Mál nr. 214/2012
Fimmtudaginn 8. janúar 2015
A
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.
Þann 14. nóvember 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 22. október 2012 þar sem umsókn kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar var synjað.
Með bréfi 29. nóvember 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 8. janúar 2013.
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 10. janúar 2013 og var henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda við greinargerðina bárust 31. mars 2013.
Með bréfi 11. apríl 2013 voru athugasemdir kæranda sendar umboðsmanni skuldara til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust.
I. Málsatvik
Kærandi er fædd 1971 og býr ásamt einmanni sínum og tveimur börnum í eigin húsnæði að B götu nr. 20 í sveitarfélaginu E. Kærandi er öryrki og atvinnulaus. Mánaðarlegar tekjur hennar eru 34.485 krónur frá Tryggingastofnun ríkisins.
Heildarskuldir kæranda nema 60.308.395 krónum samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara og falla þar af 2.094.036 krónur utan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skuldbindinga kæranda var stofnað á árunum 2006 til 2008. Að mati kæranda eru ástæður skuldasöfnunar atvinnuleysi, tekjulækkun, veikindi og hækkun lána.
Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að embættið hafi óskað eftir upplýsingum um tekjur kæranda og maka hennar. Veittir hafi verið ítrekaðir frestir til að skila gögnum en kærandi hafi ekki orðið við beiðnum umboðsmanns skuldara þar um.
Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 30. júní 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 22. október 2012 var umsókninni hafnað með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru eru ekki settar fram sérstakar kröfur, en skilja verður málatilbúnað kæranda þannig að hún krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Kærandi segir að umboðsmaður skuldara hafi ítrekað óskað eftir nýjum gögnum. Kærandi hafi skilað öllum gögnum en endurskoðandi sé að vinna í skattframtali 2012. Kærandi óskar þess að fá aðstoð við að semja við kröfuhafa. Ef samningar náist sé hægt að leysa fjárhagsvanda kæranda.
Kærandi sendi nefndinni afrit af skattframtölum vegna áranna 2010, 2011 og 2012 ásamt leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts vegna ársins 2010.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. skuli synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.
Umboðsmaður skuldara hafi farið yfir umsókn kæranda og meðfylgjandi gögn. Embættið hafi ítrekað óskað eftir því að kærandi afhenti embættinu skattframtal maka fyrir árið 2008 vegna tekjuársins 2007. Einnig hafi verið óskað eftir því að kærandi skilaði skattframtali fyrir árið 2012 vegna tekjuársins 2011. Hvorugt þessara gagna hafi borist embættinu.
Þann 22. maí 2012 sendi umboðsmaður skuldara kæranda tölvupóst á uppgefið netfang og veitti kæranda þriggja daga frest til að skila frekari gögnum. Í kjölfarið voru kæranda veittir allnokkrir viðbótarfrestir.
Þann 17. ágúst 2012 barst umboðsmanni skuldara álagningarseðill frá kæranda vegna skattframtals maka hennar fyrir árið 2008. Að mati umboðsmanns skuldara kemur álagningarseðill ekki í stað skattframtals. Þá hafi kærandi ekki skilað skattframtali fyrir árið 2012 vegna tekjuársins 2011 samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra.
Þær skyldur verði að leggja á umsækjendur um greiðsluaðlögun að afhenda þau gögn sem fylgja skuli umsókn, sbr. 3. mgr. 4. gr. lge. Gögnin hafi ekki fylgt með umsókn kæranda og ekki fengist afhent þrátt fyrir að ítrekað væri óskað eftir þeim.
Niðurstaða umboðsmanns skuldara hafi því verið að fyrirliggjandi gögn gæfu ekki nægilega glögga mynd af fjárhag kæranda og/eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Embættinu hafi því borið að synja kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.
Ákvörðun í máli kæranda hafi verið tekin tæpum 16 mánuðum eftir að umsókn hennar hafi borist embættinu, fimm mánuðum eftir að gagna var formlega óskað í tölvupósti og tæpum þremur mánuðum eftir að ábyrgðarbréf þar sem beðið var um gögn var sent til kæranda. Kærandi hafi því haft nægan tíma til að skila umbeðnum gögnunum. Umboðsmaður skuldara getur þess að í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 6/2011 frá 4. júlí 2011 hafi nefndin talið að kæranda hafa verið gefinn nægur tími til að skila gögnum í máli sínu. Í því máli hafi kærandi haft tæpa fjóra mánuði til að skila umbeðnum gögnum þegar umsókn hans var tekin til afgreiðslu og rúma tvo mánuði til viðbótar til að skila gögnum. Um sé að ræða sams konar mál og hér sé til umfjöllunar.
Umboðsmaður skuldara áréttar að það sé aðeins á færi kæranda að leggja fram þau gögn sem óskað hafi verið eftir við vinnslu málsins. Samkvæmt 4. mgr. 4. gr. lge. beri skuldara að útvega nauðsynleg gögn og koma þeim til umboðsmanns skuldara. Þetta hafi meðal annars verið staðfest í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 5/2011 frá 21. júní 2011.
Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á b-lið 1. mgr. 6. gr. lge.
Samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. skal synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Er hér gert ráð fyrir að skuldari taki virkan þátt og sýni viðeigandi viðleitni við að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður. Í skýringum við 6. gr. í athugasemdum með frumvarpi til lge. er áréttað mikilvægi þess að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um allt sem lýtur að fjárhagslegum málefnum hans og að hann verði við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem skuldara einum er unnt að afla eða gefa.
Við mat á því hvað teljist nægilega glögg mynd af fjárhag skuldara telur kærunefndin meðal annars rétt að líta til 4. og 5. gr. lge.
Í 4. gr. lge. er gerð grein fyrir umsókn um greiðsluaðlögun. Í 1. mgr. 4. gr. er upptalning í 11 töluliðum á því sem koma skal fram í umsókninni. Í 4. tölul. segir að í umsókn um greiðsluaðlögun skuli koma fram hverjar tekjur skuldara séu, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðist, svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum. Veita skal umboðsmanni skuldara upplýsingar samkvæmt 1. mgr. 4. gr. um maka skuldara og þá sem teljast til heimilis með honum, sbr. 2. mgr. 4. gr. lge.
Í 5. gr. er kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og getur embættið krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingarnar með gögnum. Rannsókn á fjárhagsstöðu skuldara hefur bæði þýðingu við mat á því hvort tilefni sé að synja umsókn á grundvelli 2. mgr. 6. gr. lge. og varpar jafnframt ljósi á núverandi fjárhagsstöðu skuldara og væntanlega þróun hennar til framtíðar.
Umboðsmaður skuldara óskaði eftir skattframtali kæranda og maka fyrir árið 2012 vegna tekjuársins 2011. Undir rekstri málsins hjá kærunefnd greiðsluaðlögunarmála lagði kærandi fram skattframtöl sín og maka fyrir árin 2010 vegna tekjuársins 2009, 2011 vegna tekjuársins 2010 og 2012 vegna tekjuársins 2011.
Einnig óskaði umboðsmaður skuldara eftir skattframtali maka kæranda fyrir árið 2008 vegna tekjuársins 2007. Í 3. mgr. 4. gr. lge. kemur fram að með umsókn um heimild til greiðsluaðlögunar skuli fylgja síðustu fjögur skattframtöl skuldara. Lögin áskilja því ekki með beinum hætti að síðustu fjögur skattframtöl maka skuldara skuli fylgja umsókn. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. lge. ber einungis að veita umboðsmanni skuldara upplýsingar um maka skuldara eða þá sem teljast til heimilis með honum um þau atriði sem tilgreind eru í 11 töluliðum 1. mgr. 4. gr. lge. Í málinu liggur ekki fyrir að sérstök þörf sé á því að skattframtal maka kæranda fyrir tekjuárið 2007 fylgi umsókn eða að skylt sé að láta framtalið í té samkvæmt 4. gr. lge. Með vísan til þess verður ekki litið þannig á að um skilyrðislausa skyldu kæranda til að leggja umrætt skattframtal fram sé að ræða í máli þessu.
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist, eins og áður segir, á því að fyrirliggjandi gögn gefi ekki glögga mynd af fjárhag kæranda eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Kærandi sinnti ekki óskum umboðsmanns um framlagningu skattframtals fyrir árið 2012 vegna tekjuársins 2011, sem var til þess fallið að gefa gleggri og skýrari mynd af fjárhagsstöðu kæranda, en þetta voru upplýsingar sem kærandi einn gat látið í té að mati umboðsmanns skuldara. Við meðferð málsins hjá kærunefnd greiðsluaðlögunarmála hefur umræddu skattframtali verið skilað ásamt fleiri gögnum, en kærandi lagði gögnin fram 31. mars 2013. Því liggja nú fyrir þau gögn sem kæranda var skylt að leggja fram í málinu og þörf var á að mati umboðsmanns skuldara hvað kæranda varðar.
Þar sem nú liggja fyrir þau gögn sem áður vantaði, verður eðli máls samkvæmt að fella ákvörðun umboðsmanns skuldara úr gildi.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er felld úr gildi.
Sigríður Ingvarsdóttir
Eggert Óskarsson
Lára Sverrisdóttir