Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 222/2012

Fimmtudaginn 15. janúar 2015

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 28. nóvember 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 14. nóvember 2012 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 3. desember 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 7. janúar 2013.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 10. janúar 2013 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kærenda bárust 31. janúar 2013. Með bréfi 5. febrúar 2013 óskaði kærunefndin eftir afstöðu umboðsmanns skuldara vegna athugasemda kærenda. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1972 og 1976. Þau búa ásamt fjórum börnum sínum í eigin 205 fm einbýlishúsi að Austurkór 103 í Kópavogi. Kærandi Smári er viðskiptafræðingur og var sagt upp starfi sínu vorið 2009. Hann starfaði frá þeim tíma sem lagerstarfmaður og síðar sem vöruhúsastjóri. Kærandi Laufey er þroskaþjálfi og starfar sem slíkur á leikskóla. Mánaðarlegar tekjur kærenda eru 424.895 krónur vegna launa, greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, vaxta- og barnabóta.

Að sögn kærenda má rekja fjárhagserfiðleika þeirra til framkvæmda á íbúðarhúsnæði og tekjulækkunar. Árið 2006 fengu kærendur úthlutað lóð undir framtíðarhúsnæði sem þau greiddu 8.600.000 krónur fyrir. Lóðina fengu þau afhenta árið 2008 eftir mikinn drátt en um það leyti var farið að gæta tregðu á fasteignamarkaði svo þeim reyndist ekki unnt að selja þá eign sem þau áttu fyrir. Kærendur lýsa því að kostnaður við byggingu húsnæðisins hafi farið fram úr öllum áætlunum enda höfðu öll aðföng hækkað til muna í kjölfar gengisfalls krónunnar og verðbólgu. Þá hefði kæranda Smára verið sagt upp starfi sínu og hafi tekjur hans lækkað töluvert í kjölfarið. Kærendum hafi þá verið orðið erfitt um vik að standa við skuldbindingar sínar. Kærandi Laufey hafi farið í fæðingarorlof árið 2011 með tilheyrandi tekjulækkun.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt yfirliti umboðsmanns skuldara eru 52.588.371 króna og falla þær allar innan samnings, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 20. júní 2011 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. lge. Þann 24. júní 2011 var umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum kærenda.

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 10. apríl 2012 tilkynnti umsjónarmaður með vísan til 5. mgr. 13. gr. lge. að fram væru komnar ástæður fyrir niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana samkvæmt 15. gr. lge. Fram kemur í tilkynningu umsjónarmanns að það hafi verið eindreginn vilji kærenda að halda fasteign sinni og í samræmi við það hafi verið unnin drög að frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun. Því frumvarpi hafi verið mótmælt af Landsbankanum og hafi bankinn farið fram á að fasteign kærenda yrði seld. Umsjónarmaður hafi gert kærendum grein fyrir stöðunni og útbúið frumvarp í annað sinn þar sem kveðið var á um sölu fasteignar kærenda. Það frumvarp hafi aldrei verið sent til kröfuhafa þar sem kærendur hafi ekki getað fallist á sölu eignarinnar. Umsjónarmaður útbjó frumvarp í þriðja sinn en það var sent Landsbankanum. Í frumvarpinu var gert ráð fyrir að kærendur héldu fasteigninni. Bankinn hafnaði frumvarpinu á grundvelli þess að ekki væru líkur á því að hagur kærenda myndi vænkast það mikið á þremur árum að þau kæmu til með að geta staðið undir raunafborgunum innan matsverðs fasteignar að lokinni greiðsluaðlögun. Umsjónarmaður kveðst hafa reynt allt sem í hans valdi stóð til að finna lausn á málinu en án árangurs.

Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 11. maí 2012 þar sem þeim var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Í bréfi umboðsmanns skuldara er vísað til þess að umsjónarmaður hafi tekið ákvörðun um sölu á fasteign kærenda en kærendur hafi ekki fallist á þá tillögu.

Með bréfi 16. maí 2012 svöruðu kærendur bréfi umboðsmanns skuldara. Þar greindu kærendur frá því að þau teldu sölu fasteignarinnar ekki fela í sér lausn á fjárhagsvanda þeirra. Athugasemdir við frumvarp til greiðsluaðlögunarsamnings hafi einungis borist frá einum kröfuhafa, þ.e. Landsbankanum. Leiguverð fyrir þriggja til fimm herbergja íbúð í hverfi þeirra sé á bilinu 200.000 til 250.000 krónur á mánuði auk þess sem leiguhúsnæði fylgi lítið öryggi. Einnig færu tekjur þeirra hækkandi og gætu þau bætt við sig frekari vinnu. Það sé þeirra bjargfasta trú að þau verði ekki í núverandi stöðu að nokkrum mánuðum liðnum og hvað þá eftir þrjú ár og því beri að samþykkja greiðsluaðlögun til þriggja ára.

Með bréfi 14. nóvember 2012 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunar­umleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur krefjast þess að umboðsmaður skuldara afturkalli ákvörðun sína um að fella niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunar og útbúi samning til greiðsluaðlögunar á milli kærenda og kröfuhafa. Jafnframt er þess krafist að málskostnaður verði greiddur samkvæmt mati kærunefndar greiðsluaðlögunarmála.

Kærendur kveðast gera alvarlegar og verulegar athugasemdir við ákvörðun umboðsmanns skuldara. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara sé vísað til þess að Landsbankinn hafi hafnað tillögu í frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun þar sem gert hafi verið ráð fyrir að kærendur héldu eftir fasteign sinni. Kærendur hafi hvorki fengið að sjá þá höfnun né rökstuðning fyrir henni. Þá hafi kærendur ekki fengið að hafa nein samskipti við Landsbankann í þessu svokallaða samningaferli. Greiðsluaðlögun sé samningsúrræði og verði að teljast einkennilegt að annar samningsaðilinn geti hafnað samningum án þess að hitta eða ræða við hinn samningsaðilann. Sú leyndarhyggja sem viðhöfð hafi verið sé beinlínis brot á flestum reglum stjórnsýsluréttar, t.a.m. um upplýsingarétt, andmælarétt og jafnræðisreglu. Með vísan til 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 fara kærendur fram á að umboðsmaður skuldara afhendi kærendum afrit af öllum samskiptum stofnunarinnar sem og skipaðs umsjónarmanns við kröfuhafa vegna málsins. Kærendur vænti þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála hafi milligöngu um að afla þessara gagna.

Samkvæmt 13. gr. lge. sé gert ráð fyrir því að umsjónarmaður geti ákveðið að selja eignir skuldara. Tekið sé fram í 1. mgr. lagagreinarinnar að slík ákvörðun verði að vera tekinn af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu sem og fjölskylduaðstæðum. Einnig sé áskilið að skuldari geti verið án eignarinnar. Í greinargerð með lagafrumvarpi því sem varð að lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga sé það sérstaklega tekið fram að í þeim tilvikum sem um sé að ræða íbúðarhúsnæði skuldara sem sé veðsett fyrir fullu verði, eða jafnvel hærri fjárhæð, hafi lánardrottnar almennt engan hag af því að húsnæðið sé selt og því skuli almennt ekki gera ráð fyrir sölu þeirrar eignar. Í greinargerðinni sé jafnframt tekið fram að umsjónarmaður skuli líta til aðstæðna á húsnæðismarkaði hverju sinni við mat sitt á því hvort fara eigi fram á sölu fasteignar. Séu aðstæður á húsnæðismarkaði slíkar að ætla megi að sala íbúðar muni dragast á langinn eða það sé með öllu óvíst hvaða söluverð fáist skuli umsjónarmaður síður kveða á um sölu fasteignar. Almennt skuli umsjónarmaður einnig síður kveða á um sölu íbúðar ef hann telji stærð og staðsetningu hennar hæfa skuldara og fjölskyldu hans. Einnig skuli líta til áhrifa þess á skuldara og fjölskyldu hans að þurfa að flytja á milli staða, með tilliti til starfsstöðva þeirra, skólagöngu og félagslegra aðstæðna.

Í tilfelli kærenda sé um að ræða sex manna fjölskyldu, þar af fjögur börn sem öll séu í skóla í hverfinu. Jafnframt sé ljóst að verði fasteignin seld þurfi fjölskyldan að leigja fasteign á leigumarkaði en það yrði örugglega ekki ódýrara en að greiða afborganir af áhvílandi lánum á fasteign þeirra. Þá sé leigumarkaðurinn mjög ótryggur og myndi leigufyrirkomulag ótvírætt koma niður á félagslegu öryggi og almennum stöðugleika sem sé hverri fjölskyldu nauðsynlegur. Auk þess liggi fyrir að fasteignasala sé mun minni en hún var fyrir hrun og því alls óvíst hvort það takist að selja fasteign kærenda.

Kærendur telja að tekjur þeirra muni fara hækkandi. Tekjur kæranda Laufeyjar muni samkvæmt kjarasamningum hækka úr 355.724 krónum í 369.846 krónur 1. mars 2013 og svo aftur 1. september 2013 í 382.971 krónu. Þá hyggist kærandi Laufey bæta við sig vinnu vegna fjárhagsstöðu fjölskyldunnar. Hún geti bætt við sig tveimur vinnudögum í mánuði en það muni hækka tekjur hennar um 50.300 krónur. Þá liggi fyrir yfirlýsing frá vinnuveitanda kæranda Smára um að tekjur hans muni hækka um 50.000 til 100.000 krónur á mánuði frá 1. desember 2012.

Að mati kærenda túlki umboðsmaður skuldara 13. gr. lge. mjög frjálslega. Það sé ljóst, bæði af tilgangi lge. og af tilgangi og skýringu með 13. gr. laganna sérstaklega, að markmið laganna sé einmitt að skuldari haldi fasteign sinni, enda geti hann greitt af henni. Meira að segja sé gengið svo langt í lögunum að kveðið sé á um að greiðslugeta skuldara megi vera allt að 60% af reiknuðu leiguverði í einhvern tíma áður en greitt sé fullt leiguverð fyrir fasteignina.

Ekki verði séð að umboðsmaður skuldara hafi gætt hagsmuna kærenda í samræmi við ákvæði lge. Þvert á móti hafi umboðsmaður skuldara gefist upp á því að reyna að ná samkomulagi við Landsbankann.

Varðandi tekjur kærenda telja kærendur að þau hafi lagt fram gögn sem sýni fram á að tekjur þeirra hækki. Um sé að ræða beinar launahækkanir og hækkanir vegna kjarasamninga. Þar sem umboðsmaður skuldara horfi almennt ekki til hækkunar á vísitölu neysluverðs við gerð greiðsluaðlögunarsamninga, sé það algerlega fráleitt að embættið geri það einungis í þessu eina máli og án þess að vísa til þess með nokkrum hætti hver þessi væntanlega hækkun gæti orðið. Umboðsmaður skuldara hafi ekki með nokkrum hætti sýnt fram á að auknar tekjur kærenda muni ekki duga. Embættið sýni ekki fram á hversu mikið muni vanta, en haldi því hins vegar fram að tekjurnar muni ekki duga. Slíkur málflutningur sé ekki marktækur.

Með vísan til framangreinds, sérstaklega til þess að kærendur hafi nú sýnt fram á að mánaðarlegar ráðstöfunartekjur þeirra hækki verulega og að þau geti því greitt viðmiðunarleiguverð fyrir fasteign sína, svo og með vísan til greinargerðar og lögskýringargagna með lge. sé farið fram á að umboðsmaður skuldara afturkalli ákvörðun sína um að fella niður heimild til greiðsluaðlögunar og geri greiðsluaðlögunarsamning milli kærenda og kröfuhafa.

Telja kærendur að embætti umboðsmanns skuldara virði hvorki lög um umboðsmann skuldara, lög um greiðsluaðlögun einstaklinga né stjórnsýslulög eins og sýnt hafi verið fram á. Umboðsmaður skuldara neiti í reynd að afhenda kærendum gögn í málinu, beri upp á þau ósannindi og véfengi útreikninga kærenda án þess þó að sýna fram á af hverju þeir standist ekki.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana kærenda kemur fram að umsjónarmaður hafi lagt til að fasteign kærenda að Austurkór 103 í Kópavogi yrði seld í samræmi við ákvæði 1. mgr. 13. gr. lge. Að sögn umsjónarmanns hafi kærendur ekki fallist á tillögu um sölu fasteignarinnar og afstaða þeirra komið í veg fyrir að frumvarp að samningi til greiðsluaðlögunar fengi samþykki kröfuhafa.

Umsjónarmaður hafi fyrst sent frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun til kröfuhafa 9. desember 2011. Mótmæli hafi borist frá Landsbankanum. Bankinn hafi ekki viljað fallast á eftirgjöf krafna samhliða því að kærendur héldu eftir fasteign sinni þar sem mánaðarlegar greiðslur af veðkröfum fasteignarinnar myndu ekki greiðast að fullu á meðan greiðsluaðlögunartími stæði yfir og eftir að honum lyki. Landsbankinn hafi talið að kærendur þyrftu að auka greiðslugetu sína um 243.000 krónur miðað við að verðmat fasteignarinnar héldist óbreytt.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. geti umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þá segi í 5. mgr. 13. gr. lge. að ef kærandi framfylgi ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Í athugasemdum við 13. gr. frumvarpsins er síðar varð að lge. segi að við mat á því hvort mælt skuli með sölu fasteignar umsækjanda samkvæmt 1. mgr. 13. gr. skuli meðal annars horft til þess hvort íbúðarhúsnæði umsækjanda sé bersýnilega verulega umfram þá stærð sem umsækjandi og fjölskyldu hans hæfi, auk þess sem miklar líkur þurfi að vera á því að hann geti greitt afborganir af áhvílandi veðlánum eftir að greiðsluaðlögun ljúki. Þá segi í niðurlagi 1. mgr. 13. gr. lge. að umsjónarmanni sé heimilt að leita afstöðu lánardrottna áður en mælt sé með sölu fasteignar, þyki honum ástæða til.

Í a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. segi að ef skuldari haldi eftir eignum með áhvílandi veðkröfum á hendur honum skuli hann greiða fastar mánaðargreiðslur af þeim veðkröfum, sem séu innan matsverðs eignar, á tímabili greiðsluaðlögunar eftir ákvæðum 2. mgr. 7. gr. laga um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði nr. 50/2009. Enn fremur segi að fastar mánaðargreiðslur megi ekki nema lægri fjárhæð en þeirri sem ætla megi að samkvæmt mati umsjónarmanns svari til hæfilegrar leigu á almennum markaði fyrir eignina sem greiðsluaðlögun varði nema sérstakar og tímabundnar aðstæður séu fyrir hendi. Umsjónarmanni sé því heimilt við slíkar aðstæður að ákveða tímabundið lægri mánaðargreiðslu, en þó aldrei lægri en 60% af hæfilegu leiguverði fyrir sambærilega fasteign. Ljóst sé þó að slík ráðstöfun yrði aðeins til örfárra mánaða, með fyrirvara um fyrirsjáanlega hækkun á tekjum kærenda.

Í fyrirliggjandi drögum að frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun komi fram að kærandi Laufey sé þroskaþjálfi að mennt og starfi sem slíkur í 75% starfi á leikskóla. Kærandi Smári sé viðskiptafræðingur að mennt og starfi sem vöruhúsastjóri í fullu starfi. Kærendur eigi fjögur börn fædd á árunum 2000 til 2010.

Nokkur óvissa ríki um fjárhag kærenda. Telja megi að greiðslugeta þeirra sé um 174.512 krónur á mánuði sé miðað við tvo fullorðna og fjögur börn. Mánaðarleg greiðslubyrði vegna þeirra veðlána sem á fasteign þeirra hvíli nemi um 243.000 krónum á mánuði. Þar af sé áætluð greiðslubyrði af lánum Landsbanka 122.000 krónur sé miðað við lán til 20 ára og greiðslubyrði vegna lána Íbúðalánasjóðs sé 121.000 krónur. Ótalin sé greiðslubyrði af lögveðskröfu Kópavogsbæjar vegna gatnagerðargjalda að fjárhæð 988.695 krónur. Ljóst sé að kærendur þyrftu að auka greiðslugetu sína verulega til að geta staðið straum af fullum afborgunum veðlána um fyrirsjáanlega framtíð svo og eftir greiðsluaðlögunartímabil. Enn fremur liggi fyrir að Landsbankinn hafi gert ítrekaðar athugasemdir við útsend frumvörp þar sem lagst hafi verið gegn því að kærendur haldi fasteign sinni í ljósi takmarkaðrar greiðslugetu. Að mati umsjónarmanns hafi því ekki verið unnt að gera ráð fyrir því í frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun að kærendur héldu fasteign sinni og hafi hann lagt til að eignin yrði seld samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge.

Fyrir liggi að flatarmál fasteignarinnar að Austurkór 103 sé um 211 fermetrar auk 35 fermetra bílskúrs. Áætlað markaðsvirði eignarinnar sé um 40.300.000 krónur samkvæmt því sem fram komi í frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun 3. apríl 2012. Að mati embættis umboðsmanns skuldara sé ekki unnt að slá því föstu að húsnæðið sé verulega umfram þá stærð sem hæfi þörfum kærenda. Fallist sé á með kærendum að hætt sé við að fjölskylduaðstæðum kunni að vera raskað með sölu fasteignarinnar. Ljóst þyki þó af gögnum málsins og þeim upplýsingum sem liggi fyrir um tekjur kærenda að núverandi tekjur þeirra nægi ekki til að standa undir mánaðarlegum greiðslum fasteignaveðlána sem á húsnæði þeirra hvíli samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/2009, sbr. a-lið 1. mgr. 21. gr. lge.

Kærendur hafi ekki sýnt fram á að fyrirsjáanlegar breytingar verði á reglulegum tekjum sínum. Þrátt fyrir það hafi þau eindregið lagst gegn ákvörðun umsjónarmanns um að fasteign þeirra verði seld samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að í málinu liggi fyrir mat umsjónarmanns með greiðsluaðlögunarumleitun um að samningur komist ekki á nema kærendur fallist á sölu fasteignar þeirra. Ekkert hafi bent til þess að fjárhagur kærenda og hugsanlegar breytingar á honum réttlæti að komið yrði á greiðsluaðlögunarsamningi gegn mótmælum kröfuhafa. Engin lagaheimild standi til þess. Þannig muni kærendur ekki geta staðið undir afborgunum af lánum með veði í eign þeirra eða ætluðum leigugreiðslum. Þá verði ekki séð að tímabundnar og sérstakar aðstæður séu fyrir hendi sem réttlæti lækkaða leigugreiðslu, sbr. a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. Því verði að fallast á mat umsjónarmanns um að ekki verði hjá því komist að mæla fyrir um sölu eignarinnar, svo greiða megi fyrir því að samningur um greiðsluaðlögun komist á.

Umboðsmaður skuldara hafni því að kærendur hafi ekki verið upplýst um stöðu málsins, rökstuðning Landsbankans hf. og afleiðingar þess ef þau féllust ekki á sölu eignarinnar. Af gögnum málsins verði ráðið að kærendur hafi fengið afrit af mótmælum Landsbankans hf. við frumvarpi að samningi um greiðsluaðlögun.

Tilteknar skyldur hvíli á umsjónarmönnum með greiðsluaðlögunarumleitunum. Þeir starfi með hagsmuni skuldara að leiðarljósi og í máli kærenda verði ekki séð að umsjónarmaður hafi vanrækt skyldur sínar. Á móti komi að greiðsluaðlögun sé fyrst og fremst íþyngjandi fyrir kröfuhafa og ekki verði gengið lengra í þeim efnum en lög mæli fyrir um. Gegn andmælum þeirra verði réttindi kröfuhafa ekki skert í meira mæli en heimilt sé samkvæmt lögum. Þannig verði ekki séð að frekari aðkoma kærenda að greiðsluaðlögunarumleitunum hefði getað leitt til annarrar niðurstöðu.

Í kæru komi fram að forðast beri sölu á eignum í tilteknum tilvikum. Þessi sjónarmið haggi ekki við skýrum lagaákvæðum um hvernig skuli farið með lán tryggð með veði í íbúðarhúsnæði í greiðsluaðlögunarumleitunum. Ekki verði annað séð en að umboðsmaður skuldara og umsjónarmaður hafi fylgt hinum lögboðna farvegi fyrir mál af þessu tagi.

Einnig komi fram í kæru að tekjur kærenda muni hækka. Að mati kærenda hafi þau því uppfyllt skilyrði a-liðar 1. mgr. 21. gr. lge. um lækkaðar afborganir af íbúðarlánum, þ.e. að sérstakar og tímabundnar aðstæður séu fyrir hendi. Ekki verði séð að þau atriði sem kærendur nefni leiði til þeirrar ályktunar að um sé að ræða sérstakar og tímabundnar aðstæður vegna þess að kærendur hafi ekki verið tekjuhærri en raun beri vitni. Almennar launahækkanir hafi ekki þýðingu við mat á þeim aðstæðum sem vísað sé til í lagagreininni. Þá verði ekki séð að sú hækkun á tekjum sem um ræði leiði til þess að kærendur geti staðið undir afborgunum í samræmi við a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. Þannig megi gera ráð fyrir að framfærsluviðmið hækki í samræmi við vísitölu neysluverðs, sem þá leiði til lækkunar á greiðslugetu kærenda.

Að þessu sögðu sé rétt að skoða málsatvik í samhengi við tilgang greiðsluaðlögunar samkvæmt 1. mgr. 1. gr. lge., þ.e. að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð. Ekki fáist varanleg lausn á greiðsluerfiðleikum kærenda með þeim hætti sem gert sé ráð fyrir í lögunum nema eign þeirra verði seld. Þetta eigi við jafnvel þótt heimilt væri að þvinga Landsbankann hf. til að þola verulega lækkaðar greiðslur á greiðsluaðlögunartímabilinu, enda myndu kærendur ekki geta staðið undir afborgunum af fasteignaveðlánum eftir að tímabili greiðsluaðlögunar væri lokið. Þannig myndu kærendur lenda í greiðsluerfiðleikum að nýju að greiðsluaðlögunartímabili loknu. Því yrði að álykta á þann veg að sú endurskipulagning sem greiðsluaðlögun sé ætlað að koma á hefði ekki orðið að veruleika enda eigi greiðsluaðlögun að leiða til varanlegrar úrlausnar, ekki tímabundinnar frestunar á greiðsluerfiðleikum. Þetta verði að hafa í huga við úrlausn á því hvernig lögunum verði beitt.

Með vísan til forsendna hinnar kærði ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Kærendur krefjast þess að umboðsmaður skuldara afturkalli ákvörðun um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir og að embættið útbúi samning til greiðsluaðlögunar milli kærenda og kröfuhafa. Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Með tilliti til þessa verður að skilja kröfugerð kærenda fyrir kærunefndinni þannig að farið sé fram á að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og þar með beri umboðsmanni skuldara að taka málið til meðferðar að nýju.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til 5. mgr. 13. gr. lge.

Í 15. gr. lge. segir að ef fram koma upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skal gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem hann telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í 5. mgr. 13. gr. lge. kemur fram að framfylgi skuldari ekki ákvörðunum umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins eða komi hann með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Í athugasemdum með frumvarpi til lge. kemur fram að markmið aðgerða þeirra sem gripið hafi verið til vegna skuldavanda fólks hafi verið að forða því frá því að missa heimili sín og gera því kleift að standa undir greiðslubyrði lána. Að jafnaði skuli gefa skuldara kost á að búa áfram í húsnæði sínu ef það telst ekki bersýnilega ósanngjarnt, svo sem vegna stærðar þess eða verðmætis. Umsjónarmaður geti þó ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Skal umsjónarmaður hafa hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum skuldara við mat á því hvort sanngjarnt sé að selja eign skuldara. Í ljósi nauðsynjar skuldara á að halda íbúðarhúsnæði er almennt miðað við að skuldari verði ekki krafinn um sölu þess nema í sérstökum tilvikum. Þó verði að gæta þess að skuldari geti til frambúðar staðið undir greiðslubyrði afborgana af húsnæði. Í athugasemdum með 13. gr. lge. segir að í ljósi þess að í greiðsluaðlögun felist að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils sé rétt að gera skuldara að leggja sitt af mörkum til að eins hátt hlutfall verði greitt af kröfum og sanngjarnt sé.

Í frumvarpi umsjónarmanns með greiðsluaðlögunarumleitunum kærenda frá 3. apríl 2012 kemur fram að umsjónarmaður telji að hagur kærenda muni ekki vænkast með sölu fasteignar þeirra þar sem þau hafi ekki fjárhagslega burði til að standa undir kostnaði við leiguhúsnæði fyrir sig og fjölskyldu sína. Í frumvarpinu er og tekið fram að kærendum sé nauðsynlegt að halda húsnæðinu vegna fjölskylduaðstæðna. Í bréfi umsjónarmanns 10. apríl 2012 til umboðsmanns skuldara kemur fram að ástæða þess að lagt sé til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda verði felldar niður sé að það sé ófrávíkjanlegt skilyrði Landsbankans að kveðið væri á um sölu fasteignar en kærendur væru því mótfallnir. Í niðurlagi bréfsins leggur umsjónarmaður til, með vísan til 5. mgr. 13. gr. og 15. gr. lge., að greiðsluaðlögunarumleitunum verði hætt, a.m.k. að svo stöddu og rætt verði frekar við kærendur um mögulegar lausnir.

Samkvæmt framangreindu verður ekki séð að umsjónarmaður hafi ákveðið að selja ætti fasteign kærenda samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. heldur hafi samningur um greiðsluaðlögun ekki tekist, sbr. IV. kafla lge. vegna afstöðu Landsbankans hf. eins og fram kemur í bréfi umsjónarmanns til embættis umboðsmanns skuldara. Eru því ekki lagaskilyrði til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda verði felldar niður á þeirri forsendu að kærendur hafi ekki framfylgt ákvörðun umsjónarmanns um sölu fasteignar þeirra, eins og gert var með hinni kærðu ákvörðun.

Takist samningar ekki eftir ákvæðum IV. kafla lge. ber umsjónarmanni að kanna hvort skuldarar vilji leita nauðasamnings og eftir atvikum greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði samkvæmt 18. gr. lge. Nánari fyrirmæli eru í lagagreininni um málsmeðferð sem ber að hafa við þegar aðstæður eru með þeim hætti sem lýst er í lagagreininni. Mál kærenda hefur ekki hlotið þá meðferð sem mælt er fyrir um í umræddri lagagrein.

Þar sem hina kærðu ákvörðun skortir samkvæmt framangreindu viðhlítandi lagastoð og þar sem málið hefur ekki hlotið þá meðferð sem mælt er fyrir um í 18. gr. lge. ber að fella ákvörðunina úr gildi en af því leiðir að umsjónarmanni ber að taka málið til meðferðar að nýju.

Kröfu um greiðslu málskostnaðar verður að mati kærunefndarinnar að skilja svo að verið sé að fara fram á greiðslu þóknunar til lögfræðings kærenda sem hefur komið fram fyrir þau gagnvart kærunefndinni.

Í 30. gr. lge. kemur fram hvernig háttað skuli greiðslu kostnaðar við málsmeðferð samkvæmt lögunum. Segir þar að umboðsmaður skuldara beri kostnað við meðferð umsóknar um greiðsluaðlögun og störf umsjónarmanna. Lánardrottnar beri þann kostnað sem á þá falli af meðferð umsóknar um greiðsluaðlögun og framkvæmd hennar. Kostnaður af sölu eignar greiðist af söluandvirði hennar. Í lge. er ekki að finna ákvæði er lúta að kostnaði við málsmeðferð fyrir kærunefnd greiðslu­aðlögunarmála. Þannig greina lge. ekki frá því hver beri sérfræðikostnað kæranda, kjósi hann að leita sér aðstoðar utanaðkomandi aðila við málarekstur sinn fyrir kærunefndinni. Þá eru engin ákvæði í lge. er heimila kærunefndinni að ákvarða kæranda kostnað úr hendi þriðja aðila vegna málsmeðferðar fyrir nefndinni. Samkvæmt þessu standa lög ekki til annars en að kærendur verði sjálfir að bera þann kostnað sem þeir kunna að hafa stofnað til við málsmeðferð fyrir kærunefndinni. Kröfu kærenda um greiðslu málskostnaðar er því hafnað.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er felld úr gildi.

Kröfu um málskostnað er hafnað.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta