Mál nr. 204/2012
Fimmtudaginn 8. janúar 2015
A
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.
Þann 1. nóvember 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 19. október 2012 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.
Með bréfi 5. nóvember 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 22. janúar 2013.
Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kæranda til kynningar með bréfi 5. febrúar 2013 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi 8. mars 2013.
Þann 11. mars 2013 voru umboðsmanni skuldara sendar athugasemdir kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá umboðsmanni skuldara.
I. Málsatvik
Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 2. desember 2011 var kæranda veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar með samningum við kröfuhafa og henni skipaður umsjónarmaður.
Kærandi er fædd 1985. Hún er einstæð móðir og býr í foreldrahúsum að B götu nr. 16 í sveitarfélaginu D ásamt fjögurra ára dóttur sinni. Hún á 76 fermetra íbúð að E götu nr. 1 í sveitarfélaginu F sem hún leigir út.
Kærandi er í námi við Háskóla Íslands og þiggur endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins vegna G sjúkdóms. Mánaðarleg fjárhæð endurhæfingalífeyris er 131.822 krónur eftir frádrátt skatts. Aðrar tekjur eru barnabætur, meðlag og barnalífeyrir, samtals að fjárhæð 69.129 krónur. Þá fær kærandi leigutekjur að fjárhæð 75.000 krónur á mánuði.
Samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru heildarskuldir kæranda 16.703.432 krónur og falla þær í heild innan samninga. Til helstu skuldbindinga var stofnað árið 2007 vegna fasteignakaupa. Að mati kæranda má rekja fjárhagserfiðleika til fyrrnefndra fasteignakaupa kæranda, sambúðarslita árið 2009 þar sem hallað hafi verulega á kæranda við skiptingu skulda og til veikinda. Hafi afborganir íbúðarláns hækkað umtalsvert í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Kærandi hafi árið 2008 verið greind með liðagigt og verið sett á endurhæfingarlífeyri vegna erfiðleika hennar við að sinna vinnu.
Með tölvupósti til umsjónarmanns 24. júlí 2012 vakti Landsbankinn hf. athygli á því að kærandi hafi keypt gjaldeyri fyrir 26.051 krónu 30. júní 2012 og jafnframt hafi hún notað fyrirframgreitt kreditkort sitt í Danmörku á svipuðum tíma fyrir 158.129 krónur. Kærandi kvaðst hafa notað greiðslu sem hún fékk frá Vátryggingafélagi Íslands vegna tjóns á bifreið sinni til að greiða fyrir utanlandsferð.
Umsjónarmaður taldi að þar sem kærandi hafi ekki ætlað að nota umrædda fjármuni til viðgerðar á því tjóni sem varð á bifreiðinni hafi henni borið að leggja fjárhæðina til hliðar í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) enda teljist tjónagreiðslur af þessu tagi til tekna. Umsjónarmaður tilkynnti umboðsmanni skuldara með bréfi 21. ágúst 2012 að í ljósi þessa hafi kærandi ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. um að leggja fjármuni til hliðar. Samkvæmt útreikningum umsjónarmanns hafi greiðslugeta kæranda verið um 55.000 krónur á mánuði. Á þeim tíma sem frestun greiðslna hafði varað frá lokum janúar 2011 þar til umsjónarmaður lagði til niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana samkvæmt 15. gr. lge. hefði kærandi átt að geta lagt til hliðar um 1.000.000 króna að mati umsjónarmanns. Kærandi hafi ekkert lagt til hliðar, en borið við auknum læknis- og lyfjakostnaði, kostnaði við bílaviðgerðir og vegna brúðkaups náins ættingja.
Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 28. ágúst 2012 var henni gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tiltekins frests og leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge., áður en tekin yrði endanleg ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild til greiðsluaðlögunar. Umboðsmanni skuldara hafi ekki borist svar við umræddu bréfi en gögn málsins beri með sér að bréfið hafi verið afhent kæranda 30. ágúst 2012.
Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 15. október 2012 var heimild kæranda til greiðsluaðlögunar felld niður með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru eru ekki settar fram kröfur en skilja verður málatilbúnað kæranda á þann veg að hún mótmæli ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á greiðsluaðlögunarumleitunum hennar og að hún krefjist þess að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Í kæru tekur kærandi fram að sökum stöðu sinnar sem öryrkja og móður geti hún ekki aflað hærri tekna en nemi þeim örorkubótum sem hún fái. Telji hún að illa hafi verið unnið að máli sínu hjá umsjónarmanni og umboðsmanni skuldara. Margir hafi komið að málinu og að mismunandi niðurstöður hafi komið fram varðandi greiðslugetu hennar.
Niðurstaðan sé byggð á því að hún hafi ekki lagt til hliðar fjármuni sem hún hafi fengið vegna bílatjóns á árinu 2012. Hún hafi ekki gert sér grein fyrir því að þeir peningar væru taldir til tekna. Frændi hennar hafi gert við bifreiðina kæranda að kostnaðarlausu og hún hafi talið í lagi að hún ráðstafaði tryggingabótum vegna bílatjónsins í ferð til Danmerkur. Sú ferð hafi ekki bara verið skemmtiferð heldur hafi hún verið hluti af mikilli vinnu við sjálfsstyrkingu sem kærandi hafi verið í síðan í janúar 2012. Þá tekur kærandi fram að það sé ekki rétt að hún hafi ekki svarað bréfi umboðsmanns skuldara frá 28. ágúst 2012, en hún hafi svarað því með tölvupósti 12. september 2012. Embætti umboðsmanns kveði að hún hafi ekki gert grein fyrir ástæðum ferðarinnar. Í gögnum málsins megi þó sjá að hún hafi sagt embættinu frá grundvelli ferðarinnar.
Kærandi segir að frænka hennar hafi gefið henni nefnda utanlandsferð með þeim hætti að kærandi myndi nota þær bætur sem fengust vegna tjóns á bifreið hennar til að greiða fyrir ferðina, en frænka hennar myndi síðan greiða fyrir viðgerðina á bílnum. Átti kærandi sig nú á því að eðlilegra hefði verið að fyrirkomulagið hefði verið öfugt, þ.e. hún hefði greitt fyrir viðgerð á bifreiðinni með þeim bótum sem greiddar voru út.
Kærandi vísar til gagna sem fylgdu athugasemdum hennar við greinargerð umboðsmanns skuldara um greiðslur hennar til sálfræðings. Hún fái engar niðurgreiðslur á þjónustu sálfræðingsins þar sem hún sé ekki í stéttarfélagi. Þá fylgi einnig gögn vegna greiðslna kæranda fyrir lækniskostnað og tannlæknakostnað.
Kærandi kveðst fá mánaðarlegar greiðslur frá Tryggingastofnun að fjárhæð 193.608 krónur, en að auki fái hún mánaðarlega húsaleigutekjur að fjárhæð 85.000 krónur fyrir skatt. Heildartekjur séu því 278.608 krónur á mánuði. Kærandi segir heildarútgjöld sín vera 274.494 krónur á mánuði. Samkvæmt því sé greiðslugeta hennar 4.114 krónur á mánuði. Inn í þennan útreikning vanti þó tannlæknakostnað og læknis- og tannlæknakostnað dóttur kæranda.
Neysluviðmið umboðsmanns skuldara geri ekki ráð fyrir skekkjum og taki ekki mið af einstaklingnum. Kærandi sé öryrki og hafi átt erfiðan uppvöxt sem hafi leitt til vanlíðunar og þunglyndis. Ekki sé hægt að steypa alla í sama mót og reikna með því að sama eigi við um alla. Hún geri sér grein fyrir því að hún hafi ekki skýrt nægilega vel frá ferð sinni til Danmerkur, en hún hafi heldur ekki fengið nægilega skýrar upplýsingar frá umboðsmanni skuldara um það hvernig greiðsluaðlögunarferlið virkaði. Hún eigi dóttur og það sé henni mikilvægt að þeim líði vel og að hún sé góð móðir. Þessi ferð hafi verið hluti af þeirri áætlun eins og hún hafi greint frá í tölvupósti til umsjónarmanns. Þar sem umboðsmaður skuldara virtist ekki hafa haft vitneskju um þennan tölvupóst hafi kærandi sent hann til starfsmanns embættisins í september 2012.
Kærandi segist vilja borga inn á skuldir en það geti hún því miður ekki eins og staðan sé í dag. Hún stundi nám sem henti líkamlegri getu hennar. Hún reyni að læra allt sem hún geti um sjálfa sig til þess að geta staðið upprétt og barist við það þunglyndi sem hún glími við. Þetta gangi vel. Þá sé hún farin að taka virkan þátt í samfélaginu, og viti að hún muni á endanum geta staðið í skilum.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar sem sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Sé þá miðað við að hann geti ekki staðið við eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skulda, eigna auk fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna sinna að öðru leyti, sbr. 1. og 2. mgr. 2. gr. lge. Ef fram komi upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge.
Í 1. mgr. 12. gr. lge. séu tilgreindar skyldur skuldara við greiðsluaðlögun þegar frestun greiðslna stendur yfir. Í a-lið 1. mgr. 12. gr. segi að á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar skuli skuldari leggja til hliðar af launum sínum og öðrum tekjum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farboða.
Samkvæmt fyrirliggjandi útreikningum séu mánaðarleg útgjöld kæranda um 260.766 krónur miðað við framfærsluviðmið októbermánaðar 2012 fyrir einn fullorðinn og eitt barn. Sé það mat embættis umboðsmanns skuldara að greiðslugeta kæranda sé óveruleg, eða um 15.853 krónur líkt og greiðsluáætlun umboðsmanns skuldara beri með sér. Þó verði ekki litið framhjá því að kærandi hafi fengið bætur vegna tjóns á bifreið hennar að fjárhæð 203.905 krónur. Þessu fé hafi kærandi varið til kaupa á utanlandsferð. Hafi kærandi ekki greint embætti umboðsmanns skuldara nánar frá eðli ferðarinnar, en af samskiptum hennar og umsjónarmanns að dæma hafi hún verðið gestur á Hróarskelduhátíðinni. Árinu áður hafi kærandi sótt brúðkaup systur sinnar í Danmörku, en vegna eðlis þeirrar ferðar hafi umsjónarmaður ekki fundið að því.
Það sé mat umboðsmanns skuldara að skemmtiferðir til útlanda eða önnur kostnaðarsöm ferðalög falli ekki undir almenna framfærslu kæranda samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Í samræmi við mótmæli Landsbankans vegna framlagðs frumvarps umsjónarmanns til samnings um greiðsluaðlögun beri að líta svo á að kæranda hafi ekki verið stætt á öðru en að leggja nefnt fé til hliðar, hafi hún ekki ætlað að verja fénu til viðgerða á bílnum. Þá hafi kærandi nefnt í tölvupósti til fulltrúa umsjónarmanns 31. júlí 2012 að skýra mætti skort á hjálögðu fé samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með greiðslum kæranda inn á lán á nafni ömmu hennar. Ekki sé vitað nánar um eðli þeirrar skuldbindingar. Heimfæra verði slíka háttsemi einnig til brota á skyldum kæranda samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Öllum umsækjendum um greiðsluaðlögun sem nutu frestunar greiðslna, svokallaðs greiðsluskjóls, hjá umboðsmanni skuldara hafi verið sent bréf 8. apríl 2011, þar sem skyldur kæranda samkvæmt 12. gr. lge. hafi verið áréttaðar. Umræddar upplýsingar hafi enn fremur verið að finna á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Að auki séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli samkvæmt 12. gr. ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og skuldara. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar um greiðsluaðlögun 2. desember 2011 sem hafi borist kæranda í ábyrgðarpósti. Hafi kæranda því mátt vera ljóst að hún skyldi halda til haga öllum þeim fjármunum sem hún hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum þar til að því kæmi að gengið yrði að samningum við kröfuhafa.
Kærandi hafi hvorki veitt umsjónarmanni né umboðsmanni skuldara haldbærar skýringar á því hvers vegna hún hafi ekki lagt fé til hliðar á meðan frestun greiðslna stóð. Að þessu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki þótt hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr. lge., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Í 1. mgr. 15. gr. lge. segi að ef fram komi upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna um slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Í a-lið 1. mgr. 12. gr. komi fram að skuldari skuli leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. komi fram að telji umsjónarmaður skuldara hafa brugðist skyldum sínum samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.
Umboðsmanni skuldara hafi borist tilkynning 21. ágúst 2012 frá umsjónarmanni með greiðsluaðlögunarumleitunum kæranda þess efnis að atvik málsins væru með þeim hætti að þau hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil. Umsjónarmaðurinn hafi vísað til þess að kærandi hefði ekki lagt fjármuni til hliðar þann tíma sem hún hefði verið í greiðsluskjóli. Hún hafi nýtt tjónsbætur í utanlandsferð í stað þess að leggja þær fyrir og nota sem greiðslu til lánardrottna. Hafi umsjónarmaður og lánardrottinn talið að kærandi hefði brugðist þeim skyldum sem kveðið sé á um í a-, c- og d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Kæranda hafi verið veitt tækifæri til að láta álit sitt í ljós með bréfi 28. ágúst 2012, en eins og fram hafi komið hafi ekki borist svar. Þær skýringar sem kærandi hafi gefið umsjónarmanni og starfsmanni hans réttlæti ekki brot kæranda á skyldum sínum.
Kærandi kveðst ekki hafa gert sér grein fyrir því að tjónsbætur hennar teldust til tekna. Hafi kæranda mátt vera það ljóst en ef hún teldi vafa fyrir hendi hafi henni verið í lófa lagið að bera umrædda ráðstöfun undir embætti umboðsmanns skuldara eða umsjónarmann sinn. Ekkert hafi komið fram á síðari stigum sem breytt geti þeim forsendum sem ákvörðun um niðurfellingu á heimild kæranda til greiðsluaðlögunar sé byggð á.
Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fari umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.
Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. Með bréfi 21. ágúst 2012 til umboðsmanns skuldara tilkynnti umsjónarmaður að kærandi hefði ekki uppfyllt skyldur sínar að þessu leyti og fór þess á leit að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður.
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærandi hafi ekki lagt til hliðar fjármuni sem voru umfram framfærslu hennar á sama tíma og hún naut frestunar greiðslna, svonefnds greiðsluskjóls. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II í lge. hófst tímabundin frestun greiðslna kæranda strax við móttöku umsóknar hennar um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara 27. janúar 2011. Samkvæmt 5. mgr. sama ákvæðis eiga skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. laganna við þegar umsókn hefur verið móttekin af umboðsmanni skuldara og greiðslum frestað tímabundið í samræmi við ákvæðið.
Samkvæmt gögnum málsins var kærandi ítarlega upplýst um skyldu sína til að leggja fjármuni til hliðar í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Greiðslugeta kæranda er óveruleg, en samkvæmt greiðsluáætlun umboðsmanns skuldara fyrir kæranda er greiðslugeta hennar 15.853 krónur á mánuði. Kærandi álítur greiðslugetu sína í raun um 4.000 krónur á mánuði þar sem hún reyki og kostnaður við það sé 17.250 krónur á mánuði.
Í tölvupósti sem kærandi sendi umsjónarmanni 31. júlí 2012 er því lýst að hún hafi notað þá peninga sem hún fékk greidda frá Vátryggingafélagi Íslands til þess að fara til Danmerkur, nánar tiltekið á Hróarskelduhátíðina. Hafi hún talið að þetta væri heimilt þar sem „þetta teldist engan vegin [svo] til tekna eða neitt slíkt“. Að mati kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samræmist nefnd ráðstöfun ekki skyldum skuldara samkvæmt 12. gr. lge. Kærandi fékk greiddar bætur að fjárhæð 203.905 krónur vegna tjóns á bifreið hennar en hún kaus að nota peningana í utanlandsferð í stað þess að láta gera við bifreiðina. Þessar bætur teljast til tekna og í ljósi þess að fjármunirnir voru ekki nýttir til viðgerða á bifreiðinni bar kæranda að leggja þá til hliðar í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. sem hún gerði ekki. Af lagaákvæðinu leiðir að skuldara er óheimilt að nota slíkt fé til annars en framfærslu eða til að greiða óhjákvæmilegan kostnað. Utanlandsferðin fellur ekki undir slíkt. Stoðar að mati kærunefndarinnar ekki fyrir kæranda að bera fyrir sig vanþekkingu þar sem skyldur samkvæmt 12. gr. voru ítarlega kynntar fyrir kæranda af umboðsmanni skuldara.
Í fyrrnefndum tölvupósti til umsjónarmanns segist kærandi jafnframt hafa greitt af láni sem er á nafni ömmu hennar og það sé skýring á því að hún hafi ekki getað lagt fyrir. Kærunefndin telur þetta ekki fullnægjandi skýringu þar sem kæranda hafi einnig borið að leggja þetta fé til hliðar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Með vísan til alls framangreinds fellst kærunefndin á það mat umboðsmanns skuldara að kærandi hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. á meðan leitað var greiðsluaðlögunar. Samkvæmt því voru skilyrði samkvæmt 15. gr. lge. til að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda fyrir hendi þegar hin kærða ákvörðun var tekin.
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. er því staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.
Sigríður Ingvarsdóttir
Eggert Óskarsson
Lára Sverrisdóttir