Mál nr. 31/2011
A
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Einar Páll Tamimi formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Kristrún Heimisdóttir.
Þann 24. júní 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 9. júní 2011, þar sem umsókn kæranda um heimild til greiðsluaðlögun einstaklinga var hafnað.
Með bréfi, dags. 24. júní 2011, óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara og barst hún með bréfi, dags. 7. júlí 2011.
Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 12. júlí 2011, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Þann 9. september 2011 var kæranda send ítrekun þess efnis að athugasemdir, ef einhverjar væru, þyrftu að berast kærunefnd greiðsluaðlögunarmála ekki síðar en 19. september 2011. Kærandi hefur engar athugasemdir sent vegna greinargerðar umboðsmanns skuldara.
I. Málsatvik
Kærandi er 31 árs gamall og býr í eigin fasteign að B-götu nr. 23, í sveitarfélaginu C. Hann er með meirapróf og vann sem sendibílstjóri um skeið en vinnur nú hjá C ehf. Þegar ákvörðun umboðsmanns skuldara var tekin þann 9. júní 2011 voru útborguð laun kæranda að meðaltali 155.263 krónur á mánuði, ásamt greiddum vaxtabótum á mánuði 33.333 krónur og sérstakri vaxtaniðurgreiðslu 12.514 krónur. Tekjur námu því samtals 201.110 krónum á mánuði.
Í umsókn kæranda um greiðsluaðlögun kemur fram að hann hafi árið 2007 selt íbúð sína við E-götu og keypt stærri íbúð að B-götu nr. 23, í sveitarfélaginu C. Sama ár hafi hann gert tvo bílasamninga við Íslandsbanka fjármögnun, þann fyrri vegna sendibifreiðar vegna eigin rekstrar og þann síðari vegna jeppabifreiðar sem ætluð var til einkanota, en hana flutti kærandi sjálfur inn til landsins. Meðaltekjur kæranda árið 2007 voru 56.034 krónur á mánuði samkvæmt skattframtali 2008. Eftir bankahrunið segir kærandi bílalánin hafa hækkað mikið og hafi þau fallið í vanskil. Að lokum hafi bifreiðirnar verið teknar af honum. Eftir að sendibifreiðin var tekin hafi honum verið allar bjargir bannaðar enda hafi bifreiðin verið atvinnutæki hans.
Heildarskuldir kæranda eru samkvæmt gögnum málsins 35.089.835 krónur. Kröfur tryggðar með veði í eign umsækjanda eru að fjárhæð 25.683.361 króna. Til annarra krafna teljast kröfur að fjárhæð 9.406.474 krónur. Heildarskuldir kæranda skiptast þannig: Í fyrsta lagi skuldar kærandi Arion banka vegna tveggja lána upphaflega að fjárhæð samtals 15.875.000 krónur, nú samtals að fjárhæð 25.683.361 króna. Í öðru lagi skuldar kærandi Íslandsbanka fjármögnun vegna tveggja bílalána að fjárhæð 5.641.137 krónur, í þriðja lagi yfirdráttarlán hjá Arion banka að fjárhæð 1.761.461 króna og í fjórða lagi launatengd gjöld að fjárhæð 329.047 krónur. Aðrar skuldir kæranda nema samtals 1.674.829 krónum.
Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun þann 26. október 2010 og var umsókn hans synjað með ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 9. júní 2011, með vísan til 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.), einkum b- og c-liða.
II. Sjónarmið kæranda
Í fyrsta lagi krefst kærandi þess í kæru sinni til nefndarinnar að einhverjar skuldir hans verði niðurfelldar eða afskrifaðar. Telur kærandi að aðrir aðilar í þjóðfélaginu hafi fengið slíka afgreiðslu og þá einkum fjárglæframenn sem átt hafi þátt í því hvernig farið hafi fyrir fjármálamarkaði þjóðarinnar.
Í öðru lagi krefst kærandi þess að afskrifaðar verði eftirstöðvar skulda vegna bifreiðakaupa. Kærandi viðurkennir að hann hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt á árinu 2007 með kaupum á bifreiðum, en það hafi hann gert með fullum stuðningi fjármálafyrirtækisins Íslandsbanka. Kærandi varpar fram þeirri spurningu hvort bílalánin hafi verið ólögleg og hvort hugsanlega hafi einnig verið ólöglegt að taka bílana af honum.
Í þriðja lagi kveðst kærandi ósáttur við að fá ekki tækifæri til að greiða úr sínum málum. Að hans mati sé það bæði betra fyrir hann og aðra að eitthvað af skuldum hans verði afskrifaðar og hann fái að semja um aðrar fremur en að hann verði gjaldþrota.
Í fjórða lagi bendir kærandi á að forsendur séu nú breyttar hjá honum. Hann hafi fasta vinnu og fullan áhuga á því að greiða úr fjárhagsvanda sínum og vera virkur þjóðfélagsþegn.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Í ákvörðun umboðsmanns skuldara eru rakin ákvæði b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Segir í ákvörðuninni að samkvæmt skattframtölum kæranda hafi mánaðartekjur hans árið 2007 verið 56.034 krónur eftir frádrátt skatta. Nettótekjur kæranda hafi hækkað lítillega næstu tvö ár, í 112.313 krónur að meðaltali á árinu 2008 og í 108.359 krónur að meðaltali árið 2009. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum og miðað við neysluviðmið umboðsmanns skuldara hafi áætluð framfærsla kæranda í desember 2007, uppreiknuð miðað við vísitölu neysluverðs, verið 120.025 krónur. Áætluð greiðslugeta kæranda í árslok 2007 hafi því verið neikvæð um samtals 63.991 krónu á mánuði.
Segir í ákvörðuninni að kærandi hafi á árinu 2007 tekist á hendur umtalsverðar skuldbindingar með kaupum á fasteign og tveimur bifreiðum. Fasteign sína hafi kærandi keypt þar sem hann vildi stækka við sig en aðra bifreiðanna hafi hann keypt til einkanota og hina sem atvinnutæki. Að mati umboðsmanns skuldara hafi kærandi með bifreiðakaupunum árið 2007 stofnað til skulda á þeim tíma sem fyrirliggjandi gögn sýni að hann hafi verið greinilega ófær um að standa undir framfærslu sinni, hvað þá öðrum fjárhagslegum skuldbindingum sínum. Með tilliti til framangreinds hafi það verið mat umboðsmanns skuldara að kærandi hafi með fasteignakaupum árið 2007, en þó fyrst og fremst með bifreiðakaupum á árinu 2007, hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað.
Í greinargerð umboðsmanns skuldara, dags. 7. júlí 2011, ítrekar umboðsmaður skuldara að afborganir vegna skuldbindinga kæranda í byrjun árs 2008 hafi verið áætlaðar 243.401 króna án tillits til framfærslukostnaðar og afborgana annarra skulda. Kæranda hafi því hlotið að vera ljóst að hann væri ófær um að greiða af slíkum skuldbindingum, að teknu tilliti til framfærslukostnaðar og tekna, og þess að greiðslugeta hans var neikvæð fyrir. Með hliðsjón af fordæmi Hæstaréttar í máli nr. 657/2009, eignastöðu og tekjum kæranda á þeim tíma sem til ofangreindra skuldbindinga var stofnað, hafi það verið mat umboðsmanns skuldara að kærandi hafi tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans og að hann hafi stofnað til skulda þegar hann hafi greinilega verið ófær um að standa við fyrri skuldbindingar sínar.
Með vísan til þessa telur umboðsmaður óhæfilegt að veita skuldara heimild til greiðsluaðlögunar skv. 2. mgr. 6. gr. lge.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggir á 2. mgr. 6. gr. lge., einkum með tilliti til b- og c-liða. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Samkvæmt b-lið skal við mat á því taka sérstakt tillit til þess hvort stofnað hafi verið til skulda á þeim tíma er skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar, og samkvæmt c-lið skal tekið tillit til þess hvort skuldari hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.
Umboðsmaður skuldara bendir á að skuldbindingar þær er kærandi stofnaði til árið 2007 hafi ekki verið í neinu samræmi við greiðslugetu umsækjanda. Þegar gögn málsins séu metin í heild sé það mat umboðsmanns skuldara að með þeirri miklu skuldasöfnun sem þar komi fram hafi umsækjandi tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað. Á þeim grundvelli tók umboðsmaður skuldara ákvörðun um að óhæfilegt þætti að veita umsækjanda heimild til að leita greiðsluaðlögunar, með vísan til 2. mgr. 6. gr. lge. og var umsókninni því synjað.
Í gögnum málsins kemur fram að tekjur kæranda hafi árið 2007 verið að meðaltali 56.034 krónur. Kemur þar einnig fram að sama ár hafi hann ákveðið að stækka við sig húsnæði og festa kaup á fasteigninni að B-götu nr. 23, í sveitarfélaginu C, ásamt því að festa kaup á tveimur bifreiðum og stofnað til reksturs um sendibifreiðina. Afborganir vegna skuldbindinga kæranda í byrjun árs 2008 voru áætlaðar 243.401 króna án tillits til framfærslukostnaðar og afborgana annarra skulda.
Þegar litið er til þess að á sama tíma og kærandi tók á sig veigamiklar skuldbindingar voru tekjur hans lægri en afborganir af lánum hans einar og sér, óháð öðrum útgjöldum, svo sem framfærslu og húsnæðiskostnaði, er hafið yfir vafa að skuldari var þá greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar í skilningi b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Með skuldasöfnun þessari á þeim tíma verður enn fremur að telja að kærandi hafi hagað fjármálum sínum með þeim hætti sem getið er í c-lið 2. mgr. 6. gr. lge., þ.e. á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Segir kærandi raunar sjálfur í kæru sinni til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála að hann hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt á árinu 2007.
Með vísan til alls framangreinds er ákvörðun umboðsmanns um að óhæfilegt sé að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar, sbr. 2. mgr 6. gr. lge., staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.
Einar Páll Tamimi
Arndís Anna K. Gunnarsdóttir
Kristrún Heimisdóttir