Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 211/2012

Fimmtudaginn 11. desember 2014

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 12. nóvember 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 29. október 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 20. nóvember 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 18. janúar 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 5. febrúar 2013 og var henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust frá kæranda 22. febrúar 2013.

Með bréfi 25. febrúar 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir afstöðu umboðsmanns skuldara vegna athugasemda kærenda. Með tölvupósti 27. febrúar upplýsti embættið að það myndi ekki gera frekari athugasemdir.

Með tölvupósti 11. september 2014 bárust frekari upplýsingar frá kæranda. Voru þær sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 15. september 2014 og óskað eftir afstöðu umboðsmanns skuldara. Athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fædd 1958. Hún er gift og býr ásamt eiginmanni sínum í 210,4 fermetra raðhúsi að B götu nr. 87 í sveitarfélaginu C. Kærandi var eigandi eignarinnar þar til henni var afsalað til V ehf. 30. desember 2013. Kærandi starfar sem ráðgjafi en hún er að eigin sögn verktaki og fær verktakagreiðslur frá Y ehf. þar sem hún var áður launþegi. Tekjur hennar hafa verið 483.500 krónur á mánuði fyrir greiðslu skatta. Ástæðan fyrir breyttu fyrirkomulagi á greiðslum fyrir vinnu kæranda er að hennar sögn sú að Tollstjóri hafi gert kröfu um að vinnuveitandi héldi eftir stórum hluta launa hennar. Hefði það gengið eftir kveðst kærandi ekki hafa átt aflögu fyrir mat.

Kærandi rekur fjárhagserfiðleika sína til veikinda og atvinnuleysis.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eru skuldir kæranda alls 94.392.156 krónur. Ábyrgðarskuldbindingar kæranda eru 14.334.851 króna. Til helstu skuldbindinga var stofnað árin 2005 til 2009.

Umsókn kæranda um greiðsluaðlögun barst umboðsmanni skuldara 12. janúar 2011. Umsókn hennar var synjað með ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 29. október 2012 með vísan til b-, c-, f- og g-liða 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi fer fram á að kærunefndin hnekki ákvörðun umboðsmanns skuldara og heimili henni greiðsluaðlögun.

Kærandi telur ástæður greiðsluerfiðleika sinna að rekja beint til efnahagshrunsins árið 2008. Þá hafi erlent lán hennar hækkað úr 10.000.000 króna í 25.000.000 króna, fasteignir hafi hætt að seljast og lækkað í verði og afborganir af tveimur bílalánum kæranda hafi rúmlega tvöfaldast. Þá hafi verkefni sem kærandi hafi verið að vinna að á þeim tíma fallið niður en útlit var fyrir að verkefnin skiluðu góðum tekjum. Við þetta hafi tekjur kæranda lækkað verulega og einnig hafi ábyrgðarskuldir fallið á kæranda. Samningar við lánardrottna vegna ábyrgðarskuldbindinganna hafi ekki tekist.

Kærandi hafi nýtt sér öll tiltæk úrræði til að minnka greiðslubyrði sína tímabundið. Á þessum tíma hafi úrskurður yfirskattanefndar fallið kæranda í óhag en samkvæmt honum skyldi telja arð sem kærandi hafi greitt sér úr félagi sínu sem laun. Hafi þetta átt sér stað vegna mistaka í bókhaldi og skattskilum en kærandi hafi haft fagfólk til að sinna því. Við endurálagningu í kjölfar úrskurðarins hafi 7.000.000 króna skattskuld bæst við skuldir kæranda. Kærandi vilji leggja mikla áherslu á að ekki hafi verið um að ræða ásetning til að telja rangt fram, þetta hafi verið mistök. Allt þar til endurálagning hafi átt sér stað hafi kærandi verið skuldlaus við innheimtumann ríkissjóðs.

Ástæða þess að kærandi hafi lagt áherslu á að nýta sér þjónustu fagfólks til að sjá um reikningshald og skattskil sé ekki síst athyglisbrestur kæranda. Hafi þessi truflun á heilastarfsemi í för með sér að kærandi eigi meðal annars í erfiðleikum með að hafa skýra yfirsýn auk þess sem minnið svíki oft. Kærandi harmi að mistök við skattskil hafi átt sér stað en greiðslurnar úr félaginu hafi verið taldar fram sem arður og af þeim greiddur fjármagnstekjuskattur. Að mati kæranda hafi slíkt verið heimilt. Hún geri sér grein fyrir að hún sé lögum samkvæmt ábyrg fyrir færslu bókhalds og skattskilum og áfellist ekki aðra í því sambandi. Hún taki þó fram að ef allt hefði verið eðlilegt hefði skuld kæranda við innheimtumann ríkissjóðs einungis verið vegna tekna hennar eftir efnahagshrun en þau vanskil stafi af tekjumissi.

Kærandi kveðst ávallt hafa sýnt aðgæslu í fjármálum. Hún hafi nýtt laun og fyrrnefndar arðgreiðslur til að grynnka á skuldum og fjárfesta gætilega. Einnig hafi kærandi aflað sér aukinnar menntunar og starfsréttinda til að auka atvinnumöguleika sína.

Umboðsmaður skuldara telji að fjárhagur kæranda hafi verið bágborinn á árinu 2008. Hafi embættið þó lagt áherslu á það mat skattyfirvalda að hin löglega arðgreiðsla sem kærandi hafi greitt sér úr félagi sínu hefðu verið laun. Kærandi telji umboðsmann skuldara því einvörðungu hafa haldið á lofti sjónarmiðum skattyfirvalda. Hafi skattyfirvöld hækkað skattstofn þannig að laun ársins 2007 hafi verið hækkuð úr 4.504.596 krónum í 5.303.073 krónur og laun ársins 2008 hafi verið hækkuð úr 8.057.176 krónum í 26.672.689 krónur. Samkvæmt þessu hafi mánaðarlaun ársins 2008 verið að meðaltali um 2.250.000 krónur á mánuði.

Fyrir efnahagshrun hafi kærandi verið í 20% starfi sem framkvæmdastjóri Z ehf. Eftir hrunið hafi verið gerðar ýmsar skipulagsbreytingar hjá félaginu og hafi kærandi haldið starfi og launum en þó í breyttri mynd. Nú sé kærandi verktaki en þar sem hún hafi ekki verið í aðstöðu til að semja við lánardrottna hafi hún neyðst til að gera þessa breytingu til að tryggja tekjur til framfærslu.

Kærandi telur þau atriði er umboðsmaður skuldara byggi ákvörðun sína á ekki aðalatriði í málinu. Í byrjun árs 2008 hafi verið gerður kaupsamningur á milli X ehf. og Þ ehf. en samkvæmt honum hafi X ehf. keypt 20% hlutafjár í Z ehf. af Þ ehf. Framlagt eigið fé X ehf. í kaupunum hafi verið 25% eða 5.000.000 króna. Verðmat Z ehf. á þessum tíma hafi verið 100.000.000 króna. Horfur félagsins hafi verið góðar en árið 2007 hafi verið besta árið í rekstri þess. Erfiðleikar í rekstri félaganna hafi orðið ljósir við hrunið. Umboðsmaður skuldara fullyrði ranglega að staða bæði Z ehf. og X ehf. hafi verið erfið á þessum tíma.

Samhliða undirritun kaupsamnings hafi verið gert sérstakt samkomulag um tryggingu fyrir efndum X ehf. á greiðslu kaupverðs. Hafi það verið gert með afhendingu tryggingavíxils að fjárhæð 15.000.000 króna. Hafi kærandi verið útgefandi víxilsins. Í október 2008 hafi víxilskuldinni verið breytt í skuldabréf að fjárhæð 15.000.000 króna en kærandi hafi gefið bréfið út. Með útgáfu skuldabréfsins hafi kærandi því ekki verið að auka við skuldir sínar andstætt því sem umboðsmaður skuldara haldi fram. Telji kærandi að hún hafi haft mikinn hag af þessari ráðstöfun. Bréfið hafi verið til 5 ára, án afborgana og vaxtalaust. Þar sem greiða hafi átt víxilinn eigi síðar en 5. janúar 2009 hafi gjalddagi skuldarinnar með þessu verið færður aftur um 5 ár. Telji kærandi víst að það hefði verið henni um megn að greiða víxilinn á þessum tíma. Kærandi eigi ekki afrit nefnds víxils, enda sé hann ekki lengur gildur, en geti útvegað staðfestingu á tilurð hans.

Til tryggingar skuld samkvæmt framangreindu skuldabréfi hafi kærandi veðsett fasteign sína að B götu nr. 87 með 3. veðrétti. Á þeim tíma hafi fasteignin þegar verið 100% veðsett vegna skulda á 1. og 2. veðrétti. Hafi útgáfa skuldabréfsins því engu breytt um stöðu annarra kröfuhafa. Kærandi hafi ekki talið það mikla áhættu að gangast í persónulega ábyrgð fyrir efndum kaupsamningsins miðað við verðmæti hinna keyptu hluta. Fyrir viðskiptin hafi X ehf. átt 60% hlutafjár í Z ehf. og hafi sú eign verið óveðsett.

Kærandi hafi látið gera verðmat á fasteign sinni að B götu nr.  87 til að geta áttað sig betur á fjárhagsstöðu sinni. Hafi eignin verið talin um 50.000.000 krónu virði. Kærandi finni ekki verðmatið en hafi fundið verðmat frá svipuðum tíma fyrir svipaða eign í sama hverfi. Eignir í hverfinu hafi alltaf selst á sambærilegu verði. Á eigninni hafi hvílt 29.100.000 króna miðað við upphaflegar lánsfjárhæðir lána á 1. og 2. veðrétti eignarinnar. Hafi eignin staðið vel undir þessari veðsetningu.

Eignir kæranda hafi verið eftirfarandi 31. desember 2007 í krónum:

B gata nr 87 50.000.000
D gat nr. 100 13.900.000
Bifreiðin F 3.870.000
Bifreiðin G 1.089.636
Innstæður 3.798.008
Samtals 72.657.644

Kærandi hafi einnig átt allt útgefið hlutafé í X ehf. en nafnverð hlutafjár hafi verið 500.000 krónur. Á meðal eigna X ehf. hafi verið 80% hlutur í Z ehf. sem metinn hafi verið á 80.000.000 króna miðað við viðskipti frá 5. janúar 2008. Einu skuldir X ehf. hafi verið framangreind 15.000.000 króna skuld við Þ ehf. og þannig hafi hrein eign X ehf. á þessum tíma verið að minnsta kosti 75.000.000 króna. Heildareignir kæranda hafi þannig numið um 147.000.000 króna í janúar 2008 og heildarskuldir tæpum 42.000.000 króna, þar af hafi 23.000.000 króna verið vegna skulda kæranda og maka hennar við LÍN. Tekjur hennar árin 2007 og 2008 hafi verið um 50.000.000 króna. Ef kærandi hefði selt allar eignir sínar nema hlut sinn í X ehf., á matsvirði þeirra 5. janúar 2008 hefði verðmæti eignanna dugað til að greiða allar skuldir og allar ábyrgðarskuldbindingar kæranda. Þá hefði kærandi átt 100% hlut í X ehf. skuldalausan og skuld X ehf. vegna kaupa á hlutafé í Z ehf. hefði verið að fullu uppgerð. Samkvæmt þessu sé ljóst að fjárhagsstaða kæranda hafi verið mjög góð þegar gengið hafi verið til samninga um kaup á 20% hlut í Z ehf. með sjálfskuldarábyrgð kæranda. Fari kærandi fram á að eignir hennar og skuldir séu metnar miðað við 5. janúar 2008.

Samkvæmt öllu framansögðu séu engin rök því fyrir því mati umboðsmanns skuldara að með útgáfu 15.000.000 krónu skuldabréfs hafi kærandi orðið ófær um að standa skil á fjárhagsskuldbindingum sínum og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma er til skuldbindingarinnar var stofnað samkvæmt b- og c-liðum 2. mgr. 6. gr. lge.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara sé byggð á heimildarákvæði og hún sé afar íþyngjandi fyrir kæranda. Verði kærandi gjaldþrota muni hún missa starfsréttindi sem nokkur ár hafi tekið að afla. Kærandi telur það hæpna stjórnsýslu að eitt stjórnvald taki verulega íþyngjandi ákvörðun sem byggi á annarri verulega íþyngjandi ákvörðun sem töluverður vafi leiki á að standist stjórnsýslulög.

Kærandi telji að það eitt að skulda skatta sé ekki ástæða til synjunar á heimild til greiðsluaðlögunar og vísi í því sambandi til úrskurðar kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 3/2010 en þar komi fram að 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimildarákvæði en ekki lagaskylda.

Umboðsmanni skuldara beri að taka ákvarðanir með tilliti til allra málavaxta, þar með talinna félagslegra atriða. Nánustu fjölskyldumeðlimir kæranda glími við sjúkdóma og fatlanir en það auki annir kæranda sem undanfarið hafi verið bæði í námi og fullri vinnu. Þá stríði kærandi við þunglyndi og kvíða auk þess sem hún þjáist af athyglisbresti.

Kærandi mótmælir því að úrskurður kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 13/2011 sé fordæmi í máli hennar en engin líkindi séu með málunum. Kærandi telji embætti umboðsmanns skuldara ekki hafa unnið mál hennar í samræmi við lög um embættið og er afar ósátt við alla málsmeðferð og framgöngu embættisins í málinu. Kærandi tilgreini sérstaklega að orð hennar séu ekki tekin trúanleg og telur andmælarétti og leiðbeiningarskyldu ekki hafa verið sinnt þar sem hún hafi ekki verið upplýst um hvaða gögn, vitnisburðir eða aðrar sannanir séu nægileg til að styðja frásögn hennar.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að við mat á umsókn um greiðsluaðlögun beri að líta til þeirra aðstæðna sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram heimild til að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana.

Kærandi hafi gefið út handhafaskuldabréf 7. október 2008 fyrir skuld að fjárhæð 15.000.000 króna. Bréfinu hafi verið þinglýst á fasteign hennar að B götu nr. 87. Í greinargerð með umsókn um greiðsluaðlögun kveðist kærandi hafa stofnað til skuldarinnar vegna kaupa á nefndri fasteign. Hafi umboðsmaður skuldara gengið út frá réttmæti þeirra upplýsinga og hafi kæranda verið hafnað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með synjun umboðsmanns skuldara 2. febrúar 2012. Undir kærumeðferð málsins fyrir kærunefnd greiðsluaðlögunarmála hafi komið fram nýjar upplýsingar, meðal annars um tilurð skuldarinnar, og hafi umboðsmaður skuldara því talið að málið hefði ekki verið nægilega upplýst þegar ákvörðun var tekin. Kærandi hafi gefið eftirfarandi skýringu á tilurð skuldabréfsins undir kærumeðferð málsins. „Tilurð 15 m.kr. skuldabréfsins var ekki þess eðlis að umsækjandi væri að auka skuldir sínar, heldur þvert á móti til þess gert að minnka greiðslubyrði til næstu 5 ára. Skuldbinding var gerð á árinu 2007 þegar miklar tekjur streymdu inn og mikil bjartsýni ríkti í þjóðfélaginu um að þessi velsæld væri varanleg. Um þetta leyti dundi efnahagshrunið yfir og erfitt var að gera sér grein fyrir áhrifum þess og allra síst hversu langvarandi þau yrðu. Umsækjanda óraði ekki fyrir því að það hefði jafn mikil áhrif og raunin varð, en gerði samt allt sem í hans valdi stóð til þess að semja um lækkun afborgana, frestun greiðslna og reyndi á allan hátt að lágmarka tap sitt. Hluti af því var að gefa út umrætt skuldabréf til þess að fresta greiðslu um 5 ár, vaxtalaust og án afborgana. Ástæða þess að það var hægt var sú að verðmat á Z ehf. hafði farið fram árið 2007 þegar hagnaður þess var gríðarlegur og eignir félagsins mjög miklar. Hrunið breytti því og þess vegna gat umsækjandi samið á þennan hátt um greiðslu skuldarinnar.“

Hafi ákvörðun umboðsmanns verið afturkölluð og málið tekið til efnismeðferðar á ný. Með bréfi 9. ágúst 2012 hafi umboðsmaður skuldara óskað eftir frekari upplýsingum frá kæranda meðal annars varðandi fyrrnefnda skuldbindingu. Í bréfinu hafi kæranda einnig verið boðið að leggja fram frekari gögn. Í svari kæranda 1. september 2012 hafi kærandi áréttað að sú skýring sem komið hafi fram við kærumeðferð um tilurð skuldarinnar hafi verið rétt. Einnig greini kærandi frá því að ástæða þess að annað hafi komið fram í umsókn væri að lögmaður sá er ritað hafi greinargerð með umsókn hafi skýrt tilurð skuldarinnar með þessum hætti. Kærandi hafi einnig látið umboðsmanni í té skjal merkt „Kaupsamningur um hlutafé í Z ehf., kt. 491204-4190“. Í kaupsamningnum komi fram að 5. janúar 2008 hafi X ehf. sem kaupandi og Þ ehf. sem seljandi, gert með sér kaupsamning um kaup X ehf. á 800.000 króna hlut í Z ehf. Kaupverðið hafi verið 20.000.000 króna og þar af skyldu 5.000.000 króna greiddar 5. janúar 2008 en 15.000.000 króna innan árs frá þeim degi. Með útgáfu veðskuldabréfs 7. október 2008 að fjárhæð 15.000.000 króna hafi kærandi greitt þessa skuld persónulega en bréfinu hafi verið þinglýst á fasteign hennar að B götu nr. 87. Skuldin samkvæmt skuldabréfinu sé eingreiðslulán án vaxta og verðbóta á gjalddaga 1. október 2013.

Kærandi hafi lýst því í bréfi sínu 1. september 2012 að algert hrun hafi orðið á fyrirtækjamarkaði árið 2008. X ehf., einkahlutafélag í hennar eigu, og Z ehf., sem X ehf. hafi átt stóran eignarhlut í, hafi orðið fyrir miklu tjóni og tapað mestöllum eignum sínum. Ástæðan hafi verið gjaldþrot viðskiptavina og félaga sem nefnd félög hafi átt eignarhlut í. Í október 2008 þegar ljóst hafi verið að X ehf. gat ekki greitt eftirstöðvar vegna kaupa á Z ehf. hafi kærandi gert samkomulag við kaupandann um að skuldin yrði greidd með fyrrgreindu skuldabréfi. Kærandi telji að hagsmunum sínum hafi verið best borgið með þessum hætti.

Umboðsmaður hafi sent kæranda bréf 2. október 2012 þar sem henni hafi enn verið gefið færi á að koma athugasemdum á framfæri. Í svarbréfi sínu 18. október 2012 fullyrði kærandi að samhliða kaupsamningi Þ ehf. og X ehf. hafi verið gefinn út tryggingarvíxill en samkvæmt honum hafi hún gengist í persónulega ábyrgð fyrir greindum 15.000.000 króna. Þannig hafi hún ekki tekist á hendur nýja skuldbindingu 7. október 2008 er hún gaf út skuldabréfið heldur takmarkað greiðslubyrði sína. Enn fremur fullyrði kærandi að fasteign hennar að B götu nr. 87 hafi verið yfirveðsett í október 2008, en fjárhagsstaða hennar hafi verið sterk í janúar 2008 er hún hafi gengist í ábyrgðina.

Með tölvupósti 19. október 2012 hafi umboðsmaður skuldara óskað eftir því að kærandi legði fram afrit af tryggingavíxlinum. Við því hafi kærandi ekki getað orðið þar sem hún hafi talið að víxilinn hefði verið eyðilagður fyrir fjórum árum.

Í framlögðum kaupsamningi Þ ehf. og X ehf. sé hvergi minnst á nefnda ábyrgðarskuldbindingu. Ekki verði ráðið af samningnum að kærandi hafi skuldbundið sig persónulega. Hafi kærandi ekki stutt fullyrðingar sínar um útgáfu tryggingavíxils með neinum gögnum og því þyki ekki fært að byggja á þeim. Samkvæmt því verði að líta svo á að 7. október 2008 hafi kærandi tekist á hendur nýja 15.000.000 króna veðskuld.

Fjárhagsstaða kæranda þegar hún stofnaði til skuldarinnar hafi samkvæmt skattframtölum verið sem hér segi í krónum:

Tekjuár 2008
Meðaltekjur á mánuði* 340.724
Framfærslukostnaður 200.000
Greiðslugeta á mánuði 140.724
Áætlaðar afborganir af skuldum 259.250
Greiðslustaða eftir afborganir af skuldum -118.526
Eignir kæranda samtals 62.177.644
· B gata nr. 87 39.530.000
· D gata nr 100 13.390.000
· Bifreiðar 4.959.636
· Innstæður í bönkum 3.798.008
· Hlutir í X ehf. 500.000

*Ráðstöfunartekjur kæranda og maka að meðaltali, þ.m.t. fjármagnstekjur, miðað við staðgreiðsluskrá og skattframtal.

Mánaðarlegur framfærslukostnaður hjóna í október 2008 miðað við neysluviðmið umboðsmanns skuldara hafi verið 166.583 krónur á mánuði. Auk þess munu hafa fallið á kæranda fasteignagjöld vegna tveggja fasteigna, iðgjöld vegna trygginga, samskiptakostnaður og fleira. Þyki framfærslukostnaður kæranda og maka hennar því varlega áætlaður 200.000 krónur.

Framangreind fjárhæð afborgana miði við afborganir þeirra húsnæðislána sem hvílt hafi á fasteignum kæranda að B götu og D götu. Þessi lán hafi samtals verið að fjárhæð 46.328.530 krónur í lok árs 2008 samkvæmt skattframtali. Einnig sé gert ráð fyrir greiðslubyrði láns frá Landsbankanum sem upphaflega hafi verið að fjárhæð 11.400.000 krónur og sé tryggt með veði í fasteign kæranda að B götu samkvæmt tryggingabréfi. Áætluð greiðsla af hverri milljón sé 4.500 krónur.

Samkvæmt skattframtali vegna ársins 2008 hafi skuldir kæranda og maka hennar við LÍN numið 26.198.812 krónum. Auk þess verði ráðið af skuldayfirliti kæranda að hún hafi verið skuldari tveggja bílasamninga upphaflega að fjárhæð 5.024.751 króna. Einnig verði ráðið af skuldayfirliti að krafa M ehf., sem tryggt sé með aðfararveði á 4. veðrétti fasteignar kæranda að B götu nr.  87, hafi verið í vanskilum frá 21. ágúst 2008. Afborgun þess gjalddaga hafi átt að vera 1.674.157 krónur samkvæmt fyrirliggjandi gögnum en fjárhæð skuldarinnar hafi verið 9.966.688 krónur þegar fjárnámi var þinglýst á fasteignina 29. apríl 2009.

Samkvæmt fullyrðingum kæranda fyrir kærunefndinni hafi kærandi látið verðmeta fasteign sína að B götu nr. stuttu fyrir útgáfu fyrrgreinds veðskuldabréfs. Verðmæti eignarinnar hafi þá verið talið 50.000.000 króna. Í bréfi sínu frá 1. september 2012 greini kærandi frá því að hún finni ekki verðmatið og hafi líklega ekki geymt það.

Þegar kærandi hafi tekist á hendur margnefnda skuld samkvæmt 15.000.000 króna skuldabréfi hafi hún, samkvæmt framansögðu, verið ófær um að greiða af skuldbindingum sínum og ekki verið fær um að takast á hendur verulega viðbótarskuldbindingu. Þannig verði að telja að kærandi hafi stofnað til skuldarinnar þegar hún var greinilega ófær um að standa skil á fjárhagsskuldbindingum sínum, sbr. b-lið 2. mgr. 6. gr. lge., og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma er til skuldbindingarinnar var stofnað, sbr. c-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Ekki verði séð að ráðstöfunin verði réttlætt með tekjuöflunarsjónarmiðum, enda hafi staða bæði X ehf. og Z ehf. verið erfið á þessum tíma að sögn kæranda auk þess sem skuldin sem kærandi hafi tekið á sig hafi verið mjög há. Einnig verði að telja að með þessum hætti hafi kærandi aukið mjög skuldsetningu sína, rýrt veðrými á fasteign sinni að B götu nr. 87 og takmarkað enn möguleika sína á að losa skuldir með sölu eignarinnar. Samkvæmt þessu þyki kærandi með útgáfu skuldabréfsins einnig hafa með ámælisverðum hætti látið undir höfuð leggjast að standa skil á skuldbindingum sínum eftir því sem framast var unnt, sbr. f-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður geri því næst grein fyrir ógreiddum þing- og sveitarsjóðsgjöldum en með úrskurði ríkisskattstjóra 30. ágúst 2010 hafi opinber gjöld kæranda vegna gjaldaáranna 2007 og 2008 verið endurákvörðuð. Í úrskurðinum komi fram að kærandi hafi ekki talið fram bifreiðahlunnindi. Þá sé í úrskurðinum rakið að úttektir kæranda frá X ehf., sem hafi samtals numið 38.751.998 krónum, hafi að hluta falið í sér óheimilar lánveitingar til kæranda. Tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda vegna gjaldaársins 2007 hafi verið 4.504.596 krónur fyrir endurákvörðun en varð 5.303.073 krónur. Stofn vegna gjaldaársins 2008 hafi verið 8.057.176 krónur en varð 26.672.689 krónur. Skuld kæranda vegna vanskila á þing- og sveitarsjóðsgjöldum nemi nú 9.255.498 krónum. Þar af séu 684.689 krónur vegna vanskila á árunum 2010 til 2012.

Í nefndu bréfi kæranda 1. september 2012 taki hún fram að ekki hafi verið um eingreiðslu að ræða heldur samtölu greiðslna á viðskiptareikning hennar. Kærandi hafi meðal annars varið fénu til endurbóta og viðhalds á fasteign sinni að B götu nr. 87. Einnig hafi hún greitt 5.000.000 króna útborgun við kaup á íbúð að D götu nr. 100 og 6.000.000 króna til niðurgreiðslu láns hjá LSR. Einnig hafi hún varið talsverðum fjárhæðum í greiðslu skulda vegna ábyrgðarskuldbindinga fyrir U ehf. Samkvæmt bréfi kæranda 10. október 2012 hafi bókari og endurskoðandi séð um bókhald X ehf. en ástæða þess hafi ekki síst verið athyglisbrestur hennar (ADHD). Enginn ásetningur hafi verið fyrir hendi hjá kæranda til að vangreiða opinber gjöld. Hafi hún greitt fjármagnstekjuskatt af nefndum fjármunum í samræmi við lög. Hún kveði greiðslurnar hafa verið löglegar enda hafi eigið fé X ehf. verið jákvætt um 38.000.000 króna í lok árs 2007. Þá greini kærandi frá því að ástæða þess að hún sé í vanskilum með opinber gjöld vegna áranna 2010 til 2012 sé sú að gjöldin séu lögð á eftir á og hún hafi ekki greiðslugetu til að standa skil á þeim.

Við meðferð málsins hafi kærandi lagt áherslu á að skilyrði hafi verið til arðgreiðslu þegar úttektir hennar hafi átt sér stað. Um þetta atriði sé sérstaklega fjallað í úrskurði ríkisskattstjóra frá 30. ágúst 2010 en þar segi: „Þykir eigi unnt annað en að líta á umræddar úttektir sem lán til gjaldanda og þykir eigi breyta þar um að gefist hafi svigrúm til arðgreiðslna á grundvelli fjárhagsstöðu gjaldanda í lok árs 2007 enda gaf slíkt einungis heimild til arðgreiðslu árið 2008 lögum samkvæmt.“

Umboðsmaður skuldara telji ljóst að það hafi verið á ábyrgð kæranda sem eina hluthafa og fyrirsvarsmanns X ehf. að tryggja að úttektir úr félaginu væru í samræmi við lög. Þegar fjárhagsstaða kæranda sé virt, verði að líta svo á að hún hafi verið fullfær um að standa skil á tilgreindum gjöldum þegar úttektir úr félaginu hafi átt sér stað. Til þess sé einnig að líta að um háar fjárhæðir hafi verið að ræða auk þess sem hin vangreiddu útgjöld séu opinber gjöld. Þyki sú háttsemi kæranda að tryggja ekki að úttektir hennar úr eigin einkahlutafélagi væru með lögmætum hætti og vangreiðsla hennar á opinberum gjöldum í kjölfarið fela í sér að kærandi hafi með ámælisverðum hætti látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem henni var frekast unnt auk þess sem í því hafi falist óhófleg skuldasöfnun. Þyki skuldirnar þess eðlis að sjónarmið sem búi að baki g-lið 2. mgr. 6. gr. lge. eigi við, sbr. meðal annars úrskurð kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 13/2011 þar sem fram komi að sjónarmið sem búi að baki ákvæðinu eigi sérstaklega við um opinber gjöld. Í niðurstöðukafla úrskurðarins segi meðal annars: „Hvað sem líður réttmæti álagningar skattstjóra vegna virðisaukaskatts, verður ekki hjá því litið að fjöldi krafna er þess eðlis að líta verður til sjónarmiða að baki ákvæða g-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. þar sem segir að synja megi um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans séu þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra og jafnframt til f-liðar sömu málsgreinar þar sem fjallað er um þau tilvik þegar skuldari hefur ekki staðið í skilum eftir því sem honum framast var unnt. Þessar kröfur eru ýmist opinber gjöld eða greiðsla í sjóði sem ætlaðir eru til samneyslu eða samtryggingar eða sektir og endurkrafa ríkisins vegna bóta sem greiddar eru vegna refsiverðrar háttsemi annars kæranda. Á meðal skulda af þessu tagi sem kærendur hafa ekki staðið skil á um árabil má nefna vangreidd iðgjöld í lífeyrissjóði vegna áranna 2003 og 2004, ógreidd bifreiðargjöld frá árunum 2005 til 2007 og 2010, auk ógreiddra dómsekta og sakarkostnaðar í refsimáli frá árinu 2004 og öðru máli frá 2009. Þessar kröfur að viðbættum ógreiddum reikningum vegna bifreiðatrygginga og nokkurra annarra smærri reikninga nema rúmlega 5 milljónum króna og skýrist stór hluti fjárhæðarinnar af því hve lengi þau hafa verið í vanskilum. Ekki verður annað séð en meginhluti þessara krafna hafi stofnast á tímabili þegar þau voru fær um að standa við skuldbindingar sínar eða eftir atvikum að forðast að stofna til þeirra.“

Ekki verði séð af tilvitnuðum texta og rökstuðningi í niðurstöðukafla úrskurðarins að öðru leyti að það eigi að hafa sérstaka þýðingu við beitingu á f- og g-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. hvort vangreidd opinber gjöld séu vörsluskattar eða þing- og sveitarsjóðsgjöld en því haldi kærandi fram.

Það er mat umboðsmanns skuldara að þær skuldir kæranda sem lýst hefur verið ráði miklu um alvarlega fjárhagsstöðu hennar og þyki fjárhagserfiðleikar hennar að nokkru leyti verða raktir til atvika sem hún beri sjálf ábyrgð á með framgöngu sinni.

Telji umboðsmaður skuldara óhæfilegt að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b-, c-, f- og g-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

Að öllu þessu virtu og með vísan til forsendna sem fram komi í hinni kærðu ákvörðun fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Kærandi fer fram á að kærunefndin hnekki ákvörðun umboðsmanns skuldara og heimili henni greiðsluaðlögun. Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Ef umboðsmaður skuldara synjar skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 4. mgr. 7. gr. lge. Samkvæmt lögunum er gert ráð fyrir að samþykki umboðsmanns skuldara fylgi ákveðin réttaráhrif, sbr. 8. gr. laganna, þar sem segir að með samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun hefjist tímabil greiðsluaðlögunarumleitana, og 1. mgr. 11. gr., en þar segir að þegar umboðsmaður skuldara hafi samþykkt umsókn hefjist tímabundin frestun greiðslna. Samkvæmt því gegnir umboðsmaður skuldara því hlutverki að veita heimild til greiðsluaðlögunar. Getur þar af leiðandi ekki komið til þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála samþykki slíka umsókn. Við úrlausn málsins fyrir kæru­nefndinni getur því aðeins komið til þess að kærunefndin felli ákvörðun úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju nái kröfur kæranda fram að ganga í málinu. Með tilliti til þessa verður að skilja kröfugerð kæranda þannig að farið sé fram á að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju.

Kærandi telur umboðsmann skuldara hvorki hafa sinnt leiðbeiningarskyldu samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 né veitt kæranda andmælarétt samkvæmt 13. gr. sömu laga. Rök hennar eru þau að hún hafi ekki verið upplýst um þau gögn, vitnisburði eða annað sem nægi til að styðja frásögn hennar.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál er snerta starfssvið þess. Af þessu leiðir að stjórnvaldi ber að leiðbeina aðilum að eigin frumkvæði svo sem að gera aðila viðvart ef hann hefur ekki skilað nauðsynlegum gögnum eða ekki veitt nægilega ítarlegar upplýsingar. Engar formkröfur eru fyrir hendi varðandi leiðbeiningarskylduna. Þannig geta upplýsingar verið bæði skriflegar og munnlegar, almennar eða sérstakar. Til dæmis geta leiðbeiningar verið settar fram í bæklingum frá stjórnvaldi, auglýsingum eða á netsíðum. Einnig er talið að stjórnvaldi sé skylt að veita leiðbeiningar um þær réttarheimildir sem á reynir og reglur um málsmeðferð, svo sem reglur um þá fresti sem gilda við meðferð viðkomandi máls. Í ákvæði 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga felst á hinn bóginn ekki skylda til að veita umfangsmikla eða sérfræðilega ráðgjöf.

Samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga skal aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni máls  áður en ákvörðun er tekin í því. Í því er talinn felast réttur aðila til að koma að viðbótar gögnum, upplýsingum og viðhorfum áður en stjórnvald tekur ákvörðun í máli. Þessi réttur varðar eingöngu upplýsingar sem hafa þýðingu fyrir mat á staðreyndum málsins eða sönnun um hverjar þær eru.

Samkvæmt 5. gr. lge. hefur umboðsmaður skuldara heimild til að krefjast þess að skuldari staðfesti gefnar upplýsingar með skriflegum gögnum.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 9. ágúst 2012 var óskað eftir upplýsingum frá kæranda. Voru þar tiltekin og talin upp þau atriði sem kærandi var beðinn um að upplýsa. Einnig var þess getið að embættið byði upp á ráðgjöf sem væri umsækjendum um greiðsluaðlögun að kostnaðarlausu. Kærandi svaraði með bréfi 1. september 2012. Umboðsmaður skuldara sendi kæranda síðan tölvupóst 19. október þar sem óskað var eftir afriti af tryggingarvíxli og sú beiðni var ítrekuð 22. október sama ár. Kærandi gaf þær skýringar að víxillinn væri glataður. Í ofangreindu ljósi er það mat kærunefndar greiðsluaðlögunarmála að embætti umboðsmanns skuldara hafi virt andmælarétt kæranda og sinnt leiðbeiningarskyldu sinni á þann hátt sem lög mæla fyrir um.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á b-, c-, f- og g-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt b-lið er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Í f-lið kemur fram að umboðsmanni sé heimilt að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef óhæfilegt þyki að veita hana vegna þess að skuldari hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt. Samkvæmt g-lið er umboðsmanni skuldara heimilt að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef óhæfilegt þyki að veita hana vegna þess að skuldari hafi á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans séu þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra.

Af skattaskýrslum og öðrum gögnum málsins má sjá að fjárhagsstaða kæranda var eftirfarandi árin 2006 til 2011 í krónum:

  2006 2007 2008 2009 2010 2011
Meðaltekjur* á mán. (nettó) 420.904 3.129.770 451.757 487.505 341.627 325.699
Eignir alls 37.245.907 58.660.707 62.177.644 50.256.113 45.443.420 45.284.609
· B gata nr. 87 35.460.000 39.530.000 39.530.000 31.550.000 28.200.000 31.400.000
· D gata nr. 100   13.390.000 13.390.000 13.150.000 11.750.000 12.700.000
· Ökutæki 1.545.231 5.690.707 4.959.636 4.463.672 4.017.304 794.343
· Hlutir í félögum o.fl. 50.000 50.000 500.000 500.000 500.000  
· Bankainnstæður ofl. 190.676   3.798.008 592.441 976.116 390.266
Skuldir 47.566.533 57.162.521 79.912.687 103.419.889 137.921.572 131.769.022
Nettó eignastaða -10.320.626 1.498.186 -17.735.043 -53.163.776 -92.478.152 -86.484.413

*Nettótekjur kæranda og maka, þ.m.t. fjármagnstekjur.

Helstu skuldir kæranda stafa frá árunum 2005 til 2009 en í neðangreindri töflu má sjá skuldir kæranda samkvæmt skattframtölum og öðrum gögnum málsins í krónum:

Kröfuhafi Ár Tegund Upphafleg Staða Vanskil
      fjárhæð 2012 frá
LÍN 1987-2005 Námslán   17.994.978  
Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins 2005 Veðskuldabréf 17.700.000 29.509.184 2010
Tollstjóri 2007 Þing- og sveitarsjóðsgjöld 114.672 163.229 2007
Landsbankinn 2007 Lánasamningur 11.400.000 15.212.273 2011
Íslandsbanki 2007 Bílasamningur 3.363.971 2.092.568 2011
Handhafi 2008 Veðskuldabréf 15.000.000 15.000.000 -
Tollstjóri 2008 Þing- og sveitarsjóðsgjöld 6.809.771 8.407.580 2008
Íslandsbanki 2009 Skuldabréf 3.300.000 3.628.262 2010
Tollstjóri 2010 Þing- og sveitarsjóðsgjöld 109.719 124.673 2010
Arion banki 2010 Greiðslukort   783.042 2010
Reykjavíkurborg 2010-2011 Fasteignagjöld 114.644 153.231 2010-2011
Húsfélagið D 100 2010-2011 Húsfélagsgjöld 219.629 377.758 2010-2011
Orkuveita Reykjavíkur 2011 Reikningar 123.992 161.837 2011
Landsbankinn 2011 Greiðslukort   202.211 2011
Tollstjóri 2011 Þing- og sveitarsjóðsgjöld 308.651 340.763 2011
Tollstjóri 2012 Þing- og sveitarsjóðsgjöld 219.253 219.253 2011
Tollstjóri 2012 Staðgreiðsla launa 21.844 21.314 2012
    Alls 58.806.146 94.392.156  

Til viðbótar framangreindum skuldum tókst kærandi á hendur sjálfskuldarábyrgð á skuld U ehf. samkvæmt skuldabréfi upphaflega að fjárhæð 8.370.786 krónur í desember 2006. Skuldin var til fimm ára.

Kærandi og umboðsmaður skuldara deila í fyrsta lagi um hvort veðskuldabréf sem kærandi gaf út 7. október 2008 hafi á þeim tíma talist ný skuldbinding eða ekki. Kærandi hefur greint frá því að umrætt skuldabréf hafi verið greiðsla á víxli sem kærandi gaf út 5. janúar 2008 þegar félagið X ehf., sem var í eigu kæranda, keypti hlut í öðru félagi, Z ehf. Hafi víxillinn verið trygging fyrir greiðslu hluta kaupverðsins. Undir kærumeðferð málsins lagði kærandi fram staðfestingu viðsemjanda á því að skuldbinding vegna 15.000.000 króna skuldabréfs hafi upphaflega stafað frá 5. janúar 2008. Þá kemur fram í viðauka við kaupsamning um hlutafé í Z ehf., dags. 5. janúar 2008, sem einnig var lagður fram við meðferð málsins fyrir kærunefndinni, að kaupandi hafi afhent seljanda við kaupin tryggingarvíxil að fjárhæð 15.000.000 krónur, sem útgefinn var af kæranda. Í úrskurði þessum verður því við það miðað að til skuldbindingarinnar hafi stofnast 5. janúar 2008.  Samkvæmt því ber að meta hvort kærandi hafi hagað fjármálum sínum í andstöðu við b-, c- og f-liði 2. mgr. 6. gr. lge. þegar hún tókst á hendur 15.000.000 króna víxilskuld 5. janúar 2008 en skuldina átti að greiða ekki síðar en 5. janúar 2009. Verður í því sambandi miðað við fjárhagsupplýsingar kæranda 31. desember 2007.

Samkvæmt því sem greinir hér að framan voru eignir kæranda umfram skuldir í lok ársins 2007 alls 1.498.186 krónur. Kærandi kveður fasteign sína að B götu nr. 87 hafa verið verðmeiri en skattframtal gefi til kynna. Raunverulegt verðmæti eignarinnar hafi verið 50.000.000 króna en ekki tæpar 40.000.000 króna eins og greinir í skattframtali. Kærandi hefur ekki lagt fram viðhlítandi gögn þessu til stuðnings og kveðst ekki lengur hafa undir höndum verðmat er gert var á eigninni á þessum tíma. Í samræmi við fyrri úrskurði kærunefndarinnar verður því miðað við upplýsingar á skattframtölum.

Í framlögðum óendurskoðuðum ársreikningum fyrir X ehf. kemur eftirfarandi fram um fjárhag félagsins í krónum:

X ehf. Ársreikningur
X ehf. Ársreikningur
X ehf. Ársreikningur
  2005
  2006
  2007
Hagnaður/tap 2.273.000
Hagnaður/tap 21.160.000
Hagnaður/tap 35.307.000
Eignir 15.553.000
Eignir 32.302.000
Eignir 46.698.000
Skuldir 10.541.000
Skuldir 10.030.000
Skuldir 9.220.000
Eigið fé 5.012.000
Eigið fé 22.172.000
Eigið fé 37.478.000

Kærandi gerir ráð fyrir því að hrein eign X ehf. hafi verið 75.000.000 króna, eða tvöfalt eigið fé félagsins, er hún gaf út fyrrnefndan víxil. Á skattframtali var hlutur kæranda í X ehf. talinn að verðmæti 50.000 krónur. Í kæru sinni telur kærandi á hinn bóginn verðmæti eignarhlutans í félaginu 75.000.000 krónur. Í því sambandi miðar hún við verð í fyrrnefndum kaupum er félag hennar X ehf. keypti aukinn hlut í Z ehf. Kærunefndin hefur ekki forsendur til að meta hvert verðmæti einkahlutafélags kæranda var á þessum tíma og er eignastaða hennar því óljós að þessu leyti.

Á þessum tíma voru skuldir kæranda og eiginmanns hennar rúmar 57.000.000 króna, þar af voru námslán tæpar 23.000.000 króna. Að auki stóð kærandi í ábyrgðarskuld, sbr. það sem greinir að framan. Sé tekið tillit til þeirra fjármuna sem kærandi greiddi sér úr X ehf. voru mánaðarlegar meðaltekjur hennar og eiginmanns hennar ríflega 3.100.000 krónur nettó. Verður því að ganga út frá því að kærandi hafi á þessum tíma haft fjárhagslegt bolmagn til að takast á hendur nefnda víxilskuldbindingu. Samkvæmt framansögðu telur kærunefndin að ákvæði b, c- og f-liða 2. mgr. 6. gr. lge. eigi ekki við í málinu.

Í öðru lagi greinir kæranda og umboðsmann skuldara á um það hvort kærandi hafi hagað fjármálum sínum á þann hátt að g-liður 2. mgr. 6. gr. lge. eigi við þegar hún lét hjá líða að greiða tekjuskatt af úttekt sinni úr X ehf. Samkvæmt gögnum málsins var úttektin tæpar 18.800.000 krónur. Í málinu liggur fyrir að ríkisskattstjóri hefur með úrskurði endurákvarðað opinber gjöld kæranda vegna tekjuáranna 2007 og 2008. Leiddi þetta til tæplega 7.000.000 króna skuldar kæranda við innheimtumann ríkissjóðs. Í úrskurði sínum tekur kærunefndin mið af úrskurði ríkisskattstjóra enda telst sú niðurstaða rétt nema æðra stjórnvald eða dómstólar hnekki henni. Fyrir liggur að kærandi aðhafðist ekki frekar vegna endurálagningarinnar.

Á árinu 2007 námu brúttó launatekjur kæranda, fyrir utan úttekt hennar úr X ehf., ríflega 8.700.000 krónum eða sem svarar tæpum 730.000 krónum á mánuði. Brúttótekjur eiginmanns hennar voru rúmar 153.000 krónur á mánuði. Samanlagðar brúttótekjur þeirra voru því rúmar 883.000 krónur á mánuði. Í ljósi launatekna telur kærunefndin ljóst að kæranda og eiginmann hennar hafi ekki skort fé til framfærslu enda kemur fram í málatilbúnaði kæranda að hún hafi notað það fé er hún tók út úr X ehf. til að greiða upp skuldir, til viðhalds á fasteigninni að B götu nr. 87, til að greiða hluta kaupverðs fasteignarinnar að D götu nr. 100 og til að greiða ábyrgðarskuldir. Að mati kærunefndarinnar var það á ábyrgð kæranda að sjá til þess að úttektir úr X ehf. væru með lögmætum hætti og að greidd væru af þeim opinber gjöld, en kærandi var eini hluthafi félagsins.

Samkvæmt g-lið 2. mgr. 6. gr. lge. ber að leggja mat á það áður en heimild er veitt til greiðsluaðlögunar hvort skuldari hafi stofnað til óhóflegra skuldbindinga á ámælisverðan hátt eða hvort skuldir hans séu þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra. Ber samkvæmt þessu að leggja mat á fjárhæð skuldbindingar. Kærunefndin lítur svo á að við það mat skuli notaður almennur mælikvarði og miðað við hvaða fjárhæð teljist út af fyrir sig há. Telur kærunefndin ekki hjá því komist að telja 7.000.000 króna háa fjárhæð.

Í fyrrnefndum úrskurði ríkisskattstjóra vegna endurálagningar kemur fram að í 1. mgr. 11. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003 komi fram að arðsúthlutun verði að uppfylla skilyrði laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003 komi fram að fari úthlutun gegn ákvæðum laga um einkahlutafélög teljist slík úthlutun til tekna hjá móttakanda. Úttektir kæranda hafi ekki verið í samræmi við 74. gr. laga um einkahlutafélög sem fjalli um skilyrði arðsúthlutunar. Af þeim sökum verði úttektir kæranda úr félaginu að teljast óheimilar lánveitingar og teljist af þeim sökum til skattskyldra launatekna. Á þessum grundvelli telur kærunefndin að kærandi hafi stofnað til skulda á opinberum gjöldum með ámælisverðum hætti.

Að því er varðar það skilyrði g-liðar um að skuldir séu þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra hefur kærunefndin túlkað ákvæðið þannig að kröfur sem séu vegna opinberra gjalda eða greiðslna í sjóði sem ætlaðir séu til samneyslu eða samtryggingar falli þar undir.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að ekki verði hjá því komist að telja framangreinda háttsemi kæranda og aðstæður hennar falla undir það sem lýst er í g-lið 2. mgr. 6. gr. lge.  

Í ljósi alls þessa sem hér að framan greinir telur kærunefnd greiðsluaðlögunarmála að umboðsmanni skuldara hafi verið rétt að synja A um greiðsluaðlögun á grundvelli g-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta