Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 27/2011

Mánudagurinn 4. júlí 2011

A

gegn

Christiane L. Bahner hdl.

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Ingibjörg Þorsteinsdóttir formaður, Einar Páll Tamimi hdl. og Arndís Anna K. Gunnarsdóttir hdl.

Þann 6. júní barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun skiptastjóra um að mæla ekki með því að nauðasamningur til greiðsluaðlögunar komist á og að af tímabundinni greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna verði, skv. 63. gr. c. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, sbr. V. kafla laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010.

 

I.

Málsatvik

Bú kæranda var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði kveðnum upp 8. júní 2010 og var Christiane L. Bahner skipuð skiptastjóri yfir búinu.

Heildarfjárhæð lýstra krafna í bú kæranda er 87.060.338 krónur og vega þar þyngst tvö veðskuldabréf tekin í erlendri mynt, upprunalega að fjárhæð 5.000.000 krónur annars vegar og 14.400.000 krónur hins vegar. Lýst krafa vegna hins fyrra var að fjárhæð 16.326.494 krónur og vegna hins síðara var að fjárhæð 51.423.941 krónur.

Kærandi hefur áður reynt að ljúka gjaldþrotaskiptum með nauðasamningi til greiðsluaðlögunar samkvæmt heimild í þágildandi 63. gr. i. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991 en þeirri beiðni var hafnað með úrskurði B-héraðsdóms þann [...] 2011 þar sem skilyrði 2. mgr. 153. gr. laganna hafi ekki verið uppfyllt.

Kærandi hefur á ný lagt fram beiðni um að ljúka gjaldþrotaskiptum með nauðasamningi til greiðsluaðlögunar annars vegar og hins vegar að honum verði veitt tímabundin greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna skv. 63. gr. c. laga um gjaldþrotaskipti, nr. 21/1991.

Með greinargerð skiptastjóra, dags. 17. maí 2011, er lagst gegn því að kærandi fái lokið gjaldþrotaskiptum með nauðasamningi til greiðsluaðlögunar og að hann fái tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna þar sem skilyrði 2. mgr. 153. gr. laga um gjaldþrotaskipti sé ekki uppfyllt. Samkvæmt ákvæðinu sé það skilyrði fyrir staðfestingu nauðasamnings að veðkröfur séu áður greiddar, fullnægjandi trygging sé sett fyrir greiðslu þeirra eða að hlutaðeigandi samþykki skriflega að nauðasamningur verði staðfestur án þess. Framangreindar veðkröfur, samanlagt að fjárhæð 67.750.435 krónur, hafa hvorki verið greiddar, fullnægjandi trygging sett fyrir greiðslu þeirra né liggur fyrir skriflegt samþykki kröfuhafa, X banka hf., fyrir því að nauðsamningur verði staðfestur án þess. Taldi skiptastjóri þetta standa í vegi greiðsluaðlögunar og mælti hún því ekki með því að nauðasamningur til greiðsluaðlögunar og tímabundin greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna kæmist á.

Með kæru dags. 6. júní 2011 kærði kærandi ofangreinda ákvörðun skiptastjóra og telur ósanngjarnt að bankinn leggist gegn því að hann fái lokið gjaldþrotaskiptum með nauðsamningi til greiðsluaðlögunar vitandi það að gengistryggðu lánin séu ólögleg. X banki hafi neitað honum um yfirlýsingu þess efnis að allra úrræða hafi verið leitað þar sem hann hafi ekki fallist á að skrifa undir svokallaða 110% leið bankans, en umrædd yfirlýsing sé forsenda þess að greiðsluaðlögun komist á. Krefst hann þess að hin kærða ákvörðun verði ógilt.

 

IV.

Niðurstaða

Kærð er ákvörðun skiptastjóra um að leggjast gegn nauðasamningi til greiðsluaðlögunar og tímabundinni greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna frá 17. maí 2011.

Ákvörðun skiptastjóra er byggð á því að að ekki séu uppfyllt skilyrði 2. mgr. 153. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991. 153. gr. er að finna í XXI. kafla laganna sem fjallar um nauðasamninga við gjaldþrotaskipti. Samkvæmt ákvæðinu er það skilyrði fyrir staðfestingu nauðasamnings að veðkröfur séu áður greiddar, fullnægjandi trygging sé sett fyrir greiðslu þeirra eða að hlutaðeigandi samþykki skriflega að nauðasamningur verði staðfestur án þess.

Í 63. gr. c. laga um gjaldþrotaskipti segirað ljúka megi gjaldþrotaskiptum með nauðasamningi til greiðsluaðlögunar eftir ákvæðum XXI. kafla og eftir atvikum tímabundinni greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna samkvæmtlögum nr. 50/2009. Í stað þess að þrotamaður leggi frumvarp að nauðasamningi fyrir skiptastjóra og hann láti greiða atkvæði um það skal þrotamaðurinn þá leggja fyrir skiptastjóra greiðsluáætlun og hann síðan leita greiðsluaðlögunar á sama hátt og umsjónarmaður hefði ella gert samkvæmt ákvæðum V. kafla laga nr. 101/2010, um greiðsluaðlögun einstaklinga.

Í ákvæðinu er annars vegar vísað til XXI. kafla laga um gjaldþrotaskipti og hins vegar til laga um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna nr. 50/2009 og laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010.

Í V. kafla laga um greiðsluaðlögun einstaklinga er í 18. gr. fjallað um að hafi samningar ekki tekist um greiðsluaðlögun, geti skuldari lýst því yfir umsjónarmann að hann vilji leita nauðasamnings í því skyni og eftir atvikum tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Í 19. gr. er fjallað um nauðasamninga til greiðsluaðlögunar sem taka til annarra krafna en þeirra sem tryggðar eru með veði eða öðrum hætti í eignum skuldara. Að öðru leyti en greinir í 19. gr. skuli fara eftir X. kafla a. laga um gjaldþrotaskipti, en þar er að finna reglur um meðferð nauðasamninga til greiðsluaðlögunar án undanfarandi gjaldþrotaskipta. Í 20. gr. er fjallað um greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Um greiðsluaðlögun þeirra krafna fer að öðru leyti en greinir í 20. gr. eftir ákvæðum laga um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna en ekki er vísað ákvæða laga um gjaldþrotaskipti þar að þessu leyti. Verður því ekki séð að áskilnaður 153. gr. eigi við í málinu að því er varðar beiðni um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna, þar sem það úrræði fer nú eftir ákvæðum sérlaga um það efni en ekki eftir ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti. Ákvæði 2. mgr. 153. gr. getur heldur ekki átt við um nauðasamning til greiðsluaðlögunar þar sem slíkur samningur tekur ekki til fasteignaveðkrafna svo sem greinir í 1. mgr. 19. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga eða krafna skv. 109., 110. og 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti. skv. c. lið 1. mgr. 3. gr. fyrrnefndu laganna. Því myndi nauðasamningur skv. 19. gr. ekki taka til þeirra krafna sem eru greindar í 2. mgr. 153. gr.

Af framangreindu er ljóst að hér er í raun um að ræða tvenns konar úrræði sem kærandi leitar, annars vegar nauðasamning til greiðsluaðlögunar og hins vegar tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna. Með réttu hefði skiptastjóri í greinargerð sinni átt að gera greinarmun á þessu tvennu og taka afstöðu til annars vegar nauðasamnings til greiðsluaðlögunar annarra krafna en veðkrafna skv. 19. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga og hins vegar tímabundinnar greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna skv. 20. gr. sömu laga og laga nr. 50/2009.

Í 18. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga er fjallað um þau atriði sem skiptastjóra ber að líta til þegar hann tekur afstöðu til þess hvort hann mæli með því að nauðasamningur eða tímabundin greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna komist á. Þar kemur m.a. fram að líta beri til þess hvort nokkuð hafi komið fram sem í öndverðu hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar og hvort raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar að fenginni greiðsluaðlögun. Af fyrirliggjandi greiðsluáætlun kæranda og öðrum gögnum málsins má ráða að beiðni hans um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna uppfyllir ekki þau skilyrði sem lög 50/2009 áskilja. Þannig er ljóst að greiðsluáætlun sem felur í sér gjaldfrest allra krafna í allt að fjögur ár er ekki í samræmi við 5. gr. laganna og getur því ekki verið grundvöllur heimildar til að leita tímabundinnar greiðsluaðlögunar fasteignaverðkrafna. Gert er ráð fyrir því að þetta atriði leiði til þess að beiðni um greiðsluaðlögun verði hafnað fari hún eftir 3. tölul. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 50/2009. Eðlilegt er að sömu sjónarmið séu lögð til grundvallar þegar beiðni er metin á grundvelli 18. gr. laga um greiðsluaðlögun enda fer málið að öðru leyti eftir ákvæðum laga nr. 50/2009.

Hvað varðar beiðni um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar annarra krafna en veðkrafna, á grundvelli 19. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, kveða ákvæði 18. gr. laga gr. laganna ótvírætt á um að afstaða skiptastjóra til vilja skuldara til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar skuli vera rökstudd. Ekkert er þó vikið að öðrum kröfum en veðkröfum í greinargerð skiptastjóra og er grundvöllur hans fyrir synjun beiðni kæranda að þessu leyti með öllu óljós. Kemur þetta í veg fyrir að nefndin geti lagt mat á það hvort skilyrði séu fyrir hendi til að heimila kæranda að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar hvað þessar kröfur varðar. Ekki getur talist rétt að kærandi beri hallan af þessum annmarka á greinargerð skiptastjóra og er synjun hans hvað varðar beiðni kæranda um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar annarra krafna en veðkrafna því felld úr gildi.

Með ofangreindum rökstuðningi og athugasemdum er ákvörðun skiptastjóra staðfest hvað varðar beiðni um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna en synjun skiptastjóra hvað varðar beiðni um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlöguna annarra krafna en veðkrafna felld úr gildi.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Staðfest er ákvörðun Christiane L. Bahner hdl. um að mæla gegn því að tímabundin greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna komist á en ákvörðun hennar að því er varðar heimild til að leita nauðsamninga til greiðsluaðlögunar er felld úr gildi.

 

 

Ingibjörg Þorsteinsdóttir

Einar Páll Tamimi

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta