Nr. 145/2019 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 145/2019
Föstudaginn 9. ágúst 2019.
A
gegn
umboðsmanni skuldara
ÚRSKURÐUR
Þann 8. apríl 2019 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 26. mars 2019 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.
Með bréfi 9. apríl 2019 óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 17. apríl 2019. Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 23. apríl 2019 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda við greinargerð bárust með tölvupósti 28. maí 2019. Voru þær sendar umboðsmanni skuldara til kynningar með bréfi 29. maí 2019 og óskað eftir sjónarmiðum embættisins. Með tölvupósti 3. júní 2019 upplýsti umboðsmaður skuldara að hann teldi ekki ástæðu til að aðhafast frekar vegna málsins.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi er fæddur árið X. Hann býr í leiguhúsnæði í B og hefur stundað [nám] frá 2018.
Samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara frá 26. mars 2019 nema skuldir kæranda 2.745.264 krónum en þær eru allar vegna opinberra gjalda.
Að sögn kæranda má helst rekja fjárhagserfiðleika hans til atvinnuleysis og óvinnufærni í kjölfar vinnuslyss.
Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 29. nóvember 2018. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 26. mars 2019 var umsókn kæranda hafnað með vísan til þess að hann væri ekki talinn uppfylla skilyrði 4. mgr. 2. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge.) og taldi umboðsmaður því skylt að synja honum um heimild til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt a-lið 1. mgr. 6. gr. lge.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi gerir kröfu um að umsókn hans verði tekin fyrir hjá umboðsmanni skuldara. Verður að skilja þetta þannig að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar verði felld úr gildi.
Í kæru er vísað til þess að kærandi telji sig uppfylla undanþáguheimild 4. mgr. 2. gr. lge. þess efnis að skuldari geti fengið heimild til að leita greiðsluaðlögunar sé hann með lögheimili sitt skráð erlendis, sé það vegna vinnu, veikinda eða náms. Kærandi kveðst uppfylla öll þessi skilyrði en í hans tilviki sé um að ræða tímabundna búsetu erlendis frá 2014 til að lágmarki 2023 vegna vinnuslyss, endurhæfingar og endurmenntunar í kjölfarið.
Alþingi hafi sett inn undanþáguheimildina af brýnni nauðsyn, enda hafi margir Íslendingar þurft að leita tímabundið til útlanda vegna vinnu við efnahagshrunið 2008. Sé það almenn vitneskja að slíkir búferlaflutningar séu tímabundnir og tilkomnir af illri nauðsyn.
Kærandi greinir frá því að vorið 2011 hafi honum boðist tímabundin verkefni í B og þeim verkefnum hefði orðið að ljúka árið 2015. Tekin hafi verið ákvörðun um að öll fjölskyldan myndi flytja til B og dvelja þar á þessu tímabili. Þar sem börnin hafi verið á viðkvæmum aldrei hafi verið ákveðið að hugsa um hagsmuni þeirra því ekki væri hollt að flakka með börn á milli landa. Ákveðið hafi verið að þau gæfu sér góðan tíma fyrir börnin til að læra tungumálið og kynnast frændfólki í B. Þeim hafi verið sagt að börnin myndu þurfa að minnsta kosti tvö til þrjú ár til að ná góðum tökum á tungumálinu. Börnin hafi komið til B í X 2012. Fjölskyldan hafi síðan ætlað að flytja til baka til Íslands 2015.
Kærandi hafi farið til Íslands sumarið 2014 í leit að vinnu og húsnæði og til að leggja drög að skólagöngu barnanna á Íslandi. Kærandi hafi bæði fengið húsnæði og vinnu og flutt lögheimili sitt til Íslands. Þá hafi kærandi verið með ólokin verkefni í B sem hann hafi þurft að ljúka áður en hann myndi hefja störf á Íslandi.
Kærandi hafi lent í vinnuslysi í B árið 2014, orðið óvinnufær í kjölfarið og ekki getað hafið störf á Íslandi eins og til hafi staðið. Þá hafi hann ekki getað horfið til fyrri starfa þar sem þau hafi krafist [...]. Honum hafi verið ráðlagt að fara í nám sem gæti veitt honum atvinnumöguleika með þær hamlanir sem hann búi nú við. Kærandi hafi aðeins verið með [...] svo hann hafi orðið að fara í [nám] til að geta farið í háskóla. Þar sem vera hans erlendis hafi alltaf verið hugsuð sem tímabundin hafi hann byrjað nám á Íslandi til að undirbúa sig undir háskólanám hér á landi. Hann hafi farið í nám við C í X 2016 sem hann hafi lokið í X 2017. Samhliða því hafi hann verið í endurhæfingu.
Kærandi hefði getað farið í ódýrara nám í B en það nám hafi ekki uppfyllt skilyrði til að komast í háskólanám á Íslandi þótt það veitti rétt til náms í háskólum í NoregiB. Kærandi hafi ætlað að fara í nám við D og því farið í námið hjá C.
Kæranda hafi verið gert ljóst að hann þyrfti að vera í B til að hafa aðgang að heilbrigðiskerfinu þar og sjúkratryggingum, sem hafi að sögn kæranda verið lífsnauðsynlegt fyrir hann á þessum tíma, enda hafi hann verið orðinn háður umsjá annarra. Því hafi verið gerður við hann tímabundinn samningur frá sjúkrakerfinu í B til ársins 2020 með möguleika á framlengingu, væri hann ennþá í endurhæfingu. Kærandi þurfi á fleiri aðgerðum að halda og óvíst sé á þessari stundu hvort samningurinn verði framlengdur. Það komi ekki í ljós fyrr en sumarið 2020. Að sögn kæranda hafi hann beðið um leyfi til að fá að stunda nám á Íslandi en því hafi verið hafnað. Samningurinn setji það skilyrði að námið sé stundað í B.
Kærandi væri búsettur á Íslandi í dag hefðu veikindi hans og slys ekki komið upp. Til að geta komist aftur á vinnumarkaðinn hafi hann farið í háskólanám í B. Kærandi muni flytja aftur til Íslands í síðasta lagi 2023 þegar hann hafi lokið náminu. Nú sé búseta hans í B samkvæmt framangreindu tímabundin vegna veikinda og náms.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Umboðsmaður skuldara fer fram á að ákvörðun um að synja kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar frá 26. mars 2019 verði staðfest.
Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á umsókn um heimild til að leita greiðsluaðlögunar beri að líta til þeirra aðstæðna sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. sé kveðið á um að synja skuli um heimild til að leita greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar.
Samkvæmt 4. mgr. 2. gr. lge. geti þeir einir leitað greiðsluaðlögunar samkvæmt lögunum sem eigi lögheimili og séu búsettir hér á landi. Frá þessu skilyrði megi þó víkja ef sá sem leitar greiðsluaðlögunar sé tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda.
Kærunefnd greiðsluaðlögunarmála hafi úrskurðað í máli þar sem uppi hafi verið ágreiningur um hvort líta ætti á búsetu erlendis sem tímabundna þannig að undantekningarheimild 4. mgr. 2. gr. lge. ætti við. Í úrskurði kærunefndarinnar í máli nr. 14/2011 segi: „Til að afmarka þau tilvik þar sem um tímabundna búsetu erlendis er að ræða verður að líta til þess að heimildin er undantekning frá meginreglu, sem ekki er ætlað að ná til allra sem flytja erlendis um ótiltekinn tíma, til dæmis vegna atvinnuleitar. Það ræður ekki úrslitum í máli af þessu tagi hvort viðkomandi hafi flutt lögheimili sitt erlendis. Hins vegar verður við það að miða að með tímabundinni búsetu sé átt við það að sýnt sé fram á eða það gert líklegt að búsetu erlendis sé í upphafi markaður ákveðinn tími. Þegar flutt er til útlanda vegna starfs verður því að miða við það að viðkomandi hafi þegið tímabundið starf eða tekist á hendur verkefni sem fyrirfram er markaður ákveðinn tími eða einhver önnur atriði geri það líklegt að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða.“
Samkvæmt gögnum málsins sé kærandi búsettur í B. Að mati embættisins hafi kærandi ekki sýnt fram á að búsetu hans í B hafi í upphafi verið markaður ákveðinn tími. Samkvæmt upplýsingum frá kæranda hafi hann flutt frá Íslandi til B 2011 og stundi nú háskólanám þar í landi til næstu fimm ára sem áætlað er að ljúki 2023. Samkvæmt upplýsingum frá kæranda hyggist hann flytja til Íslands að námi loknu, eða fyrr, fái hann einingar vegna námsins metnar í námi hér á landi.
Að mati embættisins falli búseta kæranda ekki undir undanþágu a-liðar 2. mgr. 4. gr. lge. vegna tímabundinnar búsetu erlendis, þ.e. frá því skilyrði að kærandi skuli eiga lögheimili og vera búsettur á Íslandi samkvæmt 4. mgr. 2. gr. lge.
Í ljósi búsetu kæranda, með hliðsjón af gögnum máls og úrskurðum kærunefndar greiðsluaðlögunarmála, telur umboðsmaður skuldara að kærandi uppfylli ekki skilyrði 4. mgr. 2. gr. lge. og sé embættinu því skylt að synja honum um heimild til að leita greiðsluaðlögunar á grundvelli a-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á a-lið 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr. lge. Í a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. kemur fram að synja skuli um heimild til að leita greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Í 4. mgr. 2. gr. lge. segir að þeir einir geti leitað greiðsluaðlögunar samkvæmt lge. sem eigi lögheimili og séu búsettir hér á landi. Samkvæmt a-lið lagaákvæðisins má víkja frá þessu, meðal annars á þeim grundvelli að sá sem leiti greiðsluaðlögunar sé tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda og hafi átt lögheimili og verið búsettur hér á landi í að minnsta kosti þrjú ár samfellt, enda leiti hann einungis greiðsluaðlögunar vegna skuldbindinga sem stofnast hafi hér á landi við lánardrottna sem eigi hér heimili.
Hin kærða ákvörðun byggist á því að kærandi sé búsettur erlendis. Ekki sé unnt að líta svo á að búseta hans sé tímabundin vegna náms, starfa eða veikinda í skilningi undantekningarákvæðis a-liðar 4. mgr. 2. gr. lge. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr. lge., var því umsókn kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar synjað.
Í málinu er ágreiningur um hvort líta eigi á búsetu kæranda erlendis sem tímabundna þannig að áðurnefnd undantekningarheimild í a-lið 4. mgr. 2. gr. lge. eigi við.
Til skýringar á hugtakinu ,,tímabundin búseta erlendis“ í skilningi lge. verður að líta til þess að heimildin í a-lið 4. mgr. 2. gr. lge. er undantekning frá meginreglu. Af orðalagi ákvæðisins má ráða að því er ekki ætlað að ná til þeirra sem flytja til annarra landa í ótiltekinn tíma, til dæmis vegna atvinnuleitar. Við það verður að miða að með tímabundinni búsetu sé átt við það að sýnt sé fram á eða það gert líklegt að búsetu erlendis sé í upphafi markaður ákveðinn tími. Þegar flutt er til útlanda vegna starfs verður því að miða við það að viðkomandi hafi þegið tímabundið starf eða tekist á hendur verkefni sem fyrir fram er markaður ákveðinn tími eða einhver önnur atriði valdi því að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða.
Í málinu liggur fyrir að kærandi hafi verið búsettur í B frá árinu 2011. Af hálfu kæranda hefur komið fram að búsetu hans hafi í upphafi verið afmarkaður ákveðinn tími og til hafi staðið að flytja heim árið 2015. Þá hafi hann lent í vinnuslysi úti og ekki hafi orðið af flutningum heim til Íslands. Svo sem rakið hefur verið varð slysið til þess að kærandi stundar nú háskólanám sem fyrirhugað er að ljúki árið 2023. Að mati úrskurðarnefndarinnar þykir sýnt að þrátt fyrir að búsetu kæranda kunni í öndverðu að hafa verið afmarkaður ákveðinn tími og hann hafi lagt fram ýmis gögn um búsetu sína þar ytra, þá hafi röð ófyrirséðra atvika leitt til þess að dvöl kæranda í B sé nú orðin það löng, eða á níunda ár, að hún geti ekki lengur fallið undir undanþáguákvæði a-liðar 4. mgr. 2. gr. lge. Þá sé ótalið að námi kæranda ljúki ekki fyrr en eftir fjögur ár.
Með vísan til þessa er ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kæranda, A, um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.
F. h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Lára Sverrisdóttir
Sigríður Ingvarsdóttir Þórhildur Líndal