Mál nr. 74/2011
Fimmtudaginn 24. október 2013
A og B
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.
Þann 14. desember 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 1. desember 2011 þar sem umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var synjað.
Með bréfi 15. desember 2011 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 3. janúar 2012.
Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 6. janúar 2012 og var kærendum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 6. september 2012. Engar athugasemdir bárust frá kærendum.
I. Málsatvik
Kærendur búa í eigin 263,8 fermetra húsnæði að C götu nr. 25 í sveitarfélaginu D. Þau hafa rekið fyrirtækið V, nú X ehf., síðan 1971. Kærandi A starfar enn hjá fyrirtækinu en hefur aðeins getað greitt sér laun óreglulega. Kærandi B er öryrki. Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá séu útborguð laun kærenda samanlögð 125.025 krónur.
Að sögn kærenda má að öllu leyti rekja greiðsluerfiðleika þeirra til ábyrgða sem þau hafa gengist í vegna rekstrar bakarís þeirra en reksturinn hefur gengið misjafnlega. Árið 1994 gekk reksturinn illa vegna tapa á útistandandi kröfum og breytinga á matvörumarkaði. Meðeigandi kærenda hafi dregið sig út úr rekstrinum í kjölfarið en kærendur hafi tekið þá ákvörðun að reyna að koma rekstrinum á réttan kjöl fremur en að fyrirtækið yrði gjaldþrota. Kærendur og fjölskylda þeirra hafi unnið hörðum höndum við reksturinn næstu árin. Telja kærendur að þær ógöngur sem fyrirtækið hafi verið komið í árið 1994 hafi allar götur síðan staðið því fyrir þrifum. Þannig hafi tímabundinn rekstrarafgangur að miklu leyti farið í fjármagnskostnað þrátt fyrir að reksturinn sjálfur hafi skilað hagnaði á tímabili. Síðari ár hafi veruleg hækkun hráefnisverðs, hækkun á launakostnaði og aukin samkeppni stórmarkaða gert reksturinn óarðbæran. Kærendur hafi þrátt fyrir þetta ákveðið að halda áfram enda erfitt að horfa á eftir rótgrónu fjölskyldufyrirtæki. Árið 2003 hafi kærendur skoðað hvaða leiðir væru færar til að gera V vænlegt til sölu. Niðurstaðan hafi verið sú að best væri að skipta rekstrinum upp í einingar, það er húsnæði í E götu, bakarísverslun og heildsölu. Heildsalan hafi verið seld árið 2007. Hvorki hafi tekist að selja húsnæðið né verslunina. Telja kærendur að ef tekist hefði að selja húsnæðið á árunum 2005‒2007 hefðu kærendur komist frá 30 ára rekstri með skuldlaust íbúðarhús og sparifé til efri áranna. Í kjölfar bankahrunsins hafi allar forsendur brostið og húsnæðið í E götu hafi lækkað verulega í verði. Kærendur telja nú ólíklegt að það muni seljast á næstunni. Kærendur hafi ekki burði til þess að koma húsnæðinu í leiguhæft ástand. Vanskil og dráttarvextir hafi af þessum sökum safnast upp. Nú hafi verið farið fram á nauðungarsölu á íbúðarhúsnæði kærenda vegna skuldbindinga sem tryggðar séu með krossveðum og sjálfskuldarábyrgðum. Kærendur sjái því fram á gjaldþrot eftir 35 ára þrotlausa vinnu.
Heildarskuldir kærenda eru 43.896.217 krónur samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara. Einnig hvíla á þeim ábyrgðarskuldbindingar að fjárhæð 61.077.178 krónur. Langstærstur hluti skuldanna stafar frá rekstri kærenda á eigin fyrirtæki.
Framangreindar skuldir falla innan samnings um greiðsluaðlögun samkvæmt 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.). Að auki er annar kærenda ábyrgur fyrir vangoldnum vörslusköttum samtals að fjárhæð 4.760.802 krónur.
Þann 21. nóvember 2011 lá umsókn kærenda fyrir fullbúin, sbr. 1. mgr. 7. gr. lge. Var umsókn þeirra synjað með ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 1. desember 2011 með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.
II. Sjónarmið kærenda
Kærendur óska eftir að beiðni þeirra um greiðsluaðlögun verði tekin fyrir að nýju.
Í ákvörðun umboðsmanns skuldara sé vísað til skattskulda X ehf. og Y ehf. þar sem kærandinn A hefur verið stjórnarmaður og framkvæmdastjóri. Benda kærendur á að umræddar skattskuldir séu tilkomnar vegna rekstrarörðugleika félaganna en þeir séu orsök fjárhagsvanda þeirra. Þau vinni hörðum höndum að því að greiða skattskuldirnar niður eins og kostur sé.
Umboðsmaður vísi til tveggja skulda. Annars vegar skuldar X ehf. að fjárhæð 4.233.094 krónur. Bendi kærendur á að þessi skuld hafi nú lækkað um 420.000 krónur. Hins vegar vísi umboðsmaður til virðisaukaskatts sem áætlaður var á Y ehf. Bendi kærendur á að sú áætlun hafi verið felld niður. Rétt fjárhæð skuldanna sé því rúmar 3.800.000 krónur. Telja kærendur að ef til greiðsluþrots kæmi mætti ætla að umræddum skuldum yrði mætt með sölu á óveðsettu lausafé í eigu X ehf.
Í ljósi þess að umrædd skattskuld verði að teljast óveruleg miðað við heildarskuldbindingar kærenda óska þau eftir að umsóknin verði tekin fyrir að nýju. Vísa þau til orðalags d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. þessu til stuðnings. Fjárhagsstaða kærenda sé vissulega bágborin en sú staða sé meðal annars tilkomin vegna þess að kærandinn A hafi greitt sér óveruleg laun síðustu misseri í þeirri viðleitni að rétta af rekstur fyrirtækisins og standa skil á lögboðnum gjöldum. Kærendur hafi reynt að standa af sér rekstrarerfiðleika fyrirtækis þeirra til 36 ára með fyrrgreindum afleiðingum.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Umboðsmaður bendir á að við mat á umsókn um greiðsluaðlögun beri að líta til þeirra aðstæðna sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að heimild sé til að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Við mat á því skuli meðal annars taka sérstakt tillit til þess hvort skuldari hafi bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu, sbr. d-lið 2. mgr. 6. gr. lge.
Hafi d-liður 2. mgr. 6. gr. lge. verið skilinn svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggur við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hefur verið staðfest með dómi. Hafi þessi skilningur verið staðfestur í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 10/2011.
Umboðsmaður skuldara bendir á að í máli kærenda liggi fyrir að töluverðar skattskuldir hvíli á einkahlutafélögunum X og Y. Kærandinn A hafi um árabil gegnt stöðu stjórnarmanns, framkvæmdastjóra og prókúruhafa í félögunum. Hluti skattskuldanna felist í ógreiddum virðisaukaskatti, staðgreiðslu launagreiðanda og tryggingagjaldi. Beri kærandi A stöðu sinnar vegna ábyrgð á greiðslu umræddra skatta, sbr. 44. gr. laga um einkahlutafélög, nr. 138/1944. Eins gæti kærandi A þurft að sæta refsiábyrgð samkvæmt 40. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, og 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, vegna vanskila á umræddum sköttum og gjöldum. Vísar umboðsmaður í dóm Hæstaréttar frá 3. mars 2011 í máli nr. 71/2009. Eins vísar umboðsmaður í úrskurð kærunefndar greiðsluaðlögunarmála frá 31. ágúst 2011 í máli nr. 10/2010 þar sem nefndin staðfesti ákvörðun umboðsmanns um synjun umsóknar um greiðsluaðlögun vegna sambærilegra atvika og eru uppi í þessu máli.
Umboðsmaður skuldara greinir frá því að fjárhagsstaða kærenda sé þröng vegna umtalsverðra skuldbindinga sem kærendur hafi stofnað til vegna rekstrar eigin fyrirtækis. Heildarskuldir þeirra nemi 43.896.217 krónum en að auki hvíli á þeim ábyrgðarskuldbindingar að fjárhæð 61.077.178 krónur. Kærendur eigi fasteign að C götu nr. 25, sveitarfélaginu D, en verðmæti hennar sé 36.700.000 krónur samkvæmt fasteignamati. Eignin sé yfirveðsett og áhvílandi lán í vanskilum. Að auki eigi kærendur eignarhluti í einkahlutafélögum en hafi á síðastliðnum árum hvorki haft af þeim fjármagnstekjur né þegið frá þeim laun svo einhverju nemi miðað við upplýsingar á skattframtölum. Verði því að telja eignir kærenda óverulegar að teknu tilliti til skulda.
Í ákvörðun umboðsmanns 1. desember 2011 var byggt á upplýsingum úr gögnum frá tollstjóra. Af þeim var ráðið að X ehf. skuldaði virðisaukaskatt að fjárhæð 237.845 krónur, staðgreiðslu launagreiðanda að fjárhæð 2.777.645 krónur og tryggingagjald að fjárhæð 1.217.604 krónur. Samkvæmt upplýsingum frá skattstjóra byggðu þessar fjárhæðir á upplýsingum frá félaginu. Samanlagt námu skuldir félagins á vörslusköttum þannig 4.233.094 krónum. Enn fremur hvíldi virðisaukaskattskuld á Y ehf. að fjárhæð 427.675 krónur. Umboðsmaður skuldara gerði fyrirvara við þá fjárhæð enda byggðist hún á áætlun.
Umboðsmaður telur að ekki verið hjá því komist líta til þeirrar ábyrgðar sem hafi hvílt á kæranda A sem stjórnarmanni, framkvæmdastjóra og prókúruhafa í ofangreindum félögum til að standa skil á vörslusköttum og til þeirra sekta sem hann gæti átt yfir höfði sér fyrir vanskilin. Að mati umboðsmanns séu fjárhæðir vörsluskattskulda allháar auk þess sem ljóst væri að eignastaða kærenda væri neikvæð, tekjur lágar og fjárhagur erfiður. Því væri ófært að líta svo á að skuldbindingarnar væru smávægilegar með hliðsjón af fjárhag kærenda.
Í greinargerð umboðsmanns kemur fram að í kæru sé greint frá því að tilteknar vörsluskattskuldir félaga sem kærandinn A er fyrirsvarsmaður fyrir hafi lækkað. Hafi umboðsmaður þá óskað eftir nýju yfirliti yfir skuldastöðu félaganna frá tollstjóra. Samkvæmt nýju yfirliti hafi þær breytingar orðið að X ehf. skuldi ekki lengur virðisaukaskatt og skuld Y ehf. vegna virðisaukaskatts hafi lækkað úr 427.675 krónum í 152.720 krónur. Þær fjárhæðir sem miðað var við í ákvörðun umboðsmanns frá 1. desember 2011 hafi samtals numið 4.660.769 krónum en nú standi vangoldnir vörsluskattar félaganna í samanlagt 4.760.802 krónum. Þrátt fyrir að höfuðstóll umræddra krafna hafi lækkað, hafi heildarskuldir félaganna við tollstjóra vegna vörsluskatta hækkað um 100.033 krónur frá 18. nóvember til 28. desember 2011.
Vísar umboðsmaður í úrskurð kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í málum nr. 10/2010 og 13/2011. Þar bendir nefndin á að kröfur af þessu tagi séu þess eðlis að líta verði til þeirra sjónarmiða sem búi að baki g-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Það er að segja að um sé að ræða opinber gjöld eða greiðslur í sjóði sem ætlaðir eru til samneyslu eða samtryggingar. Þó ekki sé beinlínis byggt á g-lið 2. mgr. 6. gr. lge. mæli þau sjónarmið sem kærunefndin reifaði í umræddum úrskurði gegn því að ákvörðun umboðsmanns í þessu máli verði felld úr gildi.
Að öllu þessu virtu fer umboðsmaður fram á að hin kærða ákvörðun sem tekin var á grundvelli d-liðar 2. mgr. 6. gr. laga nr. 101/2010 verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 2. mgr. 6. gr. lge., með sérstakri tilvísun til d-liðar en þar er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu.
Þær skuldir sem umboðsmaður vísar til í þessu sambandi eru vangoldnir vörsluskattar samtals að fjárhæð 4.760.802 krónur sem eru rúmlega 10% af heildarskuldum kærenda, fyrir utan ábyrgðarskuldbindingar.
Framangreint ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggur við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi eður ei, að því tilskildu að skuldbindingarnar nemi einhverju miðað við fjárhag skuldara.
Samkvæmt gögnum úr hlutafélagaskrá var kærandi A skráður stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi félaganna X ehf. og Y ehf. Hvíldi því á honum sú skylda sem tilgreind er í 3. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994. Þá skal fyrirsvarsmaður félags hlutast til um skil á vörslusköttum lögum samkvæmt að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu, sbr. 1. og 8. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, og 1. og 9. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 40/1987. Samkvæmt fyrirliggjandi yfirliti frá tollstjóra nema vanskil vegna vörsluskatta alls 4.760.802 krónum. Umræddar skuldir hvíla á félögum kærenda en eru á ábyrgð kærandans A sem gegndi stöðu stjórnarmanns, framkvæmdastjóra og prókúruhafa í félögunum.
Við mat á því hvort aðstæður d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. eru fyrir hendi telur kærunefndin að líta verði heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu. Samkvæmt gögnum málsins eru tekjur kærenda mjög lágar og eignastaða neikvæð. Skuldir vegna vangreiddra vörsluskatta nema alls ríflega 10% af heildarskuldum kærenda utan ábyrgðarskuldbindingar. Þetta eru skuldir sem ekki falla undir samning um greiðsluaðlögun samkvæmt f-lið 1. mgr. 3. gr. lge. Kærandi A hefur stofnað til þessara skulda með háttsemi er varðar refsingu eins og tiltekið er hér að framan. Eins og á stendur í máli þessu og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í máli nr. 721/2009 eru skuldir þessar verulegar miðað við fjárhag kærenda, sé litið til tekna kæranda og nettóeignastöðu. Í ljósi þess verður að telja að þær skuldir sem falla undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. séu svo háar miðað við fjárhag kærenda að ekki sé hæfilegt að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar.
Í ljósi ofangreinds er ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kærendum um heimild til greiðsluaðlögunar staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.
Sigríður Ingvarsdóttir
Arndís Anna K. Gunnarsdóttir
Lára Sverrisdóttir