Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 72/2011

Fimmtudaginn 24. október 2013


A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 8. desember 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 30. nóvember 2011 þar sem umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 9. desember 2011 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 16. desember 2011.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 27. desember 2011 og var kærendum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Viðbótarupplýsingar bárust frá kærendum 30. janúar 2012.

I. Málsatvik

Kærendur eru gift og búa í eigin húsnæði að B götu nr. 51 í sveitarfélaginu D. Kærandi A er kennari við X skóla í sveitarfélaginu D. Mánaðartekjur hennar eru 146.716 krónur eftir frádrátt skatts. Kærandi B er ellilífeyrisþegi og fær greiddar 165.569 krónur á mánuði frá Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrissjóðum.

Að sögn kærenda eiga fjárhagserfiðleikar þeirra sér langan aðdraganda. Í kringum 1980 hafi kærandi B verið svikinn í viðskiptum og í kjölfarið hafi hann orðið gjaldþrota. Kærandi B sé lærður vélstjóri og hafi starfaði á sjó í 30 ár en hætt um 1990. Eftir það hafi hann unnið við húsbyggingar og síðustu árin hafi hann verið með þann rekstur í eigin nafni. Mikill samdráttur hafi orðið í byggingariðnaði í aðdraganda efnahagshrunsins 2008 og hafi kærandi B hætt rekstri sínum í lok árs 2010.

Kærendur hafi keypt eign sína í sveitarfélaginu D í kring um 1990. Hafi þau fengið lán fyrir kaupunum en þau lán hafi hækkað við hrun bankanna. Greiðsluerfiðleikar þeirra hafi aukist síðan. Einnig hafi kærandi A skrifað upp á víxil fyrir aðila sem varð gjaldþrota með þeim afleiðingum að ábyrgð að fjárhæð 3.000.000 króna hafi fallið á hana.

Kærendur stofnuðu til helstu skulda á árunum 2004 til 2008. Heildarskuldir kærenda eru 68.449.051 króna samkvæmt skuldayfirliti frá umboðsmanni skuldara. Þar af falla 55.419.648 krónur innan samnings, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.). Þær skuldir sem falla utan samnings eru að fjárhæð rúmar 13.000.000 króna en þar af eru 11.491.132 krónur vegna vanskila virðisaukaskatts.

Þann 28. nóvember 2011 lá umsókn kærenda fyrir fullbúin, sbr. 1. mgr. 7. gr. lge. Var umsókn þeirra synjað með ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 30. nóvember 2011 með vísan til d- og f-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur gera ekki sérstaklega grein fyrir sjónarmiðum sínum að því er varðar ástæðu kæru að öðru leyti en því að þau hafi ekki enn fengið leiðréttingu á sköttum sínum.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður bendir á að sá einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar sem sýnir fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Er þá miðað við að hann geti ekki eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skuldanna, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hans að öðru leyti.

Fram kemur hjá umboðsmanni að við mat á umsókn um greiðsluaðlögun beri að líta til þeirra aðstæðna sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að heimild sé til að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Við mat á því skuli meðal annars taka sérstakt tillit til þess hvort skuldari hafi bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu, sbr. d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Eins skuli við matið taka sérstakt tillit til þess hvort skuldari hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt, sbr. f-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Hafi d-liður 2. mgr. 6. gr. lge. verið skilinn svo að skattskuldir sem refsing liggi við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi. Hafi þessi skilningur verið staðfestur í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 10/2011.

Af skuldayfirliti og greinargerð kærenda verði ráðið að fjárhagur þeirra sé mjög þröngur vegna mikilla skulda. Mánaðarlegar meðaltekjur kærenda eftir frádrátt skatts voru eftirfarandi á árunum 2007 til 2010:

  2007 2008 2009 2010
Ráðstöfunartekjur B kr. 364.939 296.926 201.748 214.803
Ráðstöfunartekjur A kr. 68.601 115.444 135.818 124.436
Ráðstöfunartekjur alls kr. 433.540 412.370 337.566 339.239

Umboðsmaður skuldara bendir á að af gögnum frá tollstjóra verði ráðið að kærandinn B skuldi virðisaukaskatt frá árunum 2005 til og með ársins 2010 samtals að fjárhæð 11.491.132 krónur. Einnig skuldi hann staðgreiðslu launagreiðanda frá árunum 2004 til og með ársins 2010 samtals að fjárhæð 1.367.899 krónur. Enn fremur beri gögn málsins með sér að kærandi B skuldi þing- og sveitarsjóðsgjöld fyrir árin 2007 til og með 2010 samtals að fjárhæð 7.922.112 krónur. Varðandi skuld vegna þing- og sveitarsjóðsgjalda kæranda B beri að geta þess að í 116. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, komi fram að hjón bera óskipta ábyrgð á greiðslu skatta sem á þau eru lagðir og getur innheimtumaður ríkissjóðs gengið að hvoru hjóna um sig til greiðslu á sköttum þeirra beggja.

Heildarskuldir kærenda eru 68.449.051 króna og sundurliðast þær þannig:

Kröfuhafi Ár Upphafleg Fjárhæð kr.
  lántöku fjárhæð kr. 2011
Arion banki1 2004 13.200.000 22.902.907
Arion banki 2006 3.000.000 4.803.598
Frjálsi fjárfestingarbankinn2 2007 8.600.000 10.638.139
Lífeyrissj. stm. sveitarfélaga3 2008 2.900.000 4.215.709
Landsbankinn 2008 670.000 437.891
Aðrar skuldir við banka   600.000 2.711.201
Þing- og sveitarsjóðsgj.     8.047.744
Staðgreiðsla og trygg.gjald     1.367.899
Virðisaukaskattur     11.491.132
Launatengd gjöld     1.523.271
Bifreiðagjöld     70.608
Sekt     15.000
Lausaskuldir     223.952
  Samtals: 28.970.000 68.449.051

Endurfjármögnun eldri fasteignalána.

2 Endurfjármögnun eldri skulda.

3 Greiðsla skattskuldar.

 

Samkvæmt skattskýrslum hafa ráðstöfunartekjur, eignir og skuldir verið eftirfarandi árin 2006 til 2010:

  2006 2007 2008 2009 2010
Ráðstöfunartekjur 433.540 412.370 377.566 339.239 241.572
Skuldir alls 33.299.373 37.328.925 43.117.914 50.537.050 87.916.188
Innstæður og verðbréf 21.799   111.238 239.742 193.647
Fasteign 31.076.000 27.250.000 26.920.000 24.300.000 21.250.000
Ökutæki 5.700.000 1.227.272 4.560.000 4.560.000  
Annað 750.000 2.216.119 500.000 500.000  
Eignir alls 37.547.799 30.693.391 32.091.238 29.599.742 21.443.647
Nettó eignastaða 4.248.426 -6.635.534 -11.026.676 -20.937.308 -66.472.541

Eignir kærenda eru fasteign að c götu nr. 51 í sveitarfélaginu D en verðmæti hennar er 21.250.000 krónur samkvæmt fasteignamati. Telja verði eignir kærenda óverulegar að teknu tilliti til skulda.

Að mati umboðsmanns skuldara er fjárhæð virðisaukaskattskuldar kærandans B verulega há, eða 16,8% af heildarskuldum. Telur umboðsmaður rétt að hafa nokkra hliðsjón af dómi Hæstaréttar frá 20. janúar 2010 í máli nr. 721/2009. Þar var fjallað um skýringu þágildandi ákvæðis 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d í lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, en ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. er samhljóða því. Í dómsmálinu var heildarfjárhæð skuldar vegna háttsemi sem varðar refsingu 1.780.437 krónur og var sú fjárhæð talin allhá, en skuldin var ríflega 8,3% af heildarskuldbindingum skuldarans. Í dóminum komi einnig fram að skuldari sé eignalaus og að eignir hans hafi ekki verið þvílíkar þegar til skuldanna var stofnað að vangreiddur virðisaukaskattur teljist smávægilegur með hliðsjón af þeim. Leiddi það til þess að umsókn um heimild til að leita nauðasamnings var synjað. Bendir umboðsmaður á að virðisaukaskattskuld kærandans B sé álagning sem grundvallist á leiðréttum áætlunum vegna áranna 2005‒2010 og liggi því fyrir með ótvíræðum hætti að hann hafi bakað sér skuldbindingu með háttsemi sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu. Þyki af þeim sökum óhæfilegt að veita kærendum heimild til greiðsluaðlögunar.

Jafnframt vísar umboðsmaður til f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Ráðið verði af gögnum málsins að kærendur hafi ekki staðið í skilum eftir því sem þeim var framast unnt þar til tekjuárið 2008 hófst. Þessar kröfur séu ýmist opinber gjöld eða greiðslur í sjóði sem ætlaðir eru til samneyslu eða samtryggingar. Á meðal skulda af þessu tagi sem kærendur hafi ekki staðið skil á um árabil megi nefna vangreidd iðgjöld í lífeyrissjóði vegna áranna 2006, 2008 og 2009 og staðgreiðslu launagreiðanda vegna áranna 2004 til og með 2010. Til slíkra skulda heyri einnig þing- og sveitarsjóðsgjöld fyrir árin 2007 til 2010.

Vísar umboðsmaður í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála máli sínu til stuðnings. Varðandi synjun á grundvelli d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. vísar umboðsmaður til úrskurðar í máli nr. 10/2011. Varðandi synjun á grundvelli f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. vísar umboðsmaður til úrskurðar í máli nr. 13/2011.

Að öllu þessu virtu fer umboðsmaður fram á að hin kærða ákvörðun sem tekin var á grundvelli d- og f-liða 2. mgr. 6. gr. lge. verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggir á d- og f-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Í d-lið er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu. Í f-lið er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt. Með vísan til d- og f-liða 2. mgr. 6. gr. lge. var því umsókn kærenda um greiðsluaðlögun synjað.

Ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d gjaldþrotaskiptalaganna, hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggur við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi eður ei. Í máli þessu felst hluti skattskulda kærandans B í ógreiddum virðisaukaskatti vegna starfsemi sem hann stundaði í eigin nafni. Samkvæmt 40. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, getur slík háttsemi varðað refsingu.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist fyrst og fremst á því að á kæranda B hvíli virðisaukaskattsskuld að höfuðstólsfjárhæð 11.491.132 krónur og í ljósi þess leiði það til synjunar á umsókn kæranda.

Eins og mál þetta er vaxið verður ekki hjá því komist að líta til þess að kærandinn B hefur látið hjá líða að skila innheimtum virðisaukaskatti um sex ára skeið og staðgreiðslu launagreiðanda um sjö ára skeið. Í almennum athugasemdum við lagafrumvarp það er varð að lge. segir í V. kafla er fjallar um gildissvið og skilyrði greiðsluaðlögunar: „Ekki má samþykkja umsókn ef hún telst á einhvern hátt óeðlileg. Það á t.d. við ef skuldasöfnun á rætur að rekja til ólögmætra eða ósiðlegra athafna skuldara. Í því samhengi má nefna að ef greiðsluerfiðleikar stafa af brotastarfsemi eða margvíslegri misnotkun kemur ekki til álita að samþykkja greiðsluaðlögun.“

Að mati kærunefndarinnar verður einnig í málum sem þessum að líta heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu. Ráðstöfunartekjur kærenda hafa farið jafnt og þétt minnkandi frá árinu 2006. Kærendur hafa verið eignalausir frá árinu 2007 þar sem nettóeignastaða þeirra hefur verið neikvæð í vaxandi mæli frá þeim tíma. Þegar kærandinn B stofnaði til umræddra virðisaukaskattskulda voru eignir kærenda ekki slíkar að hinn vangreiddi virðisaukaskattur gæti talist óverulegur með hliðsjón af þeim.

Að öllu framanrituðu virtu verður að telja að skuldir kæranda sem falla undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. séu svo háar að ekki sé hæfilegt að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar.

Með vísan til þessa verður ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kærendum um heimild til að leita greiðsluaðlögunar staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta