Mál nr. 212/2012
Fimmtudaginn 27. nóvember 2014
A
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.
Með bréfi 13. nóvember 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 31. október 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.
Með bréfi 20. nóvember 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 7. janúar 2013. Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 10. janúar 2013 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust ekki.
I. Málsatvik
Kærandi er fæddur 1971 og býr einn að B götu nr. 22 í sveitarfélaginu D. Hann á 50% í fasteign að C götu nr. 37, sveitarfélaginu D. Kærandi greiðir meðlag með tveimur börnum.
Kærandi starfar hjá X ehf. Útborguð laun hans eru að meðaltali 134.644 krónur á mánuði.
Að sögn kæranda má einkum rekja fjárhagserfiðleika hans til fjárfestinga og tekjulækkunar en í kjölfar efnahagshrunsins 2008 hafi tekjur hans lækkað. Samhliða hafi tekjurnar orðið óreglulegar en hann hafi stundað eigin rekstur. Þessu til viðbótar hafi kærandi glímt við veikindi í kjölfar skilnaðar. Hafi veikindin haft í för með sér mikið tekjutap fyrir kæranda.
Heildarskuldir kæranda samkvæmt gögnum málsins eru 49.489.694 krónur. Þær falla allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2004 til 2005 og 2009.
Samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara nema ábyrgðarskuldbindingar kæranda 74.105.291 krónu.
Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 22. október 2010 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 31. október 2012 var umsókn hans hafnað þar sem óhæfilegt þótti að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi gerir þá kröfu að hann verði metinn tækur til greiðsluaðlögunar á grundvelli lge. og að mál hans verði afgreitt með samþykki umboðsmanns skuldara.
Í núgildandi lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga sé ekkert ákvæði um að hafna beri þeim einstaklingum um greiðsluaðlögun sem tekið hafi á sig ábyrgðir vegna atvinnurekstrar. Kærandi hafi verið með rekstur fyrir efnahagshrun. Reksturinn hafi meðal annars falist í fjárfestingum sem skila hafi átt hagnaði til að standa undir fjárskuldbindingum. Eðli fjárfestinganna hafi þannig verið í fullu samræmi við þær ábyrgðir sem kærandi hafi tekið á sig.
Þá hafi kærandi tekist á hendur óskipta ábyrgð (in solidum) með öðrum. Hann hafi því ekki staðið einn að ábyrgðunum. Umboðsmaður skuldara taki ekki mið af þessu í ákvörðun sinni og geri kærandi alvarlegar athugasemdir við það.
Ekki verði séð að umboðsmaður skuldara byggi ákvörðun sína á lögfestum reglum. Þegar umboðsmaður skuldara vísi til hlutfalls fjárskuldbindinga af heildar-skuldbindingum kæranda sem stafi af atvinnurekstri sé mat umboðsmanns mjög matskennt um hvað teljist verulegt hlutfall af heildarskuldbindingum. Málefnaleg sjónarmið komi ekki fram eða önnur lögbundin sjónarmið sem áhrif hafi á matið. Mikilvægt sé að ákvarðanir umboðsmanns séu studdar lögfestum reglum eða álitum frá úrskurðaraðilum. Ekkert slíkt sé fyrir hendi. Þessu til viðbótar hafi þessi annmarki á ákvörðun umboðsmanns skuldara þau áhrif að kæranda sé ómögulegt að nýta sér andmælarétt sinn enda óljóst hvaða atriði hafi áhrif á mat umboðsmanns. Verði þetta að teljast verulegur annmarki á málsmeðferðinni.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana.
Í b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. segi að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhags-skuldbindingarinnar var stofnað.
Samkvæmt skattframtali 2009 vegna tekjuársins 2008 hafi fjárhagsstaða kæranda verið eftirfarandi í krónum:
Tekjuár | 2008 |
Ráðstöfunartekjur kæranda á mánuði* | 168.122 |
Eignir kæranda alls | 15.686.075 |
· C gata, 50% | 13.320.000 |
· Bifreiðin E | 1.895.400 |
· Innistæður | 90.320 |
· Hlutabréf | 380.355 |
Skuldir kæranda | 28.135.822 |
Á árinu 2008 gekkst kærandi í eftirtaldar ábyrgðir í krónum:
Skuldari | Útgefið | Upphafleg | Fjárhæð |
fjárhæð | 2012 | ||
Y Ltd. | 26.2.2008 | 20.000.000 | 20.959.985 |
Z ehf. | 27.2.2008 | 5.069.827 | 7.385.816 |
V ehf. | 7.5.2008 | 5.000.000 | 5.000.000 |
F | 7.5.2008 | 5.000.000 | 5.000.000 |
Y Ltd. | 25.6.2008 | 10.000.000 | 10.000.000 |
Y Ltd. | 26.6.2008 | 4.100.000 | 7.379.745 |
Y Ltd. | 26.6.2008 | 4.100.000 | 7.379.745 |
Samtals | 53.269.827 | 63.105.291 |
Í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi kæranda verið sent bréf 4. október 2012 þar sem honum hafi verið gefið tækifæri til andmæla. Vísað hafi verið til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. og hugsanlegrar synjunar á umsókn kæranda. Honum hafi verið gefinn 15 daga frestur til að tjá sig skriflega um efni málsins og styðja það gögnum. Hafi bréfið verið móttekið 8. október 2012 en kærandi hafi ekki svarað því.
Eins og fram komi í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 19/2011 verði ábyrgðarskuldbindingar vegna þriðja aðila ekki lagðar að jöfnu við beinar fjárhagslegar skuldbindingar við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita skuldara heimild til að leita greiðsluaðlögunar í skilningi 2. mgr. 6. gr. lge. Sá sem gangist undir ábyrgðarskuldbindingar þurfi vissulega að gera ráð fyrir þeim möguleika að kröfum vegna þeirra verði beint að honum að hluta eða í heild, þótt ekki verði gengið svo langt að gera kröfu um að ábyrgðaraðili gangi fortakslaust út frá því að hann muni á endanum þurfa að greiða allar þær skuldbindingar sem hann hafi ábyrgst efndir á. Verði að meta áhættuna í hverju tilviki fyrir sig.
Einnig verði að líta til þess að tæplega 60% af heildarskuldum kæranda séu vegna nefndra ábyrgðarskuldbindinga og tengist þær allar atvinnurekstri. Samkvæmt núgildandi lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga girða skuldir vegna atvinnurekstrar ekki fyrir heimild til greiðsluaðlögunar. Þó komi það fram í greinargerð með frumvarpi til lge. að það sé ekki ætlun löggjafans að þeir sem eigi í greiðsluerfiðleikum fyrst og fremst vegna atvinnurekstrar nýti sér þetta úrræði og jafnframt sé bent á að líta megi til ákvæða í 2. mgr. 6. gr. lge. varðandi fjárhagslega áhættu í þessu sambandi.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi fjárhagsstaða kæranda á þeim tíma er hann gekkst í fyrrnefndar ábyrgðir verið með þeim hætti að ekki verði séð að hann hafi haft raunhæfa möguleika á að greiða af þeim ef á reyndi.
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á lögbundnu mati á málsatvikum eins og þau hafi legið fyrir við töku ákvörðunarinnar. Í 2. mgr. 6. gr. lge. séu lögbundin sjónarmið sem taka beri sérstakt tillit til við mat á því hvort óhæfilegt þyki að veita heimild til greiðsluaðlögunar. Hafi þessum atriðum verið lýst í framangreindu bréfi til kæranda frá 4. október 2012. Ekki verði séð að lýsing á málsatvikum og lagaákvæðum sé óskýr í bréfinu. Þar sem engin viðbrögð hafi borist innan þess frests sem veittur hafi verið í bréfinu hafi ekki þótt annað fært en að taka ákvörðun byggða á fyrirliggjandi gögnum. Í þessu samhengi verði að líta til þess að kærandi hafi notið frestunar greiðslna frá því í nóvember 2010.
Ekki verði séð að kærandi hafi tekið minni áhættu með því að takast á hendur ábyrgðarskuldbindingar en efni skuldbindinganna gefi til kynna. Þrátt fyrir að aðrir hafi gengist í ábyrgð fyrir sumum skuldanna ásamt kæranda verði ekki séð að það hafi takmarkað áhættu kæranda af skuldbindingunum.
Umboðsmaður skuldara telur að kærandi hafi stofnað til skuldbindinga á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við skuldbindingar sínar og hafi hagað fjármálum sínum á ámælisverðan hátt. Að öllu ofangreindu virtu sé það mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt sé að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.
Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.
IV. Niðurstaða
Krafa kæranda verður ekki skilin á annan veg en þann að hann fari fram á að kærunefndin gefi umboðsmanni skuldara fyrirmæli um að samþykkja greiðsluaðlögunarumleitanir hans. Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt, nema annað leiði af lögum eða venju. Ef umboðsmaður skuldara synjar skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 4. mgr. 7. gr. lge. Samkvæmt lögunum er gert ráð fyrir að samþykki umboðsmanns skuldara fylgi ákveðin réttaráhrif, sbr. 8. gr. laganna, þar sem segir að með samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun hefjist tímabil greiðsluaðlögunarumleitana, og 1. mgr. 11. gr., en þar segir að þegar umboðsmaður skuldara hafi samþykkt umsókn hefjist tímabundin frestun greiðslna. Samkvæmt því gegnir umboðsmaður skuldara því hlutverki að veita heimild til greiðsluaðlögunar. Getur þar af leiðandi ekki komið til þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála samþykki slíka umsókn eða gefi fyrirmæli um að hún skuli samþykkt. Við úrlausn málsins fyrir kærunefndinni getur því aðeins komið til þess að kærunefndin felli synjun umboðsmanns skuldara á umsókn kærenda úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju. Með tilliti til þessa verður að skilja kröfugerð kærenda þannig að farið sé fram á að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju.
Þær lagareglur sem nefndar eru matskenndar reglur, svo sem ákvæði b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge., tengja afgreiðslu stjórnsýslumáls ekki við fyrirfram eða fastákveðin tilvik. Við beitingu matskenndra reglna þarf stjórnsýsluhafinn að móta hinn matskennda hluta reglunnar og ákvarða síðan þau lagasjónarmið sem hann hyggst byggja ákvörðun á. Þannig er festa fengin í úrlausn sem byggð er á matskenndri reglu. Þau lagasjónarmið sem byggt er á er til dæmis að finna í athugasemdum með lagafrumvörpum, fordæmum eða venju. Það er einkenni matskenndra lagareglna að framangreind sjónarmið þarf að meta við beitingu reglunnar. Þess vegna veita þessar reglur ákveðið svigrúm við hvert og eitt tilvik, innan þeirra marka sem reglan setur. Við meðferð þeirra mála sem umboðsmaður skuldara hefur afgreitt hefur embættið mótað reglur b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. í samræmi við heimildir stjórnvalds við beitingu matskenndra reglna. Kærunefndin telur að umboðsmaður skuldara hafi verið innan heimilda samkvæmt lögum og í samræmi við þær viðmiðanir sem mótaðar hafa verið við túlkun á lögunum. Því verða engin rök talin fyrir þeim staðhæfingum kæranda að ákvörðun umboðsmanns skuldara sé hvorki byggð á málaefnalegum sjónarmiðum né lögfestum reglum.
Að því er varðar andmælarétt kæranda skal aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en ákvörðun er tekin í því samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga. Í reglunni er talinn felast réttur aðila til að koma að viðbótargögnum, upplýsingum og viðhorfum áður en stjórnvald tekur ákvörðun í máli. Þessi réttur varðar eingöngu upplýsingar sem hafa þýðingu fyrir mat á staðreyndum málsins eða sönnun um hverjar þær eru. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. lge. hefur umboðsmaður skuldara heimild til að krefjast þess að skuldari staðfesti gefnar upplýsingar með skriflegum gögnum.
Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 4. október 2012 var óskað eftir upplýsingum frá kæranda. Voru þar tiltekin þau atriði sem kærandi var beðinn um að upplýsa. Kærandi svaraði bréfinu ekki. Kærunefnd greiðsluaðlögunarmála telur að embætti umboðsmanns skuldara hafi virt andmælarétt kæranda á þann hátt sem lög mæla fyrir um en í ljósi þess sem áður greinir verður ekki fallist á þær röksemdir kæranda að hann hafi ekki vitað hverju hann ætti að svara og því ekki getað nýtt andmælaréttinn.
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um synjun byggist á b- og c-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt b-lið er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.
Af skattframtölum og öðrum gögnum málsins má ráða að fjárhagsstaða kæranda hafi verið eftirfarandi árin 2007 til 2011 í krónum:
2007 | 2008 | 2009 | 2010 | 2011 | |
Meðaltekjur* á mánuði (nettó) | 32.743 | 168.122 | 326.338 | 325.275 | 118.540 |
Eignir | 14.676.000 | 15.472.363 | 16.857.148 | 17.729.567 | 13.934.440 |
· Fasteignir | 12.320.000 | 12.320.000 | 13.000.000 | 11.775.000 | 12.850.000 |
· Ökutæki | 2.106.000 | 1.895.400 | 1.705.860 | ||
· Hrein eign skv. efnahagsreikningi | 786.288 | 786.288 | 786.288 | 786.288 | |
· Hlutir í félögum o.fl. | 250.000 | 380.355 | 380.355 | 4.880.355 | 130.355 |
· Bankainnstæður ofl. | 90.320 | 984.645 | 287.924 | 167.797 | |
Skuldir | 26.518.879 | 28.135.822 | 37.561.172 | 37.719.122 | 39.594.155 |
Nettó eignastaða | -11.842.879 | -12.663.459 | -20.704.024 | -19.989.555 | -25.659.715 |
Höfuðstóll ábyrgðarskuldbindinga | 11.000.000 | 64.269.827 | 64.269.827 | 64.269.827 | 64.269.827 |
Samkvæmt gögnum málsins eru skuldir kæranda eftirtaldar í krónum:
Kröfuhafi | Ár | Tegund | Upphafleg | Staða | Vanskil |
fjárhæð | frá | ||||
Lífeyrissjóður verzlunarmanna | 2003 | Veðskuldabréf | 2.000.000 | 2.859.098 | 2010 |
Landsbankinn | 2004 | Veðskuldabréf | 3.000.000 | 4.089.225 | 2011 |
Landsbankinn | 2004 | Veðskuldabréf | 9.500.000 | 15.860.335 | 2010 |
Landsbankinn | 2005 | Bílalán | 2.738.275 | 2.933.449 | 2009 |
Sparisjóður Skagafjarðar | 2009 | Yfirdráttarskuld | 162.524 | 2011 | |
Landsbankinn | 2009 | Yfirdráttarskuld | 30.000 | 2009 | |
Íslandsbankinn | 2009 | Víxill | 3.000.000 | 4.063.239 | 2009 |
Landsbankinn | 2009 | Skuldabréf | 11.460.000 | 14.801.004 | 2010 |
Landsbankinn | 2010 | Yfirdráttarskuldir | 1.349.009 | 2010 | |
Tollstjóri | 2010 | Staðgreiðsla tryggingagjald | 472.619 | 577.229 | 2010 |
Tollstjóri | 2010 | Bifreiðagjald | 22.513 | 29.542 | 2010 |
Tollstjóri | 2010-2011 | Þing- og sveitarsjóðsgjöld | 2.148.577 | 2.375.968 | 2010-2011 |
Vodafone | 2010-2012 | Reikningar | 228.990 | 341.020 | 2010-2012 |
Aðrir | 2012 | Reikningar | 17.584 | 18.052 | 2012 |
Alls | 34.588.558 | 49.489.694 |
Á árinu 2008 gekkst kærandi í ábyrgðarskuldbindingar fyrir ríflega 53.000.000 króna. Þar af voru 5.000.000 króna fyrir einstakling, 38.200.000 krónur fyrir E Ltd., 5.069.827 krónur fyrir Z ehf. og 5.000.000 króna fyrir V ehf. Komu þessar ábyrgðir til viðbótar við 11.000.000 króna ábyrgðarskuldbindingu sem kærandi tókst á hendur árið 2006. Í neðangreindri töflu má sjá yfirlit ábyrgðarskuldbindinga kæranda í krónum:
Skuldari | Útgefið | Kröfuhafi | Tegund | Upphafleg |
fjárhæð | ||||
G | 2006 | Sparisjóður Ólafsfjarðar | Ábyrgðaryfirlýsing | 11.000.000 |
E Ltd. | 26.2.2008 | Íslandsbanki | Ábyrgðaryfirlýsing | 20.000.000 |
Zehf. | 28.2.2008 | Landsbankinn | Skuldabréf | 5.069.827 |
F | 7.5.2008 | Sparisjóður Siglufjarðar | Ábyrgðaryfirlýsing | 5.000.000 |
V ehf. | 7.5.2008 | Sparisjóður Siglufjarðar | Ábyrgðaryfirlýsing | 5.000.000 |
E Ltd. | 25.6.2008 | Sparisjóður Ólafsfjarðar | Tryggingavíxill | 10.000.000 |
E Ltd. | 26.6.2008 | Landsbankinn | Víxill | 4.100.000 |
E Ltd. | 26.6.2008 | Landsbankinn | Víxill | 4.100.000 |
Alls | 64.269.827 |
Z ehf. skiluðu síðast ársreikningi vegna ársins 2005 en félagið varð gjaldþrota í janúar 2009. Verður samkvæmt því að gera ráð fyrir að fjárhagsstaða félagins hafi verið slæm þegar kærandi gekkst í ábyrgðir fyrir félagið. V ehf. skiluðu síðast ársreikningi vegna ársins 2007 en félagið varð gjaldþrota árið 2011. Liggja því engar fjárhagsupplýsingar fyrir um félagið á árinu 2008. Þá liggja heldur engar fjárhagsupplýsingar fyrir um E Ltd. Við meðferð málsins hjá umboðsmanni skuldara var kæranda gefinn kostur á að sýna fram á að hann hefði ekki tekið fjárhagslega áhættu með ábyrgðarskuldbindingum sínum á árinu 2008. Þessari beiðni svaraði kærandi ekki.
Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana. Í því lagaákvæði eru taldar upp ástæður sem eiga það sameiginlegt að ekki getur verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verður að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi að lge. Í framhaldinu eru í sjö stafliðum rakin atriði sem umboðsmaður skuldara skal sérstaklega líta til við mat á slíku. Meðal þeirra atriða eru b- og c-liðir 2. mgr. 6. gr. lge. sem þegar hefur verið gerð grein fyrir en umboðsmaður skuldara synjaði kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli þessara ákvæða.
Í lok árs 2008 var eignastaða kæranda neikvæð um rúmar 12.600.000 krónur. Tekjur hans voru 168.122 krónur á mánuði að meðaltali. Skuldir hans námu 28.135.822 krónum. Að mati kærunefndarinnar gáfu hvorki eignastaða kæranda né tekjur hans tilefni til að ætla að hann gæti staðið undir þeim skuldum sem hann ábyrgðist. Í því ljósi telur kærunefndin að kærandi hafi tekist á hendur ábyrgðarskuldbindingar langt umfram greiðslugetu árið 2008 en ábyrgðarskuldbindingar hans voru orðnar svo miklar að engar líkur voru á því að hann gæti greitt þær, myndi á þær reyna. Þykir kærandi því hafa stofnað til skulda á þann hátt sem lýst er í b-lið 2. mgr. 6. gr. lge.
Ábyrgðarskuldbindingar er ekki alltaf hægt að leggja að jöfnu við beinar fjárhagslegar skuldbindingar við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita heimild til greiðsluaðlögunar í skilningi 2. mgr. 6. gr. lge. Sá einstaklingur sem gengst undir ábyrgðarskuldbindingar þarf þó að gera ráð fyrir þeim möguleika að kröfum vegna þeirra verði beint að honum að hluta til eða í heild en óskipt ábyrgð þýðir að einn geti þurft að greiða fyrir alla eða allir fyrir einn. Þótt ekki verði gengið fortakslaust út frá því að ábyrgðaraðili muni þurfa að greiða allar þær skuldbindingar sem hann hefur ábyrgst efndir á verður engu að síður að meta áhættuna í hverju tilviki fyrir sig.
Að því er varðar c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. má vísa til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 198/2010 en þar skýrði rétturinn ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 63. gr. d. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 sem er sambærilegt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Í því máli voru 81% heildarskulda vegna ábyrgðarskuldbindinga sem fallið höfðu á skuldara og á sama tíma og þegar til skuldbindinganna var stofnað voru tekjur skuldara litlar sem engar. Hæstiréttur leit einnig til þess hvernig eignastöðu var háttað þegar til skuldbindinganna var stofnað og hafnaði heimild til greiðsluaðlögunar og taldi ljóst að skuldari hefði tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma þegar til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað.
Með hliðsjón af öllu framangreindu er það mat kærunefndarinnar að skuldbindingar þær sem kærandi ábyrgðist árið 2008 hafi verið svo miklar að líta verði svo á að þær hafi verið í ósamræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma er til þeirra var stofnað. Við mat á því hvort beita skuli c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. ber að líta til samspils tekna og skuldasöfnunar á því tímabili sem til skoðunar er, sbr. það sem greinir hér að ofan. Í máli þessu eru 59,9% skulda kæranda vegna sjálfskuldarábyrgða.
Þegar allt framaritað er virt telur kærunefndin að með því að takast á hendur nefndar sjálfskuldarábyrgðir hafi kærandi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað í skilningi c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Þá verður einnig að líta til þess að stór hluti ábyrgðarskuldbindinga kæranda eru skuldir vegna atvinnurekstrar. Samkvæmt núgildandi lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga girða skuldir vegna atvinnurekstrar ekki fyrir heimild til greiðsluaðlögunar en takmörkun af því tagi var í 2. mgr. 63. gr. a. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. sem felld var úr gildi með lögum nr. 101/2010. Þar kom fram að ákvæði laganna um nauðasamning til greiðsluaðlögunar næði ekki til einstaklinga sem undangengin þrjú ár hefðu borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, hvort sem þeir hefðu lagt stund á hana einir eða í félagi við aðra, nema því aðeins að atvinnurekstri hefði verið hætt og þær skuldir sem stöfuðu frá atvinnurekstrinum væru tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum þeirra. Þó bendir umfjöllun í greinargerð með frumvarpi til núgildandi laga til þess að tilgangur þess að fella slíkar takmarkanir úr gildi hafi fyrst og fremst verið sá að greiða fyrir greiðsluaðlögun þeirra einstaklinga sem eru með atvinnurekstur samofinn heimilisrekstri. Segir í greinargerð með lögunum að það sé ekki ætlun löggjafans að þeir sem eigi í greiðsluerfiðleikum fyrst og fremst vegna atvinnurekstrar nýti sér þetta úrræði og jafnframt bent á að líta megi til ákvæða í 2. mgr. 6. gr. lge. varðandi fjárhagslega áhættu í þessu sambandi.
Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að A hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c- liða 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.
Sigríður Ingvarsdóttir
Eggert Óskarsson
Lára Sverrisdóttir