Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 77/2011

Mánudaginn 28. október 2013

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 23. desember 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 9. desember 2011 þar sem felld var niður ákvörðun umboðsmanns skuldara 26. maí 2011 um heimild kærenda til greiðsluaðlögunar.

Með bréfi 5. janúar 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 19. mars 2012.

Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kærendum til kynningar með bréfi 22. mars 2012 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kærenda bárust með bréfi 3. apríl 2012.

Með bréfi 23. apríl 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir afstöðu umboðsmanns skuldara vegna athugasemda kærenda. Framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara barst með bréfi 8. maí 2012.

Framhaldsgreinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 14. maí 2012 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Framhaldsgreinargerð kærenda barst kærunefndinni með bréfi 24. maí 2012.

I. Málsatvik

Kærendur eru 45 og 37 ára og búa í eigin húsnæði ásamt tveimur börnum sínum. Í greinargerð kærenda með umsókn kemur fram að erfiðleika þeirra megi rekja til þess að greiðslubyrði lána hafi þyngst. Árið 2005 hafi kærendur keypt hjólhýsi og tekið til þess erlent lán að fjárhæð 1.700.000 krónur. Greiðslubyrðin hafi átt að vera 25.000 krónur á mánuði. Þau hafi síðar reynt að selja hjólhýsið. Greiðslubyrðin hafi verið orðin 50.000 krónur á mánuði þegar þeim hafi loks tekist að selja hjólhýsið árið 2008 með því að taka fellihýsi upp í. Afborgun af fellihýsinu sé um 35.000 krónur á mánuði. Árið 2006 hafi kærendur byggt 48 fermetra bílskúr við hús sitt. Til þess að fjármagna bygginguna hafi þau fengið yfirdráttarlán að fjárhæð 1.000.000 króna. Yfirdrátturinn hafi að lokum verið greiddur upp með lífeyrissjóðsláni. Einnig hafi kærendur tekið lán til að lagfæra hitaveitu í húsi sínu. Árið 2006 hafi kærendur keypt bifreið. Þau hafi greitt 250.000 krónur af kaupverðinu en tekið erlent lán að fjárhæð 1.400.000 krónur fyrir eftirstöðvunum. Upphaflega hafi greiðslubyrði af því láni átt að vera 22.000 krónur á mánuði en hafi hækkað í 40.000 krónur. Árið 2007 hafi kærendur keypt aðra bifreið með erlendu láni. Þau hafi sjálf reitt fram 1.500.000 krónur en tekið lán fyrir 4.000.000 króna. Mánaðarleg greiðslubyrði af því láni hafi átt að vera 50‒55.000 krónur en sé nú 106.000 krónur.

Atvinna kæranda B sé stopul þar sem hann sé trillusjómaður. Kærandi A vinni sem gjaldkeri hjá X Til að reyna auka tekjurnar hafi hún einnig unnið við skúringar. Foreldrar kærenda eru ábyrgðarmenn á lánum þeirra.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 96.778.834 krónur. Allar kröfur eru innan samnings um greiðsluaðlögun.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 9. desember 2011 var heimild kærenda til greiðsluaðlögunar felld niður með vísan til 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.).

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur mótmæla niðurfellingu umboðsmanns skuldara. Þau greina frá því að embættið telji þau hafa haft hærri tekjur en þau hafi í raun haft. Þau hafi notað fjármuni til að kaupa gleraugu handa öðru kærenda og handa öðru barni þeirra. Þá hafi þurft að gera við bifreiðir kærenda en kvittanir séu ekki til fyrir viðgerðunum þar sem vinnan hafi verið keypt án kvittana. Umboðsmaður skuldara geri ráð fyrir 42.000 krónum til að reka bifreið en að mati kærenda sé það engan veginn nóg. Einnig hafi kærendur skuldað foreldrum sínum peninga sem þau hafi greitt til baka.

Að sögn kærenda hafi þau póstlagt upplýsingar um ráðstöfun fjárins til umboðsmanns skuldara 8. desember 2011 en frestur til að skila andmælum hafi verið 9. desember. Því hafi bréf þeirra borist embættinu sama dag og kærendur hafi fengið bréf umboðsmanns um niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana. Embættið hafi þannig fellt niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunar án þess að yfirfara þau gögn sem þau hafi lagt fram. Kærendur hafi haft samband við umboðsmann skuldara sem hafi upplýst kærendur um að þar sem ákvörðun um synjun á heimild til greiðsluaðlögunar hefði þegar verið tekin gætu þau kært ákvörðunina. Því hafi umboðsmaður skuldara fellt niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunar án þess að skoða skýringar kærenda. Að mati kærenda hefðu þau aldrei getað lagt til hliðar 4.000.000 króna eins og gert sé ráð fyrir í bréfi umboðsmanns skuldara.

Kærendur vísa til útreikninga á framfærslu sinni eins og þau telja hana vera. Einnig vísa þau til launaseðla, afrita af bankafærslum að fjárhæð 357.378 krónur vegna viðhalds á bifreiðum og vegna greiðslna að fjárhæð 595.985 krónur til foreldra og fyrirtækis þeirra. Allar framangreindar færslur hafi verið á tímabilinu nóvember 2010 til desember 2011.

Að því er varðar greiðslur til foreldra taka kærendur fram að það hafi kannski ekki verið rétt ráðstöfun gagnvart öðrum kröfuhöfum. Þau hafi talið sig verða að greiða foreldum sínum þar sem þau hafi skuldað þeim og liðið illa yfir skuldinni. Hefðu þau ekki gert það hefðu þessir peningar farið til bankanna enda hefðu foreldrar þeirra aldrei gert kröfu til umsjónarmanns um greiðslu.

Kærendur gera athugasemd við þær upplýsingar sem umboðsmaður skuldara hafi veitt þeim um útreikninga vegna úttektar séreignarsparnaðar. Samkvæmt upplýsingum embættisins hafi kærendum verið það í sjálfsvald sett hvort þau tækju út sparnaðinn. Embættið hafi ekki greint kærendum frá því að sparnaðurinn yrði reiknaður þeim til tekna. Hefðu kærendur vitað það hefðu þau aldrei tekið sparnaðinn út.

Kærendur greina að lokum frá því að þau hafi farið á einn fund hjá umsjónarmanni. Starfsmaður á hans vegum hafi talað við þau og sagt þeim að skila annarri bifreiðinni og segja upp áskrift að Stöð 2. Bifreiðinni hafi verið skilað sem hafi svo verið seld 1.500.000 krónum undir markaðsverði.

Krafa kærenda er að þau fái á ný heimild til að leita greiðsluaðlögunar.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Við mat á umsókn um greiðsluaðlögun beri að líta til þeirra atriða sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 1. mgr. 15. gr. lge. segi að ef fram komi upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna um slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Í a-lið 1. mgr. 12. gr. komi fram að skuldari skuli leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í c-lið sömu greinar segi að skuldari skuli ekki láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geti lánardrottnum sem greiðsla. Í d-lið greinarinnar segi að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera ráðstafanir sem skaðað gætu hagsmuni lánardrottna nema skuldbinding sem stofnað sé til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Í 2. mgr. 12. gr. komi fram að telji umsjónarmaður skuldara hafa brugðist skyldum sínum samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 26. maí 2011 hafi kærendum verið veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt lge. Þeim hafi verið skipaður umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitunum. Hinn 9. ágúst 2011 hafi umsjónarmaður óskað eftir því að kærendur gerðu grein fyrir því hvað þau hefðu lagt til hliðar af launum sínum á tímabilinu sem frestun greiðslna hafði staðið yfir og hvort skyldum samkvæmt 12. gr. lge. hefði verið fullnægt. Í ljós hafi komið að kærendur hefðu ekkert lagt til hliðar. Kærendur hafi gefið þær skýringar að þau hefðu greitt fjármuni til foreldra sinna, kostnað við bifreiðar og gleraugu fyrir barn sitt. Samkvæmt greiðsluáætlun umboðsmanns skuldara hafi heildartekjur kærenda verið 897.143 krónur að meðaltali á mánuði og greiðslugeta þeirra 348.397 krónur. Þau hafi verið í greiðsluskjóli síðan í október 2010.

Með bréfi umsjónarmanns kærenda til umboðsmanns skuldara 9. september 2011 var þess farið á leit við embættið að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður á grundvelli 15. gr. lge. þar sem kærendur hefðu ekki lagt til hliðar af tekjum samkvæmt a-lið 12. gr. lge. Taldi umsjónarmaður að kostnaður við viðgerð bifreiðar og kaup á gleraugum hafi ekki svarað til þeirrar fjárhæðar sem kærendur hefðu réttilega átt að leggja til hliðar á tímabilinu. Þá hafi kærendur brugðist skyldu sinni samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. lge. með því að greiða foreldrum sínum fjármuni.

Embætti umboðsmanns skuldara hafi sent kærendum bréf 6. október og 18. nóvember þar sem þeim hafi verið boðið að láta álit sitt í ljós og leggja fram gögn máli sínu til stuðnings áður en tekin yrði ákvörðun um hvort greiðsluaðlögunarumleitanir yrðu felldar niður. Kærendur hafi verið upplýst um að heimild til greiðsluaðlögunar yrði felld niður bærust umbeðnar upplýsingar ekki innan tilskilins frests.

Skýringar kærenda bárust umboðsmanni skuldara með bréfi 18. október 2011. Þar kemur fram að kærendur hafi haft tvær bifreiðar til umráða en það hafi verið kostnaðarsamt sökum viðhalds. Annarri bifreiðinni hafi verið skilað til kröfuhafa 15. ágúst 2011. Þá hafi kærendur skuldað foreldrum sínum og fyrirtæki þeirra fjármuni sem þau hafi greitt. Einnig hafi fallið til ýmiss ófyrirséður kostnaður vegna barna kærenda. Loks hafi kærandinn B verið án atvinnu í júlí og ágúst 2011. Að mati umboðsmanns komu hvorki fram fullnægjandi svör né nauðsynleg gögn í bréfinu. Lögð sé áhersla á að leggja þær skyldur á kærendur að þau sýni samstarfsvilja og leggi fram þau gögn sem óskað er eftir og skipti máli við samningu frumvarps til greiðsluaðlögunar. Megi þar nefna gögn sem umsjónarmaður geti ekki aflað, svo sem yfirlit yfir bankareikninga.

Þann 23. nóvember 2011 hafi embættinu borist bréf frá öðum kæranda þar sem fram komi að hún væri að koma úr aðgerð á fæti. Einhverjar kvittanir vegna kostnaðar séu á vinnustað hennar en hún muni ekki hefja störf aftur fyrr en 1. desember 2011 vegna aðgerðarinnar. Hafi embættið sama dag veitt kærendum lokafrest til 7. desember 2011 til að veita fullnægjandi skýringar og leggja samhliða fram gögn er sýndu ráðstöfun kærenda á fjármunum sínum. Embættinu hafi ekki borist gögn sem varpað gætu ljósi á þau atriði sem óskað hafi verið skýringa á.

Í málinu liggi fyrir upplýsingar um að samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra hafi sameiginlegar tekjur þeirra, að meðtöldum útgreiddum séreignarsparnaði, verið 8.838.754 krónur eftir staðgreiðslu opinberra gjalda frá því að tímabundin frestun greiðslna hófst. Framfærslukostnaður á tímabilinu, samkvæmt neysluviðmiði umboðsmanns skuldara, hafi verið 4.100.000 krónur. Hafi kærendur því verið fullfærir um að leggja til hliðar að minnsta kosti 4.000.000 króna að teknu tilliti til kostnaðar vegna gleraugna og viðgerða á bifreið.

Rétt þyki að benda á að réttindi samkvæmt samningi um séreignarsparnað njóti verndar gagnvart innheimtuaðgerðum kröfuhafa, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997. Með lögum nr. 13/2009 hafi verið lögfest tímabundið ákvæði sem feli í sér heimild rétthafa til úttektar á séreignarsparnaði, sbr. 3. gr. laganna. Í ákvæðinu sé meðal annars tekið fram að skuldheimtumönnum sé óheimilt að krefjast þess að skuldarar nýti sér heimild til úttektar séreignarsparnaðar. Kjósi rétthafi samkvæmt samningi um séreignarsparnað að nýta sér heimildina eru úttektirnar almennt aðfararhæfar í skilningi 41. gr. laga um aðför, nr. 90/1989, og skattlagðar eins og aðrar launatekjur samkvæmt lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003. Telja verði að úttektir á séreignarsparnaði samkvæmt hinni tímabundnu heimild falli undir gildissvið 12. gr. lge. með sama hætti og aðrar tekjur og eignir þeirra sem njóti greiðsluskjóls.

Í bréfi kærenda til umboðsmanns skuldara sem barst embættinu 12. desember 2011 komi fram að helstu greiðslur hafi runnið til foreldra þeirra og fyrirtækis í eigu foreldris annars kærenda. Kærendur hafi greitt 150.000 krónur í bifreiðaviðgerðir en ekki fengið kvittun. Enn fremur hafi fallið á þau kostnaður vegna kaupa á varahlutum í bifreiðina og gleraugum.

Af greiðsluyfirlitum þeim er fylgt hafi bréfi kærenda verði ráðið að í greiðsluskjóli sínu hafi þau ráðstafað samtals 1.422.321 krónu til U ehf., V, Y og T. Þá verði ráðið af gögnunum málsins að 154.962 krónur hafi verið greiddar vegna kostnaðar við bifreiðir. Enn fremur hafi 153.800 krónur verið greiddar vegna gleraugnakaupa. Í gögnunum sé einnig að finna útprentanir sem sýni stöðu á reikningum í eigu kærenda en inneignir á þeim nemi samtals 432.225 krónum. Telja verði að ráðstöfun kærenda til framangreinds fyrirtækis og einstaklinga á meðan þau voru í greiðsluskjóli hafi falið í sér brot gegn skyldum þeirra samkvæmt a-, c- og d-liðum 1. mgr. 12. gr. lge.

Auk framangreinds þyki umboðsmanni skuldara talsverð óvissa fyrir hendi um hvernig kærendur hafi ráðstafað tekjum sínum á umræddu tímabili, þrátt fyrir framlögð gögn og þær upplýsingar sem fram komi í kæru. Framangreind gögn skýri ekki þann mikla mun sem verið hafi á tekjum kærenda og þeim framfærslukostnaði og öðrum útgjöldum sem þau hafi tilgreint. Þannig skorti á að fyrirliggjandi gögn gefi nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags þeirra á tímabili greiðsluaðlögunar, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Ekki hafi því verið hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr. lge.

Ekkert hafi komið fram á síðari stigum málsins sem breytt geti þeim forsendum sem synjun á heimild kærenda til greiðsluaðlögunar sé byggð á. Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar, og til 1. mgr. 6. gr. lge. um aðstæður sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. ber skuldara að leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Þá kemur fram í c-lið ákvæðisins að skuldari skuli ekki láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geti lánardrottnum sem greiðsla. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Ákvæði 15. gr. lge. nær samkvæmt orðanna hljóðan yfir skilyrði greiðsluaðlögunar samkvæmt lögunum í heild og takmarkast heimild til niðurfellingar greiðsluaðlögunarumleitana ekki við þau tilvik þegar skuldari bregst skyldum sínum samkvæmt 12. gr. laganna. Í skýringum við frumvarp til laga nr. 101/2010 segir um ákvæði 15. gr. þeirra að þar sé fyrst og fremst átt við þau tilvik þar sem nánari skoðun umsjónarmanns eða nýjar upplýsingar leiði til þess að skuldari uppfylli ekki skilyrði greiðsluaðlögunar og er þar sérstaklega vísað til I. og II. kafla laganna.

Í 1. mgr. 6. gr. lge. eru tilgreindar ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. skal synja um heimild til greiðsluaðlögunar gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Er hér gert ráð fyrir að skuldari taki virkan þátt og sýni viðeigandi viðleitni við að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður. Í skýringum við 6. gr. í athugasemdum við frumvarp til laga nr. 101/2010 er áréttað mikilvægi þess að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um allt sem lýtur að fjárhagslegum málefnum hans og að hann verði við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem skuldara einum er unnt að afla eða gefa.

Kærendur hafa í fyrsta lagi ekki orðið við ítrekaðri beiðni umboðsmanns um gögn, svo sem kvittanir og bankayfirlit, varðandi það hvort og þá hversu háa fjárhæð þeim reyndist fært að leggja til hliðar af launum sínum á meðan frestun greiðslna stóð yfir, sbr. a-lið 12. gr. lge. Hér er rétt að taka fram að í tölvubréfi umboðsmanns til kærenda 23. nóvember 2011 kemur fram að verði ekki gerð grein fyrir þeim útgjöldum sem kærendur hafi sjálf tiltekið sem óvænt útgjöld og lagt fram bankayfirlit yfir þá fjármuni sem lagðir hafi verið til hliðar í greiðsluskjóli, geti það leitt til synjunar á greiðsluaðlögunarumleitunum samkvæmt 12. gr. lge. Einnig segir að hafi fullnægjandi svör og gögn ekki borist innan frestsins megi kærendur gera ráð fyrir að málið verði fellt niður. Lögð var áhersla á að fullnægjandi gögn og kvittanir þyrftu að fylgja öllum þeim útgjöldum sem tiltekin væru. Þessu sinntu kærendur ekki.

Þá liggur fyrir að kærendur hafa greitt foreldrum sínum og fyrirtæki þeirra peninga í greiðsluskjóli en það telst andstætt fyrirmælum d-liðar 12. gr. lge. Að mati kærunefndarinnar verður einnig að fallast á það með umboðsmanni skuldara að óljóst sé hvernig kærendur hafi ráðstafað tekjum sínum á umræddu tímabili. Þannig gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af væntanlegri þróun fjárhags kærenda á tímabili greiðsluaðlögunar, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Í ljósi alls þessa verður því að líta svo á að fram séu komnar upplýsingar sem ætla má að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge., og er ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild til greiðsluaðlögunar því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild A og B til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta