Mál nr. 52/2012
Föstudagurinn 12. apríl 2013
A
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Einar Páll Tamimi formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Þórhildur Líndal.
Þann 27. febrúar 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 13. febrúar 2012, þar sem synjað var kröfu bankans um breytingu á samningi B um greiðsluaðlögun.
Með bréfi, dags. 5. mars 2012, óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 20. apríl 2012.
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 26. apríl 2012 og var kæranda gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.
I. Málsatvik
Með bréfi kæranda til umboðsmanns skuldara, dags. 2. febrúar 2012, var þess krafist með vísan til 1. mgr. 25. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.), að samningi skuldara, B, verði breytt í samræmi við útborguð laun. Bendir kærandi á að í frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun umrædds einstaklings komi fram að hann sé kominn með útborguð laun um 240.000 krónur á mánuði. Einnig komi fram í frumvarpinu að greiðslugeta hans sé neikvæð um 39.305 krónur á mánuði og ekki hægt að leggja til grundvallar að það breytist í fyrirsjáanlegri framtíð.
Afstaða kæranda til frumvarpsins hafi byggt á framangreindum upplýsingum enda hafi ekki verið ástæða til að vefengja upplýsingar sem þar komu fram í ljósi rannsóknarskyldu umboðsmanns skuldara skv. 5. gr. lge. Nú hafi kærandi hins vegar fengið upplýsingar um að útborguð laun skuldara séu að meðaltali 335.640 krónur. Umsjónarmaður sendi út frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun 5. október 2011 og var andmælafrestur til 26. október 2011. Fyrsti útborgunardagur skuldara var 14. október 2011. Samningur til greiðsluaðlögunar var staðfestur af umboðsmanni skuldara 24. nóvember 2011.
Að framangreindu virtu sé ljóst að tekjur skuldara þegar samningur var staðfestur voru ekki í samræmi við það sem fram hafi komið í frumvarpinu. Þá hafi skuldari jafnframt vanrækt upplýsingaskyldu sína skv. 27. gr. lge. en samkvæmt ákvæðinu ber skuldara að upplýsa lánardrottna ef upp koma aðstæður sem veita lánardrottnum rétt til að krefjast breytinga á samningi um greiðsluaðlögun, ógildingu hans eða riftun.
Mat kæranda sé að um verulega aukningu tekna sé að ræða hjá skuldara. Útborguð laun séu um 90.000 krónum hærri en gert var ráð fyrir og sé greiðslugeta skuldara nú orðin jákvæð um 56.335 krónur. Með vísan til þess að laun skuldara voru mun hærri en gert var ráð fyrir ályktar kærandi að skuldari hafi með ráðnum hug eða grófri vanrækslu veitt rangar upplýsingar um tekjur í greiðsluaðlögunarumleitunum og hefði átt að synja skuldara um heimild til greiðsluaðlögunar á þeim grundvelli, sbr. d-lið 1. mgr. 6. gr. lge.
Með vísan til 1. mgr. 25. gr. lge., sbr. 26. gr. laganna, fór kærandi fram á við umboðsmann skuldara að samningi skuldara yrði breytt í samræmi við útborguð laun.
Í ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 13. febrúar 2012, kemur fram að skv. 1. mgr. 25. gr. lge. geti lánardrottinn, sem greiðsluaðlögun nær til, krafist þess að breytingar verði gerðar á greiðsluaðlögun ef fjárhagsstaða skuldara batnar umtalsvert á greiðsluaðlögunartímabili. Samningur skuldara fól í sér algjöra eftirgjöf allra samningskrafna við undirritun samnings og því ekki um neitt greiðsluaðlögunartímabil að ræða. Að mati umboðsmanns skuldara sé ekki hægt að líta fram hjá skýru orðalagi 1. mgr. 25. gr. lge. þar sem kveðið er á um að einungis sé hægt að krefjast breytinga á samningi á greiðsluaðlögunartímabili.
Með vísan til framangreinds synjaði umboðsmaður skuldara kæranda um breytingu á samningi um greiðsluaðlögun.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru kemur fram að kærandi sé ekki sammála túlkun umboðsmanns skuldara enda hafi legið fyrir áður en samningur um greiðsluaðlögun komst á að fjárhagsstaða skuldara var betri en frumvarp til samnings gerði ráð fyrir. Sú staðreynd að ekkert greiðsluaðlögunartímabil hafi verið ákveðið í samningnum eigi ekki að koma í veg fyrir leiðréttingu á samningum, sér í lagi ekki þar sem skuldari hafi vitað eða hefði mátt vita um breytta stöðu sína áður en hann hafi undirritað samning um greiðsluaðlögun.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Í greinargerð umboðsmanns skuldara, dags. 18. apríl 2012, kemur fram að í hinni kærðu ákvörðun sé ítarlegur rökstuðningur fyrir synjun með vísan til þess að skilyrði fyrir heimild til breytinga á samningi skv. 25. gr. lge. hafi ekki verið uppfyllt. Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. lge. getur lánardrottinn, sem greiðsluaðlögun nær til, krafist þess að gerðar verði breytingar á greiðsluaðlögun ef fjárhagsstaða skuldara batnar umtalsvert á greiðsluaðlögunartímabili. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til lge. segir:
„Í greininni er fjallað um tilvik þegar lánardrottinn getur lagt fram kröfu um breytingu á skilmálum samnings um greiðsluaðlögun á greiðsluaðlögunartímabilinu. Þetta getur einkum orðið þegar fjárhagsstaða skuldara hefur batnað mikið frá því sem var þegar skilmálar samningsins voru samþykktir. Lánardrottnar geta ekki sett fram slíka kröfu nema fjárhagsstaða skuldara hafi batnað verulega. Meta þarf hverju sinni hvort fjárhagsstaða skuldara hafi breyst svo að það veiti kröfuhöfum möguleika á því að gera slíka kröfu. Við skýringu á þessari grein verður þó að horfa til þess að greiðsluaðlögun var komið á miðað við fjárhagsstöðu skuldara á þeim tíma. Hugsunin er sú að skuldari geti endurskipulagt fjármál sín og byrjað upp á nýtt. Greinina má ekki skýra á þann hátt að það letji skuldara til að afla eins mikilla tekna og honum er kostur. Því skal ekki taka tillit til þess ef fjárhagsstaða skuldara batnar vegna eigin vinnu skuldara eða bættra launakjara hans, nema um verulega aukningu tekna sé að ræða. Þegar skuldarinn fær háa eingreiðslu á greiðsluaðlögunartímabilinu, t.d. arf eða annað þess háttar, getur lánardrottinn krafist þess að fénu verði skipt að hluta eða að fullu milli kröfuhafa án þess að greiðsluaðlöguninni sé breytt að öðru leyti. Þá er sama afborgunarfjárhæð greidd áfram en lánardrottnar fá hlutdeild í ávinningnum samkvæmt samkomulagi við skuldara eða ákvörðun umboðsmanns.“
Samkvæmt skýru orðalagi ákvæðisins skal krafa um breytingu lánardrottins tekin til greina hafi greiðslugeta skuldara batnað mikið á greiðsluaðlögunartímabilinu. Í hinu samþykkta frumvarpi til greiðsluaðlögunar, er tók gildi 24. nóvember 2011, er greiðsluaðlögun skuldara hins vegar ekki markaður sérstakur tími eftir samþykkt þess og telst greiðsluaðlögunartímanum því lokið við samþykkt frumvarpsins.
Með vísan til framangreinds eru ákvörðun umboðsmanns skuldara staðfest með vísan til forsenda hennar.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að hafna kröfu A á breytingu á greiðsluaðlögunarsamningi B er staðfest.
Einar Páll Tamimi
Arndís Anna K. Gunnarsdóttir
Þórhildur Líndal