Mál nr. 163/2012
Föstudaginn 10. maí 2013
A
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Lára Sverrisdóttir og Kristrún Heimisdóttir.
Þann 17. ágúst 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 3. ágúst 2012, þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.
Með bréfi, dags. 24. ágúst 2012, óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 30. ágúst 2012.
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 5. september 2012 og var kæranda gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 19. september 2012.
Með bréfi, dags. 20. september 2012, óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 25. september 2012.
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, 26. september 2012, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 10. október 2012.
Með bréfi kærunefndarinnar, dags. 22. mars 2013, til kæranda var bent á rétt hans til að leggja fram gögn máli sínu til stuðnings enda gæti kærunefndin komist að efnislegri niðurstöðu í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Athugasemdir kæranda og fyrirspurn um gögn málsins bárust með bréfi, dags. 5. apríl 2013.
Með bréfi kærunefndarinnar, dags. 15. apríl 2013, til kæranda var upplýst um gögn málsins og ítrekað að kæranda væri heimilt að leggja fram gögn í málinu. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 29. apríl 2013, þar sem fram komu upplýsingar um skuldir og ábyrgðir kæranda ásamt gögnum.
I. Málsatvik
Kærandi er fimmtugur og býr að B í sveitarfélaginu C í leiguhúsnæði. Hann á eina dóttur sem býr jöfnum höndum hjá honum og móður sinni.
Kærandi hefur verið sjálfstætt starfandi og stundað ýmis viðskipti í gegnum tíðina. Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 1.930.800.505 krónur og falla þar af 8.198.542 krónur utan samnings um greiðsluaðlögun. Til helstu skuldbindinganna var stofnað á árinu 2005. Þá hefur kærandi tekist á hendur umtalsverðar ábyrgðarskuldbindingar, mestmegnis fyrir félög sem hann er tengdur, en samtals nema þær 3.828.931.935 krónum samkvæmt yfirliti umboðsmanns skuldara.
Samkvæmt tekjuyfirliti umboðsmanns skuldara hafa tekjur kæranda síðastliðin ár verið eftirfarandi: Árið 2008 námu mánaðarlegar tekjur að frádregnum skatti 84.945.037 krónum að meðaltali, árið 2009 voru þær að meðaltali 5.152.939 krónur og 2.042.849 krónur að meðaltali árið 2010.
Kærandi lagði inn umsókn sína um greiðsluaðlögun þann 19. maí 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 12. desember 2011, var umsókn hans hafnað með vísan til þess að óhæfilegt þótti að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar, meðal annars með tilliti til skattskulda kæranda og atvika að öðru leyti, sbr. d- og g-liði 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.).
Með úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 81/2011, dags. 11. maí 2012, var ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 12. desember 2011, felld úr gildi. Niðurstaða kærunefndarinnar var að upplýsingar um heildareignir kæranda og verðmæti hafi verið ófullnægjandi og því ómögulegt að leggja mat á það hvort skattskuld kæranda nemi einhverju með tilliti til fjárhags hans, sbr. d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Þá hafi ekki verið séð að vísan umboðsmanns skuldara til f- og g-liða 2. mgr. 6. gr. hafi verið tæk á meðan óljóst var að hve miklu leyti eignir kæranda gátu staðið undir skuldum hans.
Með ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 3. ágúst 2012, var umsókn kæranda hafnað í annað sinn með vísan til þess að fyrirliggjandi gögn gæfu ekki nægilega glögga mynd af fjárhag kæranda, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge.
II. Sjónarmið kæranda
Í greinargerð kæranda, dags. 17. ágúst 2012, er þess krafist að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála úrskurði að kæranda sé heimiluð greiðsluaðlögun einstaklinga.
Í kæru kemur fram að nú neyðist kærandi í annað sinn að til kæra til kærunefndarinnar ákvörðun umboðsmanns skuldara. Með úrskurði kærunefndarinnar þann 11. maí 2012 var fyrri synjun umboðsmanns skuldara felld úr gildi. Það næsta sem gerðist eftir úrskurðinn var að kæranda bárust tvö bréf frá umboðsmanni skuldara, dags. 15. júní 2012, annars vegar „beiðni um upplýsingar“ og hins vegar „andmælabréf“. Með þessum bréfum hafi meðal annars verið óskað eftir því að kærandi sendi umboðsmanni skuldara ýmsar upplýsingar, skýringar og gögn. Var kæranda veittur frestur til 2. júlí 2012. Með tölvupósti var þess óskað að fresturinn væri framlengdur til 17. ágúst 2012 með vísan til þess að um væri að ræða mikla og tímafreka gagnaöflun sem kærandi þyrfti að leggjast í. Þá væru lögmenn kæranda í sumarfríi meira og minna allan júlímánuð auk þess sem bent var á veikindi kæranda sjálfs. Umboðsmaður skuldara hafi fallist á að veita kæranda viðbótarfrest til 1. ágúst 2012.
Kærandi sendi umboðsmanni skuldara bréf, dags. 29. júlí 2012, móttekið 1. ágúst 2012. Bréfinu fylgdu ýmis gögn sem kærandi taldi að óskað hafi verið eftir. Í bréfi kæranda hafi að auki verið sérstaklega áréttað að hann óskaði eftir fundi með starfsmanni eða starfsmönnum embættisins auk lögmanna í þeim tilgangi að fara yfir umsókn og gögn kæranda og til að veita frekari upplýsingar sem umboðsmaður teldi nauðsynlegar. Kærandi bjóst ekki við öðru en að umboðsmaður skuldara myndi fara yfir þau gögn sem lögð voru fram og boðað yrði til fundar í ágúst 2012.
Umboðsmaður skuldara hafi tekið ákvörðun þann 3. ágúst 2012, eða einungis tveimur virkum dögum eftir að hann móttók bréf og gögn frá kæranda. Um ákvörðun embættisins sé margt að athuga en það sem blasi augljóslega við sé að umboðsmaður skuldara virtist í raun hafa verið löngu búinn að taka þá ákvörðun að synja kæranda um frekari meðferð á beiðni sinni. Í synjun umboðsmanns skuldara sé almennt vísað til þeirra gagna sem kærandi sendi inn. Í hinni kærðu ákvörðun sé hins vegar hvergi getið eða útskýrt að hvaða leyti framlögð gögn séu ófullnægjandi og þá að hvaða leyti það skorti frekari gögn frá kæranda. Umboðsmaður skuldara hafi tekið fram að honum þyki óljóst um þýðingu einstakra gagna en það sé hvorki útskýrt frekar né kæranda gefinn kostur á að færa fram frekari skýringar. Þá veki það athygli að í rökstuðningi fyrir synjuninni komi fram að kærandi hafi haft rúman tíma til að óska eftir fundi með starfsmönnum umboðsmanns skuldara en ekki gert það fyrr en með bréfi 29. júlí 2012. Með öllu sé vandséð að þetta atriði geti verið haldbær forsenda fyrir synjuninni enda standi lagarök ekki til þess að skuldari missi rétt sinn á þennan hátt þó svo hann hafi nýtt þann frest sem honum sé ætlaður í þessum tilgangi. Í þessu sambandi sé vakin athygli á því að ekki hafi komið fram í synjuninni hvenær beiðni kæranda um fund með umboðsmanni skuldara hafi átt að koma fram í síðasta lagi að mati embættisins.
Í framhaldsgreinargerð kæranda, dags. 19. september 2012, kemur fram að ákvörðun umboðsmanns skuldara nú, virðist vera byggð á þeim sjónarmiðum að þau gögn sem kærandi hafi aflað að beiðni embættisins séu ófullnægjandi og að kærandi hafi fullnýtt sér þann frest sem honum var veittur.
Kærandi sem er fjárfestir hafi um langt árabil kosið að takmarka ekki ábyrgð sína með því að rækja starfsemi sína í skjóli einkahlutafélags. Af þeim sökum og með hliðsjón af beiðni umboðsmanns skuldara um gögn og með hliðsjón af umsvifum kæranda, sé ljóst að sú gagnaöflun sem farið yrði í, yrði umfangsmikil og um mikinn fjölda skjala yrði að ræða, eins og komið hafi á daginn. Þessa vinnu hafi kærandi sjálfur lagt í enda hafi það verið vitað fyrirfram að vegna sumarleyfa myndi hann ekki geta notið aðstoðar lögmanna sinna.
Kærandi hafi afhent umboðsmanni skuldara þau gögn sem hann taldi embættið hafa óskað eftir. Þær upplýsingar sem gögnin innihaldi séu mjög umfangsmiklar. Þá varði efni og innihald margra þeirra flókna fjármálagjörninga. Af þeim sökum hafi kærandi eindregið óskað eftir því að hann, auk lögmanna hans, fengi fund með starfsmönnum umboðsmanns skuldara, í þeim tilgangi að gera frekari grein fyrir þessum gögnum, svara spurningum ef upp kæmu og veita embættinu viðbótarupplýsingar ef þörf væri á. Kærandi hafi því ekki átt von á öðru en að boðað yrði til fundar og farið yfir þau atriði sem umboðsmaður skuldara teldi enn óljós.
Umboðsmaður skuldara hafi tekið ákvörðun í málinu 3. ágúst sl., eða einungis tveimur virkum dögum eftir að kærandi afhenti gögn sín. Engu síður hafi embættið talið gögn kæranda ófullkomin, án þess að það hafi verið rökstutt á nokkurn hátt. Jafnframt virtist sem synjun umboðsmanns skuldara hafi byggst á því að kærandi hafi fengið rúma fresti og að ósk hans um fund með starfsmönnum umboðsmanns hafi ekki komið fram fyrr en með bréfi hans, dags. 29. júlí sl. sem embættið móttók 1. ágúst sl. Þessari afstöðu umboðsmanns skuldara mótmælir kærandi harðlega.
Af synjun umboðsmanns skuldara og fyrri samskiptum aðila blasi við sú staðreynd að afstaða embættisins hafi litast af því að kærandi sé fjárfestir sem hafi verið umsvifamikill á þeim vettvangi á síðustu árum. Kærandi hafi kosið að rækja starfsemi sína undir eigin nafni en ekki takmarkað ábyrgð sína í skjóli einkahlutafélags. Afstaða umboðsmanns skuldara beri hins vegar þau merki að fyrst svo sé, sé kærandi nánast með öllu réttindalaus í samningum sínum við lánardrottna. Verði það að teljast sérkennileg nálgun að menn sem ekki feli viðskipti sín á bak við einkahlutafélög séu metnir óverðugir þeirra réttinda sem hinir, sem ekki hafi þann hátt á, njóti. Gagnálykta megi því hér á þann hátt að ef kærandi hefði átt öll viðskipti sín í skjóli einkahlutafélags eða félaga, þá ætti hann öruggt skjól hjá umboðsmanni skuldara. Slík túlkun á stöðu kæranda eigi sér enga stoð í lagaumgjörð umboðsmanns skuldara og sé þessi mismunun algerlega ólíðandi.
Þá vekur kærandi athygli á því að þann Y. september sl. birtist ítarleg blaðagrein í X um málefni kæranda þar sem fjallað er um beiðni hans um greiðsluaðlögun, afdrif fyrri kæru og úrskurðar kærunefndar í því máli og þá kæru sem hér er til umfjöllunar. Af blaðagreininni megi ráða að höfundur hennar hafi haft nákvæmar upplýsingar um beiðni kæranda hjá umboðsmanni skuldara og jafnvel upplýsingar um innihald gagna kæranda. Öll slík gögn og upplýsingar sæti trúnaði og beri starfsmenn umboðsmanns skuldara ríka þagnarskyldu um öll þau mál sem á borð embættisins komi. Hvernig sem X sé að þessum upplýsingum komið sé ljóst að blaðagreinar byggist á svipuðum sjónarmiðum og fram komi í úrskurði umboðsmanns skuldara, að fjárfestir sem hafi rekið starf sitt á sínu nafni sé réttminni en þeir sem hafi rekið starfsemi sína í skjóli einkahlutafélaga. Birting þessarar blaðagreinar sama dag og andmælafrestur kæranda hafi runnið út veki óneitanlega athygli og sé tæpast tilviljun ein.
Í síðari framhaldsgreinargerð kæranda, dags. 10. október 2012, er því lýst að í framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara sé tekið fram að kærandi hafi lagt fram ýmis gögn og jafnframt að það hafi aðeins verið á færi hans sjálfs að skýra, hvort, hverjum og þá með hvaða hætti tilgreindum gögnum hafi verið ætlað að svara fyrirspurnum umboðsmanns skuldara í bréfinu sem kæranda barst 19. júní 2012. Það sé nákvæmlega þetta sem kærandi hafi haft í huga þegar hann í bréfi til umboðsmanns skuldara hafi óskað eftir því að hann fengi fund með starfsmönnum embættisins. Framangreind ummæli umboðsmanns skuldara í framhaldsgreinargerð séu því afar mótsagnarkennd, þar sem annars vegar sé játað að það hafi aðeins verið á færi kæranda sjálfs að skýra gögnin og gera nánar grein fyrir þeim, en á sama tíma sé honum hafnað um að koma með frekari skýringar og svara spurningum á fundi með starfsmönnum embættisins.
Einnig komi fram í framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara að auk þess sem kæranda hafi staðið til boða þjónusta og ráðgjöf embættisins vegna umsóknarinnar, þá hafi honum verið leiðbeint um að hann gæti pantað fund með starfsmönnum, teldi hann þörf á því. Þetta sé enn fremur nákvæmlega það sem kærandi taldi að sér stæði til boða enda forsenda þess að hann óskaði eftir fundi með starfsmönnum umboðsmanns skuldara. Það að fyrirhugaður fundur yrði haldinn innan frestsins að mati embættisins og að skuldara hafi mátt vera það ljóst, sé hins vegar algerlega fráleit staðhæfing og henni mótmælt sem algerri markleysu.
Einnig mótmælir kærandi því sérstaklega að hann hafi á einhvern hátt reynt að tefja málið, þvert á móti hafi ósk hans um fund með starfsmönnum umboðsmanns skuldara verið til þess ætlaður að flýta fyrir vinnu embættisins og þoka umsókn hans áfram.
Þann 29. apríl 2013 bárust kærunefndinni efnislegar athugasemdir kæranda ásamt gögnum. Í athugasemdum kæranda komu fram ábendingar þess efnis að frá því að málið kom til kasta umboðsmanns skuldara hafi tilteknar skuldir kæranda og talsverðar ábyrgðarskuldbindingar fallið niður. Einnig hafi kærandi samið við ríkissjóð um uppgjör á virðisaukaskatti sem og um aðrar kröfur á hendur honum.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Í ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 3. ágúst 2012, kemur fram að umboðsmaður skuldara hafi farið yfir umsókn kæranda og í ljós hafi komið að verulega skorti á upplýsingar í málinu varðandi eignastöðu og afdrif eigna á síðustu árum, að hvaða marki skuldbindingar kæranda stafi frá atvinnurekstri og í hvaða tilgangi kærandi hafi stofnað til skuldbindinga sinna, til að umsókn geti talist fullbúin og þar með tæk til ákvörðunar í skilningi 4. og 5. gr. lge. Þá skorti upplýsingar til þess að fært hefði verið að leggja mat á það hvort óhæfilegt væri að heimila greiðsluaðlögun, sbr. 2. mgr. 6. gr. lge.
Þann 18. júní 2012 hafi kæranda verið send tvö ábyrgðarbréf þar sem óskað hafi verið eftir tilteknum gögnum og upplýsingum sem nauðsynlegar þóttu til þess að upplýsa málið með fullnægjandi hætti, sbr. 4. og 5. gr. lge. og til þess að unnt væri að leggja með fullnægjandi hætti mat á það hvort óhæfilegt væri að heimila greiðsluaðlögun, sbr. 2. mgr. 6. gr. lge. Í bréfunum hafi verið sérstaklega áréttað að ef umbeðin gögn bærust ekki embættinu innan tilgreinds frests bæri umboðsmanni skuldara skylda til að hafna umsókn kæranda um greiðsluaðlögun á grundvelli 1. mgr. 6. gr. lge. Ábyrgðarbréfin hafi verið móttekin af kæranda 19. júní 2012.
Þann 28. júní 2012 hafi lögmaður kæranda óskað eftir viðbótarfresti fyrir hönd kæranda til að skila umbeðnum gögnum. Með tölvupósti 29. júní 2012 hafi viðbótarfrestur verið veittur til 1. ágúst 2012. Í tölvupóstinum hafi verið áréttað að um mjög rúman frest væri að ræða og að ekki yrðu veittir viðbótarfrestir umfram hann.
Þann 1. ágúst 2012 hafi umboðsmanni skuldara borist viðbótagögn kæranda. Ljóst hafi verið að verulega hafi skort á að þau væru fullnægjandi, auk þess sem engin tilraun hafi verið gerð til þess að svara fyrirspurnum embættisins. Þá hafi engar skýringar verið veittar á tilgangi einstakra gagna en óljóst þótti hvaða tilgangi ýmsum þeirra hafi verið ætlað að þjóna við meðferð málsins.
Viðbótargögnunum fylgdi beiðni um frekari fresti eða þar til í fyrsta lagi síðari hluta ágústmánaðar þegar koma mætti á fundi með tveimur lögmönnum kæranda og umboðsmanni skuldara þar sem frekari skýringar yrðu veittar.
Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að til þess sé að líta að kærandi hafi fengið afar rúma fresti til að skila umbeðnum gögnum og svara fyrirspurnum embættisins auk þess sem hann hafi notið aðstoðar hæstaréttarlögmanna við gagnaöflunina. Þá hafi sérstaklega verið áréttað fyrir kæranda að ekki yrðu veittir frekari frestir til að koma umbeðnum gögnum og upplýsingum á framfæri. Með sama hætti liggi fyrir að kærandi hafi haft rúma fresti til að óska eftir fundi með starfsmönnum umboðsmanns skuldara á tilgreindu tímabili en ekki gert.
Á kæranda hvíldi skylda við meðferð málsins til að afla nauðsynlegra gagna, sérstaklega þeirra sem ekki væri á færi annarra að afla. Þá sé ljóst að gera verði þá kröfu að kærandi brygðist við eins fljótt og kostur væri í ljósi þess að hann njóti sérstakrar verndar gegn ráðstöfunum kröfuhafa á meðan umsókn sé til meðferðar á grundvelli tímabundins ákvæðis í lge. um svokallað greiðsluskjól. Þegar allt þetta sé virt hafi ekki þótt fært að veita kæranda frekari fresti til framlagningar gagna.
Það sé því mat umboðsmanns skuldara að fyrirliggjandi gögn hafi ekki gefið nægilega glögga mynd af fjárhag kæranda þrátt fyrir áskoranir um að leggja fram frekari gögn og rúma fresti til framlagningar gagnanna. Af þeim sökum hafi umboðsmanni skuldara borið að synja umsókn um greiðsluaðlögun á grundvelli b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.
Í greinargerð umboðsmanns skuldara, dags. 30. ágúst 2012, kemur fram að embættinu sé skylt að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Til slíkrar synjunar geti aðeins komið ef skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum sé unnt að afla eða gefa svo sem rakið sé í athugasemdum við 6. gr. lge. er fylgdu frumvarpi til laga nr. 101/2010.
Í athugasemdum við 6. gr. lge. sé einnig að finna eftirfarandi skýringu við b-lið 1. mgr. 6. gr. lge:
„Er hér áréttað eins og víða annars staðar í frumvarpi þessu að skuldari skuli taka virkan þátt og sýna viðeigandi viðleitni við að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.“
Samkvæmt þessu megi almennt gera þá kröfu til umsækjenda um greiðsluaðlögun einstaklinga að þeir afli gagna og svari fyrirspurn umboðsmanns skuldara eftir því sem af þeim er krafist. Þá sé ljóst að gera ber þá kröfu til umsækjenda um greiðsluaðlögun, sem njóti sérstakrar verndar gegn ráðstöfunum kröfuhafa á meðan umsókn þeirra er til meðferðar, að þeir bregðist við eins fljótt og kostur er.
Þannig sé ekki fært að líta svo á að umsækjandi um greiðsluaðlögun sem leggi fram gögn, ekki síst ef umfangið er mikið, án þess að veita nokkrar skýringar á því hvaða þýðingu einstökum gögnum sé ætlað að hafa fyrir vinnslu umsóknar hans um greiðsluaðlögun, geti talist hafa staðið við þá skyldu sína að svara fyrirspurnum og skila gögnum innan þeirra fresta sem honum eru veittir. Slík gagnaöflun sé aðeins til þess fallin að tefja vinnslu máls og þyki ekki fela í sér þá viðleitni við upplýsingagjöf sem umsækjenda um greiðsluaðlögun sé ætlað að sýna af sér. Enn fremur sé nauðsynlegt að umboðsmanni skuldara sé unnt að setja umsækjendum um greiðsluaðlögun fresti til gagnaskila og upplýsingagjafar og ljúka málum þeirra sem ekki halda frestina til að koma í veg fyrir misnotkun greiðsluskjóls, sbr. 1. gr. laga nr. 128/2010, en umsækjendur um greiðsluaðlögun gætu að öðrum kosti tafið framgang mála að vild. Ekkert í lge. standi í vegi fyrir því að umsækjandi um greiðsluaðlögun einstaklinga sem fengið hafi synjun á umsókn vegna vanrækslu við upplýsingagjöf, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge., sæki aftur um greiðsluaðlögun.
Í tölvupósti til kæranda 29. júní 2012 var veittur viðbótarfrestur til 1. ágúst 2012 og var áréttað að um rúman frest væri að ræða. Sérstök áhersla var lögð á að fresturinn væri lokafrestur og verði því ekki séð að kærandi hafi haft ástæðu til að ætla að honum yrði veittur a.m.k. 15 daga viðbótarfrestur til að veita umbeðnar skýringar og afla gagna. Verði ekki séð að vanræksla hans á því að skýra tilgang framlagðra gagna eða svara fyrirspurnum, sem lagðar voru fyrir hann í bréfinu frá 15. júní, verði réttlætt með slíkum væntingum.
Ástæða þess að ekki þótti unnt að verða við beiðni kæranda um frest til 17. ágúst 2012, var sú að slíkur frestur þótti of langur, meðal annars með hliðsjón af eðli málsins sem greiðsluskjólsmáls, vegna skyldu kæranda til að afla gagna og svara fyrirspurnum umboðsmanns skuldara eins fljótt og unnt er og vegna þess að þær upplýsingar sem óskað hafði verið eftir vörðuðu allar persónulegan fjárhag kæranda en telja verður samkvæmt því að hann hafi fyrirhafnarlítið getað brugðist fljótt við. Auk þess skal ítrekað að kærandi naut aðstoðar hæstaréttarlögmanna við vinnslu málsins. Með sömu rökum þykir sá frestur sem kæranda var veittur, alls 43 dagar, mjög rúmur og ljóst að tekið hafi verið fullt tillit til umfangs málsins. Til samanburðar hafi umboðsmaður skuldara í þeim málum sem eru umfangsmikil og krafist er ítargagna og/eða færi veitt á andmælum veitt 15 daga frest til að leggja fram gögn.
Enn fremur hafi framsetning bréfanna, frá 15. júní 2012, að mati umboðsmanns skuldara verið skýr og telja verði að kæranda hafi ekki getað dulist hvers var krafist af honum. Þá sé vakin athygli á því í bréfunum að umboðsmaður skuldara bjóði upp á ráðgjöf vegna umsóknar um greiðsluaðlögun og aðstoð við ritun greinargerða sem og almenna ráðgjöf, umsækjendum að kostnaðarlausu. Hafi kærandi þannig talið þörf á fundi með starfsmönnum embættisins eða hann talið efni bréfa að einhverju leyti óljós hafi honum verið í lófa lagið að óska eftir að fundur færi fram innan fresta sem honum höfðu verið veittir til að leggja fram skýringar, gögn og andmæli eða óska eftir aðstoð.
Í framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara, dags. 25. september 2012, kemur fram að fyrirspurnir þær sem lagðar voru fyrir kæranda með bréfi umboðsmanns skuldara, dags. 15. júní 2012, varði allar veigamikil atriði tengd persónulegum fjárhag kæranda. Telja verði samkvæmt því að kærandi hafi fyrirhafnalítið getað svarað þeim fyrirspurnum sem lagðar voru fyrir hann. Ætla verði að kærandi hafi að mestu leyti þegar búið yfir þeirri þekkingu sem nauðsynleg var til að svara fyrirspurnum og tjá sig um efni máls er hann hafi móttekið bréf umboðsmanns skuldara, dags. 19. júní 2012. Til þess sé meðal annars að líta að kærandi sé þaulreyndur í viðskiptum og ætla verði að honum sé kunnugt um helstu atriði er varði hans persónulega fjárhag. Þá hafi kærandi notið aðstoðar við gagnaöflun auk þess sem vakin var athygli hans í bréfi embættisins að honum stæði til boða aðstoð og ráðgjöf. Einnig hafi kæranda verið leiðbeint að panta fund með starfsmönnum umboðsmanns skuldara teldi hann þörf á því.
Það er mat umboðsmanns skuldara að þær upplýsingar sem óskað var eftir frá kæranda hafi verið nauðsynlegar til þess að umsókn hans um greiðsluaðlögun teldist fullbúin og málið nægilega upplýst í skilningi 4. og 5. gr. lge. Upplýsingarnar þóttu enn fremur nauðsynlegar til þess að unnt væri að leggja fullnægjandi mat á það hvort ástæða væri til þess að synja kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar skv. 2. mgr. 6. gr. lge. Kærandi hafði undir meðferð málsins mjög rúma fresti eða alls 43 daga til að svara fyrirspurnum umboðsmanns skuldara og styðja svör sín gögnum en það hafi hann ekki gert. Til þess sé loks að líta að kærandi hafi notið greiðsluskjóls við meðferð umsóknar. Þá sé ljóst að honum hafi verið kynnt sérstaklega sú aðstoð sem honum stóð til boða auk þess sem honum hafi verið leiðbeint um að fresturinn til 1. ágúst 2012 væri lokafrestur til upplýsingagjafar. Telja verður samkvæmt því sem rakið hefur verið að umboðsmanni skuldara hafi verið skylt að synja umsókn kæranda.
IV. Niðurstaða
Samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. skal umsókn um greiðsluaðlögun hafnað ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Er hér um að ræða skyldu umboðsmanns skuldara til að synja um heimild til greiðsluaðlögunar undir þessum kringumstæðum enda mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um allt sem lýtur að fjárhagslegum málefnum hans. Hér er því um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsinga sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Er hér áréttað eins og víða annars staðar í lögunum að skuldari skuli taka virkan þátt og sýna viðeigandi viðleitni við að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.
Hér ber að einnig að líta til þess að málsmeðferð stjórnvalda er almennt skrifleg og grundvallast rannsókn máls á þeim hlutlægu gögnum sem liggja fyrir hverju sinni. Þá er umboðsmanni skuldara heimilt að krefjast þess að upplýsingar séu staðfestar með skriflegum gögnum, sbr. 1. mgr. 5. gr. lge.
Hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara byggir á því að kærandi hafi ekki lagt fram fullnægjandi upplýsingar um fjárhag sinn og væntanlega þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Kærandi telur sig hafa sent umboðsmanni skuldara ýmis gögn sem embættið hafi óskað eftir. Kærandi hafi einnig óskað fundar til að koma að skýringum við þau gögn er hann lagði síðast fram en umboðsmaður skuldara hafi tekið ákvörðun í málinu tveimur dögum eftir að gögnin bárust. Að mati kæranda blasi við að embættið hafi í raun verið búið fyrir löngu að ákveða að synja kæranda um frekari meðferð á beiðni um greiðsluaðlögun. Þá sé í ákvörðun ekki útskýrt að hvaða leyti framlögð gögn séu ófullnægjandi og hvort það skorti frekari gögn frá kæranda.
Í bréfi umboðsmanns skuldara, dags. 15. júní 2012, óskaði embættið með ítarlegum hætti upplýsinga um eignarstöðu kæranda og afdrif eigna hans á síðustu árum, að hvaða marki skuldbindingar stöfuðu frá atvinnurekstri og í hvaða tilgangi hafi verið stofnað til skuldbindinga, en það var gert til að umsókn kæranda gæti talist fullbúin og þar með tæk til ákvörðunar í skilningi 4. og 5. gr. lge. Þá taldi umboðsmaður skuldara að upplýsingar skorti til þess að fært væri að leggja mat á hvort óhæfilegt væri að heimila greiðsluaðlögun, sbr. 2. mgr. 6. gr. lge. Í bréfinu var í fyrsta lagi óskað tæmandi yfirlits yfir eignir kæranda. Í öðru lagi upplýsinga um einstaka fasteignir og að svör yrðu studd gögnum. Í þriðja lagi upplýsinga um afdrif bankainnistæðna og að svör yrðu studd gögnum. Í fjórða lagi upplýsinga um ráðstafanir á ökutækjum á tímabilinu 10. október 2008 til 11. nóvember 2008. Í fimmta lagi, með vísan til andmælabréfs, upplýsinga um eignaráðstafanir til sambýliskonu, dóttur hennar og ýmissa fyrirtækja sem tengdust kæranda. Í sjötta lagi upplýsinga um eignarhlut í B ehf. og í sjöunda lagi að lagðir yrðu fram ársreikningar félaganna D ehf. og F ehf. vegna áranna 2007–2011.
Hver sá sem leitar greiðsluaðlögunar skal veita umboðsmanni skuldara ítarlegar upplýsingar og gögn samkvæmt því sem fram kemur í 4. gr. lge. Í þessu felst skylda til að veita allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að greina fjárhagsstöðu viðkomandi til fulls. Með öðru móti verður ekki lagt efnislegt mat á hvort heimilt eða hæfilegt sé veita skuldara greiðsluaðlögun.
Við skoðun kærunefndar á þeim gögnum er kærandi hefur látið umboðsmanni skuldara í té er ljóst að hvorki bréf né fylgigögn varpa fullnægjandi ljósi á eignastöðu kæranda, afdrif eigna hans á síðustu árum, að hvaða marki skuldbindingar stafa frá atvinnurekstri eða í hvaða tilgangi stofnað var til skuldbindinga. Það er almenn forsenda greiðsluaðlögunarferlis frá umsókn til loka að kærandi veiti nákvæmar upplýsingar um skuldastöðu sína. Því er enn að einhverju leyti ábótavant.
Að mati kærunefndarinnar er í bréfi kæranda, dags. 29. júlí 2012, ekki að finna þær upplýsingar sem umboðsmaður skuldara óskaði eftir. Hins vegar er í bréfinu vísað til þess að kærandi hafi vegna veikinda ekki verið fær um að annast sín mál. Kærandi hafi í bréfinu óskað eftir sameiginlegum fundi með lögmönnum sínum og starfsmönnum umboðsmanns skuldara í því skyni að skýra stöðu mála og þau fylgiskjöl sem bréfinu fylgdu. Tekið var fram í bréfinu að lögmenn kæranda væru í fríi til seinniparts ágústsmánaðar og þau gögn sem fylgdu bréfinu væru ekki tæmandi svar til embættisins.
Kærunefndin telur að kæranda hafi mátt vera ljóst af bréfum umboðsmanns skuldara hvaða upplýsingum embættið óskaði eftir, en hann hafi kosið að bregðast við með takmörkuðum hætti eins og fram hefur komið. Þá er til þess að líta að kærandi hafði fengið all rúman tíma til að tjá sig um efni málsins. Að mati kærunefndarinnar hefur umboðsmaður skuldara í máli þessu gætt andmælaréttar kæranda lögum samkvæmt. Jafnvel þótt fallist yrði á að andmælaréttur kæranda hafi ekki verið virtur á lægra stjórnsýslustigi, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, er ljóst að úr því var bætt á æðra stjórnsýslustigi, en með bréfum dags. 22. mars og 15. apríl 2013 bauð kærunefndin kæranda að koma að frekari gögnum áður en nefndin tæki afstöðu til kæru hans. Þær skýringar og gögn sem kærunefndinni bárust með bréfi kæranda 29. apríl 2013 varpa hins vegar aðeins að óverulegu leyti ljósi á takmarkaða þætti varðandi skuldastöðu kæranda og teljast því ófullnægjandi.
Að mati kærunefndarinnar hefur kæranda verið veittur umtalsverður og fullnægjandi frestur til að afla áskilinna gagna og koma þeim á framfæri með skýrum hætti bæði við málsmeðferð hjá umboðsmann skuldara og kærunefndinni. Þann frest nýtti kærandi ekki. Kærunefndin telur að umbeðinn fundur hefði ekki bætt úr því. Þar sem kærandi hefur að eigin sögn í langan tíma notið aðstoðar lögmanna í málinu ættu þær mótbárur sem kærandi tilgreindi ekki að hafa komið í veg fyrir framlagningu gagna af hans hálfu.
Samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. ber umboðsmanni skuldara skylda til að synja um greiðsluaðlögun gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Sú skylda hvílir á kæranda að taka virkan þátt í gagnaöflun og varðar það sérstaklega gögn sem ekki er á færi annarra en kæranda sjálfs að leggja fram. Að mati kærunefndarinnar hefur kærandi ekki sinnt þessari skyldu sinni.
Með vísan til alls framangreinds staðfestir kærunefnd greiðsluaðlögunarmála ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja umsókn kæranda með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 3. ágúst 2012, um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.
Sigríður Ingvarsdóttir
Lára Sverrisdóttir
Kristrún Heimisdóttir