Mál nr. 79/2011
Fimmtudaginn 31. október 2013
A og B
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.
Þann 7. desember 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 17. nóvember 2011 þar sem felld var niður ákvörðun umboðsmanns skuldara 7. júní 2011 um heimild kærenda til greiðsluaðlögunar.
Með bréfi 3. janúar 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 16. febrúar 2012.
Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 29. febrúar 2012 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send með bréfi 28. ágúst 2012. Engar athugasemdir bárust frá kærendum.
I. Málsatvik
Kærendur eru 52 og 61 árs hjón og búa í 101,4 fermetra eigin húsnæði að 35, sveitarfélaginu D. Einnig er 97 fermetra íbúð að E götu nr. 33 í sveitarfélaginu D í þeirra eigu. Kærandi A er öryrki og fær greiddar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins ásamt örorkulífeyri frá lífeyrissjóði. Kærandi B er í fullu starfi en varð fyrir vinnuskerðingu veturinn 2010. Mánaðarlegar tekjur kærenda eru samkvæmt greiðsluáætlun umboðsmanns skuldara 549.597 krónur sé miðað við útborguð laun og aðrar tekjur að frádregnum sköttum og gjöldum.
Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 73.265.972 krónur og eru þær allar innan samnings um greiðsluaðlögun. Kærendur stofnuðu til helstu skuldbindinga við kaup á fasteign að F götu nr. 1 í sveitarfélaginu G árið 2007. Fasteignin reyndist kærendum of dýr en einnig tóku þau yfirdráttarlán til að standsetja húsnæðið. Að sögn kærenda má rekja fjárhagserfiðleika þeirra til þess að þau hafi setið uppi með þrjár fasteignir. Ástæður skuldasöfnunar megi jafnframt rekja til tekjulækkunar í kjölfar atvinnuskerðingar.
Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 7. júní 2011 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í ákvörðun umboðsmanns var vakin athygli á skyldum kærenda við greiðsluaðlögun, sbr. 12. gr. um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.). Í fylgiskjali með ákvörðun var einnig afrit af 12. gr. lge. um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun.
Með bréfi skipaðs umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 21. september 2011 tilkynnti umsjónarmaður að hann teldi að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil þar sem kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt 12. gr. lge. Í bréfi umsjónarmanns kom í fyrsta lagi fram að samkvæmt upplýsingum frá kærendum hafi þau lagt fyrir 723.000 krónur í greiðsluskjóli. Kærendur hafi notið skjólsins í ríflega tíu mánuði og með hliðsjón af greiðslugetu þeirra, sem sé 223.278 krónur á mánuði, verði að telja að þau hefðu getað lagt mun meira til hliðar en þau hafi gert. Í öðru lagi hafi það verið mat umsjónarmanns að kærendur hafi ekki haft fjárhagslegt svigrúm til að fara í fjögurra vikna utanlandsferð sem þau hafi farið í á tímabili greiðsluskjóls. Í þriðja lagi kemur fram í bréfi umsjónarmanns að atbeina skuldara og nærveru sé þörf til að hægt sé að ljúka frumvarpi að greiðsluaðlögunarsamningi en kærendur verið erlendis í fríi. Í ljósi framangreinds hafi umsjónarmaður talið að ekki væri hjá því komist að fara þess á leit við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda væru felldar niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr., sbr. 2. mgr. 12. gr. lge.
Með bréfi 27. október 2011 voru kærendur upplýst um afstöðu skipaðs umsjónarmanns. Var þeim gefinn kostur á að gæta andmælaréttar síns, láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunarumleitana. Umboðsmanni skuldara bárust athugasemdir kærenda með bréfi 1. nóvember 2011. Þar greindu kærendur frá því að þau hefðu ekki vitað fyrr en á fundi með umsjónarmanni hve mikið þau ættu að leggja fyrir. Kærendur hafi ekki lagt fram gögn máli sínu til stuðnings.
Með bréfi til kærenda 17. nóvember 2011 felldi umboðsmaður skuldara niður ákvörðun sína frá 7. júní 2011 um heimild kærenda til greiðsluaðlögunar með vísan til 15. gr., sbr. a- og d-liði 1. mgr. 12. gr. lge.
II. Sjónarmið kærenda
Í bréfi kærenda 1. nóvember 2011 kemur fram að þau hafi ekki vitað að þeim bæri að leggja svo mikla fjármuni til hliðar. Það hafi ekki verið fyrr en á fundi með umsjónarmanni í september 2011 sem kærendur hefðu verið upplýstir um þá fjárhæð sem talið væri að þau hefðu getað lagt til hliðar. Kærendum hafi áður verið neitað um fund í því skyni að komast að því hvað þau ættu að geta sparað mikla fjármuni í greiðsluskjóli. Að sögn kærenda hafi þau ætlað að leggja rúmlega 100.000 krónur til hliðar í janúar 2011 en þá hafi heimilistæki bilað og því hafi ekkert verið lagt til hliðar þann mánuð.
Að mati kæranda er reiknuð framfærsla umboðsmanns skuldara of lág. Til dæmis greiði kærendur 46.000 krónur í tryggingar á mánuði. Þau greiði fasteignagjöld, fráveitugjöld, húsgjöld, rafmagn og tryggingar af tveimur fasteignum. Útborguð laun kærandans B séu á bilinu 210.000 til 240.000 krónur á mánuði en það sé ekki í samræmi við það sem umboðsmaður skuldara hafi reiknað með. Í útreikningum umboðsmanns skuldara hafi ekki verið gert ráð fyrir sjónvarpsáskrift kærenda sem kosti rúmlega 7.000 krónur á mánuði eða áskrift hjá öryggisfyrirtæki sem kosti 6.283 krónur á mánuði. Að auki hafi kærandi A þurft að sækja sjúkraþjálfun og hafi eldsneytiskostnaður hækkað sökum þess. Þá hafi að jafnaði tvö af barnabörnum kærenda verið hjá þeim í gæslu og því hafi kostnaður við matvöru hækkað um að minnsta kosti 23.600 krónur á mánuði. Kærendur hafi átt erfitt með að láta enda ná saman eftir að hafa lagt 100.000 krónur til hliðar á mánuði.
Fram kemur í kæru að kærendur séu mjög ósátt við framkomu skipaðs umsjónarmanns. Þau hafi óskað eftir aðstoð við að reikna út hve mikið þau ættu að leggja til hliðar af launum sínum og hvernig sparnaðurinn væri reiknaður út. Þegar kærendur hafi mætt á fund umsjónarmanns hafi þeim verið tilkynnt að þau ættu að vera búin að leggja helmingi meira til hliðar en þau höfðu þá gert. Kærendur geti ekki leiðrétt sparnað sinn aftur í tímann.
Kærendur greiði nú hússjóð, fasteignagjöld og tryggingar af tveimur íbúðum. Kærendur greina loks frá því að kærandanum B hafi verið sagt upp störfum 1. nóvember 2011.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á heimild kærenda til greiðsluaðlögunar kemur fram að á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar skuli skuldari samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Þá sé í d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. kveðið á um að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna nema skuldbinding sem stofnað sé til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða.
Umsjónarmaður hafi boðað kærendur á fund 14. september 2011 og óskað eftir því að þau legðu fram yfirlit yfir þá fjármuni sem þau hefðu lagt til hliðar á tímabili greiðsluskjóls. Kærendur hafi þá upplýst umsjónarmann um að þau væru á leið í frí til Spánar til fjögurra vikna dvalar og gætu því ekki hitt umsjónarmann fyrr en að þeim tíma liðnum. Umsjónarmanni hafi borist tölvubréf frá kærendum 15. september 2011 þar sem fram hafi komið að þau hefðu lagt fyrir samtals 723.000 krónur á því tímabili sem frestun greiðslna hefði staðið yfir. Umsjónarmaður hafi óskað eftir upplýsingum um Spánarferð kærenda. Kváðust þau hafa greitt 120.000 krónur fyrir flugfargjald en sögðu engan kostnað vegna uppihalds.
Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að þegar kærendur hafi sótt um greiðsluaðlögun í nóvember 2010 hafi þeim verið afhent bréf með upplýsingum um skyldur skuldara á meðan þau nytu frestunar greiðslna. Hafi þar komið skýrt fram til hvers var ætlast af þeim sem nutu hins svonefnda greiðsluskjóls. Þá hafi öllum þeim sem nutu greiðsluskjóls hjá umboðsmanni skuldara verið sent bréf 8. apríl 2011 þar sem enn hafi verið brýndar fyrir þeim skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. lge. Hinn 7. júní 2011 hafi kærendum verið send ákvörðun umboðsmanns um heimild þeirra til að leita greiðsluaðlögunar. Í fylgiskjali með ákvörðun hafi verið tilgreindar skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. lge. Hefði það verið í þriðja sinn sem kærendur hafi fengið slíka skriflega tilkynningu. Hafi kærendum því mátt vera ljóst frá upphafi að þeim bæri skylda til að leggja til hliðar þá fjármuni sem þau hefðu haft aflögu. Fallist umboðsmaður því ekki á skýringar kærenda hvað þetta varði.
Hvað varði athugasemdir kærenda um að þeim hafi verið neitað um viðtal hjá embættinu taki umboðsmaður fram að ekki þurfi að panta tíma í ráðgjöf hjá embættinu. Kærendur hefðu því getað fengið viðtal hjá ráðgjafa samdægurs án þess að panta tíma. Þau hefðu því getað leitað til umboðsmanns hvenær sem er, lagt fram nýjar upplýsingar eða fengið aðstoð við hvert eitt það álitaefni er varðaði fjárhag þeirra og greiðslugetu. Athugasemdir kærenda hvað þetta atriði varði séu því að öllum líkindum byggðar á misskilningi.
Kærendur telji að ýmis útgjöld sem þau hafi greitt séu hærri en reiknað hafi verið með í greiðsluáætlun umboðsmanns skuldara. Að mati umboðsmanns verði ekki annað séð en að tekið hafi verið tillit til allra útgjalda kærenda við útreikning á greiðslugetu, jafnvel útgjalda umfram það sem gert sé ráð fyrir í hinu staðlaða neysluviðmiði. Greiðsluáætlun hafi verið byggð á þeim gögnum sem liggi fyrir í máli umsækjenda, það er bæði gögnum sem kærendur hafi lagt fram sjálf og opinberum gögnum, svo sem upplýsingum frá ríkisskattstjóra. Þannig hafi verið gert ráð fyrir 40.000 krónum á mánuði í kaup á tóbaki, 85.400 krónum á mánuði vegna reksturs tveggja bifreiða og 26.000 krónum á mánuði vegna lækniskostnaðar í stað 8.800 króna á mánuði samkvæmt útgefnu neysluviðmiði. Framfærsla kærenda hafi því verið reiknuð umtalsvert hærri en almennt sé gert. Engu að síður og að teknu tilliti til reiknaðrar framfærslu samkvæmt því sem að framan greinir, hefði greiðslugeta kærenda átt að vera um 177.000 krónur á mánuði. Greiðslugetan hafi verið meiri fyrri hluta árs eða 205.112 krónur á mánuði. Sé tekið mið af lægri fjárhæðinni ættu kærendur að hafa getað lagt til hliðar tæplega 2.000.000 króna á tímabili greiðsluskjóls. Umboðsmaður leggi áherslu á að þeir fjármunir sem til hafi fallið í greiðsluskjóli séu samkvæmt 12. gr. lge. ætlaðir til uppgjörs við kröfuhafa en ekki til aukinnar framfærslu eða neyslu.
Að framangreindu virtu hafi umboðsmaður talið að kærendur hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt 12. gr. lge. og hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. 2. mgr. 12. gr. lge.
Atvinnumissir annars kæranda hafi ekki snert það tímabil sem ákvörðun taki til og hafi því ekki áhrif á niðurstöðuna.
Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.
Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Samkvæmt d-lið sama ákvæðis er kveðið á um að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna. Sú undantekning er gerð að heimilt er að stofna til nýrra skuldbindinga þegar skuldbinding er nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist í fyrsta lagi á því að kærendur hafi ekki lagt til hliðar alla þá fjármuni sem þeim hafi verið unnt á því tímabili sem þau nutu greiðsluskjóls.
Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði laganna hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kærenda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kærendum því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn þeirra var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur verið ítarlega upplýst um skyldu sína til að leggja fjármuni til hliðar í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur lagt til hliðar 723.000 krónur. Að mati umboðsmanns skuldara hafi sú fjárhæð átt að vera rúmlega 2.000.000 króna enda hafi kærendur átt að leggja til hliðar fjármuni samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. frá því að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var lögð fram, eða allt frá 5. nóvember 2010. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um heimild til greiðsluaðlögunar kemur fram að greiðslugeta kærenda á mánuði hafi verið 205.112 krónur. Í bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara, þar sem lagt er til að heimild til greiðsluaðlögunar verði felld niður, kemur fram að greiðslugeta kærenda sé 223.278 krónur á mánuði. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild til greiðsluaðlögunar kemur fram að greiðslugeta kærenda ætti að vera um 177.000 krónur á mánuði en hafi verið hærri fyrri hluta ársins 2011 eða um 205.112 krónur. Samkvæmt þessu og miðað við gögn málsins hefðu kærendur átt að geta lagt til hliðar að minnsta kosti 1.900.000 krónur í greiðsluskjóli. Það er mat kærunefndarinnar að kærendum hafi mátt vera það ljóst, með vísan til skriflegra leiðbeininga umboðsmanns skuldara, að þeim hafi borið skylda til að leggja hærri fjárhæð til hliðar en þau gerðu á tímabilinu. Fellst kærunefndin því á sjónarmið umboðsmanns skuldara um að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Í öðru lagi byggist ákvörðun umboðsmanns á því að utanlandsferð kærenda hafi ekki verið í samræmi við d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Að mati kærunefndar verður ekki ráðið af gögnum málsins að nefnd utanlandsferð hafi verið kærendum nauðsynleg í skilningi d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Teljast fjárútlát vegna hennar því hafa skert hagsmuni kröfuhafa enda hafi þetta verið fjármunir sem ella hefðu runnið til kröfuhafa við gerð greiðsluaðlögunarsamnings. Fellst kærunefndin því einnig á sjónarmið umboðsmanns skuldara þess efnis að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að fram séu komnar upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli 1. mgr. 15. gr laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010. Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar er því staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild A og B til greiðsluaðlögunar er staðfest.
Sigríður Ingvarsdóttir
Arndís Anna K. Gunnarsdóttir
Lára Sverrisdóttir