætlað að eiga tvær íbúðir, hesthús og hlut í öðru. Aðrar eignir hafi þau ekki ætlað að eiga.

Af skattframtölum og öðrum gögnum málsins má sjá að fjárhagsstaða kærenda var eftirfarandi árin 2006 til 2009 í krónum:

  2006 2007 2008 2009
Meðaltekjur* á mánuði (nettó) 374.434 426.517 603.885 711.442
Eignir alls 47.429.606 90.205.925 89.334.296 81.639.159
· Fasteignir 44.054.441 84.399.250 83.894.000 80.850.000
· Bifreiðir 1.641.250 3.592.805 3.268.524 26.571
· Önnur ökutæki 1.731.912 2.211.912 2.110.000 750.000
· Hlutir í félögum 1.958 1.958 61.574 1.958
· Bankainnstæður 45
198 10.630
Skuldir 35.979.133 96.846.739 200.651.171 209.654.776
Nettó eignastaða 11.450.473 -6.640.814 -111.316.875 -128.015.617

* Þar með taldar leigutekjur.

Samkvæmt gögnum málsins eru skuldir kærenda eftirtaldar í krónum:

Kröfuhafi Ár Tegund Upphafleg Staða Vanskil
      fjárhæð 2012 frá
Arion banki 2007 Erlent veðlán 28.000.000 40.266.479 2011
Frjálsi fjárfestingarbankinn 2007 Erlent veðlán 8.100.000 12.441.648 2011
Frjálsi fjárfestingarbankinn 2007 Erlent veðlán 10.500.000 15.897.800 2011
Frjálsi fjárfestingarbankinn 2007 Erlent veðlán 21.420.000 32.016.948 2011
Íslandsbanki 2007 Erlent veðlán 4.000.000 12.115.336 2009
Frjálsi fjárfestingarbankinn 2008 Erlent veðlán 7.440.000 10.689.575 2011
Innheimtustofnun sveitarfélaga* 2008 Meðlag 652.577 844.866 2008
Ýmsir 2009 Reikningar 3.457.988 4.710.448 2009
Íslandsbanki 2010 Yfirdráttur   2.050.669 2010
Arion banki 2010 Yfirdráttur 5.506.169 7.418.906 2010
Tollstjóri 2011 Opinber gjöld 30.871 31.334 2011
LÍN 2006 Námslán   2.317.855  
    Alls 89.107.605 140.801.864  

 *Kærendur kveðast hafa greitt þessa skuld en hafa ekki lagt fram gögn því til staðfestingar.

Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef augljóst má vera að óhæfilegt sé að veita hana. Í 2. mgr. 6. gr. eru taldar upp ástæður sem eiga það sameiginlegt að ekki getur verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verður að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi að lge. Í framhaldinu eru í sjö stafliðum rakin atriði sem umboðsmaður skuldara skal sérstaklega líta til við mat á slíku. Meðal þeirra atriða eru b- og c-liðir 2. mgr. 6. gr. lge. sem þegar hefur verið gerð grein fyrir en umboðsmaður skuldara synjaði kærendum um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli þessara ákvæða. Við mat á því hvort beita skuli 2. mgr. 6. gr. lge. ber að líta til samspils tekna, eigna og skulda á því tímabili sem til skoðunar er.

Á árinu 2007 tóku kærendur erlend lán samtals að fjárhæð 72.020.000 krónur. Í lok ársins 2007 voru skuldir þeirra 96.846.739 krónur. Eignir þeirra námu 90.205.925 krónum og var eignastaða þeirra því neikvæð um rúmar 6.600.000 krónur samkvæmt skattframtali. Á árinu 2008 tóku kærendur lán að fjárhæð 25.748.405 krónur en í lok ársins námu heildarskuldir þeirra 200.651.171 krónu. Eignastaða þeirra var þá neikvæð um 111.316.875 krónur og greiðslugetan var neikvæð um tæplega 97.000 krónur á mánuði. Á árinu 2009 tóku kærendur enn ný lán og að þessu sinni fyrir 17.522.949 krónur. Skuldir þeirra í árslok 2009 voru alls 209.654.776 krónur. Eignastaðan var þá neikvæð um 128.015.617 krónur. Telur kærunefndin því að á árunum 2007, 2008 og 2009 hafi kærendur tekist á hendur skuldbindingar sem augljóslega voru umfram það sem greiðslugeta þeirra og eignastaða gaf tilefni til. Með vísan til þessa telur kærunefndin því að kærendur hafi stofnað til skuldbindinga á þeim tíma er þau voru greinilega ófær um að standa við þær í skilningi b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Við mat á því hvort beita skuli c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. ber að líta til samspils tekna og skuldasöfnunar á viðkomandi tímabili. Þegar hefur verið gerð grein fyrir tekjum og eignastöðu kærenda þegar þau stofnuðu til skuldbindinga árin 2007 til 2009. Stærstur hluti skulda kærenda er vegna fasteignaviðskipta þeirra. Af gögnum málsins þykir kærunefndinni ljóst að kærendur hafi fyrst og fremst ætlað að greiða skuldir sínar með sölu á þeim eignum sem þau keyptu sem þau gátu þó alls ekki treyst á að auðvelt væri að selja. Launatekjur þeirra hefðu ekki að öllu leyti staðið undir greiðslum þessara skulda á þeim tíma sem hér skiptir máli. Þegar þetta er virt telur kærunefndin að með skuldasöfnun sinni hafi kærendur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu þeirra á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað í skilningi c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Þá verður einnig að líta til þess að umtalsverður hluti skulda kærenda er vegna fjárfestinga þeirra en að mati kærunefndarinnar skiptir hér einnig máli að skuldirnar stafa ekki af heimilisrekstri, öflun húsnæðis til búsetu eða öðrum nauðsynlegum þáttum.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að A og B Reynisdóttur hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta