Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 554/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

 

Mál nr. 554/2023
Miðvikudaginn 9. febrúar 2024

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

ÚRSKURÐUR

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Þann 18. nóvember 2023 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 15. nóvember 2023, þar sem umsókn kæranda um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi, dags. 9. janúar 2024, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 16. janúar 2024. Greinargerð umboðsmanns var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 18. janúar 2023, og var honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi, sem er fæddur X, lagði fram umsókn um aðstoð vegna fjárhagsvanda 22. mars 2023. Þann 2. október s. á. óskaði kærandi eftir því að umsókn hans yrði breytt í umsókn um greiðsluaðlögun einstaklinga. Með bréfi, dags. 20. október 2023, var kæranda tilkynnt að við meðferð málsins hefðu komið í ljós atriði sem leitt gætu til synjunar um heimild til greiðsluaðlögunar. Með bréfinu var kæranda veitt færi á að leggja fram frekari gögn í málinu og láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun um afgreiðslu umsóknar yrði tekin. Viðbrögð kæranda bárust með tölvupóstum á tímabilinu 23. október  til 9. nóvember 2023. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 15. nóvember 2023, var umsókn kæranda synjað á grundvelli b-liðar 1. mgr. 6. gr. og b-liðar 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki sérstakar kröfur í málinu en skilja verður kæru hans svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja honum um heimild til að leita greiðsluaðlögunar verði felld úr gildi.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í hinni kærðu ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 15. nóvember 2023, er vísað til þess að í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. sé kveðið á um að synja skuli um heimild til að leita greiðsluaðlögunar, gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.

Í 4. gr. lge. séu raktar þær upplýsingar og þau gögn sem skuldara beri að leggja fram þegar sótt sé um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Samkvæmt 4. tl. 1.mgr. 4. gr. lge. skuli koma fram í umsókn hverjar tekjur skuldara séu, hvort sem sé af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðast, svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum. Jafnframt skuli greina hvort hann muni hafa aðra fjármuni en vinnutekjur sínar til að greiða af skuldum, svo sem vegna sölu eigna eða fjárframlaga annarra. Í 3. mgr. ákvæðisins sé svo kveðið á um að með umsókn skuli m.a. fylgja með gögn til staðfestingar þeim upplýsingum sem hún hefur að geyma.

Í greinargerð frumvarps til laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga komi fram í athugasemdum við 4. gr. laganna að upptalning 4. gr. sé ekki tæmandi, enda sé gert ráð fyrir að umboðsmaður skuldara geti krafist þess að skuldari afli frekari upplýsinga en tilgreindar séu í ákvæðinu. Samkvæmt lögum um greiðsluaðlögun skuli umboðsmaður skuldara annast upplýsingaöflun vegna umsóknar um greiðsluaðlögun. Í greinargerð með frumvarpi til laga um greiðsluaðlögun komi hins vegar fram að eigi umboðsmaður skuldara erfitt um vik að nálgast einhver gögn, sé það á ábyrgð skuldarans að afla þeirra.

Í 5. gr. sé jafnframt kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn skuldara komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og geti hann, ef þörf krefur krafist þess að skuldari staðfesti uppgefnar upplýsingar með skriflegum gögnum.

Kaup og sala bifreiða

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum seldi kærandi tvær bifreiðar þann 27. febrúar 2023. Annars vegar bifreiðina X, sem sé bifreið af gerðinni Ford Galaxy, árgerð 2008. Svo virðist sem B hafi keypt bifreiðina af kæranda hinn sama dag. .

Hins vegar bifreiðina X, sem sé bifreið af gerðinni Opel …, árgerð 2007. Bifreiðin hafi verið keypt þann 15. júní 2022. Samkvæmt upplýsingum úr skattframtali umsækjanda frá 2023 hafi verðmæti bifreiðarinnar X numið 400.000 kr. við lok árs 2022. Kaupandi bifreiðarinnar hafi verið C.

Með bréfi embættisins, dags. 20. október 2023, óskaði umboðsmaður skuldara eftir upplýsingum, studdum gögnum, sem sýndu fram á kaup- og söluverð framangreindra tveggja bifreiða. Þá hafi jafnframt verið óskað eftir upplýsingum um það hvernig söluverði bifreiðanna hafi verið ráðstafað.

Kærandi hafi veitt eftirfarandi upplýsingar með tölvupóstum dags. 23. október sl.:

„Hi yes about that car is not mine the Opel X is only put in nty name but my ex-wife have that and the X Ford galaxy is in my mother's name only that is my ex wife using for driving my kids to school and the opel is broken already trash . And now i don't have no car“

„Both car not selling with money only put selling but no money“

Að mati embættisins hafi ofangreindar upplýsingar ekki verið nægjanlegar og staðan enn óljós hvað framangreindar bifreiðar varðaði. Með tölvupósti til kæranda, dags. 23. október 2023, hafi embættið óskað eftir skýringum á því hvers vegna bifreiðin af gerðinni Ford væri ekki á nafni kæranda. Þá hafi verið óskað eftir fjárskiptasamningi í kjölfar skilnaðar sem kærandi vísaði til í umsókn sinni um aðstoð vegna fjárhagsvanda, sem vonir stóðu til að myndi varpa ljósi á stöðuna hvað bifreiðaeign hans varðaði.

Dagana 23. og 31 . október sl. hafi kærandi veitt eftirfarandi upplýsingar í tölvupósti:

„The car is mine thats why i put in my mother's name hecause her car opel is broken that's why i let her barrow for the children“

„The car waiting to he thrown also to much hroken so it doesn't malter now if i have or not.“

Þann 9. nóvember 2023 hafi kærandi lagt fram samning um fjárskipti vegna skilnaðar dags. 31. mars 2023. Samkvæmt þeim samningi skyldi bifreiðin með skráningarnúmerinu X verða eign C, fyrrum eiginkonu kæranda.

Þann 10. nóvember 2023 hafi kæranda verið sendur tölvupóstur þar sem fram kom að fullnægjandi upplýsingar lægju nú fyrir hvað varðaði Opel bifreiðina, þ.e. bifreiðina með skráningar nr. X. Hins vegar gæfu fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af því hvernig eignarhaldi á Ford bifreiðinni væri háttað. Kæranda hafi verið veittur frestur til 14. nóvember til að leggja fram frekari upplýsingar og gögn.

b-liður 2. mgr. 6. gr. lge.

Fram komi í 2. mgr. 6. gr. lge. að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar þyki óhæfilegt að veita hana. Við mat á slíku skuli taka sérstakt tillit til nánar tilgreindra aðstæðna sem taldar séu upp í stafliðunum a-g í fyrrnefndu ákvæði.

Í b. lið 2. mgr. 6. gr. lge. segir að heimilt sé að synja umsókn um greiðsluaðlögun hafi verið stofnað til skulda á þeim tíma sem skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum séu elstu vanskil á skuldum kæranda frá 2. mars 2020.

Þá sýni þau fram á að útborgaðar tekjur kæranda hafi numið að meðaltali 459.434 kr. á mánuði árið 2020. Tekjurnar hafi samanstaðið af greiðslum frá Fæðingarorlofssjóði, D, E, Atvinnuleysistryggingasjóði, húsnæðis- og barnabótum, auk barnabótaauka. Miðað sé við helming af húsnæðisbótum þar sem gert sé ráð fyrir að kærandi og sambýliskona hans hafi staðið jafnt að framfærslu heimilisins á árinu 2020.

Áætlaður framfærslukostnaður kæranda á árinu 2020 hafi numið 296.662 kr. á mánuði. Framfærslukostnaðurinn byggir á framfærsluviðmiði embættisins frá mars 2020 m.v. einstakling í sambúð með þrjú börn. Samkvæmt upplýsingum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun  hafi húsaleiga kæranda og sambýliskonu hans numið 150.000 kr. á árinu 2020 og þar sem gert sé ráð fyrir að þau hafi staðið jafnt að framfærslu heimilisins hafi verið gert ráð fyrir helmingi af þeirri fjárhæð þegar framfærslukostnaður umsækjanda sé áætlaður. Við framfærslukostnaðinn sé bætt kostnaði vegna líftryggingar, samkvæmt framlögðum gögnum. Að lokum sé kostnaði vegna útvarpsgjalds og gjalds í framkvæmdasjóð aldraðra bætt við framfærslukostnaðinn, sem og mánaðarlegu svigrúmi.

Miðað við framangreindar forsendur um tekjur og framfærslukostnað hafi greiðslugeta kæranda, til greiðslu lána og annarra skuldbindinga, verið jákvæð um 162.772 kr. á árinu 2020.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi tekið lán hjá Netgíró að fjárhæð samtals 1.305.283 kr. á árunum 2018 til 2019. Samanlögð afborgunarfjárhæð þeirra lána hafi numið 92.036 kr. Vanskil á þeim lánum hafi byrjað í janúar 2020. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi gert greiðslusamkomulag við Netgíró þann 5. júní 2020 um greiðslu í kringum 15.000 kr. mánaðarlega af þeim lánum.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hvíli á kæranda skuld vegna kreditkorts frá Arion banka að fjárhæð 1.367.729 kr. Skuldin sé tilkomin vegna úttekta á kreditkorti kæranda á tímabilinu 28. nóvember 2019 til 24. janúar 2020. Gerðar hafi verið þrjár greiðsludreifingar á kreditkortinu. Sú fyrsta þann 28. desember 2019 þar sem skuld að fjárhæð 123.576 kr. hafi verið dreift til 18 mánaða, næst þann 29. janúar 2020 þar sem skuld að fjárhæð 1.020.035 kr. hafi verið dreift til 18 mánaða og að lokum þann 28. febrúar 2020 þar sem skuld að fjárhæð 88.175 kr. hafi verið dreift til 9 mánaða. Samtals hafi afborgunarfjárhæð ofangreindra þriggja greiðsludreifinga numið 83.278 kr. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kreditkortaskuldin verið komin til innheimtu 22. júlí 2020.

Á tímabilinu 27. febrúar 2020 til 24. nóvember 2020 hafi kærandi stofnað til eftirfarandi skulda:

Útgáfudagur

Kröfuhafi

Höfuðstóll

Athugasemdir

Lengd

Vanskil

Afborgun

27.2.2020

Íslandsbanki

1.500.000

Endurfjármögnun

84

1.1.2022

24.541

14.3.2020

Aur

300.000

Lán

24

1.3.2022

14.930

22.4.2020

Aur

500.000

Lán

24

122.022

24.650

1.5.2020

Farsímagreiðslur

175.940

Sportvörur

36

1.2.22.22

6.274

26.6.2020

Íslandsbanki

610.000

v/húsal.ábyrgðar

36

1.3.2022

21.741

5.7.2020

Salt Pay

250.403

Heimkaup

18

1.2.2022

8.807

28.7.2020

Greiðslumiðlun

151.475

Elko/Samsung

36

2.1.2022

6.089

24.11.2020

Greiðslumiðlun

227.970

Eldhaf/i Phone

18

2.1.2022

15.377

 

 

Mánaðarleg afborgunarfjárhæð allra ofangreindra skuldbindinga hafi numið 220.687 kr., að meðtaldri mánaðarlegri afborgun samkvæmt greiðslusamkomulagi við Netgíró og mánaðarlegri afborgun samkvæmt greiðsludreifingum vegna kreditkortaskuldar við Arion banka. Miðað við framangreindar forsendur um tekjur og framfærslukostnað hafi kærandi ekki haft greiðslugetu til að stofna til þeirra lána sem tekin voru eftir 1. maí 2020. Auk þess hafi framangreind skuld vegna kreditkorts frá Arion banka verið í vanskilum þegar lánin frá Salt Pay og Greiðslumiðlun voru tekin.

Þá hafi kærandi að auki stofnað til eftirfarandi skulda á árinu 2021:

Útgáfudagur

Kröfuhafi

Höfuðstóll

Athugasemdir

Lengd

Vanskil

Afborgun

25.2.2021

Farsímagreiðslur

107.288

Sportvörur

36

1.6.2022

4.560

7.4.2021

Landsbankinn

59.000

Lán

60

 

1.327

 

Með áðurnefndu bréfi umboðsmanns skuldara, dags. 20. október 2023, hafi kæranda verið veitt færi á að leggja fram gögn og/eða frekari skýringar á framangreindri lántöku sem sýndu fram á að b-liður 2. mgr. 6. gr. laganna ætti ekki við um lántöku hans, þ.e. að kærandi hefði ekki stofnað til tilgreindra skulda á þeim tíma sem hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar.

Kærandi hafi ekki lagt fram skýringar á framangreindri lántöku þrátt fyrir ítrekanir þar um.

Kæranda hafi verið sent ábyrgðarbréf, dags. 20. október 2023, og hafi í bréfinu verið gerð grein fyrir mikilvægi þess að skýra þar tilgreind álitaefni og leggja fram gögn. Umboðsmaður skuldara telur að kæranda hafi verið veitt færi á að andmæla fyrirsjáanlegri synjun umsóknar um greiðsluaðlögun, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með greindu ábyrgðarbréfi og einnig að framangreind svör kæranda sem borist hafi með tölvupósti breyti ekki niðurstöðu málsins.

Með vísan til framangreinds hafi það verið mat embættisins að fyrirliggjandi gögn gæfu ekki nægilega glögga mynd af eignastöðu kæranda og því hafi borið að synja umsókn kæranda með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Þá hafi það verið mat embættisins að b-liður 2. mgr. 6. gr. lge. hafi jafnframt staðið í vegi fyrir samþykki umsóknar kæranda um greiðsluaðlögun í ljósi þeirra skulda sem kærandi stofnaði til á árinu 2020 líkt og rakið hafi verið.

Í greinargerð umboðsmanns skuldara kemur fram að embættið fari fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Umboðsmanni skuldara ber við mat á umsókn að líta til þeirra aðstæðna sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 1. mgr. greinarinnar komi fram að skylt sé að synja umsókn um greiðsluaðlögun, með vísan til þeirra aðstæðna sem þar eru tilgreindar.

Í hinni kærðu ákvörðun sé ítarlegur rökstuðningur fyrir synjun umsóknar kæranda um greiðsluaðlögun, með vísan til 6. gr. lge. Í hinni kærðu ákvörðun sé einnig farið yfir atvik málsins og hvernig þau heimfærast undir umrædd ákvæði 6. gr. lge.

Við meðferð málsins hafi kæranda verið veitt færi á að gera athugasemdir og leggja fram gögn í málinu vegna þeirra atriða sem þóttu geta leitt til synjunar á umsókn um greiðsluaðlögun. Eftir að hafa skoðað upplýsingar frá kæranda og gögn málsins hafi umboðsmaður skuldara engu að síður komist að þeirri niðurstöðu að synja ætti kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar. Í hinni kærðu ákvörðun sé sú niðurstaða rökstudd og með því hafi verið tekin afstaða til framkominna upplýsinga og gagna.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar byggist á b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. og b-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Í því lagaákvæði eru í sjö stafliðum rakin þau atriði sem umboðsmaður skuldara skal sérstaklega líta til við mat á slíku. Þetta eru ástæður sem eiga það sameiginlegt að byggjast á því að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun, verði vandi hans að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi til lge.

Samkvæmt b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar.

Kærandi sótti um að aðstoð vegna fjárhagsvanda þann 22. mars 2023 en óskaði þann 2. október 2023 eftir því að þeirri umsókn yrði breytt í umsókn um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Kærandi stofnaði til skuldbindinga að mestu árið 2020 og þykir því að mati úrskurðarnefndarinnar rétt að líta til ársins 2020 að því er varðar tekjur og framfærslukostnað kæranda í aðdraganda þess að hann sótti um greiðsluaðlögun.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins var greiðslugeta kæranda, miðað við framfærslukostnað og tekjur, jákvæð um 162.772 kr. í byrjun árs 2020. Á þeim tíma gerði kærandi greiðsludreifingarsamninga vegna kreditkortaskulda hjá Arion banka hf. og námu mánaðarlegar afborganir af þeim 83.278 kr., auk þess sem kærandi gerði greiðslusamkomulag vegna skulda sinna við Netgíró um að greiða 15.000 krónur á mánuði af þeim. Á tímabilinu 27. febrúar 2020 til 24. nóvember 2020 stofnaði kærandi einnig til ýmissa annarra skuldbindinga og námu mánaðarlegar greiðslur vegna þeirra samanlagt 122.409 kr. Samtals námu mánaðarlegar greiðslur kæranda vegna allra þessara skuldbindinga 220.687 kr. og var greiðslugeta kæranda því neikvæð um 57.915 kr. að meðaltali við árslok 2020.

Kærandi veitti ekki engar skýringar á framangreindum lántökum.

Eins og að framan er rakið var greiðslugeta kæranda neikvæð um 57.915 krónur að meðaltali á mánuði við árslok 2020. Í málinu liggur einnig fyrir að kærandi stofnaði til nýrra skuldbindinga samtals að fjárhæð 166.288 kr. árið 2021 og var greiðslubyrði þeirra skuldbindinga 5.887 kr. á mánuði. Úrskurðarnefndin telur því sýnt, með vísan til þess sem að framan greinir, að kærandi hafi stofnað til skuldbindinga sem hann var greinilega ófær um að standa við, fyrst og fremst á árinu 2020 en einnig árið 2021.

Samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. skal synja um heimild til greiðsluaðlögunar gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.

Í skýringum við frumvarp til lge. er fjallað um inntak b-liðar 1. mgr. 6. gr. Þar segir að umboðsmanni skuldara sé skylt að hafna umsókn, gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar, enda sé mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um fjárhagsleg málefni sín. Hér sé einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Áréttað er að skuldari skuli taka virkan þátt í og sýna viðleitni til að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.

Hver sá sem leitar greiðsluaðlögunar skal þannig veita umboðsmanni skuldara ítarlegar upplýsingar og gögn, sbr. 4. og 5. gr. lge. Í þessu felst skylda til að veita allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að greina fjárhagsstöðu viðkomandi til fulls. Með öðru móti verður ekki lagt efnislegt mat á hvort heimilt eða hæfilegt sé að veita skuldara greiðsluaðlögun. Rannsóknarskylda stjórnvalda leysir umsækjanda um greiðsluaðlögun ekki undan þeirri skyldu. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála verður ekki séð að kærandi hafi veitt fullnægjandi skýringar varðandi kaup og sölu bifreiðarinnar X, auk þess sem upplýsingar skortir um hvernig söluverði bifreiðarinnar var ráðstafað. Fjárhagur kæranda verður því að teljast óljós að þessu leyti.

Með vísan til alls þess, sem hér hefur verið rakið, bar að synja umsókn kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar á grundvelli b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. og b-liðar 1. mgr. 6. gr.  Ákvörðun umboðsmanns skuldara er samkvæmt því staðfest.

 

 


 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja umsókn A, um heimild til að leita greiðsluaðlögunar, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta