Mál nr. 20/2011
Fimmtudaginn 26. janúar 2012
A og B
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Ingibjörg Þorsteinsdóttir formaður, Einar Páll Tamimi hdl. og Arndís Anna K. Gunnarsdóttir hdl.
Þann 5. maí 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 28. apríl 2011, þar sem umsókn þeirra um greiðsluaðlögun einstaklinga er hafnað.
Með bréfi, dags. 10. maí 2011, óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 17. maí 2011.
Greinargerðin var send kærendum með bréfi, dags. 20. maí 2011, og þeim gefin kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 9. september 2011. Kærunefndinni bárust engar frekari athugasemdir frá kærendum.
I.
Málsatvik
Þann 20. apríl 2010 lögðu kærendur fram umsókn um greiðsluaðlögun einstaklinga en áður höfðu þau óskað eftir ráðgjöf frá Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna. Umboðsmaður skuldara synjaði umsókn þeirra með ákvörðun, dags. 28. apríl sl., þar sem hann taldi að fyrirliggjandi gögn gæfu ekki nægilega glögga mynd af fjárhag kærenda og væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Ákvörðun umboðsmanns um að synja umsókn kærenda byggir á b-lið 1. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).
Í greiðsluáætlun sem umboðsmaður gerði 24. febrúar 2011 kemur fram að heildarskuldir kærenda séu taldar vera 56.606.620 krónur og eignir þeirra eru metnar á 8.120.000 krónur. Er þar um að ræða heimili kærenda að C-götu nr. 4 og 6 sem A er skráður eigandi að. Skuldir umfram eignir nema því um 48.486.620 krónum, þar af eru í vanskilum um tæplega 32.000.000 króna. Tekjur A eru 300.620 krónur á mánuði en B fær greiddar atvinnuleysisbætur sem nema 160.391 krónu á mánuði. Greiðslugeta þeirra, að teknu tilliti til framfærslukostnaðar, er samkvæmt yfirlitinu 33.729 krónur á mánuði. Á heimili þeirra búa fimm börn sem öll eru á framfæri þeirra en fjögur þeirra eru undir 18 ára aldri.
Á skuldayfirliti umboðsmanns, frá 24. febrúar 2011, er yfirlit yfir allar skuldbindingar kærenda. Þar kemur fram að vanskil opinberra gjalda, þ.e. ógreidd þing- og sveitarsjóðsgjöld fyrir árin 2008, 2009 og 2010, nemi 11.430.749 krónum. Kærendur hafa dregið í efa réttmæti þessari krafna svo sem gerð er grein fyrir í kaflanum um sjónarmið kærenda. Ekki virðist vera ágreiningur að öðru leyti um þessar fjárhagslegu forsendur í málinu.
Af skuldayfirlitinu má enn fremur ráða að vanskil kærenda hefjist í ágúst 2008 en elsti ógreiddi gjalddagi kröfu er frá þeim tíma. Upp frá því aukast vanskil jafnt og þétt á árunum 2008 til 2010. Er það að mestu í samræmi við það sem kærendur halda fram um að ástæður fjárhagserfiðleika þeirra megi, auk almenns efnahagsástands, meðal annars rekja til atvinnuleysis, en A varð atvinnulaus í ágúst 2008, og erfiðleika í rekstri fyrirtækja í eigu B en hann rak meðal annars E ehf. frá mars 2006 fram til júní 2008. Félagið E ehf. hefur nú verið tekið til gjaldþrotaskipta. Af gögnum málsins og frásögn kærenda má einnig ráða að þau hafi rekið fyrirtækið F eignarhaldsfélag ehf. um tíma og séð um rekstur G ehf. en það fyrirtæki var skráð í eigu foreldra B. Kærendur starfrækja nú fyrirtækið H, en reksturinn er skráður á félagið L ehf. sem er í eigu barna þeirra. Á umliðnum árum hafa kærendur enn fremur stundað kaup og sölu fasteigna.
Í skattframtölum kærenda koma fram eftirfarandi upplýsingar: Í skattframtali 2007 kemur fram að B, þá skráður til heimilis að I-götu nr. 6, sé skráður eigandi að fasteignunum I-götu nr. 4, J-götu nr. 28 og C-götu nr. 4. Hann fái greidd laun frá E ehf. og eigi hlut í G ehf. Á framtalinu er J-götu nr. 8 einnig nefnd auk viðbyggingar við I-götu nr. 6. A, skráð til heimilis að J-götu nr. 28, er skráð eigandi þess húsnæðis í árslok 2006 samkvæmt skattframtali og að hún hafi keypt það 1. janúar 2006. Bæði telja þau fram sem einstæðir foreldrar það ár. Í skattframtali 2008 kemur fram að B, þá skráður til heimilis að C-götu nr. 4, fái greidd laun frá E ehf. auk tekna af atvinnurekstri, en hann á hlutabréf í G ehf., F eignarhaldsfélagi ehf. og K ehf. Hann er skráður eigandi fasteignanna I-götu nr. 4 og C-götu nr. 4, en hann hafi keypt hana á 1.000.000 króna þann 15. júní 2006 þrátt fyrir að hafa verið skráður eigandi árið áður. Þar kemur einnig fram frestaður söluhagnaður vegna J-götu nr. 8, að fjárhæð 18.230.000 krónur en söluverð hafi verið 20.000.000 króna. A, skráð til heimilis að C-götu nr. 6, er skráð eigandi þess húsnæðis auk J-götu nr. 28, en hún keypti C-götu nr. 6 þann 9. júlí 2007 á 7.700.000 krónur. Hún telur fram sem einstætt foreldri. Á skattframtali 2009 er B, skráður til heimilis að C-götu nr. 4, ekki skráður eigandi að neinni fasteign en hann á hlutafé í G ehf., F eignarhaldsfélagi ehf. og K ehf. Hvergi kemur fram að hann hafi selt fasteignir á árinu. A er sama ár skráð eigandi að J-götu nr. 28 og C-götu nr. 4 og 6 og býr að C-götu nr. 6. Bæði telja fram sem einstæð það ár. Á skattframtali 2010 og 2011 telja þau fram saman og á síðara framtalinu eru þau þá skráð eigendur að C-götu nr. 4 og 6 en ekkert kemur þar fram um sölu eigna.
Meðal gagna málsins er bréf frá embætti umboðsmanns skuldara, dags. 24. janúar 2011, þar sem kærendum er veittur vikufrestur til að veita frekari gögn og upplýsingar. Einnig er að finna afrit af tölvupóstum til kærenda frá starfsmönnum embættis umboðsmanns skuldara, þar sem kærendur eru beðin um að veita frekari gögn og upplýsingar. Umræddir tölvupóstar eru sendir 23., 24. og 25. febrúar 2011 og 2., 14. og 25. mars s.á. Í þeim er kærendum veittur þriggja daga frestur til að skila inn umbeðnum gögnum. Þá sendir umboðsmaður kærendum ábyrgðarbréf 31. mars 2011, þar sem beiðni embættisins um upplýsingar er ítrekuð. Einnig eru í gögnum málsins afrit af minnisblöðum starfsmanna umboðsmanns skuldara, dags. 19. og 28. apríl 2011, þar sem vísað er til símtala sem starfsmenn embættisins hafa átt við kærendur þar sem beiðni um upplýsingar er ítrekuð.
II.
Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Í greinargerð umboðsmanns skuldara til kærunefndarinnar kemur fram að hann telji að í gögnum málsins séu afar takmarkaðar upplýsingar um fjárhag umsækjenda að öðru leyti en því sem rakið er í málavaxtalýsingu um keyptar og seldar fasteignir og lántökur tengdar þeim og stofnun eða kaup fyrirtækja. Umboðsmaður telur verulega skorta á að haldið hafi verið utan um kaup og sölu fasteigna og skráningu vegna þeirra í skattframtöl á undangenginna ára. Þá segir umboðsmaður í greinargerðinni að kærendur hafi ekki getað gert nánari grein fyrir þeim vangreidda söluhagnaði sem samkvæmt skattframtölum hafi aldrei verið greiddur. Kærendur hafi haldið því fram að mistök hafi verið gerð við framtalningu þessara tekna til skatts og það hafi ekki tekist að fá það leiðrétt, en þrátt fyrir áskoranir þar um hafi þau ekki útskýrt það nánar eða lagt fram gögn því til sönnunar. Að öðru leyti hafi kærendur ekki getað lagt fram viðeigandi gögn svo glöggt megi sjá hvernig fjárhag þeirra sé og var raunverulega háttað á umræddu tímabili. Þá hafi sá aðili sem séð hafi um bókhald fyrir kærendur ekki getað útskýrt nánar í hverju hinn meinti misskilningur skattyfirvalda felist þótt eftir því hafi ítrekað verið leitað.
Umboðsmaður vísar til þess að embættinu beri við mat á umsókn um heimild til greiðsluaðlögunar að líta til aðstæðna sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í b-lið 1. mgr. ákvæðisins komi fram að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Það er mat umboðsmanns að heildstætt mat á gögnum málsins gefi ekki glögga mynd af fjárhagsstöðu kærenda og á grundvelli þess hafi umboðsmaður tekið ákvörðun um að synja þeim um heimild til að leita greiðsluaðlögunar, með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.
II.
Sjónarmið kærenda
Kærendur telja að ástæður synjunar umboðsmanns séu vegna skattaskuldar annars kærenda, B. Kærendur greina frá því að er þau hófu samband sitt hafi tvær fasteignir verið í eigu B, annars vegar J-götu nr. 28 og hins vegar I-gata nr. 4. B seldi A fasteignina að J-götu nr. 28 á 18.000.000 króna, en A tók lán til þess að fjármagna kaupin, en við þau viðskipti hafi þau í sameiningu losað um fé, u.þ.b. 8.000.000 króna. Helmingi þeirrar fjárhæðar hafi verið ráðstafað til þess að festa kaup á fasteigninni að M-götu 21, en hinum helmingi fjárins hafi verið varið til greiðslu skulda. Kærendur greina einnig frá því að B hafi síðan keypt F eignarhaldsfélag ehf. utan um rekstur fasteignarinnar M-götu nr. 21 og hafi fjárfest alls 17.000.000 króna í því félagi og varið til þess 4.000.000 króna söluhagnaði fasteignarinnar og tekið yfir 13.000.000 króna áhvílandi lána. B hafi síðan stofnað félagið E ehf. utan um rekstur veitingastaðarins sem var staðsettur að M-götu nr. 21. B seldi síðar rekstur veitingahússins en fékk eingöngu greiddar 2.000.000 króna af kaupverðinu sem var alls 6.000.000 króna.
Er B seldi A fasteignina að J-götu nr. 28 var sú fasteign í útleigu. B kaupir því næst fasteignina að J-götu nr. 8 til heimilishalds fjölskyldunnar. Með þeirri ráðstöfun hafi kærendur ætlað að fresta skattlagningu á söluhagnaðinum sem hafi myndast er B seldi A fasteignina að J-götu nr. 28. Sú ráðstöfun hafi þó ekki gengið eftir þar sem J-gata nr. 28 var skráð sem rekstrareining vegna veitingahúsreksturs B og þannig sé skattaskuld hans tilkomin, u.þ.b. 11.000.000 króna í dag.
Kærendur lýsa stöðu sinni í dag á þá leið að fasteignirnar J-gata nr. 8 og I-gata nr, 4 séu seldar, en sala á fasteignunum J-götu nr. 28 og M-götu nr. 21 hafi ekki gengið eftir og því hafi báðar fasteignirnar verið seldar á uppboði. Í kjölfarið segjast kærendur hafa flust í sveitarfélagið D, en þar keyptu þau lítið parhús, fasteignirnar C-gata nr. 4 og 6 sem þau gerðu endurbætur á og séu báðar fasteignir nú heimili fjölskyldunnar.
Kærendur óska þess að synjun umboðsmanns skuldara á umsókn þeirra um greiðsluaðlögun verði endurskoðuð. Kærendur árétta að fasteignir í þeirra eigu séu allar seldar og þau segjast ekki skilja þá fullyrðingu að um hagnað hafi verið að ræða af þeim viðskiptum. Kærendur segjast hafa staðið í fyrirtækjarekstri á þeim tíma sem ekki hafi gengið sem skyldi og allur hagnaður af sölu fasteigna hafi verið settur í umræddan fyrirtækjarekstur. Kærendur lýsa núverandi stöðu sinni þannig að annar kærenda, A, sé eigandi að C-götu nr. 4 og 6 í sveitarfélaginu D, sem sé heimili fjölskyldunnar. Á þeim fasteignum séu áhvílandi lán að fjárhæð 19.000.000 króna og þau hafi getað staðið í skilum, en af tekjum þeirra sé enginn afgangur. Þá segjast kærendur vera með fimm börn á framfæri og árétta að þau hafi hug á því að sækja um 110% leiðina fyrir yfirveðsett heimili.
IV.
Niðurstaða
Kærendur hafa á umliðnum árum stundað umtalsverðan rekstur og kaup og sölu fasteigna og útleigu. Verulega skortir á að þau hafi gert viðhlítandi grein fyrir fjárhagslegum afleiðingum þessarar starfsemi. B átti um tíma að minnsta kosti tvö félög, E ehf. og F eignarhaldsfélag ehf. Bæði þessi félög eru bókhaldsskyld en hvorki ársreikningar þeirra né bókhaldsgögn hafa verið lögð fram í málinu. Segir B í tölvupósti frá 28. febrúar 2011 að hann hafi ekki séð ástæðu til láta gera bókhald eftir að þau hafi tapað öllu. Í tölvubréfi umboðsmanns frá 3. mars sl. er óskað skýringa á meðferð söluhagnaðar vegna sölu fasteignanna I-götu nr. 6, J-götu nr. 8 og J-götu nr. 28. Er þar annars vegar um að ræða söluhagnað vegna I-götu nr. 6 upp á 23.189.353 krónur og hins vegar söluhagnað upp á 18.230.000 krónur sem ekki er ljóst hvort stafi frá sölu á J-götu nr. 8 eða 28. Fjárhæðirnar byggja á upplýsingum úr skattframtali kærenda. Óskaði umboðsmaður eftir nánari skýringum umræddum söluhagnaði bæði í tölvupóstum og einnig með ábyrgðarbréfi 31. mars sl. Kærendur hafa ekki svarað efnislega umræddum erindum umboðsmanns. Þá er heldur ekki að finna göng frá þeim um aðrar tekjur af atvinnurekstri, svo sem vegna útleigu á J-götu nr. 28. Þá er einnig talsverð óvissa um hvernig þessum viðskiptum var í raun háttað þar sem engin gögn er að finna í málinu sem lúta að staðfestingu á kaupum eða sölu eigna, stofnun eða kaup fyrirtækja, hvorki hvað varðar kaup- og söluverð né hvort og hvenær þau hafi verið tekin til gjaldþrotaskipta og hver hafi verið afdrif þrotabúanna. Nokkuð skorti á að umboðsmaður hafi með skýrum hætti lagt fyrir kærendur að leggja fram slík gögn heldur byggist málatilbúnaður í nær öllum tilvikum á óljósri frásögn kærenda. Að þessu leyti er það aðfinnsluvert að umboðsmaður hafi ekki með skýrari hætti farið fram á nánar greind gögn og leiðbeint kærendum um hvernig þau geti stutt frásögn sína viðeigandi gögnum. Hins vegar gerir umboðsmaður skýran reka að því að afla gagna úr bókhaldi þeirra fyrirtækja sem kærendur segjast hafa rekið og fær þau svör að lögbundinni bókhaldsskyldu hafi ekki verið sinnt. Þá gerir hann jafnframt ítarlegar tilraunir til að fá kærendur til að gera viðhlítandi grein fyrir meðferð söluhagnaðar sem þau sjálf telja fram á skattframtali eða leggja fram einhver gögn sem sýnt geti fram á að hann hafi verið annar en þar kemur fram. Skiptir það atriði ekki einvörðungu máli til að sannreyna raunverulega skuldastöðu þeirra nú heldur er mikilvæg forsenda varðandi mat á því hvort skilyrði greiðsluaðlögunar séu fyrir hendi að öðru leyti.
Sú skylda hvílir á kærendum að taka virkan þátt í gagnaöflun og varðar það sérstaklega framlagningu gagna sem ekki er á færi annarra en þeirra sjálfra að leggja fram. Verulega skortir á að kærendur hafi sinnt þessari skyldu sinni og er málatilbúnaður þeirra allur með þeim hætti að ekki er mögulegt að taka afstöðu til þess hvort skilyrði greiðsluaðlögunar séu fyrir hendi. Var umboðsmanni skuldara því rétt að synja umsókn kærenda um greiðsluaðlögun.
Með hliðsjón af ofangreindu og gögnum máls er niðurstaða nefndarinnar sú að staðfesta beri ákvörðun umboðsmanns í máli kærenda.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.
Ingibjörg Þorsteinsdóttir
Einar Páll Tamimi
Arndís Anna K. Gunnarsdóttir