Mál nr. 207/2012
Fimmtudaginn 20. nóvember 2014
A og B
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.
Þann 5. nóvember 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara þar sem umsókn kærenda um greiðsluaðlögun var synjað með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).
Með bréfi 16. apríl 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 30. apríl 2013.
Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 8. maí 2013 og var þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.
I. Málsatvik
Kærendur eru fædd 1943 og 1946. Þau eru gift og búa í eigin fasteign að C götu nr. 6 í sveitarfélaginu D. Kærendur eiga einnig fasteign að E götu nr. 12 í sveitarfélaginu F.
Kærendur rekja fjárhagserfiðleika sína til atvinnurekstrar. Árið 2006 hafi þau keypt hluta í X ehf. og áttu þau minnihluta í félaginu eftir kaupin. Kærandi B lagði félaginu til bát og fjármagn til útgerðar félagsins í R landi. Félagið varð gjaldþrota og tapaðist þá allt sem kærendur höfðu lagt til félagsins. Kærandi A var í ábyrgðum fyrir félagið, bæði vegna erlends láns og vegna íslenskra skuldbindinga. Þá ráku kærendur einnig fyrirtækin Y ehf., Z ehf. og Þ ehf. og höfðu þau einnig gengist í sjálfskuldaábyrgðir vegna þeirra. Gekk rekstur félaganna erfiðlega meðal annars vegna erfiðleika við að fá lánafyrirgreiðslu og einnig vegna kvótaleysis. Kærendur seldu eignir sínar til þess að greiða upp ábyrgðir en fyrirtækin Y ehf. og Þ ehf. hafa verið úrskurðuð gjaldþrota. Tekjur kæranda B hafi minnkað og leiddi efnahagshrunið haustið 2008 rekstur fyrirtækja þeirra endanlega í þrot.
Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 30. júní 2011. Með bréfi umboðsmanns skuldara 28. febrúar 2012 var óskað eftir skýringum kærenda á vanskilum opinberra gjalda og vangoldins virðisaukaskatts að fjárhæð 26.800.790 krónur vegna félaganna Y ehf., Z ehf. og Þ ehf. Í bréfinu var tekið fram að á grundvelli d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu. Var kærendum veittur 15 daga frestur til að svara bréfi umboðsmanns skuldara. Með tölvupósti 23. mars 2012 óskaði umboðsmaður skuldara frekari upplýsinga frá kærendum til að hægt væri að ljúka vinnslu umsóknar þeirra. Í fyrsta lagi óskaði embættið eftir upplýsingum um ráðstöfun söluhagnaðar að fjárhæð 220.003.082 krónur eftir frádrátt skatts samkvæmt framtali 2007 vegna tekjuársins 2006. Í öðru lagi óskaði embættið eftir upplýsingum um ábyrgðarskuldbindingar og í þriðja lagi upplýsingum um tekjur kæranda B.
Svar kærenda barst umboðsmanni skuldara með tölvupósti 10. maí 2012. Fram kemur í svari þeirra að söluhagnaði að fjárhæð 221.700.000 krónur hafi verið ráðstafað með eftirfarandi hætti:
Móttakandi fjármuna | Skýring kærenda | Fjárhæð í krónum |
Þ ehf. | Sett í félag | 60.000.000 |
Y ehf. | Sett í félag | 14.000.000 |
Z ehf. | Sett í félag | 18.000.000 |
V í S landi | Sett í félag | 19.700.000 |
X ehf. | Keypt hlutfé og lán til félags | 110.000.000 |
Samtals | 221.700.000 |
Einnig komu fram í svari kærenda upplýsingar um ábyrgðarskuldbindingar og tekjur kæranda B.
Með bréfi umboðsmanns skuldara 15. júní 2012 til kærenda er greint frá því að samkvæmt upplýsingum frá embætti Tollstjóra hafi skattaskuldir félaganna Y ehf., Þ ehf. og Z ehf. að hluta til byggst á áætlun ríkisskattstjóra. Hluti áætlana hafi nú verið leiðréttur. Í bréfi umboðsmanns skuldara kemur fram að samkvæmt skýringum kærenda hafi söluhagnaði að fjárhæð 220.003.082 krónur verið ráðstafað til fyrirtækja í þeirra eigu og einnig hafi hlutafé í öðru félagi verið keypt. Veitti umboðsmaður skuldara kærendum 15 daga frest til að leggja fram gögn vegna ráðstöfunar söluhagnaðar.
Með bréfi 18. október 2012 synjaði umboðsmaður skuldara umsókn kærenda með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.
II. Sjónarmið kærenda
Í kæru eru ekki settar fram kröfur en meta verður kæruna þannig að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Í ákvörðun umboðsmanns skuldara 18. október 2012 kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni skuldara einkum að kanna hvort fyrir liggi ástæður sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge., sbr. 4. og 5. gr. lge.
Samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. beri umboðsmanni skuldara að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar, sbr. 4. og 5. gr. lge.
Þann 28. febrúar 2012 hafi embættið sent kærendum bréf vegna hugsanlegrar synjunar á umsókn þeirra um greiðsluaðlögun á grundvelli d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum frá Tollstjóra hafi skattskuldir hvílt á fyrirtækjum sem kærendur hafi stöðu sinnar vegna borið ábyrgð á að greiða, og hafi þær í heild numið 26.800.790 krónum. Þar af hafi 10.413.860 krónur verið skuld vegna vangoldins virðisaukaskatts. Hluti skattskulda þeirra sem kærendur báru ábyrgð á hafi verið byggðar á áætlunum. Í kjölfar bréfs embættisins hafi kærendur skilað leiðréttingaskýrslu virðisaukaskatts 28. mars 2012 og hafi hluti skattskuldarinnar verið leiðréttur á grundvelli hennar.
Við áframhaldandi vinnslu umsóknar kærenda hafi komið í ljós að nánari upplýsinga var þörf, meðal annars vegna ráðstöfunar söluhagnaðar að fjárhæð 220.003.082 krónur eftir frádrátt skatts samkvæmt skattframtali 2007 vegna tekjuársins 2006.
Umboðsmaður skuldara kveðst hafa innt kærendur svara um ráðstöfun söluhagnaðarins með tölvupósti 23. mars 2012. Í svari kærenda 10. maí 2012 hafi komið fram að söluhagnaði að fjárhæð 220.003.082 krónur hefði verið ráðstafað á þann hátt að samtals 221.700.000 krónum hefði verið ráðstafað „inn í“ félög í eigu kærenda auk þess sem keypt hafi verið hlutafé í öðru félagi. Um hafi verið að ræða fimm félög og hefði starfsemi tveggja þeirra að einhverju leyti eða öllu verið erlendis.
Umboðsmaður skuldara telur upplýsingar um afdrif nefnds söluhagnaðar mikilvægar og nauðsynlegar til þess að fá heildarmynd yfir fjárhag kærenda. Embættið eigi erfitt um vik að nálgast gögn vegna reksturs kærenda erlendis og að greina fjárhag fimm fyrirtækja með tilliti til framlagðs fjár frá kærendum. Telur embættið að það sé á ábyrgð kærenda sjálfra að leggja fram gögn sem sýni fram á ráðstöfun nefnds söluhagnaðar. Kærendum hafi verið sent bréf þess efnis 15. júní 2012 og þeim gerð grein fyrir mikilvægi þess að gera nánari grein fyrir ráðstöfuninni. Ekki hafi borist svör við bréfinu. Það hafi því verið mat umboðsmanns skuldara að fyrir hendi væru aðstæður sem komi í veg fyrir að heimilt sé að veita kærendum heimild til greiðsluaðlögunar. Umsókn kærenda var því hafnað á grundvelli b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge., sbr. 4. og 5. gr. lge.
Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Í lagaákvæðinu er kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Við mat á því hvað teljist nægilega glögg mynd af fjárhag skuldara telur kærunefndin meðal annars rétt að líta til 4. og 5. gr. lge.
Í 4. gr. lge. er gerð grein fyrir umsókn um greiðsluaðlögun. Í 1. mgr. hennar er upptalning í 11 töluliðum á því sem koma skal fram í umsókninni. Í 4. tölul. segir að í umsókn um greiðsluaðlögun skuli koma fram hverjar tekjur skuldara séu, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðist, svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum. Í athugasemdum með 4. gr. í frumvarpi til lge. kemur fram að upptalning 1. mgr. sé ekki tæmandi, enda sé gert ráð fyrir að umboðsmaður skuldara geti krafist þess að skuldari afli frekari upplýsinga en tilgreindar eru í ákvæðinu.
Í 5. gr. er kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og getur embættið krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingarnar með gögnum. Rannsókn á fjárhagsstöðu skuldara hefur bæði þýðingu við mat á því hvort tilefni sé til að synja umsókn á grundvelli 2. mgr. 6. gr. lge. og varpar jafnframt ljósi á núverandi fjárhagsstöðu skuldara og væntanlega þróun hennar til framtíðar.
Byggist ákvörðun umboðsmanns skuldara á því að fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag kærenda eða væntanlegri þróun fjárhags þeirra á tímabili greiðsluaðlögunar. Kærendur sinntu ekki óskum umboðsmanns skuldara um gögn.
Í skýringum við frumvarp til lge. er fjallað um inntak b-liðar 1. mgr. 6. gr. Þar segir að umboðsmanni sé skylt að hafna umsókn þegar fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar enda mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um fjárhagsleg málefni sín. Hér sé einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Áréttað er að skuldari skuli taka virkan þátt í og sýna viðleitni til að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.
Hver sá sem leitar greiðsluaðlögunar skal veita umboðsmanni skuldara ítarlegar upplýsingar og gögn. Í þessu felst skylda til að veita allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að greina fjárhagsstöðu viðkomandi til fulls. Með öðru móti verður ekki lagt efnislegt mat á hvort heimilt eða hæfilegt sé að veita skuldara greiðsluaðlögun. Rannsóknarskylda umboðsmanns skuldara leysir umsækjendur um greiðsluaðlögun ekki undan þeirri skyldu.
Umboðsmaður skuldara óskaði eftir gögnum er sýndu fram á ráðstöfun söluhagnaðar kærenda að fjárhæð 220.003.082 krónur. Kærendur kveðast hafa ráðstafað umræddum fjármunum til félaganna Þ ehf., Y ehf., Z ehf., X ehf. og V í S landi. Kærendur hafa ekki lagt fram gögn máli sínu til stuðnings, hvorki hjá umboðsmanni skuldara né undir rekstri málsins hjá kærunefnd greiðsluaðlögunarmála.
Að öllu ofangreindu virtu er það mat kærunefndarinnar að á skorti að kærendur hafi sinnt þeirri lögboðnu skyldu að verða við óskum umboðsmanns skuldara um að veita nauðsynlegar upplýsingar og gögn til þess að fyrir liggi nægilega glögg mynd af fjárhag þeirra eða væntanlegri þróun fjárhags þeirra á tímabili greiðsluaðlögunar, svo sem ákvæði b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. áskilur til þess að unnt verði að veita heimild til greiðsluaðlögunar.
Að þessu virtu verður ákvörðun umboðsmanns skuldara um synja kærendum um heimild til greiðsluaðlögunar staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til greiðsluaðlögunar er staðfest.
Sigríður Ingvarsdóttir
Eggert Óskarsson
Lára Sverrisdóttir