Mál nr. 25/2014
Fimmtudaginn 11. desember 2014
A og B
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.
Þann 5. mars 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 20. febrúar 2014 þar sem umsókn um heimild til greiðsluaðlögunar var synjað.
Með bréfi 13. mars 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 2. maí 2014.
Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 8. maí 2014 og var þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kærenda bárust með bréfi 26. maí 2014. Með bréfi 28. maí 2014 óskaði kærunefndin eftir afstöðu umboðsmanns skuldara vegna athugasemda kærenda. Engar frekari athugasemdir bárust kærunefndinni.
I. Málsatvik
Kærendur sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar 19. desember 2013 hjá umboðsmanni skuldara. Kærendur eru fædd 1987 og 1988 og búa ásamt tveimur börnum sínum í Svíþjóð.
Kærendur eru bæði menntuð sem hárgreiðslufólk. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að kærandi A starfar án ráðningarsamnings á hárgreiðslustofunni X AB. Tekjur hans nema að meðaltali 314.722 krónum á mánuði. Kærandi B starfar til reynslu á ótilgreindri hárgreiðslustofu. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvort hún þiggi laun á reynslutímanum. Að meðtöldum vaxtabótum, leigutekjum og barnabótum eru framfærslutekjur kærenda 502.072 krónur.
Að mati kærenda má rekja fjárhagserfiðleika þeirra til þess að rekstur þeirra á einkahlutafélagi hafi ekki gengið sem skyldi. Enn fremur að þeim hafi ekki tekist að selja eldra húsnæði þegar þau keyptu nýtt húsnæði.
Samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru heildarskuldir kærenda 20.479.908 krónur og þar af falla 18.735.969 krónur innan samnings, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Þær skuldir sem falla utan samnings um greiðsluaðlögun eru vegna námslána.
Með bréfi 4. febrúar 2014 upplýsti umboðsmaður skuldara kærendur um að samkvæmt gögnum málsins uppfylltu þau ekki skilyrði 4. mgr. 2. gr. lge. um búsetu til að hægt væri að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt gögnum málsins væri ekki ástæða til að víkja frá skilyrði um búsetu. Var kærendum veittur 15 daga frestur til að tjá sig um efni málsins og styðja það gögnum. Kærendur svöruðu bréfi umboðsmanns skuldara með bréfi 18. febrúar 2014.
Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 17. mars 2014 var umsókn kærenda um greiðsluaðlögun synjað með vísan til þess að þau uppfylltu ekki skilyrði til þess að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt a-lið 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr. lge.
II. Sjónarmið kærenda
Kærendur krefjast þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi. Fram kemur í kæru að eina breytingin á högum kærenda frá því að umboðsmaður skuldara tók ákvörðun um að synja um heimild til greiðsluaðlögunar, sé að kærandi B sé nú atvinnulaus.
Kærendur hafi farið tímabundið til Svíþjóðar þar sem vinna hafi boðist. Fjölskyldan hafi flutt í júní 2013 og stefnt að tímabundinni dvöl þar til úr rættist með atvinnu á Íslandi. Kærendur kveðast muni koma aftur til Íslands um leið og atvinnumöguleikar opnist.
Kærendur telja hina kærðu synjun umboðsmanns skuldara ósanngjarna en þau séu íslenskir þegnar sem hafi farið af landi brott fyrir örfáum mánuðum til tímabundinnar dvalar vegna atvinnu og erfiðleika í fjármálum eftir fall íslensku bankanna. Kærendur hafi gert allt til að standa við skuldbindingar sínar og sem betur fer hafi önnur fasteign þeirra og bifreið selst skömmu eftir að þau fóru af landi brott. Eftir standi íbúð sem kærendur hafi keypt árið 2008 en hún sé yfirveðsett þrátt fyrir að kærendur hafi greitt 4.500.000 krónur í peningum við kaupin. Það fé sé nú glatað. Þá skuldi kærendur lítilsháttar yfirdráttarlán og lán hjá Íslandsbanka sem sé ekki hátt. Auk þess séu kærendur í sjálfskuldarábyrgð fyrir yfirdráttarláni hjá Landsbanka Íslands vegna félags þeirra V ehf. sem lokað hafi verið vegna rekstrarvanda. Kærendur vísa til þess að ekki hafi verið gert greiðslumat þegar þau gengust undir sjálfskuldarábyrgðina en bankanum hafi verið full ljóst að þau gætu ekki greitt skuldina sem hafi síðan komið í ljós þegar fyrirtækinu var lokað.
Kærendur kveðast ekki hafa verið í vanskilum nema með yfirdráttarheimildir í Landbanka Íslands og hafi foreldrar kæranda A gert allt sem í þeirra valdi hafi staðið til að aðstoða kærendur við að standa í skilum. Landsbanki Íslands vilji ekkert fyrir kærendur gera nema þau samþykki skuldabréf til greiðslu á yfirdrætti fyrrnefnds félags kærenda. Kærendur kveðast ekki hafa staðist greiðslumat sem bankinn hafi gert vegna skuldabréfsins.
Varðandi búsetu kærenda erlendis komi fram í greinagerð með lge. að „öll rök mæli með því að gera fólki kleift að leita greiðsluaðlögunar sem flutt hefur til útlanda til náms eða atvinnuleitar, m.a. til að tryggja að fólk treysti sér til að flytja til landsins aftur“. Samkvæmt þessu hafi verið ljóst að þingmenn þjóðarinnar hafi verið að hugsa rétt, því ekkert sé mikilvægara en að fólk sem flúið hafi land tímabundið sjái möguleika á að koma aftur heim. Tímabundin búseta kærenda sé staðfest með tímabundnum leigusamningi sem þó sé hægt að framlengja ef svo illa vildi til að kærendur væru ekki komin með starf á Íslandi þegar samningurinn rennur út. Einnig sé kærandi B í námi til áramóta og ætti að taka tillit til þess við afgreiðslu málsins.
Í greinargerð með lge. komi hvergi fram með hvaða hætti sönnun um tímabundna búsetu skuli lögð fram. Tímabundinn leigusamningur um húsnæði og tímabundinn ráðningar-samningur vegna atvinnu séu jafn tryggar sannanir: Hvoru tveggja sé hægt að framlengja, ef því sé að skipta, þannig að ekkert vit sé í því að hafna öðru en samþykkja hitt. Þá sé fjallað um það í greinargerð með lge. að öll rök mæli með því að fólki verði gert kleift að leita greiðsluaðlögunar. Þess vegna sé undarleg sú skýring umboðsmanns skuldara að þessa grein laganna skuli skýra mjög þröngt. Það sé í ósamræmi við tilgang laganna.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að samkvæmt a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. skuli synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Í 4. mgr. 2. gr. lge. sé sett það skilyrði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar að umsækjandi sé búsettur og eigi lögheimili hér á landi. Frá þessu skilyrði megi þó víkja ef sá sem leitar greiðsluaðlögunar er tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda og hefur átt lögheimili eða verið búsettur hér á landi í að minnsta kosti þrjú ár samfleytt, enda leiti hann einungis greiðsluaðlögunar vegna skuldbindinga sem stofnast hafi hér á landi við lánardrottna sem eigi hér heimili.
Kærunefnd greiðsluaðlögunarmála hafi úrskurðað í máli þar sem uppi hafi verið ágreiningur um hvort líta ætti á búsetu kæranda erlendis sem tímabundna þannig að undantekningarheimild 4. mgr. 2. gr. lge. ætti við. Í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 14/2011 frá 24. nóvember 2011 segi: „Til að afmarka þau tilvik þar sem um tímabundna búsetu erlendis er að ræða verður að líta til þess að heimildin er undantekning frá meginreglu, sem ekki er ætlað að ná til allra sem flytja erlendis um ótiltekinn tíma, til dæmis vegna atvinnuleitar. Það ræður ekki úrslitum í málum af þessu tagi hvort viðkomandi hafi flutt lögheimili sitt erlendis. Hins vegar verður við það að miða að með tímabundinni búsetu sé átt við það að sýnt sé fram á eða það gert líklegt að búsetu erlendis sé í upphafi markaður ákveðinn tími. Þegar flutt er til útlanda vegna starfs verður því að miða við það að viðkomandi hafi þegið tímabundið starf eða tekist á hendur verkefni sem fyrirfram er markaður ákveðinn tími eða einhver önnur atriði geri það líklegt að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða.“
Samkvæmt upplýsingum frá kærendum hafi þau flutt til Svíþjóðar í júní 2013 þar sem kæranda A bauðst starf. Kærendur munu hafa stefnt á tímabundna dvöl í Svíþjóð þar til úr rættist með vinnu á Íslandi. Samkvæmt greinargerð kærenda og fyrirliggjandi upplýsingum hafi búsetu kærenda í Svíþjóð ekki verið markaður ákveðinn tími í upphafi. Það leiði af eðli tímabundinnar ráðstöfunar að henni ljúki á ákveðnu tímamarki. Þá hafi ástæða búferlaflutninga ekki verið nám, tímabundið starf eða veikindi. Verði því ekki séð að aðstæður kærenda falli undir undanþágu a-liðar 4. mgr. 2. gr. lge. Í ljósi búsetu kærenda uppfylli þau ekki skilyrði 4. mgr. 2. gr. lge. og embættinu sé því skylt að synja þeim um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli a-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.
Kærendum hafi verið veitt færi á því að gera athugasemdir og leggja fram gögn í málinu vegna þeirra atriða sem þóttu geta leitt til synjunar á umsókn um greiðsluaðlögun. Eftir skoðun á upplýsingum frá kærendum og gögnum málsins hafi embættið komist að þeirri niðurstöðu að synja bæri kærendum um heimild til að leita greiðsluaðlögunar.
Um framkvæmd a-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. í greiðsluaðlögunarmálum hjá umboðsmanni skuldara og kærunefnd greiðsluaðlögunarmála megi vísa til úrskurða nefndarinnar í málum nr. 60/2012, nr. 62/2012, nr. 8/2012, nr. 78/2012 og nr. 14/2011. Af þeim verði ráðið að með tímabundinni búsetu sé átt við að sýnt sé fram á eða gert líklegt að búsetu erlendis hafi í upphafi verið markaður ákveðinn tími, að viðkomandi hafi þegið tímabundið starf eða tekist á hendur verkefni sem fyrirfram hafi verið markaður ákveðinn tími eða einhver önnur atriði geri það líklegt að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða.
Í tilviki kærenda liggi fyrir að þau séu búsett í Svíþjóð og hafi verið með skráð lögheimili þar frá júnímánuði 2013. Kærandi A sé með atvinnu en ekki hafi verið gerður við hann ráðningarsamningur. Kærandi B sé í atvinnuleit. Kærendur hafi lýst því yfir að þau líti á búsetuna sem tímabundna á meðan þau fái ekki atvinnu á Íslandi. Af fyrirliggjandi upplýsingum verði þó ekki ráðið að ástæða flutnings til Svíþjóðar hafi verið nám, tímabundið starf eða veikindi, sbr. undanþágutilvik a-liðar 4. mgr. 2. gr. lge. Kærunefnd greiðsluaðlögunarmála hafi talið, að undantekningarheimild eins og sú sem felist í 4. mgr. 2. gr. lge., verði að skýra þröngt, svo sem meðal annars sé rakið í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 14/2011. Þannig verði að gera ríkar kröfur til umsækjenda um greiðsluaðlögun, sem séu búsettir og hafi lögheimili erlendis, um að þeir sýni fram á að búsetunni sé markaður fyrirfram ákveðinn tími og styðji fullyrðingar sínar gögnum.
Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á hún verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á a-lið 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr. lge. Í a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. kemur fram að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Í 4. mgr. 2. gr. lge. segir að þeir einir geti leitað greiðsluaðlögunar samkvæmt lögunum sem eigi lögheimili og eru búsettir hér á landi. Frá þessu má þó víkja, meðal annars á þeim grundvelli að sá sem leitar greiðsluaðlögunar sé tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda og hafi átt lögheimili og verið búsettur hér á landi í að minnsta kosti þrjú ár samfellt, enda leiti hann einungis greiðsluaðlögunar vegna skuldbindinga sem stofnast hafi hér á landi við lánardrottna sem eigi hér heimili.
Framangreind ákvörðun umboðsmanns byggist á því að kærendur séu búsett erlendis og ekki sé unnt að líta svo á að búseta þeirra sé tímabundin vegna náms, starfa eða veikinda í skilningi undantekningarákvæðis 4. mgr. 2. gr. lge. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr. lge., var því umsókn kærenda um greiðsluaðlögun synjað. Í málinu er ágreiningur um hvort líta eigi á búsetu kærenda erlendis sem tímabundna þannig að áðurnefnd undantekningarheimild í 4. mgr. 2. gr. lge. eigi við.
Til skýringar á hugtakinu „tímabundin búseta erlendis“ í skilningi lge. verður að líta til þess að heimildin í 4. mgr. 2. gr. lge. er undantekning frá meginreglu og ber að skýra hana þröngt. Af orðalagi ákvæðisins má ráða að því er ekki ætlað að ná til þeirra sem flytja til annarra landa í ótiltekinn tíma, til dæmis vegna atvinnuleitar. Við það verður að miða að með tímabundinni búsetu sé átt við það að sýnt sé fram á eða það gert líklegt að búsetu erlendis sé í upphafi markaður ákveðinn tími. Þegar flutt er til útlanda vegna starfs verður því að miða við það að viðkomandi hafi þegið tímabundið starf eða tekist á hendur verkefni sem fyrirfram er markaður ákveðinn tími eða einhver önnur atriði valdi því að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða. Að mati kærunefndarinnar verður ekki litið svo á að um tímabundna búsetu sé að ræða ef sú staðhæfing er ekki studd gögnum. Nefndin telur ekki fullnægjandi í þessu sambandi að kærendur lýsi því yfir að þau hyggist flytja aftur til Íslands þegar fram líða stundir, til dæmis við breyttar aðstæður, sem óvíst er hvort og þá hvenær verði. Samkvæmt því telur nefndin ekki nægilegt í þessu sambandi að kærendur lýsi því yfir að þau hyggist flytja aftur til Íslands þegar úr rætist með atvinnu.
Í tilviki kærenda liggur fyrir að þau eru búsett í Svíþjóð. Kærendur hafa verið með skráð lögheimili í Svíþjóð frá 5. júní 2013.
Af ofangreindu er því ljóst að kærendur uppfylla ekki skilyrði 4. mgr. 2. gr. lge. um lögheimili og búsetu á Íslandi. Þá er það mat kærunefndarinnar að kærendur hafi ekki sýnt fram á með viðhlítandi gögnum að búseta þeirra í Svíþjóð geti talist tímabundin í skilningi a-liðar 4. mgr. 2. gr. lge. Það er því mat kærunefndarinnar að kærendur geti ekki talist uppfylla skilyrði laga um greiðsluaðlögun einstaklinga. Verður því að telja að rétt hafi verið af hálfu umboðsmanns skuldara að synja kærendum um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til a-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.
Með vísan til þessa er ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kærendum um heimild til greiðsluaðlögunar staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.
Sigríður Ingvarsdóttir
Eggert Óskarsson
Lára Sverrisdóttir