Mál nr. 73/2011
Fimmtudaginn 24. október 2013
A og B
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.
Þann 14. desember 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 30. nóvember 2011 þar sem umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var synjað.
Með bréfi 15. desember 2011 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 3. janúar 2012.
Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 6. janúar 2012 og var kærendum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust frá kærendum með bréfi 12. september 2012.
I. Málsatvik
Kærendur eru gift og búa í 80 fermetra eigin húsnæði að C götu nr. 8 í sveitarfélaginu D. Þau hafa um árabil starfað við fiskvinnslu. Áður voru þau með rekstur í nafni kæranda B en starfa núna sem launþegar hjá X ehf. sem þau jafnframt reka. Kærandi Aer í 50% starfi en kærandi B í 100% starfi. Samkvæmt gögnum máls eru núverandi mánaðartekjur þeirra samtals 218.074 krónur eftir frádrátt skatts.
Að sögn kærenda má aðallega rekja fjárhagserfiðleika þeirra til tekjulækkunar og offjárfestingar. Árið 2005 hafi kærendur keypt 200 fermetra iðnaðarhúsnæði og vélar vegna fiskvinnslu sem þau ráku. Haustið 2007 hafi fisksalan dregist saman. Einnig hafi þau tapað um 800.000 krónum vegna gjaldþrots aðila sem keypti af þeim fisk. Í byrjun árs 2008 hafi lán þeirra hækkað mikið og þá hættu kærendur að geta staðið í skilum. Árið 2007 hafi þau keypt sendibíl á lánum. Hafi þau svo talið hann of dýran í rekstri svo þau hafi keypt minni bíl árið 2008. Ekki hafi tekist að selja stærri sendibílinn. Í júní 2008 hafi kærandi B fengið hjartaáfall og verið frá vinnu í þrjá til fjóra mánuði. Auk þess hafi hann verið frá vinnu í sex vikur eftir aðgerð á öxl í mars 2010.
Heildarskuldir kærenda eru 85.229.844 krónur samkvæmt skuldayfirliti frá umboðsmanni skuldara og sundurliðast þær þannig.
Kröfuhafi | Ár | Upphafleg | Fjárhæð kr. | Vanskil |
lántöku | fjárhæð kr. | 2011 | frá | |
Íbúðalánasjóður | 1983 | 754.345 | 4.743.799 | 2011 |
Íslandsbanki | 5.440.353 | 2003 | ||
Arion banki | 2004 | 2.000.000 | 1.082.752 | 2009 |
Lýsing | 2005 | 1.445.436 | 1.898.254 | 2010 |
Arion banki | 2006 | 17.751.161 | 29.710.233 | 2008 |
Arion banki | 2006 | 3.345.447 | 5.715.860 | 2008 |
Arion banki | 2006 | 4.880.647 | 6.484.266 | 2009 |
Arion banki | 2007 | 1.800.000 | 3.428.326 | 2009 |
Arion banki | 2007 | 6.139.461 | 10.449.135 | 2008 |
Avant | 2008 | 861.969 | 738.023 | 2011 |
Lífeyrissjóður verslunarmanna | 2008 | 3.500.000 | 3.851.948 | 2010 |
Arion banki, kreditkort | 719.812 | 1.068.802 | 2009 | |
Arion banki, yfirdrættir | 3.648.415 | 4.811.773 | 2009/2010 | |
Staðgreiðsla, tryggingagjald | 905.296 | 1.082.163 | 2008 | |
Dómsektir/sakarkostnaður | 1.028.756 | 1.028.756 | 2009 | |
Virðisaukaskattur | 618.530 | 803.454 | 2009 | |
Staðgreiðsla, launagreiðandi | 1.432.427 | 1.941.550 | 2010 | |
Staðgreiðsla reiknuð laun | 51.364 | 63.475 | 2010 | |
Fasteignagjöld | 536.893 | 727.993 | 2010 | |
VÍS | 146.841 | 2010 | ||
Rarik | 12.088 | 2011 | ||
Samtals: | 51.419.959 | 85.229.844 |
Af þessum skuldum falla 3.773.760 krónur utan samnings, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.), en um er að ræða vangreidd opinber gjöld og dómsektir. Að sögn kærenda stafar stærsti hluti skuldanna, alls 66.990.615 krónur, frá atvinnurekstri.
Þann 24. nóvember 2011 lá umsókn kærenda fyrir fullbúin, sbr. 1. mgr. 7. gr. lge. Var umsókn þeirra synjað með ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 30. nóvember 2011 með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.
II. Sjónarmið kærenda
Kærendur fara fram á að „skuldir þeirra verði færðar aftur til þess tíma fyrir hrun, og þær óeðlilegu hækkanir sem urðu eftir hrun verði skipt til helminga milli skuldara og lánastofnana og fundin leið til að borga þær á einhverjum árafjölda. Því að með lögum skal land byggja og ólögum eyða.“
Í athugasemdum kærenda sem bárust kærunefndinni 14. september 2012 kemur fram að virðisaukaskatts- og staðgreiðsluskuldir hafi lækkað vegna innborgana til sýslumanns. Skuldir vegna lífeyrissjóða hafi einnig lækkað. Skuldir vegna Lýsingar og Avant liggi ekki fyrir vegna dómsmála. Ábyrgðarskuldbindingar við Íslandsbanka hafi ekki verið endurreiknaðar. Þá sé skuld við Íslandsbanka að fjárhæð 5.440.353 krónur ekki fullfrágengin vegna dóms Hæstaréttar.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Umboðsmaður bendir á að sá einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar sem sýnir fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Er þá miðað við að hann geti ekki eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skuldanna, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hans að öðru leyti.
Við mat á umsókn um greiðsluaðlögun beri umboðsmanni skuldara að líta til þeirra aðstæðna sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að heimild sé til að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Við mat á því skuli meðal annars taka sérstakt tillit til þess hvort skuldari hafi bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu, sbr. d-lið 2. mgr. 6. gr. lge.
Hafi d-liður 2. mgr. 6. gr. lge. verið skilinn svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggur við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hefur verið staðfest með dómi. Hafi þessi skilningur verið staðfestur í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 10/2011.
Umboðsmaður skuldara bendir á að í máli kærenda liggi fyrir að töluverðar skattskuldir hvíli á öðrum kæranda sem og dómsektir. Hann gæti þurft að sæta refsiábyrgð samkvæmt 40. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, og 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, vegna vanskila á umræddum sköttum. Eru skuldir þessar vegna ógreidds virðisaukaskatts að fjárhæð 803.454 krónur og vegna staðgreiðslu launagreiðanda að fjárhæð 1.941.550 krónur. Þá skuldi hann 1.028.756 krónur vegna dómsektar. Samanlagt nemi þessar kröfur 3.773.760 krónum.
Tekið er fram að við mat á því hvort skuldbindingar verði taldar nema einhverju miðað við fjárhag kærenda verði að líta til tekna, eigna og skuldastöðu. Um árabil hafi kærendur verið með eigin rekstur í nafni kæranda B og þau hafi bæði reiknað sér endurgjald vegna hans.
Mánaðarlegar útborgaðar meðaltekjur beggja kærenda með vaxtabótum ásamt lágmarksframfærslu þeirra samkvæmt neysluviðmiði Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna fyrir árin 2007 til 2009:
2007 | 2008 | 2009 | |
Tekjur | 155.030 kr. | 151.691 kr. | 206.902 kr. |
Lágmarks framfærsla1 | 70.044 kr. | 74.347 kr. | 87.863 kr. |
Greiðslugeta | 84.986 kr. | 77.344 kr. | 119.039 kr. |
1 Ekki er gert ráð fyrir persónulegum útgjöldum í neysluviðmiði, svo sem rekstri húsnæðis og bíls, síma, hita og rafmagni.
Umboðsmaður telur vandséð hvernig launatekjur kærenda hafi nægt til framfærslu þeirra og heimilisrekstrar. Að mati umboðsmanns sé ljóst að persónulegur fjárhagur kærenda hafi verið afar þröngur, en af skattskýrslum kærenda megi ráða að tap hafi verið á rekstri þeirra frá árinu 2005 og að eigið fé hafi samhliða því ávallt verið neikvætt.
Að mati umboðsmanns hafi fjárhagur kærenda einnig verið erfiður vegna umtalsverðra skuldbindinga, bæði skuldbindinga vegna rekstrarins og persónulegra skuldbindinga. Heildarskuldir þeirra nemi 85.061.279 krónum en að auki hvíli á þeim ábyrgðarskuldbindingar vegna félagsins Y ehf. að fjárhæð 3.879.643 krónur. Fasteign kærenda er C gata nr. 8, sveitarfélaginu D, en verðmæti hennar samkvæmt fasteignamati er 10.850.000 krónur. Þá eru eignir kærenda vegna rekstrar, samkvæmt efnahagsreikningi á skattskýrslu 2011, alls 10.546.488 krónur. Verði því að telja eignir kærenda óverulegar að teknu tilliti til skulda.
Umboðsmaður telur að samkvæmt ofangreindu að þau opinberu gjöld og dómsektir sem hvíli á kærendum verði að teljast skuldbindingar sem einhverju nemi miðað við fjárhag þeirra.
Varðandi þá kröfu kærenda að „skuldir þeirra verði færðar aftur til þess tíma fyrir hrun, og þær óeðlilegu hækkanir sem urðu eftir hrun verði skipt til helminga milli skuldara og lánastofnana og fundin leið til að borga þær á einhverjum árafjölda“ tekur umboðsmaður fram að umsókn kærenda hafi verið synjað vegna vangoldinna opinberra gjalda og dómsekta. Fjárhæð þeirra skulda hafi leitt til þess að þær teldust nema einhverju miðað við fjárhag þeirra. Í ákvörðun umboðsmanns hafi ekki verið fjallað sérstaklega um skuldir kærenda við lánastofnanir.
Loks vísar umboðsmaður til úrskurðar kærunefndar greiðsluaðlögunarmála frá 3. nóvember 2011 í máli nr. 13/2011. Þar bendi nefndin á að kröfur af þessu tagi séu þess eðlis að líta verði til þeirra sjónarmiða sem búi að baki g-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Það er að um sé að ræða opinber gjöld eða greiðslur í sjóði sem ætlaðir eru til samneyslu eða samtryggingar. Þó umboðsmaður byggi ekki beinlínis á g-lið 2. mgr. 6. gr. lge. mæli þau sjónarmið sem kærunefndin reifaði í umræddum úrskurði með því að hin kærða ákvörðun verði staðfest.
Að öllu þessu virtu fer umboðsmaður fram á að hin kærða ákvörðun sem tekin var á grundvelli d-liðar 2. mgr. 6. gr. laga nr. 101/2010 verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 2. mgr. 6. gr. lge., með sérstakri tilvísun til d-liðar, en þar er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu.
Þær skuldir sem umboðsmaður vísar til í þessu sambandi eru vangoldinn virðisaukaskattur að fjárhæð 803.454 krónur, dómsekt að fjárhæð 1.028.756 krónur og staðgreiðsla launagreiðanda 1.941.550 krónur, samtals nemi þessar skuldir 3.773.760 krónum eða rúmlega 4,5% af heildarskuldum kærenda. Óumdeilt er að framangreindar skattskuldir hvíla á öðrum kærenda.
Framangreint ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d gjaldþrotaskiptalaganna, hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggur við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi eður ei. Í máli þessu felst hluti skattskulda kærandans B í ógreiddum virðisaukaskatti vegna starfsemi sem hann stundaði í eigin nafni. Samkvæmt 40. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, getur slík háttsemi varðað refsingu.
Að mati kærunefndarinnar verður í málum sem þessum að líta heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu en samkvæmt framlögðum skattskýrslum var fjárhagsstaða kærenda svofelld árin 2007 til 2009:
2007 | 2008 | 2009 | |
Ráðstöfunartekjur kr. | 155.030 | 151.691 | 206.902 |
Greiðslugeta kr. | 84.986 | 77.344 | 119.039 |
Skuldir alls kr. | 25.254.017 | 41.077.283 | 54.426.039 |
Verðbréf kr. | 797.056 | 764.462 | 764.462 |
Innstæður kr. | 364.077 | 60.932 | |
Fasteign kr. | 10.609.000 | 11.140.000 | 12.800.000 |
Ökutæki kr. | 1.701.900 | 1.450.710 | 1.305.639 |
Eignir alls kr. | 13.107.956 | 13.719.249 | 14.931.033 |
Nettóeignastaða kr. | -12.146.061 | -27.358.034 | -39.495.006 |
Kærendur hafa verið eignalaus frá árinu 2007 þar sem nettóeignastaða þeirra hefur verið neikvæð í vaxandi mæli frá þeim tíma. Þegar kærandinn B stofnaði til umræddra virðisaukaskattskulda voru eignir kærenda ekki slíkar að hinn vangreiddi virðisaukaskattur gæti talist óverulegur með hliðsjón af þeim.
Er það mat kærunefndarinnar, eins og á stendur í máli þessu, meðal annars með hliðsjón af eignastöðu kærenda og dóms Hæstaréttar í máli nr. 721/2009, að skuldir þær sem falla undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. séu svo verulegar miðað við fjárhag kærenda að ekki sé hæfilegt að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar.
Samkvæmt framangreindu er ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kærendum um heimild til greiðsluaðlögunar staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.
Sigríður Ingvarsdóttir
Arndís Anna K. Gunnarsdóttir
Lára Sverrisdóttir