Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 32/2011

Þriðjudaginn 20. nóvember 2012

 A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Einar Páll Tamimi formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Kristrún Heimisdóttir.

Þann 24. júní 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 14. júní 2011, þar sem umsókn þeirra um heimild til greiðsluaðlögunar einstaklinga var hafnað.

Með bréfi, dags. 29. júní 2011, óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara, sem barst með bréfi, dags. 12. júlí 2011.

Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kærendum til kynningar með bréfi, dags. 14. júlí 2011, og var kærendum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust frá kærendum með tölvupósti hinn 25. júlí 2011. Voru athugasemdir kærenda sendar umboðsmanni skuldara með bréfi, dags. 4. ágúst 2011, sem skilaði framhaldsgreinargerð sinni hinn 17. ágúst 2011.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru 52 og 56 ára og búa í eigin húsnæði að C-götu nr. 23 í sveitarfélaginu D. Heildarskuldir kærenda eru 134.462.715 krónur. Samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara falla 45.240 krónur utan samnings.

Kærendur lögðu inn umsókn um greiðsluaðlögun þann 10. nóvember 2010 og var umsóknin tekin til afgreiðslu í maí 2011. Með tölvupósti umboðsmanns skuldara til umboðsmanns kærenda, dags. 11. maí 2011, var þess óskað kærendur legðu fram greinargerð og sundurliðaðar upplýsingar um skuldbindingar sínar innan þriggja daga. Sama dag barst umboðsmanni skuldara svar umboðsmanns kærenda um að upplýsingarnar myndu berast hið fyrsta. Engin gögn bárust innan tilskilins tíma. Þann 25. maí 2011 var umboðsmanni kærenda sent ábyrgðarbréf þar sem beiðni um framangreind gögn var ítrekuð. Bréfið var endursent umboðsmanni skuldara þar sem viðtakandi fannst ekki á lögheimili sínu. Kærendum var einnig sent bréf, dags. 25. maí 2011, sama efnis. Tilkynning um bréfið var skilin eftir á heimili þeirra þann 26. maí. Þá var kærendum send ítrekun þann 3. júní 2011 en bréfið ekki sótt. Loks var að sögn umboðsmanns skuldara reynt að hafa samband við kærendur í uppgefin símanúmer en án árangurs.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 10. júní 2011, var umsókn kærenda um greiðsluaðlögun hafnað með vísan til þess að fyrirliggjandi gögn gæfu ekki nægjanlega glögga mynd af fjárhag skuldara, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.).

Í greinargerð umboðsmanns kærenda sem send var umboðsmanni skuldara með tölvubréfi 24. júní 2011, 14 dögum eftir að ákvörðun umboðsmanns skuldara lá fyrir, kemur fram að kærendur eigi einbýlishús að verðmæti 42.000.000 króna sem lítið hafi hvílt á, eða um 5.000.000 króna. Árið 2007 hafi þrjú börn þeirra enn búið hjá þeim og hafi þau viljað freista þess að byggja tvö raðhús með stuðningi þeirra. Ætlunin hafi verið að flytja í hluta annars húsanna en hitt hafi átt að selja einhverju barnanna eða hugsanlega þriðja aðila. Kostnaðaráætlun húsanna hafi verið samtals að fjárhæð 45.000.000 króna að lóðum meðtöldum. Lóðir hafi verið keyptar undir húsin árið 2007 og hafi framkvæmdir hafist stuttu síðar. Tekin hafi verið erlend lán, lífeyrissjóðslán og yfirdráttur til að fjármagna framkvæmdirnar. Árið 2008 hafi lánin stökkbreyst í fjárhæðum og verið kærendum um megn.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur krefjast þess að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun verði samþykkt. Umboðsmaður skuldara hafi ítrekað óskað eftir greinargerð og ítarlegri gögnum vegna umsóknar þeirra en vegna misskilnings og ókunnugleika hafi ekki verið ljóst hver ætti að sinna þeirri beiðni umboðsmanns skuldara. Nú hafi verið bætt úr þeim ágalla og hafi umboðsmaður skuldara móttekið öll umbeðin gögn þannig að ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að embættið afgreiði umsókn kærenda.

Í athugasemdum umboðsmanns kærenda, dags. 25. júlí 2011, við greinargerð umboðsmanns skuldara er bent á að í kjölfar breytinga á lge., þar sem einstaklingum hafi verið veitt greiðsluskjól, hafi vinnureglur umboðsmanns skuldara breyst á þann veg að einungis þyrfti að leggja fram frumgögn en þess hafi ekki lengur verið krafist að umsóknir uppfylltu ýtrustu kröfur laganna. Erfitt hafi verið að gera áætlanir um hvenær þyrfti að sinna frekari upplýsingagjöf þar sem upplýsingar um málsmeðferðarhraða embættisins hafi verið misvísandi. Því hafi verið fullkomlega óljóst, í það minnsta opinberlega, hver málsmeðferðarhraði embættisins væri í raun.

Þá kveðst umboðsmaður kærenda hafa verið að sinna fjölmörgum málum á þessum tíma og hafi borið á því að beiðnir um upplýsingar hafi borist frá umboðsmanni skuldara án þess að tiltekið væri til dæmis hvaða umsækjandi ætti í hlut. Ýmislegt hafi því verið ófullkomið í ferlinu og auðvelt að sjá að hvernig það gæti leitt til mistaka. Einnig bendir umboðsmaður kærenda á að hann hafi flutt lögheimili sitt 10. febrúar 2011. Verði því að álykta að þjóðskrá umboðsmanns skuldara hafi ekki verið uppfærð þar sem upplýsingar um heimilisfang hans hafi verið réttar í þjóðskrá síðan í febrúar 2011. Einnig hafi umboðsmanni kærenda borist ábyrgðarbréf á þessum tíma frá öðrum aðilum. Hafi umrætt ábyrgðarbréf umboðsmanns skuldara verið forsenda þess hægt væri að taka ákvörðun í málinu verði einnig að ætla að það þyrfti að vera sent með fullnægjandi hætti. Í ljósi framangreinds hafi svo ekki verið.

Segir umboðsmaður kærenda þá að kærendur sjálf hafi verið í sumarfríi frá miðjum maí og fram yfir miðjan júnímánuð. Engin leið hafi verið fyrir kærendur að vita fyrirfram hvenær mál þeirra yrði tekið fyrir þannig að þau væru til staðar þegar á þyrfti að halda. Þegar tekið sé tillit til þess að um sumarmánuð var að ræða, þess að margir mánuðir voru liðnir frá umsókn og til þeirrar óvissu sem ríkir um málsmeðferð embættisins, hefði umboðsmaður skuldara mátt ætla að það gæti tekið lengri tíma að nálgast upplýsingar frá kærendum.

Umboðsmaður kærenda bendir á að umboðsmaður skuldara hafi verið í samskiptum við sig á umræddu tímabili vegna annarra mála. Þannig hafi farið milli hans og embættisins um 75 tölvupóstar af ýmsu tagi. Sýni þetta fram á að ágallar í tölvukerfi embættisins séu ein örsök þess að ekki hafi tekist að afla umræddra upplýsinga.

Þá gerir umboðsmaður kærenda jafnframt athugasemdir við beitingu b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. í málinu. Segir hann þau lagarök einungis geta komið til álita að uppfylltum kröfum stjórnsýslulaga um vandaða málsmeðferð. Bendir umboðsmaður kærenda á að ákvörðun umboðsmanns skuldara sé verulega íþyngjandi fyrir kærendur og því verði að fylgja kröfum stjórnsýslulaga um vandaða málsmeðferð.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar ef hann sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Sé þá miðað við að hann geti ekki eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skuldanna, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hans að öðru leyti, sbr. 2. gr. lge.

Við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni skuldara einkum að kanna hvort fyrir liggi ástæður sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. laganna. Starfsmenn embættisins hafi ítrekað óskað eftir frekari gögnum og upplýsingum frá kærendum og umboðsmanni þeirra vegna umsóknarinnar, en þau ekki borist. Fyrirliggjandi gögn hafi ekki gefið nægilega glögga mynd af fjárhag kærenda og/eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Af þeim sökum hafi umboðsmanni skuldara borið að synja umsókn um greiðsluaðlögun á grundvelli b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.

Í greinargerð umboðsmanns skuldara, dags. 12. júlí 2011, kemur fram að þegar mál umsækjenda hafi verið tekið til formlegrar afgreiðslu hafi engar upplýsingar legið fyrir um málsatvik eða tilurð skulda kærenda, enda hefðu hvorki kærendur né umboðsmaður kærenda skilað inn greinargerð með frekari skýringum á fjárhagserfiðleikum sínum. Kærendum hafi verið veittur ríflegur frestur til að leggja fram viðeigandi gögn og gefa upplýsingar en ekki hafi verið orðið við því af þeirra hálfu. Tölvupóstur hafi verið sendur umboðsmanni kærenda þann 11. maí 2011 þar sem beðið hafi verið um þau gögn sem vantaði. Hafi komið fram í þeim tölvupósti hvaða gögn væru nauðsynleg til að taka ákvörðun og hvaða afleiðingar það gæti haft yrðu upplýsingar ekki veittar. Var þeim tölvupósti svarað á þann veg af hálfu umboðsmanns kærenda að gögnin myndu berast hið fyrsta. Ítrekað hafi síðan verið reynt að ná í kærendur og umboðsmann þeirra en án árangurs. Engin gögn hafi því borist embættinu innan tilskilins tíma.

Hvað varðar þær mótbárur umboðsmanns kærenda að ábyrgðarbréfið frá 25. maí 2011 hafi ekki verið stílað á rétt heimilisfang bendir umboðsmaður skuldara á að stjórnvaldi sé ekki skylt að senda ítrekun á beiðni um umsögn. Miðað við aðstæður í málinu hafi ekki verið nauðsynlegt að senda ítrekun, enda ekkert sem benti til annars en að beiðni um upplýsingar hefði borist til þess aðila sem var til þess bær að taka við henni, sbr. svar umboðsmanns kærenda við áðurnefndum tölvupósti frá 11. maí 2011.

Umboðsmaður skuldara bendir á að greinargerð kærenda sem barst embættinu 24. júní 2011 hafi verið of seint framkomin. Þá verði ekki séð að hún ein og sér fullnægi upplýsingum sem óskað var eftir. Gera verði þá kröfu til kærenda að þau afli þeirra gagna sem nauðsynleg séu til að flýta vinnslu máls. Í 2. málsl. 4. mgr. 4. gr. lge. sé kveðið á um að skuldari skuli sjálfur útvega nauðsynleg gögn og koma þeim til umboðsmanns skuldara. Umboðsmanni skuldara hafi því borið lagaleg skylda til þess að synja umsókninni á grundvelli b-liðar 1. mgr. 6. gr. laganna.

Í framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara, dags. 17. ágúst 2011, hafnar embættið því að samskipti við umboðsmann kærenda hafi getað valdið misskilningi, enda hafi komið skýrlega fram í tölvubréfi embættisins, frá 11. maí 2011, til umboðsmanns kærenda, um hvaða umbjóðendur hans væri þar að ræða. Þá hafi viðbrögð umboðsmanns kærenda í tölvubréfi daginn eftir ekki gefið tilefni til að ætla annað en hann væri að öllu leyti ábyrgur fyrir málinu og því hafi ekki verið ástæða til að hafa samband beint við kærendur. Fortakslaus skylda hvíli á umboðsmanni skuldara samkvæmt stjórnsýslulögum að setja fresti þegar óskað sé umsagnar, hvort sem er frá aðila máls, forsvarsmanni hans eða öðrum, sbr. 2. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Í skilningi stjórnsýslulaga sé beiðni um upplýsingar frá embættinu sem beint er til umsækjenda um greiðsluaðlögun sama eðlis og beiðni um umsögn frá aðila máls. Stjórnvaldi sé aftur á móti ekki skylt að senda ítrekun á beiðni um umsögn. Miðað við aðstæður í máli kærenda hafi ekki verið nauðsynlegt að senda ítrekun, enda ekkert sem benti til annars en að beiðni um upplýsingar hefði komist til skila.

Þá bendir umboðsmaður skuldara á að ekki hafi verið tilefni til að ætla að umboðsmaður kærenda hefði skipt um heimilisfang. Verði að leggja þá ábyrgð á umboðsmann kærenda, vegna þeirrar stöðu sem hann gegnir gagnvart umbjóðendum sínum, að hann upplýsi embættið um breytta starfsstöð sína. Hafi hann mátt vita að von væri á niðurstöðu í máli kærenda og að það gæti orðið umbjóðendum hans til tjóns ef ekki næðist samband við hann eða póstur bærist honum ekki. Þá sé ljóst að umboðsmaður kærenda hafi vitað af fjarveru kærenda og að hvers kyns tilkynningar um ábyrgðarpóst myndu af þeim sökum ekki koma til vitundar þeirra á þeim tíma. Hafi því hvílt enn frekari ábyrgð á honum um að sinna máli umbjóðenda sinna.

Hvað varði beitingu b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. bendir umboðsmaður skuldara á að þrátt fyrir að embættið telji sig ekki að fullu bundið við dómvenju og framkvæmd þágildandi reglna í X. kafla a laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, þá veiti þær reglur mikilvæga leiðsögn varðandi túlkun núgildandi laga um greiðsluaðlögun. Þannig hafi í dómi Hæstaréttar frá 23. júlí 2009 í máli nr. 382/2009 verið synjað beiðni um greiðsluaðlögun vegna þess að ekki bárust upplýsingar sem voru mikilsverðar til að meta ákveðna þætti varðandi fjárhagsstöðu beiðandans. Um hafi verið að ræða reglu þágildandi ákvæðis 1. tölul. 1. mgr. 63. d laga nr. 21/1991 sem kvað á um sambærilega reglu og b-liður 1. mgr. 6. gr. lge. gerir nú.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggir á b-lið 1. mgr. 6. gr. lge., en þar er kveðið á um skyldu umboðsmanns skuldara til að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Byggist ákvörðunin á því að kærendur hafi ekki lagt fram fullnægjandi göng með umsókn sinni um greiðsluaðlögun. Ítrekað hafi verið beðið um frekari gögn en engin gögn hafi borist.

Í umsókn kærenda um greiðsluaðlögun sem móttekin var af umboðsmanni skuldara þann 10. nóvember 2010 er merkt við að umsækjendur hafi skilað skattframtölum síðustu fjögurra ára, upplýsingar um tekjur síðustu þriggja mánaða, vottorð um fjölskyldu- og hjúskaparstöðu, síðustu greiðsluseðla allra lána og skuldbindinga og undirritað samþykki fyrir gagnaöflun sem og veflykill vegna skattframtals. Í beiðnum umboðsmanns skuldara um frekari upplýsingar kemur fram að til þess að hægt sé að ljúka vinnslu umsóknar vanti í fyrsta lagi greinargerð umsækjenda. Þá vanti í öðru lagi sundurliðaðar skýringar að baki hverri og einni skuldbindingu umsækjenda, þ. á m. hver ástæða lántöku hafi verið og/eða í hvað peningunum var varið. Enn fremur eftir atvikum ástæður þess að vanskil urðu á skuldbindingum.

Kærendur telja að endurskoða beri ákvörðun umboðsmanns í máli þeirra á grundvelli gagna sem lögð hafa verið fram nú. Vegna þess hversu seint gögn bárust frá kærendum hafa efnisatriði umsóknar kærenda ekki fengið umfjöllun hjá embætti umboðsmanns skuldara. Samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. ber umboðsmanni skuldara skylda til að synja um greiðsluaðlögun gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar, og er það sú ákvörðun sem er til skoðunar hjá kærunefndinni. Þá verður að líta til þess að kærendur hafa notið greiðsluskjóls allt frá 10. nóvember 2010.

Með vísan til alls framangreinds er fallist á það með umboðsmanni skuldara að kærendur hafi ekki skilað fullnægjandi gögnum á tilskildum tíma til þess að hægt væri að taka umsókn þeirra til afgreiðslu. Er ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kærendum um heimild til að leita greiðsluaðlögunar á grundvelli b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. því staðfest. 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Einar Páll Tamimi

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Kristrún Heimisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta